28.05.2023 14:26

B.v. Ýmir GK 448. LCDP / TFKC.

Botnvörpungurinn Ýmir GK 448 var smíðaður hjá George Seebeck A.G. Schiffswerft Maschinenfabrik und Trockendocks í Geestemünde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ými í Hafnarfirði. 269 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 40,35 x 7,12 x 3,27 m. Smíðanúmer 356. Skipið var selt í ágúst 1928, Þórði Flygenring í Hafnarfirði, hét hjá honum Eldey GK 448. Skipið var selt í nóvember 1928, Fiskiveiðahlutafélaginu Kára í Viðey, hét Þorgeir skorargeir GK 448. Eftir að Kárafélagið í Viðey fór í þrot haustið 1931, eignaðist Útvegsbankinn allar eignir félagsins, þ.m.t. togarann Þorgeir skorargeir GK. Seldur 27 október 1932, Sameignarfélaginu Kópi í Reykjavík, hét þá Kópur RE 33. Vorið 1936 var Útvegsbanki Íslands eigandi. Frá mars á sama ári hét togarinn Þorfinnur  RE 33. Bankinn leigði hann næstu árin, t.d. Ingvari Guðjónssyni síldarútgerðarmanni á Akureyri og jafnvel Skúla Pálssyni (kenndur við Laxalón). Seldur 1940, Hlutafélaginu Aski (Þórður og Tryggvi Ólafssynir) í Reykjavík.  Þegar h/f Askur í Reykjavík kaupir togarann Skutul ÍS 451 af h/f Val á Ísafirði, 20 mars 1942, taka Ísfirðingarnir togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Seldur sama ár Magnúsi Andréssyni útgerðarmanni í Reykjavík. Magnús selur togarann 22 nóvember árið 1945, p/f Tór í Þórshöfn í Færeyjum, fékk nafnið Tórfinnur TN 78. Seldur 26 júlí 1950, p/f Steyrur á Stykkinum, hét þá Bakur VN 327. Frá 12 mars 1954 er togarinn í eigu Edvardi Skaalum maskinmeistara sem keypti hann á uppboði. Seldur 6 apríl 1954, Leivi Lützen landsréttarlögmanni í Þórshöfn. Seldur 23 október 1954, Jákup Jensen á Tröðni. Seldur 4 ágúst 1955, Gunnari Hansen heildsala í Þórshöfn, sama nafn og númer. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og tekinn af Færeyskri skipaskrá 8 febrúar árið 1956.


Togaraútgerð með nýjum skipum og að fullu samkeppnisfær við það sem gerðist best annars staðar, hófst í Hafnarfirði árið 1915. Þá komu til bæjarins tveir nýir togarar sem smíðaðir voru í Þýskalandi. Hétu þeir Víðir og Ýmir, eign samnefndra hlutafélaga þar í bæ. Þetta voru fyrstu togararnir, auk Ránar RE 54, sem smíðaðir voru fyrir íslendinga í Þýskalandi. Fiskiveiðahlutafélagið Ýmir var stofnað 24 febrúar árið 1914 í Hafnarfirði. Stjórnina skipuðu þeir Ágúst Flygenring útgerðar og kaupmaður, Olgeir Friðgeirsson kaupmaður og Hjalti Jónsson skipstjóri (Eldeyjar-Hjalti). Holger Debell forstjóri Hins íslenska steinolíuhlutafélags var annar aðalhvatamaður að stofnun félagsins ásamt Ágústi Flygenring.

Heimildir:
Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
Birgir Þórisson.
Saga Eldeyjar-Hjalta. Guðmundur G Hagalín. 1974.
 

B.v. Ýmir GK 448 að veiðum í Jökuldýpi.            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.




                     Botnvörpungurinn „Ýmir“


»Ýmir« hinn nýi botnvörpungur Hafnfirðinga, kom í nótt eftir 7 daga ferð frá Kaupmannahöfn Hann er smíðaður í Þýskalandi, og fór norður með Noregsströndum, allt að Álasundi. Um borð voru 7 farþegar.

Vísir. 6 júní 1915.
 

B.v. Ýmir GK 448 á siglingu. Þeir gátu reykt mikið þessir kolatogarar. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

Ýmir GK 448. Málverk.                                                       (C) Elston Hull.

 

                 Tundurdufl springur í vörpu b.v. Þorfinns
   Enginn skipverja slasaðist, en skipið laskaðist töluvert

 

Síðastliðinn laugardag vildi það til að togarinn Þorfinnur fékk tundurdufl í vörpuna. Þegar farið var að taka inn vörpuna sprakk tundurduflið rétt hjá skipinu. Við sprenginguna beyglaðist stjórnborðshlið skipsins allmjög, vindan brotnaði, ljósavélin stöðvaðist, dýptarmælir og loftskeytatæki urðu ónothæf. Enginn skipverja slasaðist og má telja það dæmafáa heppni. Auk þeira skemmda sem þegar er getið munu allmörg bönd bafa brotnað eða laskazt í skipinu en enginn leki kom að því. Þorfmnur var á leið til Halamiða og kastaði vörpunni á 115 faðma dýpi út af Ísafjarðardjúpi, þegar hann fékk tundurduflið í vörpuna. Lagði togarinn þegar af stað hingað til Reykjavíkur. Þjóðviljinn hafði í gær tal af Magnúsi Andréssyni útgerðarmanni og kvað hann þess myndi verða langt að bíða að togarinn gæti farið aftur á veiðar. Sýnir þessi atburður glöggt þær hættur sem enn eru á sjónum umhverfis landið.

Þjóðviljinn. 5 júní 1945.
 

B.v. Kópur RE 33.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Þorfinnur RE 33 á siglingu.                               Ljósmyndari óþekktur.
 
Tórfinnur TN 78 í slippnum í Þórshöfn í Færeyjum.  (C) Óli Ólsen.

           Skipastóll landsins í árslok 1945
 

 Af farþegaskipunum eru 3 gufuskip, Brúarfoss, Lagarfoss og Súðin, en 3 eru mótorskip, Esja, Laxfoss og Fagranes. Vöruflutningaskipin eru, Fjallfoss, Reykjafoss, Selfoss og Hermóður (gufuskip) og Skeljungur, Baldur frá Stykkishólmi og Nonni frá Reykjarfirði (mótorskip). Varðskipin eru Ægir og Óðinn (mótorskip). Björgunarskipið er Sæbjörg og dráttarskipið er Magni, eign Reykjavíkurkaupstaðar. Frá næsta hausti á undan hefur skipum fækkað um 2, en lestatalan lækkað um 822 lestir. Mótorskipum hefur fjölgað um 3 og lestatala þeirra hækkað um 1252 lestir. Síðastliðið ár voru strikuð út af skipaskránni 19 mótorskip (þar af 8 rifin eða talin ónýt, 6 farizt alveg, 4 strandað og 1 selt úr landi). Hafa þá bætzt við 22 mótorskip. Gufuskipunum hefur fækkað um 5 og lestatala þeirra lækkað um 2074 lestir. Gufuskip þau, sem fallið hafa burtu, eru: Farþegaskipið Dettifoss, sem fórst við Írland í janúar í fyrra, botnvörpungurinn Þorfinnur, sem seldur var til Færeyja á árinu, línuveiðarinn Fjölnir, sem fórst við Skotland í apríl í fyrra, og lv. Málmey og Sæfari, sem breytt var í mótorskip á árinu.

Hagtíðindi. 2 tbl. 1 febrúar 1946.

Flettingar í dag: 1702
Gestir í dag: 86
Flettingar í gær: 544
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 731527
Samtals gestir: 54263
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 17:27:05