Færslur: 2016 Febrúar

29.02.2016 21:16

Smábátahöfnin í Reykjavík, Snarfarahöfn.

Ég fór á stúfana síðast liðinn laugardagsmorgunn í smábátahöfnina hér í Reykjavík sem kennd er við siglingaklúbbinn Snarfara. Þar kennir margra grasa og margt áhugavert sem fyrir augu ber. Látum myndirnar tala sínu máli.


Falleg og vel varin smábátahöfn. Höfnin er staðsett austan við Súðarvog, neðan við Háubakka inn við Elliðavog.


Ísilögð höfnin þennan laugardagsmorgunn.


Eftirtektarvert hvað fáir trébátar eru eftir í flotanum í dag. Það er nánast hending að rekast á einn slíkan.


Þetta var eini trébáturinn sem var á floti í höfninni.


Mest er af þessum skemmtibátum,en margir þeirra eru nú nokkuð fallegir.


Trausti og Stína.


Ögn og Freyja.


Þennan bát er greinilega verið að gera upp, fallegur bátur.


Sigga frænka ÍS 171. Aldrei áður séð smábát með perustefni.

Margar aðrar myndir úr Snarfarahöfninni bíða birtingar hér á síðunni sem ég set inn með tíð og tíma.

                                                                (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 27 febrúar 2016.

28.02.2016 14:23

Gamlir eikarbátar ll.

639. Flóabáturinn Konráð BA 152. Smíðaður á Bíldudal árið 1926. Eik og fura, 18 brl. 45 ha. Delta vél. Eigandi hans var h/f Norðri í Flatey á Breiðafirði frá 18 maí 1927. Árið 1935 var sett ný vél í bátinn, 50 ha. Skandia vél. 1948 var sett ný vél í hann, 66 ha. Kelvin díesel vél. Árið 1956 var aftur sett ný vél í bátinn, 66 ha. Kelvin díesel vél. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 23 nóvember árið 1965.


Konráð BA 152 í Grýluvogi í Flatey á Breiðafirði. Þarna var honum lagt og grotnaði þarna niður í rúman áratug.
Mynd úr Eylendu ll. Ljósmyndari óþekktur.


Flóabáturinn Konráð flutti fólk og vörur um inneyjar og norðanverðan Breiðafjörð. Einnig voru stundaðar fiskveiðar á honum í gegn um tíðina.   Ljósm: Ólafur Steinþórsson.


Stýrishúsið af Konráð við Læknishúsið í Flatey.             (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 21 júní 2009.


Nafn bátsins og heimahöfn málað á tré. Fallegt listaverk. Hangir upp á vegg í gamla frystihúsinu út á Tröllenda, við bryggjuna sem Breiðafjarðarferjan Baldur leggst við.       (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 12 okt. 2015.


 15. mars 1927 var stofnað hlutafélag um útgerð flóabáts sem þjóna skyldi byggðum við norðanverðan Breiðafjörð, þetta hlutafélag hlaut nafnið Norðri hf. Menn höfðu augastað á 19. tonna eikarbát, nýsmíði sem stóð óseldur vestur á Þingeyri.  Gengið var frá kaupunum og var ásett verð rúmar átján þúsund krónur.  Báturinn fékk nafnið Konráð BA-152.

Morgunblaðið 28 mars 2002. Brot af sögu flóabátsins Konráðs BA 152.
Ólafur Steinþórsson.


27.02.2016 11:13

1281. Ólafur Bekkur ÓF 2. TFLD.

Ólafur Bekkur ÓF 2 var smíðaður hjá Niigata Engineering & Co Ltd í Niigata á Hounsueyju í Japan árið 1973. 461 brl. 2.000 ha. Niigata díesel vél, 1.471 Kw. Eigandi var Útgerðarfélag Ólafsfjarðar h/f frá maí 1973. Skipið var lengt og endurmælt árið 1987 og mældist þá 550 brl. Einnig var skipt um aðalvél, 2.035 ha Niigata díesel vél, 1.691 Kw. Skipið var selt 23 október árið 1991, Sæbergi h/f á Ólafsfirði. Skipið hét Múlaberg ÓF 32. Selt árið 1997, Þormóði ramma- Sæberg h/f á Siglufirði, skipið heitir Múlaberg SI 22. Frá árinu 2007 hefur Þormóður rammi h/f á Siglufirði verið eigandi þess og gert það út frá Siglufirði.

1281. Ólafur Bekkur ÓF 2.                                                                   (C) Mynd: Sveinn Magnússon.


Ólafur Bekkur ÓF 2 skírður.                 (C) Mynd: Magni Kristjánsson.


Sigríður Guðbjartsdóttir, eiginkona Magna Kristjánssonar skipstjóra á Bjarti NK, til hægri að gefa togaranum nafnið Ólafur Bekkur við hátíðlega athöfn í skipasmíðastöðinni.         (C) Mynd: Magni Kristjánsson.

1281. Múlaberg ÓF 32.                                                                        (C) Mynd: Sveinn Magnússon.


1281. Múlaberg SI 22.                                                       (C) Mynd: Þórarinn Guðni Sveinsson. 2015.

Þriðjudagurinn 8. maí var stór dagur í lífi okkar Ólafsfirðinga, en þann dag klukkan rúmlega 12, sigldi hinn nýi skuttogari, Ólafur bekkur ÓF 2, eign Útgerðarfélags Ólafsfjarðar h.f., inn á fjörðinn í blíðskaparveðri, eftir 50 daga siglingu frá Japan. Var bærinn allur fánum skrýddur vegna komu skipsins, fánaborg reist á hafnargarðinum og komið fyrir stórum, bláum borða með áletruninni: Velkominn, Ólafur bekkur.

Tollskoðun fór fram úti á firðinum. Mikill mannfjöldi safnaðist saman á hafnargarðinum um klukkan tvö en klukkan tæplega þrjú sigldi hið fagra fley inn í höfnina. Skipinu var fagnað með kröftugu húrrahrópi, síðan söng Karlakór Ólafsfjarðar með aðstoð blásara: Heyrið morgunsöng á sænum, undir stjórn Frank Herlufsen söngstjóra.

Þá tók Ásgrímur Hartmannsson bæjarstjóri og formaður Útgerðarfélagsins til máls og flutti skörulega ræðu. Afhenti hann að lokum framkvæmdastjóra Utgerðarfélagsins skipið. Tók þá Haraldur Þórðarson framkvæmdastjóri til máls. Næstur tók Kjartan Jóhannsson forstjóri Asíufélagsins til máls.

Útgerðarfélagið bauð til kaffidrykkju í félags heimilinu næsta kvöld. Skipstjóri á Ólafi bekk er Ólafur Sæmundsson, fyrsti stýrimaður Magnús Ólafsson og fyrsti vélstjóri Jóhann Már Jóhannsson úr Reykjavík. Ólafur bekkur er búinn öllum fullkomnustu fiskileitar- og siglingatækjum og eru þau öll japönsk, af Fuano-gerð, nema talstöðin, sem er dönsk. Aðalvél skipsins er af gerðinni Niigata, 2 þús. hestöfl og ljósavélarnar eru 300 hestöfl hvor af sömu gerð.

Skipið reyndist í alla staði vel í heimferðinni, sem tók 50 daga. Skipið fer í sína fyrstu veiðiferð seint í þessari viku.

Dagur. 16.05.1973.
Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar á Dalvík.



 

26.02.2016 23:06

Reykjavíkurhöfn í dag 26 febrúar 2016.

Ég tók þessar myndir í dag í Reykjavíkurhöfn og slippnum. Eins og alltaf er við höfnina, eru skip að koma og fara og skip að fara í slipp. Eitt er víst að höfnin sefur aldrei.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 á útleið.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 heldur til hafs á ný.


2262. Sóley Sigurjóns GK 200 var tekin upp í dag.


2433. Frosti ÞH 229  frá Grenivík að landa afla sínum.


Qavak GR 2-1 á sínum stað. Búinn að vera þarna ansi lengi. Fallegt skip.


2276. Ísbjörn ÍS 304. Það er eins með hann, búinn að vera ansi lengi bundinn við bryggju.

                                                                           (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 26 febrúar 2016.

25.02.2016 21:35

1152. Lax lll RE.

Lax lll RE var smíðaður hjá Bátalóni h/f í Hafnarfirði árið 1971. Eik og fura 11 brl. 98 ha. Powa Marine díesel vél. Hét fyrst Hrönn KE 48. Eigendur hans voru Pétur Guðmundsson og Gestur Hallbjörnsson í Keflavík frá 2 apríl 1971. Seldur 20 október 1972, Pálma Magnússyni á Patreksfirði, báturinn hét Magnús Jónsson BA 35. Seldur 4 mars 1977,Vigfúsi Vigfússyni, Þór Vigfússyni og Pétri Arnari Vigfússyni í Reykjavík, báturinn hét Þórunn Jónsdóttir RE 101. 8 desember árið 1977 voru skráðir eigendur Þór Vigfússon á Dalvík og Vigfús Vigfússon í Reykjavík, báturinn hét Þórunn Jónsdóttir EA 205. Seldur 6 júní 1980, Gunnari Karlssyni í Keflavík, hét þá Þórunn Gunnarsdóttir KE 207. Seldur 15 október 1981 Preben Willy Níelsen í Keflavík, hét Særós KE 207. Seldur 29 júní 1983 Kristni S Kristinssyni og Þorgeiri Þorbjörnssyni í Kópavogi. Seldur 12 október 1987 Halldóri Rafni Ottóssyni í Þorlákshöfn, báturinn hét Sif ÁR 207. Seldur 21 nóvember 1989 Íslenska fiskeldisfélaginu h/f í Reykjavík, báturinn hét Lax lll RE og var skráður sem vinnubátur í Reykjavík 1997. Báturinn var tekin af skrá 22 desember 1998. Flak bátsins má sjá í fjörunni út í Geldingarnesi að sunnan verðu rétt vestan við grandann út í nesið. Þar hefur hann verið í vel á annan áratug eftir því sem ég best veit.


1152. Lax lll RE í fjörunni í Geldingarnesi í morgun.


Lax lll RE. Grindverkið af bakkanum fyrir framan bátinn.


Vél bátsins, 98 ha. Powa Marine díesel vél árgerð 1971.


Horft fram í lúkarinn. Enn má sjá eitthvað af kjölfestu bátsins b.b. megin.


Vélarrúmið. Olíutankurinn og vélin.


Flakið er orðið ansi lúið.


Hann á nú ekki mikið eftir blessaður. Þetta voru virkilega fallegir bátar og sorglegt hvað lítið er eftir af þeim.


Teikning af nýsmíði nr: 383 hjá Bátalóni h/f í Hafnarfirði, teiknuð 20 september 1969. Ég fékk þessa teikningu hjá Siglingamálastofnun fyrir mörgum árum.

                                                                          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 25 febrúar 2016.

24.02.2016 21:37

Togspilið úr togaranum Óla Garða GK 190.

Togspilið úr togaranum Óla Garða GK 190 þjónaði sínu hlutverki í Drafnarslippnum í Hafnarfirði í áratugi. Ég tók þessar myndir af spilinu í spilhúsinu í september árið 2013. Engin starfsemi hefur verið í slippnum í mörg ár og allsendis óvíst hvað verður um þetta merka spil sem staðið hefur sína plikt í bráðum heila öld. Spilhúsið er opið fyrir veðrum og vindum og er lýsandi dæmi um hvernig við förum með minjar sem heyra til útgerðarsögu okkar. Það er allsstaðar sama sagan hér á landi hvernig komið er fyrir minjum sem þessum, því miður.


Spilhúsið gluggalaust og galopið.


Spilið virkar eins og í fínasta lagi en hversu lengi við þessi skilyrði.


Það er greinilegt að því hefur verið haldið vel við.


Bremsurnar sjáanlega í fínu lagi. Allt vel smurt og ekki ennþá gróið fast.


Það er spurning hvað Hafnarfjarðarbær ætlar að gera við þessar minjar. Það kemur í ljós síðar.

                                                                      (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 13 september 2013.

23.02.2016 21:49

583. Hrólfur Gautreksson SU 299.

Hrólfur Gautreksson SU 299 var smíðaður hjá Brödrene Andersen Baadebyggeri og Savskæreri í Fredrikssund í Danmörku árið 1906. 6,36 brl. 6 ha. Dan vél. Ný vél árið 1946, 22 ha. Kelvin vél. Fyrstu eigendur voru Stefán Stefánsson, Vilhjálmur Stefánsson í Hátúni og Hinrik Þorsteinsson, allir frá Norðfirði. Þeir áttu bátinn frá júnímánuði 1906. Báturinn var seldur Gísla Kristjánssyni útgerðarmanni á Norðfirði árið 1924. Gísli endurbyggir bátinn sama ár og var því verki lokið árið eftir. Frá september 1931 er eigandi hans Eðvald Jónsson á Höfðabrekku í Mjóafirði, sama nafn en SU 72. Bræðurnir Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir útgerðarmenn í Neskaupstað eignast hann árið 1935, hét þá Hrólfur Gautreksson NK 2. Björn Ingvarsson á Ekru í Neskaupstað eignast bátinn árið 1939. Björn átti svo bátinn í ein 25 ár eða þar til hann var dæmdur ónýtur árið 1965. Hrólfur eða Gauti eins og hann var jafnan kallaður er nú varðveittur í víkinni í miðbæ Neskaupstaðar.


Gauti og Austfjarðaþokan. Myndin er tekin á Norðfirði árið 1946.                  (C) Mynd: Björn Björnsson.


Hrólfur Gautreksson NK 2. Þarna í fjörunni fyrir neðan og innan Ekru í Neskaupstað lá báturinn í ein 20 ár áður en hann var gerður upp, stuttu eftir 1980.                                          (C) Mynd: Guðmundur Sveinsson.


Hrólfur Gautreksson NK 2 í júní árið 2013.                                          (C) Mynd: Bjarni Guðmundsson.

22.02.2016 20:44

B.v. Austfirðingur SU 3. TFZC.

86. Austfirðingur SU 3 var smíði númer 228 hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951. Hét á smíðatíma skipsins Kolbeinn ungi. 708 brl. 1.000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var Austfirðingur h/f á Eskifirði frá 2 maí 1951. Skipið var selt 21 júní 1960, Síldar og Fiskimjölsverksmiðjunni h/f í Reykjavík, skipið hét Haukur RE 27. Togarinn var seldur til Noregs í desember árið 1967. Systurskip Austfirðings var Pétur Halldórsson RE 207, hét Máni á smíðatíma skipsins. Ég fékk þetta málverk í góða hirðinum í ramma en það var frekar illa farið en ég lét lagfæra það. Myndin er frumeintak og er eftir breskan málara, George Wiseman sem málaði margar myndir af Íslenskum togurum á sjötta áratugnum.


86. Austfirðingur SU 3.                                                                      (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Svona leit myndin út þegar ég fékk hana.                                           (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Austfirðingur SU 3.                                                                              Ljósm: Vilberg Guðnason.

21.02.2016 10:38

Ein létt gáta....

Er ekki rétt að koma með eina gátu hér á síðuna. Þessi ætti nú ekki að vefjast fyrir neinum, ég einfaldlega spyr, hvert er skipið.....?

Vatnslitamynd, og skipið er........?

20.02.2016 10:06

1019. Sveinn Sveinbjörnsson NK 55. TFOO.

Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 var smíðaður hjá A.S. Hommelvik Mekanik Verksted í Hommelvik í Noregi árið 1966 fyrir Múla h/f í Neskaupstað. 250 brl. 660 ha. Lister díesel vél. Árið 1977 var skipið yfirbyggt og mældist þá 224 brl. Selt 29 júlí 1978 Gunnari I Hafsteinssyni í Reykjavík, hét Freyja RE 38. Seldur 11 mars 1980 Þórði Guðjónssyni á Akranesi, skipið hét Sigurborg AK 375. Ný vél, 1.001 ha. Caterpillar díesel vél, 736 Kw var sett í skipið árið 1981. Selt 23 september 1987, Sigurborgu h/f í Keflavík, hét Sigurborg KE 375. Skipið var endurmælt í apríl 1988 og mældist þá 220 brl. Selt 29 október 1989 Útgerðarfélaginu Sæhamri h/f í Vestmannaeyjum, hét Sigurborg VE 121. Selt Voninni h/f á Hvammstanga, skipið hét Sigurborg HU 100. Selt 1998, Soffaníasi Cecilssyni h/f á Grundarfirði, heitir Sigurborg SH 12 og er gert þaðan út í dag.


1019. Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 á leið inn til Eskifjarðar.             (C) Mynd: Guðmundur Sveinsson.


Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 á leið inn Norðfjörð í fyrsta sinn haustið 1966.
                                                                                             Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Sveinn Sveinbjörnsson NK 55 að landa í gömlu síldarbræðslu SVN í Neskaupstað um 1970.
                                                                                                (C) Mynd: Aðalsteinn Valdemarsson.


1019. Sigurborg SH 12. Svona lítur skipið út í dag. Myndin er tekin á Siglufirði árið 2015.
                                                                                      (C) Mynd: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

19.02.2016 13:45

Gamlir eikarbátar.

Þeir eru nú ekki margir eftir af þessum fallegu eikarbátum, en þeir sem eftir eru hafa verið gerðir upp og eru flestir þeirra notaðir sem skemmtibátar í dag. Þessar myndir tók ég í Reykjavíkurhöfn í júlí árið 2014.


1423. Norðurstjarnan RE 365. Smíðaður hjá Básum h/f í Hafnarfirði árið 1975. Eik og fura, 22 brl. 210 ha. Volvo Penta díesel vél. Þessi bátur hefur oft skipt um eigendur og nöfn líka. Þau eru, það elsta er talið síðast.; Óm RE 365, Pétur afi SH 374, Árni Jóns BA 1, Þröstur BA 400, Þröstur BA 48, Þorsteinn HF 107, Seifur ÞH 265, Seifur KE 22, Seifur HU 2 og fyrsta nafnið sem hann bar var Seifur BA 123.


1149. Dagný ST 13. Smíðaður hjá Skipaviðgerðum h/f í Vestmannaeyjum árið 1971. Eik og fura, 14 brl. 150 ha. Scania díesel vél. Ný vél var sett í bátinn árið 1981, 182 ha. Scania vél. Æði mörg nöfnin hefur þessi bátur borið en þau eru.; Dagný RE 113, Ásdís ÞH 48, Ásdís SH 300, Ingi GK 148, Húni ÍS 68, Sævaldur EA 203, Tindur ÍS 106, Auðunn ÍS 110, Bragi GK 30, Jörundur Bjarnason BA 10, Ingi ÍS 148 og fyrsta nafnið sem hann bar var Ingi GK 148.

                                                                             (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

18.02.2016 20:07

Reykjavíkurhöfn 21 janúar 2014.

Það er alltaf gaman að taka hafnarrúntinn, alltaf eitthvað nýtt að sjá. Skip koma og fara, skip í slippnum og svo mætti lengi telja. Ég tók þessar myndir við höfnina fyrir rúmum 2 árum. Það var ekki fyrr en fyrir svona 4 árum síðan ég fór að taka myndavélina með mér í hafnarröltið, þannig að ég á orðið dágott safn mynda af skipum og mörgu fleira sem fyrir augu ber hverju sinni. Ágætt að leyfa þeim að fljóta með við og við.


1308. Venus HF 519 og 2464.Sólborg RE 270 liggja við bryggju á Grandagarði.


Við slippinn. Hvalur 8 og 9 á sínum stað við Faxagarð.


Athafnasvæði slippsins. 


Í slippnum.


Skutur togarans Brettings KE 50 í slippnum í Reykjavík.


Víkin, sjóminjasafnið við Grandagarð í gamla Bæjarútgerðarhúsinu. Gullborg, Binna í Gröf til vinstri.

                                                                              (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa 21 janúar 2014.

17.02.2016 08:59

1274. Páll Pálsson ÍS 102. TFKR.

Páll Pálsson ÍS 102 var smíðaður hjá Narazaki Zosen K.K. í Muroran í Japan árið 1972 fyrir Miðfell h/f í Hnífsdal. Smíðanúmer 806. 462 brl. 2.000 ha. Niigata díesel vél. Skipið var lengt árið 1988, mældist þá 583 brl. Ný vél var sett í skipið á sama tíma, 2.300 ha. Niigata díesel vél, 1.691 Kw. Togarinn er gerður út af Hraðfrystihúsinu Gunnvör h/f í Hnífsdal. Páll Pálsson var einn af 10 togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Japan á árunum 1972-73. Páll var annar í röðinni af 6 togurum sem voru smíðaðir í Muroran, hinir 4 voru smíðaðir í Niigata á Honshueyju.


1274. Páll Pálsson ÍS 102.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Páll Pálsson ÍS 102 á sundunum í Reykjavík í ágúst 2012.          (C) Mynd: Markús Karl Valsson.


Páll Pálsson ÍS 102 að landa afla sínum í Reykjavík,24 júlí 2014.  (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.


Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík ,26 júlí 2014.             (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa.

16.02.2016 13:36

117. Hvalur 8. RE 388. TFDV.

Hvalur 8 RE 388 var smíðaður í Tönsberg í Noregi árið 1948. Hét fyrst Gos Xll. 481 brl. 1.800 ha. gufuvél. Eigandi er Hvalur h/f á Miðsandi í Hvalfirði frá árinu 1962. Skipið er gert út sem hvalveiðiskip. Ég tók þessar myndir af Hval 8 þegar hann var í slippnum í Reykjavík í maí 2014. Hvalur 8 og 9 eru einu díeselknúnu gufuskipin sem Íslendingar eiga í dag og eru enn í drift. Það þarf engann texta við þessar myndir, þær tala sínu máli.


Hvalur 8 RE 388.













                                                                                  (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 7 maí 2014.

15.02.2016 10:04

Á útleið frá Neskaupstað á Barða NK 120.

Mig minnir að ég hafi tekið þessar myndir haustið 1993 þegar við vorum á leið í Rósagarðinn, eins og við gerðum oftast á þessum tíma. Vorum á heilfrystingu og veiddum aðallega þennan fallega rósrauða karfa sem er einkennandi fyrir þetta veiðisvæði sem er miðja vegu á milli Íslands og Færeyja. Myndagæðunum er nú ekki fyrir að fara en ég læt samt nokkrar hér inn. Einnig á ég myndir sem ég tók í Barentshafi á árunum 1993 til 1996 og svo myndir teknar um borð í Bjarti NK 121 í febrúar 1991 þegar við vorum að fiska í siglingu á Þýskaland. Þessar myndir munu koma hér á síðuna einhvern tímann við gott tækifæri.


Spegilsléttur Norðfjarðarflói. Eyðifirðirnir Viðfjörður og Hellisfjörður til vinstri á myndinni en Norðfjörður hægra megin við gálgann.


Norðfjarðarflói, Hellisfjörður, Norðfjörður og Norðfjarðarnýpa til hægri.


Barðsneshorn. ( Norðfjarðarhorn )


Svokallaðir Húsgaflar í Dalalandi við norðanverðan Mjóafjörð með Dalatanga yst. Lengst til hægri glittir í fjöllin norðan Loðmundarfjarðar og yst er Glettinganes.


Barðsneshornið, Hellisfjarðarnes, Norðfjörður og Norðfjarðarnýpan til hægri.


Barðsnes og Norðfjarðarnýpa. Að fara suður með síðu er þessi gamla og góða veiðislóð Norðfirðinga kölluð í daglegu tali og gaf oft á tíðum vel af sér.


Barðsnes, Hornið, Nýpan og mynni Mjóafjarðar. Ekki amalegt það að halda til hafs í svona blíðu.


Út í Hvalbakshalli eða Berufjarðarál.

                                 (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa, teknar um borð í 1536. Barða NK 120. TFKL.
Flettingar í dag: 308
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062933
Samtals gestir: 76986
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 15:55:33