Færslur: 2016 Apríl

30.04.2016 08:42

1327. Arnarborg ÍS 260. TFOH. Síðasti spölurinn undir Íslensku flaggi...

Ég tók þessar myndir af Arnarborginni ÍS 260 þegar hún kom til Reykjavíkur hinn 11 apríl síðastliðinn og lagðist upp að Bótarbryggjunni við Grandagarð. Þetta var síðasti spölur skipsins undir Íslensku flaggi, því skipið var selt til Ulaanbaatar í Mongólíu, heitir Ara og verður gert út frá Íran að mér skilst. Skipið hét fyrst Framnes l ÍS 708, smíðað í Noregi árið 1973 fyrir Fáfni h/f á Þingeyri. 407 brl. Eftir 43 ára sókn á Íslandsmiðum, hélt skipið á vit nýrra ævintýra undir nafninu Ara hinn 15 apríl síðastliðinn til Austurlanda nær. 


Arnarborg ÍS 260 í Reykjavíkurhöfn 11 apríl 2016.


Arnarborg ÍS 260 í Reykjavíkurhöfn.


Arnarborg ÍS 260. Helga María AK 16 við Bótarbrybbjuna skrúfulaus.


Arnarborg ÍS 260.


Arnarborgin leggst við Bótarbryggjuna á Grandagarði.


Arnarborg ÍS 260. Togarinn lagstur við bryggju í síðasta sinn undir Íslensku flaggi.


Ara. JVGR6. Ulaanbaatar.


Ara. JVGR6. Ulaanbaatar Mongólía.                   (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 11 og 14 apríl 2016. 

29.04.2016 09:00

Forseti RE 10. TFGD.

Forseti RE 10 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1928, smíðanúmer 50, hét Gulltoppur RE 247. 405 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var h/f Sleipnir í Reykjavík frá 28 október 1928. Skipið var selt 3 maí 1932, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Skipið var selt 26 ágúst 1944, Fiskiveiðahlutafélaginu Hængi á Bíldudal, skipið hét Forseti RE 10. Selt 30 mars árið 1950, Forseta h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Togarinn var seldur p/f Drangi í Saurvogi í Færeyjum árið 1955, hét þar Tindhólmur VA 115. Skipið var endurbyggt árið 1957. Togarinn var seldur í brotajárn árið 1966.


Forseti RE 10 á Reykjavíkurhöfn árið 1950.                                (C) Mynd: Díana Þ Kristjánsdóttir.


Mennirnir á brúarvæng Forseta RE eru frá v: Kristján Lárusson útgerðarmaður og eigandi skipsins, Guðmundur Guðmundsson skipstjóri, sonur Guðmundar skipstjóra og Magnús Halldórsson loftskeytamaður. 
                                                                              (C) Mynd: Díana Þ Kristjánsdóttir.

Tindhólmur VA 115 ex Forseti RE 10 eftir endurbyggingu árið 1957.                (C) www.vagaskip.dk

ATH...

Gulltoppur var smíðaður á sama tíma og systurskipið Snorri goði RE 141 á árinu 1921 en lá hálfkaraður til ársins 1928 að skipið var dregið til Kinghorn í Skotlandi, þar sem sett var í skipið vél og það klárað fyrir h/f Sleipni.                                                                                                    Heimild: Birgir Þórisson.

Ljósmyndarinn, Díana Þ Kristjánsdóttir er dóttir Kristjáns útgerðarmanns. Þórður Arason, sonur Díönu og frændi minn sendi mér þessar myndir nýlega ásamt fleiri myndum af togaranum sem ég mun setja inn við tækifæri. Kann ég Þórði bestu þakkir fyrir afnot myndanna.


28.04.2016 08:18

Vorkvöld við höfnina.

Það er búið að vera fallegt veðrið hér á suðvestur horninu undanfarna daga og kærkomið að taka rúntinn um höfnina á kvöldin á leið heim úr vinnu þegar sólin er um það bil að setjast og baðar skipin kvöldroðanum með síðustu sólargeislum sínum þann daginn.


1509. Ásbjörn RE 50.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 á leið í slipp.


1590. Freyja ll RE 69 komin á land í botnhreinsun og málningu.


2203. Þerney RE 1.


Skipin stór og smá í kvöldsólinni.


997. Hvalur 9 og 117. Hvalur 8 við Ingólfsgarð.


2276. Ísbjörn ÍS 304 og Qavak GR 2-1.                        (C) Myndir Þórhallur S Gjöveraa. 26 apríl 2016.

27.04.2016 10:56

E.s. Edda l. TFCB.

Edda l var smíðuð í Wesermunde í Þýskalandi árið 1921. 1.026 brl. 550 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Eduard. Eigandi var h/f Eimskipafélagið Ísafold í Reykjavík frá 25 september 1933. Edda var í förum milli Íslands og Evrópulanda og kom víða við á innlendum höfnum. Hún flutti bæði stykkja og þungavörur í heilum förmum. Skipið strandaði á Bakkafjörum vestan Hornafjarðar 25 janúar 1934. Áhöfnin, 17 menn björguðust á land, en skipið eyðilagðist á strandstað.


Edda í Reykjavíkurhöfn.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

26.04.2016 10:58

Snorri goði RE 141. LBMG / TFYC.

Snorri goði RE 141 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir A/S.Det Norske Damptrawlselskab í Álasundi í Noregi, hét Aalesund og smíðanúmer 49. 374 brl. 650 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í Reykjavík 23 nóvember 1925, hét Snorri goði RE 141. Selt 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur til niðurrifs og tekinn af skrá 12 maí 1952.


Snorri goði RE 141 í erlendri höfn.                                                               Ljósm: Pétur Kristinsson.

25.04.2016 06:46

E.s. Suðurland. NDJS / LCGT / TFCA.

Suðurland var smíðað hjá Helsingör Jernskibs & Maskinbyggeri í Helsingör í Danmörku árið 1891 fyrir A/S. Östbornholmske Dampskibsselskab í Nexö á Borgundarhólmi. Skipið hét M. Davidsen. 287 brl. 350 ha. 2 þjöppu gufuvél. 38,40 x 6,21 x 4,86 m. Smíðanúmer 33. Skipið strandaði við Hamarinn á norður odda Borgundarhólms, 24 maí 1901. Áhöfn og farþegar komust heil á land. Skipið var þá í áætlunarferðum með farþega og vörur á milli Borgundarhólms og Kaupmannahafnar. Skipið náðist út og það dregið til Helsingör þar sem það var tekið í slipp. Ekki vildi betur til en svo að skipið fór á hliðina og sökk þegar verið var að taka það upp. Skipið náðist upp og var endurbyggt. Skipið var selt 22 janúar 1920, Eimskipafélagi Suðurlands h/f í Reykjavík. Skipið hét Suðurland. Skipið var endurmælt, mældist þá 217 brl. Skipið var selt 16 janúar 1932, Hlutafélaginu Skallagrími í Borgarnesi. Skipið var talið ónýtt og því siglt til Reykjarfjarðar á Ströndum árið 1935 og því lagt upp í fjöru í Djúpavík og notað sem vistarverur fyrir starfsfólk sem vann í síldarbræðslunni sem reist var þar á árunum 1934-35.

 
M. Davidsen.                                                                                 (C) Handels & Söfartsmuseets.dk
 
M. Davidsen á strandstað við Hamarinn í maí 1901.                                              (C) Nexö museum.
 
M. Davidsen á strandstað.                                                                                   (C) Nexö museum.
 
M. Davidsen hálf sokkið í slippnum í Helsingör.                                (C) Handels & söfartsmuseets.dk
 
M. Davidsen í Helsingör.                                                                 (C) Handels & söfartsmuseets.dk
 
E.s. Suðurland á ytri höfninni í Reykjavík.                                                    Ljósm: Magnús Ólafsson.
 
Suðurlandið komið á endastöð í Djúpavík.                                         (C) Ljósmyndasafn Reykjavíkur.
 
Flak skipsins í dag.                                                                        (C) Mynd: Jón Bragi Sigurðsson.

24.04.2016 09:43

E.s. Hekla. MDSQ / TFAB.

E.s. Hekla var smíðuð hjá Fredrikstad Mekaniks Verksted í Fredrikstad í Noregi árið 1907 fyrir Johs. Bull í Tönsberg, hét Clothilde Cuneo, smíðanúmer 116. 1.215 brl. 930 ha. 2 þjöppu gufuvél, smíðuð á sama stað. Skipið var sjósett 29 október sama ár. Skipið var selt árið 1909, A/S Atlas (P. Johannessen) í Tönsberg, sama nafn. Selt 1913, A/S. Clothilde Cuneo (Adolf Petersen) í Bergen. Selt árið 1917, A/S. Det Söndenfjelds Norske Dampskibsselskab Kristiania (Osló). Í maí árið 1918 fær skipið nýtt nafn, Kong Inge. Skipið var selt í október 1932, Eimskipafélagi Reykjavíkur h/f í Reykjavík, hét Hekla. Í nóvember 1935 er skráður eigandi auk Eimskipafélags Reykjavíkur, Faaberg & Jacobsen í Reykjavík. Skipið var selt í mars 1940, h/f Kveldúlfi í Reykjavík, sama nafn, en skráningarnúmerið RE 88. Hekla lagði upp í sína síðustu ferð frá Reykjavík, vestur um haf til New York, 27 júní 1941 (var í leigu hjá Eimskipafélagi Íslands). Skipinu var sökkt 29 júní 1941 af þýskum kafbáti þegar það var statt um 200 sjómílur suður af Hvarfi á Grænlandi. 13 skipverjar fórust en 7 skipverjar komust á björgunarfleka og hröktust á honum í 10 sólarhringa. Þá bjargaði breska herskipið Candytuft þeim. 1 skipverji lést um borð í herskipinu. Þýski kafbáturinn sem sökkti Heklu hét U-564 og kafbátsforinginn Reinhard Suhren. Þessum kafbát var svo sökkt tveimur árum síðar, eða hinn 14 júní 1943 af breskri sprengjuflugvél á Biscayaflóa.


E.s. Hekla, skip Eimskipafélags Reykjavíkur.                                                    Ljósmyndari óþekktur.


E.s. Hekla RE 88, skip h/f Kveldúlfs við bryggju á Hólmavík.                        Ljósm: Magnús Ólafsson.

Þeir sem fórust með E.s.Heklu RE 88 voru;

Einar Kristjánsson, skipstjóri 
Kristján Bjarnason, 1. stýrimaður 
Jón H. Kristjánsson, 2. stýrimaður 
Jón Erlingsson, 2. vélstjóri 
Ásbjörn Ragnar Ásbjörnsson 
Sveinbjörn Ársælsson, loftskeytamaður 
Hafliði Ólafsson, háseti 
Bjarni Þorvarðarson, háseti 
Sigurður Þórarinsson, háseti 
Viggó Þorgilsson, háseti 
Haraldur Sveinsson, háseti, 
Karl. Þ. Guðmundsson 
Matthías Rögnvaldsson 
Sverrir Símonarson, kyndari



23.04.2016 08:42

19. Askur RE 33. TFND.

Askur RE 33 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Ask h/f í Reykjavík. 657 brl. 1.000 ha. 3 þjöppu gufuvél. Skipið var selt 24 febrúar 1961, Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu í júlí árið 1969. Á myndinni er Askur á leið í slippinn í Reykjavík.


Askur RE 33 á leið í slipp í Reykjavík.                                                  (C) Mynd: Ingi Rúnar Árnason.

22.04.2016 10:35

E.s. Villemoes. NSMP / LCFM / TFEB.

Villemoes var smíðað hjá Porsgrund Mekaniks Verksted í Porsgrund í Noregi árið 1914 fyrir A/S D/S Jyden ( J Villemoes ) í Esbjerg í Danmörku og fékk nafnið Villemoes. Smíðanr: 72. 775 brl. 550 ha. gufuvél. Ríkissjóður Íslands keypti skipið í maí 1917 og var nafni skipsins haldið óbreyttu. Eimskipafélagi Íslands var falinn rekstur skipsins og var það haft í millilandasiglingum, en hafði einnig viðkomu í innanlandshöfnum. Auk þess var það  um tíma í leigusiglingum vestan hafs. Eftir að flutningar á olíu hófust með tankskipum hér við land árið 1928 hafði ríkissjóður ekki lengur þörf fyrir Villemoes, en hann hafði annast flutninga á olíu í tunnum til innanlandshafna. H/f Eimskipafélag Íslands keypti þá skipið og fékk það nafnið Selfoss l. Selfoss var í förum milli Íslands og Evrópulanda, en hóf Ameríkusiglingar á árum seinni heimstyrjaldarinnar. Selfoss var í tveggja mánaða leigu hjá Bandaríkjamönnum árið 1943 og þá í siglingum við vesturströnd Grænlands. Í stríðslok hóf skipið aftur Evrópusiglingar. Hinn 19. desember 1950 lenti Selfoss í árekstri við danska skipið Skjold, sem var í eigu DFDS, á Schelde-fljóti þegar skipið var nýlagt af stað frá Antwerpen til Íslands. Talsverðar skemmdir urðu á skipinu sem snéri aftur inn til Antwerpen þar sem viðgerð fór fram á því. Árið 1956 var Selfoss seldur til niðurrifs í Belgíu og afhentur þar 9. febrúar sama ár. Selfoss var síðasta kolakynta gufuskipið í eigu Eimskipafélagsins. 


E.s. Villemoes.                                                                         Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk

21.04.2016 07:53

1160. Freyja RE 38. TFAS.

Freyja RE 38 var smíði no: 1456 hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1960 fyrir útgerðarfélagið J. Marr & Sons Ltd í Fleetwood, hét Lavinda FD 159. 308 brl. 750 ha. Mirrlees díesel vél. Skipið var selt árið 1964, Richard Irvin í North Shields á Englandi, hét Ben Arthur A 742. Seldur 23 apríl 1971, Gunnari I Hafsteinssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Freyja RE 38. Skipið var selt 1975, Ársæli h/f í Hafnarfirði, hét Ársæll Sigurðsson ll HF 12. Árið 1980 fær skipið skráningarnúmerið HF 120. Talinn ónýtur og tekinn af skrá í desember 1980.


1160. Freyja RE 38.                                                                               (C) Mynd: Snorri Snorrason.

Smíðaupplýsingar: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

20.04.2016 10:42

Togarar Kveldúlfs við bryggju á Hjalteyri um 1917.

Í ársbyrjun 1913 gerði Thor Jensen fyrir hönd h/f Kveldúlfs í Reykjavík samning við eigenda Hjalteyrar í Eyjafirði um að taka plássið á leigu til 99 ára fyrir 1.500 kr á ári. Hófst Kveldúlfur síðan handa um að koma upp rammgerðri bryggju, söltunarplássi og íbúðarhúsi fyrir verkafólkið. Tókst að koma þessu öllu í kring fyrir síldarvertíðina um sumarið. Áður höfðu útlendingar, Þjóðverjar, Skotar og fleiri haft á Hjalteyri sína bækistöð frá því um 1880. Árið 1937 reisir Kveldúlfur síldarbræðslu á Hjalteyri sem malaði félaginu gull á meðan hún starfaði. Árið 1966 var rekstri hennar hætt en verksmiðjuhúsin standa enn í dag og eru nýtt fyrir margskonar starfsemi.


Togarar Kveldúlfs við bryggjur á Hjalteyri í Eyjafirði um 1917.                                      Ljósm: óþekktur.

19.04.2016 11:54

Nýsköpunartogarar á frímerkjum ll.

Hér er seinna hollið af togarafrímerkjunum sem pósturinn gaf út árið 2010. Frímerkin sem ég setti hér inn á síðuna 7 apríl síðastliðinn fékk ég árið 2013 og voru hin þá uppseld með öllu og hvergi fáanleg. Það var svo fyrir rúmum tveimur vikum síðan að það var hringt í mig frá skrifstofum póstsins hér í Reykjavík og ég beðinn að sækja þau sem mig vantaði. Konan sem afgreiddi mig árið 2013 hjá póstinum skrifaði niður nafn mitt og síma þá og ætlaði að láta mig vita ef hin frímerkin tvö kæmu í leitirnar, eins og þau gerðu. Þetta kalla ég góða þjónustu hjá póstinum og kærkomið að fá þessi frímerki í safnið.


Togarinn Sólborg ÍS 260.


Nýsköpunartogararnir Sólborg ÍS 260 og Harðbakur EA 3.        (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

18.04.2016 10:07

Gufuvélin og vélarúmið í togaranum Ver GK 3 frá Hafnarfirði.

Gufuvélin í togaranum Ver GK 3, 550 ha. 3 þjöppu var trúlega smíðuð hjá Amos & Smith Ltd í Hull ásamt gufukatlinum. Á myndinni hefur vélstjórinn stillt sér upp fyrir ljósmyndarann sem var Guðbjartur Ásgeirsson matsveinn á togaranum til margra ára. Myndin er tekin árið 1924. Ver GK 3 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1920 og var 314 brl. að stærð, í eigu Fiskveiðahlutafélagsins Víðis í Hafnarfirði.


Gufuvélin í Ver GK 3.                          Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson.


Togarinn Ver GK 3 við bryggju á Seyðisfirði.                                       Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson ?

17.04.2016 09:45

B.v. Haukanes GK 3 slitnar upp í óveðri í Hafnarfjarðarhöfn 18 febrúar 1973.

Togarinn Haukanes GK 3 frá Hafnarfirði slitnaði upp og rak á land við Fjarðargötuna þar í bæ í vestan óveðri hinn 18 febrúar 1973. Náðist togarinn út tveimur dögum síðar. Töluverðar skemmdir urðu á botni togarans og dró dráttarbáturinn Magni hann til Reykjavíkur þar sem hann var tekinn í slipp, þar sem bráðabirgðaviðgerð fór fram. Eigendur skipsins voru þá Haraldur Jónsson og Jón Hafdal í Hafnarfirði. Skipið hét áður Gylfi BA 16 og var í eigu Útgerðarfélagsins Varðar h/f á Patreksfirði, smíðaður í Goole á Englandi 1952 og var 696 brl. að stærð. Örlög togarans urðu sú að hann var seldur til niðurrifs stuttu síðar og rifinn hjá Masnedo A/S í Vordingborg í Danmörku árið 1974.


B.v. Haukanes GK 3 í fjörunni við Fjarðargötuna.                               (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


B.v. Haukanes GK 3.                                                                      (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


Skopteiknarinn Sigmund sá ástæðu til að gera góðlátlegt grín af þessu atviki. 
Morgunblaðið í febrúar 1973.

Togarinn Haukanes lagðist við aðalgötuna.

Í gær tókst að ná Haukanesinu á flot, en mótorbáturinn Hringur dró togarann á háflóðinu rétt fyrir kl. 9 um morguninn. Botn togarans var nokkuð dældaður og var smávegis leki, er skipið var dregið af dráttarbátnum Magna til Reykjavikur. Togarinn Haukanes slitnaði frá bryggju á sunnudagsmorgun rétt yfir kl. 7 í miklum veðurofsa að vestan, og rak togarann upp í fjöru fyrir framan Fjarðargötuna. Haukanesið verður tekið upp í slipp í Reykjavik.

Þjóðviljinn 20 febrúar 1973.

16.04.2016 08:40

E.s. Skálholt. NJLV.

E.s. Skálholt var smíði no: 83 hjá Nylands Mekaniske Verksted í Ósló (old Christiania) í Noregi árið 1892. 542 brl. gufuvél, stærð ókunn. Fyrsti eigandi var Meinich. J. & Co. D/S Signe í Osló (old Christiania) í Noregi. Skipið hét Vardö og var systurskip E.s Hóla. Skipið var selt 17 febrúar árið 1898, Det Forende Dampskibs Selskab (D.F.D.S) í Kaupmannahöfn (Sameinaða Gufuskipafélagið), hét Skálholt. Skipið var í strandferðum á vegum Sameinaða við Ísland og einnig í ferðum milli Danmerkur og Íslands. Skálholt strandaði við eyjuna Sylt í Slésvík og Holsetalandi (Þýskalandi) 9 nóvember 1917 þegar það var á leið frá Methil í Skotlandi til Nakskov á Sjálandi í Danmörku með kolafarm. Skipið eyðilagðist á strandstað. Engar upplýsingar fundið um afdrif áhafnar skipsins.


E.s. Skálholt.


E.s. Skálholt. Mynd á gömlu póstkorti.                                             (C) Handels & Söfartsmuseets.dk
Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1063079
Samtals gestir: 76988
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 17:42:55