23.04.2023 08:40

B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 170. LCFJ.

Botnvörpungurinn Þorsteinn Ingólfsson RE 170 var smíðaður hjá Scheepswerf M. Van der Kuijl í Slikkerveer í Hollandi árið 1904 fyrir Van de Stoomvisserij Maatschappij Mercurius í IJmuiden í Hollandi. Hét fyrst Silvain IJM 102. 265 brl. 375 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Wilton´s Machinefabriek en Scheepwerf í Rotterdam. 41,18 x 7,05 x 4,29 m. Smíðanúmer 326. Seldur 12 janúar árið 1916, Fiskiveiðafélaginu Hauki í Reykjavík (P.J.Thorsteinsson framkvstj), hét þá Þorsteinn Ingólfsson RE 170. Einhverjar lagfæringar voru gerðar á honum í Kaupmannahöfn þá um haustið og kom hann heim rétt fyrir jól það ár. Togarinn var seldur í ágúst 1917, franska sjóhernum, hét þar Chimpanzee. Seldur 1919, Société Anonyme Chaloutiers de I´Ouest í Saint Nazaire í Frakklandi, hét þá Keryado L 1938. Seldur 1930, R. Benoist í Fécamp í Frakklandi. Seldur 1931, Société Vasse Compagnie í Fécamp, hét þá Keryado ll LR 2460. Hertekinn af þjóðverjum 28 ágúst 1942 og bar númerið V 423. Seldur 1945, Philippe Vasse et Compagnie í Fécamp, sama nafn. Var rifinn í Fécamp árið 1955 eða 1958.

Fiskiveiðafélagið Haukur var stofnað haustið 1912. Pétur J Thorsteinsson var framkvæmdastjóri þess félags. Hann var áður í samstarfi við bróður sinn, Th. Thorsteinsson (Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson) en gekk úr því félagi í desember árið 1913. Hann var þá þegar orðinn einn af eigendum í Hauksfélaginu. Þetta félag lét smíða í Englandi stærsta togara er Íslendingar eignuðust fyrir fyrra stríð, en það var Ingólfur Arnarson RE 153. Haukur var sameignarfélag er eftirtaldir menn áttu; Pétur Jens Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon kaupmaður í Reykjavík, Jón Magnússon fiskmatsmaður, Ingimundur Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Jónsson járnsmiður, Sveinn Björnsson málflutningsmaður, Pétur Bjarnason skipstjóri og Jón Einarsson úr Vestmannaeyjum. Átti hver þeirra 1/8 hlut í félaginu. Annan togara keyptu þeir frá Hollandi árið 1916, og hét sá Þorsteinn Ingólfsson RE 170. Báðir voru þeir seldir til Frakklands haustið 1917.

Heimildir; Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                  Birgir Þórisson.
 

B.v. Þorsteinn Ingólfsson RE 170 á Reykjavíkurhöfn. Gamalt póstkort í minni eigu.




                                      Nýir botnvörpungar

Tveir botnvörpungar eru nýlega komnir til Reykjavíkur frá Hollandi. Heitir annar „Þorsteinn Ingólfsson“ og er eign félagsins »Haukur«, en hinn heitir »Þór« og er eign Ásgeirs Péturssonar, Snorra  Jónssonar og þeirra félaga.

Norðurland. 22 apríl 1916.
 

Hollenski Togarinn Silvain IJM 102, seinna Þorsteinn Ingólfsson RE 170. Mynd úr safni mínu.

 

                 Förin að Þormóðsskeri
 

Þorsteinn Ingólfsson fór í gærmorgun rannsóknarför til Þormóðsskers, eins og getið var hér í blaðinu í gær. Reyndist þar alt með kyrrum kjörum og ekkert annað af merkjum en gamlar mælingavörður. Það er ilt að slíkur kvittur sem þessi skyldi gjósa upp, og ómaka skip og menn í för þessa, gæti svo farið, að enginn vildi sinna því að leita í skerinu, einmitt þegar þess væri þörf. Væri ekki ráðlegt að setja upp flaggstöng í skerinu og kassa með veifu, svo hægt væri að gefa glögg merki þaðan, ef einhverjir eru þar í nauðum staddir? Þar mætti og hafa eitthvað af matvælum í sama augnamiði.

Höfuðstaðurinn. 86 tbl. 22 desember 1916.

 

Flettingar í dag: 1928
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740580
Samtals gestir: 55851
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 16:54:30