03.11.2023 10:43

B.v. Akurey AK 77. TFHC.

Nýsköpunartogarinn Akurey AK 77 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley í Englandi árið 1947. Hét fyrst Akurey RE 95 og var í eigu h.f. Akurey (Oddur Helgason og fl.) í Reykjavík. 655 brl. 1.000 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Charles D Holmes & Co í Hull. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 779. Skipaskrárnúmer 1. Fyrsti skipstjóri var Kristján Kristjánsson. Akurey kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 3 ágúst 1947. Um miðjan ágústmánuð sama ár hélt Akurey til veiða á Grænlandsmið, en lítill árangur varð og fékk skipið sama og engan afla á þeim slóðum. Sagt hefur verið að Akurey hafi verið fyrsti íslenski togarinn til að reyna veiðar á Grænlandsmiðum, en það er ekki rétt. Haustið 1914, hélt togari Íslandsfélagsins, Apríl RE 151 til veiða þangað en varð lítið ágengt sökum mikils ísreks og kolaforði skipsins á þrotum, svo haldið var heim á leið. Skipstjóri á Apríl var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti). Togarinn var seldur í júlí 1951, Bæjarútgerð Akraness h.f, sama nafn en skráningarnúmer AK 77. Akurey gerði það gott á Grænlandsmiðum síðar, t.d. sumarið 1957 fékk togarinn fullfermi af karfa eftir 5 daga veiði á miðunum út af Julianehåb. Nýsköpunartogararnir voru öflug skip og fiskuðu mikið. Uppúr 1952 var sótt mikið á fjarlæg mið, við Grænland og þá yfirleitt veitt í salt og voru þá veiðiferðirnar langar. Svo var mikið sótt á miðin við Nýfundnaland (Ritubanka) um 1958 og fram yfir 1960. Fylltu skipin sig af karfa, jafnvel á 2 til 3 sólarhringum. Togarinn var seldur í febrúar 1964, Sigurd Simonsen skipstjóra og útgerðarmanni í Fuglafirði í Færeyjum. Kaupin gengu til baka síðar það ár, því ekki fékkst innflutningsleyfi fyrir skipið í Færeyjum, því það þótti of gamalt. Til stóð að selja togarann til Argentínu en það gekk ekki eftir. Akurey var að lokum seld í júlí 1966, Bjarne Benediktsen í Gibostad í N-Noregi, hét þá Akeroy. Frá 1967-68 í eigu Erling Jul Petersen í Tromsö í N-Noregi, hét þá Petrel. Ný vél (1968) 1.500 ha. Deutz SBV8M545 díesel vél. Var þar um tíma notað til olíuleitar og jafnframt til jarðskjálftarannsókna. Var um tíma í eigu Bjarne Rongos í Noregi. Frá 1976 í eigu Techno Navigation of Sillery í Quebec í Kanada, hét Petrel V. Var notað til rannsókna í sjávarlíffræði við austurströnd Kanada. Frá 2000 í eigu Atlantic Towing Ltd í St. John´s á Nýfundnalandi, hét þá Cape Harrison. Frá 2007 í eigu Canadian Sailing Expedition í Halifax, fékk þá nafnið Caledonia. Skipinu var breytt í þrímastra seglskip og sigldi með farþega aðallega um Karíbahafið. Núverandi eigendur Caledonia munu vera Caterpillar Financial Services í Burlington í Kanada. Í dag er Caledonia fljótandi veitingastaður. Ég held að staðurinn heiti“The Tall Ship Caledonia resturant“, og liggur við bryggju í Boston, Massachusetts í Bandaríkjunum.
Sennilegt þykir að Akurey sé eini nýsköpunartogarinn sem til er í dag. Auðvitað er búið að endursmíða mikið í því, en skrokkurinn er að mestu sá sami og í upphafi. Það gæti verið að annar nýsköpunartogari sé til ennþá, og þá í Grikklandi, fyrrum Elliðaey VE 10, en þangað var skipið selt á sínum tíma.

Firmað Fiskveiðahlutafélagið Akurey á Akranesi var skráð árið 1951 og í stjórn þess voru:,
Jón Guðmundsson, Þorgeir Jósepsson og Hallfreður Guðmundsson, allir búsettir á Akranesi. Þetta félag hefur sjálfsagt komið að útgerðar Akureyjar ásamt Bæjarútgerð Akraness. Í íslensku sjómannaalmanökunum frá 1952-66, er Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. H.f. Akurey og Bæjarútgerð Akraness hafa þá verið útgerðaraðilar togarans, ekki skráðir eigendur.

B.v. Akurey AK 77 í heimahöfn á Akranesi.                               (C) Ólafur Árnason.


       Bæjarútgerð Akraness kaupir togarann Akurey

Bæjarútgerð Akraness hefur samið um kaup á togaranum Akurey, og mun í ráði, að togarinn verði afhentur Akurnesingum þegar hann kemur frá Þýzkalandi, en hann er nú á leiðinni þaðan. Akurey er einn af nýsköpunartogurunum, en aðaleigandi hlutafélagsins, sem átti skipið, er Oddur Helgason, útgerðarmaður í Reykjavík. Að undanförnu hafa forustumenn bæjarútgerðarinnar á Akranesi unnið að samningum um togarakaupin, og mun samningum nú vera lokið, en aðeins eftir að ganga frá ríkisábyrgð fyrir kaupunum. Kaupverð togarans mun vera 5,8 milljónir króna, og þar af þarf bæjarútgerð Akraness að greiða strax 800 þúsund krónur. Á bæjarútgerð Akraness þá tvo togara, Bjarna Ólafson og Akurey; en sennilega mun verða skipt um nafn á Akurey, þegar hún flyzt til Akraness; en ekki mun vera búið að ákveða hið nýja nafn.

Alþýðublaðið. 23 október 1951.

 

B.v. Akurey RE 95.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Akurey AK 77 í heimahöfn með fullfermi.                 (C) Sverrir Sighvatsson.



                       Bæjarútgerð Akraness 10 ára

Það hljóp mörgum Akurnesingum kapp í kinn hinn 29. júlí 1947 þegar nýsköpunartogarinn Bjarni Ólafsson renndi fánum skreyttur í blíðu veðri að hafnargarðinum. Fögnuður fólksins, ungra sem gamalla, var óblandinn og innilegur. Fyrsti togari Akurnesinga var fallegt skip og bæjarstjórnin valdi honum einróma nafn Bjarna heitins Ólafssonar skipstjóra frá Litla-Teigi. Það var mikil viðurkenning á lífsstarfi Bjarna, eins orkudjarfasta og harðduglegasta manns sem lifað hefur á Akranesi. Bjarni var skipstjóri frá tvítugsaldri á eigin skipum til hinztu stundar og alltaf í fremstu víglínu á hafinu. Togarinn Bjarni Ólafsson var keyptur hingað á vegum bæjarsjóðs Akraness fyrir fulltingi ríkisins og er því bæjarútgerð Akraness réttra 10 ára í dag. Rúmum fjórum árum síðar í nóvember 1951 var keyptur hingað togarinn Akurey frá samnefndu félagi í Reykjavík, einnig fyrir fulltingi ríkisins. Síðan hafa bæjartogararnir verið tveir. Þess gætti framan af að skoðanir manna voru skiptar um togarakaup bæjarins. En reynslan hefur sýnt og sannað að hvergi nærri er einhlýtt að eiga góðan bátaflota. Kaupstaðirnir þurfa einnig að eiga stærri skip, sem geta sótt á fjarlægari mið og því takmarki hafa Akurnesingar náð, hvernig svo sem rætist úr um bæjarútgerð þeirra.
Í fyrstu varð að fá flesta mennina að til togarastarfanna en nú mun svo komið að manna mætti þriðja togarann með vönum Akurnesingum til þessara starfa. Skipstjóri á Bjarna hefur verið nær óslitið frá byrjun Jónmundur Gíslason úr Reykjavík, farsæll maður og vel látinn. En á Akurey hefur Kristján Kristjánsson frá Hafnarfirði verið skipstjóri síðan í febrúar 1955 og reyndist ötull og aflasæll. í tilefni af afmælinu átti blaðið tal við Hallfreð Guðmundsson formann útgerðarráðs Akraness. Hallfreður sagði, að fáir gerðu sér ljóst hversu mikil lyftistöng togaraútgerðin hefði verið Akraneskaupstað eins og svo mörgum öðrum bæjarfélögum hér á landi, þar sem afkoma fólksins hefði byggzt á sjósókn fyrst og fremst. Hins vegar kvaðst hann ekki vilja draga neina dul á það, að allir þeir, er staðið hefðu að kaupum þessara tveggja togara hefðu gert sér meiri vonir um afkomu þeirra en almenningi virtist nú í fljótu bragði hafa orðið. Það var hér á fyrstu tugum þessarar aldar mikið rætt og ritað um glæsilega afkomu togaraútgerðarinnar, og auðlegð þeirra manna, er við hana fengust, heldur Hallfreður áfram. Og víst var það rétt, sem betur fór, að víðast var afkoma þeirra, er fengust við togaraútgerð mjög hagstæð, og margur hornsteinninn var lagður í uppbyggingu þjóðfélagsins fyrir tilkomu togaranna.
Svo er þetta enn í dag, enda þótt þess hörmulega misskilnings hafi gætt hjá allt of mörgum, að togaraútgerð og öll útgerð yfirleitt væri orðin þjóðfélagslegur baggi, vegna óhagstæðrar útkomu á pappírnum. Hinu virðast of fáir gera sér grein fyrir, að velmegun almennings byggist fyrst og fremst á því og því einu, að hver muðar fái réttlátt kaup reglulega goldið. Lífsafkoma Akurnesinga hefur fyrr og síðar verið háð sjávarafla. Akurnesingum hefur verið það Ijóst, að nauðsyn ber til þess að auka fiskiflotann með sem afkastamestum skipum, svo atvinna ykist eftir því sem fólkinu fjölgaði í bænum. Því var það, að þeir stóðu saman um að eignast hinn glæsilega togara, Bjarna Ólafsson og síðar Akurey. Var svo litið á, að hagstæðara væri að reka tvo togara en einn og því var ráðist í að kaupa einnig Akureyna. Hins vegar hafa aðstæður síðan breytzt í óhagstæðara horf. En þó að ekki hafi verið gróði á pappírnum á rekstri togara Bæjarútgerðar Akraness sést bezt á eftirfarandi tölum hve gífurleg verðmæti og atvinnu togararnir hafa skipað. Bjarni Ólafsson hefur frá því að hann kom 1947 lagt á land alls tæp 47 þús. tonn fiskjar, sem að verðmæti er tæp 41 milljón króna. Er hér miðað við seldan fisk upp úr skipi, utan lands og innan. Og vinnulaun hans nema 20.7 millj. kr. Á Akranesi hefur hann lagt á land 36.4 þús. tonn. Frá því að Akurey kom í nóv. 1951 hefur hún veitt alls 26.7 þús. tonn, er að verðmæti hefur numið 23.7 millj. kr. eins og áður miðað við seldan afla upp úr skipi. Af þessum afla hafa 24.4 þús. tonn verið lögð á land. Greitt hefur verið í vinnulaun um borð í skipinu og við uppskipun 12.9 millj. kr. Hér eru þó ekki talin með þau vinnulaun, er greidd hafa verið fyrir viðgerðir, en það er gífurleg upphæð. Bæði skipin hafa lagt á land hérlendis 60.9 millj. kr. og greitt í vinnulaun 33.6 millj. kr., viðgerðir ekki taldar með. Hallfreður sagði að lokum, að lesendur gætu séð af þessum tölum, hve mikla þýðingu togararnir hefðu haft fyrir allt atvinnulíf Akraness. Í útgerðarráði Akraness eiga sæti auk Hallfreðs, sem er formaður, Sigurður Guðmundsson og Ólafur B. Bjömsson.

Sjómannadagsblaðið Víkingur. 1 október 1957.
 

Skipverjar á b/v Akurey RE 95, árið 1948. Aftari röð frá vinstri: Guðjón Eyjólfsson, Sigursteinn Magnússon, Ólafur Ingvarsson, Ágúst Jónsson, Pétur Jóhannsson, Guðmundur Helgason, Sighvatur Sigurjónsson, Karlvel Sigurgeirsson, Þorvaldur Sigurgeirsson, Guðjón Kristjánsson, Jón Kristjánsson, Axel Siggeirsson, Hans Hansson, Þorsteinn Ágústsson, Rafn Kristjánsson. Fremri röð, frá vinstri: Jörgen Kr. Jónsson, Hilmar Jónsson, bátsmaður, Sigurður Tómasson, 2. stýrimaður, Jóhann Magnússon, 1. stýrimaður, Kristján Kristjánsson, skipstjóri, Eyjólfur Einarsson, 1. vélstjóri, Einar Th. Guðmundsson, 3. vélstjóri, Jón Albertsson, kyndari, Kristján Ásgeirsson, 1. matsveinn, Valdimar Einarsson.

Akurey AK 77 og Bjarni Ólafsson AK 67 í Reykjavíkurhöfn.  Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Akurey AK 77 við bryggju í Færeyjum.                            Ljósmyndari óþekktur.



               Verður Akurey seld til Færeyja?
 Spjallað við tilvonandi kaupanda, Sigurd Simonsen

Togarinn Akurey, sem legið hefur við festar í Hvalfirði síðastliðin 2 ár og safnað á sig þangi og kræklingi, er nú kominn upp í slipp í Reykjavík. Þaralagið hefur verið hreinsað af botni skipsins, og er dráttarbrautin, frá þeim stað, sem hún stendur á, og allt niður í fjöru, þakin sjávardýrum og gróðri. Þegar fréttamaður og ljósmyndari Mbl. komu í heimsókn á athafnasvæði Slippfélagsins í gær, unnu menn að því að sjóða ryð úr kælivatnssigtunum. Í sama mund bar að Pétur Wiegelund, verkstjóra, ásamt færeyskum skipstjóra, sem kom til Reykjavíkur með Drottningunni nokkrum klukkustundum áður. Skipstjóri þessi, Sigurd Simonsen, er kominn hér þeirra erinda að festa kaup á Akurey, sem verið hefur föl um nokkurt skeið. Hann talar ágæta íslenzku, enda hefur hann oft komið hingað, í fyrsta sinn á skútu, árið 1927, þá 14 ára. Er Simonsen hefur skoðað togarann, spyrjum við hann, hvernig honum lítist á gripinn. „Mjög vel. Mér virðist þetta vera bezta skip, og er ákveðinn í því að kaupa það. Ég held, að mér muni semja við eigendurna. Ef svo fer kemur áhöfn frá Færeyjum með næstu ferð Drottningarinnar og við siglum Akurey til Fuglafjarðar á Austurey. Smávægilega viðgerð þarf að gera á skipinu fyrst, svo að, það fullnægi kröfum Lloyds.“ „Ætlar þú að gera togarann út frá heimabæ þínum, Fuglafirði?“ „Já, þar er bezta höfn í Færeyjum. Í Fuglafirði búa um 1300 manns. Þar er einn togari fyrir. Saltfiskverkun er þar mikil, en aðeins eitt lítið frystihús. Við hyggjumst stunda veiðar í salt, einkum við Grænland. Þó hefðum við farið einn túr til Nýfundnalands, ef Akurey hefði verið tilbúin til afhendingar í dag, því þar eru allir færeysku togararnir nú. Eftir 3 vikur verður það orðið of sent." „Hverjir verða með þér í kaupum Akureyjar?“ „Synir mínir tveir, Árni og Sigurd. Þeir eru báðir stýrimenn á togurum. Við erum bjartsýnir og munum hætta öllum eignum okkar í þetta fyrirtæki. Ekki verða aðrir eigendur." „Hefur þú verið skipstjóri á togara að undanförnu?" „Nei, síðustu 10 árin, hef ég verið skipstjóri á dönsku flutningaskipi, sem heldur uppi ferðum milli Danmerkur og ýmissa hafna í Færeyjum. Áður var ég hins vegar togaraskipstjóri um 14 ára skeið. Vorum við þá á ýmsum miðum, einkum við Ísland, Bjarnarey, Svalbarð og í Hvítahafi. Var ýmist fiskað í salt eða ís.“ „Eru togararnir færeysku oftast á saltfiskveiðum?" „Já, þær þykja hagkvæmastar fyrir togarana okkar. Hins vegar sigla bátarnir yfirleitt með afla sinn ísaðan til Bretlands. Þeir eru flestir 250 til 300 tonn og eru að veiðum 10 til 12 daga. Meðalafli þeirra er 1000—1200 kitt, sem þeir selja á 500—700 sterlings pund. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Færeyinga, að íslendingar lækki ekki verðið á útflutningsfiski sínum. Við höfum alltaf verið tryggir ykkur og jafnframt borið mikið traust til íslenzku þjóðarinnar og erum því ekki mjög kvíðnir, en ef íslendingar lækkuðu t. d. verð á saltfiski, yrði það alvarlegur búhnekkur fyrir okkur.“ „Hafa ekki mjög margir færeyskir sjómenn komið til Íslands? “ „Jú, mikill fjöldi og sumir til að vinna hjá íslendingum, eins og kunnugt er. Færeyingar byggja alltof fá skip, en hins vegar eru flestir sjómenn. Þessvegna eru sjómannslaun í Færeyjum afar lá, eða aðeins um 1000 færeyskar krónur. (um 6300 isl. kr.). Á Íslandi er færeyskum sjómönnum boðið miklu hærra kaup, 1800 til 2000 kr.“ „Ætlar þú að dveljast hér á meðan viðgerðin á Akurey fer fram, ef semst um kaupin?“ „Nei, ég þarf ekki að gera það. Ég fer heim og sæki skipshöfnina. Ég treysti Pétri Wiegelund fullkomlega til að sjá um að allt sé gert eins vel úr garði og unnt er. Hamn er gamall og góður vinur minn.“  

Morgunblaðið. 1 febrúar 1964.
 

Petrel.                                                                                                     (C) Karl Karlsen.
 
Petrel V.                                                                                                 (C) Fred Boels.
 
Cape Harrison í Halifax árið 2002.                                         Ljósmyndari óþekktur.
 
Caledonia undir fullum seglum.            Mynd úr safni Óskars Franz Óskarssonar.
 
Fljótandi veitingahúsið "The Tall Ship Caledonia við bryggju í Boston.  Ljósmyndari óþekktur.
           Togarinn Akurey til Noregs

Togarinn Akurey verður seldur til Noregs og voru kaupandinn og bæjarstjóri Akraness að ganga frá samningum um söluna í gær. Þar sem því var ekki lokið fengust ekki nánari upplýsingar um söluna. Kaupandinn er Bjarne Benediktsen, útgerðarmaður frá Tromsö í Noregi, og mun hann ætla að gera Akurey út til trollveiða og láta hann leggja upp í Hammerfest. Akurey AK 77 er stálskip, byggt í Englandi árið 1947. Togarinn er nú í slippnum í Reykjavík.

Morgunblaðið. 29 júlí 1966.

Akurey AK 77. Líkan Óttars Guðmundssonar.                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Fyrirkomulagsteikning af Akurey RE 95 / AK 77.            (C) Óttar Guðmundsson.
 
B.v. Akurey RE 95.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

       „Akurey“ kom hingað á sunnudag


Enn einn hinna glæsilegu nýsköpunartogara er kominn tii landsins. Á sunnudagsmorgun sigldi hjer inn á ytri höfnina Reykjavíkurtogarinn Akurey RE 95, Eigendur hans eru samnefnt hlutafjelag hjer í bænum. Togarinn Akurey, er bygður í Bewerley. Ferðin hingað heim tók 3 og hálfan sólarhring frá Hull og eins og vænta mátti gekk ferðin vel og skipið reyndist hið besta. Akurey er lítilsháttar frábrugðinn hinum eldri nýsköpunartogurum og liggur aðalmunurinn í byggingarlagi hvalbaksins. Skipstjóri og aðrir yfirmenn voru áður á bv. Viðey. Skipstjórinn er Kristján Kristjánsson. Fyrsti stýrimaður er Jóhann Magnússon og fyrsti vjélstjóri Eyjólfur Einarsson. Að hlutafjelaginu Akurey standa Oddur Helgason, útgerðarmaður, Kristján Kristjánsson skipstjóri á skipinu o. fl. Oddur er framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 6 ágúst 1947.

Flettingar í dag: 696
Gestir í dag: 154
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739348
Samtals gestir: 55744
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 05:26:30