18.06.2023 07:46

Japanstogararnir. / 1275. Hvalbakur SU 300. TFBN.

Skuttogarinn Hvalbakur SU 300 var smíðaður hjá Narasaki Zosen K.K. í Muroran á Hokkaido eyju í Japan árið 1973 fyrir Hvalbak h/f á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. 462 brl. 2.000 ha. Niigata vél, 1.471 Kw. 47,10 x 9,52 x 5,50 m. Smíðanúmer 807. Kom til heimahafnar á páskadag, 22 apríl árið 1973. Fyrsti skipstjóri var Einar Ásgeirsson og 1 vélstjóri var Einar Jóhannsson.
 

Hvalbakur SU 300 í höfn á Stöðvarfirði eða Breiðdalsvík.  (C) Guðjón Sveinsson.




                                      Hvalbakur SU 300

Á páskadag, 22. apríl s.l., kom skuttogarinn Hvalbakur SU 300 til landsins. Þetta er sjötti togarinn sem byggður er fyrir Íslendinga í Japan og jafnframt þriðja skipið sem kemur frá Narasaki skipasmíðastöðinni. Eigandi Hvalbaks er útgerðarfyrirtækið Hvalbakur h.f., sem er sameign fyrirtækja á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði. Fyrsta skuttogaranum sem kom frá Japan, Vestmannaey VE 54, var lýst í 4. tbl. Ægis, og á sú lýsing við þetta skip að verulegu leyti, og hér verður því aðeins getið helztu frávika frá þeirri lýsingu. Vinnuþilfar Hvalbaks er eins og vinnuþilfar Páls Pálssonar ÍS, sem lýst var í 6. tbl. Ægis, að undantekinni ísvél. Ísvélin í Hvalbak er bandarísk og heitir Seafarer. Hún framleiðir ís úr sjó og er framleiðslan 8 tonn af ís á sólarhring. Í lest Hvalbaks hefur verið komið fyrir færiböndum til að flytja fisk og ís um lestina, en það auðveldar mjög alla vinnu við frágang fisksins í lestinni. Samskonar færibönd munu vera komin í lest Vestmannaeyjar, og jafnvel fleiri togara frá Japan. Til viðbótar þeim tækjum í brú, sem lýst er í sambandi við Vestmannaey, eru asdik frá Furuno, gerð FH-102 og togmælar frá Tokyo Keiki. Togmælar, samskonar þeim sem komu með Hvalbak, eiga að koma í flesta, eða alla togarana frá Japan. Skipstjóri á Hvalbak SU 300 er Einar Ásgeirsson og 1. vélstjóri er Einar Jóhannesson, en framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Svanur Sigurðsson. Ægir óskar eigendum og skipshöfn til hamingju með hið glæsilega skip.

Ægir. 11 tbl. 15 júní 1973.

Flettingar í dag: 1681
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 544
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 731506
Samtals gestir: 54261
Tölur uppfærðar: 30.4.2024 16:14:01