Færslur: 2017 Júlí

31.07.2017 10:39

Huginn l ÍS 91. TFBK.

Huginn l ÍS 91 var smíðaður í Nyborg í Danmörku árið 1934 fyrir Hlutafélagið Huginn á Ísafirði. 60 brl. 150 ha. Völund vél. Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950.


Huginn l ÍS 91 í bóli sínu á pollinum á Ísafirði.                                                Mynd úr safni mínu.


Huginn l ÍS 91 á síldveiðum.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Ragnar Jóhannsson skipstjóri í bassaskýlinu á Huginn l ÍS 91.        (C) Páll Jónsson.

               Huginn l ÍS 91

Huginn fyrsti. Svo heitir til bráðabirgða fyrsti bátur útgerðarfélagsins Huginn hér í bænum. Er hann nú kominn til landsins og er væntanlegur hingað í dag. Hefir hann þá verið viku á leiðinni frá Nyborg á Fjóni, þar sem hann var byggður, Báturinn er 60 smálestir að stærð og hefir 130 - 160 hestafla vél. Skipstjóri er Ragnar Jóhannsson. Á hann að vera fullbúinn á síldveiðar, þegar hann kemur, og mun leggja upp á Sólbakka, ef síldveiði helzt hér vesturfrá. Annar bátur félagsins mun koma hingað í byrjun ágúst, og er hann byggður í Korsör á Sjálandi.

Skutull. 27 júlí 1934.

     Hekla og Geysir sækja sjómenn

Báðar millilandaflugvjelar Loftleiða, Hekla og Geysir, fara hjeðan vestur um haf árdegis í dag. Ferðinni er heitið til Nýfundnalands, en þar bíða flugvjelanna rúmlega 50 sjómenn. Sjómenn þessir sigldu þangað fjórum bátum Björgvins Bjarnasonar útgerðarmanns á Ísafirði, en þeir verða gerðir út frá Nýfundnalandi í vetur og munu áhafnir þeirra vera þarlendir menn. Geysir fer ekki lengra en til Gandarflugvallar á Nýfundnalandi og tekur þar um 40 farþega, en Hekla tekur þá sem eftir verða, er hún kemur til baka úr áætlunarflugi til New York. Flugvjelarnar eru báðar væntanlegar úr þessari ferð á laugardaginn.

Morgunblaðið. 20 október 1949.

30.07.2017 13:08

S. t. Northern Reward LO 168.

Togarinn Northern Reward LO 168 var smíðaður hjá Deutsche Schiffs Und Maschinenbau A/G Seebeck í Bremerhaven (Wesermunde) í Þýskalandi árið 1936 fyrir MacLine Ltd í London (Leverhulme Ltd). 625 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 555. Seldur í október 1937, Northern Trawlers Ltd í London. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins í september 1939. Togarinn var m.a. í sömu skipalest og Goðafoss þegar þýski kafbáturinn U-300 sökkti honum út af Garðskaga 10 nóvember 1944. Í desember 1946 er togarinn skráður í Grimsby, sama nafn en með skráningarnúmerið GY 431. Seldur í febrúar 1947, h/f Verði á Patreksfirði, hét Vörður BA 142. Togarinn fórst í hafi á leið til Grimsby í söluferð 29 janúar árið 1950. 5 skipverjar fórust en 14 skipverjum tókst að komast í björgunarbát og var þaðan bjargað um borð í togarann Bjarna Ólafsson AK 67 frá Akranesi. Vörður var einn þriggja "sáputogara" svokallaðra, sem keyptir voru til landsins árið 1947. Hinir voru Gylfi BA 77, eign samnefnds hlutafélags á Patreksfirði og Kári RE 195 sem var í eigu h/f Alliance í Reykjavík. Gylfi og Kári voru seldir úr landi árið 1950.


Northern Reward LO 168.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Vörður BA 142.                                                            Úr safni Hafliða Óskarssonar á Húsavík.


B.v. Vörður BA 142. Líkan.                                                                                   (C) Gunnar Felixson.

          Nýr togari kemur á morgun

Fyrir hádegi á morgun bætist eitt skip við í togaraflotann íslenska. Togarinn Vörður, eign h.f. Vörður á Patreksfirði er þá væntanlegur hingað til Reykjavíkur. Vörður er systurskip Gylfa, en þau eru bæði af svonefndri "Sunligthgerð" Gísli Bjarnason skipstjóri flytur skipið hingað heim. En frá Grimsby var lagt af stað s. l. laugardagsmorgun.  H.f. Vörður hefir selt gamla Vörð til Færeyja.

Morgunblaðið. 11 mars 1947.

         Togarinn Vörður ferst í hafi

  Fimm menn fórust, en 14 var bjargað

Enn hefur skarð verið höggvið í íslenska sjómannastjett. Togarinn Vörður frá Patreksfirði fórst á sunnudagskvöld í hafi og með honum fimm menn af 19 manna áhöfn. Með þessu slysi hafa fimm heimili, fjögur á Patreksfirði og eitt í Tálknafirði, misst fyrirvinnu sína. Menn þessir láta eftir sig 15 börn, þar af munu 13 barnanna ekki hafa náð 16 ára aldri. Skipstjórinn á Verði, Gísli Bjarnason, meiddist er slys þetta bar að. Leið honum eftir atvikum vel í gærkvöldi svo og öðrum skipsmönnum, en þeir voru væntanlegir til Akraness árdegis í dag með togaranum Bjarna Ólafssyni, er bjargaði Varðarmönnum, þeim er af komust.
Fjórir skipverjanna, sem fórust, voru búsettir á Patreksfirði, þeir:
Jens Viborg Jensson fyrsti vjelstjóri. Hann lætur eftir sig konu og tvær uppkomnar dætur og sex ára fósturson. Hann var 41 árs.
Jóhann Jónsson annar vjelstjóri, 48. ára að aldri. Lætur hann eftir sig konu og sjö börn. Þrjú þeirra eru innan fermingaraldurs. Hann átti aldraðan föður á lífi, og er hann búsettur hjer í Reykjavík.
Guðjón Ólafsson annar stýrimaður. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn og aldraðan föður átti hann á lífi. Guðjón var 43 ára.
Halldór Guðfinnur Árnason, kyndari, 33 ára. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn. Foreldrar hans eru báðir á lífi og búa á Ísafirði.
Ólafur Kristinn Jóhannesson háseti frá Hvammeyri í Tálknafirði. Hann var yngstur þeirra er fórust, 32 ára. Hann var nýkvæntur og lætur eftir sig auk konu sinnar, fósturföður og foreldra.
Frjettin um tildrög þessa hörmulega sjóslyss, voru mjög óljósar í gærkvöldi, en vitað er að Vörður var staddur um 165 sjómílur suðaustur af Vestmannaeyjum er hann sökk. Var togarinn á leið til Bretlands með fullfermi. Slæmt veður var er Vörður sökk og illt í sjó, en togarinn mun hafa sokkið um klukkan sjö. Án þess að geta nokkuð fullyrt um tildrög slyssins, eins og fyrr segir, þá er margt talið benda til þess að það hafi borið að nokkuð skyndilega, því mennirnir 14, er Bjarni Ólafsson bjargaði, voru sagðir hafa verið klæðlitlir er þeim var bjargað.
Bjarni Ólafsson var á leið heim frá Bretlandi og var nærstaddur er slysið varð, en um björgunarstarfið, sem annað í sambandi við sjóslysið, var ekkert vitað í gærkvöldi. Bjarni Ólafsson hjelt sig á slysstaðnum nokkrar klukkustundir eftir að slysið varð í þeirri von að finna lík þeirra, sem fórust. Fann hann þó aðeins eitt þeirra, og mun það hafa verið lík Jóhanns Jónssonar. Í gærkvöldi um kl. 10,30 var Bjarni Ólafsson staddur skammt sunnan Reykjaness og var þar hið versta veður. Þá átti forstjóri útgerðar hans, tal við Jónmund Gíslason, skipstjóra á Bjarna Ólafssyni. Sagðist Jónmundur ekki geta rætt málið við forstjórann um talstöðvar samband, enda mjög slæm skilyrði. En Jónmundur skipstjóri lagði á það áherslu að skipsmönnunum af Verði liði vel og Gísla Bjarnasyni skipstjóra, sæmilega eftir atvikum.
Togarinn Vörður BA 142, var þýskbyggður af svonefndri Sunlightgerð. Hann var smíðaður í Bremerhaven 1936, 620 rúmlestir. Hann var rúmlega 57 m. á lengd og tæplega 9 m. á breidd. - Vörður var með stærstu togurum flotans og kom hingað til lands árið 1947. Eigandi Varðar var samnefnt fjelag, er Garðar Jóhannesson veitir forstöðu.

Morgunblaðið. 31 janúar 1950.

             Sáputogararnir seldir.

Svo sem kunnugt er, voru að styrjöldinni Iokinni keyptir hingað til lands frá Englandi þrír þýzkbyggðir togarar, af svokallaðri "Sunlight" gerð. Tveir þessara togara voru keyptir til Patreksfjarðar, en H/f Alliance keypti þann þriðja. Annar Patreksfjarðartogarinn, Vörður, fórst í hafi í vetur, en hinn, Gylfi, hefur nú verið seldur til Þýzkalands og einnig Kári, togari sá, er Alliance átti.

Ægir. 1 mars 1950.

27.07.2017 17:54

774. Sleipnir SU 382.

Sleipnir SU 382 var smíðaður í Kongshavn í Þórshöfn, Færeyjum árið 1916. 14,37 brl. 25 ha. Densil vél. Eigandi var Jón Benjamínsson útgerðarmaður á Nesi í Norðfirði frá sama ári. Báturinn var seldur árið 1926, Sveini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni og Gísla Ingvarssyni í Vestmannaeyjum, hét Sleipnir VE 280. Seldur 1934, Gunnari Ólafssyni & Co, Guðjóni Þorleifssyni og Gísla Ingvarssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Ný vél (1934) 32 ha. Tuxham vél. Árið 1936 var báturinn endurbyggður og borðhækkaður í Vestmannaeyjum, mældist þá 15 brl. Seldur 1946, Sigurjóni Ólafssyni og fl. í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 8 ágúst 1949, Kristni Friðrikssyni á Djúpavogi, báturinn hét Sleipnir SU 382 (sitt gamla nafn og númer). Ný vél, sama ár (1949) 40 ha. Skandía vél, árgerð 1932. Ný vél (1957) 100 ha. GM díesel vél. Seldur 16 apríl 1968, Jórunni Helgadóttur og fl. í Reykjavík, sama nafn og númer. Báturinn var talinn ónýtur 1969 og tekinn af skrá 2 október árið 1970.


Sleipnir SU 382 við bryggju á Norðfirði.                                                              Ljósmyndari óþekktur.

23.07.2017 21:10

69. Gullfaxi NK 6. TFCH.

Gullfaxi NK 6 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1962. Eik. 180 brl. 585 ha. Deutz díesel vél. Eigandi var Gullfaxi h/f í Neskaupstað frá 15 apríl sama ár. 12 janúar 1970 var skipið skráð í Vestmannaeyjum. Eigandi var Gullfaxi h/f í Vestmannaeyjum, sömu eigendur og áður. Skipið hét Gullfaxi VE 102. Selt 20 ágúst 1971, Drangi h/f í Þorlákshöfn, hét Ingvar Einarsson ÁR 14. Ný vél (1973) 610 ha. MWM díesel vél. Skipið brann og eyðilagðist þegar það var að veiðum í Reynisdýpi 11 desember árið 1974. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist um borð í Arnar ÁR 55 frá Þorlákshöfn.


Gullfaxi NK 6 á siglingu á Norðfirði.                                                                   (C) Vilberg Guðnason.


Gullfaxi NK 6 á síldveiðum.                                                                         (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Ingvar Einarsson ÁR 14.                                                                  (C) Snorri Snorrason.

                  Nýr Gullfaxi

Á annan páskadag kom hingað til bæjarins nýsmíðað fiskiskip, Gullfaxi NK 6. Þetta er mikið skip, 180 tonn að stærð, smíðað úr eik í Djupvik í Svíþjóð eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Eigandi Gullfaxa er samnefnt hlutafélag, en aðalhluthafar eru Ármann Eiríksson og Þorleifur Jónasson, sem sigldi skipinu til landsins og verður skipstjóri á því. Ólafur Eiríksson er fyrsti vélstjóri. Aflvél skipsins er 585 ha. Deutz. Skipið er mjög vel búið að öllu leyti og sýnilega ekkert til sparað að gera það sem bezt úr garði bæði hvað snertir aðbúð áhafnar, öryggisútbúnað og hverskonar tækni útbúnað til veiða og siglinga. Gullfaxi er næststærsta skip, sem nú er í eigu Norðfirðinga. Sýnilegt er, að hann ber mjög mikið, t. d. af síld. Skipið er tilbúið til síldveiða og mun í ráði, að það fari þegar á síld.

Austurland. 27 apríl 1962.

  Þorlákshafnarbátur gjöreyðilagðist í eldi

                Engin slys á mönnum  

Vélskipið Ingvar Einarsson ÁR 14 stórskemmdist af eldi í gær, en engin slys urðu þó á mönnum. Skipið var statt út af Vík í Mýrdal, er eldurinn kom upp og fékk áhöfnin, 12 manns, við ekkert ráðið. Vélskipið Arnar kom á vettvang og dró hið brennandi skip inn á Dyrhólaós, þar sem því var rennt upp í fjöru. Þar slökkti Slysavarnadeildin Víkverji í skipinu, en kjarni deildarinnar er jafnframt kjarni slökkviliðsins í Vík. Er jafnvel talið, að Ingvar Einarsson sé gjörónýtur. Samkvæmt upplýsingum Hannesar Hafstein, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands, gerði Vestmannaeyjaradíó félaginu viðvart um neyð skipsins. Var hið brennandi skip þá statt nokkuð djúpt úti af Vík í Mýrdal, nánar tiltekið 12 sjómílur frá Reynisfjalli og 11 sjómílur frá Hjörleifshöfða. Var þá mikill eldur um borð. Jafnframt var vitað að Arnar ÁR 55, en bæði þessi skip eru gerð út frá Þorlákshöfn, var farinn áleiðis til Ingvars Einarssonar. Eldurinn kom upp aftantil í skipinu og var hvað magnaðastur í vélarrúmi og stýrishúsi.
Áhöfnin gat ekki hafzt þar við og urðu mennirnir að halda til frammi í skipinu, þar sem þeir höfðu neyðartalstöð. Gátu þeir ekki við neitt ráðið. Um klukkan 12,30 kom Arnar að Ingvari Einarssyni og fór þá áhöfn Ingvars yfir í Arnar og hafði þá jafnframt verið komið fyrir dráttartaug milli skipanna. Hélt Arnar svo af stað með bátinn til lands. Slysavarnafélagið lét björgunarsveit sína, Víkverja í Vík, vita af þessu og var sveitin tilbúin á ströndinni, ef á þyrfti að halda.
Þegar Arnar kom síðan upp undir land með bátinn þá var sýnt, að ekki var unnt að koma línu milli lands og báts vegna brims við ströndina. Var því ákveðið að fara með brennandi bátinn vestur fyrir Reynisfjall og reyna við Dyrhólaósinn. Þangað var komið klukkan liðlega 14 í gær, en þar voru þá komnir björgunarsveitarmenn úr Víkverja, sem jafnframt eru í slökkviliðinu í Vík, með slökkvibíl, veghefil og bíl með drifi á öllum hjólum. Var línu skotið út í bátinn og hann síðan dreginn upp í sandinn.
Komust björgunarsveitarmenn um borð og slökktu eldinn. Klukkan 16 tilkynntu þeir lóranstöðinni að eldurinn hefði verið slökktur. Strax og fréttist um eldsvoðann sást frá Reynisfjalli til bátsins og var þá mikill eldur í bátnum og risu miklar eldtungur frá honum, aðallega frá skut og miðskips. Þess má og geta að Lóðsinn í Vestmannaeyjum lagði af stað með dælur strax og fréttist um eldsvoðann, en hann náði ekki í tæka tíð. Vélbáturinn Ingvar Einarsson var eikarbátur, smiðaður í Sviþjóð 1962, 140 brúttórúmlestir að stærð og hét áður Gullfaxi VE 102 frá Vestmannaeyjum. Var báturinn í fyrsta flokks standi og hið bezta skip, er eldurinn kom upp. Er hann nú gjörónýtur. Þá ber þess að geta, að síðdegis í gær kom aftur upp eldur í bátnum, þar sem hann lá í Dyrhólaósi, en fljótiega var slökkt í honum aftur. Arnar var í gærkvöldi væntanlegur með áhöfn Ingvars Einarssonar til Þorlákshafnar.

Morgunblaðið. 12 desember 1974.

23.07.2017 09:30

488. Guðrún ÍS 97.

Guðrún ÍS 97 var smíðuð í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1942. Eik og fura. 16 brl. 90 ha. Ellwe vél, árgerð 1928. Eigandi var Vísir h/f í Súðavík frá 14 september 1942. Ný vél (1944) 150 ha. Gray díesel vél. Báturinn var seldur 19 júní 1950, Grími Jónssyni í Súðavík, sama nafn og númer. Ný vél (1952) 160 ha. GM díesel vél. Seldur 4 febrúar 1954, Marinó Ólsen í Reykjavík, hét Guðrún RE 20. Seldur 3 júlí sama ár, Jóni Sigurðssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 7 febrúar 1961, Gísla Bjarnasyni á Patreksfirði, hét Guðrún BA 38. Seldur 18 júní 1962, Gunnari J Egilssyni í Bolungarvík, hét Guðrún ÍS 126. Seldur 3 júní 1967, Hafsteini Guðmundssyni og Hreini Guðmundssyni, Kleifum í Steingrímsfirði, báturinn hét Guðrún ST 118. Ný vél (1967) 137 ha. Rolls Royce díesel vél. 8 október 1971 keypti Jakob Þorvaldsson hlut Hreins Guðmundssonar í bátnum, hét þá Guðrún Guðmundsdóttir ST 118. Seldur 21 maí 1980, Guðmundi Ólafssyni í Þorlákshöfn og Sigvalda Ólafssyni á Hólmavík, hét Möskvi KE 60. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 5 maí árið 1981.


Guðrúnu ÍS 97 hleypt af stokkunum hjá Marselíusi sumarið 1942.                      Mynd úr safni mínu.

     Tvö nýbyggð skip hjá Marselíusi

Nýlega eru hlaupin af stokkunum í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar, tvö skip, Sigurgeir, 62 smálestir, og Guðrún, 10 smálestir. Sigurgeir er Phönix gamli "aukin og endurbætt útgáfa", og er skipið eign Ólafs Guðmundssonar í Keflavík. Guðrúnu á Vísir í Súðavík. Þá er fullsmíðuð ný Dís fyrir Njörð, og heitir hún Jódís. Á að fara að setja í hana vélina. Þá er Marselíus að smíða tvo 16 smálesta báta og í þann veginn að hefja smíði á 45 smálesta skipi. Hefir hann dregið að sér geysimikið af efni í skip, svo að ekki mun hann skorta það fyrst um sinn.

Skutull. 18 september 1942.

    Nauðstöddu skipi komið til hjálpar

Í hádegisútvarpi í gær sendi Slysavarnafélagið tilkynningu til skipa er væru nærri Horni um að vélskipið Guðrún ÍS 97 frá Súðuvík væri hjálparþurfi 4 sjómílur norðaustur af Horni. Guðrún hefur talstöð og gerði loftskeytastöðinni á Ísafirði aðvart, en þá var enginn bátur í landi, sem gat farið út henni til hjálpar. En skip sem var að koma norðan frá Eyjafirði, nafn þess vissi skrifstofa Slysavarnafélagsins ekki, heyrði útvarpstilkynninguna, kom Guðrúnu til aðstoðar og dró hana til Ísafjarðar.

Þjóðviljinn. 22 ágúst 1947.

22.07.2017 11:18

538. Hagbarður TH 1. TFVO.

Hagbarður TH 1 var smíðaður hjá Slippfélaginu í Reykjavík árið 1946. Eik. 47 brl. 160 ha. Lister díesel vél. Eigandi var Húsavíkurkaupstaður frá 20 júní 1946. Árið 1955 var báturinn lengdur og mældist þá 54 brl. Um leið var sett í hann ný vél, 240 ha. Lister díesel vél. Báturinn var seldur 18 janúar 1956, Útgerðarfélagi Húsavíkur h/f á Húsavík, sama nafn og númer. Um 1960 var umdæmisstöfum bátsins breytt, hét þá Hagbarður ÞH 1. Seldur 8 ágúst 1968, Halldóri G Halldórssyni og Útvör h/f í Keflavík, hét Hagbarður KE 115. Ný vél (1968) 250 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 10 desember 1969, Hag h/f í Keflavík, sama nafn og númer. Seldur 15 nóvember 1971, Gjafa h/f á Höfn í Hornafirði, hét Hagbarður SF 15. Báturinn sökk um 15 sjómílur vestur af Ingólfshöfða 13 október árið 1974. Áhöfnin, 4 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Fylki NK 102 frá Neskaupstað, tveimur klukkustundum síðar.


Hagbarður TH 1.                                                                                             (C) Guðni Þórðarson.


Hagbarði TH 1 hleypt af stokkunum hjá Slippfélaginu árið 1946.                       Mynd úr Víkingnum.


Hagbarður TH 1. Málverk.                                                                                           Málari óþekktur.


Áhöfnin á Hagbarði TH 1 vertíðina 1948. Efsta röð frá v: Guðmundur Halldórsson, Bjarni Þorvaldsson, Helgi Héðinsson, Halldór Bjarnason (með kaskeiti), Þórarinn Vigfússon, Þórður Ásgeirsson (framan við Halldór Bjarnason), við hlið hans Helgi Bjarnason og næstur honum er Helgi Ólafsson. Næsta röð frá v: Jósteinn Finnbogason (með hatt), Haukur Sigurjónsson, Guðni Jónsson, bak við hann er Gunnar Jónsson og lengst til hægri er Ingvi Hannesson (með hatt).        Ljósmyndari óþekktur.

           M.b. Hagbarður TH 1

 M.b. Hagbarður, er Slippfélagið í Reykjavík hefur smíðað fyrir Húsavíkurkaupstað, og var báturinn fullgerður fyrir yfirstandandi síldarvertíð. Það er ekki nein nýlunda lengur að sjá ný og glæsileg fiskiskip bætast við skipastólinn, og því hætta á að hverjum nýjum bát sé ekki nægilega mikill gaumur gefinn, en þessum nýja bát frá Slippfélaginu er vert að veita athygli, því hann mun vera eitt vandaðasta skip sinnar tegundar, sem smíðað hefur verið hér á landi, hvað allan útbúnað og frágang snertir. Vistarverurnar í bátnum eru allar þiljaðar með póleruðu birki og mahogany. Niðurgangur í hásetaklefann er afþiljaður og er þar skápur fyrir hlífðarföt. Í hásetaklefanum eru rúmgóðar hvílur fyrir átta menn. Til þæginda er innbyggður klæðaskápur og þvottaskál með rennandi vatni.
Úr hásetaklefanum er innangengt í afþiljað eldhús með olíukynntri eldavél. Eldhúsið er vel útbúið með skápum. Báturinn er 47 brúttósmálestir að stærð með 160 ha. Lister diesel vél. Þá er báturinn búinn sérstrakri Ijósavél, talstöð, dýptarmæli og vökvastýrisútbúnaði. Lyftingin á bátnum er straumlínulöguð og er herbergi skipstjóra þar aftan við stjórnklefann. En þar undir og aftan við vélarúmið er herbergi fyrir 6 menn, hvorutveggja hið vandaðasta. Báturinn er smíðaður úr valdri eik og mjög rammbyggður, enda ekkert til hans sparað.
Skuturinn fyrir ofan þilfar er úr stáli og er það nýlunda og gerir auðveldara að koma við viðgerðum ef afturendi bátsins verður fyrir hnjaski eins og oft vill verða, en það hefur viljað verða dýrt spaug á bátum þar sem böndin ganga langt niður í skip, fyrir utan hvað slíkt er oft orsök til leka sem erfitt er að ráða við og oft verður ekki vart við fyrr en seint og síðar meir þegar allt er orðið fúið. Járnfestingar í bátnum eru úr galvaniseruðu járni eða stáli, og borðin í vistarverunum eru brydduð með ryðfríum stálgjörðum, og annað er eftir því. Sérstaka athygli hefur vakið, hvað segla og reiðaútbúnaður bátsins er vandaður og vel frá honum gengið, og hefur Óskar Ólafsson hjá Slippfélaginu annast uppsetningu á því. Þá er allt fyrirkomulag í bátnum til mestu fyrirmyndar og til mikils sóma fyrir Slippfélagið og þá sérstaklega yfirsmiðinn þar, Peter Wigelund, sem teiknað hefur bátinn og séð um smíðina á honum.

Sjómannablaðið Víkingur. 9 tbl. 1 september 1946.

   Hagbarður SF 15 snarfyllti og sökk

Hagbarður SF 15 sökk um 15 sjómílur vestur af Ingólfshöfða um kl. 23 á sunnudagskvöld eftir að báturinn hafði rekizt á eitthvað í sjónum með þeim afleiðingum að óstöðvandi leki kom að skipinu. Mannbjörg varð. Hagbarður, sem var 45 tonn að stærð, smíðaður 1946, var á vesturleið, þegar slysið varð. Fjórir menn voru á bátnum og voru tveir þeirra sofandi frammi í lúkar þegar óhappið varð, en hinir voru á vakt. 1 vélstjóri var sofandi í lúkarnum, en hann vaknaði við áreksturinn og fór samstundis aftur í vélarrúm. Þá þegar var vélin farin að ausa yfir sig sjó og sýnt var, að dælurnar mundu ekki hafa undan. Var þá strax sent út neyðarkall og svöruðu Fylkir NK og Hornafjarðarradíó strax. Fylkir var með trollið úti að toga, en sleppti þegar úr pokanum og hífði trollið inn til þess að geta haldið á slysstaðinn. Skipverjar á Hagbarði losuðu annan gúmmíbátinn og fóru um borð í hann.
Tóku þeir með sér skipsskjölin og handtöskur ásamt neyðartalstöð, en aðeins liðu nokkrar mínútur frá því áreksturinn varð og þar til mennirnir voru komnir í björgunarbátinn, og nokkrum mínútum síðar sáu þeir Hagbarð sökkva í djúpið. Fylkir náði að miða björgunarbátinn út og eftir tvær klukkustundir fann hann bátinn, en þokusúld var á. Skipverjar voru þá nokkuð blautir og kaldir, en Fylkir kom með þá hingað til Hafnar í Hornafirði, snemma í morgun og voru sjópróf í dag. Ekki er vitað á hvað Hagbarður rakst, en mögulegt er að það hafi annaðhvort verið rekadrumbur eða hvalur.

Morgunblaðið. 15 október 1974.

22.07.2017 10:06

Huginn SU 448.

Huginn SU 448 var smíðaður í Noregi (Sagvaag ?) árið 1925. Eik og fura. 7,15 brl. 20 ha. Rapp vél. Eigandi var Ármann Magnússon útgerðarmaður á Norðfirði frá sama ári. Árið 1929, þegar Nesþorp fær kaupstaðarréttindi og heitir eftir það Neskaupstaður, fær Huginn skráningarnúmerið NK 22. Báturinn var seldur 1937, Jónasi Þorvaldssyni á Búðum, Fáskrúðsfirði, hét Huginn SU 555. Seldur fyrri eiganda 1939-40, Ármanni Magnússyni í Neskaupstað, báturinn fékk sitt fyrra nafn, hét Huginn NK 22. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 12 júní árið 1944. Huginn var svo rifinn skömmu síðar.


Huginn SU 448 á Norðfirði. Vinstra megin á myndinni er hús sem stendur á staurum, er það salthús Konráðs Hjálmarssonar kaupmanns. Þar við hliðina sést vel í Bryggjuhúsið á Konráðsbryggjunni (ber í bátinn). Fjær til hægri sést verslunar og íbúðarhús Hinna sameinuðu íslensku verslana, þá íshús og loks sér í gaflinn á Sómastöðum.                                                          Ljósmyndari óþekktur. 

20.07.2017 18:15

Kveldúlfur ÍS 397.

Kveldúlfur ÍS 397 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1916. Eik og fura. 24 brl. 36 ha. Dan vél. Eigendur voru Jóh. J. Eyfirðingur & Co (Jóhann Jónsson Eyfirðingur og fl. Oftast kallað "kompaníið") á Ísafirði, Guðmundur Magnússon og Árni E Árnason í Bolungarvík. Ný vél (1922) 40 ha. Bolinder vél. Báturinn var seldur 22 júní 1927, Skafta Jónssyni á Akranesi, hét Kveldúlfur MB 27. Ný vél (1929) 64 ha. Tuxham vél. Um 1930 var Skafti Jónsson & Co á Akranesi eigandi Kveldúlfs. Báturinn fórst í róðri 20 janúar árið 1933 með allri áhöfn, 6 mönnum.


Kveldúlfur ÍS 397 við steinbryggjuna í Reykjavíkurhöfn um 1930.               (C) Magnús Ólafsson.

                   Báta vantar

Í fyrrakvöld vantaði þrjá vjelbáta úr róðri, einn af Sandi, annan úr Ólafsvík og hinn þriðja af Akranesi. Bátarnir frá Ólafsvík og Sandi komu fram í gærmorgun, en Akranesbáturinn ekki. Hann heitir "Kveldúlfur". Sást það seinast til hans í fyrrakvöld úti á miðum, að hann var að draga línuna, en hún slitnaði, og fór báturinn þá að leita að hinni uppistöðunni. Í gærdag fékk Slysavarnafjelagið togarann ,Kóp' til þess að leita að bátnum. Ennfremur er saknað vjelbáts að austan, sem Valur heitir. Lagði hann á stað frá Fáskrúðsfirði 19. janúar og ætlaði til Vestmannaeyja. Á honum eru fjórir menn. Varðskipið "Þór" var fengið til þess að leita að bátnum í gær.

Morgunblaðið. 22 janúar 1933.


           V.b. "Kveldúlfur" talinn af                               með 6 mönnum.

Eins og getið var í blaðinu á sunnudaginn, var á laugardag hafin leit að vjelbátnum "Kveldúlfi" frá Akranesi. Var leitað þann dag allan og eins um nóttina og á sunnudaginn. Tóku þátt í leitinni togararnir Kópur, Skallagrímur, Snorri goði, línuveiðarinn Ólafur Bjarnason og fleiri skip, en leitin bar engan árangur. Þegar seinast sást til bátsins á föstudagskvöld var hann að draga línuna, en hún slitnaði og lagði hann þá á stað og ætluðu menn að hann mundi ætla að taka duflið á hinum endanum og draga þaðan. En annað- hvort hefir hann ekki fundið duflið, eða ekki komist að því, því að leitarskipin fundu það og línuslitrið. Veður var hvasst um kvöldið, skafningsrok, en alveg sjólaust, svo að litlir bátar, sem úti voru og höfðu fullt þilfar af fiski, misstu enga bröndu út. Í gær var leitinni að bátnum enn haldið áfram og tóku þátt í henni þrír togarar og línuveiðiskip, en leitin bar engan árangur og er talið vonlaust að báturinn sje ofansjávar. 
Á bátnum voru 6 menn.
Skafti Jónsson, formaður
Einar Jónsson, bróðir hans,
Guðmundur Jónsson,
Indriði Jónsson,
Helgi Ebeneserson og unglingspiltur, sem sagt er að hafi heitið Þorbergur Guðmundsson. Þeir Skafti og Einar voru eigendur bátsins, menn á besta aldri og mestu dugnaðarmenn,  báðir ókvæntir. Guðmundur Jónsson ætlaði innan skamms að halda brúðkaup sitt og ganga að eiga systur þeirra bræðra. Indriði Jónsson var kvæntur maður og átti 2 börn. Helgi Eheneserson var kvæntur maður.

Morgunblaðið. 24 janúar 1933.

16.07.2017 08:19

462. Glófaxi NK 54. TFIM.

Glófaxi NK 54 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsverft í Frederikssund í Danmörku árið 1955. 64 brl. 260 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Sveinbjörn Á Sveinsson skipstjóri og útgerðarmaður í Neskaupstað frá 17 desember sama ár. Kom til heimahafnar á jóladag 1955. Glófaxi var lengdur í Dráttarbrautinni í Neskaupstað árið 1961. Mældist eftir það 74 brl. Skipið var selt 12 desember 1969, Eskey h/f á Höfn í Hornafirði, hét Eskey SF 54. Ný vél (1970) 431 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Selt 18 október 1982, Geir h/f og Árna Helgasyni á Þórshöfn, hét Geir ÞH 150. Frá 20 desember 1988 var Þór h/f á Þórshöfn eigandi skipsins. 31 desember 1989 er skráður eigandi Geir h/f á Þórshöfn, hét þá Guðrún Björg ÞH 60. Árið 1997 er skipið skráð í eigu Flóka ehf á Húsavík, sama nafn og númer. Skipið var selt árið 2002, Eyjanesi ehf í Garði, hét Eyjanes GK 131. Selt 2003, Kolsvík ehf á Patreksfirði, hét Brokey BA 336. Skipið sökk í Reykjavíkurhöfn 1 desember 2007 en náðist upp aftur en var ónýtur eftir. Skipið var rifið í Gufunesi árið 2008, en ekki tekinn af skipaskrá fyrr en 29 desember árið 2011.

 
Glófaxi NK 54 á síldveiðum sumarið 1959.                                                            (C) Ágúst Blöndal.
 
Glófaxi NK 54 við bryggju á sjómannadag í Neskaupstað.         Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
Glófaxi NK 54 á netaveiðum vertíðina 1960.                                         Ljósmyndari óþekktur.
 

               Glófaxi N.K. 54

Á jóladag kom hingað frá Danmörku nýr fiskibátur, sem hlotið hefur nafnið Glófaxi og einkennisstafina N. K. 54. Glófaxi er smíðaður í Fredriksund 64 brúttólestir að stærð með 240-260 hestafla Alpha-dísilvél. Báturinn er hinn sterklegasti og vandaðasti að sjá og er búinn öllum þeim öryggis og siglingartækjum sem tíðkast í bátum af þessari stærð. Ganghraði bátsins á leið til landsins reyndist 9 sjómílur á klukkustund. Hreppti hann misjafnt veður og féll skipverjum hið bezta við bátinn. Glófaxi verður í vetur gerður út frá Keflavík. Eigandi hans, Sveinbjörn Sveinsson, verður sjálfur skipstjóri. Austurland býður Glófaxa velkominn í norðfirzka bátaflotann og óskar Sveinbirni til hamingju með þennan myndarlega bát. Þess má geta, að Norðfirðingar eiga í smíðum í Danmörku tvo báta af sömu stærð og gerð og Glófaxi er. Mun annar koma ekki löngu eftir áramótin, en hinn að vori.

Austurland. 30 desember 1955.

              Glófaxi stækkaður

Vélbáturinn Glófaxi NK 54 er nú kominn í slipp hér í Neskaupstað. Á að stækka bátinn og verður það gert á þann hátt, að hann verður sagaður sundur í miðju og aukið í hann tveim til tveim og hálfum metrum. Við þetta mundi burðarþol bátsins líklega aukast um nálægt 15 tonn og Glófaxi þá eftir stækkunina verða um 80 tonn. Ekki er gert ráð fyrir að þessi stækkun geri vélaskipti nauðsynleg og mun litið draga úr ganghraða bátsins. Þess er vænzt, að stækkuninni verði lokið fyrir vertíð. Astæðan fyrir því, að eigandi Glófaxa, Sveinbjörn Sveinsson, skipstjóri, ræðst í að láta stækka bátinn, er einkum sú, að hann telur hann full lítinn fyrir kastblökk til síldveiða, en þau tæki koma vafalaust í flesta báta á næstunni. Glófaxi er aðeins fárra ára gamall, smíðaður í Danmörku.

 

Austurland. 15 september 1961.

15.07.2017 08:32

902. Vísir GK 70. TFAO.

Vísir GK 70 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1946 fyrir Útgerðarfélag Keflavíkur h/f í Keflavík. Eik. 53 brl. 200 ha. June Munktell vél. Frá árinu 1949 hét báturinn Vísir KE 70. Ný vél (1961) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 2 júní 1970, Skipanausti h/f í Grindavík, hét Vísir GK 101. Seldur 17 september 1971, Klukku s/f í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 13 júní 1972, Guðmundi Haraldssyni í Grindavík, sama nafn og númer. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 10 mars 1977, Stefáni Aðalsteinssyni á Djúpavogi, báturinn hét Máni SU 38. Seldur 16 janúar 1980, Georg Stanley Aðalsteinssyni, Helga Heiðari Georgssyni og Guðjóni Aanes í Vestmannaeyjum, hét Nökkvi VE 65. Báturinn strandaði á Svínafellsfjöru um 4 sjómílum vestan Ingólfshöfða 9 maí 1980. Áhöfninni, 4 mönnum var bjargað á land af björgunarsveit Öræfinga. Nökkvi VE eyðilagðist á strandstað.


Vísi GK 70 hleypt af stokkunum hjá Marselíusi í janúar árið 1946.                 Mynd úr safni mínu.


Vísir KE 70. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                M.b. Vísir GK 70 

Eins og áður hefur verið getið um hér í blaðinu var stofnað Útgerðarfélag Keflavíkur h.f., að tilhlutan hreppsnefndarinnar skömmu eftir áramótin í fyrra. Tekin var ákvörðun um að láta byggja einn bát ca. 55 smálesta. Allar skipasmíðastöðvar voru önnum kafnar, þó tókst að semja um smíði bátsins við Skipasmíðastöð Marsilíusar Bernharðssonar á Ísafirði.
Báturinn átti að vera tilbúinn í vertíðarbyrjun og mun smíði hans þá að mestu hafa verið lokið, en nokkur töf varð á sumum vélarhlutum og seinkaði það afhendingu bátsins. 8. febrúar, þegar sólin var hæst á lofti (kl. 12), skreið skeiðin, fánum prýdd stafna á milli, inn í höfnina í Keflavík. Hafði báturinn þá hlotið nafnið Vísir, en einkennisstafir hans eru G. K. 70. M.b. Vísir er allra fegursta fley, vandað að öllum frágangi og öllu haganlega fyrirkomið, að því er séð verður við fljóta yfirsýn. Hann er 54 smálestir að stærð og drifin af 200 hestafla June Munktell vél. Hann gengur um 9 mílur. Í bátnum er dýptarmælir, talstöð og útvarpstæki, og ráðgert að setja fljótlega miðunarstöð í hann. Skipstjóri á Vísi er Árni Þorsteinsson en vélstjóri Sigurður B. Helgason.
Útgerðarfélag Keflavíkur h.f., sem er eigandi Vísis, var stofnað með almennri þátttöku Keflvíkinga. Keflavíkurhreppur á 1/10 hluta af innborguðu hlutafé en það eru um 100 þúsund. Gert er ráð fyrir að auka hlutaféð upp í 1/2 milljón. Framkvæmdastjóri félagsins er Albert Bjarnason en Ragnar Guðleifsson gjaldkeri. Fyrsta róðurinn fór Vísir sama kvöldið, er hann kom til Keflavíkur, en sneri við vegna slæms veðurútlits, og slapp þannig við aftakaveðrið 9. febrúar. Á leiðinni heim bilaði vélin, en þó komst hann heilu og höldnu að landi. Nú er hann búinn að fara marga róðra og hefur fiskað ágætlega.

Faxi. 2 tbl. 1 mars 1946.

   4 mönnum bjargað úr sjávarháska

     Nökkvi VE 65 strandaði vestur af                Ingólfshöfða í gærmorgun

Í gærmorgun strandaði vélbáturinn Nökkvi VE 65 frá Vestmannaeyjum rúmar þrjár sjómílur vestur af Ingólfshöfða. Fjórir menn voru á bátnum og tókst björgunarsveitum að bjarga þeim úr bátnum skömmu eftir hádegið í gær. Var báturinn að koma af veiðum, þegar skyndilega skall á ofsaveður, sem bar hann upp á rif. Það var um ellefu leytið í gærmorgun, sem Hornafjarðarradíói barst tilkynning um að vélbáturinn Nökkvi væri strandaður vestur af Ingólfshöfða. Þá var allhvasst á þessum slóðum, vindátt á norð-austan og níu vindstig. Báturinn hafði lent á rifi sem er vestur af Ingólfshöfða og braut mikið á honum. Sigldu nokkrir bátar á strandstað auk þess sem björgunarsveitir frá Hornafirði og Öræfum lögðu af stað þangað. Á flóðinu skömmu eftir strandið tók bátinn upp af rifinu og rak hann inn fyrir grunnbrot, þannig að sjór braut ekki lengur á honum.
Þá hafði einn bátanna á strandstað náð sambandi við björgunarsveitina og var þá björgunarsveitin í Öræfum komin á staðinn. Var hafist handa við að koma björgunarlínu út í bátinn og tókst það fljótt og vel. Var ákveðið að taka mennina fjóra strax í land, þar sem báturinn var farinn að liðast í sundur og sjór kominn í hann. Var björgunaraðgerðum lokið um tvöleytið í gærdag. Ekki var í gær útlit fyrir að hægt yrði að bjarga bátnum. Veður var slæmt og í dag var spáð hvassviðri á þessum slóðum.
Nökkvi VE 65 er 53 lestir að stærð. Hann var smíðaður á Ísafirði árið 1946.

Tíminn. 10 maí 1980.

         Arndís Pálsdóttir eiginkona                        skipstjórans á Nökkva

     "Ég átti þrjú mannslíf á bátnum"

"Ég átti þarna þrjú mannslif, svo ég hugsaði auðvitað mitt, þegar mér barst fregnin um strandið", sagöi Arndis Pálsdóttir, eiginkona Georgs Stanley Aðalsteinssonar skipstjóra á Nökkva VE 65, en Georg er jafnframt eigandi bátsins. Með honum voru tveir synir þeirra hjóna, annar tuttugu og eins árs, en hinn tuttugu og tveggja ára svo og Kári Sólmundarson. "En ég varð ekki eins hrædd og ég hefði ef til vill átt að verða", sagði Arndis. "Þetta eru nú einu sinni börnin okkar, en það spilar ef til vill inn í, að ég hef aldrei verið hrædd um manninn minn þegar hann hefur verið á sjó. Við megum sannarlega vera þakklát fyrir að ekki fór verr".

Tíminn. 10 maí 1980.

13.07.2017 06:53

Einar þveræingur EA 537.

Einar þveræingur EA 537 var smíðaður af Steinþóri Baldvinssyni á Akureyri árið 1930. Eik og fura. 12 brl. 20 ha. Union vél. Eigendur voru Magnús Gamalíelsson og Guðbjartur Snæbjörnsson á Ólafsfirði frá 2 desember 1930. Ný vél (1939) 40 ha. Union vél. Báturinn var lengdur árið 1943 og mældist þá 18 brl. Báturinn brann og sökk út af Hraunhafnartanga 24 júlí árið 1947. Áhöfnin bjargaðist í nótabátinn og þaðan um borð í Gaut EA 669.


Einar þveræingur EA 537.                                                                     (C) Gunnar Óli Björnsson.


Einar þveræingur EA 537. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

        "Einar Þveræingur"brennur

Skipverjar á m.b. Einar Þveræingur, urðu að yfirgefa skipið er eldur kom upp í því seinnipart dags í gær. Einar Þveræingur (eldra skipið), var á siglingu út af Melrakkasljettu, er eldur kom upp í því. Breiddist hann óðfluga út og gátu skipverjar ekki við hann ráðið. Varð skipið alelda á tiltölulega skammri stundu og urðu skipverjar að yfirgefa skipið í nótabát sínum. Enginn þeirra mun hafa slasast, en giskað er á að áhöfnin hafi verið 8 til 10 menn. Frjett þessi barst til Morgunblaðsins skömmu áður en blaðið fór í pressuna og er því ekki kunnugt um hvað af skipverjum varð.

Morgunblaðið. 25 júlí 1947.

Útblástursrör kveikti í "Einari þveræing"

Nánari frjettir hafa nú borist af því, er mb. Einar Þveræingur brann og sökk út af Melrakkasljettu í fyrrakvöld. Báturinn sökk um kl. 1 í fyrrinótt um það bil 4 til 5 sjómílur út af Hraunhafnartanga. Einar Þveræingur var annar um nót við m.b. Gaut. Eldsupptök eru talin stafa frá útblástursröri vjelarinnar.

Morgunblaðið. 26 júlí 1947.

12.07.2017 06:26

815. Sveinn Guðmundsson AK 70. TFOR.

Sveinn Guðmundsson AK 70 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1947 fyrir Harald Böðvarsson & Co h/f á Akranesi. Eik. 67 brl. 225 ha. June Munktell vél. Ný vél (1958) 390 ha. MWM díesel vél. Seldur 11 nóvember 1963, Haukaveri h/f í Reykjavík, hét Haukur RE 64. Seldur 12 maí 1972, Haukaveri h/f á Djúpavogi, báturinn hét Haukur SU 50. Endurmældur 1974, mældist þá 71 brl. Báturinn sökk suður af Stokksnesi 25 nóvember 1975. Áhöfnin, 4 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát. Var mönnunum síðan bjargað um borð í togarann Skinney SF 20 frá Höfn í Hornafirði.


Sveinn Guðmundsson AK 70 á siglingu.                                                             (C) Ólafur Árnason.


Haukur RE 64 í Reykjavíkurhöfn.                                  Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip.


Haukur RE 64.                                                                                            (C) Sigurður Bergþórsson.


Sveinn Guðmundsson AK 70 í hópi fríðra Akranesbáta.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

   Nýr 70 smálesta bátur til Akraness

Í fyrradag kom nýr bátur til Akraness byggður í Friðrikssund. Bátur þessi sem er eign Haraldar Böðvarssonar & Co,, heitir ,Sveinn Guðmundsson" og er 65-70 smálestir. Í bátnum er 225 hestafla June-Munktel-vél. Hingað heim sigldi bátnum Elías Benediktsson, en skipstjóri á honum verður Þórður Sigurðsson. Báturinn fer strax norður á síld. Akranessbátarnir eru nú að verða tilbúnir á síldveiðar og fóru þrír norður í fyrradag, og aðrir eru alveg á förum. Alls munu 10-12 bátar frá Akranesi verða gerðir út , á síldveiðar, auk Ólafs Bjarnasonar og Sindra.

Alþýðublaðið. 5 júlí 1947.


Bjargaði 4 mönnum eftir að bátur                              þeirra sökk

Vélbáturinn Haukur SU 50 frá Djúpavogi sökk 22 sjómílur SA af Stokksnesi um kl. 20.30 í gærkvöldi. Fjórir menn voru á bátnum og komust þeir um borð í gúmbjögunarbát og var bjargað um borð í skuttogarann Skinney frá Hornafirði litlu síðar. Var Skinney væntanleg til Hafnar í Hornafirði um miðnæturleytið með skipbrotsmennina. "Björgun mannanna tókst ágætlega, þeir voru búnir að vera í gúmmíbátnum í um það bil hálfa klukkustund, þegar við komum að þeim," sagði Þorleifur Dagbjartsson, skipstjóri á Skinney er Mbl. hafði samband við hann í gærkvöldi. "Þeir voru fjórir í öðrum bátnum en hinn höfðu þeir bundið samsíða.
Þegar við áttum eftir 8 mílur í Hauk sáum við hann á ratsjánni, en stuttu síðar hvarf hann. Leið svo nokkur stund, en þá sáum við hvar flugeldum var skotið á loft frá gúmmíbátnum, og eftir það gekk allt vel." Hannes Hafstein framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands sagði að Tilkynningaskyldunni hefði borizt orðsending frá loftskeytastöðinni á Höfn um að leki væri kominn að Hauki og var það um kl. 19.15 og var síðan haft samband við skip úti af Stokksnesi. Brátt kom í ljós, að Skinney SF 20 var nærstödd og sagðist skipstjóri togarans sjá bátinn í átta sjómílna fjarlægð. Fylgdust skipverjar á Skinney með Hauki í ratsjánni þar til hann sökk, síðast heyrðist frá bátnum kl. 19.30.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1975.

11.07.2017 06:39

569. Hjalti SI 12.

Hjalti SI 12 var smíðaður af Antoni Jónssyni skipasmið á Akureyri árið 1916. 9 brl. 10 ha. Hein vél. Hét fyrst Hjalti EA 360. Eigandi var Einar Einarsson á Akureyri frá sama ári. Seldur 2 desember 1930, Anton Jónssyni á Siglufirði, báturinn hét Hjalti SI 15. Seldur 7 september 1931, Þorbirni Áskelssyni á Grenivík, hét Hjalti TH 272. Ný vél (1933) 35 ha. June Munktell vél. Báturinn var lengdur árið 1936, mældist þá 11 brl. Ný vél (1939) 50 ha. June Munktell vél. Seldur 19 sept 1948, Hlutafélaginu Hjalta á Siglufirði, báturinn hét Hjalti SI 12. Ný vél (1957) 66 ha. Kelvin díesel vél. Hjalti var talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 janúar árið 1979.


Hjalti SI 12 við bryggju á Siglufirði.                                                     (C) Þór Eyfeld Magnússon.


Hjalti SI 12.                                                                                             (C) Már Jóhannsson.


Hjalti SI 12 á siglingu.                                                                          (C) Þjóðbjörn Hannesson.


Hjalti SI 12. Líkan Gríms Karlssonar.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

        Borgarísjaki út af Siglufirði

             Mikil og tignarleg sjón  

Fréttaritari blaðsins á Siglufirði, Steingrímur Kristinsson fór á m.b. Hjalta út að borgarísjaka, sem var 7-8 sjómílur frá landi, og tók með fylgjandi myndir af honum. Það var mikil og tignarleg sjón að sjá þetta ferlíki gnæfa 20-40 metra hátt yfir sjávarmál og 100-150 m. á breidd, þar sem jakinn er breiðastur, segir Steingrímur. Og þó er þetta sennilega aðeins 1/9 hlutinn af jakanum, hitt mun vera neðansjávar. Hann segir svo frá ferðinni: - S. l. laugardag sá ég fyrsta borgarísjakann á minni 30 ára ævi, en þá var jakinn eins og smádepill úti við sjóndeildarhringinn. Á mánudag var sami jaki staddur út af Siglufirði, ásamt öðrum minni 1-2 sjómílur utar. Hafði sá stóri á sunnudag verið á hraðri ferð austur með landinu, þrátt fyrir austan kalda og sjó, en á mánudag var farið að hvessa meira og jakinn snúinn við og hélt í vestur undan veðrinu, ásamt minni jakanum. Sást vel til jakans bæði á sunnudag og mánudag frá Siglufjarðarkaupstað. Bar hann yfir Siglunesið eins og stór snjóhvít eyja, glæsileg að sjá. Utan af ströndinni sást hann betur og var mikil umferð um veginn úteftir. Bílar fóru með fólk með sjónauka, sem vildi virða þessa tignarlegu og sjaldgæfu sjón fyrir sér.


Borgarísjakinn út af Siglufirði.                                                         (C) Steingrímur Kristinsson.

Og nú fór ljósmyndari okkar af stað. Hann leigði sér mótorbátinn Hjalta SI 12. Með hann eru svokallaðir Kambsbræður, Grímur og Gunnar Helgasynir, sem fyrr hafa dugað okkur vel, lentu t.d. í sögulegu ferðalagi á sínum tima í hvassviðri við að koma til okkar myndum af tunnuverksmiðjubrunanum. Steingrímur ljósmyndari tók sem sagt sjóveikitöflu og lagði í hann. En 7-8 vindstig voru, talsverður sjór og þar á ofan kröpp vindbára, og rak veðrið alla undir þiljur áður en 20 mínútur voru liðnar og ekki var liðin klukkustund, þegar Ægi var fórnað gómsætum signum fiski ásamt nýjum kartöflum. Eftir hálfs annars tíma siglingu í bansettum hamagangi, höggum og veltingi, miður þægilegum fyrir höfuð, maga og hnjáliði, sló vélstjórinn á Hjalta, Gunnar Helgason, af og andæfði, segir Steingrímur. Mikið var um smáísrek, jakar höfðu brotnað úr borgarísnum og þurfti að vara sig á þeim. Ekki var hægt að "stíga á land", bæði vegna sjógangs og brattra hliða jakans. Taldi Grímur Helgason, skipstjóri ekki ráðlegt að fara mjög nærri, því ekki er gott að átta sig á hvort brotið í kring um jakann stafar af sogi, sem myndast af grynningum, t.d. ef sá hluti jakans sem er neðansjávar, skagar mikið út undan. En árangur ferðarinnar sést á meðfylgjandi myndum, sem Steingrímur tók af jakanum.

Morgunblaðið. 17 september 1964.

10.07.2017 11:51

333. Bjarni Ólafsson GK 200. TFXM.

Bjarni Ólafsson GK 200 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1944 fyrir Albert Bjarnason útgerðarmann í Keflavík. Eik. 35 brl. 120 ha. Wichmann vél. Frá árinu 1950 er báturinn skráður KE 50, sami eigandi. Ný vél (1950) 240 ha. GM vél. Seldur 12 júlí 1955, Halldóri Jónssyni í Ólafsvík, báturinn hét Bjarni Ólafsson SH 177. Seldur 31 maí 1963, Guðna Sturlaugssyni á Selfossi og Sigurjóni Sigurðssyni á Stokkseyri, hét Bjarni Ólafsson ÁR 9. Árið 1966 er Guðni Sturlaugsson einn skráður eigandi bátsins. Ný vél (1971) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 6 ágúst 1973, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Bjarni Ólafsson RE 97. Seldur 27 maí 1974, Páli Grétari Lárussyni á Hvammstanga, báturinn hét Fróði HU 10. Fróði brann við bryggju á Hvammstanga 11 desember árið 1975 og var talinn ónýtur eftir brunann.


Bjarna Ólafssyni GK 200 hleypt af stokkunum hjá Marselíusi í nóvember 1944.    Mynd úr safni mínu.


Bjarni Ólafsson KE 50. ex GK 200.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

      Bátur brennur á Hvammstanga

Um kl. 7 árdegis í gærmorgun urðu skipverjar á Glað HU 67 varir við að reyk lagði upp úr mb. Fróða HU 10, þar sem hann lá við bryggju á Hvammstanga. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að eldur var laus í vélarrúmi bátsins og var slökkvilið staðarins kallað út. Endanlega hafði tekizt að ráða niðurlögum eldsins, sem einungis var neðan þilja, á tólfta tímanum en við slökkvistarfið var beitt froðu og vatni. Báturinn er verulega skemmdur og óvíst hvort hann fer aftur á veiðar. Eldurinn var einungis í vélarrúmi bátsins og brann vélarrúmið að innan en eldsupptök eru ókunn. Einn maður svaf frammi í bátnum, þegar eldurinn kom upp, en hann sakaði ekki. Fjórir bátar hafa að undanförnu stundað rækjuveiðar frá Hvammstanga og var Fróði einn þeirra. Rækjuveiði hefur gengið fremur illa og hjálpast þar að ógæftir og lélegri veiði heldur en verið hefur undanfarin ár.

Morgunblaðið. 12 desember 1975.

09.07.2017 20:41

1274. Páll Pálsson ÍS 102 í slippnum í Reykjavík.

Páll Pálsson ÍS 102 hefur verið seldur Vinnslustöðinni hf í Vestmannaeyjum og var gengið frá sölunni í enduðum síðasta mánaðar. Verið er að mála skipið í lit Vinnslustöðvarinnar hjá Slippfélaginu í Reykjavík. Nýja nafn skipsins mun vera Kap lll VE 41. Ég tók þessar myndir af honum í slippnum í dag, glæsilegt skip. Japanstogararnir voru falleg skip, mjög vel byggð og reyndust öll vel. Nú eru einungis eftir þrír togarar af tíu. Auk Páls, eru Múlaberg SI 22 og Ljósafell SU 70 eftir af þessum fríða flota Japanstogaranna.

1274. Páll Pálsson ÍS 102, verðandi Kap lll VE 41.                   


1274. Páll Pálsson ÍS 102. 

1274. Páll Pálsson ÍS 102.

1274. Páll Pálsson ÍS 102.

1274. Páll Pálsson ÍS 102.

1274. Páll Pálsson ÍS 102.

1274. Páll Pálsson ÍS 102. Skrúfublöðin eru svolítið illa farin, vel sorfin í endana.

1274. Páll Pálsson ÍS 102. Búið að taka stýrið af. Sennilega verður skipið öxuldregið.
                                                      (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 9 júlí 2017.


1274. Páll Pálsson ÍS 102. Upphaflegt útlit, nema búið er að hækka lunningar aftur fyrir skorsteinshús.

 Farsæl 44 ár hjá Páli Pálssyni ÍS 102

Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102 landaði í morgun í síðasta sinn afla til vinnslu hjá Hraðfrystihúsinu - Gunnvöru hf. í Hnífsdal, en eins og kunnugt er hefur skipið verið selt til Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.  Í nær fjörutíu og fimm ár hefur Páll verið gerður út frá Hnífsdal og verið burðarás í landvinnslu fyrirtækisins.  Í haust tekur síðan nýr Páll Pálsson ÍS 102, við keflinu en unnið er að lokafrágangi hans í Kína.
Páll var einn af fyrstu skuttogurum Íslendinga þegar hann kom nýr til landsins í febrúar 1973 frá Japan þar sem hann var smíðaður.  Ýmsar nýjungar fylgdu komu skuttogaranna, t.d. gjörbreyttist öll aðstaða fyrir áhöfn og byrjað var að ísa aflann í plastkassa um borð. Síðar komu fiskkerin og öflugri og betri kæling til sögunnar en skipið fór í endurbætur og lengingu árið 1988 í Póllandi.  Aflasæld hefur fylgt skipinu alla tíð og hefur það borið að landi um 220 þúsund tonn af fiski sé miðað óslægðan afla uppúr sjó.  Aflaverðmætið þessi fjörutíu og fimm ár á núverandi verðlagi er um 45 milljarðar króna.   
Slíkum árangri er ekki hægt að ná nema með góðu skipi og vel mannaðri áhöfn. Mannabreytingar hafa verið mjög litlar í áranna rás, sem sést best á að meðalstarfsaldur áhafnarinnar er yfir 20 ár. Meðal þeirra sem nú eru í áhöfn hefur Guðmundur Sigurvinsson vélstjóri verið lengst eða í 36 ár samfleytt á Páli en hann hefur ákveðið að nú sé komið gott og fer í land.  Aðeins þrír skipstjórar hafa verið á skipinu, Guðjón Arnar Kristjánsson sótti Pál til Japans og var skipstjóri í 19 ár, Kristján Jóakimsson var skipstjóri í 4 ár,  en lengst hefur Páll Halldórsson verið skipstjóri en hann hefur verið við stjórnvölinn síðastliðin 22 ár. Nú styttist í að Páll haldi til Kína til þess að sækja nýjan og glæsilegan Pál Pálsson.
Við þessi tímamót vilja stjórnendur Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf,  þakka núverandi og fyrrverandi skipverjum Páls Pálssonar samstarfið og óska þeim velfarnaðar.

Vefsíða H.G. í Hnífsdal. 21. júní 2017                                                       
Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852355
Samtals gestir: 62761
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 02:28:46