31.05.2023 15:06

B.v. Þór RE 171. LBCG.

Botnvörpungurinn Þór RE 171 var smíðaður hjá Wilton´s Machinefabriek en Scheepwerk í Rotterdam í Hollandi árið 1904 fyrir Van de Stoomvisserij Maatschappij Mercurius í IJmuiden í Hollandi. Hét þá  Donald IJM 103. 265 brl. 375 ha. 3 þennslu gufuvél. 40,28 x 6,63 x 4,06 m. Selt í mars 1916, Defensor h.f. í Reykjavík, fékk þá nafnið Þór RE 171. Seldur 26 ágúst 1917, franska sjóhernum, fékk þá nafnið Orang-Outang. Var í þjónustu sjóhersins sem hjálparskip eða tundurduflaslæðari frá Bordeaux í Frakklandi. Seldur 21 október 1919, André Ledun í Fécamp í Frakklandi, hét þá Vimy F 611. Árið 1930 var eigandi togarans A & H. Ledun í Fécamp og skipstjóri var þá J. Bénard. Hertekinn af Þjóðverjum 21 ágúst 1940 og var í þjónustu þeirra sem HS99. 1 júní 1942 er togarinn í þjónustu 15 flotadeildar þýska sjóhersins sem V 1521. Frá 15 nóvember 1943 er hann í þjónustu 3 flotadeildar þýska sjóhersins sem M 3855. Togarinn eyðilagðist í loftárás bandamanna skammt frá Le Havre í Frakklandi 14 júní árið 1944, meðan á innrásinni í Normandí stóð.
Þór var staðinn að miklu smygli á áfengi vorið 1917 og var það umtalsvert magn. Togarinn kom við á Seyðisfirði eftir söluferð erlendis og var þar sett töluvert magn áfengis í land. Einnig kom hann við á Akureyri og losaði áfengi þar og að síðustu var megninu af góssinu skipað upp í Viðey. Einhver málaferli urðu af þessu smygli og nokkrir skipverjar voru dæmdir til að greiða sektir. Algert áfengisbann var þá í landinu frá árinu 1915 og mun það hafa staðið í ein tuttugu ár.

Aðrar heimildir herma að togarinn hafi verið seldur til Frankrike í Frakklandi eftir þjónustu sína fyrir franska sjóherinn árið 1920, bar sama nafn þar (Orang-Outang). Ennfremur segir að það hafi verið gert út frá La Rochelle og Dieppe í Frakklandi og borið nafnið Vimy og hafi verið svo selt André Ledun í Fécamp árið 1925 og fengið þá nafnið Vimy F 611. Alveg sjálfsagt að hafa allar heimildir með hvort sem þær eru nákvæmar eða ekki. Þetta eru samt heimildir sem vert er að skoða.

Donald IJM 103 var einn þeirra níu Hollensku togara sem gerðir voru út frá Hafnarfirði á vertíðinni 1914, þá sagður á vegum Ronald de Boer útgerðarmanns í Ijmuiden í Hollandi.

Hinn 11 mars árið 1916 komu til Reykjavíkur tveir togarar, er keyptir voru frá Hollandi og hétu þeir Þorsteinn Ingólfsson RE 170 og Þór RE 171. Áður hef ég fjallað um Þorstein Ingólfsson og eigendur hans (23 apríl 2023). Þór var eign nokkurra manna sem stóðu að félaginu Defensor í Reykjavík, er stofnað var árið áður (1915). Matthías Þórðarson frá Móum var einn af stofnendum félagsins og segir hann frá því í endurminningum sínum. Félagið var þannig til komið, að Matthías og nokkrir menn með honum keyptu flakið af Frönsku kolabarkskipinu sem E. Chouillou kaupmaður í Reykjavík átti, sem rekið hafði á land við Sjávarborg í Reykjavík í október árið 1913. Létu þeir rífa skipið, en það hafði heitið Defensor, og notuðu fé, er þeir fengu fyrir málm og annað úr því, til þess að reisa fiskverkunarstöð við Rauðará. Nefndu þeir hana Defensor eftir skipinu. Eigendur Þórs voru, Matthías Þórðarson fiskifélagsráðunautur, Magnús Magnússon skipstjóri, Jón Ólafsson og Jón Sigurðsson skipstjóri, allir í Alliance, Jóel Jónsson skipstjóri, Bernharð Petersen kaupmaður og Geo. Copland kaupmaður. Áttu þeir hálft skipið. Hinn helminginn áttu Ásgeir Pétursson og Rögnvaldur Snorrason útgerðarmenn og síldarsaltendur á Akureyri. Þeir áttu skipið til 26 ágúst árið 1917, en þá var það selt til Frakklands. Magnús Magnússon skrifaði bréf fyrir hönd þeirra félaga um togarasöluna, og er Defensors ekki getið þar.

Heimildir: Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                   Birgir Þórisson.
                   Arie Van Der Veer í Hollandi.
                   Jack Daussy í Hollandi.

Botnvörpungurinn Þór RE 171 við legufæri sín á Reykjavíkurhöfn. Mynd á gömlu póstkorti.




                                               Defensor

Fiskiveiðafélag hér í bænum, hafði látið smíða sér botnvörpung í Þýskalandi, (Gylfi RE 235), en þegar hann var fullgerður lagði þýska stjórnin hald á skipið og fengu eigendur það ekki afhent, þó að þeir væru búnir að borga það að fullu. Þýska stjórnin þykist þurfa skipsins með, en borgar eigendum leigu af því, 150 til 200 mörk á dag, svo að þeir sleppa þó nokkurn veginn skaðlausir. Defensor hefir nú keypt 12 ára gamlan botnvörpung í Hollandi. Er það gott skip og talið í fyrsta flokki, en verðið var eins og á nýju skipi fyrir ófriðinn.

Vísir. 3 febrúar 1916.
 

Togarar við bryggju, sennilega á Svalbarðseyri í Eyjafirði árið 1916. Til vinstri er Jón forseti RE 108, fyrsti togari sem smíðaður var fyrir Íslendinga hjá Scott and Sons í Glasgow í Skotlandi árið 1907. Til hægri er Þór RE 171.  (C) Karl Nielsen.




                    Botnvörpungar frá Hollandi

Tveir botnvörpungar komu til bæjarins í nótt, báðir nýkeyptir frá Hollandi. Eru það Fiskiveiðafélögin Haukur og Defensor sem þá eiga. Heita þeir Þorsteinn Ingólfsson og Þór.

Vísir. 11 mars 1916.
 

Togarinn Vimy. Á þessari mynd er það óvíst hvort hann hafi verið gerður út frá Fécamp eða frá La Rochelle eða Dieppe. Takið eftir að það er búið að fella frammastrið niður. Það mun hafa verið gert vegna netaveiða togarans. Einnig mun hafa verið búið að setja á hann hvalbak einhverntímann eftir að hann fór héðan og mun hann hafa verið tekinn líka því það hentaði betur á netaveiðunum. (C) Jack Daussy.
 
Vimy F 611 frá Fécamp.                                      (C) Jack Daussy.


             „Þór“ og áfengissmyglið


Botnvörpungurinn »Þór« kom snemma í f. mán. frá Kaupmannahöfn. Hann kom fyrst til Seyðisfjarðar. Heyrst hefur að hann hafi sett þar eitthvað í land af áfengi. Hann kom síðan til Akureyrar. Þar seldi brytinn 200 flöskur af áfengi, samkv. hans eigin játningu fyrir rétti hér í Rvík. Þegar hingað kom þá fór hann inn undir Kirkjusand og þaðan fór skipstjórinn, Jóel, um borð í hann. Hrómundur nokkur hafði verið skipstjóri á honum til og frá útlöndum. Lögreglan hafði fengið vitneskju um aðfarirnar á Akureyri og þess vegna ætlaði hún að ná í hann þegar hingað kæmi. Lögregluþjónn var sendur inn á Kirkjusand og ætlaði með Jóel um borð í skipið, en Jóel hratt honum frá og fór við svo búið. Sagt er, að Jóel hafi boðist til að greiða 200 kr. sekt fyrir tiltækið. Þór fór svo á burt, en morguninn eftir fréttist að hann væri kominn inn í Viðey. Eftir nokkrar athuganir fanst mikið af áfengi í Viðey, sem ólöglega hafði verið flutt inn úr Þór og einnig fanst nokkuð, sem sett hafði verið í land í Gufunesi. Skipstjórinn (Hrómundur) játaði, að þetta áfengi hefði flutt verið í land úr »Þór«. Málið mun enn þá ekki fullrannsakað og bíður betri tíma hvað úrslitin áhrærir.

Templar. 4 apríl 1917.
 

Togarinn Donald IJM 103 á siglingu. Hollendingurinn Arie Van Der Veer fékk þessa mynd frá ættingjum eins af skipstjórum Donald í Ástralíu. Arie skrifaði lengi um sögu togara frá Hollandi í blaðið, Ijmuider Courant og birtist þessi mynd ásamt grein um togarann í því blaði 30 júní 1978. (C) Arie Van Der Veer.




                                            Höfnin

President og Libra, botnvörpungar frá Grimsby, komu til að fá sér kol. Donald, hollenzkur botnvörpungur, seldi hér afla sinn. Earl Hereford kom af veiðum með ágætan afla.

Morgunblaðið. 4 maí 1914.

Flettingar í dag: 1570
Gestir í dag: 80
Flettingar í gær: 544
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 731395
Samtals gestir: 54257
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 12:38:01