Færslur: 2021 Október

20.10.2021 13:53

5055. Hrönn NK 14.

Mótorbáturinn Hrönn NK 14 var smíðaður í Bátastöð Akraness árið 1953. Eik og fura. 4,3 brl. 16 ha. Bukh vél. Hét fyrst Hrönn ST 122. Eigendur af bátnum frá 1953 til 1970 eru ókunnir en báturinn var skráður í Strandasýslu á þessum tíma. Var afturbyggður í upphafi, en verið breytt síðar. Seldur 7 september 1970, Kristjáni Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét þá Hrönn SH 162. Eigandi frá 1 maí 1975 var Sturla Einarsson í Kópavogi. Seldur 16 maí 1976, Guðmundi Magnússyni og fl. Í Ólafsvík. Frá 1 apríl 1981 er Jón Einarsson útgerðarmaður í Neskaupstað eigandi bátsins, hét þá Hrönn NK 14. Seldur 15 mars 1984, Ingimar Erni Péturssyni í Keflavík, hét Trausti KE 240. Seldur 24 mars 1986, Arnari Péturssyni á Akureyri og Eiði Stefánssyni í Sandgerði, hét þá Díana EA 125. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 september 1991.

Ólíklegt er að þessi 16 ha. Bukh vél hafi verið í bátnum frá upphafi. Hef ekki fundið heimildir fyrir því að önnur eða aðrar vélar hafi verið settar í hann, en það hlýtur að vera að svo hafi verið gert.


Hrönn NK 14 að koma úr róðri til löndunar í fiskvinnslustöð SVN í Neskaupstað snemma á 9 áratugnum. Eigandi bátsins, Jón Einarsson var að jafnaði kallaður "Rebbi" á Norðfirði. Ég þekkti Rebba gamla vel, alveg einstakt ljúfmenni. Fyrir miðri mynd er Barðsnes, til vinstri er Neseyrin og hægra megin er Hellisfjarðarnes.                                       Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Landað úr Hrönninni. "Rebbi" fylgist með úr dyrum stýrishússins. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Löndun lokið og Hrönn á leið inn í smábátahöfn.                      Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


16.10.2021 05:58

B.v. Geir RE 241. LCHG / TFED.

Botnvörpungurinn Geir RE 241 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1912 fyrir Edward Cyril Grant & Joseph W Little í Grimsby. Hét fyrst Sialkot GY 780. 306 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,09 x 7,12 x 3,73 m. Smíðanúmer 253. Seldur 1919, Harry Woods í Grimsby . Seldur 15 mars 1920, Hlutafélaginu Geir (John Fenger stórkaupmaður og fl.) í Reykjavík. Seldur 31 mars 1924, Hlutafélaginu Hrönn í Reykjavík. Nýtt stýrishús var smíðað á togarann stuttu eftir árið 1940, eða það hafi verið gert eftir að hann var seldur til Færeyja. Skipið var selt 27 nóvember árið 1946, P/F Atlantis í Fuglafirði í Færeyjum, hét Vitin FD 440. Seldur 1951, P/F Vitar A/S í Fuglafirði. Leif Waagstein Landsréttarsaksóknari í Þórshöfn keypti togarann á uppboði 4 febrúar 1952. Seldur í brotajárn til British Iron & Steel Co Ltd og mun hafa verið rifinn í Rosyth í Skotlandi síðla árs 1952 og var síðan tekinn af færeyskri skipaskrá 12 mars árið 1953.

Þó að Geir hafi verið smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell í Beverley, var hann smíðaður eftir teikningu frá Cochrane & Sons í Selby. Geir og Walpole RE 239 (1914), voru smíðaðir eftir sömu teikningu, en áður höfðu togararnir Baldur RE 146 og Bragi RE 147, sem Bræðurnir Thorsteinsson í Reykjavík áttu, verið smíðaðir eftir henni árið 1911. Baldur og Bragi voru seldir til Frakklands í togarasölunni árið 1917.

Heimildir: Birgir Þórisson.
               Óli Ólsen í Færeyjum.


B.v. Geir RE 241 á veiðum.                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.

         Nýkeyptir botnvörpungar

Tveir nýkeyptir botnvörpungar hafa enn bætst við íslenska fiskiflotann. Annar heitir Draupnir og er skrásettur í Vestmannaeyjum. Hann kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjóri er Guðmundur Sigurðsson (áður skipstj. á Frances Hyde). Draupnir er sagður 12 ára gamall, stórt og mjög vandað skip. Hann kom með fullfermi af kolum. Hinn botnvörpungurinn heitir Geir , og er sagður 6 ára gamalt; eigendur eru Fenger stórkaupmaður o. fl. Skipstjóri Jón Jónasson. Geir er stórt skip og traust. Hann kom með kolafarm.

Vísir. 15 mars 1920.


B.v. Geir RE 241 á ytri höfninni í Reykjavík.                                         (C) Magnús Ólafsson.


B.v. Geir RE 241 á leið inn á Reykjavíkurhöfn.                                              Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Geir RE 241 á toginu. Sjá má í loftskeytaklefann framan við afturmastrið. Hann er nú eða var, varðveittur á Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði í Reykjavík. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Vitin FD 440 frá Fuglafirði fyrir framan og Nýpuberg VA 178 frá Miðvogi í Slippnum í Þórshöfn í Færeyjum 1950-51. Ljósmyndari óþekktur.

         "Geir" seldur til Færeyja

Nýlega hefur togarinn Geir verið seldur til Færeyja og er það fimmti togarinn, sem seldur er héðan til Færeyja nú á tiltölulega skömmum tíma.

Alþýðublaðið. 24 nóvember 1946.


Loftskeytaklefinn úr Geir.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í loftskeytaklefanum af Geir.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í vistarverum skipverja undir hvalbaknum.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík

Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík er orðið að veruleika og það heilu ári á undan áætlun. Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, veitir safninu forstöðu og tók hún við því starfi í upphafi þessa árs. Sjómminjasafnið er vestur á Grandagarði þar sem áður var fiskverkun BÚR. Sigrún segir að það hafi þótt við hæfi að opna sýningu nú á sjómannadaginn í tilefni þess að liðin eru eitt hundrað ár frá því að fyrsti íslenski togarinn kom til landsins. "Undirbúningur sýningarinnar hefur gengið afskaplega vel. Þriggja manna sýningarstjórn lagði hugmyndafræðilegan grunn að sýningunni þar sem áherslan var lögð á aðbúnaðinn um borð, sjómannafjölskylduna og að sjálfsögðu söguna," segir Sigrún. Þegar hugmyndavinnunni var lokið tók Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður, við verkinu og hannaði sýninguna. "Sýningin er merkileg að því leiti að hún er byggð upp af munum, leikmyndum,  margmiðlun og textaupplýsingum.
Sýningagestir ganga í gegnum söguna og byrja á því að skoða botnvörpuna, veiðafærið sem markaði tímamót hjá íslensku þjóðinni. Meðal skemmtilegra muna á sýningunni er fullbúinn loftskeytaklefi af togaranum Geir RE 241. Loftskeytatækin voru sett um borð í togarann uppúr 1920 en það var hvergi pláss fyrir tækin og því var klefinn smíðaður og festur niður fremst á bátadekkið, framan við afturmastrið," segir Sigrún. Á sýningunni er mikil áhersla lögð á að sýningargestir geti upplifað söguna "og með það að markmiði var smíðuð eftirlíking af lúkar til þess að fólk geti séð með eigin augum hvernig aðbúnaðurinn var um borð. Við gleymum heldur ekki lífinu í landi og höfum því sett upp dæmigerða stofu togarasjómanns þar sem meðal annars má sjá ýmsan munað sem sjómenn keyptu í erlendum höfnum. Nútímanum er einnig gerð góð skil með fullkomnum tækjum, meðal annars ratsjá sem komið hefur verið fyrir uppi á húsinu, þannig að sýningargestir geta fylgst með nánasta umhverfi Sjóminjasafnsins, en sjón er sögu ríkari og því full ástæða til þess að koma í Víkina - Sjóminjasafn og sjá sýninginguna með eigin augum. 

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 2005.10.10.2021 17:11

B.v. Ísborg ÍS 250. TFRE.

Nýsköpunartogarinn Ísborg ÍS 250 var smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélag Ísfirðinga h/f á Ísafirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 789. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Kom fyrst til heimahafnar, Ísafjarðar hinn 5 maí sama ár. Bátapallur var smíðaður á skipið sumarið 1950 svo það hentaði betur til síldveiða. Ísborgin stundaði síldveiðar sumarið 1950 og 51, en afli skipsins varð heldur rýr, því bæði þessi ár voru síldarleysissumur. Skipið var selt á uppboði 30 janúar 1962, kaupandi var Stofnlánadeild sjávarútvegsins sem greiddi 940 þús kr. fyrir skipið. Ísborgin var ekki sú eina sem seld var á þessu uppboði, einnig var Sólborg og frystihúsið selt. Sólborgin var slegin ríkinu á 2,9 milljónir og frystihúsið slegið ríkinu á 13,8 milljónir. Þetta var sannarlega svartur dagur í atvinnulífi Ísfirðinga. Ísborgin var seld 20 apríl 1962, Borgum hf (Bjarna Pálssyni vélstjóra, Guðmundi Kristinssyni skipamiðlara og Guðfinni Þorbjörnssyni vélstjóra) í Reykjavík. Skipinu var breytt í flutningaskip árið 1963, gufuvélin og ketillinn tekin úr skipinu og sett í staðinn 750 ha. Scandia díesel vél. Einnig var stýrishúsið fært aftar og lestarrými aukið sem því nam. Skipið var endurmælt þá og mældist 706 brl. Hét áfram Ísborg. Selt 5 febrúar 1969, Guðmundi A Guðmundssyni h/f í Reykjavík. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 17 desember árið 1973. Skipið mun hafa borið nöfnin Maria Sissy, Catera og síðast Nueva Isborg og var skráð í Panama til ársins 1990-91. Hefur sennilega endað í brotajárni fljótlega eftir það.


B.v. Ísborg ÍS 250. Eins og sést á myndinni, er bátapallurinn kominn á skipið.
   (C) Sæmundur Þórðarson.
     
      Ísborg er glæsilegt og gott skip

Nýsköpunartogari Ísfirðinga, Ísborg, kom hingað til Ísafjarðar þann 5. maí síðastliðinn og lagðist við bæjarbryggjuna klukkan hálf fimm síðdegis. Fagnaði fjöldi bæjarbúa þar komu hans. Fánar voru dregnir við hún um allan bæinn og var auðsætt að bæjarbúar fögnuðu komu Ísborgar af alhug.
Þegar skipið hafði lagst að bryggju söng Sunnukórinn undir stjórn Jónasar Tómassonar tónskálds, Þú álfu vorrar yngsta land. Því næst flutti Sigurður Bjarnason forseti bæjarstjórnar ávarp og bauð skipið og skipshöfn þess velkomið til Ísafjarðar. Er ávarpið birt á öðrum stað hér í blaðinu. Að því loknu var hrópað ferfalt húrra fyrir Ísborg og skipshöfn hennar. Þá söng Sunnukórinn í faðmi fjalla blárra, en síðan þakkaði Halldór Jónsson framkvæmdarstjóri móttökurnar. Að lokinni ræðu hans söng Sunnukórinn Íslandsfáni eftir söngstjórann. Síðan var almenningi boðið að skoða skipið og hagnýttu margir sér það boð þá um daginn og næsta dag á eftir. Skipstjóri á Ísborgu er Ragnar Jóhannsson, 1. stýrimaður Helgi Jónsson og 1. vélstjóri Baldur Kolbeinsson. Um kvöldið bauð bæjarstjórnin og stjórn togarafélagsins skipshöfn Ísborgar og nokkrum öðrum gestum til kaffidrykkju að Uppsölum. Kjartan Jóhannsson stjórnaði hófinu fyrir hönd togaraútgerðarinnar. Flutti hann við það tækifæri stutta ræðu, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Auk hans fluttu þar ræður þeir Sigurður Halldórsson settur bæjarstjóri, sem jafnframt las heillaskeyti frá Ásberg Sigurðssyni bæjarstjóra, þar sem hann óskaði bæjarfélaginu til hamingju með hið glæsilega skip, Halldór Jónsson framkvæmdarstj., Sigurður Bjarnason, Birgir Finnsson, Helgi Hannesson, Ólafur Guðmundsson, Halldór Ólafsson ritstjóri og Ragnar Jóhannsson skipstjóri. Allir ræðumenn óskuðu útgerð skipsins allra heilla. Sungið var á milli ræðanna og stjórnaði frú Jóhanna Johnsen söngnum. Fór samkoman að öllu leyti hið bezta fram.
Ísborg er 25. nýsköpunartogarinn, sem kemur til landsins. Skipið átti upphaflega að vera fullsmíðað 31. júlí 1947. Lengd þess er 177 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 655 brúttosmálestir að stærð og er byggt hjá skipasmiðastöðinni Cook Welton og Gemmel í Beverley í Englandi. Aðalvél þess er 1.300 hestöfl. Var ganghraði þess rúmar 13 mílur í reynsluför. Tveir dýptarmælar eru í skipinu, loftskeytatæki, miðunarstöð og radartæki. Er það þannig búið öllum fullkomnustu öryggistækjum. Mannaíbúðir eru hinar vistlegustu. Ferð Ísborgar frá Englandi tók 4 sólarhringa og 3 klst. Kom skipið beint frá Hull hingað til Ísafjarðar. Kaupverð skipsins er 3,4 miljónir króna án veiðarfæra.
Þessir menn hafa verið ráðnir á skipið auk skipstjóra:
Helgi Jónsson 1. stýrimaður. Pétur Bjarnason 2. stýrimaður. Baldur Kolbeinsson 1. vélstjóri. Hallgrímur Pétursson 2. Vélstjóri. Magnús Eiríksson 3. vélstjóri. Kristján Bjarnason kyndari. Anton Ingibjartsson kyndari. Guðbjartur Finnbjörnsson loftskeytamaður. Halldór Sigurbjörnsspn bátsmaður. Þorsteinn .M. Guðmundsson netamaður. Ellert Eiríksson matsveinn.
Hásetar:
Árni Jónsson. Þórarinn Ingvarsson. Ólafur Ólafsson. Líndal Magnússon. Þorgeir Ólafsson. Steinn Guðmundsson. Annas Kristmundsson. Ólafur Guðjónsson. Garibaldi Einarsson. Hrólfur Þórarinsson. Guðmundur Rósmundsson. Hjörtur Bjarnason. Steindór Arason. Magnús Þórarinsson. Karl Jónsson. Valdimar Þorbergsson.
Ísborg fór til Reykjavíkur kl. 5 á fimmtudag en þar voru sett í hana lýsisbræðslutæki. Þaðan fór skipið beint á veiðar. Vesturland óskar hinu nýja skipi og skipshöfn þess allra heilla um leið og það lætur þá von í Ijós að útgerð þess eigi eftir að verða bæjarfélaginu og almenningi í bænum til gagns og blessunar.

Vesturland. 13 maí 1948.


B.v. Ísborg ÍS 250 að koma úr sinni fyrstu veiðiferð hinn 23 maí árið 1948 með um 280 tonn eftir 11 daga veiðiferð. (C) Jón Páll Halldórsson.


Ísborg ÍS 250 á leið inn Pollinn á Ísafirði.                                       Ljósmyndari óþekktur.


Ísborgin með gott karfahol við V-Grænland. Sterturinn á pokanum hafði óklárast og Guðmundur Ísleifur Gíslason stýrimaður stokkið út á pokan til að gera hann kláran.
  (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Gott ufsahal á Selvogsbanka.                                                      (C) Jón Hermannsson.

           Verið að undirbúa rúmlega
                  200 skip til síldveiða

  Átta togarar munu taka þátt í vertíðinni

Í öllum verstöðvum landsins, sem senda ætla skip til síldveiðanna fyrir Norðurlandi nú í sumar, er unnið af kappi við að útbúa þau rúmlega 200 skip, sem taka munu þátt í veiðunum. Fyrir nokkru er liðinn frestur sá, er settur var til að tilkynna atvinnumálaráðuneytinu þátttöku einstakra skipa í síldarvertíðinni. En allt fram á þennan dag hafa umsóknir verið að berast ráðuneytinu. Atvinnumálaráðuneytið skýrði mbl. svo frá í gær, að sennilega myndu um 230 skip af ýmsum gerðum og stærðum taka þátt í síldveiðunum. Meðal skipanna eru tveir nýsköpunartogarar, þeir Jörundur frá Akureyri og Ísborg frá Ísafirði. Auk þessara togara tveggja, hefir verið tilkynnt um þátttöku sex annara, sem flestir hafa legið við festar um langt skeið, svo sem AIliance-togarinn Tryggvi gamli, Kveldúlfstogaranna Þórólfs, Gyllis og Skallagríms, ennfremur Íslendingur og Forseti. Munu ekki jafnmargir togarar hafa tekið þátt í síldarvertíð, síðan fyrir stríð.

Morgunblaðið. 26 júní 1950.B.v. Ísborg á síldveiðum. 11 síldarstúlkur söltuðu síldina í tunnur á dekkinu og þær síðan hífðar niður í lest.    (C) Gerður Antonsdóttir.

   Ísborginni breytt í flutningaskip

Í gær kom varðskipið Þór með togarann Ísborgu í togi hingað til Reykjavíkur. Hafði togarinn verið dreginn vestan frá ísafirði og tók förin rúman sólarhring . Hér er ætlunin að breyta ísborginni í flutningaskip, taka af henni allan togbúnað og úr henni gufuvélina, en setja dieselvél í staðinn. Fréttamaður blaðsins brá sér niður að Ingólfsgarði í gær, en þá var verið að leggja Ísborginni þar, en annar staður var ekki tiltækur, því svo þröngt er nú í höfninni sökum togaraverkfallsins. Um borð í Ísborginni voru núverandi eigendur hennar þeir Bjarni Pálsson frá Hrísey, Guðmundur Kristjánsson, skipamiðlari og Guðfinnur Þorbjörnsson, vélfræðingur, en hann fylgdi skipinu að vestan. Við spurðum hvernig fyrirhuguð væri breyting skipsins er það verður gert að flutningaskipi.
Skrokkur skipsins er talinn góður, enda eru togarar yfirleitt traustbyggðari en flutningaskip. Ætlað er að skipið muni bera um 600 tonn og eru næg verkefni fyrir skip af þeirri stærð, að því er nú reynist. Fjarlægður verður allur togbúnaður skipsins af dekki, togvinda, gálgar, lestarlúgur og annað er togútgerð áhrærir. Brúin verður tekin upp í heilu lagi og flutt aftar til þess að fá meira þilfarsrúm. Gufuketill skipsins er þegar seldur til notkunar í síldarbræðslu á Austurlandi og verður hann tekinn úr skipinu við fyrsta tækifæri. Ketillinn er 45 lestir að þyngd og enginn krani hér í höfninni tiltækur til að taka upp svo þungt stykki. Hins vegar munu skip Moore Macskipafélagsins sem hingað koma annað veifið á vegum hersins, hafa ,,bómur" og vindur, sem geta lyft svo miklum þunga. Hafa eigendur gert sér von um aðstoð einhvers þessara skipa. Takist það ekki er fyrirhugað að reyna að láta tvo krana, sem valda um 25 tonnum hvor, gera samtaka átak til að lyfta katlinum.
Skip sem Ísborg á að geta annað ýmsum verkefnum eftir að því hefir verið breytt og auk flutninganna stundað síldveiðar með kraftblökk. Galli er hins vegar talinn á skipinu að það ristir fremur djúpt og á því er kjölur, en ekki flatur botn, svo að það á erfiðara með að fara inn á minni hafnir. Ekki er talið að þurfi að nota lúkarinn fyrir vistarverur manna, þar sem rúm er fyrir 14 manns aftur í skipinu. Ætlunin er að hefja þegar breytingar á skipinu, ef verkfall járnsmiða tefur það ekki. T. d. hafði verið samið um að afhenda gufuketilinn innan 20 daga.

Morgunblaðið. 1 maí 1962.


Verið að hífa 750 ha. díeselvélina um borð í Ísborgina.  (C) Tíminn.

   Tveir togarar gerðir út til flutninga

Togararnir eru nú farnir, að fara undir hamarinn í tvennum skilningi, þannig að þeir verða hamraðir til annarra verka en þeim var ætlað, eftir að uppboðshamarinn hefur fallið. Nýlega keyptu þeir Guðfinnur Þorbjörnsson vélstjóri, Guðmundur Kristinsson skipamiðlari og Bjarni Pálsson vélstjóri Ísborgina af Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Togarafélag Ísfirðinga gerði Ísborgina út, en lenti í þrotinu eins og fleiri útgerðarfyrirtæki upp á síðkastið. Ísborgin er byggð í Englandi 1948 og er 650 lesta skip brúttó. Hún liggur nú á Ísafirði, en verður flutt til Reykjavíkur eftir helgina og breytt í flutningaskip, gufuvélin og ketillinn tekinn úr henni og 750 hestafla Skandia dísilvél sett í staðinn. Skipið á að léttast um 200-300 lestir og lestin að stækka um 50-60%. Að þessu verður unnið á ýmsum stöðum hér syðra, og gert er ráð fyrir, að breytingunni verði lokið í haust. Blaðið talaði í gær við Guðfinn Þorbjörnsson, sem skýrði frá kaupunum. Fyrir nokkru var myndað félag í Njarðvíkunum um kaup á togaranum Guðmundi Júní til að breyta honum í flutningaskip. Guðmundur Júní er byggður um 1926. Einar (ríki) Sigurðsson gerði hann út, en togarinn hafði legið hér í höfninni í Reykjavík þar til fyrir skömmu að hann var fluttur suður í Njarðvíkur. Tryggvi Ófeigsson hefur keypt Keili, en hann er nú gerður út á þorskanet undir nafninu Sírius. Axel í Rafha átti togarann og gerði hann út, en fjármálaráðuneytið seldi Tryggva hann í vetur. Keilir var byggður í Þýskalandi árið 1950. Honum hefur ekki verið breytt, en togveiðum hans er lokið, að minnsta kosti um sinn. Þá er Bæjarútgerðin að búa Hallveigu Fróðadóttir til síldveiða með kraftblökk. Hún liggur nú hér í höfninni með öðrum togurum, en fer til síldveiða eftir næstu helgi.

Tíminn 27 apríl 1962.


Flutningaskipið Ísborg.                                                                           Ljósmynd í minni eigu.

   Ms. Ísborg reyndist vel í fyrstu ferð

Lokið er nú við að breyta Ísborginni í flutningaskip og hefur hún nú farið í sína fyrstu ferð eftir breytinguna. Skipið hefur reynzt mjög vel eftir breytinguna, og er skipshöfnin mjög ánægð með það. Ísborgin er byggð í Englandi 1948, en skipinu var nú breytt samfara 12 ára klössun. Ísborgin er mjög sterkbyggð, og hefur hún alla tíð þótt hið bezta sjóskip. Það var í aprílmánuði 1962, sem skipið var keypt frá Ísafirði, og skömmu síðar var byrjað að breyta því. Gífurlega miklar breytingar hafa verið gerðar, m. a. sett í það ný vél, þvi áður var gufuvél í skipinu, og var brúin einnig færð aftur. Verkið hefur tekið nokkuð lengri tíma en áætlað var, og kostnaðurinn hefur verið mikill, en að sögn eigenda ekki meiri en svo, að skipið geti staðið undir honum. Öll breytingin hefur verið framkvæmd hér heima, en aðallega hafa unnið við skipið, Vélsmiðjan Járn, vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar h.f., Vélsmiðjan Héðinn h.f., Stálsmiðjan h.f. og Slippfélagið hf. Stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur lánað fé til verksins og veitt margþætta fyrirgreiðslu. Skipstjóri á Ísborginni er Haukur Guðmundsson, 1. stýrimaður Georg Franklínsson, 1. vélstjóri Agnar Hallvarðsson og bryti Svanur Jónsson.

Vísir. 25 janúar 1964.


123. Flutningaskipið Ísborg                                                    Mynd úr safni Hafliða Óskarssonar.


Nueva Isborg sennilega við bryggju í hafnarborginni Agios Nikólaos á Krít árið 1982. Ljósmyndin er úr safni Hafliða Óskarssonar.

        Togaraútgerð frá Ísafirði

Þrívegis hefur togaraútgerð verið rekin frá Ísafirði. Fyrst var þar útgerðarfélagið Græðir sem keypti 6 ára gamlan togara í Englandi sumarið 1913. Hann var 277 smálestir og hét Earl Monmouth en var nefndur Jarlinn. Sigurjón Jónsson, síðar bankastjóri og alþingismaður var forstjóri Græðis. Ekki var Jarlinn nema stutta hríð á Ísafirði og aflaði treglega. Samt varð þetta gróðafyrirtæki vegna hækkaðs verðlags og góðrar sölu á skipinu eftir 1 eða 2 ár. Næst voru stofnuð tvö togarafélög á Ísafirði 1923 og 1924. Annað hét togarafélag Ísfirðinga og keypti togarana Hávarð Ísfirðing og gerði út alllengi. Hitt félagið var látið heita Græðir. Það átti togarann Hafstein nokkra hríð, en heimilisfang hans var þó aldrei á Ísafirði. Árið 1936 var togarafélag Ísfirðinga komið í þrot, Ísafjarðarbær gekkst þá fyrir myndun hlutafélags til að kaupa skipið. Var það nefnt Skutull og gert út fram á styrjaldarár en þá selt. Eftir seinna stríðið var svo stofnað togarafélagið Ísfirðingur, sem fékk nýsköpunartogarana Ísborg og Sólborg og gerði út um skeið.

Ísfirðingur. 1 júní 1966.

05.10.2021 13:43

B.v. Karlsefni RE 24. LCKH / TFKD.

Botnvörpungurinn Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Ferguson Bros Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918. 323 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,30 x 7,22 x 3,90 m. Smíðanúmer 230. Hét fyrst John Dutton LO 514 og var í eigu breska flotans. Seldur í desember 1924, Firmanu Geir & Th Thorsteinsson í Reykjavík, og kom hann til landsins hinn 15 janúar árið 1925. Fær þá nafnið Karlsefni RE 24. 1 september árið 1941 er skráður eigandi Hlutafélagið Karlsefni í Reykjavík. Skipið var selt 18 október  1946, p/f. J. Dahl á Görðum í Vogi í Færeyjum, mun hafa heitið Karlsefni til 12 desember 1946 er p/f Garðar í Vogi varð eigandi togarans. Fékk hann þá nafnið Beinisvörð TG 785. Í febrúar 1956 varð það óhapp að þegar kynda átti upp gufuketil togarans fyrir veiðiferð, kom þá í ljós að ekkert vatn var á honum. Skemmdist ketillinn það mikið að ekki svaraði kostnaði að gera við hann. Togarinn var seldur í brotajárn til H.J. Hansen í Óðinsvé í Danmörku, 10 nóvember árið 1956 og var tekinn af færeysku (dönsku) skipaskránni 12 mars árið 1957.

John Dutton var smíðaður sem stjórnarskip (Admiralty trawler, Mersey class) H.M.T. John Dutton Additional no: 3739. John Dutton var eitt af þeim skipum sem breska stjórnin afhenti írska fríríkinu við stofnun þess árið 1923. Togarinn var aldrei í drift hjá þeim. Togarinn mun hafa verið kominn til Hull þegar Geir Thorsteinsson og félagar kaupa skipið.

Heimildir að hluta:
Birgir Þórisson.
Glottar úr trolarasögunni. Óli Olsen 2019.
           


B.v. Karlsefni RE 24 á toginu.                                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

             "Karlsefni" RE 24

Nýr togari, Karlsefni að nafni, kom hingað í morgun. Útgerðarfélagið Geir & Th. Thorsteinsson ásamt Gísla skipstjóra Oddssyni eiga skipið. Skipið er svipað að stærð og Grímur Kamban, 139 fet á lengd og 23,7 fet á breidd. Skipstjóri verður Guðmundur Sveinsson, sem áður hefir verið stýrimaður á Leifi heppna.

Vísir. 15 janúar 1925.


B.v. Karlsefni RE 24 í Reykjavíkurhöfn.                                          (C) Magnús Ólafsson.


B.v. Karlsefni RE 24 við Höepfnersbryggju á Akureyri. Togarinn er þarna útbúinn á síldveiðar og mikill tunnustafli, og allt tilbúið að salta síldina þegar hún berst.  (C) Ljósmyndari óþekktur.


Togarinn Beinisvörð TG 785 í slippnum í Þórshöfn í Færeyjum.        Úr safni Óla Ólsen.
 

     Fimm íslenskir togarar hafa nú
           verið seldir til Færeyja

Togarinn "Karlsefni" hefur nú verið seldur til Færeyja. A/S J. Dahl, Vaag, keypti togarann. Þetta er 5. íslenzki togarinn, sem seldur er til Færeyja, en hinir togararnir eru, eins og kunnugt er: Kári, Þorfinnur, Rán og Geir. Ekki mun þó hafa verið gengið frá samningum um sölu hins síðast nefnda. Karlsefni var eign Geirs Thorsteinssonar og hafði hann átt hann síðan um áramótin 1924-1925. Skipið er 236 smál. að stærð, og smíðað árið 1918. Skipstjóri á Karlsefni var Halldór Ingimundarson.

 

Alþýðublaðið. 25 október 1946.

  • 1
Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852182
Samtals gestir: 62754
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 01:03:56