23.08.2023 09:16

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165. LCGP / TFJC.

Botnvörpungurinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1916 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 308 brl, 127 nt. 600 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Charles D. Holms & Co Ltd í Hull. 42,70 x 7,31 x 3,33 m. Smíðanúmer 663. Fljótlega eftir að smíði hans lauk var hann tekin í þjónustu breska sjóhersins, hét þar Iceland adty no: 3308, og herjaði í Norðursjónum eins og nafni hans forðum. Var í þjónustu þeirra sem tundurduflaslæðari og fylgdarskip frá október 1916 til desember 1918. Togarinn kom ekki til landsins fyrr en árið 1919. Guðmundur Jónsson var fyrsti skipstjóri á Agli. Loftskeytatæki voru sett í Egil skalla árið 1920. Var það fyrsti íslenski togarinn sem fékk slík tæki. Egill Skallagrímsson var einn þeirra togara sem voru að veiðum á Halamiðum þegar Halaveðrið gekk yfir í febrúar 1925. Varð togarinn fyrir miklum áföllum og munaði ekki miklu að skipið færist. Rak togarann langt suðvestur í haf undan óveðrinu, en náði um síðir til hafnar í Reykjavík. Snæbjörn Stefánsson var þá skipstjóri á Agli. Seldur í maí 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Drangey (Oddur Helgason framkvst. og Stefán Franklín) í Reykjavík, hét Drangey RE 166. Drangey var fyrsti íslenski togarinn sem sett var í rafmagns vökvastýri og var það gert í Danmörku í apríl árið 1946. Drangey var einnig fyrsti íslenski togarinn sem landaði afla sínum í Frakklandi eftir heimstyrjöldina síðari. Var það í Gravelines í nóvember 1946. Seldur í febrúar 1945, Fiskveiðahlutafélaginu Engey (Oddur Helgason framkvst.) í Reykjavík, sama nafn. Togarinn var seldur í maí árið 1948, Fiskeri A.B. Grimsö í Gautaborg (Allan Erlandsson) í Svíþjóð, hét þá Grimsö GG 128. Grimsö stundaði aðallega veiðar hér við land og veiddi oftast í salt, og var mannaður íslenskri áhöfn að stórum hluta og skipstjóri var Guðmundur Þórðarson. Grimsö var auglýst á uppboði hjá Borgarfógetanum í Reykjavík 16 september 1949. Eftir það leystu fyrri eigendur (h.f. Engey) togarann til sín. Grimsö mun hafa legið í Reykjavíkurhöfn til ársins 1952, er það var selt Petersen & Albeck í Kaupmannahöfn til niðurrifs í apríl það ár.

Heimild að hluta frá Birgi Þórissyni.
 

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 á ytri höfninni í Reykjavík.  Ljósmyndari óþekktur.




                      Botnvörpungurinn „Iceland“


Vopnaði botnvörpungurinn »Iceland« skaut niður tvo þýzka flugbáta í Norðursjónum og flutti með sér til hafnar 4 handtekna menn. Flugbátarnir voru að reyna að varpa sprengikúlum á gufuskip þegar þeir voru báðir skotnir niður með fallbyssukotum botnvörpungsins.

Morgunblaðið. 16 júlí 1917.
 

Egill Skallagrímsson RE 165.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.




                    „Egill Skallagrímsson“ í víking


Botnvörpungurinn »Iceland«, sem getur um í opinbera skeytinu í blaðinu í gær, að hafi skotið niður tvo þýzka flugbáta í Norðursjónum, mun vera skip, sem Kveldúlfsfélagið átti í smíðum í Bretlandi, þegar ófriðurinn hófst, en Bretastjórn vildi ekki flytja úr landi að svo stöddu, þar sem hún þurfti sjálf á skipinu að halda. Botnvörpungurinn hét Egill Skallagrímsson, nafni, sem Bretum hefir fundist hentugast að breyta, og skírðu það »Iceland«. »Iceland« er orðið frægt skip og er vonandi að það komist einhverntíma á fiskveiðar fyrir Kveldúlfsfélagið. Mun þá bera Egils-nafnið með rentu.

Morgunblaðið. 17 júlí 1917.
 

Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.                  Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.

 

Um borð í Agli Skallagrímssyni RE 165.                 Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.


                       
             Egill Skallagrímsson RE 165


Hinn nýji botnvörpungur Kveldúlfsfélagsins hér í bænum, kom hingað 6. þ. m. frá Grimsby á Englandi. Hann var smíðaður í Englandi árið 1916, en vegna ófriðarins fékk félagið hann ekki afhentan fyrr en nú. Er sagt að Englendingar hafi notað skipið til þess að slæða tundurdufl. En ekki hefir það sakað og nú er það hingað komið og á að taka til óspiltra málanna við fiskveiðarnar. Skipstjóri verður Guðmundur Jónsson, sá er áður stýrði Skallagrími. Skip þetta er stærst af botnvörpuskipum þeim er íslendingar enn hafa eignast, 312,84 registertonn brúttó og 160.20 nettó.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1919.
 

Fjórir Kveldúlfstogarar við bryggju á Hesteyri í Jökulfjörðum. Ljósmyndari óþekktur.




         Kveldúlfur selur þrjá af togurum sínum


Kveldúlfur hefur nú selt þrjá af togurum sínum. Fyrsti togarinn sem hann seldi var Egill Skallagrímsson, var hann seldur Drangey h. f. og var togarinn skýrður Drangey. Annar togarinn var Arinbjörn hersir. Óskar Halldórsson útgerðarmaður keypti hann og skýrði hann togarann Faxa. Þriðji var Snorri goði, seldur hlutafélaginu Viðey. Óvíst er enn hvað hann verður látinn heita.

Þjóðviljinn 5 júlí 1944.
 

Stjórnpallur Egils Skalla. Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.
 
B.v. Egill Skallagrímsson RE 165.                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


                     Drangey stærsti togari Svía


Sænskt útgerðarfjelag hefur keypt Reykjavíkurtogarann Drangey og hefur skipið nú verið skýrt Grimsö, og er eign samnefnds hlutafjelags í Gautaborg. Grimsö verður áttundi togari Svía og jafnframt þeirra stærstur 308 smál. Grimsö fór hjeðan frá Reykjavík í gærkvöldi. Áhöfn skipsins 30 menn, verður að hálfu íslensk og að hálfu sænsk. Skipstjóri er Guðmundur Þórðarson. Eigandi Drangey var hlutafjelagið Engey hjer í Reykjavik.

Morgunblaðið. 27 maí 1948.
 

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 á siglingu.                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.




        Eiga Íslendingar að manna erlendan veiðiflota?
 

Frá því var nýlega skýrt í einu af dagblöðum bæjarins, að íslenzki togarinn Drangey, sem er einn af eldri togurum íslendinga og hét áður Egill Skallagrímsson, hefði verið seldur til Svíþjóðar. Er það hlutafélag í Gautaborg, sem kaupir togarann, og verður hann stærsti togari, sem Svíar eiga. Togarinn hefir verið skírður upp og heitir nú Grimsö (Grímsey) og er útgerðarfélag hans samnefnt. Áhöfn togarans er 30 menn og verður hún að hálfu íslenzk og að hálfu sænsk. Það er í raun og veru ekkert athugavert við það, að gamall togari sé seldur úr landi, því að það mun hafa verið ákvörðun stjórnarvalda að eldri og úreltu togararnir yrðu seldir, þegar nýir og fullkomnari togarar kæmu til landsins. Hitt kemur mönnum kynlegar fyrir sjónir, þegar íslenzkir sjómenn verða gömlu skipunum samferða til erlendu húsbændanna.

Tíminn. 29 maí 1948.

Flettingar í dag: 955
Gestir í dag: 65
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742714
Samtals gestir: 55971
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 06:42:44