29.01.2017 11:28

B. v. Jón Baldvinsson RE 208. TFCK.

Jón Baldvinsson RE 208 var smíðaður hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 681 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 826. Skipið hét Dröfn á smíðatíma. Togarinn strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi 31 mars árið 1955. Áhöfninni, 42 mönnum var bjargað á land af Björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands í Grindavík. Aldrei áður höfðu jafnmargir menn bjargast af strandstað eða af skipi sem farist hefur við Ísland og af Jóni Baldvinssyni. Skipið eyðilagðist á strandstað og brimið braut flakið niður á skömmum tíma. 


B.v. Jón Baldvinsson RE 208.                                                           (C) Guðmundur Hannesson.


Jón Baldvinsson á strandstað við Reykjanes.                                                  (C) Hannes Pálsson.


Flak togarans Jóns Baldvinssonar RE 208.                                                    (C) Hannes Pálsson.


Einn af björgunarhringjum togarans.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               B.v. Jón Baldvinsson RE 208

        Hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar kom í gær

Mikill mannfjöldi var saman kominn á hafnarbakkanum til þess að fagna nýjasta togara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, "Jóni Baldvinssyni", er hann sigldi fánum skreyttur inn á Reykjavíkurhöfn um kl. 6 síðdegis í gær, eftir fljóta og góða ferð frá Englandi.
"Jón Baldvinsson" er 680 brúttósmálestir að stærð og af sömu gerð og togarinn Þorsteinn Ingólfsson. Vél skipsins er olíukynt gufuvél, og í reynsluförinni sigldi það 13 sjómílur. Skipstjórinn, Jón Hjörtur Stefánsson, lét mjög vel af skipinu á leiðinni heim, en þeir fengu mjög gott veður. Farið var gegnum Pentlandsfjörðinn í svarta þoku, en skipið er búið ratsjá, svo að förinni seinkaði ekki vegna þokunnar. Í hinu vistlega herbergi skipstjórans voru saman komnir ásamt nokkrum gömlum vinum og samstarfsmönnum Jóns heitins Baldvinssonar, Gunnar Thoroddsen borgarstjóri og Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Reykjavíkur, sem einnig var einn af vinum ,og samstarfsmönnum Jóns  Baldvinssonar, og buðu þeir skipið velkomið og árnuðu því og skipshöfninni heilla. í þessum hópi var einnig Baldvin Jónsson, lögfræðingur, Baldvinssonar, og átta ára gamall sonur hans, Jón Baldvinsson. Skipstjóri á "Jóni Baldvinssyni" er Jón Hjörtur Stefánsson, 1. stýrimaður Páll Björnsson, 2. stýrimaður Ólafur Marínó Jónsson, 1. vélstjóri Jónas Ólafsson. Ekki er enn ráðið, hvort skipið verður fyrst sent á karfaveiðar eða það veiðir í salt. "Jón Baldvinsson" er 7. togari bæjarútgerðarinnar; en nú eru liðin 4 ár síðan fyrsti togarinn, "Ingólfur Arnarson" kom til Reykjavíkur. Bæjarútgerðin mun væntanlega fá einn togara í viðbót af þeim, sem nú er verIð að smíða í Bretlandi.

Alþýðublaðið. 26 júní 1951.

           Togarinn Jón Baldvinsson RE 208 

                Strandaði við Reykjanes í fyrrinótt

  Öllum skipverjum 42 að tölu bjargað en óttast að skipið sé gersamlega       ónýtt 

Togarinn Jón Baldvinsson strandaði í fyrrinótt undan Hrafnkelsstaðabergi austan á Reykjanesi. 42 manna áhöfn var á skipinu, þar af 13 Færeyingar. Var öllum bjargað. En óttazt er, að skipið eyðileggist.
Togarinn Jón Baldvinsson var einn af 10 nýjustu togurunm og kom til landsins í júní 1951. Hann var tæp 700 tonn að stærð. Togarinn var að koma af veiðum í salt á Selvogsbanka og var að fara vestur úr "Húllinu", eins og kallað er, vestur á Eldeyjarbanka eða vestur undir Jökul. Veðri var svo háttað er það strandaði, að þokuslæðingur var yfir og dimmt af nóttu. Sjólítið mun hafa verið úti fyrir. en mikið brim við ströndina, eins og mjög oft er við Reykjanes. Skipið tók niðri um kl. 3,45. Mun fyrsti stýrimaður hafa verið þá á vakt, en kallað á skipstjóra, rétt um það leyti sem skiplð tók niðri.
Sent var út neyðarskeyti, og kom loftskeytastöðin því til Slysavarnafélagsins, sem símaði til  Grindavíkur, og lagði björgunarsveitin þaðan strax af stað með björgunarútbúnað. Var björgunarsveitin komin á strandstað um kl. 6.50. Einnig voru send upp neyðarblys. Sá vitavörðurinn á Reykjanesi þau, og kom hann fyrstur á strandstað. Lét hann í té upplýsingar um, hvar skipið hefði strandað, en um það var ekki vitað nákvæmlega áður. Skipverjar höfðu, áður en björgunarmenn komu á vettvang, skotið línu í land, og tók vitavörðurinn á móti henni og setti hana fasta.
Sjór gekk yfir skipið aftanvert, svo að illvært var í stjórnpalli en skipverjum tókst að komast fram á hvalbak, þar sem betra var að vera. Lágsjávað var, er skipið strandaði, en með hækkandi sjó var óttast, að farið gæti að brjóta á skipinu framan til, og þá voru mennirnir í bráðum háska.
Vegna þess að skipverjar höfðu sjálfir komið línu á land, var fljótlegt að koma björgunarútbúnaði fyrir. Björgunin gekk líka mjög rösklega, þótt aðstaðan væri allerfið. Um 150 m vegur var út í skipið, en bergið 30-40 m hátt þverhnípi, sem sjór fellur að, svo að björgunarmenn urðu að draga strandmenn úr skipinu upp á bergið. Fyrsti maðurinn var kominn í land rétt fyrir kl. 7 og öllum hafði verið bjargað kl. 8.45. Jafnótt og strandmenn komu á land fóru þeir heim í íbúð vitavarðar og fengu hressingu. Biðu þeir þar uns bifreiðar komu og sóttu þá. Þeir mötuðust í Grindavík, en voru komnir til Reykjavíkur um kl. 3 í gær.
Auk björgunarsveitaririnar í Grindavík komu á strandstað menn frá Bæjarútgerð Reykjavíkur með lækni með sér. Þá komu þar fáeinum mínútum, eftir að  Grindvíkingarnir komu, Baldur Jónsson formaður björgunarsveitarinnar í Reykjavík og Guðmundur Pétursson fulltrúi Slysavarnarfélagsins og læknarnir úr Keflavík og Njarðvíkum. Höfðu þeir með sér talstöð. Unnt var að hafa samband við strandstað allan tímann. Eftir að ljósavél skipsins stöðvaðist notaði loftskeytamaðurinn neyðarsendi, er gengur með rafhlöðum, mjög hentugt tæki. En skeytum var komið til Reykjavíkur með því að láta togarann Kaldbak senda þau en hann lá fyrir utan. Skipstjóri á togaranum þessa ferð var Þórður Hjörleifsson, sem lengi var með togarann Helgafell.

Alþýðublaðið. 1 apríl 1955.


Flettingar í dag: 513
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 1170
Gestir í gær: 69
Samtals flettingar: 720410
Samtals gestir: 53508
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 07:00:24