Færslur: 2019 Janúar

27.01.2019 04:30

B. v. Hafliði SI 2. TFDE.

Nýsköpunartogarinn Hafliði SI 2 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði, hét fyrst Garðar Þorsteinsson GK 3. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 790. Skipið var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f. Togarinn var seldur til Englands og tekinn af skrá 7 júní árið 1973.


75. Hafliði SI 2 við bryggju á Siglufirði.                                                       Ljósmyndari óþekktur.

 

     Nýr togari keyptur til bæjarins

Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" lagðist að bryggju hér kl. 8,50 í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, bæjarfógeti, bauð skipið velkomið með snjallri ræðu, en bæjarstjóri, Jón Kjartansson, sem kom með skipinu, talaði af skipsfjöl. Þá talaði og bæjarfulltrúi, G. Jóhannsson. "Canton kvartetinn" söng á milli ræðanna. Undanfarið hefur verið unnið að því, í sambandi við lausn á hinu erfiða atvinnuástandi í bænum, að fá hingað nýsköpunartogara. Fóru þeir Bjarni Bjarnason, forseti bæjarstjórnar, Jón Kjartansson, bæjarstjóri, og í þeirra fylgd Þóroddur Guðmundsson, til Reykjavíkur á sínum tíma til að vinna að þessu máli. Bæjarstjóri hefur og að staðaldri, dvalið fyrir sunnan til að koma máli þessu áleiðis. Nú eru þau góðu tíðindi að segja, að fest hafa verið kaup á nýsköpunartogaranum "Garðari Þorsteinssyni" og er hann væntanlegur til bæjarins, í dag. Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" er af stærri gerð eldri nýsköpunartogaranna, af Neptúnus-stærð, og er því nokkru stærri en bæjartogarinn "Elliði". Hann hefur það og fram yfir "Elliða", að hann hefur fullkomin kælitæki í lest. Kaupverð skipsins er kr. 5.400. 000, eða nokkuð á fjórðu milljón lægra en þeirra togara, sem nú er verið að smíða í Englandi. Með í kaupunum fylgja öll veiðarfæri skipsins og annað það stórt og smátt sem skipinu tilheyrir. Skipstjórinn á "Elliða", sem staddur var í Reykjavík, sagði skip, vélar og veiðarfæri í góðu ásigkomulagi. Togarinn er nýkominn úr "slipp" þar sem fram fór ketilhreinsun, botnhreinsun og málning skipsins. Togarinn getur því þegar hafið veiðar og atvinnusköpun hér í bæ.
Ríkisstjórnin kaupir skipið af fyrri eigendum þess og selur það síðan hingað með mjög hagstæðum og aðgengilegum kjörum. Sýna þessar aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. fullkominn skilning á hinu erfiða atvinnuástandi Siglfirðinga. Án aðstoðar hennar hefðu Siglfirðingar hvorki getað keypt togarann né önnur atvinnutæki. Siglfirðingar hafa því ríka ástæðu til að vera ríkisstjórninni þakklátir fyrir aðgerðir hennar í þessu máli. Gengið var frá kaupum á togaranum og samningar undirskrifaðir miðvikudaginn 14. marz s. l. Samningana undirskrifuðu fyrir hönd bæjarstjórnar: Jón Kjartansson, bæjarstjóri, Ólafur Ragnars og Áki Jakobsson. Má það að vísu undarlegt heita, að Áki skuli fenginn til þess verks, þar sem hann hefur ekki svo vitað sé, komið nálægt útvegun togarans, enda ríkisstjórnin þannig skipuð og málum þann veg háttað, að ásjónir kommúnista eyðilögðu frekar fyrir málinu en hitt. Út af fyrir sig er það máske aukaatriði, þótt þessi brátt fráfarandi þingmaður okkar Siglfirðinga seti nafn sitt á kaupsamningana. Aðalatriðið er auðvitað hitt, að fyrir velvilja núverandi ríkisstjórnar og dugnað og harðfylgi flokksmanna ríkisstjórnarflokkanna hér, hefur tekizt að fá nýjan togara í bæinn með kostakjörum. Togara, sem skapa mun mikla atvinnu hér og verður væntanlega til að bjarga mörgu heimilinu hér í bæ frá bölvun atvinnuleysisins. Bæjarbúar fagna allir komu hins nýja togara og þakka þeim öllum, sem að komu hans hafa unnið. Jafnframt þakka bæjarbúar núverandi ríkisstjórn fyrir velvilja hennar og skilning í garð Siglfirðinga í þessu máli. Bæjarbúar bjóða hið nýja skip velkomið til Siglufjarðar, svo og skipstjóra þess og aðra yfirmenn, sem koma með skipinu. Og hugheilustu óskir bæjarbúa um giftu og velfarnað fylgja skipinu og áhöfn þess í höfnum og á höfum úti.

Siglfirðingur. 20 mars 1951.



B.v. Hafliði SI 2. Ólafsfjarðarmúli í baksýn.                                                       (C) Auður Ingólfsdóttir.

 

           Velkominn Hafliði SI 2

Bæjarstjórnin hefur ákveðið að hið nýja skip beri framvegis nafnið Hafliði. Munu allir vel una þeirri nafnagift. Togarinn fór á veiðar 21. f.m. Frézt hefur, að í gær hafi hann þurft að fara til Reykjavíkur til að taka salt. Ekki er óvarlegt að ætla, að afli hans hafi verið ca. 100 tonn. Fyrir hönd allra þeirra mörgu sem fagna komu togarans, vill Einherji bjóða nýja siglfirzka togarann velkominn til hinna nýju heimahafnar. Öllum er ljóst að mikið er í ráðizt, og happ og hending kann að hafa áhrif á rekstur og afkomu þessa skips, en það er von Siglfirðinga að hamingjan hossi Hafliða til hags og heilla fyrir okkur öll sem þennan bæ byggjum. Þeim, sem hlut eiga að því, að þessi togari er hingað kominn, skulu hér með færðar beztu þakkir.

Einherji. 3 apríl 1951.


B.v. Hafliði SI 2. Líkan á Síldarminjasafninu á Siglufirði.       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

 

  Togarinn Hafliði SI 2 bjargaði áhöfn Fylkis RE 161


Meðal togaranna sem voru að veiðum nær landi voru b.v. Hafliði SI 2 frá Siglufirði. Loftskeytamaðurinn á varðskipinu Þór heyrði einnig neyðarkallið, en þó aðeins einu sinni. Þór var þá staddur við Vesturlandið. Fleiri togarar en Hafliði heyrðu SOS- merki Fylkismanna og settu þeir allir á fulla ferð í áttina þangað. Um hálftíma eftir að Fylkir sökk kom togarinn Hafliði að. Var þá byrjað að birta að degi, sem vitaskuld hjálpaði mikið til við að finna björgunarbátinn með áhöfnina í. Auðunn Auðunsson kallaði til Alfreðs Finnbogasonar skipstjóra á Hafliða og bað hann að koma kulmegin við bátinn. Togarinn stansaði og rak að bátnum.
Um borð í Hafliða voru margar hendur á lofti til þess að aðstoða Fylkismenn um borð. Eftir að björgun var lokið, var stefna sett til Ísafjarðar. Stuttu síðar var skeyti sent til Sæmundar Auðunssonar, framkvæmdarstjóra Fylkisútgerðarinnar. Ennfremur til Ísafjarðar, þar sem beðið var um að læknir kæmi út með lóðsbátnum vegna hinna meiddu. Fregnin um að Fylkir hefði farist á tundurdufli barst eins og eldur í sinu um Ísafjörð. Og er svo Hafliði kom að bryggju með skipbrotsmennina beið þar fjöldi manns. Undireins og upp að var komið var farið með mennina sem meiddust upp á spítala og gert að meiðslum þeirra.

Sporisandi.is
Konráð Rúnar Friðfinnsson.
27 nóvember 2014.


Smíðateikning af Garðari Þorsteinssyni GK 3 / Hafliða SI 2.                     (C) Óttar Guðmundsson.



B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3 við komuna til Hafnarfjarðar 21 júní 1948.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

   Garðar Þorsteinsson kom í gær

Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.

 

Morgunblaðið. 22 júní 1948.




 

20.01.2019 09:46

M. b. Von NK 58.

Mótorbáturinn Von NK 58 var smíðaður í Romsdal í Noregi árið 1917. Fura, trénegldur. 24 brl. vélartegund og stærð óþekkt. Þessi bátur kom hingað til lands með Norðmönnum sem stunduðu á honum fiskveiðar og flutninga fyrir Norður og Austurlandi. Guðmundur Gíslason útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði keypti bátinn 26 janúar árið 1930, hét þá Von SF 49. Báturinn var seldur sama ár eða árið eftir (1931), Ólafi H Sveinssyni á Eskifirði (ættaður úr Firði í Mjóafirði), hét Von SU ?. Báturinn var seldur í desember 1931, Guðjóni Símonarsyni útgerðarmanni og fl. í Neskaupstað, hét þá Von NK 58. Ný vél (1932) 80 ha. June Munktell vél. Báturinn slitnaði úr bóli sínu á Norðfirði 25 október árið 1936 í norðvestan roki og rak upp í fjöru og liðaðist þar í sundur og eyðilagðist.


Mótorbáturinn Von NK 58 við bryggju sennilega á Norðfirði.                    (C) Ölver Guðmundsson.

19.01.2019 18:52

743. Sigurður AK 107. TFEY.

Vélskipið Sigurður AK 107 var smíðaður hjá Frederikssund Skibs Værft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1960 fyrir Ólaf Sigurðsson útgerðarmann og fl. á Akranesi. Eik. 87 brl. 350 ha. Alpha vél. Árið 1961 var Sigurður hf á Akranesi skráður eigandi bátsins. Seldur 22 maí 1965, Erlingi hf í Vestmannaeyjum, hét Sigurður VE 35. Seldur 13 júní 1969, Þórarni Þórarinssyni í Hafnarfirði, Jónasi Þórarinssyni í Sandgerði og Magnúsi Þórarinssyni í Keflavík, hét þá Bergþór GK 25. Frá 19 maí 1972 hét báturinn Valþór GK 25, sömu eigendur en báturinn skráður í Garði. Valþór rak upp í stórgrýtta fjöru við Stekkjarhamar í Keflavík eftir að hafa fengið netadruslur í skrúfuna. Áhöfnin, 8 menn, komust hjálparlaust í land en báturinn eyðilagðist á strandstað.


743. Sigurður AK 107 á Siglufirði.                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Akraness

Akranesi, 22. Janúar. Hér höfðu safnazt saman 50-60 manns við höfnina um kl. 1 sl. nótt. Nýi báturinn, Sigurður A.K. 107, var að kom frá Danmörku. Hann er smíðaður hjá Frederiksund Skibs værft, sem Eggert Kristjánsson stórkaupmaður er umboðsmaður fyrir hér á landi. Sigurður vaggaði sér hægt og rólega í 1 1/2 klst. úti fyrir hafnargarðinum, með íslenzka fánann við hún á aftursiglu og nafnveifu bátsins á þeirri fremri. Tollfulltrúinn var um borð að afgreiða skipið. Að því búnu lagðist þetta glæsta skip að hafnargarðinum og fögnuðu menn því af alhug. Útgerðarmaður bátsins er Ólafur Sigurðsson og er nafn skipsins eftir föður hans.
Báturinn er 90 lestir, smíðaður úr eik. Aflvél er 385 ha. Alfa Diesel. Hjálparvél er 30 ha. Í skipinu er Decca-radar 48 mílur, og dýptarmælir og síldarleitartæki frá Simrad. Þá eru í skipinu sjálfvirk stýristæki. 75 w Petersen talstöð og miðunarstöð er í skipinu ásamt síma. Skipið er hitað upp með rafmagni og rafmagnseldunartæki eru um borð.
Einar Guðmundsson skipstjóri sigldi skipinu heim, en skipstjóri verður Einar Árnason, er áður var með vélskipið Sigrúnu.

Morgunblaðið. 2 febrúar 1960. 


Vélskipið Valþór GK 25 á strandstað við Keflavík.                                      Ljósmyndari óþekktur.

         Tvö bátsströnd á sama tíma
         Færeyskt skip náðist óskemmt á flot                                          við Álftanes
      Suðurnesjabátur að brotna í stórgrýttri                                  fjöru við Keflavík

Tveir bátar strönduðu um sama leytið í fyrrinótt. Suðurnesjabátur við Keflavík og færeyskur út af Álftanesi. Hinun síðarnefnda tókst fljótlega að ná á flot aftur, en Suðurnesjabáturinn velkist nú um í stórgrýttri fjöru við Stekkjarhamar og allar aðstæður til björgunar hinar erfiðustu. Engin slys urðu á mönnum í hvorugu strandinu. Það var milli kl. 12-01 í fyrrinótt að vb. Valþór GK 25 var á leið út úr Keflavík, að hann mun hafa fengið netatrossur í skrúfuna með þeirn afleiðingum, að báturinn rak stjórnlaust upp í fjöru við Stekkjarhamar, sem er litlu innan við fiskimjölsverksmiðjuna. Björgunarsveitin Stakkur í Keflavík var kölluð út og kom fljótlega á staðinn, en ekki kom þó til hennar kasta, því að átta manna áhöfn bátsins komst í land af sjálfsdáðum. Að sögn fréttaritara Mbl. í Keflavík liggur báturinm strandaður í stórgrýttri fjöru, og er útlitið ekki gott með björgun. Þarna var í gær talsverður norðaustan strekkingur og báturinn var á talsverðri hreyfingu i fjörunni, þannig að telja má líklegt að hann sé þegar mikið brotinn.
Valþór GK var 87 lesta eikarbátur, smíðaður í Danmörku 1960 og eru eigendur hans Magnús Þórarinsson og fleiri í Garði. Báturinn var á netaveiðum. Um sama leyti og Slysavarnarfélaginu barst tilkynning um strand Valþórs við Stekkjarhamar, barst tilkynning um að færeyska skipið Pétur í Görðunum væri strandað við Álftanes. Björgunarsveitin Fiskaklettur í Hafnarfirði var send á vettvang, hluti út á Álftanesið og annar hópur með hafnarbát Hafnarfjarðarhafnar vegna þess að fyrstu upplýsingar sögðu að hanm væri strandaður utarlega á Álftanesi. Síðar kom í ljós, að báturinn hafði strandað yzt á Lönguskerjum í Skerjafirði. Var björgunarskipið Goðinn fenginn til að fara á vettvang. Björgunarskipið kom á staðinn um 3 leytið í fyrrinótt og rúmum þremur tímum síðar losnaði færeyska skipið af strandstað eftir að Goðinn hafði togað í það. Í gæmorgum var búið að kafa undir skipið og kanna skemmdir, en þær reyndust engar vera. Pétur á Görðunum er stálskip og var nýkomið frá Færeyjum til að fara á veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 25 mars 1973.


16.01.2019 18:06

240. Gjafar VE 300. TFNI.

Vélskipið Gjafar VE 300 var smíðaður í Zaandam í Hollandi árið 1964 fyrir Rafn Kristjánsson skipstjóra, Sveinbjörn Guðmundsson og Sigurð Kristjánsson í Vestmannaeyjum. 249 brl. 625 ha. Kromhout vél. Skipið var endurmælt í september árið 1972 og mældist þá 199 brl. Skipið var selt 1972, Hilmari Rósmundssyni og Theódór Ólafssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Skipið strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur 22 febrúar árið 1973. Áhöfninni, 12 mönnum, var bjargað á land af Björgunarsveit SVFÍ í Grindavík við erfiðar aðstæður. Gjafar eyðilagðist á strandstað.


240. Gjafar VE 300 á leið inn til Vestmannaeyja.                    Ljósmyndari: Óskar. Mynd úr safni mínu.

     Tvö ný skip til Vestmannaeyja

Fyrir skömmu bættust tvö glæsileg fiskiskip í flota Vestmannaeyinga. Þau eru: ísleifur IV. VE 463 og Gjafar VE 300. Ísleifur IV er byggður í Örens Værsted í Noregi og er systurskip Bergs og Hugins II. Eigandi er Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður. Skipstjóri verður Guðmar Tómasson.
Gjafar var byggður í Sandam í Hollandi. Hann er 248 tonn og hefur 595 hestafla Kromhaut aðalvél. Vistarverur eru sérstaklega góðar, allt tveggja manna klefar. Skipstjóri á Gjafari er hinn kunni aflamaður Rafn Kristjánsson. Báturinn fer á síldveiðar um næstu helgi. Framsóknarblaðið óskar eigendum hinna nýju báta til hamingju og skipverjum góðs gengis á komandi vertíð.

Framsóknarblaðið. 10 júní 1964.


Gjafar VE 300 á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur.        (C) Morgunblaðið. / H. Stígsson.

                  Tólf manns bjargað
       Miklar skemmdir á kili Gjafars VE 300,
 þar sem hann liggur á strandstað í Grindavík

Vélskipið Gjafar VE 300 strandaði við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn í fyrrinótt rétt fyrir klukkan 3. Fór skipið á sker í Hópsnesi, er það var á leið út úr höfninni, en nesið er austanvert í Járngerðarstaðasundi. Tólf manna áhöfn var á skipinu og var henni bjargað í land í björgunarstól af björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns í Grindavík. Allir mennirnir urðu mjög sjóblautir er þeim var bjargað, en þeir jöfnuðu sig fljótt, er í land kom og varð engum meint af volkinu. Áhöfnin var skipuð Vestmannaeyingum, og misstu þeir nú atvinnutæki sitt aðeins mánuði eftir að þeir urðu að flýja heimabyggðina. Skipið er álitið mjög mikið skemmt á kili og hefur Björgun h.f. tekið að sér að ná skipinu á flot.
Formanni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, Tómasi Þorvaldssyni, var tilkynnt um strandið rétt um klukkan 3 og kallaði hann sveitina strax út, þar sem skipstjóri Gjafars óskaði eftir að áhöfninni yrði bjargað í land. Hélt sveitin þegar á strandstað og var hún komin þangað um 3.30. Erfitt var að komast út fjöruna og bera tækin á strandstaðinn, þar sem á gekk með útsynningshryðjum. Gekk sjór yfir björgunarmennina á leið þeirra, en skipið hafði strandað á fjöru, en tekið var að falla að. Á meðan á björgunarstarfinu stóð, gekk sjór yfir mennina i fjörunni og töluvert brimsog var. Sjór gekk stöðugt yfir skipið, en það lá alltaf upp í brimið og hefur því að líkindum lent á skernibbu. Lega skipsins og hallinn frá landi gerði starfið mun erfiðara. Í öðru skoti hittu björgunarmenn skipið, en línan kom þá á skipið þar sem áhöfnin treysti sér ekki að ná í hana vegna brimsins. Í þriðja skoti fór línan þannig að skipverjar gátu náð henni og eftir að samband var komið milli lands og skips, gekk greiðlega að koma tækjunum upp, en erfitt var þó að halda línunum uppi, svo að þær færu ekki í botn, en þarna er misdýpi og skerjótt mjög. Urðu björgunarmenn að svamla í sjó töluvert út til að losa línuna úr botninum. Því fylgdi nokkur áhætta, en allt tókst samt giftusamlega. Þegar búið var að koma björgunartækjunum fyrir voru skipverjar dregnir einn af öðrum í land. Að meira eða minna leyti drógust þeir nær alla leiðina í sjó. Voru menn að vonum kaldir og blautir er í land kom, en þegar skipbrotsmenn fengu hlý föt og komust í hús, hresstust þeir fljótt og urðu brátt sprækir. Voru þeir allir fluttir í verbúðir, en margir eru þessir menn heimilislausir og eru fjölskyldur þeirra á tvist og bast. Tveir áttu fjölskyldur í Grindavík, tveir vissu ekki hvar fjölskyldur þeirra voru staddar, en aðrir höfðu ekki símanúmer á verustað fjölskyldna sinna.
Gjafar hafði komið inn til Grindavíkur til þess að landa loðnu og hafði skipið gert það og var á leið út til veiða á ný, þegar það strandaði. Strandstaðurinn er svo til sá hinn sami og Arnfirðingur strandaði á fyrir nokkrum misserum, en honum tókst að bjarga. Að því stóð Bjöngun h.f., sem flutti bátinn upp á fjörukambinn, bjó síðan til rennu og hleypti honum á flot eftir henni um leið og skipið hafði verið þétt. Augsýnilega er Gjafar mjög mikið skemmdur á kili, því að á flóðinu flaut skipið ekki upp í gær, heldur lá alveg kyrrt. Töluverð olía rann úr skipinu í gær um gat á skrokki þess. Björgun h.f., sem þegar í gær hafði hafið undirbúming björgunar Gjafars ætlaði að fara eins að með hann og farið var með Arnfirðing, þegar honum var bjargað, flytja skipið fyrst upp á fjörukambinn, þétta það þar og hleypa síðan niður sömu rennuna og Arnfirðingi. Um borð í Gjafar var í fyrradag sett ný loðnunót í Grindavík. Nótin var hálf komin úr bátnum í gær og slettist til í brimrótinu. Skipverjar Gjafars sögðu eftir björgunina í gær að sögn Guðfinns Bergssonar, fréttaritara Mbl. í Grindavík, að skipið hefðd tekið niður í rennunni rétt áður en það strandaði. Engin vissa er enn fengin fyrir því, hvað olli strandinu, em líklegt er að beygt hafi verið of snemma á bakborða og áður en komið er að miðmerkinu á innsiglingunni. Þess má geta að þau tæplega 25 ár, sem Tómas Þorvaldsson hefur verið formaður björgunarsveitarinnar í Grindavík, hefur sveitin bjargað 191 mannslífi.

Morgunblaðið. 23 febrúar 1973..


13.01.2019 09:39

Arnfirðingur RE 212. LBTN / TFDH.

Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 var smíðaður í Ramsdal í Noregi árið 1917. Fura. 34 brl. 44 ha. Avance vél. Hét fyrst Grettir SI 53 hér á landi og var í eigu Ole Tynes útgerðarmanns og síldarsaltanda á Siglufirði frá árinu 1924. Hét áður Havbryn. Seldur 24 nóvember 1930, Jóni E Sigurðssyni á Akureyri, hét Grettir EA 433. Ný vél (1931) 70 ha. Hera vél. Seldur 10 janúar 1933, Jóhannesi Jónssyni í Reykjavík og Guðmundi Sigurðssyni í Grundarfirði, hét þá Höfrungur RE 53. Ný vél (1933) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 26 apríl 1940, Óskari Halldórssyni hf í Vestmannaeyjum, hét Ari RE 53. 6 júní 1941 er báturinn skráður í Kothúsum í Garði, sami eigandi, hét þá Ari GK 371. Seldur 12 maí 1943, Tryggva Ófeigssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Gestur RE 3. Seldur 16 desember 1944, Friðrik Guðjónssyni á Siglufirði, hét Gestur SI 54. Seldur 27 júní 1949, Magnúsi Guðbjartssyni og Þorsteini Löve í Reykjavík hét Gestur RE 212. Árið 1951 er Daníel Þorsteinsson & Co hf í Reykjavík eigandi bátsins. Seldur 8 júní 1951, Hermanni Kristjánssyni í Reykjavík, hét þá Arnfirðingur RE 212. Ný vél (1954) 150 ha. General Mótors vél. Seldur 12 maí 1955, Gunnari Gíslasyni og Þorláki Arnórssyni í Reykjavík, hét Ísfirðingur RE 319. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 janúar árið 1956. Var hann þá á leið til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum og var kominn vestur fyrir Þorlákshöfn er eldsins varð vart. Áhöfnin, 3 menn, hleyptu bátnum á land og gátu síðan bjargað sér á fleka upp í fjöru heilum á húfi. Ísfirðingur brann og eyðilagðist á strandstað.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 liggur utan á togaranum Úranusi RE 343 í Reykjavíkurhöfn. Togarinn Karlsefni RE 24 liggur aftan við Úranus.    Ljósmyndari óþekktur.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 á siglingu.                                      Ljósmyndari óþekktur.

    Bátur brann undan óbyggðri strönd                    vestur af Þorlákshöfn
    en þriggja manna áhöfn Ísfirðings komst í                      land á fleka móti storminum

Þriggja manna áhöfn af bátnum Ísfirðingi var í háska stödd við óbyggða strönd Reykjanesskagans í gær þegar eldur kom upp í bátnum. Norðanstormur var á og ef skipsmenn hefðu ekki viðhaft allar öryggisráðstafanir, er hætt við að þá hefði getað borið með fleka frá landi undan norðanáttinni. En þeir komust allir í land og síðan fótgangandi til Þorlákshafnar.
Vélbáturinn Ísfirðingur frá Reykjavík, 33 smálestir, var í gærdag á siglingu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Á honum voru þrír menn, Gunnar Gíslason úr Reykjavík, formaður, Þorlákur Arnórsson, vélstjóri úr Vestmannaeyjum og Þórhallur Þorsteinsson frá Akureyri. Gunnar Gíslason skýrði fréttaritara Mbl. frá því, að er þeir voru á siglingu vestur með ströndinni um 300 metra undan landi um kl. 3, hafi hann staðið í stýrishúsinu og hafi sér virzt sem hann fyndi reykjarlykt. Fóru þeir að athuga það, opnuðu dyrnar að káetunni og stóð þá út úr dyrunum logi og reykur. Þegar þetta gerðist voru þeir skammt frá svolítilli vík í ströndina, er nefnist Keflavík, um 4 km vestur af Þorlákshöfn. Fyrst gerðu þeir tilraunir til að slökkva eldinn, en sáu fljótt, að það yrði þýðingarlaust, því að svo magnaður var hann. Stefndu þeir þá skipinu upp að landi, þar til það kenndi grunns um 50 metra frá fjöruborði. Lending þarna er afleit, fjaran stórgrýtt, en nokkuð hlé var þar, því að stormur var að norðan. Þó var súgur.
Við sáum, að ekki varð neitt við eldinn ráðið, hélt Gunnar áfram frásögn sinni. Brösuðum við nú við að ná út flekanum, sem var tréfleki með grind. Var hann bundinn og allþungur, svo að við áttum í erfiðleikum með hann, en komum honum þó loks út. Í fyrstu höfðum við í huga, að fara allir út á flekann, en það varð okkur til happs, að við gerðum það ekki, því að hætt er við. að okkur hefði þá getað borið undan storminum og á haf út Þess í stað höfðum við meiri varúðarráðstafanir. Fór Þorlákur einn út á flekann og hafði haka, sem hann ýtti sér með að landi. Fest var færalína í flekann og sáum við að það var vissulega öruggara, því að straumur var þarna mikill og rak flekann vestur með ströndinn. Munaði oft litlu að stormurinn þrifi hann og bæri út á sjó.
En Þorlákur komst í land, drógum við flekann aftur út að bátnum, en hann hafði þó enda hjá sér í landi og dró okkur upp á þurrt. Þannig tókst þessi björgun giftusamlega, að frásögn formannsins, Gunnars Gíslasonar. Strax og þeir höfðu bjargazt í land ákváðu þeir að yfirgefa hið brennandi flak og ganga til Þorlákshafnar. Gunnar hafði vöknað upp í mitti og varð honum mjög kalt, enda var grimmdarfrost á. En svo vel vildi til, að Þorlákur var í tvennum sokkum þurrum. Fór hann úr öðrum sokkunum og léði Gunnari og gekk ferðin þá betur. Komu þeir til Þorlákshafnar eftir 1 klst. og 20 mínútur. Fengu þeir góðar móttökur hjá forstöðumönnum Meitils hf, þeim Benedikt og Þórarni og voru þar í nótt. Þeir töldu ekki Ijóst, hvort eldurinn hefði komið upp í vélarúmi eða káetu, en þunnt skilrúm er þar á milli. Hugsanlegt er, að eldurinn hafi komið upp í olíukyndingu. Þeir telja að báturinn sé gereyðilagður Þegar þeir skildu við hann logaði út um alla glugga á stjórnklefanum og nokkru síðar heyrðu þeir að sprenging varð í honum, sem þeir teija að hafi verið olíugeymir. Skipbrotsmennirnir kváðust mundu koma til Reykjavíkur í dag.

Morgunblaðið. 13 janúar 1956.


12.01.2019 08:09

211. Sæúlfur BA 75. TFEQ.

Vélskipið Sæúlfur BA 75 var smíðaður í Brandenburg í Austur Þýskalandi árið 1962 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf á Tálknafirði. 155 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Skipið var lengt hjá Bolsönes Verft í Molde í Noregi í desember 1965, mældist þá 179 brl. Skipið sökk um 23 sjómílur SA af Dalatanga 25 nóvember árið 1966. Áhöfnin, 11 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipverjum var svo bjargað um borð í Vonina KE 2 frá Keflavík sem fór svo með þá til Seyðisfjarðar.

ATH: Það er einhver bilun í gangi hér á 123.is sem lýsir sér í því að myndir detta út af síðunni minni. Það eru óþægindi sem fylgja þessu. Ekkert sem ég get gert til að laga þetta. Vefstjóri 123.is veit af þessu og ekkert annað að gera en bíða eftir því að síðan verði lagfærð. Bestu kveðjur.


Vélskipið Sæúlfur BA 75 á siglingu á sundunum við Reykjavík.                (C) Snorri Snorrason.

     Nýr stálbátur til Tálknafjarðar                   frá Austur-Þýskalandi

Nýr stálbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi, kom til heimahafnar, Sveinseyrar við Tálknafjörð, s.l. mánudag. Báturinn heitir Sæúlfur, BA 75, eign Hraðfrystihúss Tálknafjarðar, en framkvæmdastjóri þess er Albert Guðmundsson kaupfélagsstjóri. Sæúlfur er 155 brúttólestir að stærð, smíðaður úr stáli í skipasmíðastöð í Strælu (Stralsund) í Þýzka alþýðulýðveldinu. Aðalvél bátsins er af gerðinni Lister en um borð eru aðsjálfsögðu öll nýjustu siglinga og fiskileitartæki. Benedikt A. Guðbjartsson skipstjóri sigldi bátnum heim frá Þýzkalandi.
Skipstjóri á vb. Sæúlfi verður Ársæll Egilsson í Tunguþorpi.

Þjóðviljinn. 23 ágúst 1962.


211. Sæúlfur BA 75 á síldveiðum.                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.

     Sæúlfur sekkur á síldarmiðunum                                 fyrir austan

Vélskipið Sæúlfur frá Tálknafirði, sökk í gær 23 sjómílur austur af Dalatanga. Skipið var þá á leið til lands með síldarfarm. Skipið sendi út neyðarkall og skömmu síðar voru mörg síldveiðiskip komin þar á vettvang og svo fór að vélskipið Vonin bjargaði áhöfn Sæúlfs og flutti hana til Seyðisfjarðar. Blaðið hafði samiband við síldarradíóið á Dalatanga laust eftir klukkan 9 í gærkvöldi, og sagði það þá 7 vindstig og ekkert veiðiveður. Veiðisvæðið var og hafði verið um 60 mílur úti í hafi austur af suðri og ASA frá Dalatanga og þar hafði Sæúlfur verið að veiðum.
Skipstjóri á Sæúlfi var Ársæll Egilsson frá Bíldudal. Skip hans var upphaflega 155 lestir að stærð, en hafði verið stækkað í Noregi í desember 1965, upp í 179 brl að stærð. Blaðið náði í gær í Ársæl skipstjóra og sagði hann að á leiðinni til lands hefði skipið farið á hliðina á siglingunni, en þá var 6 vindstiga stormur af SSV. Ársæll sagði að hann hefði ekki vitað betur en að lestin hefði verið full svo sem sjá mátti eftir að búið var að háfa. Hann taldi að þeir hefðu verið með um 170-180 tonn síldar og allt í lestum, en ekkert á dekki. Er skipið kastaðist á hliðina hjá okkur sendum við út neyðarkall og var þá Vonin rétt hjá okkur, einnig mörg önnur skip skammt undan. Fórum við skipsmenn í gúmmbátana og komumst fljótt um borð í Vonina. Ársæll skipstjóri biður um sérstakt þakklæti fyrir góðar móttökur þar um borð. Við nánari eftirgrennslan um slysið sagði Ársæll að skipið hefði kastast í stjór. Enginn um um borð hefði náð neinu markverðu af eignum sínum og sumir yfirgefið skipið á sokkaleistunum einum. Þá gat Ársæll skipstjóri þess, að afli sá, er skipið var með hefði fengizt í 4 köstum og hefðu þau verið tekin frá því kl. 8 í fyrrakvöld og þar til kl. 8 í gærmorgun. Loks gat hann þess að skipsmenn hefðu misst fyrsta björgunarbátinn, og hefði línan slitnað, en þeir farið í næstu tvo báta. Við náðum í gær í skipstjórann á Voninni, Gunnlaug Karlsson úr Keflavík. Hann sagði að þeir hefðu verið á landleið með síld, 120 tonn og hefðu þeir ætlað til Fáskrúðsfjarðar, sem væri hálfgerð heimahöfn þeirra fyrir austan. Sigldu þeir fyrst upp undir land og ætluðu síðan suður með. Voru þeir því rétt hjá Sæúlfi er slysið bar að. Gunnlaugur sagði: Það er mikil ánægja að fá að bjarga félögum sínum svona. Það er oft að skaparinn gefur okkur góðan afla, en aldrei hef ég lent í því að fá tvo fulla skipsbáta af góðum félögum! Við spurðum Gunnlaug hvernig það hefði verið hjá honum að sjá er Sæúlfur sökk. "Við sáum hann síga niður að aftan og hverfa í ölduna, hallandi á stjórnborða".

Morgunblaðið. 26 nóvember 1966.



06.01.2019 17:26

B. v. Búðanes SH 1. LBMG / TFYC.

Botnvörpungurinn Búðanes SH 1 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir A/S. Det Norske Damptrawlselskab í Álasundi í Noregi, hét fyrst Aalesund. 374 brl. 578 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 49. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í Reykjavík í ágúst 1924, hét Snorri goði RE 141. Ný vél (1930) 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Granton í Skotlandi og rifinn þar í maí árið 1952.
Snorri goði var upphaflega smíðaður sem selveiðiskip en ekki klárað. Kveldúlfur keypti togarann á nauðungaruppboði í Noregi.
Snorri var ekki gott togskip. Hann var með hraðgenga vél með lítill skrúfu. Til að reyna að bæta úr því var ný gufuvél sett í hann 1930. Eftir að þeir eignuðust systurskipið Gulltopp RE 247 hafi staðið til að skipta um vél í honum en aldrei orðið úr því.


B.v. Búðanes SH 1 á leið í slipp í Reykjavík.                                                Ljósmyndari óþekktur.


Trollið tekið á Viðey RE 13.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Snorri goði RE 141.                                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Togarafélag stofnað í Stykkishólmi

Togarafélág var stofnað í Stykkishólmi síðastliðinn miðvikudag. Á stofnfundinum var kosin bráðabirgðastjórn, samþykkt lög fyrir félagið og því valið nafnið Búðanes h.f. Í bráðabirgðastjórn félagsins voru kosnir þessir menn: Sigurður Ágústsson, Kristján Bjartmars, Sigurður Steinþórsson, Jóhann Rafnsson og Haraldur Ágústsson. Í varastjórn voru kosnir Kristmann Jóhannsson og Ólafur  Einarsson. Félaginu hefir verið boðinn togarinn Viðey til kaups og hefir stjórn þess verið falið að ganga frá kaupunum.

Vísir. 9 apríl 1947.



03.01.2019 20:42

975. Bjartur NK 121 með fullfermi til Neskaupstaðar.

Tog og síldveiðiskipið Bjartur NK 121 er hér að koma til löndunar í Neskaupstað með fullfermi af síld, sennilega á árunum 1968-69. Þau voru falleg þessi skip sem smíðuð voru í Boizenburg í A-Þýskalandi á árunum 1964-67 fyrir íslendinga, smíðuð eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipatæknifræðings. Bjartur NK 121 kom nýr til Neskaupstaðar 14 maí árið 1965 og var í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað. Hann var einn af 18 skipum sem smíðuð voru þar og flest þeirra reyndust mjög vel. Filip Þór Höskuldsson var skipstjóri á Bjarti frá upphafi til ársins 1967, að Ísak Valdimarsson tók við skipstjórn uns skipið var selt til Grindavíkur 29 janúar árið 1972. Það var á síðastliðnu haust að skipið var selt í brotajárn, hét þá Sighvatur GK 57.


975. Bjartur NK 121 með fullfermi af síld við bryggju SVN í Neskaupstað.   (C) Guðmundur Sveinsson.


975. Bjartur NK 121 með fullfremi af síld á Norðfirði.                                 (C) Guðmundur Sveinsson.

       20 síldarskip komin á miðin
          Góðar veiðihorfur í nótt 

Neskaupstað í gærkvöld. Tuttugu síldarbátar eru nú komnir á miðin hér fyrir austan og halda sig aðallega á nýju veiðisvæði, sem Ægir fann í gærkvöld um 55 mílur austur af Dalatanga. Þarna hafa nokkur skip þegar fengið afla eins og Reykjaborgin 1100 mál, Þorsteinn 1600 mál, Bjartur 1500 mál, Jón Kjartansson 1200 mál og Sæfari 600 mál. Skínandi gott veiðiveður er á miðunum og eru veiðihorf- ur góðar í nótt.
Nýja síldarskipið okkar, Bjartur, er væntanlegt hingað í fyrramálið með 1500 mál og fer sú síld í bræðslu og frystingu. Þá komu til Eskifjarðar í dag Þorsteinn með 1600 mál og Jón Kjartansson með 2200 mál og Krossanesið kom með 1800 mál til Fáskrúðsfjarðar klukkan 5 í dag og hefur verksmiðjan þar bræðslu annað kvöld. Alltaf eru að berast fréttir af síldarskipum, sem þyrpast á miðin hvaðanæva að af landinu. Þannig eru á leiðinni að norðan síldarskip eins og Súlan, Ólafur Magnússon og Sigurður Bjarnason frá Akureyri, Siglfirðingur frá Siglufirði og Helgi Flóventsson frá Húsavík. Móttaka á síld er víðast í lamasessi hér á Austfjörðum og spyrja menn nú af kurteisi, hvar þetta margrómaða flutningakerfi sé þessa stundina og er enginn vafi á því, að allar þær bollaleggingar hafa gert menn óviðbúnari hér fyrir austan til móttöku á síld.

Þjóðviljinn. 27 maí 1965.


01.01.2019 14:00

Seglskipið Henning EA 5.

Hákarlaskipið Henning EA 5 var smíðað í Noregi árið 1884. Fura. 21,88 brl. Hét áður Jörundur og var í eigu Jörundar Jónssonar (Hákarla-Jörundar) í Syðstabæ í Hrísey. Skipið var gert út á hákarlaveiðar að mestu. Síðar áttu Jörund saman, Jóhannes Davíðsson bóndi í Hrísey og Jakob Valdemar Havsteen kaupmaður og konsúll á Akureyri. Um aldamótin eignaðist Jakob skipið einn og fékk það þá nafnið Henning. 29 ha. Tuxham vél var sett í skipið árið 1915. Var þá gert út á síld og þorskveiðar. Skipið var selt 1920-21, Anton Jónssyni kaupmanni á Akureyri. Í janúar 1932 er Henning kominn í eigu Landsbankans á Akureyri. Selt 13 júní 1932, Sigtryggi Benediktssyni á Akureyri. Talið ónýtt og tekið af skrá árið 1944.

Af Henning er það að segja, að þegar dagar hákarlaveiðanna voru með öllu liðnir, mátti hann enn teljast dágott skip og vel sjófær. Var hann þá gerður að vélskipi og látinn stunda síldveiðar á sumrum. Eru fá ár síðan hann var lagður til hinstu hvíldar. Nú liggur flak hans á Akureyri og eru það hinar einu sýnilegu menjar hákarlaskipa um þær slóðir. Flakið er mjög rytjulegt orðið.

Skútuöldin.
Gils Guðmundsson 1945.


Hákarlaskipið Henning EA 5.                                                               Ljósmyndari óþekktur.
  • 1
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075661
Samtals gestir: 77621
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:36:39