Færslur: 2017 Apríl

30.04.2017 11:08

Aage SI 51. TFSK.

Seglskipið Aage SI 51 var smíðaður í Assen í Danmörku árið 1889. Eik. 31 brl. Hjálparvél, stærð og gerð ókunn. Eigandi var Firmað Carl Höepfner á Akureyri frá vori árið 1900. Hét Aage og fékk skráninguna EA 13 nokkrum árum síðar. Skipið var selt 6 júní 1939, Guðmundi Hafliðasyni á Siglufirði, hét hjá honum Aage SI 51. Sama ár var skipið endurbyggt og ný vél, 110 ha. Hundested vél sett í skipið. Selt 24 janúar 1941, h/f Björgu í Reykjavík, hét Græðir RE 76. Selt 11 nóvember 1941, Steindóri Péturssyni í Keflavík, hét Græðir GK 310. 13 febrúar 1942 sigldi bandaríski tundurspillirinn U.S.S Ericsson á Græði GK út af Gróttu með þeim afleiðingum að skipið sökk á svipstundu. 1 skipverji fórst en 6 skipverjum var bjargað um borð í U.S.S. Ericsson.


Aage SI 51.                                                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Bandaríski tundurspillirinn U.S.S. Ericsson sem sigldi Græði GK niður við Gróttu 13 febrúar 1942.

                 Seglskipið Aage

Í skrá yfir íslenzk skip 1933 eru þessi seglskip talin : »Aage« 44 ára, »Hríseyjan« 48 ára, »Sulitjelma« 47 ára, og »Tjalfe« 59 ára. Af þeim hafa 3 hin síðartöldu, staðið á landi undanfarin ár, en hvort »Aage« verður síðasta seglskipið, sem gengur er ekki fullyrt hér, en að útgönguversinu er komið, það er sýnilegt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1933.

        Sex sjómenn bjargast naðuglega

                í árekstri undan Gróttu

             Einn maður drukknar 

Það slys vildi til klukkan 1 í fyrrinótt, að amerískur tundurspillir sigldi í myrkri á vjelbátinn ,,Græði  frá Keflavík. Sökk báturinn svo að segja í einu vetfangi, en einn maður af áhöfninni drukknaði. Hann hjet Lárus Marísson, 65 ára gamall, ættaður úr Dalasýslu, en nú til heimilis hjer í bæ. Hann átti fimm uppkomin börn. Sex aðrir menn, sem á ,,Græði" voru, björguðust mjög nauðuglega. Fjórir komust upp á akkeri tundurspillisins og tókst að hefja sig um borð, en tveimur var bjargað úr sjónum, og var annar þeirra, Guðmundur Guðmundsson, Kárastíg 9, formaður á bátnum, meðvitundarlaus, er honum var bjargað. ,,Græðir" var á leið hjeðan  til Keflavíkur, er slys þetta vildi til. Hafði báturinn legið hjer síðan fyrir áramót til viðgerðar, vegna smá óhapps, sem vildi til í vjel báteins, en vegna skipasmiðaverkfallsins hafði viðgerðin dregist svona lengi. Formaðurinn, Guðmundur Guðmundsson, og einn háseta hans voru í stýrishúsinu, er áreksturinn varð. Fjórir hásetanna voru í klefa fram í, en vjelamaður í vjelarrúmi. Alt í einu ,sáu þeir, sem í stýrishúsinu voru, Ijósglampa og í sömu svipan skipið, sem stefndi á þá. Guðmundur formaður kallaði þá þegar" fram í til háseta sinna og bað þá forða sjer, því hann sá hvað verða vildi. Vjelamaður heyrði til  Guðmundar og spurði hann, hvort nokkuð  væri um að vera og svaraði hann að svo væri. Annars bar þetta svo bráðan að, að mennirnir á " Græði" geta ekki gert sjer neina grein fyrir, hvernig slysið bar að, eða hvernig þeir björguðust. Fjórum hásetanna tókst að komast upp á akkeri tundurspillisins um leið og áreksturinn varð, og síðan upp í skipið. Vjelamaðurinn kom  upp í stýrishúsið um leið og áreksturinn varð.
Sá hann stefni tundurspillisins stefna beint á stýrishúsið. Án þess að geta gert sjer grein fyrir með hverjum hætti, tókst vjelamanni að klífa fram á rá, sem lá frá mastrinu að stýrishúsinu. Guðmundur formaður náði taki í tundurspillirinn, en hlaut högg um leið og báturinn sökk, og missti meðvitund. , Nokkur tími leið, þar til skipshöfnin á tundurspillinum setti út bát og náði þeim tveim mönnum, sem í sjónum voru.
Vjeibáturinn "Græðir" var 31 smálest að stærð. Báturinn var gamall, en endurbyggður árið 1939 og vjelin í honum tveggja ára gömul. Var þetta því hið besta skip. Eigandi skipsins var Steindór Pjetursson útgerðarmaður í Keflavík. Keypti hann bátinn s.l. haust. Fyrir jól fór "Græðir" í nokkrar veiðiferðir, en þetta var fyrsta ferð hans eftir viðgerð, eins og fyrr er sagt.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1942.

29.04.2017 10:01

Qavak GR 2 1. OWPT.

Uppsjávarveiðiskipið Qavak GR 2 1 var smíðaður hjá Vakaru Baltijos í Klaipeda í Litháen og skipið síðan klárað hjá Karmsund Maritime Service A/S í Kopervik í Noregi árið 1999. 1.773 bt. 5.220 ha. MaK 8M32 díesel vél. Smíðanúmer 14. Hét fyrst Ventla H-40-AV og var í eigu Ventla A/S í Torangsvag í Noregi. Frá júlí 2013 hét skipið Ventla ll. Skipið var selt í febrúar 2015, Arctic Prime Fisheries ApS í Qaqortoq á Grænlandi, fékk nafnið Qavak GR 2 1. Skipið er búið að vera hér við land meira og minna síðan það var keypt til Grænlands og hefur legið oft mánuðum saman í Reykjavíkurhöfn. Qavak er nú í slippnum í Reykjavík.


Qavak GR 2 1 í Reykjavíkurhöfn.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 júní 2015.


Qavak GR 2 1 við Grandagarð.                                                  Þórhallur S Gjöveraa. 21 júní 2015.


Qavak GR 2 1 í slippnum í Reykjavík.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2017.


Qavak GR 2 1 í slippnum í Reykjavík.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2017. 

28.04.2017 14:01

L. v. Huginn GK 17. LBGJ / TFPE.

Línuveiðarinn Huginn GK 17 var smíðaður í Hamborg í Þýskalandi árið 1907. 208 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Fyrsti eigandi hér á landi var Þórður Flygenring í Hafnarfirði frá 15 janúar 1929. Hét þá Grímsey GK 2, en hafði heitið Orion áður en skipið kom til landsins. Skipið var selt 9 febrúar 1932, Sameignarfélaginu Björk í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt 28 nóvember 1932, Samvinnufélaginu Huganum í Hafnarfirði, skipið hét Huginn GK 17. Selt 4 mars 1937, Samvinnufélaginu Sólmundi á Akranesi, hét Huginn MB 20. Selt 24 mars 1939, Tómasi Jónssyni og Þorsteini Sigurðssyni í Reykjavík, skipið hét Huginn RE 83. Selt 2 maí 1950, Fiskiveiðafélaginu Njáli og fl. á Bíldudal, sama nafn og númer. Skipið var selt til niðurrifs og dregið til Skotlands árið 1951.

Huginn GK 17 á Siglufirði.                                                                         Ljósmyndari óþekktur. 

27.04.2017 11:45

L. v. Sæfari SU 424. LBKT / TFCG.

Línuveiðarinn Sæfari SU 424 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1902. 94 brl. 115 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Havdrot. Eigendur voru Friðrik Steinsson & Co og Símon Jónasson á Eskifirði frá 11 júlí 1924. Skipið var selt 9 mars 1931, h/f Sæfara í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Skipið var selt 9 nóvember 1933, Sigurði Jónssyni og sonum hans í Reykjavík, hét hjá þeim Sæfari RE 149. Selt 15 júní 1937, h/f Sæfara í Reykjavík. Selt 15 febrúar 1938, Hlutafélaginu Sæfara á Seyðisfirði. Ný vél (1944) 200 ha. Fairbanks Morse vél. Skipið virðist hafa verið eitthvað endurbyggt sama ár, mælist þá 105 brl. 14 ágúst 1945 fær skipið nafnið Sæfari SI 91, sömu eigendur. 5 maí 1946 er Guðrún E Ragnars eigandi skipsins, hét þá Ragnar SI 91. Skipið sökk út af Rifstanga 28 júlí 1947. Áhöfnin, 18 menn, komst í nótabátana og var bjargað þaðan um borð í Skjöld SI 82 frá Siglufirði.


Línuveiðarinn Sæfari SU 424.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.  

Sæfari SU 424 á síldveiðum fyrir Norðurlandi.                                       (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 

         Enn eitt síldveiðiskip sekkur

  Ragnar frá Akureyri er fjórða skipið á  vertíðinni

Í fyrrinótt varð sjóslys fyrir Norðurlandi. Síldveiðiskipið Ragnar frá Akureyri sökk með fullfermi síldar eða um 800 mál. Mannbjörg varð.
Þetta gerðist út af Melrakkasléttu. Veður var ekki sem best og mun skipið hafa verið á leið til Siglufjarðar er það sökk. Um nánari tildrög slyssins var ekki vitað seint í gærkvöldi, nema hvað sjór mun hafa komist í lestarklefa, og gerðu skipsmenn árangurslausa tilraun til að bjarga skipinu. Áhöfninni, 18 mönnum, var bjargað um borð í m.b. Skjöld er var þarna skammt frá, og flutti hann mennina til Raufarhafnar. Af skipum, er voru á ferð hjá slysstaðnum í gordag, sáu skipverjar nót m. b. Ragnars, svo og mikið brak úr skipinu. M.s. Ragnar var 100 smálestir að stærð. Eigandi var Egill Ragnars, Akureyri, en skipið var í leigu Barða Barðasonar og Gunnlaugs Guðjónssonar, á Siglufirði. Skipstjóri var Kristinn Stefánsson, M.s. Ragnar er 4. skipið, sem ferst á þessari síldarvertíð. Farist hafa Snerrir, Einar Þveræingur og Bris.

Morgunblaðið. 31 júlí 1947.                                                 

26.04.2017 11:41

B. v. Andri SU 493. LCJT / TFBC.

Andri SU 493 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 187. Togarinn hét fyrst Gulltoppur RE 247. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th.S. Blöndahl í Reykjavík. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipsins og hét það h/f Sleipnir. Skipið var selt 20 mars 1928, h/f Andra á Eskifirði, skipið hét þar Andri SU 493. Selt 5 nóvember 1932, Bergi h/f í Hafnarfirði, hét Andri GK 95. 25 janúar 1936 strandaði togarinn í þoku og dimmviðri nálægt Whitby á austurströnd Englands. Var hann þá á leið til Grimsby að selja afla sinn. Náðist togarinn út tveimur vikum síðar og var dreginn inn til Whitby og gert við hann þar. Skipið var selt 3 maí 1937, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét Vörður BA 142. 8 ágúst 1942 var eigandi skipsins h/f Vörður á Patreksfirði. Skipið var selt 24 mars 1947, p/f Höddin (H.J. Thomsen) Porkere í Færeyjum, hét þar Höddaberg. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1955.

Andri SU 493.                                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Andri GK 95 á strandstað nálægt Whitby á Englandi 1936.                         Ljósmyndari óþekktur.


Gulltoppur RE 247.                                                                                        Mynd í minni eigu.

     h/f Andri og Togarinn Andri SU 493

Þegar h/f »Andri« var stofnað, var það gert með það fyrir augum, að reka togaraútgerð frá Eskifirði og var togari keyptur í þeim tilgangi. Í reyndinni var togarinn gerður út frá Reykjavík að mestu leyti, lagði aðeins dálítinn hluta af aflanum á land á Eskifirði. Af útgerð »Andra« er því lítil eða engin reynsla fengin fyrir þvi, hvort hagkvæmt sé að gera út togara frá Austurlandi. Engu að síður var það atvinnumissir, eigi lítill, fyrir þorpsbúa, þegar togarinn »Andri« var seldur. Útgerðin hefur gengið svo saman á Eskifirði siðustu árin, að til vandræða horfir. Sjávarútvegur hefur verið aðalatvinnuvegur þorpsbúa. Geta og gjaldþol einstaklinga og sveitafélags hefur aðallega byggst á útgerðinni. Nú er jafnvel svo komið, að sveitarfélagið hefur orðið að leita á náðir rikissjóðs um hjálp til að standast nauðsynleg útgjöld.

     Togarinn Andri strandar við England í                   niðaþoku

Togarinn Andri strandaði nálægt Whitby á Englandi aðfaranótt sunnudags. Niðaþoka var er togarinn strandaði, og við rannsókn, sem farið hefir fram, hefir komið í ljós, að skekkja var á áttavitanum, sem nam 22 gráðum. Þar sem togarinn strandaði er mjög stórgrýtt og hamraveggur í sjó fram. öllum mönnum tókst að bjarga eftir að þeir höfðu verið í togaranum um hríð, og var þeim bjargað á róðrarbátum vegna þess, að ekki var hægt að koma björgunarbátum við vegna stórsjóa. Líður mönnunum öllum vel, og dvelja þeir enn í Whitby.
Þeir munu koma heim með fyrstu ferð, sem fellur. Togarinn Andri fór frá Hafnarfirði á þriðjudaginn og var með 3000 körfur fiskjar, og átti hann að selja aflann í Grimsby í gær. Skipshöfnin var 17 menn og var skipstjóri Kristján Kristjánsson. Auk skipshafnarinnar voru 8 menn á skipinu, sem voru að sækja hinn nýja togara Guðmundar Jónssonar og þeirra félaga. Eigandi Andra var h.f. Berg, en framkvæmdastjóri félagsins er Júlíus Guðmundsson stórkaupmaður. Áður hét skipið Gulltopptur, og var þá eign Sleipnisfélagsins. Engin von mun vera til þess, að skipið náist út.

Alþýðublaðið. 28 janúar 1936.


25.04.2017 11:51

L. v. Gola MB 35. TFEG.

Línuveiðarinn Gola MB 35 var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. 70 brl. 120 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigendur voru Kristófer Eggertsson og Sigurður Vigfússon og fl. á Akranesi frá 17 júní 1933. Skipið var selt 1935, h/f Svani á Akranesi, hét Svanur MB 35. Selt 9 mars 1940, Elíasi Guðmundssyni og Bjarna Ólafssyni & Co á Akranesi, skipið hét Ísleifur MB 35. Selt 19 maí 1942, Ísleifi h/f í Stykkishólmi, skipið hét Elsa SH 5. Selt 15 apríl 1946, Ísleifi h/f í Reykjavík, hét Elsa RE 130. Ný vél (1946) 225 ha. June Munktell vél. Skipið sökk út af Malarrifi 26 apríl árið 1950. Áhöfnin, 5 menn og 1 farþegi björguðust um borð í vélskipið Víði frá Akranesi. Elsa RE var í vöruflutningum frá Reykjavík til hafna á Vestfjörðum þegar hún sökk.


Línuveiðarinn Gola MB 35.                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Reykjavíkurhöfn sumarið 1942. Norskur línuveiðari, Enos að nafni er nær, þá strandferðaskipið Elsa SH 5 og fjær eru varðskipið Ægir og Nara, breskt flutningaskip.           Mynd frá breska setuliðinu.

  Tókst Víði að bjarga skipi hlöðnu vörum

                Mikill leki kom að m.s. Elsu
                út af Snæfellsnesi í gærdag

Vjelskipið Elsa, sem er eitt af elstu skipum flotans, sendi út neyðarskeyti laust eftir hádegi í gær, er það var statt út af Arnarstapa. Óstöðvandi leki var sagður kominn að skipinu og talið víst að það myndi sökkva innan skamms. Akranesbáturinn Víðir fór Elsu til aðstoðar. Eftir fregnum er síðast bárust ætluðu Víðismenn sér að draga hið sökkvandi skip til hafnar. Vjelskipið Elsa var á leið til fjölmargra hafna á Vestfjörðum og var dekkhlaðin. Lestar þess voru fullar af ýmiskonar matvælum og öðrum vörum, en á þilfari um 100 tunnur af bensíni og olíum. Skipið mun hafa farið hjeðan frá Reykjavík í fyrrakvöld, sennilega milli kl. niu og tíu.
Um klukkan eitt síðdegis í gær er m.s. Elsa var stödd suður af Arnarstapa, kom skyndilega að því leki. Fengu skipverjar, fimm að tölu, ekki við hann ráðið og sendu út neyðarskeyti. þar eð fyrirsjáanlegt þótti að skipið myndi sökkva innan skamms. Vjelskipið Víðir frá Akranesi Var nærstaddur, og mun hafa komið skipverjum á Elsu til aðstoðar skömmu síðar. Var þá talsverður sjór kominn í skipið, einkum í vjelarrúm þess. Á þessum slóðum var sjóveður gott. Fyrsta verk Víðismanna,  eftir að þeir komu á staðinn, mun hafa verið að ljetta skipið.
Mun tunnunum hafa verið umskipað í Víði, hve mörgum er ekki vitað. Aðrir menn voru við austur bæði úr vjelarrúmi og hásetaklefa. Klukkan að ganga sex í gærkvöldi átti Slysavarnafjelagið tal við skipstjórann á Víði. Sagðist hann ætla að reyna að draga hið sökkvandi skip hingað til Reykjavíkur. Þá var kominn mikill sjór í það, og ekki hafði tekist að finna hvar lekinn var. Gagnslaust var að ætla sjer að draga skipið að landi á Snæfellsnesinu, því að mjög brimaði við land. Hafi Víðismönnum tekist að bjarga Elsu, þá mun Víðir vera væntanlegur hingað til Reykjavíkur snemma í dag. Vörurnar í Elsu voru vátryggðar. Skipstjóri er Grettir Jósefsson. Skipið er eitt þeirra er þátt tóku í Grænlandsleiðangrinum á síðastliðnu ári.

Morgunblaðið. 27 apríl 1950.

        Víði tókst ekki að bjarga Elsu

Skipverjum á m.s. Víðir frá Akranesi, tókst ekki að bjarga vjelskipinu Elsu, hingað til Reykjavíkur og sökk skipið hjer í Faxaflóa, á 50 faðma dýpi í fyrrinótt. Skipverjar allir á Elsu og einn farþegi, voru þá komnir um borð í Víði. Við björgunartilraunirnar á m.s. Elsu, urðu nokkrar skemdir á Víði. Mönnunum sem við björgunarstarfið unnu, tókst að bjarga öllum bensín og olíutunnunum af þilfari Elsu yfir í Víði, en úr lest skipsins var litlu sem engu bjargað. Víðir lagði af stað áleiðis til Reykjavíkur með Elsu, um kl. 6.30 um kvöldið. Gekk ferðin allgreiðlega fyrst í stað, en eftir því sem dýpra var komið út í Flóann, gerðist kvika meiri,og um klukkan 9 um kvöldið slitnaði keðjan, sem hafði verið á milli skipanna. Kl 11 um kvöldið var kominn svo mikill sjór um borð í Elsu, að sjór renn yfir þilfarið aftast á skipinu. Lengi vel flaut skipið þó , eða allt fram undir klukkan eitt í fyrrinótt, er það seig í djúpið norðvestur af Malarrifsvita og skaut engu braki úr því upp á yfirborðið.

Morgunblaðið. 28 apríl 1950.

24.04.2017 12:15

L. v. Atli SU 460. LBWN / TFDE.

Línuveiðarinn Atli SU 460 var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. Stál. 74 brl. 143 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét fyrst Hugó SI 15 og var í eigu Jórunnar B Tynes á Siglufirði frá 2 júní 1922. Skipið var selt 23 febrúar 1926, Sigfúsi Sveinssyni kaupmanni og syni hans, Guðmundi Sigfússyni á Nesi í Norðfirði, hét Atli SU 460. Þegar Neskaupstaður fékk kaupstaðarréttindi árið 1929, fékk Atli skráningarnúmerið NK 1. Skipið var talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1937.


Atli SU 460 á Siglufirði með síldarfarm.                                                     Ljósmyndari óþekktur.


Atli SU 460 við Sigfúsarbryggjuna á Norðfirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.


Línuveiðarinn Atli SU 460 við bryggju í Reykjavíkurhöfn.                              Ljósmyndari óþekktur.


Atli SU 460 við Sigfúsarbryggju á Norðfirði.            Ljósmyndari óþekktur.

          Línuveiðarinn Atli SU 460

Árið 1927 veiddi Línuveiðarinn Atli SU 460 síld í reknet. Sigfús Sveinsson eigandi Atla þurfti að senda skipið til ketilviðgerðar í Noregi og vegna óhagstæðs fiskverðs á Íslandi ákvað hann að viðgerð lokinni að gera skipið út á Reknetaveiðar frá Álasundi. Hófust veiðarnar í janúarmánuði 1927 og voru þær stundaðar um skeið en til Norðfjarðar kom skipið að veiðum loknum í marsmánuði. Skipstjóri á Atla á þessum tíma var Benedikt Steingrímsson en áhöfnin að öðru leiti norsk, meðal annars norskur fiskilóðs.Ekki gengu þessar veiðar vel og lenti áhöfnin í ýmsum erfiðleikum. Til dæmis voru þeir Atlamenn dæmdir fyrir landhelgisbrot. 
Árið 1927 hóf Norðfjarðarskip í fyrsta sinn veiðar í þorskanet og enn og aftur var það línuveiðarinn Atli sem hlut átti að máli. Mun Atli hafa hafið veiðarnar í marsmánuði, að afloknum síldveiðum í reknet við Noregsstrendur, og lagt stund á þær fram á vor. Netin voru lögð í Lónsbugt en aflanum landað á Norðfirði. Alls aflaði skipið rúmlega 168 skippund á þessum tíma. Benda heimildir til að þorskanetaveiðar hafi í einhverjum mæli verið stundaðar á Atla eftir þetta og pantaði eigandi skipsins, Sigfús Sveinsson, töluvert af þorskanetaslöngum fyrir Atlaútgerðina í árslok 1927.

Norðfjarðarsaga. 1895-1929.
Smári Geirsson.

23.04.2017 11:54

Sæhrímnir ÍS 28. TFEK.

Sæhrímnir ÍS 28 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1934 fyrir Ingvar Guðjónsson útgerðarmann á Akureyri. Eik, fura og beyki. 79 brl. 170 ha. Tuxham vél. Hét fyrst Sæhrímnir SI 80. Skipið var selt 3 maí 1939, Samvinnuútgerð Dýrfirðinga á Þingeyri, skipið hét Sæhrímnir ÍS 28. Selt 22 júní 1942, h/f Sæhrímni á Þingeyri. Ný vél (1946) 260 ha. Polar díesel vél. Selt 22 desember 1952, Gísla Halldórssyni og Sæmundi Jónssyni í Keflavík, hét Sæhrímnir KE 57. Skipið var selt 20 apríl 1954, Hraðfrystihúsinu Jökli h/f í Keflavík, sama nafn og númer. Ný vél (1959) 260 ha. GM díesel vél. Skipið var talið ónýtt vegna fúa og það síðan brennt árið 1964.


Sæhrímnir ÍS 28.                                                                                     Mynd á gömlu póstkorti.

22.04.2017 15:56

172. Rifsnes RE 272. LBFW / TFZE.

Línuveiðarinn Rifsnes RE 272 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1891 fyrir William J Cook og fl. í Hull, hét Heron H 135. Járn. 145 brl. 220 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 77. Skipið var selt 1 ágúst 1895, St. Andrews Steam Fishing Co Ltd í Hull, sama nafn og númer. Skipið var selt árið 1898, F.W. Jacobs í Geestemunde í Þýskalandi, hét Anna PG 76. Selt 1909, Kohlenberg & Putz Seefischerei A.G. í Þýskalandi (Geestemunde), hét Loki PG 76. Skipið var selt árið 1913, T. Bakkevik & Son í Haugasundi í Noregi, hét þar Magne. Skipið var selt 7 júní 1923, Henrik Andréas Dyrdahl Henriksen á Siglufirði, fékk þar nafnið Rifsnes SI 16. Skipið var selt 26 júní 1926, Sigurði Jónssyni Görðum og Símoni Sveinbjarnarsyni í Reykjavík, skipið hét þar Rifsnes RE 272. Frá 24 febrúar 1931 var Símon einn eigandi skipsins. Selt 20 maí 1937, Hafsteini Bergþórssyni í Reykjavík, sama dag virðist Rifsnes h/f í Reykjavík vera orðinn eigandi skipsins. Árið 1942 var skipið mikið endurbyggt og ný vél, 330 ha. Lister díesel vél sett í skipið, mældist þá 158 brl. Skipið var selt 26 nóvember 1955, Ísbirninum h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Ný vél (1956) 480 ha. Lister díesel vél. Skipið sökk um 30 sjómílur út af Bjarnarey 12 september árið 1965. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í síldveiðiskipið Jón Kjartansson SU 111 frá Eskifirði.

Rifsnes RE 272 við bryggju í Djúpavík.                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Rifsnes RE 272 á síldarmiðunum.                                                       (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


Rifsnes RE 272 eftir endurbæturnar árið 1942.                                           Ljósmyndari óþekktur.


Rifsnes RE 272. Teikning.                                                                               Teiknari óþekktur.

                Vélskipið Rifsnes

Snemma í vetur var lokið við mikla viðgerð og breytingar á línuveiðaranum Rifsnes, en hann var upphaflega smíðaður í Englandi 1891. Hingað til lands var skipið keypt af H. A. D. Hendriksen útgerðarmanni á Siglufirði, og nefndi hann það því nafni, er það enn ber. Árið 1926 keypti Sigurður Jónsson í Görðum Rifsnesið, en núverandi eigandi þess er h. f. Rifsnes í Reykjavík, en framkvæmdarstjóri þess er Hafsteinn Bergþórsson. Við þær breytingar, sem gerðar voru á skipinu, stækkaði það um 12,93 rúml. brúttó og er stærð þess nú 157,71 brúttó rúmlestir. Í stað gufuvélarinnar, sem fyrir var, var sett 320 hestafla Blackstone R. A. Lister Diésél vél. Á sólarhring eyðir hún um 1300 kg af olíu, með 580 snúningum á mínútu og 300 ha. Olíugeymar rúma 16 smál. Auk aðalvélarinnar, er ein hjálparvél, 18 hestafla Lister Diesel vél, sem rekur rafal og sjó og loftdælur. Fyrir framan brúna er spil, sem bæði er tog og akkersvinda. Í lúkar eru lokrekkjur fyrir 12 menn, en 6 í káetu.

Ægir. 1 maí 1943.

 Eitt elzta síldarskipið sökk við Bjarnarey

           Lagðist 4 sinnum á hliðina

Síldveiðiskipið Rifsnes RE 272 sökk við Bjarnarey á sunnudagsmorgun, er það var á leið inn með 1700 tunnur af síld af miðunum. Skipverjar, 11 talsins, komust í gúmmíbátana og var bjargað af síldveiðiskipinu Jóni Kjartanssyni SU III, sem fór með þá til Seyðisfjarðar. Austan stekkingur var og 4 vindstig er skipið sökk. Rifsnesið var eitt af elztu skipunum í flotanum, 158 lesta stálskip frá Noregi og byggt 1891. Það var eign Ísbjarnarins h.f. Mbl. átti símtal við sikipstjórann á Rifsnesinu, Ibsen Angantýsson, eftir að hann kom til Seyðisfjarðar um kl. 5.30 á sunnudag, og fékk hjá honum fregnir af því hvernig þetta hefði gerst. Það var kl. 8.30 um morguninn, er skipið var um 32 sjómílur frá Bjarnarey með fullfermi, um 1700-1800 tunnur, að það lagðist á bakborðshliðina. Um 250 tunnur voru á dekki og vel breytt yfir. Sjór fossaði inn á þilfarið og á gangana og yfirbreiðslur tóku að rifna. Þá lagðist skipið á bakborðshliðina og síðan aftur á stjórnborða og bakborða, sagði Ibsen, en okkur tókst að keyra upp úr þessu fjórum sinnum. Þá var sjórinn kominn niður í lestina og þar fór að springa upp. Þá fórum við í bátana. Hvar voruð þið meðan skipið tók allar þessar dýfur? Uppi. Við vorum að reyna að losa okkur við síldina á dekkinu. Og ég var á mínum stað, í brúnni. Við höfðum þrjá 10 manna gúmmíbáta og fórum í þá. Og rétt á eftir sökk skipið. Hve löngu á eftir og hve langt frá ykkur?
Svona 5 mínútum eftir að við fórum í bátana. Við vorum fáa metra frá skipinu. Svo þið horfðuð á Rifsnesið fara. Hvernig fór það?  Beint á stefnið. Við höfðum sent út neyðarkall áður en við fórum frá borði. Jón Kjartansson var 10 mílur frá Digranesi, en við vorum við norðurkantinn á Digranesflakinu. Og hann var kominn til okkar um kl. 12, tveimur tímum eftir að við fórum í bátana. Var allt í lagi með mannskapinn? Var ekki kalt að bíða?  Það var allt í lagi. Við vorum í ullarsokkum og það er nú það sem gildir.  Varst þú búinn að vera lengi með Rifsnesið?  Síðan í fyrra.
Jón Kjartansson frá Eskifirði var næsta skip við Rifsnesið, þegar það sökk og bjargaði mönnunum. Fréttaritari blaðsins á Seyðisfirði átti tal við skipstjórann, Þorstein Gíslason, er hann kom inn með skipbrotsmennina. Þorsteinn, sem er aflakóngurinn á síldarvertíðinni sem kunnugt er, búinn að fá 31 þús. mál og tunnur, kvaðst hafa verið á leið frá Vopnafirði út á miðin. Rétt fyrir kl. 10 heyrði hann neyðarkall og náði því niður. Var skipið þá keyrt eins og frekast var hægt í átt þangað. Austan kaldi var, 4-5 vindstig og allkröpp alda. Þegar þeir í bátunum sáu til Jóns Kjartanssonar skutu þeir neyðarrakettum, svo þeir fundust undir eins.
Um leið og skipbrotsmenn fóru í bátana höfðu þeir bundið þá saman, eins og reglur segja fyrir um, en þeir slitnuðu frá og var nokkurt bil orðið á milli þeirra. Skipverjar á Jóni Kjartanssyni lögðu upp að bátunum og tóku mennina upp til hlés. Þeir voru heilir á húfi, nema hvað einhverjir höfðu brennt sig á höndum á neyðarrakettunum. Jón Kjartansson fór strax út á miðin út af Langanesi, er hann hafði skilað skipbrotsmönnunum í land. Níu af skipverjum af Rifsnesinu komu með flugvél frá Egilsstöðum til Reykjavíkur síðdegis í gær. Mbl. hitti að máli Snjólf Fanndal vélstjóra, og spurði hvar hann hefði verið þegar skipið var að leggjast á hliðarnar á víxl. Hann kvaðst hafa verið uppi, er báturinn lagðist fyrst á stjórnborða, en síðan farið niður í vél. Hvernig er að vera niðri í skipi, sem lætur svona? Maður finnur miklu minna fyrir því niðri. Varstu ekki hræddur um að báturinn sykki meðan þú varst niðri?  Nei. nei, það er mikið flot í síldinni. - Hvenær drapst á vélunum?  Þær gengu alltaf. Það var fullt lens allan tímann.  Hvernig sökk báturinn?. Hann lá á hliðinni, ,rétti sig af og fór á framendann. Við vorum þá komnir í bátana og vissum að Jón Kjartansson var á leið til okkar. Voruð þið búnir að veiða vel í sumar? Við vorum búnir að fá 7000 mál, þegar báturinn sökk.

Morgunblaðið. 14 september 1965.

20.04.2017 11:19

430. Freyr NK 16.

Freyr NK 16 var smíðaður á Akureyri af Bjarna Einarssyni skipasmið árið 1919 fyrir Sigfús Sveinsson kaupmann og útgerðarmann á Nesi í Norðfirði. 15 brl. 4 ha. Stabil vél. Hét fyrst Freyr SU 413 en fær skráninguna NK 16 þegar Neskaupstaður fær kaupstaðarréttindi árið 1929. Ný vél (1931) 28 ha. Alpha vél. Báturinn var seldur 22 febrúar 1934, Sigurði Hinrikssyni í Neskaupstað, sama nafn og númer og bar báturinn alla tíð það nafn. Ný vél (1945) 66 ha. Kelvin vél. Seldur 18 júlí 1948, Aðalsteini Halldórssyni í Neskaupstað. Seldur 7 júlí 1949, Páli Þorsteinssyni og fl. í Neskaupstað. 11 nóvember árið 1955 slitnaði Freyr úr bóli sínu í norðvestan fárviðri og rak á land á Neseyrinni og skemmdist mikið. Báturinn náðist fljótlega á flot og var gerður upp. Seldur 16 júní 1966, Páli Tómassyni og Ásgeiri Bergssyni í Neskaupstað. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 24 október árið 1968.


Freyr NK 16 í fjörunni á Neseyrinni 12 nóvember árið 1955.                               (C) Björn Björnsson.


Freyr NK 16.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.

                 Freyr SU 413

Sumarið 1920 fer Sigurður Jónsson skipstjóri á Norðfirði til Akureyrar að sækja nýjan bát fyrir Sigfús kaupmann Sveinsson á Norðfirði. Sá bátur var nefndur Freyr SU 413, en eftir að Norðfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1929, var hann skráður Freyr NK 16. Freyr var 15 tonna eikarbátur. Sigurður var formaður með hann í 10 ár eða þar til 1930, að hann tekur við formennsku á nýjum bát, er Sigfús kaupmaður lét smíða á Norðfirði 1930, og nefndist Fylkir NK 46, og var 22 tonn.

Sjómannablaðið Víkingur 1 janúar 1971.

      Tvo báta rak á land á Norðfirði

Norðvestan hvassviðri gerði  hér í nótt og rak tvo báta á land. Hafbjörgu, sem er 28 lesta bátur, rak upp inni á strönd og tókst jarðýtu að koma henni á flot í morgun og mun hún lítið skemmd. Freyr, sem er 15 lesta bátur, rak á land á vestanverðri eyrinni, þar sem fjaran er stórgrýtt og mun báturinn mikið  brotinn. Ekki hefur enn verið hægt að reyna að koma honum á flot vegna hvassviðris og heldur báturinn áfram að brotna.

Þjóðviljinn 13 nóvember 1955.

19.04.2017 14:18

784. Reykjanes GK 50. TFQE.

Reykjanes GK 50 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1954 fyrir Íshús Hafnarfjarðar h/f í Hafnarfirði. Eik. 56 brl. 180 ha. Lister díesel vél. Seldur 23 febrúar 1963, Braga Einarssyni í Garði, hét Stafnes GK 274. Seldur 17 janúar 1966, Sigurði B Magnússyni og Kristmanni Hjálmarssyni í Keflavík. Ný vél (1969) 360 ha. Caterpillar díesel vél. 10 desember 1969 voru eigendur bátsins Sigurður B Magnússon, Jóhannes Sigurðsson og Magnús Sigurðsson í Keflavík, hét þá Stafnes KE 38. Báturinn var seldur 15 desember 1978, Fiskverkun Jóhannesar og Helga h/f á Dalvík, hét Stafnes EA 14. Seldur 14 nóvember 1980, Hafliða h/f í Þorlákshöfn, hét Hafliði ÁR 20. Seldur 9 nóvember 1981, Hafsteini Sigmundssyni í Þorlákshöfn, hét Sigmundur ÁR 20. Seldur 28 mars 1984, Sigurði Helgasyni og Ásberg Lárenzínussyni í Þorlákshöfn, hét Helgi Jónasson ÁR 20. Seldur 23 janúar 1985, Felli h/f í Þorlákshöfn, hét Helguvík ÁR 20. 4 febrúar 1988 fór fram nafnbreyting á bátnum, hét Narfi ÁR 20, sömu eigendur. Seldur 10 desember 1988, Tanga h/f í Þorlákshöfn, hét Narfi ÁR 13. Seldur 12 desember 1990, Fáfni h/f á Þingeyri, hét Litlanes ÍS 608. Seldur 20 desember 1991, Hólmgrími S Sigvaldasyni og Garðari J Grétarssyni á Þingeyri, sama nafn og númer. Báturinn brann og sökk um 50 sjómílur út af Skaga. Áhöfnin, 3 mönnum var bjargað um borð í Ingimund gamla frá Blönduósi.


Reykjanes GK 50 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Reykjanes GK 50.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

         Nýr bátur frá Dröfn í Hafnarfirði

  Smíði þriðja bátsins á þessu ári er nú í undirbúningi

Nýr bátur hljóp af stokkunum 29. f.m. hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði. Er þessi nýi bátur 56 rúmlestir og var honum gefið nafnið Reykjanes.
Báturinn er smíðaður úr eik með 180 hestafla Lister dieselvél, er hann búinn öllum beztu tækjum sem völ er á. Reynsluferð var farin 7 þ.m., var ganghraði 9 mílur og reyndust bátur og vél mjög vel. Eigandi er Íshús Hafnarfjarðar h.f. Skipstjóri er Guðmundur Á. Guðmundsson. Þetta er 8. báturinn sem skipasmíðastöðin Dröfn h.f. hefur byggt og annar báturinn sem afhentur er á þessu ári og undirþúningur er hafinn að smíði þess þriðja. Smíði þessa báts var hafin í okt. 1953 og hefur því staðið yfir í 1 ár. Teikningar gerði Egill Þorfinnsson, yfirsmiður var Guðjón Einarsson skipasmíðameistari, niðursetningu á vél og alla járnsmíði annaðist Vélsmiðja Hafnarfjarðar h.f. undir yfirstjórn Magnúsar Kristjánssonar vélvirkjameistara. Raflögn framkvæmdi Þorvaldur Sigurðsson og Jón Guðmundsson rafvirkjameistarar, málun Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari, reiðar og segl gerði af Sören Valentínussyni, dýptarmæli setti niður Friðrik Jónsson útvarpsvirkjameistari, dekk og línuvinda var smíðuð í Héðni.

Þjóðviljinn 14 nóvember 1954.

            Eldur í báti norður af Skaga

                Þremur mönnum bjargað

Eldur kom upp í Litlanesi ÍS- 608 að kvöldi laugardags þar sem báturinn var að veiðum um 50 sjómílur norður af Skaga. Ahöfninni, þremur mönnum, var bjargað um borð í Ingimund gamla frá Blönduósi og siglt með þá til Skagastrandar, en Litlanes sökk um sjöleytið að morgni sunnudags. Litlanes var tæplega 60 tonna eikarbátur, smíðaður í Hafnarfirði árið 1954.
Ekki er ljóst hvers vegna eldur kom upp í bátnum, en sjópróf munu fara fram á Ísafirði á næstunni. Að sögn Guðna Ólafssonar, skipstjóra á Ingimundi gamla, sem bjargaði bátsverjum, voru mennirnir ómeiddir þegar þeir komu um borð í Ingimund, en þeir á Ingimundi voru staddir skammt frá Litlanesinu þegar þeir sáu reyk leggja frá bátnum. Guðni segir að gott hafi verið í sjóinn svo vel hafi gengið að ná mönnunum þremur um borð úr björgunarbátnum, en siglt var með þá til hafnar á Skagaströnd og þangað var komið um klukkan tíu á sunnudagsmorgun.

Dagur 19 maí 1992.

18.04.2017 14:15

Á leið í Smuguna í Barentshafi á Barða NK.

Ég tók þessar myndir þegar við á Barða NK 120 vorum á leið í Smuguna í Barentshafi í nóvember árið 1993. Við lentum í vitlausu veðri þegar við vorum að nálgast Svalbarða, 10 til 11 vindstig af norðvestri og töluverð ísing. Lofthiti var -19°C og sjávarhiti örugglega undir frostmarki. Bakborðssíða skipsins var ein klakahella og hefur þykktin á ísnum verið sumstaðar á síðunni um 1 metri. Svo lagaðist sjólagið þegar nær kom ísbreiðunni. Ekki man ég eftir miklu fiskiríi í þessari Bjarmalandsferð. Mig minnir að það hafi farið stimpill í vélinni í þessum túr og ekki var gott að láta flatreka þarna innan um ísinn meðan viðgerð fór fram, því talsvert ísrek var á þessum slóðum. Það sem stóð uppúr í þessari ferð í svartasta skammdeginu þegar myrkur er nánast allann sólarhringinn á þessum slóðum, var að fylgjast með ísbjörnunum í sínum heimkynnum og sáum við þá stundum vera að gæða sér á sel sem þeir veiddu, á ísbreiðunni. Tilkomumikil sjón þær aðfarir. Ég á nokkrar myndir frá Smuguveiðunum, þá árið eftir þegar við vorum að veiða í salt. Set þær hér inn á síðuna á næstunni.


Á leið í Smuguna í nóvember 1993.                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Verið að berja ís af skipinu.                                                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Um borð í Barða NK. Frá vinstri, síðuhöfundur, Þorsteinn Jóhannsson nú bátsmaður á Barða, Óðinn Sigurðsson og Theódór Elvar Haraldsson nú afleysingaskipstjóri á Blæng NK 125. 
                                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1536. Barði NK 120 á útleið frá Neskaupstað. Barði var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1979. 497 brl. 2.350 ha. Wichmann díesel vél. Hét fyrst Júlíus Geirmundsson ÍS 270 og var gerður út af Gunnvör h/f á Ísafirði frá árinu 1979. Var seldur SVN í Neskaupstað 23 febrúar 1990. Barði NK var seldur til Namibíu árið 2002.   (C) SVN.

          Veður og ísing í Smugunni

Sókn íslenskra togara í Smuguna og á Svalbarðasvæðið hefur stóraukist í sumar og haust. Veiðar í Smugunni geta verið mikið hættuspil stóran hluta ársins. Þaðan er löng sigling í var þegar óveður geisa og ísing getur hlaðist á skipin á skömmum tíma. Í ofanálag ríkir nær samfellt heimskautamyrkur þarna norðurfrá frá því snemma í október og fram í marsmánuð.
Flestir ef ekki allir íslendingar, sem nærri fiskveiðum og útgerð hafa komið, hafa heyrt getið hins hörmulega slyss á Nýfundalandsmiðum í febrúar 1959 þegar togarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með allri áhöfn. Sex aðrir íslenskir togarar sluppu við illan leik eftir margra klukkustunda ísbarning í miklu illviðri. Óhug sló að íslensku þjóðinni eftir atburð þennan og má segja að úthafsveiðar hafi í kjölfarið að mestu lagst af, a.m.k. yfir vetrartímann. Síðan þá hefur heil kynslóð af íslenskum sjómönnum og skipstjómendum vaxið úr grasi. Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólameistari Stýrimannaskólans í Reykjavík, ritaði í desemberhefti Ægis á sl. ári þarfa ádrepu þar sem hann minnti á hætturnar sem veiðar í ísköldum vetrarsjó geta haft í för með sér. Í grein hans kom fram að síðasta alvarlega sjóslysið hér við land, sem beinlínis er rakið til yfirísingar, hafi verið í febrúar 1968. Þá fórust 18 Bretar og 6 íslendingar í Ísafjarðardjúpi. Vestfjarðamið standast þó engan veginn samanburð við Smuguna í miðju Barentshafinu hvað ísingarhættu áhrærir. Því veldur að mestu mikill sjávarkuldi og langvarandi frosthörkur á Smuguslóðum.
Í fyrra lentu nokkrir íslenskir togarar í vandræðum í Smugunni vegna ísingar sem hlóðst á skipin. Þau voru stödd rétt sunnan 76. breiddarbaugsins í byrjun nóvember, nærri ísjaðrinum. Þá gerði norðan hvell, um 10 vindstig. Frost var -18°C og sjávarhiti -1,7°C. Við þessar aðstæður getur ísing hlaðist mjög hratt á skipin. Við svipaðar aðstæður á Íslandsmiðum er siglt í hlýrri sjó, en best er auðvitað að komast í var. Á umræddum slóðum var slíkt ekki gerlegt þar sem margra klst. sigling var í hlýrri sjó og ekki minna en 200 sjómílur í land. Eina ráðið sem skipstjórar áttu völ á var hreinlega að sigla alveg upp að ísjaðrinum og skýla sér þannig fyrir sælöðrinu. Því fer þó víðsfjarri að með þeirri aðgerð hafi allri hættu verið bægt frá, ísinn var á miklu reki og myrkrið gerði mönnum erfitt fyrir. Skipin gátu við þessar aðstæður hæglega lokast inni í ísbreiðunni, en til allrar blessunar komust bæði skip og áhafnir heilar til hafnar eftir baráttuna við óblíð náttúruöfl norður við sjálft íshafið.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1994.

Brot úr Grein Einars Sveinbjörnssonar
veðurfræðings um veður og ísingu
í Smugunni í Barentshafi.


             Gullgröftur í Smugunni

Stór hluti íslenska togaraflotans stundar nú veiðar í Smugunni í Barentshafí og þar eru 700-800 íslenskir sjómenn að störfum. Helgi Bjarnason segir frá lífínu þar norður frá en hann sigldi með togaranum Runólfi í Smuguna, fór á milli skipa til að spjalla við sjómenn og síðan með varðskipinu Óðni í land í Hammerfest.
Lífíð í íslendinganýlendunni í Smugunni einkennist af mikilli vinnu í aflahrotunum, sumir gætu sagt þrældómi. Þá standa menn frívaktir eins og þörf er á og þeir geta, til að bjarga verðmætunum sem komin eru um borð. Sjómennirnir voru orðnir ansi þreyttir eftir tólf sólarhringa góða veiði. Veiðarnar á þessu hafsvæði sem enginn á og enginn stjórnar einkennast að sumu leyti af gullgrafarahugsunarhætti. Umgengnin um auðlindina er í sumum tilvikum sjálfsagt ekki til fyrirmyndar og sjómennirnir sjálfir töluðu oft um það að nauðsynlegt væri að ná samningum við Norðmenn þannig að veiðarnar gætu farið fram undir eðlilegri stjórn.
Mjög góð samvinna virðist vera meðal skipstjóranna í Smugunni, mun betri en á heimamiðum segja menn. Þeir veita hverjir öðrum upplýsingar í gegn um talstöðina. Mikið er spurt um það hvernig fiskurinn gangi inn í veiðarfærin, hvar flotvarpan sé í sjónum og hvað holið hafi gert. Til þess að reyna að rugla norsku strandgæslumennina sem vafalaust hlusta á talstöðina gefa þeir aflann upp í nafnakvóta þar sem hver ráðherra merkir ákveðinn tonnafjölda og síðan er spilað út frá því. Það er hins vegar spurning hvort Norðmennirnir hafi ekki fyrir löngu komið sér upp lykli að þessu einfalda dulmáli. Skipin hafa mikið veitt við norsku línuna og stundum teygt sig aðeins innfyrir eða lent í því óvart. Yfirleitt voru þarna eitt eða tvo norsk varðskip á sífelldri siglingu með línunni og að sópa mönnum yfir ef þess gerðist þörf. Yfirleitt fór þetta fram í vinsemd, báðir aðilar virtust hafa skilning á stöðu hvors annars. Það var helst ef einhver skipstjórinn ætlaði að fara að deila við strandgæsluna um línuna að þeir byrstu sig og skipuðu mönnum að hafa sig yfir á stundinni. Stundum þurftu þeir að gefa gula spjaldið og þá fóru menn ekki eins innarlega næst. Menn fengu greiðlega upplýsingar hjá strandgæsluskipunum og virtust fá jákvæða afgreiðslu ef þeir spurðu fyrirfram um það hvernig þeir ættu að haga sér þegar þeir þurftu að fara innfyrir við ákveðnar aðstæður. Það var því ekkert stríðsástand í Smugunni þann tíma sem ég var þar.
Þegar veiðin minnkaði aftur síðastliðinn mánudag fengu sjómennirnir aftur sex tíma hvíld eftir hverja sex tíma vakt. Og þá gafst tími til að þrífa skipin aðeins en þau voru orðin ansi sjúskuð eftir törnina. Þegar rólegra er fara menn gjarnan í kaffi í önnur skip og til að skiptast á myndböndum. Það er tilbreyting frá lífinu um borð þar sem myndböndin stytta mönnum helst stundirnar. Á sumum skipum er spilað og teflt en menn segja að það hafi minnkað. Aðstaðan um borð í skipunum er ákaflega misjöfn. í flaggskipi flotans, Baldvini Þorsteinssyni EA, er hún til dæmis til fyrirmyndar. Góðar setustofur og hreinlætisaðstaða. Gufubað, heilsurækt og nuddpottur. Kokkarnir láta ekki sitt eftir liggja við að láta mönnum líða sem best, það er sunnudagsmatur oft í viku hjá mörgum þeirra, enda sagði einn kokkurinn að strákunum veitti ekki af orkunni í öllu þessu puði. Stímið í Smuguna og heim tekur fjóra til fimm sólarhringa hvora leið þar sem stundum sést hvorki land né skip heilu dagana og sjófuglarnir eina lífið sem vart verður við. Menn þurfa misjafnlega mikið að vinna þennan tíma. Stundum eru 18 tímar milli vakta og nefndu menn dæmi um menn sem svæfu allan þann tíma.
Menn leggja þetta á sig fyrir hlutinn sem getur verið góður. Frystitogararnir voru að framleiða afurðir fyrir 4-5 milljónir á sólarhring dögum saman þegar veiðin var góð. Það skilaði hásetunum 50 þúsund krónum á dag. Kaupið er mun minna aðra daga og ekkert þegar skipið er á siglingu út og heim og ekkert þegar menn taka sér frí í landi sem gjarnan er þriðja hvern túr. Aflahlutur háseta getur verið nálægt 800 þúsund krónum fyrir liðlega mánaðartúr þegar skip kemur heim með þorskflök að verðmæti 70-80 milljónir kr. Stærstu skipin gera væntanlega enn stærri túra í Smuguna, eru þá lengur að, og getur túrinn fært mönnum eitthvað á aðra milljón. Sjómennirnir fórna miklu fyrir þessar tekjur, eins og fram kom í samtali við einn þeirra hér í blaðinu, þeir missa af fjölskyldulífi og frí- stundastörfum. Einn nefndi það sem orsök mikilla fjarvista að það væri opinbert leyndarmál að hjónaskilnaðir væru fleiri á frystitogurunum en öðrum skipum. Þessar áætluðu tölur um tekjur eiga aðeins við um frystiskipin þegar vel gengur. Í Smugunni eru einnig ísfisktogarar og togarar sem salta aflann um borð.
Ísfisktogararnir þurfa að hitta á góðan afla, geta ekki verið nema nokkra daga að veiðum og fer meirihluti tímans í siglingu. Hásetarnir eru ánægðir ef þetta gengur upp en þekkja það margir hvað það þýðir að fara ónýta túra í Smuguna. Ekki eru öll skipin að gera það gott þó fréttir berist af góðum afla í Smugunni. Það fer eftir búnaði skipanna og svo auðvitað kallinum í brúnni hvað veiðist. Þeir einir nutu aflahrotunnar á dögunum sem höfðu flottroll. Nokkur skip voru aðeins með botntroll og þegar þau fóru á flottrollssvæðið þar sem þorskurinn veiddist á línunni milli Smugunnar og 200 mílna fiskveiðilögsögu Noregs fylltust troll þeirra af hausum, roði, beinum og dauðum fiski úr hinum skipunum.
Ekkert eftirlit er með veiðunum þarna norður frá. Óðinn átti reyndar að mæla möskva og fisk en hefur lítið komist í það vegna þjónustu við skipin, einkanlega við slasaða og veika sjómenn sem komið hefur í ljós að sannarlega var þörf á og menn eru þakklátir fyrir.
Það leikur einnig vafi á því hvaða heimild varðskipsmenn hafa til að skipta sér af veiðum á þessu alþjóðlega hafsvæði. Það hendir enginn smáfiski sem spurður er um það, hvorki á Íslandsmiðum né í Smugunni, en sjómenn telja að á öðrum skipum sé verið að henda stærri fiski í Smugunni en heima. Þá er vafamál að stóru hölin sem menn voru að fá, margir tugir tonna, hafi nýst nema að hluta því fiskurinn þarna er lélegri en menn eiga að venjast heima og var farinn að skemmast eftir nokkra klukkutíma. Gullgrafarahugsunarhátturinn virðist ráðandi hjá sumum á meðan aðrir sjómenn ganga með sanni vel um auðlindina. Umræður um þessar stjórnlausu veiðar koma oft upp í spjalli við sjómennina. Gjarnan á þeim nótunum að þeim þætti þetta ástand ekki til fyrirmyndar en á meðan ekki næðust samningar við Norðmenn um kvóta fyrir íslendinga þarna væri ekkert við því að gera. Töldu margir að þessi mikli afli íslendinga í sumar og haust myndi knýja Norðmenn að samningaborðinu.

Morgunblaðið. 11 september 1994.

17.04.2017 11:19

Þórður Sveinsson GK 373. TFIL.

Vélskipið Þórður Sveinsson GK 373 var smíðaður í Sunde í Noregi árið 1938. Eik og fura. 111 brl. 220 ha. Union vél. Eigandi var Sameignarfélagið Jarlinn ( Óskar Halldórsson og fl.) Kothúsum í Garði, Gullbringusýslu frá 30 maí 1941. Skipið strandaði við Arnarstapa á Snæfellsnesi 25 nóvember árið 1942. Áhöfnin, 7 menn og einn farþegi bjargaðist í land á skipsbátnum. Skipið eyðilagðist á strandstað. Þórður var þá í leigu hjá Bandaríkjaher.


Þórður Sveinsson GK 373.                                                                         (C) Sigurjón Vigfússon.

Þórður Sveinsson GK strandar við Snæfellsnes
              Ólíklegt þykir að skipinu verði bjargað

Í gærkveldi strandaði Þórður Sveinsson við Snæfellsnes. Mannbjörg varð en einn maður fótbrotnaði og annar meiddist eitthvað minna. Vísir leitaði upplýsinga um þetta hjá Óskari Halldórssyni í morgun.
Óskar Halldórsson útgerðarmaður skipsins átti símtal við símstöðvarstjórann á Arnarstapa í morgun og sagðist honum svo frá:
Í gærkveldi kl. 10 varð vart við það á bæ talsvert vestan við Arnarstapa, að skip var strandað á svokölluðu Hellnaplássi. Þarna eru há klettabjörg og ekki hægt að komast að strandstaðnum úr landi, en undir björgunum er stórgrýtisurð, þar sem skipið liggur. Logn var á, en mikið dimmviðri og myrkur, og haugasjór, og vissu menn ekki hvaða skip þetta var, þar sem ekki var unnt að komast nærri því á landi. Frá bænum var strax tilkynnt til símstöðvarinnar á Arnarstapa um strandið, og náðist samband um Stykkishólm við Slysavarnafélagið og var því tilkynnt strandið, en því tókst ekki í nótt að ná sambandi við Ægi eða Óðin til þess að fá þau til að fara á strandstaðinn. Frá Arnarstapa var skotið út smábáti til þess að fara út í skipið, en vegna brims komst hann ekki að skipinu, sem sjórinn gekk yfir. Og sást ekki, hvort skipsmenn voru enn á skipsfjöl eða ekki. Fór báturinn við svo búið í land aftur, en síðar um nóttina fór hann aðra ferð og hafði þá með sér ljós, til þess að skipsmenn gæti séð til þeirra, en þeir héldu þá enn vera í skipinu.
Þegar báturinn kom að strandstaðnum, kom skipshöfn Þórðar Sveinssonar, 8 menn, til þeirra í björgunarbát skipsins, en þeir höfðu séð Ijósið í litla bátnum. Hafði skipshöfnin við illan leik komizt í björgunarbátinn skömmu eftir strandið og haldið sig rétt utan við strandstaðinn, til að bíða birtingar, þar sem þeir vissu ekki hvernig staðhættir voru þarna og mikið brim var á. Í morgun um klukkan 6 kom skipshöfnin til Arnarstapa á skipsbátnum og hafði umsjónarmaður farmsins, sem er útlendingur, fótbrotnað, og var von á lækni frá Stykkishólmi kl. 1-2 í dag til þess að gera við sár hans. Skipshöfnin var orðin þjökuð af volkinu og svaf í morgun í húsi skammt frá stöðinni, þegar símstjórinn átti tal við Óskar Halldórsson. Skýrði hann svo frá, að enn væri svartaþoka, svo ekki sæist milli húsa, en logn og talsvert mikið brim, og væri ekki hægt að sjá hvað skipinu liði. Taldi hann óliklegt, þótti,hann vildi ekki fullyrða það, að skipinu yrði bjargað, þar sem strandstaðurinn væri slæmur og brim mikið, svo að skipið mundi brotna.
M/s. Þórður Sveinsson er 111 smálestir að stærð, tæplega 4 ára gamall, gott og fallegt skip, útbúið með miðunarstöð og dýptarmæli. Skipið er eign Óskars Halldórssonar h/f. o.fl. 

Vísir 26 nóvember 1942.

16.04.2017 11:52

B.v. Baldur BA 290. LCJQ / TFBD.

Baldur BA 290 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921 fyrir h/f Hæng í Reykjavík. Hét fyrst Baldur RE 244. 315 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 186. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur 18 október 1921. Árið 1923 var skipið gert út af h/f Alliance í Reykjavík. Skipið var selt 9 desember 1941, Fiskveiðahlutafélaginu Njáli á Bíldudal, hét Baldur BA 290. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu 20 febrúar 1952 og rifinn í Boom í mars það ár.


Baldur BA 290 á leið inn Reykjavíkurhöfn.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Baldur BA 290.                                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Baldur RE 244 á leið inn Reykjarfjörð á Ströndum.                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

          Baldur RE 244 og smyglið

Nýsmíðaður botnvörpungur er kominn til landsins og heitir "Baldur". Verður ekki um hann sagt eins og nafna hans að "fátt muni ljótt á Baldri". Þegar lögreglan rannsakaði skipið, fannst í því mikið áfengi, sem mun hafa átt að smygla í land. Var áfengið gert upptækt.

Tíminn. 22 október 1921.

Togarinn Baldur bjargar 49 skipbrotsmönnum

     af ensku og hollenzku skipi við England

Togarinn Baldur bjargaði í síðustu Englandsför sinni 49 skipbrotsmönnum af tveimur skipum, öðru hollenzku en hinu ensku. Var togarinn 8 sjómílur vestnorð-vestur af Skerryvore, er hann bjargaði mönnunum. Fyrst kom togarinn að björgunarbáti, sem var fullskipaður mönnum og reyndust þar vera 39 Hollendingar af skipinu "Simaloer", sem þýzk sprengjuflugvél hafði ráðist á og sökkt. Höfðu skipsbrotsmennirnir verið í björgunarbátnum í tvo og hálfan sólarhring. Rétt að þessari björgun afstaðinni komu skipsmenn auga á annan smábát og reyndust vera í honum 10 Englendingar af skipi, sem hafði verið skotið í kaf með tundurskeyti. Hét það "Homela". Voru þessir skipsbrotsmenn mjög þjakaðir, enda höfðu þeir verið í bátnum í 4 sóiarhringa. Baldur fór með alla þessa menn til Fleetwood.

Alþýðublaðið. 12 mars 1941.

15.04.2017 11:38

L. v. Bjarnarey GK 12. LBGW / TFIG.

Línuveiðarinn Bjarnarey GK 12 var smíðaður í Florvaag í Noregi árið 1902. Eik og fura. 95 brl. 130 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Bjarni J Fannberg á Ísafirði frá 16 júlí árið 1929, hét fyrst Ölver ÍS 1. Hét Sandoy og Herlö áður en hann kom til landsins. Í árslok árið 1931 keyptu Högni Gunnarsson í Bolungarvík og Torfi Halldórsson í Reykjavík (Torfi á Þorsteini RE 21) þriðjungshlut í bátnum. Skipið var selt haustið 1933, Bjarna Gíslasyni og fl. í Hafnarfirði, hét Bjarnarey GK 12. 17 desember 1934 er Bjarni Gíslason einn eigandi skipsins. Skipið var endurmælt árið 1939, mældist þá 105 brl. Gæti hafa verið endurbyggt eitthvað þá. Ný vél (1946) 240 ha. Lister díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 24 nóvember árið 1962.


Bjarnarey GK 12 á síldveiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Bjarnarey GK 12 á síldveiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Línuveiðarinn Ölver ÍS 12 nær á pollinum á Ísafirði árið 1932-33. Við hliðina á honum eru 3 af Samvinnufélagsbátunum, þeir eru, Vébjörn ÍS 14, Ísbjörn ÍS 15 og Auðbjörn ÍS 17. 
                                                                                                            (C) Haraldur Ólafsson. 

Línuveiðarinn Bjarnarey var á suðurleið af síld með tómar tunnur til Ólafsvíkur 

Missti bátana, nætur og tunnur í brotsjó út af Horni

Þegar línuveiðarinn Bjarnarey frá Hafnarfirði var staddur út af Horni í fyrrinótt á suðurleið af síldveiðum fyrir Norðurlandi, fékk hann á sig mikinn brotsjó, svo að af tók davíða á báðum hliðum ásamt nótabátum, er í þeim héngu, og fleira tjón varð á skipinu. Bjarnarey, sem er eign Bjarna Gíslasonar útgerðarmanns í Hafnarfirði, var með allmikið af tómum tunnum meðferðis, sumt ofan þilja, og átti skipið að fara með þær til Ólafsvíkur.
Þegar skipið var komið vestur á móts við Horn í fyrrakvöld var komið versta veður, ofsarok á norðan og stórsjór. Fékk Bjarnarey þá aftan á sig geysimikinn brotsjó, er reið alveg fram yfir skipið. Nótabátarnir héngu í davíðunum, og voru nætur í þeim. Sleit báða bátana úr davíðunum og braut davíðurnar einnig. Nokkrar fleiri  skemmdir urðu, mastur brotnaði og stýrishús laskaðist, og mikið af tunnum þeim, er á þiljum voru, tók út. Í þessum hamförum mun einn skipverja hafa slasast nokkuð á fæti, en þó ekki brotnað. Ekki fór teljandi sjór niður í skipið, og gat það haldið ferðinni áfram og komst fyrir Horn. Hélt það síðdegis í gær inn til Þingeyrar til þess að fá sér björgunarbát og láta gera að fótarmeiðsli skipverjans. Þaðan mun skipið svo hafa haldið suður á leið í gærkveldi, því að ekki reyndist þörf á því, að við skemmdir á skipinu væri gert, áður en það héldi suður.

Tíminn. 28 ágúst 1952.   
Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852143
Samtals gestir: 62753
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 00:42:53