Færslur: 2016 Október

01.10.2016 08:31

42. Eldey KE 37. TFAZ.

Eldey KE 37 var smíðuð í Molde í Noregi árið 1960. Stál 139 brl. 300 ha. Wichmann díesel vél. Eigandi var Eldey h/f í Keflavík frá 2 mars árið 1961. Skipið fórst um 60 sjómílur suðaustur af Dalatanga (Rauðatorginu), 23 október árið 1965. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í vélskipið Brimi KE 104, frá Keflavík, sem fór svo með mennina til Neskaupstaðar.


Eldey KE 37.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.


Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.                                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


      Síldarskipið Eldey sökk í fyrrinótt

Síldarskipið Eldey KE 37 sökk í fyrrinótt á síldarmiðunum um 60 mílur suðaustur af Dalatanga og bjargaðist skipshöfnin um borð í síldarskipið Brimi KE 104, það hét áður Hólmanes frá Eskifirði. Mörg síldarskip voru á þessum slóðum í fyrrakvöld og var þar leiðindaveður. Um klukkan 21 fékk Eldey á sig kviku og lagðist þá skipið á hliðina, var þá langt komið að háfa síld í lestar skipsins. Skipshöfnin brá þegar við og fór í gúmbjörgunarbáta og var bjargað um borð í Brimi. Þrír skipverjar fóru aftur um borð í Eldey og dvöldu þar á þriðju klukkustund til þess að freista þess að rétta skipið aftur á kjöl og tókst það ekki og urðu þeir að hverfa frá borði rétt áður en skipið sökk. Skipið sökk um kl. 2.20 um nóttina. Skipstjóri á Eldey heitir Pétur Sæmundsson og var þetta eitt af aflahæstu síldveiðiskipum flotans. Eldey var 5 ára gamalt stálskip, byggt í Molde í Noregi 1960, og var 139 lestir að stærð. Eigandi þess var Eldey h.f. í Keflavík. Brimir fór með skipbrotsmennina til Neskaupstaðar og þar stigu þeir beint upp í flugvél Flugsýn og flugu til Reykjavíkur. Komu þeir þangað síðdegis í gær. Þá lagðist annað síldveiðiskip á hliðina um líkt leyti á sömu slóðum. Það heitir Pétur Sigurðsson og er af líkri stærð og Eldey, einnig aflasælt skip og tókst skipverjum að rétta skipið aftur og kom það heilu og höldnu til Seyðisfjarðar í gærmorgun.

Þjóðviljinn 24 október 1965.


Flettingar í dag: 587
Gestir í dag: 190
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956395
Samtals gestir: 495303
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 03:51:25