Færslur: 2017 Janúar

31.01.2017 09:08

2626. Guðmundur í Nesi RE 13. TFKG.

Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 var smíðaður hjá Santierul Naval Braia S.A. í Rúmeníu árið 1999 og skipið síðan fullklárað hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S. í Tomrefjord í Noregi árið 2000. Smíðanúmer 183. 1.315 brl. 7.507 ha. Wartsiila vél, 5.520 Kw. Skipið hét fyrst Hvilvtenni FD 60 og var í eigu útgerðarfélagsins P/R Hvilvtenni í Leirvík í Færeyjum og var gert út þaðan til rækjuveiða. Skipið var selt 24 janúar 2004, Útgerðarfélaginu Tjaldi ehf á Rifi, sem sameinaðist ásamt tveimur öðrum félögum í Brim h/f árið 2005. Guðmundur í Nesi RE 13 er glæsilegt skip og er í hópi þeirra skipa í Íslenska flotanum sem skila mestum aflaverðmætum á land. Skipið er gert út af Útgerðarfélaginu Brim h/f í Reykjavík.


2626. Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð.


Guðmundur í Nesi RE 13.


Guðmundur í Nesi RE 13.


Guðmundur í Nesi RE 13.


Guðmundur í Nesi RE 13.


Guðmundur í Nesi RE 13.


Guðmundur í Nesi RE 13 að taka olíu í Örfirisey.                          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

                   Útgerðarfélagið Brim hf


Brim hf er stofnað 1998 þá sem Útgerðarfélagið Tjaldur ehf þegar þeir feðgar, Kristján Guðmundsson, Hjálmar Kristjánsson og Guðmundur Kristjánsson, skiptu upp rekstri sínum á Rifi. Guðmundur var þá fluttur til Reykjavíkur og tók alfarið við rekstri Útgerðarfélagsins Tjalds ehf. Félagið var frá upphafi til húsa að Tryggvagötu 11 í Reykjavík en fluttist inn á Bræðraborgarstíg 16, árið 2007. Árið 2005 var nafni Útgerðarfélagsins Tjalds ehf breytt í Brim hf.

Í upphafi gerði félagið út einn línubát, Tjald SH 270. Báturinn stundaði línuveiðar og landaði aflanum ýmist ferskum á fiskmarkaði og frystum afurðum á erlenda markaði. Starfsmenn félagsins voru í upphafi um 20. Árið 1999 var sjávarútvegsfyrirtækið Básafell hf keypt og seinna sameinað inn í útgerðarfélagið Tjald, (Brim hf.) Við þessi kaup hóf félagið togararekstur og gerði út tvo rækjufrystitogara, Eldborg RE og Orra ÍS og línubátinn Tjald SH 270. Erfiður rekstur var í rækjuveiðum á þessum árum og hætti félagið rekstri rækjuskipanna á árunum 2002 til 2003. Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 er keyptur og kemur í ársbyrjun 2004. Togarinn er sérhæfður til grálúðuveiða.

Á þessum árum lagði félagið aðaláherslu á grálúðuveiði á djúpslóð, með línuveiðum, togveiðum og netaveiðum. Ýmsar ástæður voru fyrir því að fyrirtækið varð að hætta línuveiðum á grálúðu meðal annars sú að búrhvalurinn komst á lag með að éta grálúðuna af línunni þegar verið var að draga hana af miklu dýpi. Í framhaldi af því fór Tjaldur SH á grálúðuveiðar með net og var það í fyrsta skipti sem það var gert við Ísland.

Árið 2004 keypti félagið í samvinnu við KG fiskverkun á Rifi, Útgerðarfélag Akureyringa. Í framhaldi var ÚA sameinað inn í Brim hf árið 2005. Í dag er Brim hf með víðtæka starfsemi í sjávarútvegi á Íslandi. Það gerir út frystitogarana Brimnes RE 27, Guðmund í Nesi RE 13 og Kleifaberg RE 7. Árið 2012 starfa hjá Brimi um 150 manns.

Brim hf. hefur alltaf lagt mikla áherslu á að vera með traust og góð skip í rekstri á hverjum tíma og leitast er við að svara kröfum nútímans um hagkvæman rekstur, gæði hráefnis og góðan aðbúnað sjómanna. Umhverfismál og gott starfsfólk skipa háan sess í allri starfsemi Brims.

 

Af heimasíðu Brims hf.

30.01.2017 14:59

1029. Brettingur NS 50. TFTK.

Brettingur NS 50 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1967 fyrir Tanga h/f á Vopnafirði. 317 brl. 800 ha. Lister díesel vél. Skipið var selt 19 júlí 1972, Sveini Víði Friðgeirssyni, Lúkasi Kárasyni og Halldóri Guðnasyni í Reykjavík, hét Esjar RE 400. Selt 5 júní 1973, Ingimundi Ingimundarsyni og Pétri Axel Jónssyni í Reykjavík, skipið hét Svanur RE 45. 4 september 1974 er Ingimundur Ingimundarson einn skráður eigandi. Árið 1979 var skipið lengt og yfirbyggt, mældist þá 330 brl. Einnig var sett í það ný vél, 1.330 ha. Wartsila díesel vél. Árið 2002 fær skipið skráningarnúmerið RE 40. Skipið var selt til Danmerkur 23 apríl árið 2003.


Brettingur NS 50 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                                       (C) J.A. Hugson.


Svanur RE 45 við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                                           (C) J.A. Hugson.


Svanur RE 45. Skipið hefur verið lengt og yfirbyggt.                                  (C) Markús Karl Valsson.

      Nýtt og glæsilegt skip til Vopnafjarðar

       Sennilega fyrsta fiskiskip með sjónvarp

Hingað kom í dag nýtt og glæsilegt stálskip, og ber það nafnið Brettingur NS-50. Eigandi skipsins er Tangi hf. á Vopnafirði. Skipið er smíðað í Noregi hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik, og er það 317 lestir að stærð. Var samið um smíði skipsins í byrjun desember 1965, og það afhent eigendunum hinn 15. febrúar 1967. Í kvöld héldu þorpsbúar hér móttökuhátíð fyrir skipið og skipsmenn. Sem fyrr segir er Brettingur 317 lestir brúttó. Það er 39 metrar að lengd 7.6 metrar á breidd, og mesta dýpt í því er tæpir 4 metrar. Í skipinu er 800 ha aðalvél, tvær ljósavélar sem eru 62 ha. hvor. Hliðarskrúfur eru tvær, og hvor um sig 70-75 ha. Skipið er búið mjög fullkomnum siglingar og fiskileitartækjum. Þá er það sýnilegt að mjög mikil áherzla hefur verið lögð á að gera íbúðir skipsmanna sem þægilegastar og vistlegastar, og auk þess er frágangur að innan  mjög smekklegur og vandaður. Má geta þess að í borðsal skipsins er sjónvarp, og er það sennilega það fyrsta í íslenzku fiskiskipi. Skipið kom beint hingað frá Bergen, og var það 2 1/2 sólarhring á leiðinni. Hreppti það á tíma versta veður, en reyndist þá mjög vel. Mesti ganghraði skipsins var um 12 sjómílur. Skipið fer héðan til Akureyrar, þar sem það tekur loðnunót, og fer að því búnu á loðnuveiðar. Einnig verður þorskanót um borð. Skipstjóri á Bretting verður Tryggvi Gunnarsson frá Brettingsstöðum, 1. vélstjóri Sigurður Gunnarsson, bróðir skipstjórans, og 1. stýrimaður er Sævar Sigurpálsson. Framkvæmdastjóri Tanga hf. er Sigurjón Þorbergsson.

Morgunblaðið. 22 febrúar 1967.

29.01.2017 11:28

B. v. Jón Baldvinsson RE 208. TFCK.

Jón Baldvinsson RE 208 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 681 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 826. Skipið hét Dröfn á smíðatíma. Togarinn strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi 31 mars árið 1955. Áhöfninni, 42 mönnum var bjargað á land af Björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands í Grindavík. Aldrei áður höfðu jafnmargir menn bjargast af strandstað eða af skipi sem farist hefur við Ísland og af Jóni Baldvinssyni. Skipið eyðilagðist á strandstað og brimið braut flakið niður á skömmum tíma. 


B.v. Jón Baldvinsson RE 208.                                                           (C) Guðmundur Hannesson.


Jón Baldvinsson á strandstað við Reykjanes.                                                  (C) Hannes Pálsson.


Flak togarans Jóns Baldvinssonar RE 208.                                                    (C) Hannes Pálsson.


Einn af björgunarhringjum togarans.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               B.v. Jón Baldvinsson RE 208

        Hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar kom í gær

Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum til þess að fagna nýjasta togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, "Jóni Baldvinssyni", er hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn um kl. 6 síðdegis í gær, eftir fljóta og góða ferð frá Englandi.
"Jón Baldvinsson" er 680 brúttósmálestir að stærð og af sömu gerð og togarinn Þorsteinn Ingólfsson. Vél skipsins er olíukynt gufuvél, og í reynsluförinni sigldi það 13 sjómílur. Skipstjórinn, Jón Hjörtur Stefánsson, lét mjög vel af skipinu á leiðinni heim, en þeir fengu mjög gott veður. Farið var gegnum Pentlandsfjörðinn í svarta þoku, en skipið er búið ratsjá, svo að förinni seinkaði ekki vegna þokunnar. Í hinu vistlega herbergi skipstjórans voru saman komnir ásamt nokkrum gömlum vinum og samstarfsmönnum Jóns heitins Baldvinssonar, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri og Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem einnig var einn af vinum ,og samstarfsmönnum Jóns  Baldvinssonar, og buðu þeir skipið velkomið og árnuðu því og skipshöfninni heilla. í þessum hópi var einnig Baldvin Jónsson, lögfræðingur, Baldvinssonar, og átta ára gamall sonur hans, Jón Baldvinsson. Skipstjóri á "Jóni Baldvinssyni" er Jón Hjörtur Stefánsson, 1. stýrimaður Páll Björnsson, 2. stýrimaður Ólafur Marínó Jónsson, 1. vélstjóri Jónas Ólafsson. Ekki er enn ráðið, hvort skipið verður fyrst sent á karfaveiðar eða það veiðir í salt. "Jón Baldvinsson" er 7. togari bæjarútgerðarinnar; en nú eru liðin 4 ár síðan fyrsti togarinn, "Ingólfur Arnarson" kom til Reykjavíkur. Bæjarútgerðin mun væntanlega fá einn togara í viðbót af þeim, sem nú er verIð að smíða í Bretlandi.

Alþýðublaðið. 26 júní 1951.

           Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 

                Strandaði við Reykjanes í fyrrinótt

  Öllum skipverjum 42 að tölu bjargað en óttast að skipið sé gersamlega       ónýtt 

Togarinn Jón Baldvinsson strandaði í fyrrinótt undan Hrafnkelsstaðabergi austan á Reykjanesi. 42 manna áhöfn var á skipinu, þar af 13 Færeyingar. Var öllum bjargað. En óttazt er, að skipið eyðileggist.
Togarinn Jón Baldvinsson var einn af 10 nýjustu togurunm og kom til landsins í júní 1951. Hann var tæp 700 tonn að stærð. Togarinn var að koma af veiðum í salt á Selvogsbanka og var að fara vestur úr "Húllinu", eins og kallað er, vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul. Veðri var svo háttað er það strandaði, að þokuslæðingur var yfir og dimmt af nóttu. Sjólítið mun hafa verið úti fyrir. en mikið brim við ströndina, eins og mjög oft er við Reykjanes. Skipið tók niðri um kl. 3,45. Mun fyrsti stýrimaður hafa verið þá á vakt, en kallað á skipstjóra, rétt um það leyti sem skiplð tók niðri.
Sent var út neyðarskeyti, og kom loftskeytastöðin því til Slysavarnafélagsins, sem símaði til  Grindavíkur, og lagði björgunarsveitin þaðan strax af stað með björgunarútbúnað. Var björgunarsveitin komin á strandstað um kl. 6.50. Einnig voru send upp neyðarblys. Sá vitavörðurinn á Reykjanesi þau, og kom hann fyrstur á strandstað. Lét hann í té upplýsingar um, hvar skipið hefði strandað, en um það var ekki vitað nákvæmlega áður. Skipverjar höfðu, áður en björgunarmenn komu á vettvang, skotið línu í land, og tók vitavörðurinn á móti henni og setti hana fasta.
Sjór gekk yfir skipið aftanvert, svo að illvært var í stjórnpalli en skipverjum tókst að komast fram á hvalbak, þar sem betra var að vera. Lágsjávað var, er skipið strandaði, en með hækkandi sjó var óttast, að farið gæti að brjóta á skipinu framan til, og þá voru mennirnir í bráðum háska.
Vegna þess að skipverjar höfðu sjálfir komið línu á land, var fljótlegt að koma björgunarútbúnaði fyrir. Björgunin gekk líka mjög rösklega, þótt aðstaðan væri allerfið. Um 150 m vegur var út í skipið, en bergið 30-40 m hátt þverhnípi, sem sjór fellur að, svo að björgunarmenn urðu að draga strandmenn úr skipinu upp á bergið. Fyrsti maðurinn var kominn í land rétt fyrir kl. 7 og öllum hafði verið bjargað kl. 8.45. Jafnótt og strandmenn komu á land fóru þeir heim í íbúð vitavarðar og fengu hressingu. Biðu þeir þar uns bifreiðar komu og sóttu þá. Þeir mötuðust í Grindavík, en voru komnir til Reykjavíkur um kl. 3 í gær.
Auk björgunarsveitaririnar í Grindavík komu á strandstað menn frá Bæjarútgerð Reykjavíkur með lækni með sér. Þá komu þar fáeinum mínútum, eftir að  Grindvíkingarnir komu, Baldur Jónsson formaður björgunarsveitarinnar í Reykjavík og Guðmundur Pétursson fulltrúi Slysavarnarfélagsins og læknarnir úr Keflavík og Njarðvíkum. Höfðu þeir með sér talstöð. Unnt var að hafa samband við strandstað allan tímann. Eftir að ljósavél skipsins stöðvaðist notaði loftskeytamaðurinn neyðarsendi, er gengur með rafhlöðum, mjög hentugt tæki. En skeytum var komið til Reykjavíkur með því að láta togarann Kaldbak senda þau en hann lá fyrir utan. Skipstjóri á togaranum þessa ferð var Þórður Hjörleifsson, sem lengi var með togarann Helgafell.

Alþýðublaðið. 1 apríl 1955.


28.01.2017 14:52

3. Akraborg EA 50. TFAL.

Akraborg EA 50 var smíðuð í Svíþjóð árið 1943. Eik. 178 brl. 160 ha. Bolinder vél. Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður og síldarsaltandi frá Rauðuvík keypti skipið árið 1946. Skipið var upphaflega þrímastrað seglskip með hjálparvél, en seinna að öllu vélbúið. Ný vél (1953) 400 ha. Alpha díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 7 nóvember árið 1979. Akraborgin lá lengi við Torfunefsbryggjuna á Akureyri og sökk þar í ágústmánuði árið 1980. Náðist skipið upp og var stuttu síðar dregið út fyrir Flatey á Skjálfanda og sökkt þar á svipuðum slóðum og Snæfelli EA 740 var sökkt á tveimur árum áður.


Akraborg EA 50.                                                                             (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Ms. Akraborg  EA-50, nýlega komin hingað frá Svíþjóð

Fyrir nokkru er komið hingað til bæjarins mótorskip, sem Valtýr Þorsteinsson, útgerðarmaður, hefir keypt til landsins frá Svíþjóð. Þetta er þrímastrað tréskip, 178 smálestir að stærð, knúið 160 hestafla Bolindervél. Það er svo að segja nýtt, byggt 1943 hjá kunnri, sænskri skipasmíðastöð, undir eftirliti Bureau Veritas og er mjög sterklega byggt úr eik, járnvarið að utan til varnar gegn ísi. Skipið er byggt sem flutningaskip og hyggst Valtýr nota það jöfnum höndum til flutninga og síldveiða. Mun það vera mjög álitlegt skip til síldveiða og lesta a. m. k. 2000 mál síldar. Skipið var í síldveiðiflota Svía hér við land sl. sumar. Skipið er búið öllum nýtízku öryggistækjum, svo sem talstöð, miðunarstöð og sjálfritandi dýptarmæli. Ganghraði þess er um 9 mílur. Nokkrar breytingar eru fyrirhugaðar á skipinu og er þegar byrjað að smíða skilrúm í lestarrúm. Þá er einnig fyrirhugað að gera nokkrar breytingar á mannaíbúðum og stækka þær og búa nýjum tækjum. Skipið hefir hlotið nafnið Akraborg og ber einkennisstafina EA 50. Heimahöfn þess er Akureyri. Valtýr Þorsteinsson er athafnasamur útgerðarmaður. Auk Akraborgar á hann mótorbátinn Gylfa frá Rauðuvík og gerir hann út frá Sandgerði í vetur. Þá er hann og þátttakandi í útgerð mótorbátsins Garðars frá Rauðuvík, sem er 50 smálesta Svíþjóðarbátur. Þetta myndarlega skip er góður fengur fyrir skipastól þann, sem héðan er gerður út og atvinnulíf bæjarmanna, og á Valtýr þakkir skildar fyrir dugnað sinn og framtak.

Dagur. 15 janúar 1947.


Akraborg EA 50 að landa síld á Skagaströnd.                                    (C) Guðmundur Guðnason.

        Valtýr Þorsteinsson útgerðarmaður

Sumarið 1949 saltaði Valtýr Þorsteinsson frá Rauðuvík 275 tunnur í skip sitt, Akraborg, og lét það liggja á Raufarhöfn meðan söltun stóð yfir. Valtýr tók síðan bryggju Kaupfélags Norður-Þingeyinga og saltaði á henni um árabil. Fyrirtæki sitt kallaði hann Norðursíld h/f. Árið 1958 reisti Valtýr svo nýja stöð fyrir botni hafnarinnar og flutti starfsemina þangað. Á árunum 1958-59, meðan flutningarnir stóðu yfir, saltaði hann á báðum stöðvunum og var hin nýja þá kölluð Norðurver.
Feðgarnir, Valtýr og Hreiðar sonur hans, voru þrautseigir og útsjónasamir við söltunina. Þegar síldin hvarf lengst norður í höf sumarið 1968 sátu þeir ekki með hendur í skauti heldur tóku á leigu Færeyska flutningaskipið Elísabeth Hentzner, innréttuðu það sem fljótandi síldarplan og sendu á eftir síldinni. Á þessari fljótandi söltunarstöð voru saltaðar 7.500 tunnur, en feðgarnir voru hinir einu sem fóru að með þessum hætti.      Heimild: Síldarsaga Íslendinga.


Akraborg EA 50. Líkan.                                                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Enn fær Emil mótmælaskeyti

Skipverjar á síldveiðibátnum Akraborg EA 50 hafa sent Emil Jónssyni sjávarútvegsmálaráðherra mótmælaskeyti vegna gerðardómsins um skiptakjör síldveiðisjómanna. Skeytið er svohljóðandi: -

Herra sjávarútvegsmálaráðherra,  sjávarútvegsmálaráðuneytinu, Reykjavík. Þar sem þér hafið notað vald yðar og þar með stuðlað að stórkostlegri kjararýrnun sjómanna á síldveiðibátum á yfirstandandi vertíð,  fyrst með bráðabirgðalögum og síðan gerðardómi, þá mótmælum við harðlega niðurstöðum gerðardóms um skiptakjör og aðgerðum þessum í heild. Skipverjar vs. Akraborg EA 50.

Þjóðviljinn 9 ágúst 1962.


Akraborg EA 50. Líkan.                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


          Akraborgin tók sjálf af skarið

Um nokkurra ára skeið hefur gamalt tréskip, Akraborg EA 50, legið bundið við Torfunefsbryggju, mörgum til mikils ama, þar sem þeir hafa talið að skipið setti ekki mikinn fegurðarsvip á miðbæinn. Erfiðlega hefur gengið að fá skipið fjarlægt, en nú eru horfur á að af því verði, þar sem Akraborgin marar nú í hálfu kafi við bryggjuna og það verður vart látið viðgangast að skipið verði lengi þannig. Það mun hafa verið aðfararnótt s.l. laugardags að Akraborg fylltist af sjó. Skipið hefur lekið eins og gjarnt er um tréskip sem komin eru til ára sinna. Hefur þurft að dæla sjó úr skipinu, en að þessu sinni hefur ekki verið nóg að gert og því fór sem fór. Vafalaust verður erfiðleikum bundið að ná skipinu upp aftur og telja fróðir menn að það muni kosta milljónir.
Einnig hlýtur að hafa verið talsverður kostnaður því samfara að láta skipið liggja bundið við bryggju allan þennan tíma, því ef að líkum lætur þarf að greiða hafnargjöld fyrir aðstöðuna. Illa hefur gengið að taka ákvörðun um að fjarlægja Akraborg og því, eins og áður sagði, má segja að hún hafi sjálf tekið af skarið í þeim efnum með því að setjast á botninn. Akraborg mun hafa verið mikið aflaskip á velmektardögum sínum.

Dagur. 12 ágúst 1980.






27.01.2017 11:21

2881. Venus NS 150. TFVT.

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS 150 var smíðað hjá Celiktrans Deniz Shipyard Ltd í Istanbúl í Tyrklandi árið 2015 fyrir H.B.Granda h/f í Reykjavík. 3.670 bt. Wartsila W9L32, 4.500 Kw. Heimahöfn skipsins er á Vopnafirði.


Venus NS 150 við Ægisgarð.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 25 janúar 2017.

Uppsjávarskipinu Venusi NS 150 var vel fagnað á Vopnafirði þann 27. maí síðastliðinn en með komu skipsins hefst mikil endurnýjun fiskiskipaflota HB Granda sem mun fá 5 ný fiskiskip á tveimur árum. Skipið var smíðað hjá skipasmíðastöðinni Celiktrans Denitz í Tyrklandi og mun systurskipið, Víkingur, koma til landsins í lok árs. Í kjölfarið fylgja síðan þrír togarar en HB Grandi samdi einnig við Celiktrans um smíði þeirra. Venus NS hélt strax til kolmunnaveiða suður af Færeyjum eftir móttökuhátíðina á Vopnafirði. Kostnaður við smíði skipsins var um 3,5 milljarðar króna. Venus NS er búið til veiða með flottroll og nót. Skipið er 80 metra langt og 17 metra breitt. Það er tæplega 3800 brúttó- tonn að stærð, lestir þess rúma tæplega 3000 tonna afla samanlagt en miðað er við að 2300- 2400 tonna afla þegar öflugt sjókælikerfi skipsins er nýtt til fulls.


Venus NS 150 við bryggju í Örfirisey.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 október 2016.

Aðalvél skipsins er 4500 Kw. og er af gerðinni Wartsila sem Vélar og skip selja hér á landi. Sömuleiðis kemur skrúfubúnaður og niðurfærslugír frá Wartsila. Ljósavélar eru frá Scania en umboðsaðili hér á landi er Klettur hf. Vindukerfið og fiskidælur koma frá Rapp Hydema og kranar og blakkir frá Triplex en búnað þessara framleiðenda selur Vélasalan hér á landi. Af öðrum tækjabúnaði má nefna að frá Simrad kemur asdic, radar, höfuðlínumælir, gyro og sjálfstýring. Sjónvarpsdiskur er af gerðinni Intellian en allan þennan búnað selur Friðrik A. Jónsson hér á landi. Þá er í skipinu SeapiX fjölgeisla þrívíddarsónar og SAILOR GMDSS fjarskiptabúnaður frá Sónar ehf., radar, GPS, AIS-kerfi og fleira frá Furuno og plotter frá MaxSea. Þennan búnað selur Brimrún hér á landi. Veiðarfæri skipsins eru frá Hampiðjunni og trollnemar koma frá Marport.


Venus NS 150 við olíukantinn í Örfirisey.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 3 júlí 2015.

Ekki aðeins er Venus NS vandað skip hvað varðar stjórnun, veiðar og meðferð afla heldur er ekki síður mikil áhersla lögð á hönnun og útfærslur til að gera aðbúnað áhafnar eins og best verður á kosið. Gert er ráð fyrir 12 manna áhöfn á nótaveiðum og eru allir áhafnarmeðlimir í einstaklingsklefum með eigin baðherbergi og sturtu. Borðsalur skipsins er einnig rúmgóður og bjartur enda gluggar vel yfir sjólínu. Líkamsræktarherbergi í skipinu er um 15 fermetrar að stærð og vel búið. Gufubað er einnig um borð. Í brú skipsins eru aðalstjórnpúlt skipstjóra og stjórnpúlt fyrir vindukerfi skipsins, auk seturýmis. Vélstjórar hafa líka rúmgott stjórnrými við vélarsal skipsins og þar, líkt og almennt í skipinu, er vítt til veggja og vinnuaðstaða til mikillar fyrirmyndar.


Venus NS 150. Glæsilegt líkan Óttars Guðmundssonar.        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 mars 2016.

Eins og áður segir var fyrsta reynsluveiðiferð Venusar á kolmunnamiðin suður af Færeyjum en þegar þeirri vertíð sleppir er gert ráð fyrir að skipið fari á makrílveiðar hér við land. Skipstjóri á Venusi NS og aðrir yfirmenn voru áður á uppsjávarskipinu Ingunni AK í eigu sömu útgerðar. Það skip, sem og Faxa RE hefur HB Grandi selt til Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á Venusi NS er Guðlaugur Jónsson og 1. stýrimaður er Róbert Axelsson. Yfirvélstjórar eru Sigurbjörn Björnsson og Jón Heiðar Hannesson.

Ægir. 1 apríl 2015.

          Vinnuaðstaðan mesta byltingin

           - segir Guðjón Jónsson, skipstjóri

"Venus er stórt og mikið skip sem útaf fyrir sig er mikil breyting fyrir okkur en mesta byltingin er fólgin í vinnuaðstöðu og aðbúnaði áhafnarinnar," segir Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi NS. Skipið reyndist hið besta á heimsiglingunni frá Tyrklandi og fengu skipverjarnir m.a. að kynnast því í stífum 25 metra mótvindi við Portúgal og tilheyrandi ölduhæð. Guðlaugur segir að í reynslutúrum í Tyrklandi hafi skipið náð mestum gagnhraða um 18 hnútum en alla jafna gengur það 14 hnúta á siglingu. Hann segir hönnun skipsins gera að verkum að það sé létt í siglingu fulllestað. "Mesta breytingin frá því sem við erum vanir felst í því að á flottrollsveiðum er aflanum dælt úr pokanum við skutinn í stað þess að hann sé tekinn fram með síðunni á skipinu til að dæla úr. Kælingin er líka tvö- föld á við það sem við vorum með á Ingunni og það skiptir auðvitað líka mjög miklu máli. Og loks er mikilsvert að vera með alla vinnuaðstöðuna á einu dekki og að menn eru komnir upp úr sjónum og í gott skjól við sína vinnu," segir Guðjón en hann hefur verið skipstjóri á Ingunni allt frá því skipið kom til HB Granda. "Við byrjum á kolmunnanum og vonandi náum við að fá reynslu á skipið og sjá allt virka eins og það á að gera. Því næst tekur makríllinn við," segir hann.

Ægir. 1 apríl 2015.

             Stórt skref í átt til betri gæða

   - segir Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda

"Við hjá HB Granda höfum lagt mikla áherslu á gæðamál og Venus er stórt skref til betri gæða. Öflugra kælikerfi, betri tankar, meiri ganghraði og dæling afla úr poka frá skut í stað þess að dæla frá síðu skipsins eru allt atriði sem stuðla að betri gæðum," sagði Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda í ræðu við formlega móttöku Venusar NS á Vopnafirði. Fjöldi gesta kom til Vopnafjarðar af þessu tilefni og m.a. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, sem ávarpaði gesti. Birna Loftsdóttir gaf skipinu formlega nafn við þetta tækifæri, sr. Stefán Már Gunnlaugsson, sóknarprestur Vopnfirðinga blessaði skipið og loks söng Karlakór Vopnafjarðar.
Vilhjálmur vakti athygli á þeirri þróun sem orðið hefði í uppsjávarflota Norðmanna á síðustu árum þar sem öflugri skip hafi leyst þau eldri af hólmi; skip með meiri ganghraða og betri búnaði til aflameðferðar. Samhliða hafi fækkun orðið í áhöfnum skipanna. Þessa braut hafi íslenskar útgerðir verið að feta sig að undanförnu en í stað 13 manna áhafnar á Ingunni AK verði 7-8 á togveiðum á Venusi. Venus NS og Víkingur munu leysa af hólmi þrjú skip fyrirtækisins, Ingunni, Faxa og Lundey og Vilhjálmur sagði vissulega eftirsjá í 10-12 góðum sjómönnum sem hverfi úr starfsmannahópi fyrirtækisins við þessar breytingar. Vilhjálmur segir hvað stærstu breytinguna fyrir þrautvana áhafnarmeðlimi á Venusi felast í vinnuaðstöðunni en ólíku verði saman að jafna við þá aðstöðu sem þekkst hafi þegar skipin eru fulllestuð og liggja neðarlega í sjó.
Slíku verði ekki til að dreifa á hinu stóra og öfluga skipi, Venusi. Vilhjálmur vakti athygli á að Vopnfirðingar fögnuðu síðast nýsmíði árið 1983 þegar togbáturinn Eyvindur Vopni kom í fyrsta sinn til heimahafnar og 10 árum áður kom skuttogarinn Brettingur nýr til Vopnafjarðar. Bæði eru þessi skip enn í notkun. Skipsnafnið Venus er gróið í íslenskri útgerðarsögu og í sögu HB Granda en afi Vilhjálms og nafni, Vilhjálmur Árnason, skipstjóri, stofnaði árið 1936 til útgerðar á togaranum Venusi GK. Netabátur í eigu sama félags bar síðan þetta nafn og síðan var frystitogari með Venusarnafninu í eigu Hvals hf. og síðar HB Granda hf. "Farsæld hefur fylgt og mun fylgja nafninu," sagði Vilhjálmur.

Ægir. 1 apríl 2015.

26.01.2017 12:12

124. Jón Finnsson GK 506. TFDN.

Jón Finnsson GK 506 var smíðaður hjá Bolsönes Verft A/S í Molde í Noregi árið 1962 fyrir Gauksstaði h/f í Garði. 174 brl. 400 ha. MAN díesel vél. Smíðanúmer 181. Skipið var lengt árið 1965 í Bolsönes Verft þar sem það var smíðað, mældist þá 208 brl. Selt 25 ágúst 1972, Árna Halldórssyni, Kristni Guðmundssyni og Bjarna Stefánssyni á Eskifirði, hét þar Friðþjófur SU 103. Skipið var selt 23 október 1974, Magnúsi Stefánssyni, Guðrúnu Friðriksdóttur og Jóni Hermaníusyni í Kópavogi, hét Verðandi KÓ 40. 28 maí 1976 var skipið skráð í Reykjavík, hét þá Verðandi RE 9, sömu eigendur. Selt 19 febrúar 1980, Fiskanesi h/f í Grindavík, hét þar Gaukur GK 660. Ný vél (1981) 750 ha. Grenaa díesel vél, 552 Kw. Skipið var selt árið 2003, Tjaldanesi ehf í Grindavík, hét Tjaldanes GK 525. Skipið var tekið af skrá 10 október árið 2008 og selt í brotajárn til Danmerkur.

Jón Finnsson GK 506.                                                                                 (C) Snorri Snorrason. 


Jón Finnsson GK 506 á leið inn Seyðisfjörð.                                            (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Jón Finnsson GK 506 á leið inn Seyðisfjörð.                                           (C) Hafsteinn Jóhannsson.

25.01.2017 12:10

2889. Engey RE 91. TFJG.

Engey RE 91 var smíðuð hjá Celiktrans Shipyard í Istanbúl í Tyrklandi árið 2016. 1.827 bt. 2.500 ha. MAN 6L27/38 vél, 1.795 Kw. Engey er 54,75 metrar á lengd og 13,5 á breidd. Tók þessar myndir af skipinu við Skarfabakka í morgun, en Engey lagðist að bryggju um kl. 5 í morgun. Þetta er öðruvísi hönnun á fiskiskipi en við eigum að venjast. En eftir að hafa farið um borð og skoðað það, er ótrúlega rúmgott þar allsstaðar, á togþilfari, á millidekki, en vélarúmið er svolítið þröngt, en samt fínt. Brú skipsins stór og mikil. Eldhús, borðsalur og setustofa glæsileg. Skipið mun fara til Akraness, þar sem allur vinnslubúnaður verður settur um borð í skipið. Skaginn h/f og 3X Technology munu annast það verk og mun Engey verða tilbúin á veiðar í byrjun apríl ef allt gengur eftir.


2889. Engey RE 91 við Skarfabakka í morgun.


2889. Engey RE 91.


Togþilfar skipsins.


Á millidekkinu, fiskmóttakan.


Millidekkið (vinnsluþilfar) tómt eins og er.


Aðalvél skipsins 2.500 ha. MAN 6L27/38. 1.795 Kw.


Ljósavél skipsins.


Setustofa skipsins.


Brú skipsins, stór og glæsileg.


Stjórntæki fyrir togspil og annan búnað á togþilfari.           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 25 janúar 2017.

24.01.2017 15:27

M. s. Dettifoss V á leið út Viðeyjarsund.

Dettifoss var smíðaður hjá Örskov Staalskibsværft í Frederikshavn í Danmörku árið 1995. 14.664 brúttótonn. 14.800 Kw B&W vél. Smíðanúmer 181. Hét fyrst Helene Sif og var í eigu Sandship A/S í Danmörku. Fékk svo fljótlega nafnið Trsl Tenacious. Árið 1997 ber skipið nafnið Maersk Durban. Eimskipafélag Íslands kaupir skipið árið 2000 og fær þá nafnið Dettifoss, það fimmta í röðinni sem ber þetta nafn. Einnig keypti Eimskip systurskip þess, Maersk Quito sem fékk nafnið Goðafoss Vl. Dettifoss er í áætlunarsiglingum milli Íslands, Færeyja og Evrópulanda. Einnig siglir skipið til Norðurlanda. Ég tók þessar myndasyrpu af Dettifossi fyrir nokkrum árum þegar skipið var á siglingu út Viðeyjarsund.


Dettifoss á Viðeyjarsundi.                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 september 2014.


Dettifoss V.                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 september 2014.


Dettifoss á útleið.                                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 september 2014.


Dettifoss. Akrafjall, Viðey og Esjan í baksýn.             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 september 2014.


23.01.2017 11:10

B. v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. LBKV / TFIC.

Hávarður Ísfirðingur ÍS 451 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. 314 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 885. Hét fyrst Daniel McPherson og var í eigu breska flotans. Fékk svo nafnið Lord Halifax H 79 árið 1920. Skipið var selt í janúar árið 1925, Togarafélagi Ísfirðinga h/f á Ísafirði, fékk nafnið Hávarður Ísfirðingur ÍS 451. 18 febrúar 1936 er skráður eigandi h/f Hávarður á Ísafirði, sama nafn og númer. Selt 29 desember 1938, h/f Val á Ísafirði, hét Skutull ÍS 451. Selt 20 mars 1942, Hlutafélaginu Aski í Reykjavík, hét Skutull RE 142. Ísfirðingar tóku togarann Þorfinn RE 33 upp í kaupin. Árið 1948 stóð til að selja Skutul til Oddsson & Co í Hull, (Jón Oddsson skipstjóri) en þau kaup gengu til baka. Mun togarinn hafa legið í höfn í Hull þar til hann var rifinn í brotajárn árið 1952.


B.v. Hávarður Ísfirðingur ÍS 451.                                                            Mynd á gömlu póstkorti.

Haustið 1939 felldu bretar niður allar innflutningstakmarkanir á sjávarafurðum sem höfðu verið í gildi frá árinu 1932. Í kjölfar þess hófst mikill útflutningur á ísvörðum fiski frá Íslandi til Englands sem stóð öll stríðsárin. Togarinn Skutull ÍS 451 var fyrstur Íslenskra togara til að selja afla sinn í Englandi eftir að síðari heimstyrjöldin hófst. Hann lagði af stað í söluferð frá Ísafirði, 12 október árið 1939 og seldi afla sinn í Fleetwood fimm dögum síðar. Fjöldi fólks safnaðist saman á Norðurtangabryggjunni til að kveðja skip og áhöfn þegar togarinn sigldi út fjörðinn. Myndin hér að ofan var tekin þegar togarinn lagði af stað frá Ísafirði.                         (C) Haraldur Ólafsson.


             Skutull bjargar áhöfn Atos

Hinn 3. ágúst sl. var togarinn Skutull staddur norðaustan við ísland á leið til Fleetwood. Veður var gott, en lítið skyggni vegna þoku. Sáu þá skipverjar tvo báta með mönnum. Reyndust þetta björgunarbátar af 3500 smálesta gufuskipi frá Helsingborg í Svíþjóð, Atos að nafni. Í bátunum voru 27 manns, 26 karlar og ein kona. Skutull lagði að bátunum og tók skipbrotsmennina. Voru þeir mjög klæðalitlir, margir hverjir, berfættir sumir og á nærfötunum. Fengu allir föt og vistir og alla aðhlynningu svo sem bezt var hægt í té að láta. Skipið Atos hafði látið úr höfn í Glasgow í Skotlandi á leið til Petsamo í Finnlandi. Voru á skipinu 22 skipverjar og 6 farþegar. Farþegarnir voru sænskur verkfræðingur og kona hans, bæði á leið heim til Svíþjóðar frá London og skipstjóri og þrír aðrir skipverjar af sænsku skipi, sem skotið hafði verið tundurskeyti fyrir skemmstu og öll skipshöfnin farizt nema þessir fjórir menn. Þýzkur kafbátur hafði skotið tundurskeyti á Atos. Bátsmaðurinn hafði verið á afturþiljum við að ganga frá einhverju. Allt í einu flugu lestarhlerarnir í loft upp og strókur stóð upp úr lestinni. Fórst þarna bátsmaðurinn, og var þetta í 6. skipti, sem skip, sem hann var á, varð fyrir tundurskeyti. Fjórum sinnum hafði hann lent í skipreka vegna tundurskeyta á árunum 1914-18, og einu sinni í þessari styrjöld áður en hann kom á Atos. Skipverjar komust í bátana, en aðeins 6 mínútum eftir að skipið varð fyrir tundurskeytinu, var það sokkið. Ílla var skipbrotsmönnunum við það að vera undir þiljum á Skutli, og höfðust margir þeirra við í göngum, eldhúsi og bræðsluhúsi. Óttuðust þeir nýja árás, og einkum brá þeim, þegar Skutull lét hvína í eimpípunni vegna þoku. Skipbrotsmönnunum var skilað á land í Fleetwood. Orð höfðu þeir á því, að frekar hefðu þeir kosið, að Skutull hefði verið á leið tíl Íslands. Þar mundi vera gott að búa á þessum hinum verstu tímum.

Skutull. 17 ágúst 1940.


           Sjómennska í sprengiregni

Matthías Björnsson, fyrrverandi loftskeytamaður, var í hópi þeirra sjómanna sem storkuðu örlögunum með úthafssiglingum á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Blaðamaður mbl ræddi við hann og komst að því að oft hefði hurð skollið nærri hælum;

Sjóflutningar voru og eru Íslendingum gríðarlega mikilvægir vegna legu landsins og mikilla milliríkjaviðskipta. En það var ekki alltaf tekið út með sældinni að sigla á milli landa, allra síst á árum heimsstyrjaldanna fyrri og síðari þegar flugvélar og kafbátar gerðu tilraunir til að granda hverju fleyi sem tilheyrði óvinaþjóðunum. Matthías Björnsson loftskeytamaður var ungur maður þegar hann réðst sem afleysingaloftskeytamaður á skip í millilandasiglingum þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst og var, eins og aðrir sjómenn á þeim tíma, oft í lífshættu. Nokkrum sinnum skall hurð nærri hælum og Matthías varð vitni að því þegar þýskar orrustuvélar létu sprengjum rigna yfir Grimsby, þegar Dettifoss var sökkt í höfninni í Belfast 21. febrúar 1945 og Alcedo, sem var leiguskip Eimskipafélagsins, var sökkt við Stafnes aðeins sjö dögum síðar. Þarna horfði Matthías á ýmsa góða félaga sína hverfa í hafið.
Matthías er nú áttræður og býr á Akureyri. Sem ungur maður fékk hann áhuga á loftskeytamannsstarfi og innritaðist hann í Loftskeytaskóla Íslands haustið 1942. Loftskeytanámið tók einn vetur. Árið 1942 vantaði loftskeytamenn, sérstaklega í afleysingar, því fastir loftskeytamenn vildu öðru hvoru taka sér frí sem og aðrir sjómenn, frá þeim hildarleik sem seinni styrjöldin var. Matthías fór í afleysingatúr á síðutogaranum Hafsteini RE eftir áramótin 1943.
Ferðinni var heitið til Grimsby með viðkomu í Scrabster á Norður-Skotlandi þar sem tekin voru sjókort yfir tundurdufl á svæði við austurströndina. Á síðutogurunum var áhöfn um 30 manns meðan á veiðum stóð en um 14 manns í söluferðum. Matthías segir að siglingarnar hafi oft verið þreytandi, sérstaklega í skammdeginu þegar hvergi mátti sjást ljós vegna hættu á árásum.
 Sumarið 1943, þegar Matthías hafði lokið prófi sem loftskeytamaður, 22 ára gamall, réðst hann á togarann Skutul ÍS, sem áður hét Hávarður Ísfirðingur. Aðallega var siglt á Grimsby, Hull og Fleetwood. Eitt sinn að kvöldlagi var siglt að Humberfljóti og lagst þar fyrir ankerum úti fyrir höfninni. Morguninn eftir átti Skutull að landa. Skipverjar voru búnir að frétta af miklum loftárásum Þjóðverja á London, Hull og Grimsby. Um kl. 23 þetta kvöld, þegar Skutull ásamt fleiri skipum lá úti á höfninni hófust loftárásir.
Matthías segir að fyrst hafi flugvélar flogið yfir og hent niður stórum ljósblysum sem lýstu upp borgina og skipin. Nokkru seinna rigndi niður sprengjum og stóð árásin yfir í um tvo tíma. Það glumdi líka í loftvarnabyssum og sá Matthías eina flugvél skotna niður. "Á flestum togurunum voru hríðskotabyssur og sá stýrimaðurinn og skipstjórinn um þær. Þeir reyndu að skjóta niður flugvélar með þeim. Líklega hafa þeir fengið þjálfun á byssurnar hjá hernum enda byssurnar frá þeim komnar. Ekki var þó skotið af byssunni á Skutli," segir Matthías. Áhöfnin fór í land daginn eftir og sá þá afleiðingar loftárásarinnar en margir höfðu fallið í valinn. Ferðin heim gekk slysalaust og hefði margur ætlað að þessi reynsla hefði fælt kornungan Matthías frá sjómennskunni. En launin voru góð. Greidd var áhættuþóknun sem af mörgum var kölluð stríðspeningar.

Morgunblaðið. 20 janúar 2002.

       Togarinn Skutull seldur til Englands

Togarinn Skutull, eign h.f. Asks hér í Reykjavík, hefir verið seldur til Englands. Sem stendur er Skutull að veiðum, en fer væntanlega til Englands þegar búið er að veiða í hann og verður þar afhentur hinum nýju eigendum.

Vísir. 8 janúar 1948.

22.01.2017 11:56

M. b. Sindri EA 357. LBKQ.

Sindri EA 357 var smíðaður í Lervik í Noregi árið 1915. 37 brl. 30 ha. Avance vél. Eigendur voru Snorri Jónsson (Verslun Snorra Jónssonar) og Steinn Guðmundsson á Akureyri frá 9 júní 1916. Hét áður Guldregn. Ný vél (1926) K.M.K. vél. Árið 1922 er báturinn í eigu Gunnars Snorrasonar. Jón Þorkelsson, Ásgeir Pétursson og fl. á Siglufirði gerðu bátinn út til síldveiða á árunum 1925 til 1931. Seldur 11 júní 1931, Alfons Jónssyni á Siglufirði, báturinn hét Vísir SI 33. Seldur 21 júní 1931. Jónasi Jóhannssyni á Siglufirði. Báturinn rakst á ísjaka á Skagafirði 15 mars árið 1932 og sökk. Áhöfnin, 4 menn björguðust á skipsbátnum til lands heilir á húfi.


Sindri EA 357 á Pollinum á Akureyri.                                                     (C) Hallgrímur Einarsson.


Sindri EA 357. Myndin er mjög skemmd en báturinn sést nokkuð vel.    (C) Hallgrímur Einarsson.


                   Bátur ferst í hafís

Vélbáturinn Vísir frá Siglufirði var í gær á leið vestur á Skagafjörð, rakst á hafísjaka og sökk. Skipverjar voru 4, og komust þeir allir til lands.

Dagur. 17 mars 1932.

21.01.2017 11:24

E. s. Katla. TFKB.

Flutningaskipið Katla var smíðuð hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911. 1.656 brl. 1.400 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Eimskipafélag Reykjavíkur h/f í Reykjavík og kom til landsins 21 maí árið 1934. Skipið var keypt frá Noregi og hét áður Manchioneal. Katla var í ferðum milli Íslands og Evrópulanda og flutti bæði heila farma og stykkjavörur. Sigldi oft með saltfisk til Miðjarðarhafslanda. Á stríðsárunum sigldi Katla til Norður Ameríku og var um tíma í ferðum milli hafna þar. Katla kom víða við á höfnum innanlands utan Reykjavíkur. Skipið var selt 31 júlí árið 1945, Eimskipafélagi Íslands h/f, skipið hét Reykjafoss. Skipið var selt til Tyrklands í júní árið 1949. Hét þar nöfnunum Nazar og Cerrahazade. Selt í brotajárn til Istanbul og rifið þar árið 1967.

E.s. Katla.                                                                                               Ljósmyndari óþekktur.

Reykjafoss l.                                                                                          Ljósmyndari óþekktur.


          Eimskipafélag Reykjavíkur hf

Eimskipafélag Reykjavíkur var stofnað árið 1932 og keypti frá Noregi gufuskip, sem hlaut nafnið "Hekla" 1215 br. lestir og árið 1934 eignaðist félagið annað skip, sem hlaut nafnið "Katla", 1656 br. lestir. Í ófriðarbyrjun keypti h. f. Kveldúlfur "Heklu", en hún var skotin í kaf í júlí árið 1941 á leið til Kanada. Katla var seld Eimskipafélaginu, sem þá hlaut nafnið "Reykjafoss" 1948 lét félagið smíða nýtt flutningaskip í Svíþjóð, sem hlaut nafnið "Katla" 1331 br. lest og 1957 lætur félagið smíða 500 lesta flutningaskip, "Askja". Þetta félag, sem var stofnað á krepputíma, hefur blómgast og dafnað, og mun það ekki sízt að þakka Rafni skipstjóra Sigurðssyni, sem stýrt hefur "Kötlunum" báðum, en áður var hann skipstjóri á "Vestra".

Ægir. 15 desember 1959.


                       E.s. Katla

Stálskip með 1400 ha. gufuvél. Stærð: 1656 brúttórúml., 1004 nettórúml. 2010 DW lestir. Aðalmál: Lengd: 77,93 m. Breidd: 10,86 m. Dýpt: 4,78 m. Ganghraði 10-11 sjómílur. Smíðað hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911. Eimskipafélag Reykjavíkur keypti skip þetta í Noregi árið 1934. Hét það áður Manchioneal, en við eigendaskiptin hlaut það nafnið Katla og kom hingað til landsins 21. maí 1934 undir stjórn Rafns Sigurðssonar skipstjóra. Katla var eins og Hekla máluð Ijósgráum lit með brún-hvíta yfirbyggingu og íslenzku fánalitina á reykháf. Vistarverur skipverja voru miðskips og ofan þilja. Skipið hafði fjögur lestarop og tvennar milliþiljur í lestum, og var Katla annað stærsta íslenzka flutningaskipið um langan tíma. Katla var að mestu í Evrópuferðum fyrstu árin og fór þá oft til Miðjarðarhafslandanna með saltfisk. Á styrjaldarárunum 1939-45 var skipið í leigu hjá Eimskipafélagi Íslands og sigldi þá yfir 20 Ameríkuferðir, aðallega til Kanada. Eimskipafélag Íslands keypti svo Kötlu árið 1945 fyrir 2.350.000 kr. Hlaut það þá nafnið Reykjafoss. Reykjafoss var svo ýmist í Ameríku og Evrópuferðum þangað til Eimskipafélag Íslands seldi þetta giftusama skip árið 1949. Voru það Tyrkir, sem keyptu skipið fyrir um hálfa milljón króna, og var Reykjafoss afhentur í Hull í júnímánuði árið 1949. Flestar sjómílur sigldi skipið á árinu 1948 eða 34.291. Þá má geta þess, að Reykjafoss var fyrsta íslenzka flutningaskipið, sem kom til Þýzkalands að ófriðnum loknum, var það til Hamborgar árið 1946. Á meðan skipið var í eigu Norðmanna var það notað til ávaxtaflutninga í Ameríku.

Æskan. 1 september 1971.
Guðmundur Sæmundsson.

           Útskipun í Porto Alegre í Brasilíu

Það er óvíst hvor Katlan þetta hefur verið, en ég læt þessa grein fylgja með;

 M.s. Katla var vandað skip í eigu Eimskipafélags Reykjavíkur hf. Forstjóri þess var Harald Fáberg skipamiðlari. Nú leigja timburkaupmenn í Reykjavík og Hafnarfirði skipið til þess að sækja timbur til Brasilíu. Katlan kemur til Porto Alegra á tilsettum tíma, en umboðsmenn telja öll tormerki á því að hefja útskipun, því nú fari í hönd vikulöng kjötkveðjuhátíð og ekki verði snert á verki á meðan, en áhöfnin sé velkomin að taka þátt í karnevalnum. Að lokinni hátíð er tekið til við útskipun, en lestunarmenn vildu ekki taka neinum ábendingum stýrimanna um stöflun viðarins í lestirnar, þannig að af 750 standördum komust aðeins 590 fyrir í lestunum. Varð að senda 160 standarda um Rotterdam til Reykjavíkur við gífurlegan kostnað fyrir útgerðina. Að þesum ósköpum loknum varð Fáberg að orði: "Jeg sender aldri skip til helvíta-djöfula Brasil meir."

Úr sagnabanka Leifs Sveinssonar.





20.01.2017 10:53

2677. Bergur VE 44. TFZZ.

Bergur VE 44 var smíðaður hjá Skarstensens Skibsværft í Skagen í Danmörku árið 1998. 299 brl. 1.300 ha. Alpha díesel vél, 956 Kw. Smíðanúmer 376. Eigandi Bergs er Bergur ehf í Vestmannaeyjum frá árinu 2005. Hét áður Brodd 1 M 88 H og var gerður út frá Álasundi í Noregi. Var upphaflega smíðaður fyrir útgerð í Skotlandi. Ég tók þessar myndir af Berg VE þegar hann var í slippnum hér í Reykjavík í maímánuði árið 2015.


Bergur VE 44 í slipp í Reykjavík.                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 maí 2015.


Bergur VE 44 í slipp.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 maí 2015.


Bergur VE 44 ný málaður og fínn.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2015.


                 Bergur VE 44 til Eyja

Nýjasta skipið í flota Eyjamanna er Bergur VE 44, sem kom til Eyja í lok október sl. Bergur VE, sem er um 540 brúttólestir, bar áður nafnið Brodd I og var smíðaður í Danmörku árið 1998. Skipið er 35 metra langt og 10,5 metra breitt. Kaupverð er um 200 milljónir króna og endurbætur á því í Póllandi lögðu sig á um 50 milljónir króna. Upphaflega var skipið smíðað fyrir útgerð í Skotlandi, en þaðan var það gert út til skamms tíma. Næstu árin var skipið gert út frá Álasundi í Noregi, aðallega á ufsaveiðar. Bergur ehf. í Eyjum festi kaup á skipinu, en að þeirri útgerð stendur Sævald Pálsson og fjölskylda hans. Synirnir eru allir á fullu í útgerðinni. Grétar Þór er skipstjóri á Bergi, Sigurgeir stýrimaður og afleysingaskipstjóri og Elías Geir stýrir útgerðinni í landi. Sigurbjörn Theódórsson er yfirvélstjóri.
Bergur VE er öflugt skip.
 Hann er búinn MAN B&W Alpha aðalvélabúnaði - gerð 6L28/32ADVO - sem Afltækni hefur umboð fyrir. Tvær 28 tonna togvindur eru af gerðinni Rapp. Sem fyrr segir voru gerðar endurbætur á skipinu í Póllandi, nánar tiltekið í Skipapol skipasmíðastöðinni í Gdansk í samvinnu við Vélasöluna, umboðsaðila Skipapol. Í Gdansk var skrúfustýrishringurinn tekinn af skipinu og nýtt stýri sett aftan við skrúfuna. Jafnframt var afturhluti skipsins lengdur um 1,20 metra. Lestin var endurnýjuð og henni breytt til þess að innrétta fyrir fiskikör, en nú rúmar lestin um 230 440 lítra ker. Jafnvægistankar voru settir aftur í skutinn og innréttingar í vistarverum endurnýjaðar. Skipið var sandblásið í hólf og gólf og málað með Hempels skipamálningu frá Slippfélaginu.
Vélaverkstæðið Þór í Vestmannaeyjum vann að því þegar skipið kom heim að setja upp nýja aðgerðaraðstöðu um borð og koma fyrir sjósetningarbúnaði. Skipasýn ( Sævar Birgisson ) hannaði breytingarnar á Bergi. Áður gerði Bergur ehf. út samnefnt uppsjávarveiðiskip, en Ísfélag Vestmannaeyja keypti það ásamt aflaheimildum í maí sl. og greiddi að hluta fyrir með bolfiskveiðiheimildum. Það má því segja að Bergur ehf. hafi skipt um gír, farið úr uppsjávartegundunum yfir í bolfiskinn. "Við erum mjög sáttir og teljum okkur vera komna með gott skip," segir Elías Geir Sævaldsson, útgerðarstjóri, en skipið fór í sinn fyrsta túr 17. nóvember sl. og gekk ágætlega. Í það heila hefur Bergur ehf. yfir að ráða um 1900 tonna kvóta á skipið. Ellefu manns eru í áhöfn og segist Elías Geir reikna með að skipið verði að jafnaði tæpa viku á veiðum. Aflinn verður seldur á mörkuðum, bæði hér heima og erlendis.

Ægir. 1 október 2005.

19.01.2017 10:09

M. sk. Njáll EA 33.

Mótorskonnortan Njáll var smíðaður í Danmörku ? óvíst hvenær, gæti hafa verið milli 1870-80. Eik og fura. 24,22 brl. Vél óþekkt. Í skútuöldinni segir "að Njáll hafi verið danskt skip, hvort það hafi verið keypt þaðan eða smíðað þar, kemur ekki fram. Var hann með skonnortusiglingu, sterkur mjög og vel smíðaður. Fyrstu eigendur Njáls voru nokkrir bændur á Svalbarðsströnd. Leið þó ekki á löngu, uns hann komst í eigu Gránufélagsins. Meðan hann var í eigu þess, var Albert Finnbogason skipstjóri og gekk skipið til hákarlaveiða. Síðan tóku við ýmsir skipstjórar og voru allir stutt. Njáll þessi var röskar 20 rúmlestir að stærð. Hann strandaði og ónýttist árið 1922". Þessi fullyrðing um að skipið hafi eyðilagst í strandi árið 1922, stenst ekki, því í hagskýrslum er síðasta skráða úthald Njáls 15 júlí til 15 september árið 1925. Þar kemur einnig fram að skipið hafi verið 24,22 brl. að stærð og í áhöfn hafi verið 12 manns og stundað handfæraveiðar. Í skútuöldinni kemur einnig fram "að hinn 6 október árið 1918 geisaði norðvestan rok á Norðurlandi og olli geysilegum skemmdum, einkum á Siglufirði. Þar sópuðust burt bryggjur og skip strönduðu. Meðal þeirra voru tvær íslenskar skútur, Gunnvör og Njáll." Ef eitthvað er að marka þessar hagskýrslur, þá virðist Njáll ekki hafa eyðilagst í þessu strandi, en hvort það var árið 1918 eða 1922 er óvíst. Í bókaflokknum Íslensk skip, 5 bindi, eftir Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð kemur fram að Njáll hafi verið smíðaður í Noregi um 1870, og skipið hafi verið 79,89 brl að stærð. Í almanaki handa íslenskum fiskimönnum frá árinu 1917 er Njáll sagður 19,87 brl. Eftir að Gránufélagið leið undir lok árið 1912, komst Njáll í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana h/f. Ekki er mér kunnugt um afdrif þessa skips eða hvað um það varð.

Hákarlaskipið Njáll EA 33.                                                                (C) Hallrgímur Einarsson.


18.01.2017 11:52

2 m. kt. Margrét. LBGK.

Kútter Margrét var smíðuð í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1884. Eik og fura. 83 brl. Eigandi var Geir Zoega útgerðar og kaupmaður í Reykjavík frá 4 janúar árið 1889. Kútterinn mun hafa heitið Margrethe áður. Margrét var fyrsti stóri kútterinn sem kom til Reykjavíkur. Skipið kom í hlut Th Thorsteinssonar árið 1896 þegar útgerð Geirs Zoega var skipt. 4 desember árið 1901 er skipið komið í eigu Th Thorsteinssonar og Finns Finnssonar skipstjóra í Reykjavík. Kútter Margrét var talin ónýt og rifin í Reykjavík árið 1911.


Kútter Margrét á siglingu.                                                                                    (C) Entoys ?

                  Kútter Margrét

             Fyrsti stóri kútterinn til Reykjavíkur

Fyrsti stóri fiskikútterinn, sem hingað var keyptur, kom til Reykjavíkur. Það var kútter Margrét, sem Geir Zoéga keypti árið 1889 frá Danmörku. Guðmundur Kristjánsson skipstjóri sótti skipið til Danmerkur, ásamt 4 íslenskum hásetum, en stýrimaðurinn var danskur. Kútter Margrét var gott og vandað skip á þeirra tíma vísu, um 80 smálestir að stærð, og vakti að vonum mikla athygli hér, þegar það kom, svo stórt og tígulegt. Það kom hingað í marsmánuði, hlaðið vörum til Zoéga. Undir eins og það hafði verið losað við vörurnar, var farið að búa það á fiskveiðar, og réðust á það 30 hásetar. Þótti öllum mikið til koma, að ráðast á svo stórt og vandað skip. Markús Bjarnason, skólastj. tók við skipstjórn á skipinu, og var síðan haldið til fiskveiða, og þær stundaðar fram i ágúsl og fiskaðist mjög vel. Þegar hætt var veiðum, var skipið útbúið til Spánarfarar og þótti það i mikið ráðist, þar sem þetta var i fyrsta skifti sem íslenskt skip var búið til slíkrar farar, eða svo telja fróðir menn, og það segir Ellert Sehram í grein um þetta í Ægi 1933. Guðmundur Kristjánsson tók nú aftur við skipinu. Farmurinn, sem skipið átti að fara með hina löngu leið til Spánar, var 630 skippund af þorski nr. 1. Hásetar áttu að vera 4, auk matsveins, en stýrimaður var sá sami. Marga unga sjómenn fýsti til þessarar farar, en margir gátu ekki orðið útvaldir. Til fararinnar völdust, auk skipstjóra og stýrimanns, Ellert Schram, Þorvaldur Jónsson, seinna skipstjóri, Þórður Sigurðsson, seinna stýrimaður, og Ísak Sigurðsson, seinna stýrimaður. Lúðvíg Jakobsson, nú bókbindari, var ráðinn sem matsveinn. Lagt var af stað héðan með farminn í septembermánuði, en byr var erfiður, og tók það 5 sólarhringa, að komast fyrir Reykjanes, því að suðaustan stormur var á til að byrja með, en siðan gerði norðan storm, og hélst hann þar til skipið kom undir Orkneyjar. Þá gerði allt í einu, um nótt, mikinn storm, og var tekið það ráð, að láta reka. En um morguninn, þegar birti, kom i ljós, að skipið var næstum þvi komið upp í mikla kletta, sem brimið svall við og munaði minstu, að ferðinni lyki þar. En þetta var eyjan Fair Isle, og er milli Hjaltlands og Orkneyja. Þá var enginn viti á eynni. Þegar skipið hafði verið hálfan mánuð á leiðinni að heiman, kom það til Granton á Skollandi. Þar fékk skipstjóri fyrirskipun um, hvert halda skyldi til Spánar, og var skipunin á þá leið, að fara skyldi til Bilbao. Hásetum mun hafa þótt það heldur miður, því að þá hafði dreymt um að koma til Barcelona. Í Granton dvaldist skipinu í 4 daga, en síðan var siglt um Norðursjóinn, og lenti í miklum fiskiskipaflota, er þar stundaði veiðar. Er skipið kom í Ermarsund, gerði blæjalogn, og svarta þoku, og var mikill hávaði á þeim slóðum, öskur og lúðurhljómur, því að þarna var urmull af skipum. Til Bilbao var komið um miðjan október, og var dvalið þar í 10 daga. Þaðan var farið til Le Havre í Frakklandi, var legið þar í 14 daga og tekið klíð og olíukökur til Danmerkur. Skömmu fyrir jól var komið til Kaupmannahafnar; var þar dvalið fram í marsmánuð, en þá var lagt af stað heim, og var skipið hlaðið vörum til eigenda, og í sama mánuði var lent á Reykjavíkurhöfn. Kaup háseta var 30 krónur á mánuði.

Sjómaðurinn. 1 mars 1939.

17.01.2017 16:13

M. s. Laxfoss. TFVA.

Flóabáturinn Laxfoss var smíðaður hjá Aalborg Maskin & Skibsbyggeri A/S í Álaborg í Danmörku árið 1935 fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi. 280 brl. 720 ha. Mias díesel vél. Laxfoss var í póst, vöru og farþegaflutningum milli Reykjavíkur og Borgarness en fór eina ferð á mánuði til Breiðafjarðar að vetri til og á árunum 1941-42 fór hann eina ferð á viku til Vestmannaeyja á vetrum. Skipið strandaði á skerjum við Örfirisey, 10 janúar árið 1944. 13 manna áhöfn og 78 farþegar björguðust flestir á innrásarpramma til lands. Skipið stórskemmdist en náðist þó út og var endurbyggt og lengt, mældist þá 312 brl. Ný vél (1945) 730 ha. British Polar díesel vél. 19 janúar árið 1952 strandaði skipið aftur, nú við Kjalarnestanga. Björgunarsveit SVFÍ á Kjalarnesi bjargaði öllum sem um borð voru á land. Skipið náðist út en ekki þótti svara kostnaði að gera við það.


Laxfoss leggur frá bryggju á Akranesi.                                                     Ljósmyndari óþekktur.

                      Laxfoss kominn


Í fyrrinótt renndi hið nýja skip Borgfirðinga, Laxfoss í fyrsta sinn að bryggju hér í Reykjavík. Þótt þetta væri að aflíðandi miðnætti, beið fjöldi manna á hafnarbakkanum að taka á móti skipinu, síðan má heita að hafi verið óslitinn straumur fólks til að skoða skipið, þegar það hefir legið við hafnarbakkann. Í gær bauð stjórn h.f. Skallagrímur blaðamönnum, borgarstjóra, ráðherra og allmörgum öðrum til miðdegisverðar í Laxfossi og var þá siglt inn á Kollafjörð og notið þar rausnarlegra veitinga í góðum og glöðum félagsskap. Magnús Jónsson, formaður stjórnar h.f. Skallagrímur, (aðrir í stjórn eru Hervald Björnsson skólastjóri og Davíð á Arnbjargarlæk), bauð gesti velkomna með ræðu, en Bjarni Ásgeirsson alþ.m. hafði orð fyrir gestunum, þakkaði boðið og bað alla að árna Laxfossi allra heilla sem allir viðstaddir gerðu með ferföldu húrrahrópi. Skipið er 125 fet á lengd, 22 fet á breidd og 13 fet á dýpt, 278 smál. brúttó og 144 smál. nettó. Burðarmagn þess er 300 smálestir og ristir skipið þá 12 fet, en með 125 smálesta farmi sem er mesta hleðsla sem ætlast er til að skipið hafi milli Reykjavíkur og Borgarness, ristir skipið 9 fet. Á skipinu er fyrsta farrými í tveim skálum, tvö einkaherbergi og einn sjúkraklefi. Á fyrsta farrými eru 33 hvílur og sæti fyrir 60 manns. Á skemmtiþilfari yfir 1. farrými er sæti fyrir 30 manns undir beru lofti. Þar fyrir framan er stjórnpallur með kortaklefa annarsvegar og talstöð hinsvegar.


Laxfoss eins og hann leit út upphaflega.                                                         Ljósmyndari óþekktur.

Á neðra þilfari eru sæti fyrir 30 manns og aðrir 30 geta setið í göngunum. Fjórir snyrtiklefar eru til afnota fyrir farþega og einn fyrir skipverja. Fyrir framan fyrsta farrými er lestarrúm fyrir vörur og gripi og er þar á milli þilfar. Að aftan eru lestarrúm, að neðan fyrir vörur en að ofan fyrir vörur og farþega ef með þarf. Á framþilfari er rúm fyrir 4 bíla og fyrir einn bíl á afturþilfari. Skipið er smíðað í Álaborg hjá Aalborg Maskin & Skibsbyggeri og er smíðað samkvæm reglum flokkunarfélags Lloyds og er fylgt stranglega þeim reglum, sem gilda um skip, sem eru í förum um Atlantzhaf. Í skipinu eru 26 smál. botntankar og 25 smál. olíutankar. Skipið hefir 720 ha. Dieselvél 30 ha. fyrir vöru og akkersvindur og skríður 12 mílur. Enn fremur er í skipinu önnur vél Loks er 8 ha. ljósavél. Allar vélar skipsins eru af nýjustu gerð, smíðaðar hjá Möller & Jorkumsen í Horsens. Dælur allar eru knúnar með rafmagni. Skipið er útbúið nýjustu tegund straumlínustýris. Í eldhúsi er nýtízku AGAvél og skipið hefir miðstöðvarhitun. Skipið kostaðl 290 þús. kr. Allar frumteikningar, útboðslýsingar og samninga gerði Gísli Jónsson umsjónarmaður, fyrir hlutafélagið Skallagrím í Borgarnesi og hefir hann ráðið öllu um fyrirkomulag skipsins í samráði við eigendur þess.

Nýja dagblaðið. 12 júlí 1935.


Laxfoss á strandstað við Örfirisey í janúar árið 1944.                                     Ljósmyndari óþekktur.

            Laxfoss strandar við Örfirisey

M/s. Laxfoss strandaði við Örfirisey 10. jan. um kl. 17. 30. Var hann að koma úr Borgarnesferð og voru um 100 farþegar með skipinu. Var austan rok þegar skipið strandaði og hafði verið síðari hluta dagsins og gekk á með hríðarbyljum. Nærri strax eftir að skipið tók niðri, hallaðist það mjög yfir á stjórnborða og byrjaði að síga niður að aftan, en stóð hátt uppi að framan. Hafði skipstjóri samband við Loftskeytastöðina í Reykjavík. Leit í fyrstu mjög illa út um skipið og helzt óttast að þarna yrði gífurlegt manntjón. Freistuðust nokkrir menn úr skipinu að komast í land á skipsbát, og lentu eftir nokkurn hrakning í Ánanaustum við Grandagarðinn vestanverðan. Voru það fyrstu mennirnir sem björguðust. Dráttarbáturinn Magni fór úr Reykjavík á strandstaðinn, en snéri skömmu síðar inn til Reykjavíkur aftur til þess að sækja björgunarbáta og fleka. Eftir að hann kom út aftur í síðara skiptið, tókst að koma innrásarpramma er setuliðið hafði lánað að Laxfossi og þannig selflytja fólkið úr skipinu yfir í Magna. Slysavarnafélagið gerði ráðstafanir til björgunar úr landi, en mönnum kom saman um að aðstaða öll til þess væri miklu verri heldur en að bjarga af sjó, að ekki var horfið að því ráði, þó var björgunarbátur dreginn einu sinni á milli frá skipinu til lands og voru í honum nokkrar stúlkur er voru farþegar með skipinu. Fólkið sem um borð var varð allmikið hrakið, þar sem skipið lagðist að miklu leyti á hliðina, en fólkið margt og varð að hafast mikið við í göngum skipsins bakborða og jafnvel á síðu skipsins, einkum var þetta bæði hættulegt og erfitt þar sem veðurofsinn var áframhaldandi mikill og éljagangur, þar til með útfallinu að heldur lægði veðrið. Fjöldi sjálfboðaliða úr landi aðstoðuðu við björgunina. Fólkið um borð bar sig hið bezta og hlustaði jafnvel á útvarpið alla kvölddagskrána á meðan um borð var verið.

Sjómannablaðið Víkingur. Janúar 1944.


Laxfoss á strandstað við Kjalarnestanga í janúar árið 1952.                                     (C) Páll Ólafsson.


               Laxfoss strandar við Kjalarnes

Um kl. 11 í gærkveldi strandaði m.s. Laxfoss á Brautarholtsnesi hjá Kjalarnestöngum í roki og svartabýl, en um kl. 8 í morgun hafði björgunarsveitinni á Kjalarnesi tekizt að bjarga öllum farþegunum í land, svo og skipverjum nema skipstjóra, stýrimanni og vélstjórum, sem komu í land laust fyrir kl. 1. Laxfoss var á leið frá Akranesi til Reykjavíkur er hann strandaði. Afspyrnurok var á sunnan eða suðaustan og hríðin svo svört, að ekki sá út úr augum. Varðskipinu Þór, sem statt var í Flóanum tókst að miða skipið, svo og miðunarstöðinni á Akranesi. Var skotið upp flugeldum frá Laxfossi, til þess að Þór mætti vita, hvað skipið væri í mikilli fjarlægð og glöggvað sig betur á því, en svo var hríðin svört, að flugeldarnir sáust ekki, enda þótt vitað væri, að Þór væri skammt undan. Þórður Guðmundsson, skipstjóri á Laxfossi tilkynnti um nóttina, að enginn sjór væri í vélarrúmi skipsins, en hins vegar væri einhver leki kominn að framlest.
Slysavarnadeild Kjalarneshrepps brá þegar við í nótt, er tilkynnt var um strandið og um kl. 7 í morgun kom hópur manna á strandstaðinn, sem reyndist vera í Brautarholtsnesi, vestan við Nesvík svonefnda, austan við Kjalarnestanga. Hafði björgunarsveitin meðferðis línubyssu, björgunarstól og annan útbúnað. Klukkan 8 í morgun hafði tekizt að bjarga öllum farþegunum í land, en þeir voru 5 konur og 9 karlar. Gekk björgunin mjög greiðlega, en skömmu síðar var skipverjum bjargað með sama hætti, en skipstjóri, stýrimenn og vélstjórar héldu kyrru fyrir í skipinu, enda í ráði að reyna björgun jafnskjótt og aðstæður leyfðu. Kl. 10 fóru þeir einnig í land, enda ógerlegt að koma taug í Laxfoss frá sjó. Í nótt var sendur björgunarleiðangur áleiðis uppeftir á bílum héðan úr bænum, til frekari öryggis, en færðin var svo slæm, að kl. 8 í morgun voru bílarnir ekki komnir lengra en að Brúarlandi. Guðmundur Jónasson kom að austan á snjóbíl sínum í morgun, en hann lagði þegar af stað upp á Kjalarnes kl. rúml. 9 í morgun, og var talinn væntanlegur að Brautarholti um 11- leytið í morgun.
Klukkan sjö í morgun lagði v.b. Aðalbjörg af stað héðan úr Reykjavík á vegum SVFÍ, svo og dráttarbáturinn Magni, til þess að athuga björgunarmöguleika, en Þór var við strandstaðinn í nótt. Vísir átti tal við Ólaf Björnsson, bónda í Brautarholti í morgun. Sagði hann, að farþegar væru allir komnir heim í Brautarholt, og liði öllum vel eftir atvikum. En fólk var þó allþjakað við að ganga á móti afspyrnuveðri heim að bænum. Ólafur sagði, að skipið myndi hafa hreyfzt lítið á strandstaðnum, en ekki myndi vera unnt að segja enn, hvort það væri mikið skemmt. Enn var hvasst þar efra, en vindur tekinn að snúast í vestur. Kjalnesingar brugðu mjög rösklega við, er fréttist um strandið, eins og fyrr greinir, en formaður slysayarnadeildarinnar þar er Gísli Jónsson í Arnarholti.
Horfur á því, að unnt verði að bjarga Laxfossi eru mjög slæmar. Skipið er í kafi að aftan, fram undir reykháf og stöðugt brimylgja, svo að ekkert verður aðhafst eins og stendur. Hinsvegar má fullyrða, að reynt verður að ná út skipinu, ef nokkur von verður um, að að það megi takast.

Vísir. 19 janúar 1952.


                          Upp, Laxfoss, upp

Laxfoss hinn gamli var ekki stórt skip á nútímamælikvarða. En þó hefur nafn þessa skips kyrfilega festst í hugum fjölmargra íslendinga, svo miklar sögur fóru af hrakförum þess. Laxfoss gegndi á sínum blómatíma sama hlutverki og Akraborgin nú. Hann var í ferðum milli Reykjavíkur og Akraness, flutti farþega og vörur. Í janúanmámuði 1944 strandaði skipið út af Örfirisey í ofisaveðri. Með skipiniu voru rúmlega 90 manns, sem allir voru í bráðri lífshættu, því björgunarútbúnaður var á þessum tima af skornum skammti í Reykjavík. En þó fór betur en á horfðist, og öllum var bjargað í land, heilum á húfi. Skipið var síðar dregið af strandstaðnum og tekið i slipp. Komst það um síðir í gagnið aftur, endurbyggt og bætt, og virtist nú sem hrakningum þess væri lokið. En svo var ekki, því óveðursnótt eina í janúarmánuði 1952 strandaði skipið aftur, að þessu sinni á Kjalarnestöngum. Mannbjörg varð, en ekki virtist nein von um björgun skipsins, því eftir nokkra daga rann það fram af strandskerinu og sökk í kaf. Framtakssamir menn sáu þó gróðavon í björgun skipsins og keyptu því flakið, þar sem það lá á sjávarbotni. Urðu þeir sér úti um 25 stora belgi uanlands frá, og með aðstoð kafara var skipsflakið fest við belgina. Raunar var hér ekki um að ræða nema þrjá fimmtu hluta flaksins, afturhlutann með vélum, því flakið hafði brotnað í tvennt áður. Belgirnir gerðu sitt gagn og náðist flakið upp. Var það síðan dregið inn sundin í átt að Kleppsvík, marandi í hálfu kafi, en haldið uppi af belgjunum. Þó tókst ekki að koma því alveg á áfangastað, á Gelgjutanga í Kleppsvík, því flakið tók niðri úti á vikinni. Þar sat það næstu átján árin, froskköfurum tii ánægju, ein forráðamönnum Sundahafnar til ama hin síðari ár. Þeir tóku því í sina þjónustu flotkrana einn mikinn, sem átti að lyfta flakinu af sjávarbotni með flotkrafti sínum. En Laxfossinn gamli var ekki alveg tilbúinn til að láta fjarlægja sig tiltölulega auðveldlega. Þegar skilyrði voru hvað bezt til að vinna verkið, stórstreymt og vinnubjart, fékk hann veðurguðina í lið með sér. Enn einu sinni í sögu Laxfoss skall á ofsaveður. Og með nútímatæknina í sinni þjónustu sátu björgunarmenn heima og biðu. Í ráði var að reyna enn við flakið nú um helgina, en alls óvíst var hvort það næðist upp eða ekki. Eimskipafélagið, sem notar fossanöfn á skip sín fékk nýjan Laxfoss í sína þjónustu ekki alls fyrir löngu. Megi því skipi farnast betur en hinu gamla.

Morgunblaðið. 12 júlí 1970.

Flettingar í dag: 378
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 568
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1075758
Samtals gestir: 77627
Tölur uppfærðar: 28.12.2024 05:57:47