03.08.2023 08:17

B.v. Ethel RE 237. LCJN.

Botnvörpungurinn Ethel RE 237 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1907. 278 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð af W.V.V. Lidgerwood í Coatbridge í Skotlandi. 126 x 21,9 x 11,9 ft. Smíðanúmer 267. Hét áður Ethel FD 173 og var fyrst í eigu Louis Cohen í Fleetwood. Seldur 24 júní 1912, The Active Fishing Co Ltd í Fleetwood. Var í þjónustu breska flotans sem tundurduflaslæðari frá júní 1915 og bar númerið 1595 og hafði aðsetur í Leirvík á Hjaltlandseyjum. Togaranum var skilað til eigenda sinna 12 mars 1919. Seldur í desember 1919, Elíasi Stefánssyni í Reykjavík, fær þá nafnið Ethel RE 237, og skipstjóri var Kristinn Brynjólfsson frá Engey.  Árið 1920 er h.f. Atlanta (Skúli Jónsson og fl.) í Reykjavík eigandi togarans. Árið 1921-22 er Skúli Jónsson eigandi Ethel. Seldur í júlí 1923, J.Marr & Son Ltd í Fleetwood, hét Irvana FD 430. Seldur árið 1925, Comissariado Gereal dos Abastecimentos í Lissabon, Portúgal, hét Apolo. Seldur í janúar 1927, Sociedade Comercial Maritima Ltda í Lissabon, hét Cabo Juby. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1958.

Sagan á bak við þetta skip er að Elías Stefánsson sjómaður varð umsvifamikill útgerðarmaður á öðrum áratug síðustu aldar. Einkum hagnaðist hann á síld, og síldin varð honum að falli. Hann hafði mikil samskipti við J. Marr & Co í Fleetwood, einkum vegna fisksölu á árum fyrri heimstyrjaldarinnar. Þá voru allir sótraftar á sjó dregnir, og hann notaði m.a. gamla hvalbátinn Varanger sem togara og síldveiðiskip, og gufubátinn Skjöld sem síldarskip. Elías fór mjög illa út úr síldarhruninu 1919 og andaðist haustið 1920. Á vetrarvertíð 1920 var Elías með togara frá Marr á leigu. Í Bretlandi var þá í gildi bann við að selja skip yngri en 12 ára úr landi. Ethel var því eins nýtt skip og Elías gat keypt, og var hf. Atlanta stofnað í þeim tilgangi 1919. (Active-félagið var í eigu Marr.) Skipið var keypt á verðbólgnu stríðsverði fyrir breskt lánsfé, og því alveg vonlaust að útgerðin gæti borið sig og fjaraði hún út í lok vetrarvertíðar 1923. Kveldúlfur leigði skipið til síldveiða það ár. Það voru því eðlileg endalok þegar Marr tók það aftur 1923 og seldi til Spánar. Atlanta hf. var rekið áfram eftir lát Elíasar af ungum samverkamanni hans, Skúla Jónssyni, kenndum við húsið Aberdeen sem til skamms tíma stóð niðri við Grófina. Skúli hafði verið í starfsnámi hjá Marr í Fleetwood. Skipstjóri á Ethel var Kristinn Brynjólfsson frá Engey.

Heimildir að miklum hluta frá Birgi Þórissyni.
 

B.v. Ethel RE 237 á siglingu.                                                   Málari óþekktur.



                 Nýr botnvörpungur


Í fyrrinótt kom hingað frá Englandi botnvörpungur, er Skúli Jónsson hefir keypt þar nýlega. Er skipið 12 ára gamalt og hefir verið brezk eign til þessa. Eigandi skipsins er hlutafélag, sem er nýstofnað og heitir „Atlanta". Er Skúli framkvæmdastjóri þess. Skipið er 130 fet á lengd og heitir Ethel. Verður það gert út héðan úr bænum og búist við, að það leggi út á veiðar næstu daga. Kristinn Brynjólfsson er ráðinn skipstjóri, en Ólafur Pétursson sigldi því hingað frá Fleetwood. Þaðan fór skipið 12. þ m. Skúli Jónsson, sem var farþegi á skipinu hingað, telur mikla örðugleika á að fá skip keypt í Englandi ennþá. Útflutningsbann er enn á yngri skipum en 12 ára, en búist við, að aldurstakmarkið verði fært niður á næstunni. Og ný skip eru ekki smíðuð nema með löngum fyrirvara.

Morgunblaðið. 18 desember 1919.

Flettingar í dag: 2372
Gestir í dag: 138
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744131
Samtals gestir: 56044
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 19:31:46