11.02.2023 16:09

255. Sjöstjarnan KE 8 sekkur.

Í dag er hálf öld liðin síðan vélskipið Sjöstjarnan KE 8 frá Keflavík fórst í hafi er hún var á leið til Íslands frá Færeyjum. Í áhöfn skipsins voru tíu manns, þar af ein kona. Skipstjóri Sjöstjörnunnar, Engilbert Kolbeinsson sendi út neyðarkall um kl. 3 síðdegis sunnudaginn 11 febrúar árið 1973 sem sagði að mikill leki væri komin að skipinu og væri það að sökkva. Áhöfnin væri farin í tvo gúmmíbjörgunarbáta og væri hann síðastur að yfirgefa skipið og skjótrar hjálpar væri þörf. Loftskeytamaðurinn á varðskipinu Ægi heyrði neyðarkallið og svo einnig Brúarfoss, skip Eimskipafélags Íslands, sem hélt þegar á slysstað ásamt Írafossi. Ægir var þá á gosvakt við Vestmannaeyjar. Þeir gátu miðað út neyðarskeytið sem reyndist vera 120° réttvísandi frá þeim stað sem þeir voru á við Eyjar. Sjöstjarnan var þá stödd um 100 sjómílur ASA af Dyrhólaey og veðrið var mjög slæmt, suðvestan 11 vindstig og haugasjór. Ægir setti þegar á fulla ferð á slysstað og var kominn á þann stað sem Sjöstjarnan hafði gefið upp kl. 20.30 um kvöldið. Þar var þá suðvestan 11 til 12 vindstig og svo mikið særok að sá vart út úr augum. Leitin af gúmmíbjörgunarbátunum tveimur varð ein sú umfangsmesta sem gerð hefur verið á sjó við Ísland. Stóð hún yfir í tíu daga, en þá fannst annar gúmmíbáturinn og við hann var bundið lík stýrimanns Sjöstjörnunnar. Báturinn fannst um 87 sjómílur suður af Stokksnesi. Mest allan tímann sem leitin stóð yfir var oftast fárviðri á leitarsvæðinu og því erfitt um vik að finna eitthvað í þessum veðraham og litlu sem engu skyggni. Það voru 105 skip sem tóku þátt í leitinni um lengri eða skemmri tíma og fjöldi flugvéla. Enginn veit hvað þau þurftu að þola uns yfir lauk. Blessuð sé minning þeirra allra.
Einn af áhöfn Sjöstjörnunnar var föðurbróðir minn, Alexander Vinter Gjöveraa skipasmiður. Hann var að snúa heim til Íslands eftir rúmlega tveggja ára dvöl í Færeyjum. Hann vann í slippnum í Þórshöfn við iðn sína. Ekki man ég mikið eftir honum frænda mínum, var þá á 8 ári. En það litla sem ég man, geymi ég vel. Þau sem fórust með Sjöstjörnunni KE 8 voru:,
Engilbert Kolbeinsson, skipstjóri, Holtsgötu 35, Ytri Njarðvík, 34 ára að aldri og eiginkona hans, Gréta Þórarinsdóttir 27 ára; þau láta eftir sig eitt barn ársgamalt en Engilbert átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi;
Þór Kjartansson, stýrimaður, Álfaskeiði 76, Hafnarfirði, 26 ára, lætur eftir sig eiginkonu og fimm ára barn og 8 ára barn, er hann átti áður;
Guðmundur J. Magnússon, 1. vélstjóri, Álftamýri 52, Reykjavík, 41 árs, lætur eftir sig eiginkonu og sjö börn á aldrinum 7 til 18 ára;
Alexander Gjöveraa, háseti, Neskaupstað, 38 ára og lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn á aldrinum 4—8 ára. Alexander var að snúa heim til Íslands eftir 2 ára dvöl í Færeyjum;
John Frits á Lögmansbö, 2. vélstjóri, Miðvogi í Færeyjum, 47 ára og lætur eftir sig eiginkonu og fimm börn á aldrinum 12—22 ára;
Arnfinn Joensen, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 17 ára og ókvæntur og barnlaus,
Niels Juul Haraldsen, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 46 ára og lætur eftir sig eiginkonu og tvö  börn á aldrinum 12—18 ára,
Hans Marius Næss, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 16 ára, ókvæntur og barnlaus;
Holberg Berhardson, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 28 ára, ókvæntur og barnlaus.
Við þetta hörmulega slys hafa fimm konur misst eiginmenn sína, 21 barn orðið föðurlaust og eitt barn munaðarlaust.
Vélskipið Sjöstjarnan KE 8 var smíðuð í Frederikssund í Danmörku árið 1964. Eik. 115 brl. 420 ha. Alpha vél. Hét fyrst Otur SH 70 og var í eigu samnefnds hlutafélags í Stykkishólmi frá apríl 1964 þar til það var selt Sjöstjörnunni h.f í Keflavík í júní árið 1970. Eldur kom upp í skipinu um miðjan desember 1972 og var ákveðið að sigla því til Þórshafnar í Færeyjum og láta gera við skemmdirnar þar. Sjöstjarnan var á heimleið eftir viðgerðina þegar hún sökk.

Fréttin hér fyrst að neðan úr Vísi frá 12 febrúar 1973, segir að 11 skipverjar hafi verið í áhöfn Sjöstjörnunnar. Þau voru sannarlega tíu í áhöfninni. Ég held að misskilningurinn hafi verið að föðurbróðir minn, Alexander Gjöveraa hafi verið sagður Færeyingur og Íslendingarnir fimm.
 

255. Sjöstjarnan KE 8 frá Keflavík.                                  Ljósmyndari óþekktur.
 
Sjöstjarnan KE 8 við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum stuttu fyrir hina örlagaríku ferð heim til Íslands.  (C) www.vagaskip.fo
 
Annar björgunarbáturinn af Sjöstjörnunni á verkstæði Gúmmíbátaþjónustunnar við Grandagarð.  (C) www.vagaskip.fo


      Ellefu skipbrotsmanna leitað suður af Íslandi
             Sjöstjarnan frá Keflavík fórst í gær,


11 manns komust í gúmmbáta sem nú er leitað af fjölda skipa og flugvéla 

Um 30 skip leituðu í morgun að 11 mönnum af Sjöstjörnunni frá Keflavík, sem eru væntanlega í gúmmbjörgunarbátum, líklega nær 100 mílur út af Dyrhólaey. Sjöstjarnan er talin hafa sokkið um fjögurleytið í gærdag. Klukkan 14.40 barst neyðarkall frá skipinu, og var leki kominn að því og lúkar hálffylltur sjó. Veður var hið versta, 8-10 vindstig og þungur sjór. Skipið hafði gefið staðarákvörðun klukkan 12:40, og var þá ekki annað vitað en allt væri í góðu lagi. Skip á þessum slóðum voru þegar beðin að veita aðstoð, og voru þar meðal annars Dettifoss, Írafoss og Bjarni Sæmundsson. Um fjögureytið heyrðist kall frá gúmmbátnum, sem fólkið var komið í. Á skipinu voru 5 Íslendingar og 5 eða 6 Færeyingar. Taldi útgerðin að Færeyingarnir væru 6, en heimildarmenn í Færeyjum töldu þá vera 5. Meðal Íslendinganna er kona skipstjórans og einn farþegi, sem mun hafa komið um borð í Færeyjum. Stöðug leit hefur staðið yfir í gærdag, nótt og í morgun. Voru menn vongóðir um, að tækist að bjarga fólkinu. Gúmmbátarnir eru vel gerðir til allra veðra og mikill fjöldi skipa, auk flugvéla, við leitina. Veður var að heita má ófært til flugs í gær, en þó fór flugvél frá varnarliðinu til leitar. Flugvél Landhelgisgæslunnar fór í morgun, auk véla varnarliðsins. Loðnuflotinn, sem var í landvari, sigldi út til leitar í gær. Þá voru fimm brezkir togarar og tvö eftirlitsskip Breta við leit.
Sjöstjarnan er gerð út af Sjöstjörnunni h.f. í Keflavik. Þetta er um 100 rúmlesta bátur. Veður var enn hið versta á þessum slóðum í morgun. Ekkert hefur heyrzt frá gúmmbátunum frá því siðdegis í gær.

Vísir. 12 febrúar 1973.
 

Áhafnarinnar af Sjöstjörnunni minnst í Morgunblaðinu 23 febrúar 1973.
 
Færeysku sjómennirnir sem fórust með Sjöstjörnunni. (C) Morgunblaðið.


               10 fórust með Sjöstjörnunni

Leit að áhöfn v.b. Sjöstjörnunnar KE-8 hefur nú verið hætt og bar ekki árangur. Með bátnum fórust 10 manns, fimm Íslendingar og fimm Færeyingar. Sex af áhöfninni voru fjölskyldufeður en einnig var eiginkona skipstjórans skráð á skipið sem matsveinn. Við þetta hörmulega slys hafa fimm konur misst eiginmenn sína, 21 barn orðið föðurlaust og eitt barn munaðarlaust. Með Sjöstjörnunni fórust: Engilbert Kolbeinsson, skipstjóri, Holtsgötu 35, YtriNjarðvík, 34 ára að aldri og eiginkona hans, Gréta Þórarinsdóttir 27 ára; þau láta eftir sig eitt barn ársgamalt en Engilbert átti þrjú börn frá fyrra hjónabandi;
Þór Kjartansson, stýrimaður, Álfaskeiði 76, Hafnarfirði, 26 ára, lætur eftir sig eiginkonu og fimm ára barn og 8 ára barn, er hann átti áður;
Guðmundur J. Magnússon, 1. vélstjóri, Álftamýri 52, Reykjavík, 41 árs, lætur eftir sig eiginkonu og sjö börn á aldrinum 7 til 18 ára;
Alexander Gjöveraa, háseti, Neskaupstað, 38 ára og lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn á aldrinum 4—8 ára. Alexander var að snúa heim til Íslands eftir 2ja ára dvöl í Færeyjum;
John Frits á Lögmansbö, 2. vélstjóri, Miðvogi í Færeyjum, 47 ára og lætur eftir sig eiginkonu og fimm börn á aldrinum 12—22 ára;
Arnfinn Joensen, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 17 ára og ókvæntur og barnlaus,
Niels Juul Haraldsen, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 46 ára og lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn á aldrinum 12—18 ára,
Hans Marius Næss, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 16 ára, ókvæntur og barnlaus;
Holberg Berhardson, háseti, Miðvogi í Færeyjum, 28 ára, ókvæntur og barnlaus.
Leiitin að gúmbjörgunarbátunum tveimur af Sjöstjörnunni er ein hin víðtækasta í sögu Slysavarnafélags Íslands, en jafnframt ein hin erfiðasta vegna óhagstæðs veðurs. Sjöstjarnan var að koma úr viðgerð í Færeyjum og þar réðu Færeyingarnir fimm sig á skipið. Sunnudaginn 11. febrúar lenti skipið í illviðri og leki kom að því, er það var statt um 100 mílur austsuðaustur af Dyrhólaey. Skömmu fyrir klukkan fjögur þann dag tilkynnti skipstjórinn að áhöfnin væri að fara í tvo gúmbáta, er bundir yrðu saman. Skömmn síðar er talið að Sjöstjarnan hafi sokkið, en neyðarskeytð heyrðist frá neyðartalstöð gúmbátanna litlu síðar. Skilyrði voru hins vegar svo slæm að nálægum skipum tókst ekki að miða kallið út. Var þetta hið síðasta sem heyrðist til áhafnarinnar á Sjöstjörnunni. Þegar í stað var hafin skipulögð leit, og þegar fóru yfir 30 skip til leitar, íslenzk, færeysk, brezk og þýzk, auk þess sem leitað var úr lofti. Sem fyrr segir voru skilyrði til leitar mjög óhagstæð mest allan tímann vegna illviðris, og það var ekki fyrr em mánudaginn 19. febrúar eða rúmri viku síðar, að flugvél Landhelgisgæzlunnar fann annan gúmbjörgunarbátinn úr lofti um 87 sjómílur suður af Stokksnesi. Fór varðskip þegar á vettvang og tók bátinn upp. Reyndist eitt lík vera í bátnum, af Þór Kjartanssyni, stýrimanni. Kom togarinn Þorkell máni með lík Þórs og gúmbátinn til Reykjavíkur í gær. Leit var haldið áfram næstu daga í von um að takast mundi að finna hinn bátinn, en svo reyndist ekki og var leit því hætt í gær.

Morgunblaðið. 23 febrúar 1973.

Flettingar í dag: 871
Gestir í dag: 63
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742630
Samtals gestir: 55969
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 06:20:12