10.04.2023 09:00

B.v. Great Admiral RE 152. LVDJ.

Botnvörpungurinn Great Admiral RE 152 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley í Englandi árið 1908. Hét fyrst Great Admiral GY 361 og var smíðaður fyrir Edward Cyril Grant & Joseph William Little í Grimsby. 286 brl. 119 nettó. 500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Charles D. Holmes & Co í Hull. 135 x 23 x 12 ft. (ensk). Smíðanúmer 160. Seldur 1912, Þórarni Olgeirssyni skipstjóra í Reykjavík, hét þá Great Admiral RE 152. Seldur 28 október 1915, Edward Cyril Grant Fish Dock´s í Grimsby, hét þá Great Admiral GY 733. Seldur 30 október 1915, A. & M. Smith Ltd í Leith í Skotlandi. Var í þjónustu breska sjóhersins í fyrri heimstyrjöldinni og einnig í þeirri síðari. Togarinn var svo síðar í eigu margra aðila, m.a. Direct Fish Supplies Ltd í London frá 27 janúar 1920. Frá 6 september 1922 í eigu Thomas W. Baskcomb í Grimsby. Frá 25 nóvember 1935 í eigu Boston Deep Sea Fishing Co Ltd í Fleetwood. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins í maí 1940 sem hjálparskip (Auxiliary vessel), Admiralty no: 4.146. Seldur 17 október 1942, Northern Trawlers Ltd í Grimsby. Togaranum var skilað til eigenda sinna í júnímánuði árið 1945. Bar alla tíð sama nafnið. Seldur í brotajárn til British Iron & Steel Co (BISCO) í júní árið 1947. Var að lokum rifinn hjá West of Scotland Shipbrokers Co Ltd í Troon, South Ayrshire í Skotlandi í september það ár.
Great Admiral var systurskip Draupnis VE 230 / RE 258.

Þórarinn Olgeirsson skipstjóri var skráður eigandi Great Admiral RE 152  hér á landi. Í æviminningum sínum segir Þórarinn hins vegar, að togarinn hafi verið eign Joe Little skipstjóra og Cyril Grant útgerðarmanns í Grimsby. Það virðist aðeins hafa verið skráð sem íslenskt skip á þeim árum sem Þórarinn var skipstjóri á því, en það var frá því í árslok 1912 og fram til ársbyrjunar 1915, er togarinn var tekinn í þjónustu breska sjóhersins. Skipshöfnin var að mestu bresk, en afgreiðslu þess hér á landi hafði Jes Zimsen (hf. Ísland) með höndum.

Heimild að hluta:
Íslensk togaraútgerð fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
 

B.v. Great Admiral RE 152. Á myndinni undir sinni síðustu skráningu, GY 733. Ljósmyndari óþekktur.
 
Great Admiral GY 733 í höfn í Grimsby.           (C) Mark Stopper.

 

                        Góð veiði vestur á Sviði
 

Great Admiral kom í fyrrakvöld að vestan, en var að veiðum hér í flóanum í fyrrinótt. Hann veiddi 3000 í þrem dráttum vestur á Sviði. Allt vænn þorskur. Þeir halda nú til Englands í dag.

Morgunblaðið. 20 júní 1914.
 

Great Admiral GY 733. Verið er að koma kolum um borð.  Ljósmyndari óþekktur.
 
Great Admiral GY 361 í þjónustu breska sjóhersins í fyrra stríði. Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Draupnir RE 258 var eitt af systurskipum Great Admiral RE 152.  (C) Sígarettumynd.

                    Hálfa öld á hafinu.
 

Hér fyrir neðar fer brot úr greininni, Hálfa öld á hafinu, sem Sveinn Sæmundsson skráði í viðtali við Guðna Pálsson skipstjóra, þar sem hann ræðir m.a. veru sína hjá Þórarni Olgeirssyni á togaranum Great Admiral RE 152;
„Um þetta leyti voru margir togarar komnir til landsins. Coot var sá fyrsti, þegar frá er talinn seglatogarinn hans Breiðfjörðs og Seagull Þorvalds á Þorvaldseyri, sem báðir gengu illa. Coot strandaði árið 1907 en sama ár kom Jón forseti, fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir íslendinga. Marz sem Hjalti Jónsson keypti nokkurra ára gamlan, en nýuppgerðan kom sama ár og svo hver af öðrum. Þó togaralífið væri ekki heiglum hent, þá sóttust menn mjög eftir að komast þangað um borð og það var slagur um plássin. Ég hafði mikinn hug á að komast á togara og tókst að fá pláss hjá toppmanni, Þórarni Olgeirssyni. Þetta var í vertíðarbyrjun 1912 og Þórarinn var með nýtt skip sem hét Great Admiral. Á þessum árum voru engin vökulög, hér á landi og vökurnar gengu alveg úr hófi. Brezku skipstjórarnir höfðu samt sínar reglur og þar um borð var ekki staðið við vinnu nema ákveðinn tíma í einu. íslenzku skipstjórarnir héldu áfram að veiða meðan ekki tók undan. Stundum voru skipin fyllt í einni törn. Þórarinn Olgeirsson fór bil beggja í þessum efnum. Við stóðum yfirleitt lengur en á brezku togurunum en oftast heldur skemur en á þeim íslenzku, enda voru margir af áhöfn Great Admiral breskir.
Ég var með Þórarni á Great Admiral næstu vertíðir. Árið 1915 vorum við sem oftar í söluferð til Englands. Heimstyrjöldin var fyrir nokkru skollin á. Við sigldum til Grimsby og lönduðum. Þó Great Admiral væri skráður hér, var hann þó eign manns í Grimsby, en Zimsen leppaði hann hér. Brezki flotinn var um þessar mundir í mikilli þörf fyrir skip til þess að slæða upp tundurdufl, sem Þjóðverjarnir voru búnir að leggja um allan sjó og á flestar siglingaleiðir við Bretland. Í Grimsby lagði flotinn hald á Great Admiral, og áhöfnin varð að sjá um sig sjálf upp frá því. Við íslendingarnir fórum yfir Humber, upp til Hull og komumst á danskt skip, vorum allir skráðir eitthvað, hásetar, léttmatrosar eða hvað það nú var. Þetta skip var Es. Esso, flutningaskip frá Sameinaða, af sömu stærð og gerð og Es. Ceres, sem sigldi hingað til lands. Við lögðum nú af stað til Kaupmannahafnar og ætluðum að ná í Gullfoss heim. Ferðin gekk seint og þegar við komum til Hafnar var Gullfoss farinn. Við biðum nokkra daga í Kaupmannahöfn en tókum okkur svo far með „íslandinu“ áleiðis til Reykjavíkur. Á leiðinni var komið við í Leith. Þá var hálfur mánuður liðinn frá því við fórum frá Hull. Svona gengu nú ferðalögin þá. Við komum svo til Reykjavíkur 1. október 1915.

Fálkinn. 11 tbl. 21 mars 1966.
Brot úr viðtali Sveins Sæmundssonar við Guðna Pálsson skipstjóra.

 

Flettingar í dag: 1875
Gestir í dag: 250
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740527
Samtals gestir: 55840
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:08:20