31.12.2023 09:37

B.v. Vörður BA 142. TFZC.

Togarinn Vörður BA 142 var smíðaður hjá Deutsche Schiffs Und Maschinenbau A/G Seebeck Wesermunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1936 fyrir MacLine Ltd í London (Leverhulme Ltd) sem Northern Reward LO 168. 625 brl. 251 nt. 1000 ha.3 þenslu gufuvél. 57,15 x 8,73 x 4,27 m. Smíðanúmer 555. Seldur í október 1937, Northern Trawlers Ltd í London. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins í september 1939. Togarinn var m.a. í sömu skipalest og Goðafoss þegar Þýski kafbáturinn U-300 sökkti honum við Garðskaga, 10 nóvember árið 1944. Í desember árið 1946 er togarinn skráður í Grimsby, sama nafn en GY 431. Seldur h/f Verði á Patreksfirði í mars 1947 og fær nafnið Vörður BA 142. Skipstjóri á Verði var Gísli Bjarnason og 1 vélstjóri var Jens Viborg Jensson. Togarinn fórst í hafi á leið til Grimsby í söluferð 29 janúar 1950. 5 skipverjar fórust en 14 skipverjum var bjargað ýmist af kili björgunarbátanna eða á braki í sjónum um borð í togarann Bjarna Ólafsson AK 67 frá Akranesi. Skipstjóri á Bjarna var Jónmundur Gíslason. Vörður var af svonefndri "Sunlightgerð" en jafnan nefndur "Sáputogari" en þeir togarar voru alls 15 að tölu. Umfangsmikil réttarhöld fóru fram vegna þessa sjóslyss og var Gísli Bjarnason dæmdur í sekt og sviptur rétti til skipstjórnar í eitt ár. Lesa má um það hér fyrir neðan. Það má geta þess að Guðmundur Halldórsson háseti á Verði fékk afreksmerki hins íslenska lýðveldis fyrstur manna, 17 september árið 1952 fyrir framgöngu hans við björgun skipsfélaga sinna af Verði í janúar árið 1950.

Samkvæmt úrskurði siglingadóms 5. nóvember s.l, hefur Gísli Bjarnason, áður skipstjóri á togaranum „Verði“ frá Patreksfirði, sem fórst í janúar 1950, verið sviptur rétti til skipstjórnar og stýrimennsku í eitt ár og dæmdur til að greiða 5000 kr. sekt til ríkissióðs. Gísli Bjarnason skipstjóri var af hálfu hins opinbera ákærður fyrir siglingabrot og mannsbana af gáleysi, með því að hafa ekki gætt þess sem skipstjóri á togaranum Verði, er leki kom að skipinu á hafi úti á leið þess til Englands 29. janúar 1950, að hefjast handa um björgun skipshafnar togarans yfir í togarann „Bjarna Ólafsson“ sem kominn var á staðinn áður en „Vörður“ sökk, með þeim afleiðingum, að 5 menn af skipshöfninni drukknuðu. Í fororði siglingadómsins er, hinum dómfellda gefið það að sök, að hafa ekki hafizt handa um að bjarga skipshöfninni með því að gera tilraun til að koma henni um borð í „Bjarna Ólafsson" meðan birtu naut. Engar ráðstafanir hefði hann gert til þess að hafa korkflekana, sem voru á skipinu, tiltækilega við skipshlið eftir að leki var kominn að því. Honum hefði einnig borið að sjá um að skipverjar tækju á sig björgunarvesti, en um þetta var ekki hugsað fyrr en skipið var að sökkva. Þá vanrækti hinn dómfelldi að láta strangja línu milli hvalbaks og vindu til öryggis þeim skipverjum, er unnu að austri úr hásetaklefa frammi í. Er það álit dómsins að þessi vanræksla hafi að nokkru leyti orsakað drukknun hinna fimm skipverja af „Verði“.  (Alþýðublaðið. 7 nóvember 1951.)

Vörður BA 142 átti tvö systurskip hér á landi. Þau voru, Gylfi BA 77 og var í eigu samnefnds hlutafélags á Patreksfirði frá árinu 1947. Hét áður Northern Chief LO 165. Hann var seldur til Þýskalands árið 1950 og hét þar Island BX 536. Var síðan seldur í brotajárn árið 1957.
Hinn var Kári RE 195, var í eigu Alliance frá árinu 1947. Hét áður Northern Gift LO 166. Hann var einnig seldur til Þýskalands árið 1950, hét þar Grönland. Hann fór einnig í brotajárn árið 1957.

Þessir 15 togarar voru smíðaðir í Bremen og Wesermunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1936. Kaupandinn var Unilever,dótturfyrirtæki sápu og matvælaframleiðandans, Liverholme Group of Companies sem sameinaðist Hollenska smjörlíkisframleiðandanum Van Den Berghs árið 1930. Andvirði skipanna var sagt að Unilever hafi reitt af hendi í vöruskiptum með framleiðslu verksmiðja sinna, Sunlight Soap. Sumir nefndu þessa togara því"Sunlight-togaranna" en algengara var að þeir voru nefndir Sáputogararnir. Skipin fóru upphaflega öll til Fleetwood á Englandi og var skráður eigandi MacLine Ltd í London, en eftir erfiðan rekstur þar voru þau flest ef ekki öll seld árið 1937 til William Bennet, sem stofnaði Útgerðarfélagið Associated Fisheries Ltd í Grimsby árið 1929.

B.v. Vörður BA 142.                                                          Úr safni Hafliða Óskarssonar.
 
B.v. Vörður BA 142 að veiðum.                                               Ljósmyndari óþekktur.
 
Breski togarinn Northern Reward LO 168.                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

            Nýr togari kemur á morgun


Fyrir hádegi á morgun bætist eitt skip við í togaraflotann íslenska. Togarinn Vörður, eign h.f. Vörður á Patreksfirði er þá væntanlegur hingað til Reykjavíkur. Vörður er systurskip Gylfa, en þau eru bæði af svonefndri „Sunlightgerð" Gísli Bjarnason skipstjóri flytur skipið hingað heim. En frá Grimsby var lagt af stað s. l. laugardagsmorgun.  H.f. Vörður hefir selt gamla Vörð til Færeyja.

Morgunblaðið. 11 mars 1947.
 

Líkan af Verði BA 142 á Minjasafninu á Hnjóti í Örlygshöfn. Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Bjarni Ólafsson AK 67 bjargaði 14 skipverjum af Verði við mjög erfiðar aðstæður. (C) Ólafur Árnason. Úr safni Haraldar Bjarnasonar.
 
Mennirnir sem fórust með Verði, efri röð frá v, Jens Viborg Jensson 1 vélstjóri, Jóhann Jónsson 2 vélstjóri og Guðjón Ólafsson 2 stýrimaður.
Neðri röð frá v, Ólafur Kristinn Jóhannesson háseti og Halldór Guðfinnur Árnason kyndari. Mynd úr Víkingnum.

              Togarinn Vörður ferst í hafi


Sunnudagskvöldið 29. janúar s.l. vildi það sviplega slys til, að togarinn Vörður frá Patreksfirði fórst í hafi, um 165 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum. Fimm menn fórust, en fjórtán skipverjum tókst togaranum Bjarna Ólafssyni að bjarga. Togarinn Vörður var á leið til Englands með fullfermi af fiski, er slysið bar að höndum. Hér fer á eftir frásögn skipverja á Verði af tildrögum slyssins og endalokum skipsins.
B.v. „Vörður“ lagði af stað frá Hafnarfirði klukkan fimm síðdegis föstudaginn 27. janúar s.l. áleiðis til Grimsby, með fullfermi af ísuðum fiski, var þá suð-suðaustan hvassviðri, 8—9 vindstig og töluverður sjór. Skipið fór fram hjá Vestmannaeyjum laugardagsmorgun klukkan sjö, og var þá enn sama veður og mikill sjór. Haldið var áfram með fullri ferð, án þess að nokkuð óvenjulegt bæri við. Klukkan hálf sjö á sunnudagsmorgun varð 1. stýrimaður var við að skipið tók á sig óeðlilega mikla sjói og hallaðist óeðlilega mikið til bakborða. Var skipstjóri þá látinn vita um þetta, og jafnframt var skipið athugað nánar að framan, og kom þá í ljós, að leki hafði komið að skipinu fyrir framan fiskilestar, svo að netarúm og neðri hásetaklefi var hálffullur af sjó, en skipverjar allir bjuggu aftur í skipinu. Skipverjar voru þegar settir til þess að ausa, því að vegna sjávargangs varð ekki komizt að handdælum. Auk þess var dælt úr rúminu frá vélarúmi, og var haldið þannig áfram allan daginn fram til klukkan sex um kvöldið, að séð var að ekki varð haft við lekanum, og var þá kominn svo mikill sjór í klefann og netalestina, að lestaropið sprakk upp undan vatnsþunganum. Klukkan tíu um morguninn var byrjað að kalla á b.v. „Geir“, sem vitað var að var staddur um 60 sjómílur vestar en b.v. „Vörður“, og hann beðinn að koma að skipinu svo fljótt sem verða mætti.
Um hádegi náðist samband við b.v. „Bjarna Ólafsson“, sem kvaðst vera skammt frá, en þó nokkuð vestar. Kom hann að „Verði“ klukkan um hálf þrjú e. h., og hélt sér síðan við skipið allan tímann, ef verða mætti að hann gæti orðið því til aðstoðar. Eftir klukkan fimm síðdegis fór veður mjög versnandi, og um klukkan sex var vindur orðinn um 8 stig, og eykst sjórinn þá enn að mun. Er þá sjáanlegt, að skipinu verður ekki bjargað, og er b.v. „Bjarni Ólafsson“ þá beðinn að koma svo nálægt skipinu, sem framast væri unnt. Sígur nú Vörður meira og meira niður að framan og hallast mjög til bakborða, er vél skipsins þá þegar stöðvuð og skipið stjórnlaust. Var þá skipverjum, sem fram á voru, gefin skipun um að færa sig aftur á, og öllum skipverjum sagt að losa björgunartækin og taka á sig belti. Skipti þá litlum togum, að skipið seig svo hratt að framan, að tveir skipverjar, sem voru í efri hásetaklefa, komust þaðan ekki, og sukku því með skipinu. Aðrir skipverjar fóru allir í sjóinn, er skipið sökk, en náðu flestir í annan björgunarbátinn, sem flaut á hvolfi, og í bjargfleka, eða flutu í bjarghringum og bjargbeltum. Beitti b.v. „Bjarni Ólafsson“ þá leitarljósum á staðinn og tókst að ná upp 14 skipverjum, sem flutu umhverfis á hafinu, og auk þess líki af einum, sem hafði dáið í bjargbeltinu á meðan á björguninni stóð.
Skipverjar voru að vonum mjög þjakaðir og sumir þeirra nálega meðvitundarlausir, er þeim var bjargað, og fengu þeir strax alla þá aðhlynningu, sem unnt var að láta í té um borð í „Bjarna Ólafssyni“. Má fullyrða, að hér hafi verið unnið einstakt björgunarafrek, að ná þannig 14 mönnum fljótandi á hafinu í slíku veðri og náttmyrkri. Róma skipverjar mjög alla framkomu félaga sinna á b.v. „Bjarna Ólafssyni". B.v. „Bjarni Ólafsson" flutti skipverjana til Reykjavíkur, sem komu þangað allslausir, því að þeir höfðu misst allt sitt í skipinu. Héldu þeir allir heimleiðis þriðjudaginn 31. janúar, nema skipstjórinn, sem fluttur var í Landsspítalann. Morgunblaðið hefur birt mjög greinargóð viðtöl bæði við Jónmund Gíslason, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni og skipverja á Verði. Leyfir Víkingur sér að taka þau hér upp. Viðtal við Jónmund Gíslason, skipstjóra.
„Ég var nú meira sjónarvottur en beinn þátttakandi að björgun skipsbrotsmannanna um borð í skipið okkar“, sagði Jónmundur Gíslason, skipstjóri á Bjarna Ólafssyni, í viðtali við Morgunblaðið. „Skipsmenn mínir eiga mestan þátt í því, hve vel björgun mannanna 14 tókst. Skömmu áður en Vörður sökk, taldi ég litlar líkur til, að takast mætti að koma mönnunum til hjálpar“, sagði Jónmundur og byrjaði síðan að segja frá björgun Varðar-manna. „Við vorum að koma frá Bretlandi. Laust fyrir hádegi á sunnudaginn kemur loftskeytamaðurinn okkar, Haraldur Samúelsson, til mín, og segist hafa heyrt til togarans Varðar frá Patreksfirði, og muni eitthvað hafa komið fyrir skipið. Hélt Vörður þá uppi spurnum um, hvar nálæg skip væru stödd. Togarinn Geir, sem var á leið út, var þá kominn í samband við Vörð og búinn að miða hann. Hið sama gerðum við á Bjarna Ólafssyni. Við miðunina kom í ljós, að við vorum allmiklu nær en Geir. Þessu næst lét ég senda Verði skeyti um, að við skyldum koma honum til aðstoðar, ef þess væri óskað, og var því boði tekið. Við breyttum því næst um stefnu og var nú lagt af stað Verði til aðstoðar. Nokkru síðar átti ég tal við Gísla Bjarnason, skipstjóra á Verði. Sagði hann mér, að talsverður sjór væri kominn í lúkar og einnig netalestina, og væri Vörður tekinn að hallast á bakborðshliðina. Ekki taldi Gísli skip sitt vera í hættu að óbreyttu veðri og menn stóðu þá við austur frammi í skipinu. Um klukkan hálf þrjú síðdegis komum við að Verði“, segir Jónmundur. „Virtist mér hann þá vera orðinn talsvert siginn að framan og nokkur halli á honum út í bakborðshliðina.
Ég var þeirrar skoðunar þá, að ekki væri ástæða til að ætla, að illa færi, enda var þá sæmilegt veður, þó sjór væri nokkuð þungur. Ég taldi sennilegt, að Varðar-mönnum myndi takast að ná skipi sínu upp aftur. Þá var kaldi. Strax eftir að dimma tók, fór veður vaxandi og sjór tók að ýfast enn meir. Nokkru fyrir klukkan fimm átti ég tal við Gísla skipstjóra, og spurðist fyrir um ástandið hjá honum. Sagði Gísli það fara heldur versnandi, enda komið hvassviðri. Við á „Bjarna Ólafssyni" vættum poka í olíu og settum þá utan á síðuna og sigldum síðan skipi okkar og lögðum því framan við Vörð í sömu stefnu, til að olían gæti lægt báruna. Þannig héldum við skipi okkar þar til klukkan hálf sjö. Þá kallar Vörður til okkar og biður okkur að koma sem skjótast að skipinu. Var nú öllum mönnum gefin fyrirskipun um að vera viðbúnir á þilfari. Þegar hér var komið, var veðrið það, sem sjómenn kalla „vitlaust veður“ og sjógangur mikill. Bjarni Ólafsson er látinn renna hægt stjórnborðsmegin við hið sökkvandi skip, sem enn hafði öll ljós logandi. Mér fannst horfurnar á giftusamlegri björgun Varðar-manna vera hverfandi litlar. Við sáum að Vörður var um það bil hálfur í kafi, og var sjórinn kominn upp í miðja brú og reykháfurinn var umflotinn. Mennirnir virtust þá allir vera komnir að stjórnborðsbjörgunarbátnum. Afturstefni Varðar var komið upp úr sjónum og skrúfan laus við sjó. Við námum staðar um það bil 15 föðmum frá Verði, en urðum eftir skamma stund að renna aftur fyrir hann, þar eð hann rak óðfluga í áttina að skipinu og sýnt þótti, að hann mundi rekast á okkur. Um leið og við nemum staðar, rétt aftan við Vörð, bakborðsmegin, þá sjáum við í skini ljóskastara okkar, að Vörður sekkur skyndilega. Í sömu andránni sjáum við björgunarbát á hvolfi, sem á voru allmargir menn, og rétt á eftir sjáum við björgunarfleka, sem á voru þrír menn, að því er virtist.
Báturinn og flekinn voru skammt framundan. Um leið og þetta gerðist, sem var allt í einni svipan, sigldum við Bjarna Ólafssyni fram til móts við björgunarbátinn, en þá sást, að Vörður maraði í kafi, rétt við framstefnið, en við sluppum við flakið“. Bjarni Ólafsson var að koma frá Bretlandi, svo sem fyrr er sagt. Var skipið því ákaflega létt og valt mjög mikið er það lagðist þvert í vindinn. óttaðist Jónmundur Gíslason það mjög, að svo gæti farið, er þeir kæmu að björgunarbátnum, að togarinn myndi velta á bátinn og velta honum yfir og mönnunum af honum. Þetta var hið hættulegasta í sambandi við björgun mannanna, úr því sem komið var. Frá þessu sagðist Jónmundi á þessa leið: ,,Er við vorum sloppnir fram hjá flaki Varðar, fórum við vindmegin við mennina á kjöl björgunarbátsins og dælt var olíu og lýsi í sjóinn, til að lægja ölduna. Hér kemur hinn merkasti þáttur alls björgunarstarfsins", segir Jónmundur, „en það er, hve menn mínir gengu rólega og örugglega að því að ná mönnunum af kjöl bátsins upp í skipið, en það veit hver maður, að undir slíkum kringumstæðum, geta hin minnstu mistök orðið æði örlagarík. Níu menn voru á kjöl björgunarbátsins og gekk greiðlega að ná þeim. Gísli Bjarnason skipstjóri, var á meðal þeirra. Hann var meiddur á baki og í öxl. Hann hafði orðið á milli bátsins og skipsins.
Aðrir skipverjar voru ómeiddir og hressir vel, þó þeir væru kaldir. Mönnunum á flekanum var því næst bjargað. Voru þessir tólf menn aðeins skamma stund í sjó. Var nú leitað með kastljósi annarra manna. Eftir nokkra stund sést maður í bjarghring og var honum bjargað rétt á eftir. Leið nú alllöng stund, sennilega 30 til 40 mínútur. Fannst ekki annað en brak, en þá sést enn til manns í bjarghring og var honum bjargað skjótlega, en mjög var af manni þessum þá dregið. (Það mun hafa verið matsveinninn). Litlu síðar fundum við Jóhann Jónsson í bjarghring. Hann var látinn er hann fannst og hefur sennilega látizt skömmu eftir að hann fór í sjóinn. Lífgunartilraunir voru gerðar á honum, en þær báru engan árangur". „Allt gerðist þetta með svo skjótum hætti“, sagði Jónmundur Gíslason, skipstjóri, „að um klukkan sjö var allt um garð gengið. Rokið hélst fram eftir nóttu. Það mun hafa verið verst, er Vörður sökk og meðan á björgun mannanna stóð. Við andæfðum á slysstaðnum fram yfir miðnætti. Leituðum að mönnum þeim, er enn vantaði. Við fundum t. d. bakborðs björgunarbátinn á réttum kili og ýmislegt brak annað, körfur og fleira. Mennina fjóra, er fórust, fundum við ekki. Á tólfta tímanum kom togarinn Geir á slysstaðinn, en hann var, eins og sagt var í upphafi, lengra frá slysstaðnum og átti á móti storminum að sækja“. Jónmundur Gíslason skýrði frá þessu, sem hér hefur verið sagt, á mjög hógværan hátt. Mjög rómaði hann framgöngu sinna undirmanna og sagðist aðeins hafa sagt frá þessu sem „áhorfandi“, en ekki þátttakandi. „Þessi björgun er sérstakt lán“, sagði Jónmundur að lokum. Undir þessi orð er óhætt að taka. Því óvíst er, hve örlög skipsbrotsmannanna hefðu orðið, ef björgun þeirra hefði ekki borizt skjótt.
Þessir menn fórust:
Jens Viborg Jensson, 1. vélstjóri, 41 árs að aldri. Hann lætur eftir sig konu og tvær uppkomnar dætur og sex ára fósturson.
Jóhann Jónsson, 2. vélstjóri, 48 ára. Kvæntur, átti sjö börn, þar af þrjú innan fermingaraldurs.
Guðjón Ólafsson, 2. stýrimaður, 43 ára. Kvæntur, átti tvö börn á æskualdri.
Halldór Guðfinnur Árnason, kyndari, 33 ára. Kvæntur, átti þrjú ung börn. Þessir menn fjórir voru allir búsettir á Patreksfirði.
Ólafur Kristinn Jóhannesson, háseti, frá Tálknafirði, 32 ára. Hann var nýkvæntur, barnlaus, en átti á lífi foreldra og fósturföður.

Sjómannablaðið Víkingur. 2-3 tbl. 1 mars 1950.

 

 

Flettingar í dag: 1169
Gestir í dag: 220
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 739821
Samtals gestir: 55810
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 10:56:16