07.08.2023 10:53

B.v. Maí RE 155. LBMV.

Botnvörpungurinn Maí RE 155 var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough í Englandi árið 1914 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Ísland (Jes Zimsen framkvstj) í Reykjavík. 263,92 brl. 103 nettó. 500 ha. 3 þennslu gufuvél. 129,5 x 23,5 x 12,7 ft. Smíðanúmer 573. Maí var hleypt af stokkunum, 17 janúar það ár og síðan afhentur eigendum sínum í febrúar. Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum átti 1/5 hlut í skipinu og var jafnframt skipstjóri á honum. Síðar eignaðist Björn skipstjóri hlut í Íslandsfélaginu. Hann var svo með Maí síðari til ársins 1927. Maí þótti alveg ágætt sjóskip og Björn skipstjóri fiskaði vel eins og sést í grein hér fyrir neðan. Togarinn var seldur franska sjóhernum haustið 1917, hét þar Sajou. Frá janúar 1918 var Maí (Sajou) í herdeild sem hét Escadrille des Singe, með aðsetur í Lorient og Saint-Nazaire í Frakklandi. Seldur 26 maí 1920, Soc. Anon. Chalutiers de La Rochelle, í La Rochelle í Frakklandi, hét þá Picorre l LR 2424. Picorre var einnig í þjónustu franska sjóhersins í seinni heimstyrjöld frá 20 júní 1940. Bar þá númerið M 4206 og með aðsetur í Les Sables-d‘Olonne í Frakklandi. 28 ágúst árið 1944, var skipinu sökkt af eigin áhöfn, sennilega á grunnsævi, því það var selt til niðurrifs árið 1946.
Trúlega var Picorre sökkt svo þjóðverjar kæmu ekki höndum yfir það, geri ég ráð fyrir.

Þessi herdeild, Escadrille des Singe, (apaherdeildin) sem Maí (Sajou) var í árið 1918, voru einnig fjórir aðrir íslenskir togarar sem seldir voru til Frakklands haustið 1917. Þeir voru:
Gibbon ex Baldur RE 146. (Trawlfjelagið Bræðurnir Thorsteinsson / h.f. Bragi í Reykjavík)
Ouistiti ex Bragi RE 147. (Trawlfjelagið Bræðurnir Thorsteinsson / h.f. Bragi í Reykjavík)
Sapajou ex Apríl RE 151 (Fiskiveiðahlutafélagið Ísland í Reykjavík)
Singe ex Ingólfur Arnarson RE 153. (P.J. Thorsteinsson / Fiskiveiðahlutafélagið Haukur í Reykjavík)
Togararnir tíu sem seldir voru franska sjóhernum, haustið 1917, hétu allir apanöfnum.

Heimildir að hluta frá Birgi Þórissyni.
 

B.v. Maí RE 155 í Reykjavíkurhöfn.                                     (C) Magnús Ólafsson.



              Botnvörpungurinn Maí


Það má kallast veruleg frjósemi í botnvörpungaútgerð vorri. Tveir til þrír nýir botnvörpungar bætast við árlega. Síðasta viðbótin er hinn nýi botnvörpungur Íslandsfélagsins, Maí. Hann kom hingað á föstudagsmorgun síðastliðinn og mun halda á veiðar í dag. Skipstjórinn er hinn alkunni aflamaður Björn Ólafsson frá Nýjabæ, stýrimaður er Einar Guðmundsson frá Nesi, vélstjóri Sigurjón Kristjánsson. Eigendur Maí höfðu í fyrradag boðið ýmsum bæjarbúum, útgerðarmönnum, blaðamönnum o. fl. á skipsfjöl til að skoða Maí. Það var einróma álit allra bæði þeirra, sem vit hafa á og hinna, sem ekki hafa annað en leikmannsauga á að treysta í þessum efnum, að skipið væri hið prýðilegasta að öllum útbúnaði. Reynslan er sífelt að kenna meiri hagkvæmni um allan útbúnað. Maí hefir fengið hið bezta í hverri grein botnvörpungssmíði, sem kunnátta og hugvit hefir fram að bjóða. Þilfarsrúm mun meira á honum en nokkrum öðrum botnvörpunganna íslenzku. Hefir m. a. verið unnið rúm með því að láta bátana ekki á þilfarið sjálft, heldur á »daviða« upp af þilfarinu. Skipið var skírt þ. 17. jan., sama dag og Eimskipafélag Íslands var stofnað. Eins og nærri má geta var eigendum Maí, skipstjóra og skipshöfn árnað allra heilla af boðsgestum. Rak þar hver ræðan aðra og verði allar þær óskir að áhrínsorðum, mun Maí vel vegna.

Ísafold. 4 mars 1914.
 

B.v. Maí RE 155 á siglingu.                                                Ljósmyndari óþekktur.




                        Góður afli sunnanlands

Afli er mjög góður þegar á sjó gefur í veiðistöðvum hér sunnanlands. Fiskur inni á milli Eyja í Vestmannaeyjum og hafa róðrarbátar tvíhlaðið. Botnvörpungar veiða vel, og fiskurinn óvenju vænn. Maí hafði fengið sjö sinnum fullan botnvörpupokann í einu »togi«, og kvað vera eins dæmi. Vildi til happs að botnvarpan var ný. Þilskipin sum aflað vel, Guðrún og Ása nýkomnar með 15 þús. hvor. Er hver dagurinn landinu dýr, sem ekki gefur á sjó, þegar svona veiðist.

Tíminn. 17 mars 1917.
 

B.v. Maí RE 155.                                                                Mynd á gömlu póstkorti.
 
Franski Togarinn Picorre LR 2424 frá La Rochelle.                       (C) J. Morillon.


                      Togarasalan


Sökum vaxandi skipaeklu hafa flestar þjóðir tekið það ráð að banna með lögum sölu skipa úr landi. Aukaþingið sem haldið var í vetur bjó til samskonar lög fyrir Ísland og bannaði að selja eða leigja skip út úr landinu. Lög þessi voru einhver hin mikilsverðustu sem þingið afgreiddi. En nú er komið á daginn að þingið samþykti lögin af tómum apaskap bara af því aðrar þjóðir gerðu það, en ekki af því að þingmönnum væri Ijóst hve skaðlegt væri fyrir þjóðfélagið að skipin væru seld, því nú hefir sama þingið, sömu þingmennirnir, gefið samþykki sitt til þess að togaraflotinn íslenzki sé seldur út úr landinu. Snemma í sumar kvisaðist það að útgerðarmenn vildu fá að selja þá af togurunum sem elstir væru, eða óhentugir sökum ónógrar stærðar eins og t. d. „Íslending“. En nú veit hvert mannsbarn í Reykjavík, þó blöðin sem daglega koma út, og vanalega tilfæra allar fréttir, ekki hafi getið þess með einu orði, að búið er að selja meirihlutann af togurunum, og að þeir verða sóttir einhvern daginn. Togararnir sem sagt er að séu Seldir eru þessir:
Apríl 295,19 smálestir eign h.f. »Ísland“.
Baldur 290,69 smálestir eign h.f. »Bragi“.
Bragi 291,37 smálestir eign sama.
Eggert Ólafsson 262,62 smálestir eign Elíasar Stefánssonar.
Ingólfur Arnarson 305,77 smálestir eign h.f. „Haukur“.
Maí 263,92 smálestir eign h.f. „Ísland“.
Þór 264,70 smálestir eign h.f. „Defensor“.
Jarlinn. 277,49 smálestir eign h.f. „Hákon jarl“.
Earl Hereford 273,02 smálestir aðaleigandi Elías Stefánsson.
Þorsteinn Ingólfsson 264,70 smálestir eign h.f. „Haukur“.
Eins og þeir geta séð af þessari srá, sem til þekkja, eru eldri og nýrri togararnir seldir upp til hópa, og af þeim fáu sem eftir eru, er meirihlutinn skip, sem ekki eru ný eða nýleg. Uprunalega mun ekki hafa verið ætlun útgerðarmanna að selja aðra togara en þá fáu sem, á næsta ári eða svo, þörfnuðust kostnaðarsamrar endurbótar, en þegar farið var að semja óx græðgin í verðhœkkunina er orðið hefir á skipunum frá stríðsbyrjun, og eins mun það, að sídveiðin tókst ekki betur í sumar en raun varð á, hafa slegið flemtri á útgerðarmenn, og ýtt undir þá að greipa gullið. Er nú gróðinn af því að selja togarana eins viss og auðsær fyrir útgerðarmenn og þeir telja sér? Gróðinn við að selja er eingöngu, eða nær það, í því falinn að hremma verðhækkunina, sem orðið hefir á togurunum frá því stríðið hófst, en hins vegar er mjög vafasamt hvort togarar fást keyptir eða smíðaðir á næstu 5 til 10 árum ódýrar en þessi skip hafa verið seld.

Dagsbrún. 22 september 1917.

Flettingar í dag: 1612
Gestir í dag: 87
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743371
Samtals gestir: 55993
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 10:16:12