Færslur: 2020 Maí

30.05.2020 20:37

Þýska farþegaskipið Bremen.

Hraðskipið Bremen var smíðað hjá Deutsche Schiff-und Maschinenbau-Aktiengesellschaft. A.G. í Bremen í Þýskalandi á árunum 1928-29. 51.731 brl. Skipið hafði fjórar Getriebe túrbínuvélar með samtals 135.000 hestafla orku og í skipinu voru 20 olíukynntir katlar. Það var 286 metrar á lengd, 31 meter á breidd og djúprista var 10,5 metrar. Ganghraði skipsins var 28 sjómílur á klukkustund. Í áhöfn skipsins var um 1.000 manns, en skipið hafði rúm fyrir um 1.900 farþega, 540 á fyrsta farrými, 506 á öðru farrými og 836 á þriðja farrými.
Skipið var í eigu Norddeutscher Loyd í Bremen og þar var heimahöfn þess. Skipið fór alls um 190 ferðir á milli Bremerhaven og New York, auk nokkura skemmtiferða um suðurhöfin. "Bremen" hélt "bláa bandinu" um fjölda ára, þrátt fyrir harða samkeppni fjölmargra úthafsrisa annara þjóða. Hinn 16 mars árið 1941 kom upp eldur í skipinu. Tvennum sögum fer af endalokum þessa mikla skips þjóðverja. Þjóðverjar segja skipið hafa orðið loftskeytaárásum bandamanna að bráð á Weser fljóti hinn 16 mars árið 1941. Hin sagan er að skipsdrengurinn Gustav Schmidt hafi kveikt í skipinu. Síðdegis þennan sama dag hafi hann fengið löðrung frá einum bátsmanninum. Í hefndarskyni hafi hann kveikt í dýnustöflum sem geymdar voru í skotfærageymslunni. En hvað öllum heimildum líður, var skipið dregið inn til Bremerhaven þar sem enn má sjá í leyfar þessa mikla skips.


Bremen á siglingu.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Ein af 4 Getriebe túrbínum skipsins.                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Í vélarrúmi skipsins.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Bremen í smíðum.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Bremen leggst að bryggju í New York árið 1935.                                          Ljósmyndari óþekktur.


Útlitsteikning af Bremen.


Líkan af farþegaskipinu Bremen.                                                         (C) Savy Boat Models.

24.05.2020 09:57

M. sk. Nordlyset strandar við Vestmannaeyjar.

Það var hinn 27 nóvember árið 1908 að "Nordlyset", skip hins íslenska steinolíufélags í Reykjavík strandaði á grunni við Vestmannaeyjar. Var skipið þá í olíuflutningum. Björgunarskipið "Svava" náði skipinu út og dró það til Reykjavíkur þar sem það var gert upp.
Mótorskonnortan Nordlyset LBKM. var smíðuð í Helsingborg í Svíþjóð árið 1897. 93 brl. Var með hjálparvél, stærð og gerð óþekkt. Alfred Fr Philipsen kaupmaður í Reykjavík og forstjóri Hins íslenska steinolíufélags í Reykjavík, sem var dótturfélag D.D.P.A (Det Danske Petroleumsselskab í Kaupmannahöfn), keypti skipið árið 1908. Nordlyset var í olíuflutningum milli hafna á Íslandi. Olían var þá flutt í stórum tréfötum. Nordlyset var selt úr landi árið 1915.


Mótorskonnortan Nordlyset á strandstað við Vestmannaeyjar 1908.        (C) Mynd úr safni mínu.


Nordlyset við Stykkishólm.                                                                          (C) Mynd úr safni mínu.

                Skipi hlekkist á

Seglskipið "Nordlyset" rakst á grunn við Vestmanneyjar 27. nóv. s.l. Skipið var fermt olíu, og tókst björgunarskipinu "Svava" að ná því á flot, og koma því til Reykjavíkur, og kvað lítið kveða að skemmdunum.

Þjóðviljinn ungi. 19 desember 1908.

17.05.2020 15:54

Ilivileq GR 2 - 201.

Frystitogarinn Ilivileq GR 2-201 var smíðaður hjá Astilleros Armon S.A. í Gijon á Spáni árið 2020. Smíðanúmer G-017. Skipið mun vera um 5.000 bt að stærð. 5.400 Kw Rolls Royce vél. 81,3 m. á lengd og 17 m. á breiddina. Upphaflega var skipið smíðað fyrir H.B.Granda hf og átti að heita Þerney, en Grandi hætti við að ég held. Skipið er í eigu grænlensk dótturfélags Brims hf sem er að öllu leiti í eigu Brims. Fullkominn vinnslubúnaður er í skipinu sem á að geta unnið um 150 tonn á sólarhring og einnig er um borð fiskimjölsverksmiðja, þannig að allt sem skipið veiðir er nýtt. Sannarlega glæsilegt skip Ilivileq. Tók þessar myndir af skipinu um síðustu helgi þegar skipið lá við Grandagarð í Reykjavíkurhöfn.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Úr brú Ilivileq.                                                                                 (C) Astilleros Armon.


Aðalvél skipsins, Rolls Royce 5.400 Kw.                                          (C) Astilleros Armon.


Í eldhúsi skipsins.                                                                                (C) Astilleros Armon.


Úr káetu skipsins.                                                                                           (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                       (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                        (C) Astilleros Armon.


Í frystilest skipsins.                                                                              (C) Astilleros Armon.


Í borðsalnum.                                                                                                    (C) Astilleros Armon.


          Nýr frystitogari Brims

Nýr frystitogari Brims lagðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn í hádeginu í dag. Beðið hefur verið eftir skipinu með mikilli eftirvæntingu. Skipið er eitt það fullkomnasta í Norður-Atlantshafi. Skipið sem smíðað var á norður Spáni var hannað af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim.
Frystitogarinn er 81,8 metrar að lengd, 17 metra breiður og um 5000 brúttótonn að stærð. Við hönnun skipsins var orkusparnaður hafður að leiðarljósi, sem og sjálfvirkni. Aðstaða sjómanna er til fyrirmyndar og fullkomnasti búnaður til flökunar og frystingar er bæði byltingarkenndur fyrir vinnuaðstöðuna um borð og margfaldar framleiðslugetuna.

Fiskimjölsverksmiðja er í skipinu fyrir bein sem falla til við vinnsluna. Allur afli verður því fullnýttur og afkastageta vinnslunnar getur verið allt að 150 tonn á sólarhring. Í frystilestum verður rými fyrir allt að 1000 tonn af afurðum, flokkuðum á bretti.
Skipið er búið nýrri kynslóð af vélum frá Bergen-Diesel og Rolls-Royce með 5400 kW afli. Um borð er öflugt rafvindukerfi þar sem rafmagn fyrir vindurnar og annan búnað er framleitt með ásrafali.
Vinnsludekkið kemur frá Danmörku og flökunarvélarnar frá Vélfagi á Ólafsfirði.
Samspilið í hönnuninni gerir það að verkum að öll stýring vinnsluferla í skipinu er mjög nákvæm.
Skipið hóf heimferð fyrir fimm dögum frá Spáni með Pál Þóri Rúnarsson skipstjóra og Guðmund Kristján Guðmundsson stýrimanni í fararbroddi.
Skipið, sem fékk nafnið Ilivileq, er skráð í Qaqortoq á suður Grænlandi og er í eigu dótturfélags Brims á Grænlandi sem er í 100% eigu Brims. 

Brim hf. 5 maí 2020.


10.05.2020 11:07

143. Ljósafell SU 70. TFBS.

Vélskipið Ljósafell SU 70 var smíðað í Ekenaas í Svíþjóð árið 1948 fyrir Ríkissjóð Íslands (Otur hf ) í Reykjavík. Hét þá Otur RE 32. Eik. 101 brl. 260 ha. Polar vél. Frá 24 febrúar 1949 heitir skipið Áslaug RE 32, sami eigandi. Selt 14 janúar 1953, Hallgrími Oddssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Stofnlánadeild sjávarútvegsins eignast skipið í september 1957. Ný vél (1958) 360 ha. Alpha vél. Selt 25 júní 1958, Rún hf á Seyðisfirði, hét þá Guðrún NS 50. Selt 12 mars 1959, Búðarfelli hf á Fáskrúðsfirði, hét Ljósafell SU 70. Selt 30 mars 1965, Jóni Eiríkssyni hf á Höfn í Hornafirði, hét Jón Eiríksson SF 100. Skipið brann og sökk þegar það var á leið til Færeyja í slipp. Áhöfninni, 5 mönnum var bjargað um borð í bresku freigátuna Auroru sem hélt með skipbrotsmennina til Hornafjarðar.


Ljósafell SU 70.                                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Síðasti Svíþjóðarbáturinn
             kominn til landsins

Nýlega er kominn hingað til lands nýr bátur frá Svíþjóð, er Otur heitir. Er þetta stór og fallegur bátur og í alla staði hið vandaðasta skip, 106 lestir að stærð. Er þetta sá síðasti af þeim fimmtíu bátum, sem samið var um smíði á í Svíþjóð fyrir íslendinga. Hinir bátarnir eru allir fyrir nokkru komnir til landsins. Otur er eign samnefns hlutafélags í Reykjavík, sem gerir bátinn út, og fer hann væntanlega á síldveiðar nú um helgina. Blaðamaður frá Tímanum skoðaði þennan glæsilega bát í gær, en hann er all frábrugðinn hinum Svíþjóðarbátunum að innréttingu, og hefir skipstjórinn, Matthías Jochumsson ráðið þeim breytingum öllum. Borðsalurinn er stærri en venja er, og í eldhúsi er rafmagnseldavél, sem er algjör nýjung, er ætti að geta gefizt vel. Hurðir allar eru tvöfaldar og annar frágangur allur eftir því, sem bezt verður á kosið. Mun ekki ofsögum sagt, að þessi bátur sé einhver vandaðasti bátur íslenzka bátaflotans að öllum frágangi.
Skipstjóri á Otri verður Matthías Jochumsson, og er hann jafnframt einn aðaleigandi fyrirtækisins. Sigurður Jónsson frá Bakka, kunnur togaraskipstjóri, sótti bátinn til Svíþjóðar og fylgdist með smíði hans frá því í haust. Í bátnum er 260 hestafla Atlas dieselvél, en auk þess 18 hestafla Lister Ijósavél. Otur kom hingað til Reykjavíkur 16. júní og er þetta 10. Svíþjóðarbáturinn, sem Reykvíkingar fá. Einkennisstafir hans eru RE 32.

Tíminn. 24 júní 1948.


143. Otur RE 32.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

                Ljósafell SU 70

Í marsmánuði bættist við 1 stór bátur, 101 lest, til Fáskrúðsfjarðar. Var það vb. "Guðrún" N S 50, sem á síðasta ári var talinn frá Seyðisfirði. En nú hefur hf. Búðafell á Fáskrúðsfirði keypt bátinn, og hefur hann hlotið nafnið "Ljósafell", svo að nú eru stóru bátarnir á Fáskrúðsfirði orðnir 4, sem gerðir eru þaðan út í vetur.

Ægir. 7 tbl. 15 apríl 1959.


143. Jón Eiríksson SF 100 við bryggju á Höfn í Hornafirði.                             (C) Kiddi's workshop.


Mættum aðeins velvild um borð í Aróru

 Freigátan skilaði skipbrotsmönnunum                    5 til Hornafjarðar

"NEI, það var ekki minnzt á þorskastríðið eftir að við komum um borð, utan einu sinni að skipherrann á Áróru drap á það í gríni. Það var eftir að báturinn okkar var sokkinn og ég hafði þá orð á því við hann , að úr því sem komið væri þá vildum við heldur fara til Íslands en Þórshafnar, ef Áróra væri á leið þangað í grenndina . "Ja, til Íslands, " svaraði hann og brosti. "Ég fer ekki inn fyrir 50 mílurnar, eins og þú skilur!" Þannig komst Ástvald B. Valdimarsson skipstjóri á vb. Jóni Eiríkssyni SF 100, að orði þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti hann að máli á heimili hans í Höfn í Hornafirði í gærkvöldi. Báturinn sökk eftir eldsvoða sl. þriðjudagskvöld í grennd við Færeyjar. Skipherrann á Áróru hafði nefnilega endurskoðað afstöðu sína og eftir að hafa fengið nauðsynileg leyfi sigldi hann skipi sínu með íslenzku skipbrotsmennina innanborðs upp í landsteina fyrir utan Hornafjörð. Þaðan flutti svo einn af skipsbátum Áróru þá inn til hafnar.
Talsvert fjölmenni hafði safnazt saman á bryggjum til að fylgjast með komu áhafnarinnar á Jóni Eiríkssyni eftir að sézt hafði til ferða Áróru fyrir utan innsiglinguna um fimmleytið í gærdag. Árórumenn fóru sér að engu óðsleiga, lónuðu fyrir utan nokkra stund enda áttu þeir í brösum með skipsbátana. En um klukkan 6.30 lagðist svo skipsbáturinn að bryggju á Höfn og voru í honum skipbrotsmennirnir 5, sem Áróra hafði bjargað, og þrír af áhöfn Áróru fylgdu þeim í land. Blaðamanni Mbl. tókst að ná tali af einum þeirra, bátsmanninum, og spurði hann hvort þetta væri í fyrsta sinm sem þeir þrímenningarnir stigu á íslenzka grund. "Já, í fyrsta skipti," svaraði hann um leið og hann stappaði hressilega í trébitna í bryggjunni. Og hvert er ferðinni heitið? "Þarna út," svaraði hann óðar, benti í átt til Ároru og hló. Ég átti við hvert fer Áróra núna ? "Ég veit hvað þú áttir við," svaraði bátsmaðurinn aftur hinn kátasti, "við förum aftur í námunda við Færeyjar." Og hvað er Áróra að gera hér á norðurslóðum ? "Á eftirlitsferð eins og venjulega," svaraði bátsmaðurinn enn um leið og hann hoppaði um borð í skipsbátinn.
Nokkru síðar gafst okkur tóm til að hitta skipstjórann á Jóni Eiríkssyni, Ástvald Valdimarsson, og spyrja hann um eldsvoðann í bátnum og móttökurnar u Ég held það hafi verið Nesradíó sem fyrst náði kallinu frá okkur. Hvort Árora hafi verið næst okkur? - Nei, það held ég áreiðanilega ekki. Ég minnist þess, að skömmu áður en vélstjórinn kom upp til mín og tilkynnti um eldinn, þá sá ég til ferða skips um 200 lesta, og ég man að ég var einmitt að velta þá fyrir mér hvort þetta væri íslenzkur bátur. En það getur líka hafa verið lítill enskur togari.
Hvar Áróra var þegar hún fékk tilkynniguna um að við værum í hættu veit ég ekki fyrir víst, hins vegar sigldi hún til okkar á geysilegri ferð, yfir 30 mílna ferð og var komin til okkar eftir 3 ½  tíma. Fyrst komu þyrlurnar af skipinu og sveimuðu yfir okkur dágóðan tíma, sennilega til að vísa skipinu sjálfu á okkur. Síðan vorum við teknir upp, fyrst tveir og farið með þá um borð, síðan næstu tveir og loks ég síðastur. Satt að segja lenti ég í talsverðum erfiðleikum eftir að ég var orðinn einn. Árórumenn höfðu nefnilega kastað reykblysum í sjóinn til að lýsa upp, en þá tóku gúmbátarnir að reka hættulega nærri þeim og yfirvofandi var sú hætta að blysin kveiktu í bátunum. Átti ég fullt í fangi með að halda þeim frá blysunum en það hafðist og ég komst heilu og höldnu um borð í þyrluna. Okkur ber öllum saman að það hafi alls ekki verið eins óþægileg tilfinning og við áttum von á, að láta hífa sig svona um borð í þyrluna. Strax og komið var um borð voru þeir okkar, sem blotnað höfðu, færðir í þurran galla, gefin heit súpa og kaffi. En þyrlan var varla búin að skila mér um borð, en hún fór aftur í loftið með tvo menn af Áróru og dælitoki, sem látin voru síga niður í bátinn. Síðan var slökkvilið skipsins sent um borð í bátinn, og þeim tókst að slökkva eldinn svo að segja á samri stundu, enda augsýnilega þrautþjálfað lið. Eftir að eldurinn hafði verið slökktur, fór ég aftur um borð í Jón Eirikssom til að aðstoða þá við að setja neyðarstýrið á, því að hitt var brunnið og ónýtt.
Þá voru einnig negld borð á síður bátsins til að styrkja þær, en þær voru mjög veikbyggðar orðnar eftir eldinn. Síðan var báturinn tekinn í tog, og farið löturhægt fyrstu klukkustndina en þá var hraðinn aukinn og við það sökk báturinn svo að segja strax, enda var hann að því kominn að sökkva þegar Áróra kom fyrst að honum. Fljótlega eftir að ég kom um borð í Áróru, hafði ég samband við fulltrúa tryggingarfélagsins, þar sem ég tjáði honum það mat mitt, að enda þótt okkur tækist að koma bátnum til hafnar í Færeyjum, þá væri hann svo illa farinn að ekki mundi svara kostnaði að gera við hann. Fulltrúinn svaraði því þá til, að fyrst svo væri þætti honum ástæðulaust að reyna að draga bátinn til hafnar, hins vegar kæmi; ekki til greina að skilja hann eftir á floti og við yrðum að sökkva honum. Ég fór og sagði skipherranum á Áróru þetta álit tryggingarfulltrúans. "Nei, það kemur ekki til greina að sökkva bátnum," svaraði hann þá um hæl. ,,Þú getur rétt ímyndað þér fyrirsagnir blaðanna "Brezk freygáta í nánd við Ísland, strax farin að sökkva íslenzku bátunum!" Og báturinn var því tekinn í tog," sagði Ástvald að lokum.  

Morgunblaðið. 21 september 1972.


  • 1
Flettingar í dag: 402
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1063027
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 17:00:33