25.11.2023 09:29

Færeyska flutningaskipið Hólmur strandar í Ólafsfirði.

Flutningaskipið Hólmur var á leið til Ólafsfjarðar með saltfarm að kvöldi 29 mars árið 1978. Skipið villtist af réttri leið inn fjörðinn með þeim afleyðingum að það strandaði á Ósbrekkusandi um 100 metra frá landi. Áhöfn skipsins, 5 menn, sakaði ekki. Norðaustan 6-7 vindstig og mikill sjór voru í Ólafsfirði þegar Hólmur strandaði. Strax daginn eftir gerðu varðskipsmenn af Óðni tilraun til að koma dráttartaug um borð í Hólm sem heppnaðist, en gúmbátur með 3 varðskipsmönnum sem ætluðu að koma dráttartaug upp í fjöru, fékk á sig ólag og hvoldi. Mennirnir komust á land með hjálp björgunarmanna sem voru í fjörunni. Voru þeir orðnir nokkuð kaldir en hresstust fljótt eftir góða aðhlynningu heimamanna. Vegur var lagður út að skipinu til að losa farminn sem var um 100 tonn af salti. Nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að ná Hólmi út, en þær mistókust allar. Ólafsfjarðarbær mun hafa farið í mál við tryggingafélag skipsins, en hætt við það er flak þess var selt Ólafi Jónssyni í Reykjavík 9 apríl sama ár. En ekkert varð úr neinu og dagaði flak Hólms uppi í fjörunni.

Hólmur var smíðaður hjá Otto Andersen & Co Wivenhoe í London árið 1929 sem togari. Á smíðatíma skipsins var farið fram á uppboð á skrokknum, en hætt var við það og skrokkurinn var seldur 22 janúar 1929, Boston Deep Sea Fishing & Ice co Ltd í Fleetwood. Skrokkurinn var síðan dreginn til Fleetwood og skipið klárað hjá James Robertson & Sons Ltd í Fleetwood 15 nóvember 1929. Fékk þá nafnið Evalana FD 55. 384 brl, 122 nt. 600 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá McKie & Baxter í Glasgow í Skotlandi. 142,5 x 25,0 x 13,0 ft. Smíðanúmer 1351. Svo er eigendasaga skipsins eitthvað á þessa leið:,
1931-36. Í eigu Victor Fourny-P. Altazin Fourny & Cie í Boulogne í Frakklandi, hét Evalana B 1464.
1936-37. Í eigu Pécheries de la Morinie í Boulogne, sama nafn og númer.
1937-39. Í eigu Towarzystow Dalekomorskich Polowow „Pomorse“ Sp.z.o.a., í Gdynia í Póllandi, hét þá Cezary GDY 111 og var gerður út frá Ijmuiden í Hollandi.
1939-40. Í eigu Adam Steam Fishing Co Ltd í London, hét þá Count FD 89. Tekinn í þjónustu sjóhersins í febrúar 1940 og bar þar númerið Z-109. Skilað til eigenda í nóvember 1945.
1940-46. Í eigu Boston Deep Sea Fishing & Ice Co Ltd í Fleetwood, sama nafn og númer.
1946-49. Í eigu Christian Holm Jacobsen í Þórshöfn í Færeyjum, hét þá Sildberin TN 40.
1949-54. Í eigu N.J. Arge í Þórshöfn í Færeyjum, hét Guttaberg TN 40.
1954-64. Í eigu p/f Hólmur (K. Hansen) í Saurvogi í Færeyjum, hét þá Hólmur. 1955 var Skipið lengt og breytt í flutningaskip. Mældist þá 412 br, 201 nt. 157,0 x 25,0 x 14,0 ft. Einnig var sett ný vél í skipið, 545 ha. Polar M471 díesel vél (árgerð 1942).
1964-69. Í eigu p/f Hólmur (D.P. Höjgaard / Havstein Ellingsgaard) í Rúnavík í Færeyjum, sama nafn. Ný vél (1965) 600 ha. Alpha vél.
1969-78. Í eigu p/f Hólmur (Rósing Rasmussen) í Þórshöfn, sama nafn. Hólmur strandaði í Ólafsfirði 29 mars árið 1978 eins og segir hér að ofan og varð þar til á Ósbrekkusandinum.

Færeyska flutningaskipið Hólmur.                                                   (C) Jan Melchers. 
 
Varðskipsmenn að koma línu í land.                                   (C) Björn K Þorsteinsson.
 
Varðskipsmanni bjargað upp í fjöru.                                       (C) Svavar Magnússon.
                                  

                      Skip strandar
           Varðskipsmenn hætt komnir

 Um kl. 22.30 í fyrrakvöld strandaði færeyska flutningaskipið Hólmur í Ólafsfirði vestanverðum þar sem heitir Ósbrekkusandur. Hásjávað var þegar skipið tók niðri og fór það langt upp í fjöruna. Reynt var að ná því á flot í gærdag en það tókst ekki. Agnar Víglundsson fréttaritari Norðurlands á Ólafsfirði sagði svo frá í gær að menn hefðu eiginlega ekki átt von á skipinu sem er 400 tonn og var að koma með saltfarm til Ólafsfjarðar. Hvasst var og frekar dimmt yfir og bjuggust menn ekki við að það reyndi að komast inn á fjörðinn en hafnarskilyrði þar eru afleit í norðaustanátt. Þeir hafa svo villst rækilega af leið, sagði Agnar, því strandstaðurinn er langt frá höfninni, við fjörðinn vestanverðan. Skipið stendur í fjörunni, nokkuð hátt en það er á réttum kili. Mannskapurinn, 5 manns, er allur um borð og skipið virðist ekkert vera skemmt, td. gengu allar vélar þegar björgunarsveitarmenn komu um borð í nótt. Varðskipið Óðinn kom svo hingað í morgun og var gerð tilraun til að draga skipið á flot á síðdegisflóðinu í gær. Illa gekk í fyrstu að koma taug um borð í skipið því það brýtur fyrir aftan það. Við þær tilraunir gerðist það að varðskipsbát hvolfdi með fjórum mönnum. Komust þeir í land við illan leik og voru aðframkomnir þegar þeim var bjargað. Á endanum tókst þó að koma taug í skipið en þá vildi ekki betur til en svo að hún slitnaði í fyrstu atrennu. Var þá hætt við frekari tilraunir á þessu flóði. Ætli það verði ekki reynt aftur á flóðinu í nótt eða fyrramálið. Nú er gott veður hér á Ólafsfirði en þó brýtur enn aftan við skipið. Staðurinn sem Hólmur strandaði á er alveg sá sami og breskur togari strandaði á á stríðsárunum. Þarna er sandbotn og ætti því skipinu að vera óhætt meðan veðrið er gott, sagði Agnar að lokum. 

Norðurland. 31 mars 1978.

Hólmur á strandstað.                                                    (C) Sámal Jacob Debes Ólsen.
 
Unnið við að losa saltið úr Hólmi.                                           (C) Sveinn Magnússon.
 
Hólmur á strandstað í september 1978.                                                Mynd úr Vísi.
 
Hólmur á strandstað.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
    Hólmur enn á strandstað við Ólafsfjörð

„Skipið er hér enn og sá aðili, sem keypti skipið af færeyska tryggingafélaginu, hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar, m.a. átti hann að fjarlægja það af strandstað“, sagði Pétur Már Jónsson bæjarstjóri á Ólafsfirði, í samtali við Vísi.
Færeyska flutningaskipið Hólmur strandaði við innsiglinguna í Ólafsfjarðarhöfn 29 mars s.l. Skipið var að koma þangað með saltfarm. „Við teljum að færeyska tryggingafélagið beri ábyrgð á því að fjarlægja skipið, en eigi svo kröfu á kaupandanum. Það er því tryggingafélagið sem á að sjá um að það verði fjarlægt af strandstað og standa við skuldbindingar þær, sem að okkur snúa”, sagði Pétur Már. Hann sagði að haft hefði verið samband við Færeyingana, en þeir svo aftur vísað á þann aðila, sem hefði keypt skipið á strandstað. ,,Ætli þetta endi ekki með því að við verðum að fara í mál til að fá botn í þetta mál”, sagði Pétur Már, bæjarstjóri á Ólafsfirði. Björgunarsveit Slysavarnarfélagsins á Ólafsfirði aðstoðaði eiganda Hólms og skuldar hann þeim nokkra upphæð. Hann hefur hins vegar ekki gert upp ennþá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir manna til að ljúka málinu. Ef skipið verður ekki fjarlægt fyrir veturinn má búast við því að það verði erfitt. Svo gæti farið að það færi alveg á hliðina og fylltist af sandi og þá er mjög erfitt um vik að ná því af strandstað.

Vísir. 4 september 1978.
 

Pólski togarinn Cezary GDY 111 við bryggju í Gdynia í Póllandi. Togari, Adam að nafni, liggur utan á honum. Ljósmyndari óþekktur.
 
Síldberin TN 40.                                                                                          (C) Óli Ólsen.
 
Fyrirkomulagsteikning af Evalana FD 55 frá Fleetwood.

               Hólmur rifinn og seldur í brotajárn

Allt bendir nú til þess að færeyski báturinn Hólmurinn sem legið hefur í fjörunni í Ólafsfirði undanfarin ár verði fjarlægður í sumar. Ólafsfirðingar hafa verið mjög óánægðir með að hafa bátsflakið þarna í fjörunni en bátnum var á sínum tíma siglt þarna upp í fjöruna. Lengi hefur verið rætt um að fjarlægja flakið og var m.a. rætt um að sprengja það í loft upp. Á dögunum voru í Ólafsfirði starfsmenn frá fyrirtækinu Sindra-stál og hafa þeir í hyggju að saga flakið niður og selja það sem brotajárn til útlanda. Yrði Hólmurinn þá sagaður niður í smáparta og þeim skipað um borð í skip á Ólafsfirði sem flytti brotajárnið til útlanda.

Dagur. 27 apríl 1984.

Flettingar í dag: 1845
Gestir í dag: 246
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740497
Samtals gestir: 55836
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 15:47:00