05.01.2024 18:25

B.v. Vörður BA 142. LCJT / TFBC.

Botnvörpungurinn Vörður BA 142 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þenslu gufuvél. 44,27 x 7,72 x 3,67 m. Smíðanúmer 187. Togarinn hét fyrst Gulltoppur RE 247 og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 7 apríl árið 1922. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th. S. Blöndahl í Reykjavík. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipsins og hét það h/f Sleipnir. Skipið var selt 20 mars 1928, h/f Andra á Eskifirði, skipið hét þar Andri SU 493. Selt 5 nóvember 1932, Bergi h/f í Hafnarfirði, hét Andri GK 95. 25 janúar 1936 strandaði togarinn í þoku og dimmviðri nálægt Whitby á austurströnd Englands. Var hann þá á leið til Grimsby að selja afla sinn. Náðist togarinn út tveimur vikum síðar og var dreginn inn til Whitby og gert við hann þar. Hinn nafntogaði matsveinn, Lási kokkur (Guðmundur Angantýsson) var um tíma um borð í Andra. Heyrt hef ég eða lesið, að hann hafi eldað ofan í sjálfan Nixon Bandaríkjaforseta, að ég held á Þingvöllum. Hann var seigur karlinn. Skipið var selt 3 maí 1937, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, fékk þá nafnið Vörður BA 142. 8 ágúst 1942 var eigandi skipsins h/f Vörður á Patreksfirði. Hinn 24 ágúst 1942 gerði þýsk sprengiflugvél árás á Vörð þegar hann var staddur um 20 sjómílur norðvestur af Barða. Var togarinn þá á heimleið til Patreksfjarðar. Flugvélin lét rigna vélbyssuskotum yfir Vörð og kastaði sprengju sem sprakk rétt aftan við hann. Einn skipverja, Sigurjón Ingvarsson, slasaðist alvarlega þegar hann varð fyrir vélbyssuskoti. Hélt togarinn þegar inn á Önundarfjörð, en Sigurjón lést af sárum sínum rétt áður en Vörður kom til hafnar á Flateyri. Sigurjón var 24 ára og var ættaður frá Geitagili í Rauðasandshreppi. Nokkrar skemmdir urðu á togaranum við þessa heiftúðlegu morðárás. Vörður var seldur 21 mars 1947, p/f Höddin (H.J. Thomsen) í Porkere í Færeyjum, hét þar Höddaberg TG 792. Togarinn var seldur í brotajárn og tekinn af Færeyskri skipaskrá 22 september árið 1955.

B.v. Vörður BA 142.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.



              „Andri" seldur til Patreksfjarðar

Togarinn »Andri«, sem keyptur hefir verið frá Reykjavík, af Ólafi Jóhannessyni & Co., kom til Patreksfjarðar í gærmorgun. Skift hefir verið um nafn á skipinu og heitir það nú »Vörður«. Skipið átti að fara á, veiðar í gærkvöldi.

Þjóðviljinn. 8 maí 1937.

B.v Andri SU 493 á siglingu.                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



                      Loftárás á togarann ,,Vörð“

Þýzk sprengjuflugvél réðist á togarann „Vörð“ út af Vestfjörðum 24. ágúst. Einn af hásetunum, Sigurjón Ingvarsson, varð fyrir banaskoti. Í blaðaviðtali skýrir skipstjórinn, Gísli Bjarnason, þannig frá atburðunum: „Við vorum staddir 20 sjómílur norðvestur af Barðanum, í stefnu fyrir Kóp, áleiðis til Patreksfjarðar, þegar árásin var gerð. Klukkan mun hafa verið farin að ganga tíu og við vorum nýhættir veiðum". „Sáuð þér þegar flugvélin kom?“ „Ég var ekki uppi en það var kallað niður til mín og sagt, að flugvél væri að koma úr vesturátt, í stefnu á togarann. Loftskeytamaðurinn þekkti þjóðerni hennar og sagði, að hún væri þýzk“. „Hóf flugvélin strax árás á skipið?“ „Já, strax þegar hún nálgaðist það meir. Þegar hún átti skamman spöl eftir til okkar, tók hún beina stefnu á skipið, lækkaði flugið jafnframt til muna og hóf skothríð á togarann. Sennilega mun bæði hafa verið skotið úr vélbyssu og fallbyssu, enda þótt við gerðum okkur ekki ljósa grein fyrir því vegna hávaðans. Má segja að þessi augnablikin hafi allt leikið á reiðskjálfi“. „Hvað tókuð þið til bragðs?“ „Við héldum skipinu á fullri ferð áfram, en beygðum því flötu við vindi, þannig að stefna togarans var til suðausturs“. „En hvar héldu mennirnir sig?“ „Mennirnir voru allir á þilfari, rétt áður en árásin var gerð og voru þar að vinna að fiski. En nokkurum mínútum áður en sást til flugvélarinnar fóru þeir niður til að drekka kaffi. Aðeins þrír menn voru uppi, og meðal þeirra var Sigurjón heitinn. Var hann framan við trollspil á leið aftur eftir skipinu, þegar skot hæfði hann í bakið, svo hann féll við. Fór skotið í gegn og út um kviðinn“. „Hvað stóð árásin lengi?“ „Það er ekki gott að gera sér grein fyrir hversu lengi þessi skothríð stóð, en þegar flugvélin hafði dembt yfir okkur skothríð nokkura stund, flaug hún yfir skipið, beygði og stefndi á það að nýju.
Að þessu sinni stefndi hún skáhalt fram yfir skipið og hóf vélbyssuskothríð úr nokkurri fjarlægð áður en hún kom að togaranum. Þegar flugvélin hefir haldið sig vera komna yfir skipið, lét hún sprengju falla, en hún lenti aftan við skipið. Ég get ekki sagt hve langt fyrir aftan togarann sprengjan féll, en það var þó svo nærri, að skipið hristist allt og nötraði, lóðvélin hætti að vinna og leiðslur í vélarúmi slitnuðu. Ýmsar fleiri skemmdir urðu víðsvegar á skipinu. Nokkur vélbyssuskot lentu á stjórnpalli, en ekkert þeirra komst í gegn, vegna þess að pallurinn er brynvarinn gegn vélbyssuskotum. Er flugvélin hafði látið sprengjuna falla hætti hún árásinni og flaug á brott. Stefndi hún til austurs og hvarf þar sjónum okkar. Þetta var Focke Wulf flugvél, 4 hreyfla“. „En hvað varð um mennina, sem á þilfarinu voru í upphafi árásarinnar?“ „Þeir tveir, sem ósærðir voru, komust niður eftir fyrri lotuna, hafði þá ekki sakað neitt í kúlnaregninu. Héldum við allir kyrru fyrir niðri þar til árásirnar voru um garð gengnar“. „Gerðuð þið ekki tilraun til að ná sambandi við land eða önnur skip með loftskeytum eða taltækjum?“ „Jú, strax og árásin var gerð, var loftskeytamanninum falið að brjóta innsigli tækjanna og senda út neyðarmerki. Svaraði bæði loftskeytastöðin og ýmis skip og stóðu í sambandi við okkur meðan að árásin stóð yfir“. Hvert var svo haldið að árásinni lokinni?“ „Við héldum beinustu leið til lands, en það var til Önundarfjarðar, til þess að koma hinum særða manni hið allra fyrsta til læknis. En stundarfjórðungi áður en við komum til Flateyrar, andaðist hann. Hann hafði fulla meðvitund fram undir andlátið og gerði sér fyllilega ljóst, hvað ske mundi. Tók hann því með æðrulausri ró og stillingu. Sigurjón Ingvarsson var fæddur 9. janúar 1918. Hann var gæða- og dugnaðardrengur hinn mesti, og sakna allir skipverjar hans sem góðs félaga og duglegs sjómanns. Hann var stillingar- og skapfestumaður mikill og brosti ávallt að erfiðleikunum, þegar þeir steðjuðu að. Eftir að læknisskoðun hafði farið fram á líkinu fluttum við það beina leið frá Flateyri til Patreksfjarðar".

Sjómannablaðið Víkingur. 9 tbl. 1 september 1942.

Vörður BA 142, t.v. og Gylfi BA 77 við bryggju á Patreksfirði. Gylfi var smíðaður hjá A/G Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi 1915 sem Gylfi RE 235 fyrir h.f. Defensor í Reykjavík. 336 brl. 600 ha. gufuvél. Var í eigu Ólafs Jóhannessonar & Co á Patreksfirði frá 1932. Frá 1942 er eigandi h.f. Gylfi á Patró. Togarinn var seldur p/f Stjörnunni í Vestmanna í Færeyjum, hét þá Gullfinnur VN 313. Togarinn sökk út af Angmagsalik á Austur-Grænlandi eftir að hafa skemmst í ís 20 mars árið 1960.   Ljósmyndari óþekktur. 



                Eskfirðingar hafa keypt togara

Á Eskifirði hafa undan farið verið hin mestu atvinnuvandræði og litið mjög illa út um framtíð kauptúnsins. Eignir þar á staðnum, sem áður hafa verið metnar ærið hátt, eru því nær óseljanlegar. Hinn 12. Janúar í vetur var stofnað á Eskifirði togarafélagið „Andri". Stofnfélagar voru 12. Formaður var kosinn Páll Magnússori lögfræðingur, oddviti hreppsins. Meðstjórnendur voru kosnir Markús Jensen kaupmaður og Ólafur Sveinsson frá Firði, fyrrverandi bankagjaldkeri. Hlutafé félagsins er 50 þúsund krónur og leggur hreppurinn fram 15 þúsund. Verkamenn og sjómenn, sem atvinnu fá hjá félaginu, leggja í hluti 10 % af kaupi sínu fyrstu tvö árin. Skömmu eftir stofnun félagsins fór formaður þess hingað til Reykjavíkur. Hefir hann nú keypt af „Sleipni" togarann „Gulltopp". Á að skíra skipið upp, en ekki fullráðið, hvaða nafn það hlýtur. Líklega verður það nefnt „Reyður", en Reyður heitir fjall eitt fagurt við Reyðarfjörð. Skipstjóri mun verða sá sami og verið hefir, en framkvæmdastjóri félagsins verður Jón Eyvindsson héðan úr Reykjavík. „Andri" tekur við skipinu 15. marz. Það mun leggja hér upp afla sinn úr tveim fyrstu ferðunum, sem það fer eftir eigendaskiftin. 

Alþýðublaðið. 1 mars 1928.

B.v. Andri GK 95 á strandstað við Whitby á Englandi.          Ljósmyndari óþekktur.



     Togarinn Andri strandar við England í niðaþoku

Togarinn Andri strandaði nálægt Whitby á Englandi aðfaranótt sunnudags. Niðaþoka var er togarinn strandaði, og við rannsókn, sem farið hefir fram, hefir komið í ljós, að skekkja var á áttavitanum, sem nam 22 gráðum. Þar sem togarinn strandaði er mjög stórgrýtt og hamraveggur í sjó fram. öllum mönnum tókst að bjarga eftir að þeir höfðu verið í togaranum um hríð, og var þeim bjargað á róðrarbátum vegna þess, að ekki var hægt að koma björgunarbátum við vegna stórsjóa. Líður mönnunum öllum vel, og dvelja þeir enn í Whitby. Þeir munu koma heim með fyrstu ferð, sem fellur. Togarinn Andri fór frá Hafnarfirði á þriðjudaginn og var með 3000 körfur fiskjar, og átti hann að selja aflann í Grimsby í gær. Skipshöfnin var 17 menn og var skipstjóri Kristján Kristjánsson. Auk skipshafnarinnar voru 8 menn á skipinu, sem voru að sækja hinn nýja togara Guðmundar Jónssonar og þeirra félaga. Eigandi Andra var h.f. Berg, en framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Guðmundsson stórkaupmaður. Áður hét skipið Gulltopptur, og var þá eign Sleipnisfélagsins. Engin von mun vera til þess, að skipið náist út.

Alþýðublaðið. 28 janúar 1936.

B.v. Gulltoppur RE 247 á siglingu.                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



                                 „Gulltoppur“

Nýr togari hefir enn bætst við botnvörpungaflotann íslenska. Er það annar togari h.f. Sleipnis. Kom hann í gærmorgun frá Þýskalandi og heitir ,,Gulltoppur“.

Morgunblaðið. 8 apríl 1922.

Færeyski togarinn Höddaberg TG 792.                                         Úr safni Óla Ólsen.



                 Færeyingar taka við „Verði“

Gamli „Vörður“ frá Patreksfirði, kom til Reykjavíkur í gærmorgun, og mun hann vera á leið til Patreksfjarðar, þar sem íslenzka skipshöfnin fer af honum. Eins og kunnugt er, hefur ,,Vörður“ verið seldur til Færeyja og er færeysk skipshöfn nú að taka við stjórn skipsins.

Alþýðublaðið. 23 mars 1947.

Flettingar í dag: 1248
Gestir í dag: 79
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 743007
Samtals gestir: 55985
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 08:43:55