Færslur: 2016 Október

16.10.2016 09:00

Ver GK 3. LBMQ. / TFXC.

Ver GK 3 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Ver GK 3 við bryggju á Seyðisfirði.                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Brimir NK 75 við bryggju í Neskaupstað.                                                             (C) Björn Björnsson.


Brimir NK 75.                                                                                   Málverk Sigríðar Lúðvíksdóttur. 


Helgafell RE 280.                                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

15.10.2016 10:33

70. Gullfoss ll. TFGA.

Gullfoss var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1950 fyrir Eimskipafélag Íslands. Smíðanúmer 702. 3.858 brl. 4.025 ha. B&W vél, 2.960 Kw. Gullfoss var í föstum áætlunarferðum milli Reykjavíkur, Leith og Kaupmannahafnar. Kom við í Hamborg öðru hverju, einkum á vetrum og á seinni árum einnig í Þórshöfn í Færeyjum. Veturinn 1950-51 var hann leigður til farþega og vöruflutninga milli Bordeaux í Frakklandi og Casablanca í Marokkó. Fór nokkrar ferðir með skemmtiferðafólki til Kanaríeyja, Madeira og Miðjarðarhafsins. Í eldgosinu á Heimaey í Vestmannaeyjum 1973 var Gullfoss notaður sem fljótandi bækistöð fyrir björgunarmenn. Vegna aukinnar samkeppni flugfélaga um farþega brást rekstrargrundvöllur skipsins á síðustu árum þess og var því lagt í Reykjavíkurhöfn á vetrum, en var í ferðum á sumrum. Af sömu ástæðu var Gullfoss seldur úr landi í október 1973, Fouad  A. Khayat & Co í Beirút í Líbanon, hét þar Leban. Selt nokkrum dögum síðar, Orri Navigation Lines í Saudi Arabíu, hét Mecca, var skráð á Kýpur en árið 1975 var skipið skráð í Saudi Arabíu. 18 desember 1976 kom upp eldur í skipinu þar sem það var í pílagrímssiglingu á Rauðahafi um 17 sjómílur undan landi í Jeddah í Saudi Arabíu. Skipið eyðilagðist og rak á land daginn eftir skammt sunnan við borgina, lagðist það á hliðina og sökk þar. Mannbjörg varð. Gullfoss var eitt glæsilegasta skip Íslendinga og eiga margir góðar minningar af ferðum með skipinu.


Gullfoss á Norðfirði árið 1950.                                                                            (C) Björn Björnsson.


Gullfoss á siglingu við upphaf eldgoss í Surtsey, 17 nóvember 1963.                       Mynd á póstkorti.

  Ísland fagnaði Gullfossi í fegursta veðri

 Stærsta farþegaskip Íslendinga kom til Reykjavíkur í gærdag

Þegar Gullfoss sigldi fánum skreyttur inn Faxaflóa í gærmorgun var veður hið fegursta, logn, glaða sólskin og varla skýhnoðri á lofti. Á glæsilegri móttökur var varla kosið af hálfu Fjallkonunnar. Klukkan 12,30 var skipið komið rjett inn fyrir Garðskaga. Þar mætti frjettamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins því og tók af því fyrstu myndirnar, sem teknar voru af því á Íslandi. Voru þær teknar úr flugvjel.
Þegar flugvjelin sveimaði yfir skipinu og í kring um það fór það með hægri ferð. Gullfoss ætlaði sjer ekki að vera kominn að Gróttu fyrr en kl. 13 og lá því ekkert á. Sáust farþegar á gangi á þilförum skipsins í góða veðrinu. Um klukkan 11 f. h. höfðu fjögur skip Eimskipafjelagsins, Goðafoss, Brúarfoss, Fjallfoss og Selfoss, sem lágu í Reykjavíkurhöfn leyst landfestar og haldið út Faxaflóa til móts við Gullfoss. Mættu þau honum úti í flóanum og sneru síðan við með honum til lands. Var það hin fegursta sýn er þessir 5 "Fossar" beindu stefnum að landi.
Morgunblaðið fór í prentun kl. 4 í gær og getur því ekki að þessu sinni sagt frá hinum hátiðlegu móttökum, sem undirbúnar höfðu verið. En ráðgert var að Gullfoss legðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn kl. 5 síðdegis. Þar átti siglingamála ráðherra Ólafur Thors m. a. að halda ræðu. Voru skip öll í höfninni fánum skreytt. Frjettaritstjóri Mbl. ívar Guðmundsson, sem eins og kunnugt er, var farþegi með skipinu, átti tal við blaðið er Gullfoss var kominn að Gróttu og sagðist honum þannig frá: Áhrifamesta stundin fyrir farþega og áhöfn Gullfoss í fyrstu ferð hans var, er fjögur Eimskipafjelagsskip sigldu á móti honum í Faxaflóa um hádegisbil í dag. í stafalogni og sólskini sigldi Gullfoss inn flóann. Farþegar höfðu setst að snæðingi, en þá var tilkynnt gegnum hátalara skipsins, að von væri fjögurra skipa til þess að taka á móti Gullfossi. Allir stóðu upp frá borðum og þustu upp á þiljur til þess að sjá hina tignarlegu sjón, er skipin sigldu út skreytt hátíðarflöggum, hvert á eftir öðru  fyrst Goðafoss, þá Brúarfoss og síðan Fjallfoss, en Selfoss rak lestina.
Um leið og hvert skip fór fram hjá Gullfossi, þeytti það flautu sína og heilsaði með fánanum að sjómannasið, en svarað var á sama hátt frá Gullfossi. Fyrsta kveðjan, sem Gullfoss fjekk í morgun, var er Gullfaxi, millilandaflugvjel Flugfjelags Íslands, flaug á móti skipinu út af Reykjanesi um níu leytið. Fór flugvjelin hring í kringum skipið, en flaug síðan á móti því og fram hjá í jafnhæð skipsins, svo greinilega mátti sjá áhöfn og farþega um borð í vjelinni. Skömmu síðar barst heillaóskaskeyti frá flugstjóranum, Sigurði Ólafssyni, til skipstjóra og skipshafnar á Gullfossi. Gullfoss kom upp að landinu um þrjú leytið aðfaranótt laugardags. Var þá auðsjeð, að ef skipið sigldi með sama hraða, mundi það verða langt á undan aætlun til Reykjavíkur. Var því tekið það ráð að hægja ferðina og komið á ytri höfnina í Reykjavík um kl. 1, eins og áætlun stóð til.

Morgunblaðið 21 maí 1950.

Heimildir: Skipstjórar og skip ll.
              Eimskipafélag Íslands í 100 ár.


14.10.2016 10:12

2038. Haukafell SF 111. TFEV.

Haukafell SF 111 var smíðað hjá Carnave S.A. í Aveiro í Portúgal árið 1990 fyrir Haukafell h/f á Höfn í Hornafirði. Smíðanúmer 133. Stál. 150 brl. 993 ha. Stork vél, 730 Kw. Skipið var selt 13 janúar árið 1995, Brumark hvalfiske á eyjunni Fjörtoft í Romsdal í Noregi, hét þar Brodd M-80-H. Skipið var svo selt til Færeyja og var m.a. í eigu P/F Hvannadalur í Vági og bar nöfnin Nesborg l TG 697 og Nesborg l TG 7.

Haukafell SF 111.                                                        (C) Snorri Snorrason. Mynd á gömlu dagatali. 

          Haukafell SF selt til Noregs

HAUKAFELL SF 111 hefur nú verið selt til Noregs fyrir um 99 milljónir króna. Skipið var keypt nýtt hingað frá Portúgal og kostaði við komuna 171 milljón króna um mitt ár 1990. Auk söluverðs fá eigendur Haukafellsins 90 milljónir króna í úreldingarstyrk. Útgerðin heldur kvótanum eftir, um 755 þorskígildistonnum, sem er um 100 milljóna virði.

Haukafellið verður afhent nýjum eigendum Brumark hvalfiske í Fjortoft í Reykjavík þann 16. þessa mánaðar. Nýtt nafn Haukafellsins verrður Brodd og mun það stunda veiðar á ufsa við Noreg.
Haukafellið kom til landsins um mitt ár 1990 og hafa þeir Guðmundur Eiríksson og Axel Jónsson gert skipið út í félagi síðan og hefur Axel verið skipstjóri á skipinu. Haukafellið er 162 tonn að stærð og hefur verið gert út á humar og fiskitroll með þeim árangri sem knappur kvóti leyfir að sögn Axels.
Axel segir að óvíst sé hver framvindan verði. Kvótinn verði leigður fyrst í stað, ekki sé ákveðið hvort annað skip verði keypt. Eitt að því, sem auki óvissuna sé, að ekki sé leyfilegt að frysta humar um borð. "Með því gætum við tvöfaldað aflaverðmætið, en fáum það ekki. Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að sjávarútvegsráðherra geti ákveðið hvað megi gera í þeim efnum. Hann má sem sagt banna humarfrystingu úti á sjó en leyfa að frysta allar aðrar tegundir. Eins og staðan er í dag, hef ég mestan áhuga á því að kaupa mér hrefnuveiðibát," segir Axel Jónsson.
Þess má geta að útgerðarfélagi Axels, Guðmundur Eiríksson, hefur selt annan bát, Ásgeir Guðmundsson SF 112, til Raufarhafnar. Báturinn er búinn til línuveiða og er beitingarvél um borð. Hann er 214 tonn að stærð og um borð er lausfrystir, lóðrétt frystitæki og rækjuvinnslulína.

Morgunblaðið 7 janúar 1995.


13.10.2016 11:19

Huginn ll ÍS 92. TFCK.

Huginn ll ÍS 92 var smíðaður í Korsör í Danmörku árið 1934 fyrir Hlutafélagið Huginn á Ísafirði. Eik. 59 brl. 150 ha. Völund vél. Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950. Huginn ll átti sér tvö systurskip, sömu útgerðar, en þau hétu Huginn l ÍS 91 og 607. Huginn lll ÍS 93.


Huginn ll ÍS 92 að landa síld á Siglufirði.                        Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

         Hlutafélagið Huginn á Ísafirði

Árið 1934 hóf nýtt hlutafélag, er Huginn nefndist, starfsemi. Helsti hvatamaður að stofnun þess var Björgvin Bjarnason, og fékk hann til liðs við sig ýmsa þekkta gorgara og fyrirtæki á Ísafirði sem tengdust sjávarútvegi, Íshúsfélag Ísfirðinga, Íshúsfélagið Jökul og Vélbátaábyrgðarfélag Ísfirðinga. Félagið lét smíða í Danmörku þrjá báta, sem hétu Huginn l, ll og lll, og komu hinir fyrstu tveir til Ísafjarðar árið 1934, en hinn þriðji árið eftir. Huginn l var 57 brl. að stærð, en hinir tveir 59 brl. hvor, og var þeim öllum haldið jöfnum höndum til þorsk og síldveiða. Skipstjórar voru þeir Ragnar Jóhannsson á Huganum l, Guðbjörn Jónsson á Huganum ll og Indriði Jónsson á Huganum lll. Björgvin Bjarnason var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins.

Heimild: Víkingur 13-14 tbl. 1940.

12.10.2016 11:15

1942. Bliki EA 12. TFLL.

Bliki EA 12 var smíðaður hjá Lund Varv och Verksted A/B í Ramvik í Svíþjóð árið 1988 fyrir Blika h/f á Dalvík. 216 brl. 990 ha. Bergen díesel vél, 728 Kw. Skipið var selt til Álasunds í Noregi, 15 maí árið 1997, sama nafn. Seldur til Færeyja árið 2006 og hét Bliki þar einnig.


Bliki EA 12.                                                                                                Mynd á gömlu dagatali.

              Nýr Bliki væntanlegur

Bliki hf. á Dalvík hefur fest kaup á nýjum frystitogara er smíðaður var í Svíþjóð og er hann væntanlegur til heimahafnar upp úr miðjum september. Skipið er 242 lestir, 34 metrar að lengd og 8,75 metrar að breidd. Aðalvélin er 990 hestafla Bergen diesel. Nýja skipið hefur hlotið nafnið Bliki EA 12 og kemur í stað gamla Blika. Fyrirtækið skipti reyndar á gamla Blika og Arnari ÁR 12 frá Þorlákshöfn og Arnar verður síðan látinn ganga upp í kaupin á nýja Blika. Skipið er gert fyrir almennar togveiðar og fer á rækjuveiðar. Það er búið tækjum til frystingar um borð og einnig lausfrystingar. Kaupverð skipsins er rúmar 35 milljónir sænskra króna eða um 254 milljónir króna.

Dagur 3 september 1988.


11.10.2016 12:12

53. Andvari RE 8. TFKP.

Andvari RE 8 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 102 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Freyr í Reykjavík frá 30 nóvember árið 1946. Ný vél (1954) 330 ha. Alpha díesel vél. Sama ár fékk skipið nafnið Fiskaklettur RE 8, eigandi Freyr h/f í Reykjavík. Selt 12 október 1961, Frey h/f í Reykjavík, hét Fiskaklettur GK 131. Árið 1967 var skipið endurmælt, mældist þá 97 brl. Selt 20 maí 1968, Bernharð Ingimundarsyni og Gunnari Kristinssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Kristín VE 71. Selt 8 nóvember 1969, Ólafi S Lárussyni í Keflavík, hét Jón Guðmundsson KE 4. Skipið var aftur endurmælt árið 1970 og mælist eftir það 89 brl. Selt 23 febrúar 1972, Jóhanni Guðbrandssyni í Sandgerði, skipið hét Sandgerðingur GK 517. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá árið 1980.


Andvari RE 8 á síldveiðum.                                                                 (C) Sigurgeir B Halldórsson.


53. Jón Guðmundsson KE 4. Líkan Gríms Karlssonar.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

10.10.2016 10:50

B. v. Austri GK 238. LCHF.

Austri GK 238 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1911 fyrir Neptune Steam Fishing Co Ltd í Hull, hét fyrst Mackenzie H 349. Smíðanúmer 226. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var í þjónustu breska sjóhersins frá árinu 1914 til 1918 sem tundurduflaslæðari, hét þá H.M.T Mackenzie FY 336. Skilað til eigenda sinna árið 1918. Seldur árið 1919, Yarborough Steam Fishing Co Ltd í Grimsby, hét Mackenzie GY 99. Skipið var selt 25 janúar árið 1920, Fiskiveiðahlutafélaginu Kára í Reykjavík, hét Austri RE 238. 4 nóvember árið 1924 fær skipið skráningarnúmerið GK 238 þegar Kárafélagið flytur aðstöðu sína út í Viðey. Togarinn strandaði á Illugagrunni, rétt vestan við Vatnsnes á Húnaflóa, 7 september 1927. Öll áhöfn skipsins bjargaðist um borð í togarann Kára Sölmundarson GK 153 sem var í eigu sömu útgerðar.


Austri GK 238.                                                                                  Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson.


Mackenzie H 349.                                                                                            (C) Richard Nielsen.

          Austri strandar við Vatnsnes

í gærkvöldi kl. að ganga 8, strandaði togarinn "Austri" á Illugagrunni á Húnaflóa, skammt vestur af Vatnsnesinu. Þegar skeyti barst frá skipinu, voru þrír togarar komnir Austra til hjálpar, Kári Sölmundarson GK, Skallagrímur og Þórólfur og höfðu þeir allir í sameiningu reynt að ná honum út en ekki tekist. Háflóð var eða því sem næst, þegar skipið rakst á grunn. Ekki hafði neitt slys orðið, þegar skeytið kom klukkan að ganga 9 í gærkvöldi. En þá var hann að gera austan storm með töluverðum sjó.Ekkert var um það getið hvort mikil eð lítil síld hefði verið í skipinu. En sennilegt er, að hún hafi verið lítið, því það var búið að leggja upp mikinn afla á Flateyri. Það var tekið fram í skeytinu að Austri gæti ekki sent loftskeyti framar, og yrðu hin skipin að láta vita, hvað honum liði. Hefur loftskeytaútbúnaður bilað eitthvað. Undir miðnætti í fékkst samband aftur við eitthvert þeirra þriggja skipa sem komið höfðu Austra til hjálpar. Var þá allt hið sama að segja og áður, nema  vindur og sjór höfðu aukist allmikið. Voru skipverjar farnir að Ijetta skipið af kolum í dag heyrist sjálfsagt nákvæmlega um það, hvort tekist hefur að ná skipinu út eða ekki.

Morgunblaðið 8 september 1927.

                 Austri rekinn á land

             Talið þýðingarlaust að reyna að ná honum út

Eins og frá var sagt í blaðinu í gær, strandaði togarinn  Austri  í fyrrkvöld, skamt undan Vatnsnesi á Húnaflóa í fyrrinótt, eftir að skipið strandaði, gerði austan storm og brim allmikið, eins og sagt var hjer í blaðinu. Fór stormur og brim vaxandi, svo að skipverjar þorðu ekki annað en yfirgefa skipið kl. 2 í fyrrinótt. og tók Kári skipshöfnina. Þegar hún fór úr skipinu var það að öllu leyti ólaskað og enginn leki kominn að því. En með morgunflóðinu í gærmorgun tók skipið af skerinu, og rak mannlanst undan sjó og vindi til lands. Er Mbl. ókunnugt um, hvernig landtaka er þarna, en sagt er, að hún sje þarna slæm, strönd grýtt og klettótt, og skerjagarður úti fyrir. í gærmorgun komst skipstjóri Og nokkrir með honum í Austra. Sást þá, að hann var orðinn meira eða minna laskaður. Var sjór kominn bæði í vjelarrúm og klefa yfirmanna skipsins, Og má því gera ráð fyrir, að skipið hafi þá verið orðið allmikið brotið. Hefir sennilega fengið göt á sig á skerjunum, er það rak í land. Og nú hefir verið norðaustan rumbustormur með miklum sjó, svo sennilega hefir heldur meira kárnað um skipið síðan menn yfirgáfu það alveg. Stjórn útgerðarfjelags þess, er á Austra, hjelt fund í gær út af strandinu. Og varð hún ásátt um það, að þýðingarlaust mundi vera að reyna að gera tilraun til að ná skipinu út. Öðrum skipum til þeirra hluta er heldur ekki til að dreifa hjer en togurum. En það sýndi sig í fyrrinótt, að þeir fengu engu áorkað við það að ná Austra á flot. Og ennfremur er talið sennilegt, að skipið laskist svo í austansjónum nú, að það verði flak eitt. Austri var vátryggður hjá Samtryggingu íslenskra botnvörpunga, eins og aðrir botnvörpungar hjer, fyrir 15.000 sterlingspund.

Morgunblaðið. 9 september 1927.


09.10.2016 10:09

Kópur BA 138. LBKM.

Selveiðiskipið Kópur BA 138 var smíðaður í Rosendal (Knut Skaaluren ?) í Harðangursfirði í Noregi árið 1913. Eik og fura. 134 brl. 120 ha. Compound gufuvél. Hét áður Axla og var gert út á selveiðar í norðurhöfum. Eigandi var Hlutafélagið Kópur h/f á Tálknafirði ( Pétur A Ólafsson) frá febrúar árið 1916. Skipið sökk út af Krísuvík, 12 október árið 1917. Áhöfnin, 9 menn bjargaðist á land í skipsbátnum eftir 10 klukkustunda hrakninga.


Kópur BA 138 fastur í Grænlandsísnum.                        Ljósm: Skipverji af Kóp. Mynd í minni eigu.


Selveiðiskipið Kópur BA 138. Líkan Gríms Karlssonar.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

      Selveiðiskipið Kópur og endalok þess

Árið 1916 stofnaði framtakssamur útgerðarmaður á Vestfjörðum, Pétur A Ólafsson til nýs þáttar í öflun sjávarafurða, selveiði í Norðurhöfum. Norðmenn höfðu stundað þessar veiðar í áratugi og gera enn. Íslendingar þekktu hinsvegar lítt til selveiða og höfðu ekki lagt út á þessa braut fyrr en með stofnun Hlutafélagsins Kóps á Tálknafirði og kaupum á samnefndu selveiðiskipi. Kópur var smíðaður í Rosendal í Harðangursfirði í Noregi árið 1913. Skipið, sem ætlað var til selveiða í ís, var sérstaklega sterkbyggt og vandað að öllum frágangi. Það var 98 ft. Langt, 134 lestir að stærð og hafði 120 ha. Gufuvél og gekk rúmar 7 mílur. Auk þess hafði Kópur seglabúnað, klíver, fokku, stórsegl og messansegl og gat því hæglega siglt milli landa þótt vélaraflið væri ekki fyrir hendi.
Ysta klæðning í byrðingi Kóps var 2 tommu eikaríshúð. Þá 3 tommu byrðingur. Bönd skipsins voru úr 9 tommu eik og innan á böndum 2 tommu klæðning. Að utan var skipið slegið járnum til hlífðar í ísnum. Hlutafélagið Kópur keypti skipið í Noregi í febrúar 1916 fyrir 140 þús. Krónur. Meðan undirbúningur að heimferð til Íslands stóð yfir, barst útgerðinni tilboð í Kóp. Norðmenn vildu kaupa hann aftur fyrir 170 þús, en Pétur A Ólafsson neitaði og til Íslands sigldi skipið svo um vorið. Áhöfn skipsins var í upphafi 12 manns þar af 10 Norðmenn og 2 Íslendingar, skipstjóri var í upphafi norskur, Abrahamsen að nafni. En íslendingarnir voru Andrés Guðmundsson frá Hvallátrum, verðandi skipstjóri á Kóp og Jón Guðmundsson háseti bróðir Andrésar.
Eftir fyrsta úthaldið í strætisísnum milli Íslands og Grænlands kom skipið með ævintýralega mikinn afla sem vakti mikla athygli í Noregi og víðar. Reyndu Norðmenn að fá skipið keypt enn og aftur, buðu vel, en það gekk ekki. Urðu þá miklir erfiðleikar að fá riffla og skot hjá Norðmönnum, svo að kaupa varð slíkt frá Kanada. En þeir rifflar sem voru bandarískir reyndust afar ílla, voru ekki nógu kraftmiklir. Þegar Kópur var síðast í ísnum lenti hann í ísskrúfu. Ísinn þéttist kringum og að skipinu, undir bóga og skut, og lyfti skipinu hátt upp. En að lokum greiddist úr ísnum og skipið seig niður. Þótti það ganga kraftaverki næst að skipið skyldi ekki molast niður, en það skemmdist mikið og tók það áhöfnina langan tíma að gera skipið fært til heimsiglingar. Skipshöfnin á Kóp, auk Andrésar og Jóns, bróður hans voru, Einar Magnússon stýrimaður, Skúli Einarsson vélstjóri, Ólafur Jóhannesson vélstjóri, Steindór Ingimundsson matsveinn, Jakob Gíslason háseti, Árni Dagbjartsson háseti og Valdimar Kristjánsson háseti.
Kópur fórst út af Selvogi, 12 október árið 1917 í vonskuveðri. Óstöðvandi leki kom öllum að óvörum og varð ekki við neitt ráðið með þeim afleiðingum að skipið sökk. Var talið að það væri afleiðing þess að skipið lenti í ísskrúfunni. Áhöfnin komst frá borði í stærri selabátinn sem var sexæringur, og náðu þeir landi eftir miklar mannraunir við Hvalbás, rétt austan við Selatanga í Krísuvík. Settu þeir bátinn undan sjó upp á hraunsstall sem tók við af fjörunni, báru grjót í og gengu tryggilega frá öllu. Þannig endaði selveiðisaga Íslendinga, var stutt, aðeins tveir vetur. Kópur var eina selveiðiskipið sem Íslendingar hafa átt.

Heimildir: Menn í sjávarháska. Sveinn Sæmundsson 1966.
                  Egill Ólafsson á Hnjóti í Örlygshöfn.
                  Jón Þ Þór. Saga sjávarútvegs á Íslandi.


08.10.2016 13:30

Talisman EA 23. LBHQ.

Talisman EA 23 var smíðaður í Brixham á Englandi árið 1876. Eik og fura 46 brl. Eigandi frá 1 janúar árið 1880 var Hannah T. Tyler í Brixham. Frá 1 janúar árið 1883 var skipið í eigu Joseph Perrett í Brixham. 1 október árið 1910 var skipið í eigu Walter Moody Kelly í Fleetwood, hét Talisman FD 76. Skipið var selt 6 maí árið 1898, Jóni Jörgen Christian Havsteen á Akureyri, hélt sínu fyrra nafni en fékk árið 1903, skráningarnúmerið EA 23. Selt árið 1917, Ásgeiri Péturssyni útgerðar og kaupmanni á Akureyri. 40 ha. Hein vél var sett í skipið sama ár. Skipið strandaði 24 mars árið 1922 í Kleifavík milli Önundarfjarðar og Súgandafjarðar. 8 menn af áhöfninni fórust, en 8 menn náðu landi. 4 af þeim urðu úti á leið til bæja en 4 björguðust til bæja í Önundarfirði.


Talisman á Pollinum á Akureyri árið 1898.                                      Throup / Þjóðminjasafn Íslands.


Talisman undir fullum seglum.                                                   Ljósmyndari óþekktur.  

Talisman FD 76 frá Fleetwood annar frá vinstri á myndinni.                                       (C) Alan Hirst.  

Talisman EA 23. Líkan.                                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 

       Talisman strandar í Kleifavík

24. marz strandaði þilskipið Talisman frá Akureyri, sem var á leið hingað suður, utarlega við Súgandafjörð að vestanverðu, í svonefndri Kleifavík. Var þá afspyrnu norðanveður. 7 af skipshöfninni komust í land á öðru siglutrénu undir morgun. Skiftu þeir sér þegar og fóru að leita bæja. Fjórir þeirra fundust af mönnum frá Flateyri, er voru á leið til Súgandafjarðar. Voru þeir allir lifandi, en tveir mjög illa haldnir. Súgfirðingar leituðu einnig að hinum þremur, og fundust þeir nálægt Stað, tveir látnir en hinn þriðji með lífsmarki, og lést hann stuttu síðar. Skipið hafði allt liðast í sundur, og hafa 8 lík fundist af þeim 9 sem drukknuðu. Áður hafði skipið fengið mikið áfall á Húnaflóa, hafði káetukappinn losnað og skipið fyllst af sjó. Mennirnir sem fórust hétu: Mikael Guðmundsson skipstjórinn, Stefán Ásgrímsson vjelamaður, Stefán Jóhannsson, Ásgeir Sigurðsson og Benedikt Jónsson, allir af Akureyri. Af Siglufirði voru 2: Bjarni Emilsson og Gunnar Sigfússon. Úr Eyjafirði voru Tryggvi Kristjánsson frá Skeiði í Svarfaðardal, Þorsteinn Jónsson frá Grímsnesi, Sæmundur Friðriksson úr Glerárhverfi, Jóhannes Jóhannesson frá Kúgili og Sigurður Þorkelsson. Skipstjórinn, Mikael Guðmundsson, var ættaður úr Hrísey á Eyjafirði, en var nú búsettur á Akureyri, mun hafa verið maður tæplega fertugur. Hann byrjaði kornungur sjómensku og hafði stundað hana að mestu alla æfi. Var hann hinn duglegasti og bezti sjómaður, gætinn og aflasæll. Hann lætur eftir sig unga konu og 3 börn, öll mjög ung.

Ægir. 1 apríl 1922.

                            

07.10.2016 12:40

343. Björn NK 33.

Björn NK 33 var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1929. Eik og fura 17 brl. 30 ha. Union vél. Eigandi var Gísli Kristjánsson í Neskaupstað frá 18 mars 1929. Ný vél (1940) 66 ha. Kelvin díesel vél. Seldur 7 október 1937, Ársæli Júlíussyni og Þorsteini Júlíussyni í Neskaupstað. Seldur 25 mars 1955, Helga Símonarssyni og Einari Jónssyni í Neskaupstað. Seldur 21 apríl 1957, Þorvaldi Einarssyni í Neskaupstað. Ný vél (1962) 86 ha. Perkins díesel vél. Seldur 17 september 1963, Halldóri Einarssyni og Björgvin Halldórssyni í Neskaupstað, báturinn hét Stígandi NK 33. Báturinn fórst um 20 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni, 12 desember 1971. 2 menn fórust, bræður, en einn maður bjargaðist um borð í togarann Barða NK 120 eftir 13 klukkustunda hrakninga í gúmmíbjörgunarbát.


Björn NK 33 á Norðfirði.                                                                                   (C) Björn Björnsson.


Stígandi NK 33 með Norðfjarðarhorn í baksýn.                                    Málverk eftir Pétur Óskarsson.

         Bátur frá Norðfirði ferst
                   

                   Tveir bræður drukknuðu

Mánudaginn 12. des. fórst v/b Stígandi NK 33, 15-20 sjómílur suðaustur úr Horni. Voru skipverjar að enda við að draga línuna þegar slysið varð. Samband var haft við bátinn um klukkan 13 en hálftíma síðar fórst hann mjög skyndilega. Kom hnútur á bátinn og mun honum hafa hvolft. Á bátnum voru þrír menn og fórust tveir þeirra, bræðurnir Björgvin og Einar Halldórssynir. Þeir voru synir hjónanna Kristínar Einarsdóttur, sem látin er fyrir mörgum árum, og Halldórs V. Einarssonar, útgerðarmanns. Björgvin var 30 ára gamall fæddur hér í bæ 30. ágúst 1941. Hann var ókvæntur, en bjó með föður sínum. Einar var 36 ára fæddur í Mjóafirði 5. okt. 1935. Hann lætur eftir sig konu, Rósu Skarphéðinsdóttur, og 4 börn á aldrinum 6 til 11 ára. Þeir bræður áttu Stíganda, ásamt föður sínum, og voru fengsælir og dugandi sjómenn. Þau hjón, Kristín og Halldór, eignuðust fimm syni. Fjórir þeirra eru nú látnir, allir af slysförum. Austurland vottar ástvinum hinna látnu bræðra dýpstu samúð. Þriðji maðurinn á bátnum var Eiríkur Trausti Stefánsson, Melagötu 18, frá Karlsskála í Helgustaðahreppi. Honum tókst að komast í gúmmíbát. Þegar Stígandi kom ekki að landi á eðlilegum tíma, var hafin leit og um nóttina fann Barði gúmmíbátinn og var þá ljóst hvernig komið var. Hafði Eiríkur Trausti þá verið 13 tíma í bátnum. Stígandi var 16 lesta bátur, smíðaður á Fáskrúðsfirði 1929 fyrir Gísla Kristjánsson. Hét hann þá og lengi síðan Björn, en Stígandanafnið hlaut hann þegar Halldór og synir hans keyptu hann.

Austurland. 31 desember 1971.


06.10.2016 11:27

E. s. Jörundur. LBMF.

Norðurlandsbáturinn Jörundur var smíðaður í Fairley í Skotlandi árið 1875. Eik 75 brl. 100 ha. Compound gufuvél. Eigandi var Gufubátsfélag Norðlendinga á Akureyri frá mars árið 1909. Var áður í eigu, Det Östsjællandske Dampskibselskab og hét þá Köge. Jörundur var í áætlunarferðum á hafnir við Norðurland en þegar mest var, sigldi hann með farþega og póst, allt frá Lambhúsvík á austanverðu Vatnsnesi í vestri og austur um til Seyðisfjarðar. Síðasta ár Jörundar í rekstri var árið 1915, en þá var skipið selt og félagið Gufubátsfélag Norðlendinga lagt niður. Ekki hef ég upplýsingar hvert Jörundur var seldur eða hvað um hann varð.

Norðurlandsbáturinn Jörundur.                                                                      Ljósmyndari óþekktur. 

      Gufubátsfélagið og Jörundur

Seint um vorið 1909 lagðist Jörundur að bryggju á Akureyri eftir að hafa verið veðurteftur í Færeyjum í nokkra daga. Bryggjulegan á Pollinum varð þó ekki löng því að fáeinum dögum síðar lagði hann af stað til Sauðárkróks í sína fyrstu áætlunarsiglingu. Við stýrið var Oddur Sigurðsson skipstjóri af Látraströnd en hann hafði áður staðið við stjórnvölinn á ýmsum fiskiskipum.
Ástæða þess að Oddur átti þess kost að gerast skipstjóri á strandferðaskipi fyrir norðan var vafalaust hagnaðarvon nokkurra frammámanna á Akureyri. Menn eins og Snorri Jónsson kaupmaður og timburmeistari á Oddeyri, Sigvaldi Þorsteinsson kaupmaður í Aðalstræti, Ragnar Ólafsson, sem var ört vaxandi athafnamaður í kaupstaðnum, Ottó Tulinius, kaupmaður og útgerðarmaður, Friðrik Kristjánsson, bankastjóri í Íslandsbanka, voru fljótir að eygja hagnaðarvon. Allir keyptu þeir hlutabréf í Gufubátsfélaginu fyrir 500 krónur hver. Enginn var stórtækari, en allnokkrir aðrir keyptu hlut fyrir eitt eða tvö hundruð krónur.
Hitt er víst að enginn þeirra hefði sett eyrisvirði í félagið ef ekki hefði komið til stuðningur stjórnvalda, bæði á Alþingi og heima í héraði. Stjórnvöld, og þar er bæjarstjórnin á Akureyri ekki undanskilin, voru hins vegar ekki á þeim buxunum að veita þessu verkefni forstöðu. Þannig fóru saman hagsmunir einstaklinganna sem settu á oddinn að ávaxta sitt pund, og hins opinbera.

Heimild: Saga Akureyrar. 1906-1918. Jón Hjaltason. 2000.

05.10.2016 12:47

E. s. Skjöld. NCRQ / NJQS / LBKP.

Skjöld var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1869 fyrir Dampskibet Skjöld Rederi A/S í Svendborg í Danmörku. Smíðanúmer 52. Stál 66,64 brl. 120 ha. 2 þennslu gufuvél. Skipið var selt 10 mars 1874, Sonderburger Dampfschiffsfahrts Gesellschaft í Sönderborg í Þýskalandi. Selt 10 maí 1898, Vejle Dampbaade A/S í Vejle í Danmörku. Selt 28 júní 1916, Fiskerikonsulent Matthías Þórðarson í Charlottenlund í Kaupmannahöfn. Skipið var selt 19 október 1916, Elíasi Stefánssyni í Reykjavík. Skipið var selt árið 1920, Eimskipafélagi Suðurlands h/f. Skjöld var í póstferðum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness á árunum 1918 til 1922 og flutti farþega, póst og vörur. Skipinu var lagt árið 1922. Selt árið 1924, Kristjáni Ottasyni í Reykjavík. Skipið mun hafa verið rifið um árið 1930.

E.s Skjöld á Reykjavíkurhöfn árið 1916.                                                    Ljósm: Magnús Ólafsson. 

04.10.2016 10:57

1346. Hólmanes SU 1. TFEN.

Hólmanes SU 1 var smíðaður hjá Constucciones Navales P. Freine S.A. í Vigo á Spáni árið 1974 fyrir Hólma h/f á Eskifirði. Smíðanúmer 80. 451 brl. 1.700 ha. MAN Bazan vél, 1.250 Kw. Frá árinu 1997 er skipið gert út af Hraðfrystihúsi Eskifjarðar h/f á Eskifirði til ársins 2003, að Eskja h/f á Eskifirði tekur við útgerð þess. Skipið var selt árið 2004, Íshafi h/f á Húsavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur, 7 júlí árið 2005.


Hólmanes SU 1 að leggjast við bryggju á Eskifirði.                                          (C) Vilberg Guðnason.

        Hólmanes kemur til heimahafnar

Fimmtudaginn 7. febrúar kom skuttogarinn Hólmanes í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Eskifjarðar. Eigandi skipsins er Hólmi hf., en aðalhluthafair era Hraðfrystihús Eskifjarðar og Kaupfélag Héraðsbúa. Segja má því, að við útgerð þessa glæsilega skips taki höndum saman Eskfffirðingar,Reyðfirðingar og Héraðsbúar. Framkvæmdastjóri Hólma hf. er Aðalsteinn Jónsson, Eskifirði, en skrifstofustjóri útgerðarinnar er Kristján Sigurðsson, Eskifirði.
 Afla skipsins skipta aðaleigendur þess á milli sín til vinnslu. Hólmanes, sem ber einkennisstafina SU 1, er sá fyrsti af sex skuttogurum, af minni gerð, sem smíðaðir eru á Spáni fyrir Íslendinga. Skipið er smíðað í Vigo á Spáni og er um 500 lestir að stærð. Aðalvél skipsins er spænsk MAN vél, 1.800 ha og er gangi hennar einungis stjórnað með breytingu á skurði skrúfu, en það þýðir, að ganghraði vélarinnar er ætíð hinn sami. Þá eru í skipinu tvær ljósavélar af Caterpillar gerð. Toigvinda er rafknúin og rafall togvindu knúinn af aðatvél. Tvær Raytheon ratsjár eru í skipinu og Atlas fiskileitartæki svo sem tveir dýptarmætar og fisksjá. Þá eru öll fullkomnustu siglingatæki í skipiniu, gíróáttaviti, lórantæki, miðunarstöð, talstöð og fleiri tæki. íbúðir eru fyrir 16 manns og eru þær frammi í skipinu sem og aðrar vistarverur. Eru þær allar mjög smekklegar og vandaðar að frágangi. Í reynsluferð gekk Hólmanes 13,3/4 sjómílu, en á heimleiðinni var ganghraði 11,1/2 sjómíla, enda ekki fullkeyrt. Gekk ferðin heim vel, og skipið reyndist hið besta. 
Skipstjóri á Hólmanesi er Sigurður Magnússon, 1. stýrimaður Finnbogi Böðvarsson og 1. vélstjóri Hafsteinn Guðvarðarson. Hólmanes fór áleiðis til Reykjavíkur sl. fimmtudag en þar á að ganga frá hjálparvindum. Síðan fer skipið á veiðar. Hólmanes var til sýnis á Eskifirði 8 febrúar en á Reyðarfirði daginn eftir. Var öllum boðið um borð, þar sem veitingar voru fram bornar. Voru margar ræður haldnar til heilla hinu nýja skipi og áhöfn þess.

Austurland. 22 febrúar 1974.03.10.2016 10:00

B. v. Bragi RE 275. LBPW / TFGC.

Bragi RE 275 var smíðaður hjá Ferguson Brothers Shipbuilder & Engineers Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918 fyrir breska sjóherinn (Admiralty Royal Navy London), hét William Honnor. Smíðanúmer 240. 321 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Ferguson Brothers. Árið 1923 er skipið skráð hjá Irish Free State Government. Seldur árið 1926, A/S Tvöroyri Fiskeriselskab (R.B. Thomsen) í Trangisvogi í Færeyjum, hét þar Grímur Kamban. Seldur árið 1927, J. McCann í Hull, fær sitt gamla nafn, William Honnor aftur. Seldur sama ár, Yorkshire Steam Fishing Co Ltd í Hull, fær nafnið Sprayflower. Seldur árið 1928, Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík, fær nafnið Bragi RE 275. Togarinn var sigldur niður út af Fleetwood af breska flutningaskipinu, Duke of York, 30 október árið 1940. 10 menn fórust en 3 mönnum var bjargað um borð í Duke of York.

Bragi RE 275 að veiðum.                                             Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

Togarinn William Honnor.                                                                         Ljósmyndari óþekktur. 

    Togarinn "Bragi" ferst við England

Bragi, annar togari Geirs Thorsteinsson, fórst við Englandsstrendur snemma á miðvikudagsmorgun, af völdum áreksturs. Af 13 manna áhöfn skipsins fórust 10, en 3 björguðust. Þessi harmafregn barst Geir Thorsteinsson í símskeyti, er hann fékk um klukkan 1 aðfaranótt fimtudags. Ekkert var sagt í skeytinu um það, hvar slysið hefði verið eða hvernig það hefði atvikast. Aðeins var sagt, að enskt vöruflutningaskip, "Duke of York" , hefði rekist á Braga, hann farist og aðeins þrír menn af áhöfninni bjargast.
Í skeytinu var getið um mennina sem björguðust þannig, að aðeins föðurnöfnin voru tilgreind : Sigurðsson, Olsen og Einarsson. Um tvo hina fyrstnefndu var ekki um að villast. Það eru þeir Þórður Sigurðsson 2. stýrimaður og Stefán Olsen kyndari. En á skipinu voru tveir menn Einarssynir, þeir Guðmundur Einarsson 1 vjelstjóri, Bergþórugötu 53 og Stefán Einarsson kyndari, Sólvallagötu 21 . Hinn síðarnefndi hafði ekki verið á Braga að undanförnu, fór aðeins þessa ferð út. Þegar Geir Thorsteinsson varð þess var, að hjer gat verið um tvo menn að ræða, sem björguðust, sendi hann skeyti út og spurðist fyrir um, hvor þeirra  hefði komist lífs af. Það skeyti var sent hjeðan klukkan 3 í fyrrinótt. Svarskeyti var ókomið í gærkvöldi. Eins og getið var hjer að framan, var ekkert sagt í skeytinu sem sagði frá slysinu, hvar slysið varð eða með hverjum hætti það bar að. Bragi var á leið með fiskfarm til Englands. Var búist við að hann myndi selja farminn í Fleetwood á miðvikudag eða fimtudag. Hefir togarinn því verið kominn nálægt Fleetwood. Er ekki ósennilegt, að slysið hafi atvikast þannig, að togarinn hafi legið um kyrt og verið að bíða eftir að birti, til þess að geta siglt áfram. Hafi þá "Duke of York" , sem er 3743 br. smál. að stærð, siglt á togarann. Skip, sem komin eru að ströndum Bretlands, mega ekki hafa ljós uppi og er vitanlega meiri hætta á árekstrum fyrir það.
Þeir níu af skipverjum á Braga, sem vitað er um að farist hafa með skipinu, eru : Ingvar Ágúst Bjarnason, skipstjóri, til heimilis á Öldugötu 4, 48 ára að aldri. Hann lætur eftir sig konu og 6 börn, og af þeim eru 4 innan 16 ára aldurs. Sigurmann Eiríksson, 1. stýrimaður, Barónsstíg 43 ; 42 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Ingvar Júlíus Guðmundsson, 2. vjelstjóri, Spítalastíg 5 ; 42 ára . Kona og 5 börn; öll í ómegð. Þorbjörn Björnsson, matsveinn, Laugaveg 20 B; 38 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Lárus Guðnason, háseti, Kárstíg 11 ; 45 ára . Kona og 2 börn í ómegð. Sveinbjörn Guðmundsson, háseti, Njálsgötu 50 ; 39 ára. Kona og eitt barn í ómegð. Elías Loftsson, háseti, Skólavörðustíg 35 ; 33 ára. Kona og 1 barn í ómegð. Ingimar Kristinsson, háseti, Hafnarfirði; 40 ára. Bjó með öldruðum föður sínum. Ingimar Sölvason, loftskeytamaður, Njálsgötu 84 ; 30 ára . Kona og 1 barn í ómegð. Vitað er um eftirtalda tvo menn, sem björguðust: Þórður Sigurðsson, 2. stýrimaður, Tjarnargötu 2. Stefán Olsen, kyndari, Kárastíg 13. En eins og áður segir var ekki seint í gærkvöldi fengin vitneskja um afdrif tveggja mannanna , þeirra Guðmundar Einarssonar 1. vjelstjóra og Stefáns Einarssonar kyndara . Annar hvor þeirra hefir drukknað.

 Togarinn Bragi var bygður 1918 í Port Glasgow. Hann var bygður úr stáli, 321 br. smál að stærð. Hann var um skeið eign Færeyinga og hjet þá Grímur Kamban. Árið 1928 keypti Geir Thorsteinsson togarann, sem þá var aftur kominn í eign bresks fjelags. Geir Thorsteinsson hefir átt Braga síðan. skipið hafði einkennisstafina RE 275.

Morgunblaðið 1 nóvember 1940.

02.10.2016 09:25

B. v. Gylfi BA 77. TFUL.

Gylfi BA 77 var smíðaður hjá Deutsche Schiffs und Maschinenbau A. G. Seebeck í Wesermunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1936 fyrir MacLine Ltd í London (Leverhulme Ltd), fær nafnið Northern Chief LO 165. Smíðanúmer 554. 620 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 9 október árið 1937, Northern Trawlers Ltd í London (H. Markham Cook í Grimsby). Tekinn í þjónustu breska sjóhersins, 28 ágúst árið 1939. Togaranum var skilað til eigenga sinna í febrúar árið 1946. Í desember árið 1946 er hann skráður í Grimsby sem Northern Chief GY 445. Seldur 1 febrúar árið 1947, Gylfa h/f á Patreksfirði, fær nafnið Gylfi BA 77. Skipið var selt 12 apríl árið 1950, Ludwig Janssen & Co í Wesermunde í Þýskalandi, hét þar Island BX 536. Seldur árið 1957, W. Ritscher í Hamborg í brotajárn og var rifinn þar 15 júlí sama ár. Gylfi var einn af þremur, svokölluðu  "Sáputogurum" sem keyptir voru til landsins eftir heimstyrjöldina síðari, hinir togararnir voru Kári RE 195, í eigu h/f Alliance og Vörður BA 142 í eigu Varðar h/f á Patreksfirði.


Gylfi BA 77.                                                                 Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Northern Chief LO 165 að hertaka þýskan kafbát.                                               Mynd af netinu.

                 Ensku "sáputogararnir"

Fyrir stríð könnuðust margir landsmenn við ensku "sáputogarana", sem svo voru nefndir. Þeir stunduðu þá flestir veiðar hér við land. Þetta voru stærri og glæsilegri skip, heldur en þá stunduðu almennt veiðar á íslandsmiðum. Á stríðsárunum voru þessi skip öll tekin í þjónustu flotans til kafbátaleitar og verndar skipalestum. Þrjú þeirra fórust á stríðsárunum, en að stríðinu loknu snéru tólf þeirra aftur til veiða. Stunduðu mörg þeirra veiðar hér við land fram á sjöunda áratuginn og voru þá vel þekkt í íslenzkum höfnum.
Þessi skip voru smíðuð í Þýzkalandi, í Bremen og Wesermúnde, og afhent árið 1936. Seebeck-fyrirtækin voru þá tekin að blómstra á ný eftir valdatöku Hitlers, en þau höfðu riðað til falls í upphafi heimskreppunnar upp úr 1930. Kaupandinn var Unilever, dótturfyrirtæki sápu- og matvælaframleiðandans Liverholme Group of Companies, sem sameinaðist hollenzka smjörlíkisframleiðandanum Van Den Berghs 1930. Andvirði skipanna var sagt, að Unilever hafi reitt af hendi í vöruskiptum með framleiðslu verksmiðja sinna, Sunlight Soap. Sumir nefndu þessa togara því "Sunlight-togarana", en algengara var að þeir væru nefndir "sáputogararnir." Skipin voru 15 og báru eftirfarandi nöfn:
Northern Chief, Northern Duke, Northern Gem, Northern Isles, Northern Princess, Northern Rover, Northern Spray, Northern Wave, Northern Dawn, Northern Foam, Northern Gift, Northern Pride, Northern Reward, Northern Sky og Northern Sun.
Skipin fóru upphaflega öll til Fleetwood og var skráður eigandi Mac Line Ltd., London, en eftir erfiðan rekstur þar, voru þau öll seld árið 1937 til William Bennet, sem stofnaði útgerðarfélagið Associated Fisheries Ltd. í Grimsby 1929. Þetta var mikil lyftistöng fyrir höfnina í Grimsby sem skömmu áður hafði aukið þjónustu við togaraflotann með byggingu á skipadokk nr. 3. Fram yfir 1930 voru flest skip, sem stunduðu veiðar á  Íslandsmiðum, í Hvítahafinu, Barentshafinu og við strendur Noregs, 130-140 fet á lengd og yfirleitt um 320-400 rúmlestir. (Árið 1945 var meðalstærð íslenzkra togara 335 rúmlestir). "Sáputogararnir" voru aftur á móti 181 fet og mældust 620-625 rúmlestir. Þeir höfðu margt fram yfir eldri skip enska flotans, voru t.d. búnir ýmsum siglinga og fiskileitartækjum, sem ekki voru í eldri togurum. Vistarverur skipverja voru einnig allt aðrar, fullkomnari og betri og hreinlætisaðstaða skipverja önnur og betri. Þeir voru taldir mjög góð sjóskip og voru auðþekktir á brúnni, sem var tveggja hæða. Á stríðsárunum var þriðju hæðinni síðan bætt ofan á brúna. Upphaflega voru togararnir allir með 1000 ha. gufuvél, kolakyntir, en fljótlega eftir stríðið var breytt yfir í olíukyndingu.
  Strax í stríðsbyrjun voru Northern-togararnir teknir í þjónustu flotans til kafbátaleitar og til verndar skipalestum, sem voru í flutningum til og frá íslandi og víðar. Voru þeir búnir fallbyssum og djúpsprengjum. Höfðu margir þeirra aðstöðu í Hvalfirði öll stríðsárin. Togarinn Northern Gem bjargaði áhöfn Libertyskipsins J. L. M. Curry út af Austfjörðum veturinn 1943 og flutti áhöfnina til Seyðisfjarðar. Togarinn Northern Reward var eitt af fylgdarskipum skipalestarinnar, sem Goðafoss var í, þegar þýzkur kafbátur réðist á skipalestina á Faxaflóa 10. nóvember 1944 og sökkti Goðafossi og fleiri skipum skammt frá Garðskaga. Skipverjum á Goðafossi hafði þá nýverið tekizt að bjarga 19 skipverjum af olíuskipinu Shirvan, sem kafbáturinn hafði áður skotið niður með tundurskeyti. Togarinn kom á vettvang tíu til fimmtán mínútum eftir að Goðafoss sökk. Hófu skipverjar togarans þá að varpa djúpsprengjum þar sem kafbáturinn var talinn lúra. Það voru talin nauðsynleg viðbrögð til að útrýma hættunni, svo að togarinn sjálfur yrði ekki fyrir árás kafbátsins, ef hann færi að bjarga fólki, eíns og reynslan var með Goðafoss. Annað skip kom einnig á vettvang, þegar Goðafossi var sökkt. Það var dráttarbáturinn Empire World, en honum var ætlað að bjarga olíuskipinu Shirvan, en kom aldrei framar til hafnar. Álitið var í fyrstu, að kafbáturinn hefði grandað dráttarbátnum, en síðar kom í ljós, að hann mun hafa farizt vegna óveðurs, en ekki af hernaðarvöldum. Togarinn Northern Reward flutti síðan skipbrotsmennina af Goðafossi til hafnar í Reykjavík. Eins og áður segir fórust þrír Northern-togararnir í stríðinu: Þýzkur kafbátur sökkti Rover við Orkneyjar í stríðsbyrjun, 30. október 1939,  
annar þýzkur kafbátur sökkti Princess undan Ameríkuströnd 7. marz 1942 og Isles strandaði nærri Durban í Afríku 19. janúar 1945.

Jón Páll Halldórsson. Sjómannabl. Víkingur 1 feb. 2006.

Flettingar í dag: 643
Gestir í dag: 193
Flettingar í gær: 3151
Gestir í gær: 437
Samtals flettingar: 1956451
Samtals gestir: 495306
Tölur uppfærðar: 7.8.2020 04:22:16