Færslur: 2024 Janúar

26.01.2024 14:46

Breski togarinn Kingston Peridot H 591 ferst út af Öxarfirði.

Síðdegis hinn 10 janúar árið 1968 lagði Hulltogarinn Kingston Peridot H 591 úr höfn í Hull og var stefnan tekin á Íslandsmið, þar sem helst þótti aflavon. Sama dag lagði togarinn St. Romanus H 223 úr höfn í Hull og var ætlunin að stunda veiðar við N-Noreg. Hann hvarf með manni og mús. Hinn 14 janúar leitaði Kingston Peridot hafnar í Reykjavík með slasaðan skipverja, matsveininn. Hélt togarinn þegar út og var ákveðið að nýr matsveinn kæmi frá Hull og yrði hann sendur vestur til Ísafjarðar og togarinn tæki hann þar um borð. Kingston Peridot var að veiðum út af Vestfjörðum næstu daganna. 25 janúar var togarinn fyrir norðan land, á Skagagrunni þegar veður tók að versna þar. Ákvað skipstjóri Kingston Peridot þá að halda austur fyrir Langanes, þar sem var ennþá sæmilegt veður. Síðast heyrðist frá togaranum að morgni hins 26 janúar og var hann þá á siglingu út af Norðurlandi á leið austur að Langanesi. Veður var þá hið versta, norðan hvassviðri eða stormur með mikilli frosthörku. Talið var að togaranum hafi hvolt út af ofurþunga íss og hafróti út af Öxarfirði í þessu óveðri. 20 menn fórust með honum.
Hellyerstogarinn Kingston Peridot H 591 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948. 658 brl, 245 nettó. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvel. 181,7 x 30,8 x 16,0 ft. (ensk) Smíðanúmer 797. Togarinn var fyrst í eigu Kingston Steam Trawling Co Ltd í Hull og var hleypt af stokkunum 10 júlí og var svo afhentur eigendum sínum 25 nóvember sama ár. Togarinn var í eigu  Hellyer Brothers Ltd í Hull frá árinu 1966 þar til hann fórst út af Öxarfirði 26 eða 27 janúar árið 1968 með allri áhöfn 20 mönnum eins og áður segir.

Óveðrið sam varð Kingston Peridot að grandi var aðeins forsmekkurinn að því mannskaðaveðri er gerði í Ísafjarðardjúpi í byrjun febrúar þegar vélskipið Heiðrún ll ÍS 12 fórst með 6 manna áhöfn og 2 breskir togarar fórust. Annar þeirra, Ross Cleveland H 61 hvolfdi undan ofurþunga ísingar og fórust þar 19 skipverjar, en einn bjargaðist. Var það stýrimaður togarans, Harry Eddom. Var björgun hans kraftaverki líkust. Hinn togarinn, Notts County GY 643, strandaði við Snæfjallaströnd og fórst þar einn maður. Það má kalla það lán í óláni að togarinn hafi strandað, enda var það algerlega yfirísað og hefði að öllum líkindum fljótlega oltið undan þunga ísingarinnar og sokkið.

Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                       (C) Clyn Woods.


                     Bretar við Ísland


Meðal þeirra togara, sem stunduðu veiðar á Íslandsmiðum í ársbyrjun 1968, var Kingston Peridot H-591, eign hins þekkta útgerðarfyrirtækis Hellyers Bros. í Hull. Lagði hann af stað úr höfn síðdegis 10. janúar og varð samferða öðrum togara, St. Romanus, út úr höfninni. Þar skildu leiðir. Kingston Peridot var stefnt á Íslandsmið en St. Romanus átti að stunda veiðar við Norður-Noreg. Hvorugt skipið átti afturkvæmt. Þau fórust bæði með manni og mús. Er talið líklegt að St. Romanus hafi farist á siglingu á miðin en síðdegis 11. janúar heyrði vélbáturinn Víkingur III frá Ísafirði, sem var á landleið úr róðri, óskýrt neyðarkall frá togaranum og daginn eftir fann danskur fiskibátur gúmbjörgunarbát sem síðar kom í ljós að var frá togaranum. Lét danski báturinn ekki vita um fund sinn fyrr en níu dögum síðar og það var ekki fyrr en 24. janúar sem skipulögð leit að St. Romanus hófst. Fannst þá einn björgunarhringur úr skipinu á svipuðum slóðum og gúmbáturinn fannst. Ferð Kingston Peridot til Íslands gekk áfallalaust að öðru leyti en því að á leiðinni féll matsveinn skipsins í stiga og varð fyrir meiðslum. Var honum komið í land og undir læknishendur á Ísafirði en þangað var þá kominn maður frá Bretlandi til að leysa hann af. Kingston Peridot hélt síðan til veiða og segir lítt af ferðum skipsins næstu daga.
Margar útgerðir höfðu reyndar ákveðið að hafa þann hátt á samskiptum við skip sín, sem voru á fjarlægum miðum, að þau létu vita um sig einu sinni á sólarhring. Við rannsókn á hvarfi St. Romanus og Kingston Peridot kom hins vegar í ljós að á þessu var mikill misbrestur og oft liðu margir dagar án þess að skipin létu frá sér heyra. Veðrátta var heldur rysjótt og stormasöm um allt land í janúar 1968. 25. janúar þótti Veðurstofu Íslands ljóst að hætta var á norðanáhlaupi og sendi þá ítrekað út viðvaranir til skipa og báta sem voru að veiðum fyrir norðan land. Þær urðu, öðru fremur, til þess að engir bátar voru þar á sjó þegar óveðrið skall á að morgni 26. janúar en vitað var þó að nokkrir erlendir togarar myndu vera að veiðum út af Norðurlandi. Vitað var að erlendu skipin fylgdust vel með íslensku veðurfréttunum og því þótti líklegt að þau hefðu haldið í landvar eða gert ráðstafanir til þess að verjast veðrinu. Veðurhæðin varð enn meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Um tíma mældist vindhraðinn 12 vindstig í Grímsey og 10 vindstig á Mánárbakka á Tjörnesi. Jafnhliða hvassviðrinu herti frost og var víða 11- 14 stig á Norðurlandi þegar líða tók á daginn og hríðarbylur varð svo svartur að vart sást út úr augum. Var þetta með verstu veðrum sem gert hafði um langan tíma og hélst óveðrið nær óbreytt í hálfan annan sólarhring. Var ekki komið skaplegt veður fyrr en undir hádegi 28. janúar.

Togarinn Kingston Peridot H 591.                                                           James Cullen.


Síðdegis 28. janúar varð vart við mikla olíubrák á sjónum í Axarfirði. Í fyrstu var hún ekki sett í samband við sjóslys en þegar mannlaus gúmbátur fannst rekinn á fjörur við Einarsstaði í Axarfirði daginn eftir höfðu menn þar nyrðra samband við Slysavarnafélag Íslands. Þeir Henry A. Hálfdánarson framkvæmdastjóri félagsins, og Hannes Þ. Hafstein erindreki könnuðu þá þegar hvort skips væri saknað en í fyrstu virtist svo ekki vera. Var það ekki fyrr en aðfaranótt 30. janúar að fregnir bárust hingað til lands að Kingston Peridot hefði ekki svarað þótt ítrekað hefði verið reynt að ná sambandi við skipið. Eftirgrennslanir leiddu í ljós að síðast hafði heyrst til togarans laust fyrir hádegi 26. janúar. Þá hafði skipstjórinn samband við starfsfélaga sinn á togaranum Kingston Sardius, sem var frá sömu útgerð. Sagðist skipstjórinn á Peridot hafa verið að veiðum á Strandagrunni en þar færi veður ört versnandi og væri hann búinn að gefa sínum mönnum skipun um að ganga frá vörpunni og ætlaði hann síðan að halda austur á bóginn í átt að Kingston Sardius. Ræddust skipstjórarnir við í um hálfa klukkustund en eftir að samtali þeirra lauk ræddu loftskeytamenn skipanna, sem voru kunningjar, saman um hríð. Lauk samtali þeirra með því að loftskeytamaðurinn á Kingston Peridot sagði að komið væri vitlaust veður, þar sem togarinn var staddur. Búið væri að gera skipið sjóklárt og áhöfnin hefði um stund reynd að berja ísinn af því („lay for a couple of hours while the crew cleared ice from the deck.“). Ákváðu„ mennirnir að tala aftur saman um kvöldið. Undir kvöld var komið svo slæmt veður, þar sem Kingston Sardius var að veiðum út af Langanesi, að skipstjórinn ákvað að hætta veiðum og halda sjó. Laust fyrir klukkan átta reyndi hann að ná sambandi við Kingston Peridot en fékk þá engin svör. Um kvöldið og nóttina var öðru hverju reynt að kalla skipið upp, en ekkert heyrðist frá því. Töldu menn líklegt að ísing hefði sest á loftnetskipsins og jafnvel slitið það niður. Daginn eftir var enn reynt að ná sambandi en eins og áður var köllunum svarað með þögninni einni. Skipstjórinn á Kingston Sardius sendi þá skeyti til útgerðarinnar í Bretlandi. Þetta var á laugardegi og var skeytið borið til skrifstofu útgerðarinnar þar sem það mun hafa legið óskoðað fram á mánudagsmorgun. Þá reyndi útgerðin að ná sambandi við togarann en fékk engin svör. Hins vegar náðist í aðra togara útgerðarinnar sem voru á Islandsmiðum.Var það þó ekki fyrr en að kvöldi 29. janúar að útgerðin ákvað að gera eitthvað í málunum en þá hafði tryggingafélag hennar haft samband og greint frá því að fregnir frá Íslandi hermdu að mikil olíubrák væri í Axarfirði og þar hefði fundist gúmbátur sem gæti verið frá Kingston Peridot. Að morgni 30. janúar var eftirfarandi tilkynningu útvarpað í Ríkisútvarpinu bæði á íslensku og ensku: „Slysavarnafélag Íslands biður alla, sem eitthvað vita um breska togarann Kingston Peridot Hull 591, að láta skrifstofu félagsins vita. Síðasta samband við þennan togara var kl. 10:00 f.h. þann 26. janúar og var hann þá staddur vestur af Grímsey. Togarinn er grámálaður og hefur reykháf með bláu flaggi og bókstafnum H.“ Næstu daga fór fram mjög umfangsmikil leit að togaranum og stjórnaði Hannes Þ. Hafstein henni. Flogið var yfir víðáttumikið svæði við Norðurland og fjörur gengnar skipulega. Fannst brak rekið á fjörur undan bænum Skógum í Axarfirði, m.a. tveir björgunarhringir sem merktir voru Kingston Peridot. Margir bátar tóku þátt í leitinni, auk varðskipsins Alberts og stjórnaði skipherra þess, Helgi Hallvarðsson, leitinni á sjó. Veittu menn því þá athygli að óvenjulega mikið hrafnager var í Lágey, einni af Mánáreyjum, og tilsýndar vitist hrafninn hegða sér eins og hann væri í æti. Datt mönnum í hug að einhverjum úr áhöfn Kingston Peridot hefði auðnast að komast á land í Lágey en ekki náð að skipbrotsmannaskýli sem var í eyjunni.

Málverk eftir Steve Farrow af Kingston Peridot H 591.


Tókst tveimur skipverjum af Albert, þeim Þorvaldi Axelssyni og Kristni Árnasyni, að komast í land í Lágey þrátt fyrir mjög erfið skilyrði. Leituðu þeir í eyjunni en urðu ekki varir við neitt sem bent gat til mannaferða. Hins vegar var fjaran við eyjuna útötuð í olíu. Gúmbáturinn, sem fannst við Einarsstaði, var fluttur til Reykjavíkur þar sem hann var rannsakaður gaumgæfilega. Af merkingum á honum varð ráðið að hann var af Kingston Peridot en ekkert benti til þess að menn hefðu komist um borð í bátinn eða hafst við í honum. Allur búnaður bátsins var á sínum stað og hnífur, sem nota átti til að skera á fangalínuna, var í slíðrum. Þótti ljóst að línan hefði slitnað af miklu átaki og var getum leitt að því að báturinn hefði blásist upp eftir að skipið var sokkið og slitið hana. Leit var haldið áfram næstu daga. Töluvert brak rak á fjörur en ekki var vitað með vissu hvort það var úr Kingston Peridot. 2. febrúar voru togarinn og áhöfn hans talin af og sama dag var tilkynnt opinberlega í Hull að St. Romanus hefði farist með allri áhöfn. 40 menn fórust með skipunum tveimur og voru flestir þeirra úr sama hverfinu í Hull, St. Andrews. Fólk þar var sem þrumu lostið og undraðist það sem því fannst vera skeytingarleysi útgerða skipanna. Var boðað til almenns fundar í hverfinu til þess að ræða slysin. Um svipað leyti og fundarboðið var borið þar í hús var fáni dreginn í hálfa stöng á byggingu Thomasar Hamling, útgerðarfyrirtækis St. Romanus, og nokkrum mínútum síðar á byggingu Hellyers Bros. Þá varð Mack Neve, framkvæmdastjóra Verkalýðssambandsins í Hull, að orði: „Fjörutíu menn farnir og þetta er allt og sumt: Fáni í hálfa stöng.“ Geysilegt fjölmenni var á fundinum sem haldinn varí kapellu í St. Andrews hverfinu.

Hulltogarinn St. Romanus H 223. Togarinn fórst við Noregsstrendur. (C) James Cullen.


Þar var ákveðið að senda fulltrúa til Lundúna og ná þar fundi Harolds Wilsons forsætisráðherra. Skrifuðu um sjö þúsund manns undir skjal þar sem skorað var á forsætisráðherrann að láta málið til sín taka og sjá til þess að öryggi breskra togarasjómanna yrði aukið og aðbúnaður þeirra um borð í skipunum bættur auk þess sem skoðun færi fram á þeim skipum sem send væru á fjarlægar og hættulegar norðurslóðir. Rétt eins og það var íslenskt fiskiskip, sem að lokum fann hina votu gröf Goth, var það hlutur sem kom upp í veiðarfærum sem upplýsti hvar Kingston Peridot hafði farið niður. 22. apríl um vorið var vélbáturinn Sæþór frá Ólafsfirði að togveiðum djúp út af Axarfirði. Þegar trollið var híft reyndist torkennilegur hlutur vera í því auk þess sem bátsverjum virtist olíubrák koma á sjóinn undan trollinu. Bátsverjar tóku hlutinn með sér í land og var hann síðan sendur til Reykjavíkur til skoðunar. Reyndist þetta vera hetta af loftventli togara. Send var lýsing á hettunni til útgerðar Kingston Peridots en þaðan fengust þau svör að hettan gæti ekki verið úr togaranum. Meira en ári eftir að togarinn fórst fékk togskipið Björgvin frá Dalvík brak í vörpu sína er skipið var að veiðum á svipuðum slóðum og Sæþór hafði fengið ventilhettuna. Brak þetta reyndist vera úr björgunarbát og sáust á því merkingar þannig að unnt var að taka af allan vafa. Það var úr björgunarbáti Kingston Peridot. Umfangsmikil sjóréttarhöld fóru fram í Hull haustið eftir slysið og mættu tveir íslendingar, Hannes Þ. Hafstein og Hlynur Sigtryggsson, fyrir rétti og gáfu skýrslur. Við það tækifæri fór fram rannsókn á ventilhettunni, sem Sæþór hafði fundið, og fékkst þá staðfest að hún var úr Kingston Peridot. Á hettunni var bót og staðfesti starfsmaður í vélsmiðju, sem vann fyrir útgerð skipsins, að hann hefði sjálfur soðið bótina á hettuna. Málarekstur snerist ekki síst um það hvort Kingston Peridot hefði farist á rúmsjó eða við land en hefði skipið farist við land hefði tryggingafélag skipsins sennilega sloppið við að greiða aðstandendum mannanna, sem fórust, bætur. Þá snerust réttarhöldin einnig um hvort Kingston Peridot hefði verið sjóhæfur og kom fram það álit skoðunarmanna að togarinn hefði tæplega talist sjóhæfur til veiða við Ísland.
Framburður þeirra Hannesar og Hlyns, og þó einkum fundur ventilhettunnar og staðfesting á því að hún væri úr togaranum, varð til þess að niðurstaða réttarins varð sú að skipið hefði farist í rúmsjó og að skipstjórnarmenn gætu ekki hafa borið ábyrgð á því hvernig fór.

Úr greininni, Bretar við Ísland.
Rifjuð upp saga nokkurra breskra togara sem horfið hafa á Íslandsmiðum á síðustu áratugum.
Steinar J Lúðvíksson.
Fiskifréttir. 47 tbl. 19 desember 1997.

07.01.2024 10:56

B.v. Þormóður goði RE 209. TFSD.

Togarinn Þormóður goði RE 209 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 849 brl. 1.600 ha. Krupp díesel vél. 65,98 x 10,20 x 4,53 m. Skipaskrárnúmer 226. Skipinu var hleypt af stokkunum 28 janúar árið 1958 og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 9 apríl sama ár. Þormóður var annar togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga í Þýskalandi eftir lok seinni heimstyrjaldar og tók hann við hlutverki Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208 sem strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi í lok mars árið 1955. Hans Sigurjónsson var fyrsti skipstjóri togarans. Þormóður goði var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til 27 nóvember árið 1978, eða í 20 ár, en þá var hann seldur Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét þá Óli Óskars RE 175. Skipið var yfirbyggt og breytt í hringnótaveiðiskip í Finnlandi árið 1979. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.460 ha. Wartsila vél, 1.942 Kw. Eftir það varð Óli Óskars eitt af aflahæstu loðnuveiðiskipum íslenska flotans. Og eftir að skipið komst í eigu Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað í maí árið 1981, hét þá Beitir NK 123, var það einnig í röð aflahæstu skipa. Þetta skip á sér mikla og merka sögu að baki í þau 49 ár sem það var gert út á Íslandsmiðum. S.V.N. átti skipið í rúm 26 ár, uns það var selt til Greena í Danmörku í brotajárn á vordögum árið 2007. Þormóður goði var einn af síðustu síðutogurunum sem Íslendingar gerðu út, ef ekki sá síðasti.

B.v. Þormóður goði RE 209 á veiðislóð.                               (C) Ásgrímur Ágústsson.

 

                    Stærsta skip Íslenzka fiskiflotans
              kom til Reykjavíkur í gær

Bjart veður og sólskin var, er Þormóður goði sigldi fánum skrýddur inn á ytri höfnina hér í Reykjavík um klukkan 11,30 f. h. í gær. Þá þegar lögðu margir leið sína niður að höfn til þess að sjá togarann, sem er allur hið glæsilegasta skip. Um kl. 1 síðd. lagðist togarinn að hafnarbakkanum undir kolakrananum. Var þar fyrir allmargt fólk. Á nokkrum byggingum við höfnina var flaggað í tilefni af komu togarans. Um nónbil í gær bauð skipstjórinn, Hans Sigurjónsson blaðamönnum að skoða togarann. Tók hann á móti gestum sínum í hinni glæsilegu skipstjóraíbúð. Þar voru þeir einnig Hafsteinn Bergþórsson framkv.stj. og Þorsteinn Arnalds skrifstofustjóri Bæjarútgerðarinnar. Skipstjórinn skýrði meðal annars frá því, að í síðari reynsluför hefði togarinn náð 15 sjómílna hraða. Hann kvað enga reynslu enn komna á sjóhæfni togarans því ládauður sjór hefði verið alla leiðina. Þjóðverjar sögðu, að þó togað væri í 9 vindstigum, væri hvorki öryggi skipsmanna né skips teflt í tvísýnu.
Á heimleið var komið við í Grimsby og tekin þar veiðarfæri og ýmislegt fleira. Eru í togaranum  um 400 tonn af salti og á annað hundrað tonn af öðrum farangri, svo að heita má að hann hafi verið ,á hleðslumerkjum', er hann kom. Hann var þrjá sólarhringa frá Grimsby. Skipstjórinn sagði frá nokkrum nýjungum. Á stjórnpalli eru t. d. þrjú stýri, sem nota má til skiptis eftir þörfum. Það er stýri í miðri brúnni, hið venjulega stýri, skipsins, en svo eru stýri á hvorri síðu, sem notuð eru þegar togarinn er að veiðum. Í brúnni sýndi skipstjórinn blaðamönnum tvær fisksjár. Er önnur þýzk, og er hún jafnframt dýptarmælir, en hin er Kelvin-Hughes fisksjá. Þá sýndi hann sérstakan lofthemlaútbúnað fyrir vörpuna, sem verða á til mikils hagræðis við veiðar. Stjórnpallur skipsins er stór og bjartur. Sími er lagður um allt skipið, alls konar rofar og öryggistæki, sem gripið er til, ef eitthvað óvænt ber að höndum, t. d. eld. Loftskeytamaðurinn, Guðmundur Pétursson, sýndi gestunum hina miklu loftskeytastöð togarans. Sagði hann, að stöð skipsins væri það öflug að á stuttbylgjum mætti ná talsambandi við skipið nærri því hvar sem er á þeim siglinga og veiðisvæðum, sem ísl. togararnir kæmu á hér við land og við Grænland.
Þá sýndi hann lítið tæki, sem er sjálfvirkur neyðarsendir og setja skal í samband, ef yfirgefa þarf skipið, hvort heldur er vegna strands eða óvæntra atvika á hafi úti. Þessi sjálfvirki neyðarsendir gerir það kleift fyrir önnur skip og strandstöðvar, að miða togarann nákvæmlega út. Gísli Jón Hermannsson, fyrsti stýrimaður, fylgdi blaðamönnunum um skipið. Allar íbúðir og gangar eru klæddir að innan með ljósum harðviði.. Eru íbúðirnar hinar vistlegustu og rúmgóðar. Gísli Jón benti á ýmislegt af því, sem nýtt er í þessu skipi. Sérstakur gangur er úr brú og aftur í skipið til mikils hægðarauka og öryggis fyrir skipsmenn. Þegar komið er í hásetaíbúðir, er fyrst komið í þurrkklefa, þar sem skipsmenn fara úr hlífðarfötum, en þar fyrir innan er hvítmálað, bjart snyrtiherbergi. Íbúðir eru allar hitaðar upp með rafmagni. Eru hásetaklefar ýmist 2 eða 4 manna og eru þar inni borð, kollar og bekkir. Rafmagnseldavél er í stóru og rúmgóðu eldhúsi og í matsalnum geta 26 skipsmenn borðað samtímis. Athygljsvert er það og að klampar allir í fisklestinni eru úr aluminium og einangrun fisklestar er jöfn í lofti sem gólfi lestarinnar. Sérstakur stigi er úr stigahúsi við framsiglu, niður í fisklestar. Hafsteinn Bergþórsson framkvæmdastjóri, upplýsti aðspurður, að þessi stóri togari, sem er eign Reykvíkinga, hefði kostað um 14 milljónir króna. Þormóður goði hefur meiri úthaldsmöguleika en nokkur annar íslenzkur togari. Hann getur verið að veiðum án þess að koma til hafnar og endurnýja vatns eða olíubirgðir samfleytt í 45 daga.
Hafsteinn sagði að togarinn myndi í fyrstu veiðiförinni veiða fisk til söltunar. Lestarrýmið er það mikið, að ef vel gengur, getur togarinn komið með um 550 tonn af saltfiski úr þessari veiðiför. Það er nær 100 tonnum meira en „methafinn" Þorsteinn Ingólfsson, hefur landað eftir eina veiðiför. Hafsteinn Bergþórsson sagði, að nú ætti eftir að reyna það, hversu vandað skip Þormóður goði væri. Hið ytra væri svo að sjá, sem allt væri sérlega vandað og vandvirknislega af hendi leyst. Skipasmíðastöðin Seebeck í Bremerhaven hefur ekki fyrr smíðað jafnstóran togara. Aðalvél skipsins er 1650 hestafla Krupp vél. Sagði skipstjórinn frá því að í reynsluförinni hefði ekki orðið vart neins titrings, þó snúningshraðinn næði hámarki. Nú þegar er búið að ráða um 30 menn á Þormóð goða. Í gærdag komu um borð nokkrir sjómenn til þess að falast eftir skiprúmi. Væntanlega heldur Þormóður goði til veiða um helgina. Togarinn verður til sýnis fyrir almenning milli kl. 5 og 9 síðdegis í dag.
Síðdegis í gær skoðuðu borgarstjóri, bæjarstjórn og nokkrir gestir skipið. Formaður útgerðarráðs, Kjartan Thors, flutti við það tækifæri eftirfarandi ræðu: „Virðulegir gestir Bæjarútgerð Reykjavíkur er það mikil ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomna um borð í þetta nýjasta og stærsta skip útgerðarinnar. Vissulega er slík viðbót við fiskiflota landsmanna merkur og gleðilegur viðburður. Og  efast ég ekki um að flestir íbúar þessa bæjar óski þess af heilum hug að gæfa og gengi megi ætíð fylgja hinu fagra skipi og áhöfn þess. Í fljótu bragði virðist einnig, að ástæðulaust ætti að vera að óttast að slíkar óskir rættust ekki. Þormóður goði mun vera stærsta og fullkomnasta fiskiskip, sem til þessa dags hefir komið í eigu íslendinga. Það er byggt í einhverri þekktustu og beztu togarasmíðastöð, sem starfrækt er í Evrópu, undir umsjón ágætra manna. Ekkert hefir heldur verið sparað til þess að það geti gegnt því forustuhlutverki í veiðiflota íslendinga, sem vonast mætti til af svo stóru og vel búnu skipi. Gera verður einnig ráð fyrir að skiprúm verði eftirsótt og í það veljist úrval ágætis manna. Dagleg stjórn í landi verður einnig í höndum hinna valinkunnu framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar. Tvennt er þó það, sem varpar dálitlum skugga á gleði mína. Má þar fyrst nefna hina ískyggilegu aflatregðu, er nú um langt skeið hefir verið á veiðisvæðum togaranna. Og í öðru lagi mjög svo ófullnægjandi starfsgrundvöllur, sem þessum veiðiskipum er búinn. Aflabrestinn ráðum við ekki við, en með bjartsýni útvegsmannsins er sífellt vonað að úr rætist. Ég held að allir séu mér sammála um að starfsgrundvöllur sá, er togararnir búa við, er allsendis óviðunandi. Og þarf þar skjótra úrbóta, ef forða á vandræðum. Hefi ég ástæðu til að ætla, að bráðlega verði gerðar ráðstafanir til lagfæringar.
Að lokum vil ég biðja ykkur, góðir gestir, að rísa úr sætum og sameinast um þá ósk, að þetta nýja skip megi ætíð verða sannkölluð happafleyta. Guð og gæfa fylgi ætíð skipi og áhöfn þess. Það lifi". Gunnlaugur Briem, ráðuneytisstjóri þakkaði af hálfu gesta og árnaði skipinu heilla.

Morgunblaðið. 10 apríl 1958.

Nótaskipið Óli Óskars RE 175 á landleið með fullfermi.         (C) Guðni Ölversson.

 

                 Síðutogarinn Þormóður goði er nú
                loðnuskipið Óli Óskars

Nýtt loðnuskip bættist í flota íslendinga í síðustu viku. Það er loðnuskipið Óli Óskars RE 175, sem áður hét Þormóður goði og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Skipinu hefur nú verið breytt mikið, það lengt og byggt yfir það og er nú gjörólíkt gamla Þormóði. Eigandinn er Ólafur Óskarsson, útgerðarmaður. Blaðamaður og Jens Ijósmyndari lögðu leið sína um borð í skipið, þar sem það lá við Grandagarð og fengu leyfi til að skoða það.

Vísir. 19 febrúar 1979.

Nótaskipið Beitir NK 123 með fullfermi og bíður löndunar hjá loðnubræðslu S.V.N. í Neskaupstað. (C) S.V.N.



             Átak í atvinnumálum Neskaupstaðar

Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur nú fest kaup á nótaskipinu Óla Óskars. Rekur félagið nú af miklum myndarskap fimm skip, þrjá skuttogara og tvö nótaskip. Nær allur afli þessara skipa er unninn í Neskaupstað af fiskvinnslufyrirtækjum félagsins sjálfs og er þessi starfsemi öll meginþátturinn í atvinnulífi kaupstaðarins. Reynslan hefur sýnt, að skynsamlegt er að hráefnisöflunin og vinnslan sé á einni hendi. í því er fólgin mikil trygging fyrir því, að atvinnutækin nýtist bæjarbúum sem best, auk þess, sem hver þáttur styður annan, Þannig að tap á einum þætti rekstursins vinnst oft upp með hagnaði á öðrum. Tilgangurinn með kaupum Óla Óskars, sem senn mun fá annað nafn, er fyrst og fremst sá, að tryggja hráefnisöflun til bræðslunnar, en nú á tímum veiðitakmarkana og kvótaskiptingar, er þýðingarmikið fyrir bræðslurnar, að gera út eigin skip til öflunar hráefnis. Þær veiðar, sem fyrirsjáanJegt er, að Óli Óskars stundar, eru loðnuveiðar og kolmunnaveiðar, en að því hlýtur að reka, að íslenskir sjómenn komist upp á lag með að veiða kolmunna eins og sjómenn annarra þjóða. En enn Þarf Síldarvinnslan að bæta aðstöðu sína og er nú hugað að þeim málum. Fyrirtækið hefur tryggt sér lóð við nýju höfnina og hyggst reisa þar sem fyrst frystigeymslur sem fyrsta áfanga nýs frystihúss, en takmarkaðar frystigeymslur eru oft til mikils baga. Sjálfsagt verður bið á því að nýtt frystihús komist í gagnið, en Þegar Það er risið við höfnina, verður aðstaða frystihússins Öll önnur og betri. Til dæmis verða Þá flutningsleiðir með hráefni og afurðir eins stuttar og verða má. Vonandi vegnar Síldarvinnslunni svo vel, að Þess verði ekki langt að bíða, að hún geti af fullum krafti ráðist í byggingu nýrrar fiskvinnslustöðvar.

Austurland. 23 apríl 1981.

05.01.2024 18:25

B.v. Vörður BA 142. LCJT / TFBC.

Botnvörpungurinn Vörður BA 142 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þenslu gufuvél. 44,27 x 7,72 x 3,67 m. Smíðanúmer 187. Togarinn hét fyrst Gulltoppur RE 247 og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 7 apríl árið 1922. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th. S. Blöndahl í Reykjavík. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipsins og hét það h/f Sleipnir. Skipið var selt 20 mars 1928, h/f Andra á Eskifirði, skipið hét þar Andri SU 493. Selt 5 nóvember 1932, Bergi h/f í Hafnarfirði, hét Andri GK 95. 25 janúar 1936 strandaði togarinn í þoku og dimmviðri nálægt Whitby á austurströnd Englands. Var hann þá á leið til Grimsby að selja afla sinn. Náðist togarinn út tveimur vikum síðar og var dreginn inn til Whitby og gert við hann þar. Hinn nafntogaði matsveinn, Lási kokkur (Guðmundur Angantýsson) var um tíma um borð í Andra. Heyrt hef ég eða lesið, að hann hafi eldað ofan í sjálfan Nixon Bandaríkjaforseta, að ég held á Þingvöllum. Hann var seigur karlinn. Skipið var selt 3 maí 1937, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, fékk þá nafnið Vörður BA 142. 8 ágúst 1942 var eigandi skipsins h/f Vörður á Patreksfirði. Hinn 24 ágúst 1942 gerði þýsk sprengiflugvél árás á Vörð þegar hann var staddur um 20 sjómílur norðvestur af Barða. Var togarinn þá á heimleið til Patreksfjarðar. Flugvélin lét rigna vélbyssuskotum yfir Vörð og kastaði sprengju sem sprakk rétt aftan við hann. Einn skipverja, Sigurjón Ingvarsson, slasaðist alvarlega þegar hann varð fyrir vélbyssuskoti. Hélt togarinn þegar inn á Önundarfjörð, en Sigurjón lést af sárum sínum rétt áður en Vörður kom til hafnar á Flateyri. Sigurjón var 24 ára og var ættaður frá Geitagili í Rauðasandshreppi. Nokkrar skemmdir urðu á togaranum við þessa heiftúðlegu morðárás. Vörður var seldur 21 mars 1947, p/f Höddin (H.J. Thomsen) í Porkere í Færeyjum, hét þar Höddaberg TG 792. Togarinn var seldur í brotajárn og tekinn af Færeyskri skipaskrá 22 september árið 1955.

B.v. Vörður BA 142.                                                                  Ljósmyndari óþekktur.



              „Andri" seldur til Patreksfjarðar

Togarinn »Andri«, sem keyptur hefir verið frá Reykjavík, af Ólafi Jóhannessyni & Co., kom til Patreksfjarðar í gærmorgun. Skift hefir verið um nafn á skipinu og heitir það nú »Vörður«. Skipið átti að fara á, veiðar í gærkvöldi.

Þjóðviljinn. 8 maí 1937.

B.v Andri SU 493 á siglingu.                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



                      Loftárás á togarann ,,Vörð“

Þýzk sprengjuflugvél réðist á togarann „Vörð“ út af Vestfjörðum 24. ágúst. Einn af hásetunum, Sigurjón Ingvarsson, varð fyrir banaskoti. Í blaðaviðtali skýrir skipstjórinn, Gísli Bjarnason, þannig frá atburðunum: „Við vorum staddir 20 sjómílur norðvestur af Barðanum, í stefnu fyrir Kóp, áleiðis til Patreksfjarðar, þegar árásin var gerð. Klukkan mun hafa verið farin að ganga tíu og við vorum nýhættir veiðum". „Sáuð þér þegar flugvélin kom?“ „Ég var ekki uppi en það var kallað niður til mín og sagt, að flugvél væri að koma úr vesturátt, í stefnu á togarann. Loftskeytamaðurinn þekkti þjóðerni hennar og sagði, að hún væri þýzk“. „Hóf flugvélin strax árás á skipið?“ „Já, strax þegar hún nálgaðist það meir. Þegar hún átti skamman spöl eftir til okkar, tók hún beina stefnu á skipið, lækkaði flugið jafnframt til muna og hóf skothríð á togarann. Sennilega mun bæði hafa verið skotið úr vélbyssu og fallbyssu, enda þótt við gerðum okkur ekki ljósa grein fyrir því vegna hávaðans. Má segja að þessi augnablikin hafi allt leikið á reiðskjálfi“. „Hvað tókuð þið til bragðs?“ „Við héldum skipinu á fullri ferð áfram, en beygðum því flötu við vindi, þannig að stefna togarans var til suðausturs“. „En hvar héldu mennirnir sig?“ „Mennirnir voru allir á þilfari, rétt áður en árásin var gerð og voru þar að vinna að fiski. En nokkurum mínútum áður en sást til flugvélarinnar fóru þeir niður til að drekka kaffi. Aðeins þrír menn voru uppi, og meðal þeirra var Sigurjón heitinn. Var hann framan við trollspil á leið aftur eftir skipinu, þegar skot hæfði hann í bakið, svo hann féll við. Fór skotið í gegn og út um kviðinn“. „Hvað stóð árásin lengi?“ „Það er ekki gott að gera sér grein fyrir hversu lengi þessi skothríð stóð, en þegar flugvélin hafði dembt yfir okkur skothríð nokkura stund, flaug hún yfir skipið, beygði og stefndi á það að nýju.
Að þessu sinni stefndi hún skáhalt fram yfir skipið og hóf vélbyssuskothríð úr nokkurri fjarlægð áður en hún kom að togaranum. Þegar flugvélin hefir haldið sig vera komna yfir skipið, lét hún sprengju falla, en hún lenti aftan við skipið. Ég get ekki sagt hve langt fyrir aftan togarann sprengjan féll, en það var þó svo nærri, að skipið hristist allt og nötraði, lóðvélin hætti að vinna og leiðslur í vélarúmi slitnuðu. Ýmsar fleiri skemmdir urðu víðsvegar á skipinu. Nokkur vélbyssuskot lentu á stjórnpalli, en ekkert þeirra komst í gegn, vegna þess að pallurinn er brynvarinn gegn vélbyssuskotum. Er flugvélin hafði látið sprengjuna falla hætti hún árásinni og flaug á brott. Stefndi hún til austurs og hvarf þar sjónum okkar. Þetta var Focke Wulf flugvél, 4 hreyfla“. „En hvað varð um mennina, sem á þilfarinu voru í upphafi árásarinnar?“ „Þeir tveir, sem ósærðir voru, komust niður eftir fyrri lotuna, hafði þá ekki sakað neitt í kúlnaregninu. Héldum við allir kyrru fyrir niðri þar til árásirnar voru um garð gengnar“. „Gerðuð þið ekki tilraun til að ná sambandi við land eða önnur skip með loftskeytum eða taltækjum?“ „Jú, strax og árásin var gerð, var loftskeytamanninum falið að brjóta innsigli tækjanna og senda út neyðarmerki. Svaraði bæði loftskeytastöðin og ýmis skip og stóðu í sambandi við okkur meðan að árásin stóð yfir“. Hvert var svo haldið að árásinni lokinni?“ „Við héldum beinustu leið til lands, en það var til Önundarfjarðar, til þess að koma hinum særða manni hið allra fyrsta til læknis. En stundarfjórðungi áður en við komum til Flateyrar, andaðist hann. Hann hafði fulla meðvitund fram undir andlátið og gerði sér fyllilega ljóst, hvað ske mundi. Tók hann því með æðrulausri ró og stillingu. Sigurjón Ingvarsson var fæddur 9. janúar 1918. Hann var gæða- og dugnaðardrengur hinn mesti, og sakna allir skipverjar hans sem góðs félaga og duglegs sjómanns. Hann var stillingar- og skapfestumaður mikill og brosti ávallt að erfiðleikunum, þegar þeir steðjuðu að. Eftir að læknisskoðun hafði farið fram á líkinu fluttum við það beina leið frá Flateyri til Patreksfjarðar".

Sjómannablaðið Víkingur. 9 tbl. 1 september 1942.

Vörður BA 142, t.v. og Gylfi BA 77 við bryggju á Patreksfirði. Gylfi var smíðaður hjá A/G Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi 1915 sem Gylfi RE 235 fyrir h.f. Defensor í Reykjavík. 336 brl. 600 ha. gufuvél. Var í eigu Ólafs Jóhannessonar & Co á Patreksfirði frá 1932. Frá 1942 er eigandi h.f. Gylfi á Patró. Togarinn var seldur p/f Stjörnunni í Vestmanna í Færeyjum, hét þá Gullfinnur VN 313. Togarinn sökk út af Angmagsalik á Austur-Grænlandi eftir að hafa skemmst í ís 20 mars árið 1960.   Ljósmyndari óþekktur. 



                Eskfirðingar hafa keypt togara

Á Eskifirði hafa undan farið verið hin mestu atvinnuvandræði og litið mjög illa út um framtíð kauptúnsins. Eignir þar á staðnum, sem áður hafa verið metnar ærið hátt, eru því nær óseljanlegar. Hinn 12. Janúar í vetur var stofnað á Eskifirði togarafélagið „Andri". Stofnfélagar voru 12. Formaður var kosinn Páll Magnússori lögfræðingur, oddviti hreppsins. Meðstjórnendur voru kosnir Markús Jensen kaupmaður og Ólafur Sveinsson frá Firði, fyrrverandi bankagjaldkeri. Hlutafé félagsins er 50 þúsund krónur og leggur hreppurinn fram 15 þúsund. Verkamenn og sjómenn, sem atvinnu fá hjá félaginu, leggja í hluti 10 % af kaupi sínu fyrstu tvö árin. Skömmu eftir stofnun félagsins fór formaður þess hingað til Reykjavíkur. Hefir hann nú keypt af „Sleipni" togarann „Gulltopp". Á að skíra skipið upp, en ekki fullráðið, hvaða nafn það hlýtur. Líklega verður það nefnt „Reyður", en Reyður heitir fjall eitt fagurt við Reyðarfjörð. Skipstjóri mun verða sá sami og verið hefir, en framkvæmdastjóri félagsins verður Jón Eyvindsson héðan úr Reykjavík. „Andri" tekur við skipinu 15. marz. Það mun leggja hér upp afla sinn úr tveim fyrstu ferðunum, sem það fer eftir eigendaskiftin. 

Alþýðublaðið. 1 mars 1928.

B.v. Andri GK 95 á strandstað við Whitby á Englandi.          Ljósmyndari óþekktur.



     Togarinn Andri strandar við England í niðaþoku

Togarinn Andri strandaði nálægt Whitby á Englandi aðfaranótt sunnudags. Niðaþoka var er togarinn strandaði, og við rannsókn, sem farið hefir fram, hefir komið í ljós, að skekkja var á áttavitanum, sem nam 22 gráðum. Þar sem togarinn strandaði er mjög stórgrýtt og hamraveggur í sjó fram. öllum mönnum tókst að bjarga eftir að þeir höfðu verið í togaranum um hríð, og var þeim bjargað á róðrarbátum vegna þess, að ekki var hægt að koma björgunarbátum við vegna stórsjóa. Líður mönnunum öllum vel, og dvelja þeir enn í Whitby. Þeir munu koma heim með fyrstu ferð, sem fellur. Togarinn Andri fór frá Hafnarfirði á þriðjudaginn og var með 3000 körfur fiskjar, og átti hann að selja aflann í Grimsby í gær. Skipshöfnin var 17 menn og var skipstjóri Kristján Kristjánsson. Auk skipshafnarinnar voru 8 menn á skipinu, sem voru að sækja hinn nýja togara Guðmundar Jónssonar og þeirra félaga. Eigandi Andra var h.f. Berg, en framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Guðmundsson stórkaupmaður. Áður hét skipið Gulltopptur, og var þá eign Sleipnisfélagsins. Engin von mun vera til þess, að skipið náist út.

Alþýðublaðið. 28 janúar 1936.

B.v. Gulltoppur RE 247 á siglingu.                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.



                                 „Gulltoppur“

Nýr togari hefir enn bætst við botnvörpungaflotann íslenska. Er það annar togari h.f. Sleipnis. Kom hann í gærmorgun frá Þýskalandi og heitir ,,Gulltoppur“.

Morgunblaðið. 8 apríl 1922.

Færeyski togarinn Höddaberg TG 792.                                         Úr safni Óla Ólsen.



                 Færeyingar taka við „Verði“

Gamli „Vörður“ frá Patreksfirði, kom til Reykjavíkur í gærmorgun, og mun hann vera á leið til Patreksfjarðar, þar sem íslenzka skipshöfnin fer af honum. Eins og kunnugt er, hefur ,,Vörður“ verið seldur til Færeyja og er færeysk skipshöfn nú að taka við stjórn skipsins.

Alþýðublaðið. 23 mars 1947.

01.01.2024 12:16

Breska togaranum Volante GY 235 sökkt af þýskri sprengiflugvél út af Hvalbak.

Breskum togara, Volante að nafni, var sökkt af þýskri sprengjuflugvél um 10 sjómílur suð-austur af Hvalbak. Togarinn var nýkominn á Íslandsmið og var á veiðum. Það var um 4 leytið aðfaranótt 12 júlí 1940 að yfir þá kemur þýsk sprengjuflugvél úr vesturátt og kastar tveimur sprengjum á togarann, önnur þeirra lendir nálægt honum og veldur töluverðu tjóni. Seinni sprengjan lenti á stjórnpalli togarans og hann springur í loft upp og skipstjóra og stýrimann tók útbyrðis. Volante mun hafa sokkið á nokkrum mínútum. 11 menn af áhöfn hans komst í björgunarbát og gátu þeir bjargað stýrimanninum upp í bátinn, en skipstjórinn, Alfred George Coulam fórst. Það var lítill trillubátur, Björg að nafni, tæplega 2 tonna og formaður á honum var Gísli Stefánsson á Grundarstekk í Stöðvarfirði, sem fann björgunarbátinn og hélt hann þá þegar með hann til Stöðvarfjarðar. Togaramenn höfðu þá róið til lands í um 8 klukkustundir.

Breski togarinn Volante GY 235 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1907 fyrir Atlas Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 225 brl. 400 ha. 3 þenslu gufuvél. 38,70 x 6,70 x 3,50 m. Smíðanúmer 385. Togarinn var tekinn í þjónustu breska sjóhersins sem HMT Volante FY 713 árið 1915 og þjónaði þar sem tundurduflaslæðari til ársins 1918. Seldur 1918, Harry Wood í Grimsby, hét þá sama nafni, Volante GY 235. Seldur árið 1920, Charles Dobson í Grimsby, sama nafn og númer. Togaranum var sökkt af þýskri sprengjuflugvél aðfaranótt 12 júlí árið 1940 er hann var að veiðum um 10 sjómílur austur af Hvalbak eins og áður segir hér að ofan.

Þessi sami togari strandaði við Kúðafljótsós á Meðallandssandi 20 mars árið 1911. Mannbjörg varð og náðist hann út aftur lítið skemmdur.

Jón Oddsson skipstjóri og útgerðarmaður í Grimsby og Hull, byrjaði sinn togaraferil á þessum togara. Gefum honum orðið; „Það var í nóvember 1907. Ég átti þá heima á Ísafirði. Þangað kom þá enski togarinn „Volante" frá Grimsby með veikan mann, sem hann lagði þar á land. Réðist ég á skipið í hans stað og var ég þá 19 ára gamall. Á þessum togara var ég í 8 mánuði. Snemma sumars 1908 strandaði „Volante" í nánd við Vestmannaeyjar. Við gátum þó komið togaranum til Eyja og þangað kom björgunarskipið „Svafa", er þá var hér, og dældi úr honum sjónum. Að því búnu héldum við til Reykjavíkur og lögðum „Volante" inn á Kleppsvík, en þar fór fram á honum bráðabirgðaviðgerð, svo að við gætum haldið út að fiska og síðan heim til Englands. Þegar þangað kom, fór ég af „Volante", því að þá átti að fara fram á honum viðgerð, sem tók langan tíma.“
Jón Oddsson varð síðar skipstjóri á Volante árið 1912 og var með hann í eitt ár. Var þetta fyrsti togari sem hann fór með skipsstjórn á eftir að hann öðlaðist þau réttindi í Grimsby það ár.

Jón Oddsson útgerðarmaður í Hull.
Ægir. Júlí 1939.

Breski togarinn Volante GY 235.                                                        (C) James Cullen.



        Breskur togari skotinn í kaf á Hvalbaksmiðum

Síðastliðinn föstudag kom trillubátur til Stöðvarfjarðar með skipsbát í eftirdragi og voru á honum 12 breskir sjómenn af togara, sem skotinn var í kaf af þýskri flugvjel á Hvalbaksmiðum. Þegar árásin á togarann var gerð, voru skipstjóri og stýrimaður staddir á stjórnpalli og köstuðust báðir útbyrðis. Stýrimanni, var bjargað, eftir klukkustundar volk í sjónum en skipstjóri fanst ekki. Nánari atvik af atburði þessum eru þau, er nú skal greina. Það var um kl. 3 ½  aðfaranótt föstudags, 12. þ. m. Togarinn Volante, GY 235 var að veiðum um 10 sjómílur út af Hvalbak. Kom þá skyndilega flugvjel úr vesturátt og hóf atlögu að togaranum. Þetta var þýsk sprengjuflugvjel. Varpaði hún tveimur sprengjum. Fyrri sprengjan hæfði ekki skipið, en fjell í sjóinn mjög nálægt því. Svo mikið varð umrótið í sjónum, að togarinn tókst á loft upp, er sprengjnn kom niður. Hin sprengjan hitti stjórnpall skipsins og tók skipstjórann og stýrimanninn útbyrðis. Togarinn var vopnaður. Skipsmenn reyndu að skjóta á flugvjelina, en hæfðu ekki. Og þar sem skipið tók nú óðum að sökkva, gátu skipsmenn með naumindum komið björgunarbát út, áður en skipið sökk. Þýska sprengjuflugvjelin hjelt nú brott og stefndi til norðurs. Fóru nú skipsmenn að leita að skipstjóra og stýrimanni, sem fallið höfðu útbyrðis. Þeir fundu stýrimanninn. Hann gat haldið sjer í hurð, sem hafði kastast út, er sprengjan fjell á skipið. Hafði stýrimaður verið um klukkutíma að velkjast í sjónum, þegar honum var bjargað. Skipverjar leituðu lengi að skipstjóra, en fundu hann hvergi. Er talið sennilegt, að hann hafi farist strax við sprengjuna. Einn hásetanna á togaranum hafði særst á læri, hnje og hönd, af vjelbyssuskotum frá flugvjelinni. Hann var allþjáður í bátnum, en reynt var að hlúa að honum eftir föngum. Var nú róið í áttina til lands. Munu þeir hafa verið um 20—30 mílur undan Kambsnesi. Þeir lögðu af stað um kl. 4 ½  á föstudagsmorgun. En kl. 12 ½  hittu þeir trillubát frá Stöðvarfirði, sem var í róðri. Hann tók bát skipbrotsmannanna í eftirdrag og kom með hann til Stöðvarfjarðar um kl. 3 á föstudag. Formaðurinn á trillubátnum heitir Gísli Stefánsson. Á Stöðvarfirði fengu hinir bresku skipbrotsmenn hjúkrun og aðhlynningu. Flugvjel kom og sótti hinn særða háseta og var hann fluttur á sjúkrahúsið á Seyðisfirði. Hrestist hann brátt er bundið hafði verið um sár hans og var ekki talinn vera í lífshættu. Öðrum skipbrotsmönnum leið vel, nema hvað stýrimaðurinn var allþjakaður eftir sjóvolkið. Hann var og talsvert, marinn. Verða skipbrotsmenn fluttir hingað til Reykjavíkur. Togarinn, sem sökt var, var nýkominn frá Englandi og aðeins nýbyrjaður veiðar, er flugvjelin kom.

Morgunblaðið. 14 júlí 1940.

  • 1
Flettingar í dag: 281
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075661
Samtals gestir: 77621
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:36:39