26.04.2023 12:16

B.v. Rán RE 54. LCDR / TFRD.

Botnvörpungurinn Rán RE 54 var smíðaður hjá Schiffsbau Gesellschaft Unterweserwerft í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ægir (Magnús Th. S. Blöndahl framkvæmdastj) í Reykjavík. 262 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. 39,97 x 7,16 x 3,83 m. Smíðanúmer 109. Rán var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir Íslendinga. Togarinn stundaði veiðar við Nýfundnaland sumarið 1918 og seldi afla sinn þar í landi. Mun líklega vera fyrsti íslenski togarinn sem stundaði veiðar á fjarlægum miðum. Seldur árið 1919, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri, hét Rán EA 386. Seldur 23 janúar 1924, Fiskiveiðafélaginu Höfrungi í Hafnarfirði, hét þá Rán GK 507. Seldur 1935, Hlutafélaginu Rán í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 23 júní 1939, Hlutafélaginu Djupavík í Reykjarfirði á Ströndum, hét þá Rán ST 50. Seldur 27 febrúar 1946, Pf. Kongshafnar Trolarafelagi í Saltangará (Símun á Högabóli og J.E. Simonsen) í Færeyjum, hét þar Urd FD 435. Togarinn var seldur í brotajárn til British Iron & Steel Corporation Ltd. Í London og tekinn af færeyskri skipaskrá 9 febrúar árið 1952.
Aðrar heimildir segja að Urd hafi verið seldur í brotajárn til Belgíu árið 1951.

Fiskiveiðahlutafélagið Ægir var stofnað í Reykjavík 13 júní árið 1914. Í stjórn félagsins voru; Magnús Th. S. Blöndahl, Indriði Gottsveinsson, sem áður var skipstjóri á Coot og Páll Magnússon járnsmiður. Aðrir í félaginu voru Sigurjón Ólafsson skipstjóri, Sigurður Jónsson steinsmiður og Magnús Sveinsson skipstjóri. Alls munu hluthafar hafa verið 12. Í mars árið 1915 kom togari félagsins, Rán RE 54, til heimahafnar í Reykjavík. Markaði sú skipakoma tímamót að því leyti, að Rán var fyrsti togarinn sem smíðaður var í Þýskalandi fyrir íslendinga. Á þessu sama ári, 1915, komu til Íslands tveir aðrir togarar smíðaðir þar (Víðir GK 450 og Ýmir GK 448), og má það merkilegt kallast að þjóðverjar skyldu sleppa þessum skipum frá sér, þar sem styrjöldin var þá skollin á. Er það önnur afstaða en sú, sem Englendingar tóku í þeim málum.

Heimildir m.a. frá; Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                                 Glottar úr trolarasögunni. Óli Ólsen 2019.
                                 Birgir Þórisson.
 

B.v. Rán RE 54 á Reykjavíkurhöfn.                               Mynd á gömlu póstkorti.

 

        Botnvörpungurinn  „Rán“ kominn


Á laugardagskvöldið kom hinn nýi botnvörpungur Ægisfélagsins hingað beina leið frá Kaupmannahöfn. En þangað hafði skipið komið frá Geestemunde við Weserfljót í Þýzkalandi, þar sem það var smíðað, gegnum Kielar-skurðinn út í Kielar-fjörðinn, sem er önnur aðalherskipastöð Þjóðverja. Hlutafélagið »Ægir« er nýtt félag. Eru í því alls um 12 hluthafar. Framkvæmdarstjóri þess er Magnús Th. S. Blöndahl kaupmaður. Hefir hann dvalið í Þýzkalandi síðan í miðjum desembermánuði, til þess að vera sjálfur viðstaddur er skipið væri smíðað. Blöndahl kom á botnvörpungnum hingað og hittum vér hann skömmu síðar að máli og báðum hann segja frá förinni heim. „Það gekk ekki greitt að losna frá Þýzkalandi. Það hefði verið nær ómögulegt að komast út Weserfljótið og fram með Jótlandsströndum. Skipið varð því að fara gegnum Kielarskurðinn, en það var ekki hægt með öðru móti en því, að þýzkir sjóliðsmenn stjórnuðu skipinu. Til fararinnar varð að fá sérstakt leyfi, og tókst oss eftir mikla erfiðleika að koma því í kring. Var fyrst í ráði, að skipið sigldi undir dönsku flaggi gegnum skurðinn, en á síðustu stundu kom skipun um það, að »Rán> yrði að nota þýzka flaggið á leiðinni frá Geestemunde til Holtenau. Enginn okkar landanna fekk að vera með skipinu í þeirri för. Í Holtenau tókum vér við skipinu og var þá skift flöggum.
Vér fengum nú sérstakan hafnsögumann, en meðan skipið sigldi gegnum tundurduflasvæði Þjóðverja, var oss ekki leyft að vera á þilfarinu. Skipið komst svo til Kaupmannahafnar og vakti það töluverða eftirtekt og umtal þar, að oss skyldi hafa heppnast að koma skipinu á burt frá Þýzkalandi, með ekki minna af kopar í því, en vanalega gerist í skipum. Þóttust menn á því geta séð, að engin veruleg koparekla gæti verið í Þýzkalandi. Á sunnudaginn buðu framkvæmdarstjóri hlutafélagsins og umboðsmaður skipaverksmiðjunnar þýzku, hr. Sigfús Blöndahl kaupmanni, nokkrum bæjarmönnum á skipsfjöl, til þess að sýna þeim skipið. Rán er fyrsti botnvörpungurinn íslenzki, sem byggður hefir verið í Þýzkalandi. Hann er því að ýmsu leyti töluvert frábrugðinn hinum botnvörpungunum íslenzku. Skipið er alt sérlega vandað og virðist ekkert hafa verið sparað til þess að gera það sem fullkomnast. Rán hefir rafmagnslýsingu um alt skipið. Tvo báta hefir skipið meðferðis, og eru þeir báðir af nýjustu gerð. Eru þeir útbúnir með loftþéttum kössum, sem björgunarbátar á stærri skipum. Mikil framför frá því sem áður hefir tíðkast á botnvörpuskipum eru lifrarbræðslutækin. Tveim stórum járngeymuum hefir verið komið fyrir í klefa á þilfarinu, fyrir ofan vélina. Lifrinni er kastað í þessa geymara og brædd þar með gufu. En lýsið rannur úr geyminum í tunnur, sem standa á þilfarinu. Yfir höfuð er skip þetta hið vandaðasta og bezta botnvörpuskip, sem byggt hefir verið fyrir íslendinga.

Morgunblaðið. 23 mars 1915.
 

Reykjavíkurhöfn, sennilega árið 1921-22. Þrír togarar og eitt flutningaskip við bryggjuna. Frá vinstri talið, Rán RE 54, Menja GK 2 og Snorri Sturluson RE 242. Hann var seldur til Englands árið 1922. Flutningaskipið þekki ég ekki. (C) Magnús Ólafsson.
 
B.v. Rán GK 507.                                                                   Sígarettumynd.
 
B.v. Rán GK 507 inn á Ingólfsfirði.              Úr safni Óttars Guðmundssonar

      Þjóðverjar teppa íslenskar siglingar


Botnvörpungurinn „Rán" ætlaði með afla sinn til Bretlands, en átti aðeins ófarnar, 70 kvartmílur er 5 þýskum kafbátum skaut upp og stöðvuðu „Rán" og athuguðu farminn. Sögðust foringjar kafbátanna skyldu sleppa henni í þetta skifti, en heim yrði hún að snúa við svo búið og tilkynna það öðrum íslenskum botnvörpungum, að reyni þeir að fara með afla sinn til Englands verði þeim tafarlaust sökkt. «Rán" kom til Reykjavíkur í gærmorgun.

Íslendingur. 3 nóvember 1916.
 

Áhöfnin á Rán GK 507. Greinilegt að þeir eru á síldveiðum.  Ljósmyndari óþekktur.
 
Málverk af Rán GK 507.                                      Benedikt Guðbjartsson.



        „Rán“ veiðir við New-Foundland


Botnvörpungurinn »Rán“ er, farinn til Ameríku. Á hann að stunda fiskiveiðar í sumar við New-Foundland.

Íslendingur. 31 maí 1918.
 

B.v. Rán GK 507 töluvert ísaður í Reykjavíkurhöfn. Sjá má annan togara vel ísaðan fjær. Sennilega er þetta Ceres, skip sameinaða sem ber yfir hvalbakinn á Rán. (C) Magnús Ólafsson.

 

B.v. Rán ST 50 á veiðum í seinna stríði. Íslenski fáninn málaður á kinnung skipsins. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

B.v. Rán GK 507 inn á Djúpavík.                            Ljósmyndari óþekktur.




                        Hafnfirðingar selja skip sín

Togarinn Rán og línuveiðararnir Pétursey og Málmey í Hafnarfirði hafa öll verið seld úr bænum. Hefur Alliance eða h. f. Djúpavík keypt Rán. Pétursey er seld til Súgandafjarðar, en Óskar Halldórsson kaupir Málmey.

Þjóðviljinn. 15 júní 1939.
 

Togarinn Urd FD 435 við bryggju á Högabóli í Saltangará.         (C) Óli Ólsen.
 
Færeyski togarinn Urd FD 435 á siglingu. Málverk Georges Wisemans. Úr safni Finn Björn Guttesen.

 

          Togarinn Rán seldur til Færeyja

 


Togarinn Rán, sem var eign Djúpavíkur hf., hefur nú verið seldur til Færeyja og verður gerður út þaðan. Kaupendur togarans er nýtt hlutafélag, sem nefnist Pf. Kongshavnar trolarafélag í Saltangursá. Skipshöfnin á togarann kom frá Færeyjum með síðustu ferð Drönning Alexandrine og er skipið nú farið á veiðar. Breytt hefur verið um nafn á togaranum og nefnist hann nú Urd.

Alþýðublaðið. 8 mars 1946.





 

Flettingar í dag: 1862
Gestir í dag: 89
Flettingar í gær: 544
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 731687
Samtals gestir: 54266
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 22:21:29