Færslur: 2017 September

30.09.2017 21:56

B. v. Garðar GK 25 á síldveiðum.

B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum um miðjan 4 áratuginn. Togarinn liggur hér við ankeri, sennilega á Húnaflóa. Skipverjar hafa lokið við að háfa úr nótinni og eru að koma henni í nótabátanna og gera klárt fyrir næsta kast. Skipið orðið vel hlaðið að sjá, kannski eitt kast í viðbót og þeir komnir með fullfermi. Síðan haldið til hafnar, trúlega inn á Reykjarfjörð og landað í Djúpavík. Garðar var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1930 og var þá stærsti togari Íslendinga, 462 brl og var í eigu Einars Þorgilssonar í Hafnarfirði. Skipstjóri á Garðari var Sigurjón Einarsson sem ætíð var í fremstu röð aflamanna og brautryðjandi ýmissa nýjunga og gætinn skipstjórnarmaður. Örlög Garðars urðu dapurleg. Hann var sigldur niður undan ströndum Skotlands 21 maí árið 1943. 3 menn fórust en 10 björguðust í skipsbát og var bjargað þaðan um borð í árekstrarskipið sem var Miguel de Larrinaga frá Liverpool.
B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum.                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Garðar GK landar síld í Djúpavík á stríðsárunum.                                        (C) Sigurjón Vigfússon.

30.09.2017 12:19

Síldveiðiskip við bryggju á Akureyri um 1930.

Á myndinni liggja þrjú síldveiðiskip sennilega við Torfunefsbryggjuna á Akureyri og árið er 1929 eða 30. Skipið til vinstri er Atli SU 460, skip verslunar Sigfúsar Sveinssonar á Norðfirði. Hét fyrst Hugó SI 15 og var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. Hét síðast Atli NK 1. Skipið var talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1937. Skipið í miðið er Noreg EA 133, skip Ingvars Guðjónssonar útgerðarmanns á Akureyri, smíðað í Moss í Noregi árið 1902. Ingvar átti skipið frá árinu 1929, þar til það var talið ónýtt og rifið á Akureyri árið 1937. Skipið til hægri er Nonni EA 290, smíðaður hjá Johann C Tecklenborg í Geestemunde í Þýskalandi árið 1891. Hét áður Helgi magri EA 290 og var í eigu Ásgeirs Péturssonar útgerðarmanns á Akureyri. Skipið var talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1935. Úti á Pollinum er erlent farþegaskip og léttbátur af því fullur af farþegum á leið í land.


Síldveiðiskip við bryggju á Akureyri árið 1929-30.                                      (C) Hallgrímur Einarsson.

24.09.2017 16:10

Skip Skinneyjar-Þinganess í Reykjavíkurhöfn.

Fjögur skip útgerðarfélagsins Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornfirði voru saman komin í Reykjavíkurhöfn í dag. Þau eru frá vinstri talin; Þórir SF 77, Skinney SF 20, Þinganes ÁR 25 og Steinunn SF 10. Það vantar bara Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgrím Halldórsson SF 250 í hópinn. Það mætti halda að skipin væru gerð út héðan frá Reykjavík. Sannarlega fallegur floti sem þeir eiga Hornfirðingarnir.


Skip Skinneyjar-Þinganess í Reykjavíkurhöfn í dag.


2731. Þórir SF 77.


2732. Skinney SF 20 og 2040. Þinganes ÁR 25.


2449. Steinunn SF 10.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 24 september 2017.

23.09.2017 20:27

Trillurnar á Norðfirði.

Þær hafa verið margar trillurnar gerðar út frá Norðfirði í gegn um tíðina, jafnt stórar sem smáar. Ég man þá tíð á Norðfirði að á árunum 1985-90 og jafnvel lengur, að á því tímabili voru gerðar út á annað hundrað trillur frá bænum. Ég man það að við vorum að landa úr þeim langt fram á kvöld og þegar síldin byrjaði í október, var það bara viðbót, það kom í okkar hlut, í frystihúsinu að landa síldinni til vinnslu í frystihúsið. Vinnutíminn var oft á tíðum 16 til 18 klukkustundir á dag. En þegar unnið er að því að bjarga verðmætum, var unnið nótt og dag til þess að bjarga því sem bjargað varð og vinnutíminn varð eftir því.


Trillur Norðfirðinga í bólum sínum. Neseyrin í baksýn. Húsin til vinstri eru verslunar og fiskverkunarhús verslunar Sigfúsar Sveinssonar. Húsið sem ber hæst er Lúðvíkshúsið. Hægra megin við það er Bátastöðin og slippurinn. Stjarnan ber í bátana í slippnum. Yst á eyrinni eru hús Dráttarbrautarinnar, en húsið sem ber í Dráttarbrautarhúsin er Þórsskúrinn. Hann var færður fyrir nokkrum árum og er nú staðsettur í fjörunni neðan við Norðfjarðarkirkju. 
(C) Björn Björnsson.

21.09.2017 17:46

Síld söltuð úr togaranum Baldri RE 146 á Akureyri í byrjun síðustu aldar.

Á myndinni er verið að salta síld úr botnvörpungnum Baldri RE 146 á Oddeyrartanganum á Akureyri árið 1913-14. Fátækt fólk sveitanna freistaði gæfunnar eftir betra lífsviðurværi við sjávarsíðuna. Akureyri var engin undantekning á því. Það elti drauminn um að lifa laust undan helsi fátæktarinnar. Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var síldin lausnarorðið í hugum þessa fólks. Þegar líða tók á 4 áratuginn, mátti heyra norður í Reykjarfirði á Ströndum hin fleygu orð; "Af síldinni öll erum orðin rík á Ingólfsfirði og Djúpavík". Síldin hefur löngum verið örlagavaldur í lífi þjóðarinnar, stundum var allt vaðandi í síld og þess á milli ekki neitt, en hún kærði sig kollótta um það, fór sínar eigin leiðir eins og sagt var í þá daga. 


Síld söltuð úr togaranum Baldri á Oddeyrartanga á Akureyri í byrjun síðustu aldar.
(C) Hallgrímur Einarsson.

19.09.2017 19:51

B. v. Apríl RE 151. LBMT.

Botnvörpungurinn Apríl RE 151 var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd í Middlesbrough á Englandi árið 1912 fyrir h/f Ísland (Íslandsfélagið) í Reykjavík. 295 brl. 510 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið kom til landsins í ágústmánuði það ár og fór strax á veiðar. Skipstjóri var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) og svo tók seinna við skipstjórn á Apríl, Þorsteinn Þorsteinsson, kenndur við Bakkabúð og seinna kenndur við Þórshamar. Apríl var einn af þeim tíu togurum sem seldir voru til Frakklands árið 1917.


B.v. Apríl RE 151.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Apríl RE 151 á Reykjavíkurhöfn. Hafnarframkvæmdir í fullum gangi.       Mynd á gömlu póstkorti.


Hlutabréf í Íslandsfélaginu.

          Botnvörpungurinn Apríl

Apríl heitir nýjasta viðbótin við botnvörpuflota Reykjavíkur. Skipið nýsmíðað, í Middlesbrough á Englandi. Það er 295,19 smál. brt. og er á stærð við þá Baldur og Braga, Thorsteinsons-botnvörpungana. Hefir kostað 165 þús. kr. Íslandsfélagið er eigandi skipsins. Skipstjóri er Hjalti Jónsson, stýrimaður Þorgrímur Sigurðsson og vélameistari Ólafur Jónsson.

Ísafold. 31 ágúst 1912.

   Botnvörpungurinn Apríl sektaður 

Í gær um miðjan dag kom botnvörpungurinn Apríl hingað til þess að láta sekta sig fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi. Valurinn hafði tekið hann fyrir utan Ólafsvík í landhelgi og falið Hjalta skipstjóra að fara með kæruna hingað, var hann sektaður um 1000 kr. og veiðarfæri gerð upptæk.

Ísafold. 6 nóvember 1912.

17.09.2017 07:33

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC.

Egill rauði NK 104 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 716. Togaranum var hleypt af stokkunum hinn 24 janúar 1947 og kom hann fyrst til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar 29 júní sama ár. Steindór Árnason skipstjóri í Reykjavík sigldi Agli heim, en hann hafði verið ráðinn framkvæmdastjóri útgerðarinnar. Fyrsti skipstjóri á Agli rauða var Hergeir Elíasson. 1 vélstjóri var Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík. Norðfjarðartogararnir Egill rauði og Goðanes voru fyrstu íslensku togararnir sem hófu veiðar á því svæði sem þjóðverjar kölluðu "Rosengarten" eða Rósagarðurinn. Á þessu svæði sem er um 90 til 110 sjómílur suðaustur af Stokksnesi,voru að jafnaði fjöldi þýskra togara sem öfluðu vel af hinum fagurrauða karfa sem einkenndi þessa gjöfulu veiðislóð. Egill rauði strandaði undir innra horni Grænuhlíðar, Teistanum í Ísafjarðardjúpi 26 janúar árið 1955. 5 skipverjar fórust en björgunarsveitum frá Ísafirði og víðar tókst að bjarga 29 skipverjum við hinar verstu aðstæður. Á strandstað togarans má ennþá sjá hluta af flaki hans, m.a. hluta af skrokki hans og margt fleira. Ég á mikið af myndum sem ég tók þarna í fjörunni af flakinu þegar ég var þarna á ferð sumarið 2005.


B.v. Egill rauði NK 104 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                     (C) Björn Björnsson.


B.v. Egill rauði NK 104 á toginu.                                                                      (C) Snorri Snorrason.


B.v. Egill rauði NK 104 með fullfermi í óþekktri höfn (erlendis). Sjá má á myndinni að segl hefur verið dregið yfir afla á dekki togarans.                   Ljósmyndari óþekktur.


Egill rauði á siglingu. Séð fram eftir dekkinu fram á hvalbak. Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Egill rauði í smíðum hjá Alexander Hall haustið 1946.                         Úr safni Hafliða Óskarssonar.


Fyrirkomulagsteikning af Agli rauða NK 104.                                                      Úr safni mínu.

      Egill rauði var tvo sólarhringa                  og 5 klst frá Aberdeen

Egill rauði, fyrsti bæjartogari Neskaupstaðar, kom þangað frá Englandi í fyrradag kl. 5 eftir tveggja sólarhringa og 5 klst. ferð frá Aberdeen. Er þetta fyrsti togarinn af 7 sem fyrrverandi ríkisstjórn samdi um smíði á þar. Hundruð bæjarbúa fögnuðu komu togarans á bryggjunni, sem var fánum skreytt og fánar blöktu við hún um allan bæ.
Kór undir stjórn Sigdórs Brekkan söng kvæði er Guðmundur Magnússon Vinaminni hafði ort í tilefni af komu togarans. Ræður fluttu af stjórnpalli skipsins, Hjálmar Jónsson bæjarstjóri, Bjarni Þórðarson stjórnarform. bæjarstj., Árni Vilhjálmsson erindreki frá Seyðisfirði, er var sérstakur fulltrúi Fiskifélagsins við móttöku togarans, og Lúðvík Jósefsson alþingismaður, en mannfjöldinn hyllti skipshöfn og skip með margföldu húrrahrópi. Að því loknu skoðaði almenningur skipið og þótti sérstaklega mikið til um íbúðir skipshafnar. Um kvöldið hafði bæjarstjórn boð inni fyrir skipshöfnina og bæjarbúa almennt og sóttu það á þriðja hundrað manns. Jóhannes Stefánsson stjórnaði hófinu. Sr. Guðmundur Helgason flutti ræðu en Guðrún Gísladóttir, formaður Slysavarnafélags kvenna flutti kvæði. Þá var almennur söngur. Jón Guðmundsson eftirlitsmaður ríkisstjórnarinnar með smíði togaranna í Englandi gaf glögga lýsingu á skipinu. Kvað hann Egil sérstaklega vandaðan að öllum frágangi og væru nýsköpunartogararnir íslenzku taldir með glæsilegustu fiskiskipum í heimi. Egill rauði er 648 tonn eða 6 tonnum stærri en Ingólfur Arnarson. Ganghraði hans í reynsluför var 13,5 sjómílur. Olíueyðsla er minni en á hinum fyrri togurum, eða 6,7 tonn á sólarhring með 11,4 mílna gangi. Bæjarútgerð Neskaupstaðar er eigandi skipsins, stjórn hennar skipa, Bjarni Þórðarson formaður, Lúðvík Jósefsson og Eyþór Þórðarson. Framkvæmdastjóri er Steindór Árnason. Skipstjóri er Hergeir Elíasson, 1. vélstjóri Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík, en 14 menn af áhöfninni eru úr Neskaupstað. Skorsteinsmerkið er hvít stjarna á alrauðum reykháf. Egill rauði leggur af stað til Reykjavíkur í dag en þar á að setja í hann bræðslutæki.

Þjóðviljinn. 1 júlí 1947.

    Norðfjarðartogararnir veiða karfa                         á nýjum miðum

Togarinn Egill rauði kom inn í fyrradag með 330 tonn af karfa, sem fóru til vinnslu á þremur stöðum á Austfjörðum.
Á Seyðisfirði voru lögð upp 140 tonn og voru 40 tonn af þeim hraðfryst. Á Norðfirði losaði togarinn 190 tonn og fóru 58 tonn til Eskifjarðar til hraðfrystingar. Karfi þessi, sem er ekki mjög stór en mjög fallegur, er veiddur á miðum út af Austfjörðum, sem íslenzkir togarar hafa ekki áður sótt, en þar eru hinsvegar að staðaldri um 30 þýzkir togarar, sem kalla miðin Rosengarten eða Rósagarðinn. Á miðunum er 250 til 285 faðma dýpi. Norðfjarðartogararnir, Egill rauði og Goðanes, munu halda áfram karfaveiðum. Þessar veiðar skapa mikla vinnu, um 250 manns á Norðfirði, Seyðisfirði og Eskifirði fengu vinnu við losun og vinnslu aflans úr þessari veiðiferð Egils rauða.

Þjóðviljinn. 5 júlí 1951.

16.09.2017 08:45

B. v. Júlí GK 21. TFVD.

Júlí GK 21 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum 24 janúar sama ár og kom hann til heimahafnar, Hafnarfjarðar hinn 16 nóvember 1947. Benedikt Ögmundsson var fyrsti skipstjóri á Júlí og kom hann jafnframt með togarann heim. Benedikt var áður skipstjóri á Maí. Fyrsti stýrimaður var Árni Sigurðsson og fyrsti vélstjóri var Bjartur Guðmundsson. Júlí var fyrsti Nýsköpunartogari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Togarinn fórst á Nýfundnalandsmiðum 8 febrúar árið 1959 með allri áhöfn, 30 mönnum. Hörmulegt sjóslys.

 
B.v. Júlí GK 21.                                                                            Málverk eftir George Wisemann.
 
Júlí GK 21 í Reykjavíkurhöfn í togaraverkfallinu árið 1950. Innan við júlí má sjá í Egil rauða NK 104, togara Bæjarútgerðar Neskaupstaðar.            (C) Hannes Pálsson.
 
B.v. Júlí GK 21.                                                                              (C) Sigurgeir B Halldórsson.
 
B.v. Júlí GK 21 í Færeyingahöfn á Grænlandi.                                       (C) Árni Einarsson.
 
          Tvö ný skip bættust við íslenska                              skipastólinn um helgina

Tvö ný og glæsileg skip bættust í íslenzka skipaflotann um helgina. Nýsköpunartogarinn Júlí kom til Hafnarfjarðar á sunnudaginn og nýja kæliskipið Foldin kom til Reykjavíkur í gærmorgun.
Áður í þessum mánuði höfðu komið nýsköpunartogarinn Askur og vitaskipið Hermóður. Von er á fleiri nýsköpunartogurum í næsta mánuði. Júlí er fimmtándi nýsköpunartogarinn, sem kemur á þessu ári. Áður voru komnir: Akurey, Askur, Bjarni Ólafsson, Bjarni riddari, Egill rauði, Egill Skallagrímsson, Elliðaey, Elliði, Geir, Helgafell, Hvalfell, Ingólfur Arnarson, Kaldbakur og Surprice. Júlí er fyrsti  nýsköpunartogarinn sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar eignast.

Þjóðviljinn. 18 nóvember 1947.

15.09.2017 21:42

Gandur NK 85.

Vélbáturinn Gandur NK 85 var umbyggður í Mjóafirði árið 1925. Fura. 5 brl. 11 ha. Alpha vél. Eigandi var Sveinn Ólafsson í Mjóafirði frá árinu 1925. Hét þá Gandur SU 343. Á því ári var báturinn endurbyggður og lengdur í Mjóafirði og mældist þá 9 brl. Seldur 31 október 1931, Magnúsi Tómassyni og Ólafi Jóni Ólafssyni í Mjóafirði. Ný vél (1932) 16 ha. Wichmann vél. Seldur 18 janúar 1941, Svavari Víglundssyni og Haraldi Hjálmarssyni í Neskaupstað, hét Gandur NK 85. Báturinn fórst í róðri 4 október árið 1942 með allri áhöfn, 5 mönnum. Getgátur voru um að báturinn hefði farist af hernaðarvöldum, en það er óstaðfest.


Gandur NK 85 í bóli sínu á Norðfirði í suðvestan roki.                            (C) Björn Björnsson.


Gandur SU 343 fyrir lengingu í Mjóafirði.                                 Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

 Vjelbáts með fimm mönnum saknað

Vjelbáturinn Gandur frá Norðfirði fór í róður um morguninn síðastliðinn fimmtudag. Síðan hefir ekkert til bátsins spurst, en menn eru þó ekki vonlausir um að báturinn sé ofansjávar. Bátar frá Norðfirði leituðu Gands í fyrradag og í gær var skipulögð leit að bátnum. Lofaði norski flugliðsforinginn að senda flugvjelar til að leita að bátnum. Veður hefir ekki verið það slæmt við Austfirði, að óttast sje, að báturinn hafi farist, hinsvegar er ekki talið ólíklegt, að vjelarbilun hafi orðið hjá bátnum og þar sem hann hafði Ijelegan seglaútbúnað hafi hann rekið til hafs. Slysavarnafjelagið hefir gert ráðstafanir til þess, að allt verði gert sem mögulegt er til að finna bátinn ef hann er enn þá ofansjávar.
Fimm bátar leituðu í gærdag Gands, 47 sjómílur út frá landi og á alllöngu svæði. Enn fremur leituðu tvær norskar flugvjelar 60 mílur til hafs, en leitin bar engan árangur, þrátt fyrir að veður væri bjart.

Morgunblaðið. 4 október 1942.

             M.b. Gandur talinn af

Vjelbáturinn "Gandur" frá Norðfirði, er talinn af. Er leitinni að bátnum hætt. Fimm menn hafa farist með Gandi: Mennirnir voru:
Sigþór Valdimar Runólfsson, formaður, Eskifirði, lætur eftir sig ekkju og 1 barn.
Bjarni Vilhelmsson, Neskaupstað, kvæntur og átti 7 börn í ómegð.
Óskar Marvin Svendsas, Neskaupstað, ungur maður og ókvæntur.
Sigurður Jónsson, Neskaupstað, 15 ára gamall piltur.
Herjólfur Þorsteinsson, Reykjavík, lætur eftir sig ekkju og 1 barn.
Bátar hættu leitinni að Gandi á laugardagskvöld en flugvjelar hjeldu áfram leitinni á sunnudag.

Morgunblaðið. 6 október 1942.

11.09.2017 19:57

Botnvörpungurinn Víðir GK 450 á heimleið af Halamiðum.

Botnvörpungurinn Víðir GK 450 frá Hafnarfirði, vel klakabrynjaður á landleið, sjálfsagt af Halamiðum. Guðbjartur Ásgeirsson tók þessa mynd árið 1917, en hann var þá matsveinn á togaranum. Á þessum tíma voru skipstjórar togaranna að komast upp á lag með að nýta sér þessi fengsælu fiskimið út af Vestfjörðum og sóttu hart á Halann og út í Djúpálinn. Það má því gera ráð fyrir að Víðir hafi verið að koma þaðan eftir barninginn á þessu víðsjárverða hafsvæði á þeim árstíma þegar allra veðra er von. Falleg en í senn kuldaleg mynd.


B.v. Víðir GK 450 klakabrynjaður á heimleið.                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

10.09.2017 09:16

Stella NK 61. LBVP / TFVI.

Stella NK 61 var smíðuð hjá Brödrene Andersen Baadebyggeri og Savskæreri í Frederikssund í Danmörk árið 1910; tvísigld mótorskonnorta, karvel byggð úr eik og lerki, 34,40 brúttótonn að stærð, 10,93 nettótonn, 49,9 fet (15,21 m) á lengd, 17,2 fet (5,24 m) á breidd og risti 7,1 fet (2,16 m). 65 ha. Bolinder vél (1917). Stella var afhent eiganda fyrir 1. mars 1910. Eigandi var Verslun Þorbjargar Runólfsdóttur á Nesi í Norðfirði. Þorbjörg nefndi hana Stellu SU 3.
Stella flutti vörur frá Thor E. Tulinius & Co. í Kaupmannahöfn til Norðfjarðar. Hún sigldi frá Danmörku þann 3. maí 1910 og kom til Norðfjarðar 12. maí. Eftir komuna til Norðfjarðar var hún skrásett og gefið út fiskiveiðaskírteini fyrir hana, hvort tveggja gert 14. maí 1910.
Stella var í eigu Þorbjargar Runólfsdóttur og afkomenda hennar allt til ársins 1954.
Um tíma (1917-1934) var Stella gerð út frá Akureyri og skráð Stella EA 373. Á þeim tíma var Verslun Snorra Jónssonar á Akureyri meðeigandi að Stellu ásamt Sigfúsi Sveinssyni, syni Þorbjargar Runólfsdóttur.
Árið 1913 var Stella lengd á Akureyri og árið 1920 var settur á hana skúti, styrkt bönd og styttur, einnig er settur á hana nýr skans. Þessi breyting fór fram á Akureyri og árið 1927 voru þar enn gerðar breytingar á skipinu. Þá var hluti þilfarsins endurnýjaður, sett grind undir mótorhúskappa, tveir þverbitar og allir styrkbitar settir nýir. Einnig var sett nýtt afturmastur, skammdekk og hástokkar settir nýir á parti.
Árið 1934 er Stella umbyggð og stækkuð á Norðfirði af Peter Vigelund, kunnum skipasmið. Mældist þá 64 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 140 ha. Wichmann díesel vél. Þá var gefið út skipasmíðaskírteini fyrir hana, dagsett þann 7. júlí 1934. Í því er hún nefnd Stella NK 61. Eigandi er þá skráður Verslun Sigfúsar Sveinssonar í Neskaupstað. Þann 13. janúar 1935 andaðist Sigfús Sveinsson kaupmaður, 59 ára gamall. Eftir það sá Guðmundur Sigfússon sonur hans um rekstur verslunarinnar sem hélt nafni sínu óbreyttu. Stella var gerð út í báðum heimsstyrjöldunum og sigldi mikið með fisk til Englands í seinna stríðinu. Ný vél (1947) 200 ha. Ruston díesel vél.
Árið 1954 var Stella seld til Útgerðarfélags Grindavíkur og fór alfarin frá Norðfirði miðvikudaginn 15. desember 1954. Eftir eigendaskiptin varð heiti skipsins Stella GK 350.
Aðfaranótt þriðjudagsins 27. ágúst 1962 sökk vélbáturinn Stella GK 350 frá Grindavík, en fimm manna áhöfn bátsins bjargaðist um borð í vélbátinn Flóaklett frá Hafnarfirði. Þegar þetta gerðist var Stella á humarveiðum um 10-15 sjómílur norður af Eldey.     


Stella NK 61 á Norðfirði á stríðsárunum.                                                     (C) Björn Björnsson.


Stella eins og hún leit út upphaflega. Myndin er tekin árið 1914 á Akureyri.    Ljósmyndari óþekktur.

         Humarbátur sökk í fyrrinótt

Í fyrrinótt sökk 64 tonna humarveiðibátur, Stella, frá Grindavík skyndilega norður af Eldey. Áhöfnin, fimm manns, komst í gúmmíbjörgunarbát og bjargaðist yfir í annað skip. Mbl. náði í gær tali af stýrimanninum á Stellu, Hauki Kristjánssyni í Hafnarfirði. Sagðist honum svo frá, að báturinn hefði verið staddur á 80 faðma dýpi 10-15 mílur norður af Eldey kl. tvö um nóttina þegar mikils leka varð vart. Skipverjar luku við að koma humarnum úr fyrsta holinu fyrir um kl. hálftólf um kvöldið, en lögðust síðan til svefns nema vaktmaður. Á humarveiðum þýðir lítt sem ekki að veiða yfir mesta dimmutímann, svo að venja er að sjómennirnir leggist til hvíldar á meðan. Kl. rétt fyrir tvö voru vaktaskipti. Skömmu síðar taka vaktmennirnir eftir því, að sjór flæðir af miklu afli úr lestinni og inn í vélarrúmið. Var greinlegt, að allhátt myndi vera orðið í lestinni. Skipstjóri, Einar Jónsson, var nú vakinn og eins þeir, sem frammi í sváfu.
Skipti það engum togum, að svo mikill sjó flæddi í vélarrúmið, að hátt var orðið á vélinni eftir stutta stund. Flugeldi var nú skotið á loft og gúmmíbáturinn blásinn út. Ekki vannst tími til þess að kalla í talstöðina, enda hæpið, að hlustað sé á þessum tíma. Kom það í ljós síðar, að flugeldurinn sást frá einum báti, Stafnesi, sem fór þegar að leita. Stukku skipverjar, fimm að tölu, nú út í gúmmíbátinn, og greip skipstjóri um leið með sér skilrúmsborð (stíufjalir). Var róið með þeim í áttina að næsta skipi. Gott var í sjóinn og blankalogn. svo að ljós nærliggjandi humarbáta spegluðust í sjónum. Þegar klukkuna vantaði 23 mínútur í þrjú, sökk Stella. Nokkru síðar kom áhöfnin af Stellu að Flóakletti, þar sem hún fékk forkunnar góðar móttökur hjá Einari Símonarsyni skipstjóra og mönnum hans. Hélt Flóaklettur síðan til lands og var komina þangað um kl. hálfsex í gærmorgun. Að lokum sagði Haukur, að ekki væri nokkur vafi á því, að gúmbáturinn hefði bjargað lífi þeirra Stellumanna.
Stella var 64 tonna bátur, smíðaður í Danmörku árið 1910, en var umbyggður á Norðfirði árið 1934.

Morgunblaðið. 29 ágúst 1962.

Smíðaupplýsingar og saga skipsins er frá 
Héraðsskjalasafninu í Neskaupstað.

06.09.2017 20:27

Önundarfjörður.

Þessi mynd er tekin á Önundarfirði, fjallið Þorfinnur til hægri handar, hátt, bratt og tignarlegt. Hinu megin fjarðarins er kauptúnið Flateyri. Togararnir leituðu oft hafnar á Vestfjörðum, til að fá gert við ef bilerí kom upp eða að fá aðra þjónustu sem þeir þurftu á að halda. Einnig leituðu þeir þangað í var undan vondum veðrum, enda firðirnir skjólgóðir undan norðan og norðvestan óveðrum. Halaveðrið mikla í febrúar árið 1925 færði mönnum heim þá staðreynd að togararnir, hversu stórir sem þeir væru, gætu hæglega farist á rúmsjó. Eftir Halaveðrið varð mönnum ljóst og þá sérstaklega skipstjórum togaranna, að viturlegra væri að leita vars upp við landið en að halda sjó á rúmsjó í óveðrum. Togarinn sem ber í fjallið Þorfinn, og er á útleið, er að ég held örugglega Beverley smíð. Nokkuð viss um að þetta er togarinn Venus GK 519 frá Hafnarfirði. Hér fyrir neðan er grein sem skrifuð er í Sjómannablaðið Víking í mars árið 1947. Höfundur greinarinnar er óþekktur, en kvittar undir sem "Togaramaður". Merkileg og skemmtileg lesning hjá honum.

Togari á útleið frá Flateyri við Önundarfjörð. Gæti verið Venus GK 519. Mynd úr safni mínu.
 
Togarar við bryggju á Flateyri.                                                    Mynd úr Víkingnum.
 
Flateyri við Önundarfjörð og fjallið Þorfinnur handan fjarðar fyrir ekki löngu síðan. (C) Martin Ystenes.

                    Önundarfjörður.

Mig hefur ekki undrað eins mikið á neinu á þessum tímum nýsköpunarinnar í íslenzku atvinnulífi, eins og því að sjá aldrei skrifað og og heyra aldrei talað um Önundarfjörð. Við, sem höfum verið á togurunum, vitum hvers virði sá staður er fyrir íslenzka togaraútgerð. Á Halanum, auðugustu fiskimiðum í heimi, hefur togaraflotinn íslenzki haldið sig 8—10 mán. ársins, en lífhöfnin undan stórviðrunum þar hefur verið Önundarfjörður. Það er stytzt á Halann frá Önundarfirði af öllum höfnum, og skipstjórarnir halda sig þar í óveðrum vegna þess að þeir vita manna bezt, hvers virði það er að vera fyrstur á miðin. Þegar staðið hafa stórviðri dögum saman, er ekki nýtt að sjá meginhlutann af togaraflotanum liggjandi á Önundarfirði og það er sama hver veðurofsinn er, aldrei „rekur“ skip sem liggur á Önundarfirði, hvaðan sem hann blæs, því þar er skjól fyrir hafsjóum í öllum áttum, auk þess sem botnlagið er þannig um allan fjörðinn, að ekki verður á betra kosið, enda sést þar ekki eitt einasta hálft eða heilt skipsflak liggjandi í fjörunni, eins og sjá má víða annarsstaðar. Áður en farið var að byggja hafnir hér á landi var höfnin á Önundarfirði talin ein af þrem beztu höfnum landsins, ásamt höfnunum á Akureyri og Ísafirði. Enda þótt togararnir séu gerðir út frá Reykjavík og nágrenni, hafa þeir meiri og minni viðskipti er þeir koma til hafna, ekki sízt ef veiðiferðirnar verða langar vegna veðurs. ókunnugir mættu ætla, að á slíkri höfn, sem Önundarfjörður er fyrir togaraflotann, væru yfirleitt til allir hlutir, sem togararnir þurfa á að halda, en því er nú ekki alveg þannig varið. Fyrsta skilyrði til afgreiðslu er bryggja.
Undanfarin ár hafa togararnir notast mikið við bryggju ríkisverksmiðjunnar á Sólbakka, en síðan hætt var að reka þá verksmiðju, hefur bryggjan gengið mjög úr sér og má nú heita hættuleg gangandi mönnum. Er þá ekki um aðra bryggju að gera en bryggjuna á Flateyri, sem er svo lítil, að þar er aðeins hægt að afgreiða eitt skip í einu, og þar að auki svo léleg, að bílum er bannað að fara fullfermdum eftir henni. Afgreiðsla togaranna gengur af þessum sökum afar seint og verða þeir stundum að fara óafgreiddir, sem seinastir koma. Þá mætti ætla, að á Flateyri væri bæði tré- og járnsmíðaverkstæði, sem togararnir gætu snúið sér til með a. m. k. smáviðgerðir. Mér er ekki kunnugt um nein slík verkstæði. Mér er sagt, að kolasalan á Flateyri hafi gert ítrekaðar tilraunir til þess að fá stímkol þangað, til þess að selja togurunum, en ekki fengið það. Hefur það orðið til þess að togararnir hafa orðið að senda kolaslatta með smábátum, eða láta þau á land sjálfir úr boxunum. Hefur á undanförnum árum mátt sjá smá-kolabyngi um alla Flateyri, sem hver togari um sig hefur átt. Sjá allir, hver sóun það er á vinnuafli og fjármunum, að vera með kolin í slíkum smáslöttum, heldur en að fá skip sem losaði út á Flateyri. Hið eina sem virðist vera í sæmilegu lagi hvað aðbúnað snertir til að taka á móti togurunum á Flateyri, er sjúkraskýlið, sem reist var þar fyrir stuttu síðan, og mér er sagt, að ekki væri komið upp ef skipshafnir togaranna og útgerðarmenn þeirra hefðu ekki verið jafn rausnarlegir í gjöfum sínum til þess og þeir voru.
Það má enginn taka þessi orð mín svo, að ég sé að kenna allt þetta slóðaskap Önfirðinga, því við því er tæplega að búast, að 3—4 hundruð manna hreppsfélag geti fullnægt þörfum skipanna, ekki betri en aðstaðan er. Meining mín með þessum línum er einungis sú, að benda á hversu mikils virði þessi staður er fyrir togaraútgerðina og um leið fyrir þjóðina í heild. Ég held að þjóðin hafi ekki efni á því að láta vera að gera á Flateyri við Önundarfjörð:
1. Það stóra bryggju, að hægt sé að afgreiða þar a. m. k. 3 togara í einu.
2. Eldsneytisbirgðastöð, sem hefði bæði kol og dieselolíu fyrir nýju togarana.
3. Verkstæði, sem framkvæmt gæti a. m. k. allar smærri aðgerðir fyrir togarana.
4. Kaldhreinsunarstöð fyrir lýsi, svo ekki þurfi að flytja allt lýsið óhreinsað til Reykjavíkur, sem lagt er þar á land, eins og gert hefur veiáð að undanförnu.
Þetta eru hlutir sem verða að gerast strax, til hagsbóta fyrir undirstöðu-atvinnuveg þjóðarinnar, togaraútgerðina og þar með alla þjóðina.

Togaramaður.
Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1947.

 
 
 
 
 
 

05.09.2017 21:07

Bryggjurnar á Norðfirði.

Þær voru margar bryggjurnar á Norðfirði, sérstaklega á árunum upp úr 1920 og fram undir 1960-65 er þeim tók að fækka. Hver útgerð hafði sína eigin bryggju og má því segja að strandlengjan frá Naustahvammi í botni fjarðarins og alla leið út á Nes væri svo gott sem þakin bryggjum og kannski ekki skrýtið að þær hafi orðið leikvöllur ungu kynslóðarinnar í gegn um áratugina. Nú er lítið eftir sem minnir á sögu þessa liðinna tíma. Fáar eru þær eftir í dag og má nefna eina þeirra, ytri bæjarbryggjuna, en Hafnarhúsið stendur við hana. Þar er nú til húsa Smiðjumunasafn Jósafats Hinrikssonar og málverkasafn Tryggva Ólafssonar svo eitthvað sé nefnt. Innri bæjarbryggjan, aðalbryggja Norðfirðinga, þar til uppfyllingin neðan við Steininn og Kastalann var tekin í notkun árið 1963-64, var talsvert vestar. Á síldarárunum seinni var söltunarstöðin Sæsilfur með aðstöðu sína þar og reisti stálgrindarhús á henni. Síðar var það hús notað af trillusjómönnum á Norðfirði þar sem þeir höfðu aðstöðu til beitningar og fleira.


Ytri bæjarbryggjan á Norðfirði. Við bryggjuna liggja Magnús NK 84 og Stella NK 61. Til vinstri sér í vesturgafl Hafnarhússins. Myndin er tekin á Sjómannadaginn árið 1943.  (C) Björn Björnsson.


Húsið til vinstri er Steinninn, en þar fram af var gerð mikil uppfylling á árunum 1961-63 eða 64 og fékk það virðulega nafn að vera kölluð"bæjarbryggja". Stóri vélbáturinn í fjörunni neðan við Þórhólinn er Íslendingur NK 58, smíðaður í Neskaupstað árið 1936. Hann fórst í Faxaflóa 1 mars 1973 og með honum áhöfnin, 2 menn. Hét þá Íslendingur HU 16 og var gerður út frá Hvammstanga. Myndin er trúlega tekin um 1940.        (C) Björn Björnsson.

04.09.2017 20:12

Bryggjustrákar á Norðfirði árið 1951.

Það er af sem áður var þegar allar bryggjur voru morandi í krökkum með færin sín að renna fyrir þeim gula, eða í versta falli að fá Marhnút á öngulinn. Snemma beygist krókurinn eins og sagt er. Sannarlega upprennandi sjómenn hér á ferðinni. Ætli þeir hafi veitt Þyrsklinginn og spyrt hann og hengt hann síðan upp á bryggjustauranna, hver veit. Þessa mynd tók Björn Björnsson ljósmyndari sumarið 1951. Gaman væri að vita hvaða guttar þetta eru. Það er vonandi einhver sem veit það.


Ungir Norðfirðingar renna fyrir fisk.                                                                      (C) Björn Björnsson.

03.09.2017 08:36

Skútuöldin.

Í lok 19 aldar gafst okkur íslendingum tækifæri til hagstæðra kaupa á stórum seglskipum til meiri sóknar en á litlum þilskipum, og fór þetta saman við erfiðleika í árabátaútvegi við Faxaflóa. 2 janúar 1897, birtist grein í Ísafold, þar sem segir að árabátaútgerð í Reykjavík og Seltjarnarnesi verði á komandi vetri, sem svarar 1/4 til 1/6 % af því, sem verið hafi fyrir tíu árum. Þá var komið að því að leita varð nýrra úrræða. Togara gátum við ekki keypt. Til þess var engin fjárhagsgeta og engin kunnátta. Þessi skip höfðu vakið mikinn ótta, þegar þeirra varð vart hér við landið 1889. Alþingi brást þá hart við til að stemma stigu við þessum vágesti, sem menn töldu boða landauðn, ef ekkert væri að gert til varnaðar. Botnvörpuveiðar voru bannaðar í landhelgi Íslands. Rétt í þann mund, sem erfiðleikarnir steðjuðu að árabátaútgerðinni og menn sáu ekki önnur úrræði en reyna að auka þilskipaútgerð og einkum var það svo í Reykjavík og Seltjarnarnesi.

 
Kútter Hákon RE 113. LBPH. Hét áður Haraldur MB 1, smíðaður í Rye á Englandi árið 1878. 74 brl. Skipið strandaði við Grindavík 9 maí árið 1926. Mannbjörg.           (C) Magnús Ólafsson. 

Í þennan tíma voru Englendingar að leggja af sér segltogara sína. Segltogarafloti Englendinga var feykilega fjölskipa, á þriðja þúsund slíkra skipa gerð út frá austurströnd Englands og Skotlands og sótt á þeim í Norðursjó með botnvörpu. Við íslendingar kölluðum þessi skip kúttera, drógum það af enska orðinu "cutter", dregið af þverhníptu stefni skipanna. Sem togskip voru kútterarnir kallaðir "smacks". Bretar tóku að leggja þessum skipum þegar þeir hófu togveiðar á gufutogurum á níunda áratugnum og lögðu segltogurunum mjög ört. Árið 1887 voru 450 segltogarar í Hull, en 1903 enginn. Grímsbæingar voru aðeins seinna á ferð. Þaðan gekk 471 segltogari 1901, en 1903 var þar enginn. Víðar gerðist sama sagan á austurströnd Englands og Skotlands. Það var því úr nógu að velja 1897 og fyrstu árin sem við íslendingar stóðum í kútterakaupum. Kútterarnir voru miklu stærri og betri seglskip en við áttum fyrir og kaupverðið ekki nema sem svaraði einum fjórða af raunverulegu verði skipanna, fjögur til fimm þúsund krónur, algengt verð á nýlegum kútterum. Þetta varð okkur Íslendingum aldeilis veizla. Geir Zoéga, átti sem fram er komið, óumdeilanlega stærstan hlut að því að koma fótum undir þilskipaútgerð í Reykjavík, enda kölluðu samtímamenn hans hann föður Reykjavíkur í skálaræðum.


Kútter Bergþóra RE 54. LBPM. Smíðuð í Goole á Englandi árið 1881. 85 brl. Skipið var selt til Færeyja 16 febrúar 1914.                                                          (C) Magnús Ólafsson.

En af þeim mönnum, sem mest unnu að því að efla þessa útgerð með Geir, eru þeir Tryggvi Gunnarsson, Landsbankastjóri 1893 (Landsbankinn stofnaður 1885) og Markús Bjarnason, skipstjóri og stýrimannaskólastjóri. Geir er enn eitt dæmið um hversu örlagaríkt það gat reynzt í uppbyggingu byggðarlaga, að þar væri maður, sem risi uppúr fjöldanum að áræði, dug og skynsemd til framkvæmda. Efalaust er það, að Geir ásamt því að vera frumkvöðull 1866, gerir hann stærsta átakið og afdrifaríkasta að hluta með Tryggva í ráðum með sér.
Snemma árs 1897 fór Geir, kominn undir sjötugt, út til Englands og kaupir 5 kúttera, (þrjá fyrir sjálfan sig) sem komu hingað út í marz 1897. Reykvíkingar ættu að halda þessu ártali vel til haga. Nú tók að færast aukið líf í Reykjavík til að umskapast úr dönsku stjórnsýslu- og verzlunarplássi í íslenzkan útgerðarbæ, sem hófst til foryztu í íslenzkri stórútgerð, þótt finna mætti stærri einstaka útgerðarmenn á nokkrum stöðum, framan af kútteratímanum. Svo er talið (Matthías Þórðarson), að við íslendingar höfum keypt 100 kúttera af Englendingum á þremur til fjórum árum um aldamótin (1897- 1901). Nokkuð var einnig keypt af þilskipum frá Noregi og Danmörku á sama tíma.


Kútter Sigga. Smíðuð í Danmörku árið 1900. Stærð óþekkt. Var með 10 ha. hjálparvél af Dan gerð. Skipið var selt H.P. Duus árið 1904. Fékk nafnið Ingvar. Skipið fórst á Viðeyjarsundi 7 apríl árið 1906 með allri áhöfn, 21 manni.                                              Ljósmyndari óþekktur. 

Engin áreiðanleg tala er til um þilskipafjölda í landinu, þegar kútteraöldin eykst, en eflaust voru þau orðin þegar kútteraöld hefst 1897 á annað hundrað þessi litlu skip, 10-30 tonn, með 8-15 manna áhöfn, en nú tóku menn að leggja þau af og endurnýja þann skipaflota með kútterum, 50-100 tonna, með 15-30 manna áhöfn. Reykjavík varð stærsti kútterabærinn með 32-42 skip á blómatíma kútteranna. Á árunum 1905/06 hafa þeir orðið flestir í Reykjavík 42 og til viðbótar 4 á Seltjarnarnesi, en allt fram til 1910 voru þeir aldrei færri en 32, sem gengu frá Reykjavík, með um 700 sjómönnum, og um þúsund manns, þegar kútterarnir voru flestir. Eins og fólksfjölgunin í Reykjavík á árunum 1880-90 var eignuð litlu þilskipunum, sem þá voru fyrir landi í Reykjavík, var fólksfjölgunin 1890- 1901 eignuð kútteraútgerðinni, en þá var fólksfjölgunin 72% frá 1890- 1901, eða úr 3.886 í 6.682 og árin 1900-1910 um álíka prósentutölu 73%, eða úr 6.682 í 11.539.

 
Kútter Seagull RE 84. LBJQ. Smíðaður í Englandi (Hull ?) 86 brl. Skipið var síðast gert út af H.P. Duus hér á landi fram yfir 1920. Óvíst hvað varð um skipið.         (C) Magnús Ólafsson.

Fólki var nú tekið að fjölga í landinu eftir hallærisárin og fjölgunin 1% á ári eða um 10% á sama tíma (1900- 1910) og í Reykjavík fjölgar um 73%. Útsvörin segja söguna líka. Þau hækkuðu á fimm árum (1895-1900) úr kr. 20.550 í kr. 30.808, og 1910 höfðu þau aukist í 92.385 krónur. Fjölgun fólks í Reykjavík varð náttúrlega af fleiri orsökum en aukinni þilskipaútgerð, iðnaðarmönnum fjölgaði í bænum, húsbyggingar til dæmis miklar, einnig fjölgaði verzlunarmönnum í sambandi við stórverzlanir sem hér risu upp, fólksfjölgun fylgdi og aukin stjórnsýsla með Heimastjórn 1904 og ýmsum stofnunum, svo sem tveimur bönkum, og auknum umsvifum í bæjarrekstrinum. Undirrótin var þó að verulegu leyti þilskipaútgerðin og það fjármagn og vinna sem henni fylgdi til lands og sjós. Kútteraútgerð reyndist fljótt hafa sína vankanta. Eins og fyrr segir gátum við íslendingar í fyrstu valið úr skipum í Englandi til kaups, en þegar framí sótti reyndust mörg skipanna slitin og þurfa mikið viðhald.


Kútter Surprise GK 4. LBTH. Smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1886. 70 brl. Skipið var gert út af Útgjörðarfélaginu við Hafnarfjörð (Einari Þorgilssyni) frá 13 ágúst árið 1900. Talið ónýtt og rifið, ekki vitað hvenær það var.                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 

Tryggvi Gunnarsson sagði að þilskipin hafi greitt kaupverð sitt á þremur árum, en þeirri hagnaðarútgerð brá skjótt til hins verra. Það reyndist erfitt að manna skipin jöfnum færamönnum og tekjur manna reyndust mjög misjafnar á þeim, algengt að lægsti maður dragi ekki nema fjórðung móts við hæsta mann. Erfiði var mikið og aðbúnaður slæmur. Þröngt var um menn í lúkarnum, tvísett í margar kojur, skrínurnar tóku mikið pláss og skrínukosturinn geymdist illa, myglaði og þránaði. Eina nýmetið var soðningin. Engin var bryggjan í Reykjavík til að landa við úr skútum og þær lágu framá höfn og landað í uppskipunarbáta, og borinn uppúr þeim fiskurinn á handbörum lengi vel en síðar notaðar kerrur. Þessi uppskipun var erfitt verk og gat verið hættulegt, ef ókyrrt var í sjóinn á höfninni. Þegar þessu löndunarstreði var lokið tók við saltburður og útskipun í skútuna. Vatnsburðurinn var eitt erfiðisverkið. Vatn var tekið úr vatnspóstinum uppi í Aðalstræti og flutt til skips í tunnum (síðar belgjum).


Kútter Ása GK 16. LBCQ. Smíðuð í Calmton á Englandi árið 1886. 89 brl. Var með hjálparvél. Gerð út af H.P. Duus. Skipið strandaði við Hvalsnes 10 október árið 1919. Mannbjörg. Ljósmyndari óþekktur.

Þá varð það og svo, sem úrslitum réði að skjótt varð um þilskipaútgerðina að skipin reyndust meiri slysagildrur en árabátarnir höfðu verið, og var það þveröfugt við það, sem menn höfðu haldið. Á þremur áratugum (1881-1910), drukknuðu 2096 manns. Og voru þá drukknanir 83 af hundraði allra slysfara í landinu. Þær voru þá ferfalt tíðari hér en í Noregi. Á síðara hluta ofannefnds tímabils 1904-10 fórust að meðaltali 15 af hverjum 1000 skipverjum á þilskipum, og af þilskipum drukknuðu tiltölulega fleiri menn en af árabátum. Árið 1887 drukknuðu 124, 1897: 125 og 1906: 124. Þetta voru mestu mannskaðaárin á þilskipum. Þau voru þó enn meiri fyrr á öldinni. Á árunum 1832-46 misstu Vestlendingar (Vestfirðingar og Breiðfirðingar) 22 skip og þar af helminginn með allri áhöfn (Lúðvík). Viðhaldskostnaður varð mikill á mörgum skipanna, eða eins og Matthías Þórðarson orðar það, en hann var skipstjóri og útgerðarmaður: "Skúturnar voru flestar gamlar og úr sér gengnar og töpuðust stórar fjárhæðir árlega til viðhalds þeirra.


Áhöfnin á kútter Georg RE 39. Kútter Georg, LBSQ, var smíðaður í Hull árið 1888. 84 brl. Var í eigu Th. Thorsteinssonar. Skipið fórst við Vestmannaeyjar 21 mars árið 1907 með allri áhöfn 21 manni.
(C) Sigfús Eymundsson.

Hjá mörgum varð þessi kostnaður meiri en nam ágóðanum af sæmilegri vertíð og urðu því margir fyrir tapi af útgerðinni." Það var sýnt að hverju stefndi fyrir skútuútgerðinni þegar 1906, þegar reynsla var komin á vélbátana, sem Þorsteinn í Laufási segir frá í bók sinni "Sjómannsævi í Eyjum". Hann gerði út 7 tonna bát, sem hann keypti 1904 og Ægir segir bátinn hafa aflað á vertíð með 5 manna áhöfn álíka og skúta með 20 manna áhöfn, og þá komið upp hið sama og með árabátana og skúturnar áður. í Ægi 1908 er grein um hnignun skútuútgerðar, en þá mátti orðið merkja að hverju stefndi, þótt segja megi að fullur gangur væri á útgerðinni að því er laut að fjölda skipa fram um 1910. í greininni segir svo: . . . svo dæmi um hnignun útvegsins (þ.e. skútuútvegsins,) skal þess getið, að nú getur maður eiginlega ekki talið nema 5 útgerðarmenn við Flóann og það eru stórkaupmenn eða stórverzlanir, sumpart danskar selstöðuverzlanir og enskt auðfélag. Íslenskir útgerðarmenn eru að detta úr sögunni. Það eru eftir að nafninu til 4-5 menn með 1 skip eða hluta úr skipi, en það eru lítil líkindi til, að þeir geti haldið úti skipi í ár nema þá einn eða tveir af þessum mönnum, ef ekki er hlaupið undir bagga með þeim og þeim veitt fjárhagsleg aðstoð. Þessi útvegur er í dauðateygjunum ... "


Áhöfnin á kútter Guðrúnu GK 7. LBPV. Smíðuð í Hull á Englandi árið 1884. 75 brl. Skipið var jafnan kennt við Gufunes en eigandinn, Filippus Filippusson bjó þar. Bar einnig skráningarnúmerin, RE 77 og GK 1. Guðrún var seld til Færeyja 10 október árið 1917. Var gerð út þaðan fram á 8 áratug síðustu aldar.
  
Höfundurinn reyndist ekki sannspár um afdrif íslenzkra útgerðarmanna, þó að hann sæi glögglega dauðamörkin á skútuútgerðinni í þeirra höndum. Þessar verzlanir, sem greinarhöfundur hefur í huga voru Duus og Edinborg, sem rak útgerðarfyrirtækið Sjávarborg. Duus hafði keypt Fischer-verzlun 1902 og tók þar við útgerð og fiskverzlun og jók hvorttveggja stórlega.
Edinborgar-verzlun var fyrr á ferð og keypti 6 kúttera aldamótaárið 1900. Verzlanirnar tóku sinn hagnað í verzlun með fisk og viðskiptin við mannskapinn á skipum sínum og miklu verzlun bæjarbúa almennt, og gátu bætt sér tapið af útgerðinni með verzlunarhagnaðinum. Þessi fyrirtæki gerðu út til að fá fisk til sölu. Einstaklingar, sem ráku skútur sátu verr í því, og töpuðu fljótt skipum sínum, þegar rekstrarkostnaður tók að aukast vegna mikils viðhalds á skipunum. Hrunið í skútuútgerðinni hófst með fullum hraða eftir 1910, þá er allur skútuflotinn 140 skip í landi, fækkað um 26 frá 1906, og 1915 voru skútur 95 og 1920, 39, og í Reykjavík stærsta skútuútgerðarbænum voru aðeins eftir 1920 6 eða 8 kútterar. Nokkrum skútum var breytt í vélskip.

Ásgeir Jakobsson.
Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1991.

             Skútuöld Gils Guðmundssonar

Skútuöldin, höfuðrit Gils Guðmundssonar, hefur nú selst í um 9 þúsund eintökum og verður það að teljast harla fátítt að rit um atvinnuhætti öðlist slíkar vinsældir. En Skútuöldin er ekki aðeins ómetanleg heimild, heldur einnig mjög læsilegt rit, fróðlegt og skemmtilegt. Gils var tæp þrjú ár að vinna að þessu stóra verki sem í annarri útgáfu var prentað í fimm bindum. Guðjón Ó. Guðjónsson bókaútgefandi átti frumkvæði að bókinni og kostaði samningu hennar. Telur Gils að Guðjón Ó. sé að líkindum fyrsti bókaútgefandi á Íslandi sem beinlínis ræður mann upp á mánaðarlaun til að skrifa fyrir sig bók. Gils hófst handa vorið 1943, samdi þá ávarp til skútumanna sem hann dreifði um landið og sagði þar meðal annars: "Þilskipin eiga sér mikla og merkilega sögu. Óhætt er að fullyrða, að útgerð þeirra var einhver traustasta undirstaða allra framfaranna, sem hér urðu á öldinni sem leið. Aldrei hefði íslendingum tekist að rétta við eftir áþján margra alda,ef þeirhefðu haldið áfram að "dorga dáðlaust upp við sand," og eftirlátið útlendingum einum að standa við stjórnvöl á glæstum fiskisnekkjum. Sá mikli fengur, sem þilskipin fleyttu að landi, gerði okkur kleift að rétta úr kútnum, bæði andlega og efnalega. Kynslóð skútualdarinnar tók við litlum og lélegum kænum, en kom sér upp fríðum flota. Sú kynslóð tók við atvinnuvegunum örsnauðum og niðurníddum, en skilaði þeim bjarg- álna. Hún tók við landinu í áþján, skilaði því frjálsu. Hún tók við tungunni spilltri, skilaði henni hreinni. Hún tók við þjóðerniskenndinni í svefni, skilaði henni vakandi. Á fáum áratugum var hinum ægilegu vágestum skorts og kvíða bægt frá íslenskum dyrum. Á skömmum tíma var sinnulítil og sofandi þjóð glaðvöknuð og tekin að sinna verkefnum, sem hvarvetna biðu. Margt hjálpaðist að til að skapa þessar miklu og snöggu breytingar. En þilskipaútgerðin var hin hagræna undirstaða alls þessa. Þess vegna er það brýn nauðsyn að halda til haga öllum fróðleik um þessi efni, stórum og smáum. Slíkt er hrein og bein skylda, ekki aðeins gagnvart hinni liðnu kynslóð, heldur miklu fremur vegna framtíðarinnar." Á árunum 1943-1944 ferðaðist Gils um landið, fór í helstu verstöðvar, ræddi við gamla menn og sögufróða, og spurðist fyrir um hvar skráðar heimildir væri helst að finna. Bókin kom fyrst út í tveimur geysiþykkum bindum, 1944 og 1946, og fékk undireins hinar bestu viðtökur; fyrra bindið þurrkaðist t.d. upp á örfáum dögum, alls fjögur þúsund eintök. "Það voru skemmtilegustu dagar sem ég hef lifað," segir Gils:


Gils Guðmundsson rithöfundur. Myndin er tekin árið 1946, um það leiti þegar hann lýkur við fyrstu útgáfu Skútualdarinnar.                               Ljósmyndari óþekktur.

"Það hafði engum komið til hugar að bókin fengi aðrar eins viðtökur." Áhugi Gils á skútuöldinni vaknaði strax í bernsku hans í Önundarfirði. Hann er fæddur á gamlársdag 1914 að Hjarðardal innri í Mosvallarhreppi, sonur Guðmundar Gilssonar bónda þar og Sigríðar Hagalínsdóttur. Áður en faðir hans fór að búa hafði hann verið skútuskipstjóri og svo var um fleiri bændur í Önundarfirði. Þegar þeir komu saman voru því gjarnan rifjaðar upp sögur frá sjómennsku þeirra á skútunum og tók Gils snemma að leggja við hlustir þegar skútusvalkið bar á góma. Og þegar Gils hafði lokið kennaraprófi rúmlega tvítugur, fór hann að safna í tómstundum sínum ýmsum frásögnum og fróðleik um sjósókn Vestfirðinga á liðnum tímum. Segir hann að það hafi vakað fyrir sér að semja síðar bók sem borið gæti heitið Vestfirskir sjómenn. Í formála að seinni útgáfu Skútualdarinnar lætur Gils svo um mælt: "Þá skal að lokum nefndur til sögu maður, sem hvergi er getið í fyrstu útgáfu Skútualdar, en á þó að líkindum meiri þátt í því en nokkur annar að ég fór að glíma við þetta efni. Sá maður er faðir minn, Guðmundur Gilsson. Hann hafði verið skútuskipstjóri í nokkur ár um það leyti sem ég fæddist og tók að vaxa úr grasi. Faðir minn er ekki sjálfhælinn maður og sagði lítt afrekssögur af sjóferðum sínum. En frá öðrum barst mér snemma vitneskja um það, að hann hefði verið farsæll skipstjóri og sómt sér með prýði í röðum vestfirskra skútumanna á lokaskeiði hinna seglprúðu gnoða. Ef til vill á myndin í litlu stofunni heima, hópmynd af mönnunum ungu og vasklegu sem útskrifuðust úr Stýrimannaskólanum vorið 1912, drjúgan þátt í að ég lét á sínum tíma tii leiðast að skrá söguþætti skútualdar."

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 1988.
Brot úr viðtali við Gils Guðmundsson.

Flettingar í dag: 426
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1063051
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 17:21:55