18.08.2023 06:27

B.v. Snorri goði RE 141. LBMG.

Botnvörpungurinn Snorri goði RE 141 var smíðaður hjá Smiths Dock Co. Ltd. í North Shields, Newcastle upon Tyne á Englandi árið 1907 fyrir Great Grimsby Albion Steam Fishing Co Ltd í Grimsby, hét Canadian GY 270. 244 brl. 425 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Shields Engineering Co Ltd í North Shields. 125,2 x 22,2 x 11,7 ft. Smíðanúmer 354. Thor Jensen kaupir togarann ásamt dönskum forstjórum „Milljónafélagsins“, þeim Aage og Andreas Möller og mági þeirra, Zimsen að nafni, og stofna í kjölfarið Hlutafélagið Draupni í Reykjavík í mars árið 1911. Það félag sameinaðist svo hf. Kveldúlfi í Reykjavík árið 1915. Snorri goði kom til Reykjavíkur hinn 15 mars árið 1911, sem fór síðan strax á veiðar. Skipstjóri var Björn Ólafsson frá Mýrarhúsum og vélstjóri var Sigurjón Kristjánsson, sem hafði verið með Birni á Snorra Sturlusyni RE 134. Togarinn var seldur H Smethurst í Grimsby árið 1920. Var seldur strax eða mjög fljótlega, Pescaderias Confiesas SA, San Sebastian á Spáni, hét Mercedes (LR 1950 ?). Seldur 1931, J. Arcelus, San Sebastian á Spáni. Seldur 1933, Fernando Rey Romero í San Sebastian á Spáni. Árið 1947 er togarinn í eigu F. Lorenzo Docampo í San Sebastian. Árið 1949 er togarinn í eigu Enrique Lorenzo & Cia í Vigo á Spáni. 1950 er hann skráður í Lloyds Register of Shipping, sami eigandi, en sagt þar að skipið hafi farist. Síðasti eigandinn (Enrique Lorenzo Docampo) var verksmiðjueigandi í Vigo. Átti meðal annar skipasmíðastöð. Líklegt að hann hafi keypt skipið til niðurrifs því verksmiðjur hans skorti hráefni. En hann fékkst einnig við skipaviðgerðir og hugsanlegt að hann hafi ætlað að breyta skipinu í flutningaskip en það farist.

Thor Jensen yfirgaf Alliance í árslok 1910. Hann hafði þá séð að togaraútgerð var arðvænlegasti atvinnurekstur á Íslandi, og vildi tryggja sjálfum sér sem besta aðstöðu til þess að stunda hana til hags fyrir sig og fjölskyldu sína. Hann skorti þó fé til þess að geta hafið þessa útgerð á eigin spýtur og varð að leita til félaga síns úr Milljónafélaginu, A. Möllers stórkaupmanns. Stofnuðu þeir Hlutafélagið Draupni og keyptu frá Englandi togarann Snorra Goða snemma árs 1911. Thor Jensen átti helming hlutafjár í Draupni, 55 þús kr., bræðurnir Möller og konur þeirra ¼  og Ziemsen góðseigandi í Mecklenburg, mágur Möllersbræðra, ¼. Þetta félag starfaði til ársins 1915, en þá keyptu þeir Thorsfeðgar hlutabréf þau er voru í danskri eigu. H.f. Draupnir var síðan sameinaður togarafélaginu Kveldúlfi.

Heimildir: Saga íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917. Heimir Þorleifsson 1974.
                  Birgir Þórisson.
 

B.v. Snorri goði RE 141 á Reykjavíkurhöfn.                     (C) Magnús Ólafsson.
 
B.v. Snorri goði RE 141 til hægri. Hinn togarinn er Valur RE 122. (C) Magnús Ólafsson.
 
Snorri goði RE 141 og þýska farþegaskipið Kaiser Wilhelm á ytri höfninni.
 
B.v. Snorri goði RE 141.                                         Mynd á gömlu póstkorti.

                Nýir botnvörpungar


Tveir heldur en einn eru nú að bætast í hóp botnvörpunganna reykvísku. Er þá full tylftin. Thor Jensen kaupmaður keypti fyrir skömmu botnvörpung í Hull, og kom sá hingað í fyrradag. Skírður er hann Snorri goði, og mun fengsæll verða ef hann ber nafn með rentu. Hinn nýja botnvörpunginn kaupa eigendur Jóns forseta. Tylft af botnvörpungum gerð út í höfuðstaðnum, það er gott fordæmi. Fjármagnið til útgerðar þessarra nýju botnvörpunga, sem og til hinna eldri, mun fengið hjá Íslandsbanka. Það er gleðilegt, að bankinn hefir getað teygt sig þetta langt einmitt til þessara fyrirtækja, Því að flestum mun ljóst, að botnvörpuveiðarnar eru arðvænlegri atvinnuvegur en flest annað hér um slóðir.

Ísafold. 4 mars 1911.

Flettingar í dag: 2124
Gestir í dag: 116
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743883
Samtals gestir: 56022
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 15:34:32