29.09.2023 10:53

578. Herra Þórður Þorláksson ÁR 3.

Vélbáturinn Herra Þórður Þorláksson ÁR 3 var smíðaður í Hafnarfirði (Bátasmíðastöð Breiðfirðinga ?) árið 1953 fyrir Meitilinn h.f. í Þorlákshöfn. Fura og Eik. 10 brl. 6 nt. 65 ha. Albion vél. 11,38 x 3,08 x 1,36 m. Frá 22 febrúar 1958 var hann í eigu Jóhanns Þorsteinssonar í Vestmannaeyjum, hét þá Hrefna VE 7. Frá 7 maí 1959 er báturinn í eigu Sveins Benediktssonar skipstjóra í Neskaupstað, hét Hrefna NK 27. Í norðvestan ofsaveðri sem gekk yfir Norðfjörð aðfaranótt 9 febrúar 1965, slitnaði Hrefna úr bóli sínu og rak á bryggju Ölvers Guðmundssonar útgerðarmanns og tók hana með sér upp í fjöru. Talin ónýt eftir þessa fjöruferð og tekin af skrá síðar þetta sama ár.

Ég leyfi mér að fullyrða það að Herra Þórður Þorláksson ÁR 3 hafi verið smíðaður í Bátasmíðastöð Breiðfirðinga í Hafnarfirði. Sandvíkingur II ÁR 29 var smíðaður þar fyrir Ara Pál Hannesson, bræður hans í Stóru-Sandvík í Flóa og fl. á því ári, 8 brl, og skrokklag bátanna er nokkurnvegin það sama.

Nafn bátsins er væntanlega komið frá Þórði Þorlákssyni 1637-1697, sem var biskup í Skálholti frá 1674. Hann flutti prentverkið frá Hólum til Skálholts og varð fyrstur til að prenta fornrit á Íslandi. „Herra“ nafnið hefur hann augljóslega fengið frá sveitungum sínum á Suðurlandi, enda var hann við alþýðuskap og trúr sínum sóknarbörnum. Hann var sonur Þorláks Skúlasonar 1597-1656, biskups á Hólum frá 1628 til dánardags 1656.
 

Herra Þórður Þorláksson ÁR 3. Á myndinni ber hann nafnið Hrefna VE 7. (C) Tryggvi Sigurðsson.
 
Hrefna NK 27.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

 

                        Þorlákshöfn


Sex þiljaðir vélbátar stunduðu veiðar alla vertíðina og sá sjöundi byrjaði í aprílmánuði, nýr bátur, sem heitir Þórður Þorláksson. Árið áður voru einnig gerðir út sex bátar, en einn þeirra var aðeins 1.1/2 mánuð við veiðar. Allir stunduðu bátarnir veiðar með línu og netjum, að einum undanskildum, sem aflaði eingöngu í net.

Ægir. 7-8 tbl. 1 júlí 1953.
 

Hrefna NK 27 eftir óveðrið 9 febrúar 1965. Maðurinn á myndinni er Lúðvík Davíðsson. Ljósmyndari óþekktur.
 
Hrefna NK 27 í fjöruborðinu. Maðurinn á myndinni er Reynir Zoega sem á þessum tíma var að ég held formaður björgunarsveitarinnar Gerpis í Neskaupstað. Ljósmyndari óþekktur.

                   Særokið fyllti fjörðinn

Neskaupstað 9 febrúar. Hér var snarvitlaust veður í alla nótt. Tveir bátar slitnuðu frá bólum sínum á firðinum og rak upp í fjöru. Þeir munu vera því sem næst ónýtir. Bátarnir eru Hrefna NK 27, 10 tonn að stærð, og Kristbjörg NK 10, 4 tonn að stærð. Veðurhæðin var svo mikil, þegar menn urðu þess varir að bátarnir voru að fara, að ekkert viðlit var að gera neitt til hjálpar. Sæsilfur h.f. átti 500 síldartunnur í stafla inni í fjarðarbotni. Þær fuku á tvist og bast og í dag hafa menn verið að tína þær upp af fjörum, en að mikil afföll urðu og hafa sumar eflaust rekið til hafs. Þegar Hrefna slitnaði upp og rak á land, tók hún með sér bryggju og viðlegupláss Ölvers Guðmundssonar útgerðarmanns, en fiskvinnsluhús hans brunnu um jólin. Útgerðarmenn eiga við sitt hvað að stríða og ekki er ein báran stök. Þá fuku plötur af húsþökum og rúður brotnuðu í húsum. Svona veður hefur örugglega ekki komið hér eystra í manna minnum. Það var blátt áfram ofsalegt og heppni að það skall á að nóttu til þegar engir voru á ferli. Vindátt var NV eða VNV. Þeir, sem litu út þegar hæst stóð í stönginni, segja að sjórokið hafi verið eins og þoka upp í miðjar fjallshlíðar, en fjöll við Norðfjörð eru bæði há og sjóbrött. Veðrið stóð í alla nótt og lygndi ekki fyrr en um 6 eða 7 leytið í morgun. Í dag hefur verið svona strekkingsvindur, en engin aftök.

Alþýðublaðið. 10 febrúar 1965.

Flettingar í dag: 10
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 741769
Samtals gestir: 55908
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 00:09:02