14.11.2023 08:29

Neðansjávargos suðvestur af Heimaey.

Í dag, 14 nóvember, eru liðin 60 ár frá mesta neðansjávareldgosi við Ísland á sögulegum tíma. Það var rúmlega sjö að morgni hinn 14 nóvember árið 1963 að skipverjar á Vestmannaeyjabátnum Ísleifi ll VE 36 urðu varir við ólgu og gufubólstra í sjónum um 3 sjómílur vestur af Geirfugladrangi. Þessi eldsumbrot hlóðu upp stóra eyju sem fékk nafnið Surtsey. Það gaus einnig á nokkrum stöðum í grennd við eyjuna og aðrar eyjur mynduðust, en þær hurfu fljótt vegna ágangs sjávar. Surtseyjargosið stóð yfir í tæplega 4 ár.

Farþega og flutningaskipið Gullfoss á siglingu við gosstaðinn 17 nóvember 1963. Mynd á póstkorti.



                        Neðansjávargos SV af Eyjum
                   Eyja að myndast

Í Gærmorgun kl. 7.15 komu skipverjar á Ísleifi frá Vestmannaeyjum auga á neðansjávargos 3 sjómílur vestur frá Geirfuglaskeri. Hélzt gosið í allan gærdag og þar til síðast fréttist. Gýs þarna á 65 faðma dýpi á Hraununum og stendur gosmökkurinn 20 þús fet upp í loftið eða 6 km, samkv. mælingum sem gerðar voru í gær af veðurstofunni, með radar á Keflavík og úr flugvélum. Þarna hefur myndazt allt að 800 m. löng sprunga á hafsbotni og þeytir hún upp hrauni á tveim stöðum, en það er svo laust í sér að það er orðið að mestu að gjalli og ösku uppi í strókunum, en þó nokkuð stórar bombur í því. Nokkrar eldglæringar hafa sézt í gosmekkinum. Líklegt er talið að það séu eldingar sem myndast á venjulegan hátt, þegar gufan fer svona hratt upp, en ekki hraunslettur, skv. skýringu Páls Bergþórssonar, veðurfræðings. Einnig bylur hagl með vikri í á flugvélum og bátum í kring, en það myndast á sama hátt og venjulegt hagl í kuldanum utan um vikurinn. Fyrir tveimur dögum fundu menn í Vík í Mýrdal brennisteinsfýlu. Þeir furðuðu sig á því, þar sem þeir eiga fremur von á gosfýlu af jöklum en hafi. Sigurður Þórarinsson kvað þetta mjög merkilegt, og vel líklegt að gufur hafi verið farnar að berast af neðansjávargosstöðvunum það löngu áður. Nýju eldstöðvarnar virðast vera á sömu sprungu og þeirri er Vestmannaeyjar hafa myndazt úr. Þær eru líka á norðaustur  suðvesturlínunni, sem nær öll eldgos á Íslandi hafa orðið á og nú síðast hafa á skömmum tíma orðið á þrjú eldgos, í Öskju, Heklu og við Vestmannaeyjar. Þetta sýnir vel að ísland er alveg jafn „lifandi“ og liðnar aldir, að því er Sigurður Þórarinsson tjáði Mbl. Á þessari öld erum við búin að ná meðaltali gosa, sem er á 5 ára fresti. 12 gos hafa orðið á þessari öld: 1903 á Vatnajökli, 1913 í Mundafelli austan við Heklu, 1918 í Kötlu, 1922 í Vatnajökli, á Öskjusvæðinu 4 gos 1922—1926, 1934 í Grímsvötnum, Hekla 1947 og Askja 1961, sem sagt ,12 gos á 60 árum. Sigurður Þórarinsson flaug aftur yfir eldstöðvarnar síðdegis í gær. Var gosið álíka mikið, en honum sýndist sjórinn í kring benda til þess að eyja sé að stinga upp kollinum. Engar eldglæringar sáust. Í gærkvöldi fór Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, á varðskipinu Albert kringum gosið. Sagði hann að þá hefðu greinilega komið stöku glóandi hraundellur upp með gjallinu, en öskudreif verið lítil. Venjulega hafa miklir jarðskjálftar fylgt eldgosum á þessum slóðum, en nú hafa engir jarðskjálftar mælzt, hvorki í Reykjavík eða Vík í Mýrdal.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1963.
 

Við upphaf eldgossins.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
Fyrstu dagar gossins. Eyjan farin að myndast.                     Ljósmyndari óþekktur.

                                                                    
                                           Surtseyjargosið

Það voru skipverjar á Ísleifi ll sem tilkynntu um neðansjávareldgos að morgni 14. nóvember 1963. Þá mældu þeir sjávarhita í hálfrar mílu (um 900 metra) fjarlægð í um 10°C. Gosið magnaðist hratt og fjórum tímum eftir að tilkynnt var um gosið hafði gosmökkurinn náð 3.500 metra hæð. Strax daginn eftir var gosmökkurinn kominn í rúmlega 9.000 metra hæð og upp hafði hlaðist gjóskubunki sem náði 10 metra upp fyrir sjávarmál þar sem áður var 130 metra sjávardýpi og því er líklegt að gosið hafi hafist nokkrum dögum áður en þess varð fyrst vart. Í suðvestan átt þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti við Vík í Mýrdal en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð með hléum fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár. Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands.
Við gosið varð til syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, og jafnframt á Íslandi, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'W. Hún er jafnframt eina eyjan sem hefur myndast á sögulegum tíma við Ísland og myndaðist hún í mesta neðansjávareldgosi sem sögur fara af.
Eyjan fékk nafnið Surtsey og er nafnið tekið úr norrænni goðafræði. Minnst er á Surt hinn svarta í Völuspá: „Surtr ferr sunnan; með sviga lævi“. Strax þegar eyjan myndaðist sáu vísindamenn hversu frábært tækifæri þeir höfðu til þess að rannsaka nýja eyju og landnám lífs á eynni. Surtsey var því friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd (lög 44/1999). Vísindamenn hafa því tækifæri til að fylgjast með hvernig líf tekur land og þróast á nýjum stað. Umferð í Surtsey er aðeins leyfð í vísindaskyni og þarf leyfi Surtseyjarfélagsins til að heimsækja eyjuna.
Nokkrar gossprungur opnuðust við Surtsey á meðan á gosinu stóð. Mánuði eftir upphaf gossins opnaðist sprunga norðaustan við Surtsey sem gefið var nafnið Surtla en engin eyja myndaðist. Árið 1965 mynduðust tvær eyjar, Syrtlingur austnorðaustan við Surtsey og Jólnir suðvestan Surtseyjar. Báðar eyjarnar létu undan ágangi Norður-Atlantshafsins og hurfu í hafið.

Vefsíðan Heimaslóð.

 

                                                                                                                                                                   

 

Flettingar í dag: 1458
Gestir í dag: 239
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740110
Samtals gestir: 55829
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 13:55:16