Færslur: 2016 Apríl

15.04.2016 09:38

Reykjavíkurhöfn að kvöldi 14 apríl 2016.

Hún var falleg höfnin við sólsetur í gærkvöldi og síðustu geislar sólar böðuðu skipin fallegum kvöldroða.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 við Grandabryggjuna.


Helga María AK 16, rétt fyrir brottför. Höfrungur lll AK 250 og Kristrún RE 177 við bryggju.


Sprautuvinna um borð í Kap VE 4.


972. Kristín GK 457 við Bótarbryggjuna.


Tuneq GR 6-40 ex Þorsteinn EA 810 ex Helga ll RE 373 við Ægisgarð.


Hvalur 8 og Hvalur 9 við Ægisgarð.


JVGR6. Ara frá Ulaanbaatar ex Arnarborg ÍS 260 við Bótarbryggjuna.

(C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 14 apríl 2016.




14.04.2016 09:59

E.s. Vestri. LCKN.

Vestri var smíðaður í Sunderland á Englandi árið 1891. 924 brl. 525 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Nordland. Skipið var í eigu h/f Eimskipafélags Vesturlands á Flateyri frá 3 ágúst 1928. Vestri var í vöruflutningum milli Íslands og Evrópulanda og kom víða við á innlendum höfnum. Skipið var selt til niðurrifs árið 1932. Aðrar heimildir segja það selt til útlanda í júní 1934.
E.s. Vestri. LCKN. Sem Nordland á myndinni.                                 Handels & Söfartsmuseets.dk

13.04.2016 08:30

2350. Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson RE 200. TFNA.

Myndasyrpa af hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni RE 200 að koma til hafnar í Reykjavík seinnipartinn í gær. Árni er smíðaður hjá Asmar Shipyard í Talcahuano í Chile árið 2000. 980 brl. 4 X Caterpillar vélar, 5.995 ha. 4.408 Kw. Skipið er gert út af Hafrannsóknarstofnun og heimahöfn þess er í Reykjavík.


2350. Árni Friðriksson RE 200. TFNA.


2350. Árni Friðriksson RE 200. TFNA.


2350. Árni Friðriksson RE 200. TFNA.


2350. Árni Friðriksson RE 200. TFNA.


2350. Árni Friðriksson RE 200. TFNA.                          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 12 apríl 2016.

12.04.2016 11:25

E.s. Ísafold. LCDS.

Ísafold var smíðað í Rostock í Þýskalandi árið 1895. 405 brl. 450 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét áður Columbus. Farþega og flutningaskip með rými fyrir 30 farþega. Eigandi var Thor E Tuliníus kaupmaður og útgerðarmaður á Eskifirði og í Kaupmannahöfn. Skipið var skráð á Eskifirði 17 september 1914. Ísafold var í strandferðum við Ísland allt árið 1915. Hafði verið í strandferðum árið áður, en hét þá Columbus. Skipið flutti farþega, póst og vörur milli hafna. Skipið var selt til Noregs í desember árið 1915. Skipstjóri á Ísafold var Ingvar Þorsteinsson.


E.s. Ísafold. Hét áður Columbus.                                               Mynd: Handels & Söfartsmuseets.dk

11.04.2016 10:11

Hermóður. Vitaskip. LCGB / TFHA.

Hermóður var smíði no: 265 hjá Hall Russell & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1891. 113 brl. 250 ha. 2 þjöppu gufuvél. Var smíðaður sem togari, hét fyrst North Breeze og var í eigu Wm. Pyper í Aberdeen. Árið 1910 er hann kominn í eigu North Line Steam Fishing Co Ltd í Aberdeen. Seldur árið 1914, Gadud Fabrikker í Gautaborg Svíþjóð, hét Rosa. Seldur til Álasunds í Noregi árið 1916, hét Elna. Seldur 1918, Bjergningskompani S/S í Álasundi og gerður að björgunarskipi þar. Hét Gard. Seldur Ríkissjóði Íslands (Vitastofnun) árið 1923. Fékk nafnið Hermóður og kom til Djúpavogs 20 júní 1924 eftir miklar endurbætur í Noregi. Var í þjónustu Vitastofnunar og síðar Vita og hafnarmálastofnunar til ársins 1947, er skipinu var lagt. Talið ónýtt og tekið af skrá 15 október 1948. Skipið lá um tíma í Fossvoginum en var síðan dregið upp í Hvalfjörð og endaði í Brynjudalsvogi og sennilega rifið þar árið 1949.


Hermóður á siglingu á Hesteyrarfirði í Jökulfjörðum.                         Ljósm: Leó Alexander Gunnarsson.

10.04.2016 08:38

Reykjavíkurhöfn árið 1938.

Reykjavíkurhöfn vorið 1938 í verkfalli farmanna. Við bryggjuna fremst liggur Gullfoss l, utan á honum er Goðafoss ll, sökkt af þýskum kafbáti út af Garðskaga 10 nóvember 1944 og franskt herskip utan á Goðafossi. Við bryggjuna aftan við Gullfoss liggur Lagarfoss l, utan á honum er Brúarfoss l og utan á honum er e.s.Hekla, sem á þessum tíma var gerð út af Eimskipafélagi Reykjavíkur h/f. Skipið var selt 20 mars 1940, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Skipinu var sökkt af þýskum kafbáti á leið frá Íslandi til Ameríku 29 júní 1941. 13 menn fórust en 7 hröktust á fleka í 10 sólarhringa. Þeim var svo bjargað um borð í breska herskipið Candytuft. Báturinn fremst á myndinni er Björgvin NK 65, smíðaður í Djúpvík í Svíþjóð árið 1934. 14 brl. 55 ha. June Munktell vél. Eigandi var Björgvin h/f í Neskaupstað frá mars 1935. Eigendur síðar voru Vigfús Guttormsson og fl í Neskaupstað. Báturinn var seldur 1945 Bergþóri Hávarðssyni og sonum í Neskaupstað. Rak á land á Bakkafirði árið 1947 og brotnaði í spón. Húsin til vinstri eru vörugeymslur Eimskipafélags Íslands við Tryggvagötu.


Reykjavíkurhöfn vorið 1938.                                                         Mynd úr Skipstjórar og skip ll 1986.

09.04.2016 09:25

Fleetwood togarar í Reykjavíkurhöfn árið 1933.

Fleetwood togararnir Daily Chronicle FD 69 og Wellvale FD 140 voru í fylgdarliði flugkappans og flugmálaráðherra Ítala, Italo Balbo (1896-1940), en flugsveit hans lenti á sundunum við Reykjavík eftir sex stunda flug frá Londonderry á N-Írlandi, 5 júlí 1933. Daily Chronicle FD 69 var smíði no: 382 hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1918. 281 brl. 87 ha. 3 þjöppu gufuvél frá Amos & Smith Ltd í Hull. Hét fyrst Richard Bacon LO 438 og var í þjónustu breska sjóhersins fram yfir 1920. Togarinn var seldur í brotajárn og rifinn hjá Thos. W. Ward Ltd í Sheffield á Englandi árið 1954. Wellvale FD 140 var smíðaður hjá Canadian Vickers Ltd í Montréal Canada árið 1917 fyrir bresku flotastjórnina. 271 brl. 86 ha. 3 þjöppu gufuvél. Hét fyrst James Seckar. Togaranum var sökkt af Þýska kafbátnum U-35,12 september 1939 við Hebrideseyjar vestur af Skotlandi. Áhöfnin, 12 menn fórust með honum. Togararnir voru í eigu Boston Deep Sea Fishing & Co Ltd í Fleetwood þegar þeir voru leigðir Ítalska ríkinu.


Togararnir Daily Chronicle FD 69 og Wellvale FD 140 ásamt fleiri skipum í Reykjavíkurhöfn í júní 1933.
Ljósmyndina tók óþekktur þýskur ferðamaður.                                           Mynd úr safni mínu.

08.04.2016 11:10

Skuttogarar á frímerkjum.

Þessi frímerki með myndum af skuttogurunum voru gefin út af póstinum á árinu 2014. Þau eru einnig í tveimur örkum, tveir togarar í hverri örk. Eiguleg eintök fyrir þá sem áhuga hafa á útgerðarsögu landsins í gegn um tíðina.


1326. Stálvík SI 1. TFRS. Smíðaður í Garðabæ 1973. 314 brl.


1137. Barði NK 120. TFTS. Smíðaður í Frakklandi 1967. 328 brl. og Stálvík SI 1.
(C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

07.04.2016 09:27

Nýsköpunartogarar á frímerkjum.

Árið 2010 gaf pósturinn út tvær arkir með frímerkjum af gömlu Nýsköpunartogurunum. Í hverri örk eru fjögur frímerki, tvö af hvorum togaranum fyrir sig. Þetta eru eiguleg frímerki og ánæjulegt að fá þau í safnið.


Togarinn Bjarni riddari GK 1.


Togararnir Bjarni riddari GK 1 og Ingólfur Arnarson RE 201.      (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

06.04.2016 13:45

2881. Venus NS 150 og 2882. Víkingur AK 100 við Grandagarð.

Systurskipin Venus NS 150 og Víkingur AK 100 lágu saman við Grandagarð í morgun. Stór og mikil skip og burðargeta þeirra er um 3.000 tonn hvort um sig. Aðalvélar skipanna eru eins að ég held, Wartsiila 9L32, 4.500 Kw.


2881. Venus NS 150. TFVT.


2882. Víkingur AK 100. TFWV.


Venus NS 150 og Víkingur AK 100 við Grandagarð.


Systurskipin Venus og Víkingur séð frá Ingólfsgarði.        (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.6 apríl 2016.

05.04.2016 19:54

E.s. Hólar.

Eimskipið Hólar var smíðað hjá Nylands Mekaniske Verksted í Osló (Old Christiania) í Noregi árið 1893. 548 brl. Gufuvél, stærð ókunn. Hét áður Vadsö. Árið 1898 er eigandi skipsins Det Forende Dampskibs Selskab (DFDS) og jafnframt nefnt Sameinaða Gufuskipafélagið hér á landi. Skipinu var sökkt 11 ágúst 1917 af þýska kafbátnum UC-31, þegar það var á leið frá Sunderland á Englandi til Randers í Danmörku með kolafarm. Einn skipverji fórst en 17 björguðust.


E.s. Hólar.                                                                              (C) Handels & Söfartsmuseets.dk.


Hólar stranda >Dimmalætting« flytur þá fregn, að gufuskipið Hólar hafi strandað hjá Rattrayhead á Skotlandi, og er það skamt frá Peterhead. Menn komust allir af, og líkur eru taldar til þess, að skipið muni nást út aftur. Hólar voru á leið frá íslandi til Leith.                                                                                                                                                                                                          Morgunblaðið 7 mars 1916.


04.04.2016 21:14

E.s.Ottó Wathne.

Ottó Wathne var smíðaður í Noregi árið 1906. 546 brl. Gufuvél, stærð ókunn. Eigendur voru erfingjar Ottós Wathne á Seyðisfirði frá 3 apríl 1906. Skipið var í áætlunarferðum frá Seyðisfirði til Evrópu. Skipið strandaði 6 júní árið 1906 við Siglunes í annari ferð sinni. Áhöfn og farþegar björguðust en skipið eyðilagðist á strandstað.


Eimskipið Ottó Wathne.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Flakið af Ottó Wathne á strandstað við Siglunes í júní 1906.                   Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.

Félagið, O Wathne erfingjar tók í fyrsta sinn í notkun skip,sem sérstaklega var smíðað til Íslandsferða. Þetta var tæplega 600 brúttótonna skip sem gat rúmað um 200 farþega. Því var lýst sem "et ualminnelig vakkert fartöy, med praktisk og komfortabel innredning." Skipið var nefnt Otto Wathne, og það fór frá Kaupmannahöfn í sína fyrstu Íslandsferð 5 apríl 1906. Í annari ferð skipsins, 6 júní var það á leið frá Siglufirði til Skagastrandar en lenti þá í hafís og varð að snúa við. Ekki tókst þá betur til en svo, að skipið steytti á skeri og sat þar. Áhöfn og farþegar komust í báta, en skipið brotnaði í íllviðrum, sem gerði eftir strandið. Félagið sendi björgunarskip frá Noregi en það kom of seint. Flaggskipið var ónýtt.

Heimild: Póstsaga Íslands 1873-1935. Heimir Þorleifsson.

03.04.2016 11:02

E.s. Mjölnir. LBQR.

Eimskipið Mjölnir var smíðaður í Þýskalandi árið 1884. 548 brl. 450 ha. Compound gufuvél. Eigandi var Þórarinn E Tuliníus á Fáskrúðsfirði og í Kaupmannahöfn frá 3 mars árið 1900. Aðrar heimildir segja skipið komið í hans eigu árið 1897. (Póstsaga Íslands). Skipið var selt í júní árið 1903, A/S Dampskibsselskabet Thore og var Þórarinn stærsti hluthafi þess félags. (Afhenti skip sín, Mjölni og Perwie sem hlutafé). Skipið var keypt aftur til Íslands 18 mars árið 1916. Eigandi þá var h/f Kveldúlfur í Reykjavík, hét hjá þeim Mjölnir. Selt 28 september 1916, Dampskibsselskabet Jyden í Esbjerg í Danmörku. Engar frekari heimildir hef ég fundið um þetta ágæta skip.


E.s. Mjölnir, skip Þórarins E Tuliníusar í Kaupmannahöfn.                               Mynd á gömlu póstkorti.

02.04.2016 10:57

Fiskað fyrir siglingu á Þýskaland á Bjarti NK 121 í febrúar 1991.

Við vorum aðallega að veiðum út í Rósagarðinum og fengum rúmlega 200 tonn af þessum fallega rauða karfa sem er einkennandi fyrir þetta veiðisvæði sem er við miðlínuna á milli Íslands og Færeyja, um 100 til 120 sjómílur suðaustur af Norðfjarðarhorni. Myndirnar sína síðasta holið hjá okkur sem var um 15 tonn og þar með var komið fullfermi. Síðan var haldið heim á Norðfjörð, tekinn ís og gám þurftum við að hafa á dekki því lestar skipsins voru kjaftfullar upp í lúgur. Aflinn var seldur í Bremerhaven í Þýskalandi.


Birgir Sigurjónsson 1 stýrimaður fagnar góðu holi.


1278. Bjartur NK 121. Hann leynir sér ekki fallegi rósrauði liturinn á karfanum.


Gámurinn á dekkinu.                                                  (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. febrúar 1991.

01.04.2016 23:09

Kútter Surprise GK 4 var smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1886. 70 brl. Eigandi var Útgerðarfélagið við Hafnarfjörð, Garðahreppi frá ágúst árið 1900. Skipið var talið ónýtt og rifið, ekki tilgreint hvenær það var gert.


Kútter Surprise GK 4.
Flettingar í dag: 628
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 1928
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 732381
Samtals gestir: 54299
Tölur uppfærðar: 1.5.2024 18:47:35