01.01.2024 12:16

Breska togaranum Volante GY 235 sökkt af þýskri sprengiflugvél út af Hvalbak.

Breskum togara, Volante að nafni, var sökkt af þýskri sprengjuflugvél um 10 sjómílur suð-austur af Hvalbak. Togarinn var nýkominn á Íslandsmið og var á veiðum. Það var um 4 leytið aðfaranótt 12 júlí 1940 að yfir þá kemur þýsk sprengjuflugvél úr vesturátt og kastar tveimur sprengjum á togarann, önnur þeirra lendir nálægt honum og veldur töluverðu tjóni. Seinni sprengjan lenti á stjórnpalli togarans og hann springur í loft upp og skipstjóra og stýrimann tók útbyrðis. Volante mun hafa sokkið á nokkrum mínútum. 11 menn af áhöfn hans komst í björgunarbát og gátu þeir bjargað stýrimanninum upp í bátinn, en skipstjórinn, Alfred George Coulam fórst. Það var lítill trillubátur, Björg að nafni, tæplega 2 tonna og formaður á honum var Gísli Stefánsson á Grundarstekk í Stöðvarfirði, sem fann björgunarbátinn og hélt hann þá þegar með hann til Stöðvarfjarðar. Togaramenn höfðu þá róið til lands í um 8 klukkustundir.

Breski togarinn Volante GY 235 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1907 fyrir Atlas Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 225 brl. 400 ha. 3 þenslu gufuvél. 38,70 x 6,70 x 3,50 m. Smíðanúmer 385. Togarinn var tekinn í þjónustu breska sjóhersins sem HMT Volante FY 713 árið 1915 og þjónaði þar sem tundurduflaslæðari til ársins 1918. Seldur 1918, Harry Wood í Grimsby, hét þá sama nafni, Volante GY 235. Seldur árið 1920, Charles Dobson í Grimsby, sama nafn og númer. Togaranum var sökkt af þýskri sprengjuflugvél aðfaranótt 12 júlí árið 1940 er hann var að veiðum um 10 sjómílur austur af Hvalbak eins og áður segir hér að ofan.

Þessi sami togari strandaði við Kúðafljótsós á Meðallandssandi 20 mars árið 1911. Mannbjörg varð og náðist hann út aftur lítið skemmdur.

Jón Oddsson skipstjóri og útgerðarmaður í Grimsby og Hull, byrjaði sinn togaraferil á þessum togara. Gefum honum orðið; „Það var í nóvember 1907. Ég átti þá heima á Ísafirði. Þangað kom þá enski togarinn „Volante" frá Grimsby með veikan mann, sem hann lagði þar á land. Réðist ég á skipið í hans stað og var ég þá 19 ára gamall. Á þessum togara var ég í 8 mánuði. Snemma sumars 1908 strandaði „Volante" í nánd við Vestmannaeyjar. Við gátum þó komið togaranum til Eyja og þangað kom björgunarskipið „Svafa", er þá var hér, og dældi úr honum sjónum. Að því búnu héldum við til Reykjavíkur og lögðum „Volante" inn á Kleppsvík, en þar fór fram á honum bráðabirgðaviðgerð, svo að við gætum haldið út að fiska og síðan heim til Englands. Þegar þangað kom, fór ég af „Volante", því að þá átti að fara fram á honum viðgerð, sem tók langan tíma.“
Jón Oddsson varð síðar skipstjóri á Volante árið 1912 og var með hann í eitt ár. Var þetta fyrsti togari sem hann fór með skipsstjórn á eftir að hann öðlaðist þau réttindi í Grimsby það ár.

Jón Oddsson útgerðarmaður í Hull.
Ægir. Júlí 1939.

Breski togarinn Volante GY 235.                                                        (C) James Cullen.



        Breskur togari skotinn í kaf á Hvalbaksmiðum

Síðastliðinn föstudag kom trillubátur til Stöðvarfjarðar með skipsbát í eftirdragi og voru á honum 12 breskir sjómenn af togara, sem skotinn var í kaf af þýskri flugvjel á Hvalbaksmiðum. Þegar árásin á togarann var gerð, voru skipstjóri og stýrimaður staddir á stjórnpalli og köstuðust báðir útbyrðis. Stýrimanni, var bjargað, eftir klukkustundar volk í sjónum en skipstjóri fanst ekki. Nánari atvik af atburði þessum eru þau, er nú skal greina. Það var um kl. 3 ½  aðfaranótt föstudags, 12. þ. m. Togarinn Volante, GY 235 var að veiðum um 10 sjómílur út af Hvalbak. Kom þá skyndilega flugvjel úr vesturátt og hóf atlögu að togaranum. Þetta var þýsk sprengjuflugvjel. Varpaði hún tveimur sprengjum. Fyrri sprengjan hæfði ekki skipið, en fjell í sjóinn mjög nálægt því. Svo mikið varð umrótið í sjónum, að togarinn tókst á loft upp, er sprengjnn kom niður. Hin sprengjan hitti stjórnpall skipsins og tók skipstjórann og stýrimanninn útbyrðis. Togarinn var vopnaður. Skipsmenn reyndu að skjóta á flugvjelina, en hæfðu ekki. Og þar sem skipið tók nú óðum að sökkva, gátu skipsmenn með naumindum komið björgunarbát út, áður en skipið sökk. Þýska sprengjuflugvjelin hjelt nú brott og stefndi til norðurs. Fóru nú skipsmenn að leita að skipstjóra og stýrimanni, sem fallið höfðu útbyrðis. Þeir fundu stýrimanninn. Hann gat haldið sjer í hurð, sem hafði kastast út, er sprengjan fjell á skipið. Hafði stýrimaður verið um klukkutíma að velkjast í sjónum, þegar honum var bjargað. Skipverjar leituðu lengi að skipstjóra, en fundu hann hvergi. Er talið sennilegt, að hann hafi farist strax við sprengjuna. Einn hásetanna á togaranum hafði særst á læri, hnje og hönd, af vjelbyssuskotum frá flugvjelinni. Hann var allþjáður í bátnum, en reynt var að hlúa að honum eftir föngum. Var nú róið í áttina til lands. Munu þeir hafa verið um 20—30 mílur undan Kambsnesi. Þeir lögðu af stað um kl. 4 ½  á föstudagsmorgun. En kl. 12 ½  hittu þeir trillubát frá Stöðvarfirði, sem var í róðri. Hann tók bát skipbrotsmannanna í eftirdrag og kom með hann til Stöðvarfjarðar um kl. 3 á föstudag. Formaðurinn á trillubátnum heitir Gísli Stefánsson. Á Stöðvarfirði fengu hinir bresku skipbrotsmenn hjúkrun og aðhlynningu. Flugvjel kom og sótti hinn særða háseta og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Seyðisfirði. Hrestist hann brátt er bundið hafði verið um sár hans og var ekki talinn vera í lífshættu. Öðrum skipbrotsmönnum leið vel, nema hvað stýrimaðurinn var allþjakaður eftir sjóvolkið. Hann var og talsvert, marinn. Verða skipbrotsmenn fluttir hingað til Reykjavíkur. Togarinn, sem sökt var, var nýkominn frá Englandi og aðeins nýbyrjaður veiðar, er flugvjelin kom.

Morgunblaðið. 14 júlí 1940.

Flettingar í dag: 2372
Gestir í dag: 138
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 744131
Samtals gestir: 56044
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 19:31:46