09.09.2023 05:56

M.b. Gissur hvíti VE 5.

Mótorbáturinn Gissur hvíti VE 5 var smíðaður í Reykjavík árið 1926 fyrir Alexander Gíslason skipstjóra, Kristján Jónsson, Björn J Sigurðsson og Árna Jónsson í Vestmannaeyjum. Eik og fura. 19 brl. 13 nettó. 40 ha. Hansa vél. 13,28 x 4,30 x 1,66 m. Ný vél (1929-35) 65 ha. Skandia vél.
Frá 12 maí 1938 var báturinn í eigu Gunnars Ólafssonar & Co og fl. Í Vestmannaeyjum.
Í mannskaðaveðrinu 1 mars 1942, bjargaði áhöfnin á Gissuri hvíta, 5 skipverjum af Blika VE 143 þegar óstöðvandi leki kom að bátnum. Mátti ekki tæpara standa um björgun þeirra. Í óveðri þessu fórust tveir Vestmannaeyjabátar, Þuríður formaður VE 233 og Ófeigur VE 217 með samtals níu mönnum.
Frá 3 janúar 1948 í eigu Ársæls Guðjónssonar og fl. Á Höfn í Hornafirði, hét þá Gissur hvíti SF 55.
Ný vél (1949) 88 ha. Kelvin vél.
Frá 15 júlí 1953 í eigu Helga Guðmundssonar, Hauks Bjarnasonar og Hrólfs Péturssonar í Stykkishólmi. Hét þá Gissur hvíti SH 150. Báturinn strandaði í fjörunni út af bænum Hliði á Álftanesi 28 júlí árið 1963. 5 menn voru á bátnum og var þeim bjargað um borð í trillu af mönnum frá Álftanesi. Báturinn mun hafa verið talinn ónýtur eftir strandið.

Sennilegt þykir að Gissur hvíti hafi verið smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni í Skipasmíðastöð Reykjavíkur á árunum 1925-26.
 

Gissur hvíti VE 5 í Vestmannaeyjahöfn.                                Ljósmynd í minni eigu.
 
Gissur hvíti VE 5 á leið inn í Vestmannaeyjahöfn.              Ljósmyndari óþekktur.

Gissur hvíti SH 150 á strandstað á Alftanesi.   (C) Sveinn Þormóðsson / Morgunblaðið.


 M.b. Gissur hvíti strandaði á grýttri fjöru á Álftanesi


Á sunnudagsmorgun strandaði M.b. Gissur hvíti frá Keflavík í stórgrýttri fjörunni á tanganum út af Hliði á Álftanesi. Fjórir skipverjar voru sofandi niðri, en skipstjóri við stýri. Eftir að tilraunir til að ná bátnum út með eigin vélarafli höfðu mistekizt og hann orðinn lekur fóru skipverjar í land á gúmbátnum, vélbátur sótti vélamann skömmu seinna, og loks skipstjóra. Lögreglan í Reykjavík var komin suðureftir og var ákveðið að færa skipstjóra til blóðtöku vegna gruns um ölvun. Við réttarhöld í Hafnarfirði í gær viðurkenndi hann að hafa verið undir áhrifum áfengis er í land kom, en ekki meðan á siglingunni stóð. Það kom fram við sjóprófin í Hafnarfirði, að báturinn var á leið til Keflavíkur. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær hann fór úr Reykjavíkurhöfn, en skipverjar telja það hafa verið um kl. 3 um nóttina. Skipstjóri kveðst hafa siglt eftir kompás, en dimmviðri hafi verið, og var dýptarmælir ekki í gangi. Veit hann ekki nánar um siglinguna fyrr en hann strandaði í fjörunni. Munar þar 4 strikum af réttri siglingarleið, ef miðað er við stefnuna frá 6. bauju út af Gróttu. Báturinn sást strandaður úr landi kl. 7:30 og þá gert aðvart til Slysavarnafélagsins og fóru lögreglumenn suður eftir. En kl. 8,25 báðu skipverjar um aðstoð um talstöðina.
Þrír skipverjar fóru í land á gúmbátnum, eftir að gat var komið á Gissur hvíta og sjór í lestar og lúkar, en vélamaður og skipstjóri neituðu að yfirgefa bátinn. Settu Álftanesbændur þá út trillu og fóru út að bátnum, til að sækja mennina tvo. Tókst þeim að fá vélstjórann til að koma með sér, en skipstjóri taldi auðvelt að bjarga bátnum og kvaðst vilja fá björgunarskip og loftbelgi á stundinni. Mátti auðveldlega kalla út í bátinn og hvöttu allir skipstjóra til að koma í land. Um 10 leytið féllst hann á það og var sóttur í trillunni. Er í land kom, reyndist skipstjóri allæstur og heimtaði björgunarskip. Ákvað lögreglan þá að flytja hann til blóðtöku vegna gruns um ölvun og var hann ásamt vélstjóra fluttur í lögreglubíl á slysavarðstofuna, en aðrir skipsmenn fóru til Hafnarfjarðar. Gissur hvíti er 19 smálesta eikarbátur, smíðaður í Reykjavik árið 1925. Skipstjórinn er eigandi að bátnum, ásamt bróður sínum.

Morgunblaðið. 30 júlí 1963.

Flettingar í dag: 339
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742098
Samtals gestir: 55924
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 01:17:13