Færslur: 2021 Mars

21.03.2021 09:53

B.v. Sviði GK 7. LBMH / TFPC.

Botnvörpungurinn Sviði GK 7 var smíðaður hjá Ferguson Bros Shipbuilders Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918. 328 brl. 650 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,20 x 7,22 x 3,83 m. Smíðanúmer 232. Hét fyrst Nicholas Dean (Ad.No 3740) og var í eigu breska sjóhersins. Seldur í mars 1922, Gournay-Delpierre & Cie í Boulogne sur Mer í Frakklandi, hét þar Notre Dame de France B 939. Seldur í desember 1924, Boston Deep Sea Fishing & Ice Co í Grimsby, hét þar Willoughby GY 161. Seldur 24 febrúar 1928, Sviða h/f í Hafnarfirði, hét þá Sviði GK 7. Togarinn fórst í Kolluál út af Snæfellsnesi að talið er, 2 desember árið 1941 með allri áhöfn, 25 mönnum. Var hann þá á heimleið af Vestfjarðamiðum og kominn með fullfermi. Ýmislegt rekald fannst úr Sviða við Saurbæ á Rauðasandi dagana á eftir. 5 desember fannst sjórekið lík við Sjöundá á Rauðasandi og var það af Júlíusi Ágústi Hallgrímssyni kyndara á Sviða. Þegar síðast heyrðist frá togaranum, snemma morguns 2 desember,  var hann um 10 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi og var þá allt í lagi um borð. Skipstjórinn á togaranum Venusi GK 519, Vilhjálmur Árnason, taldi að óveðrið sem þá gekk yfir, hafi ekki verið það slæmt að togarinn Sviði hafi ekki komist leiðar sinnar til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Venus GK var þá í um 10 sjómílna fjarlægð frá Sviða. Það má kannski leiða að því líkum að Sviði hafi jafnvel farist af hernaðarvöldum.

Sjóslys þetta átti sér nokkurn eftirmála, þar sem ágreiningur reis um hvort hf. Sviði eða Stríðstryggingafélag Íslands skyldu greiða dánarbætur skipverjanna. Krafðist Stríðstryggingafélagið sýknu á þeim forsendum að togarinn myndi ekki hafa farist af ófriðarástæðum. Dómur féll í Sjó og verslunarrétti Reykjavíkur hinn 25 febrúar 1943 og leit hann svo á að með tilliti til veðurs og annara aðstæðna er slysið varð, að skipið hefði farist af styrjaldarástæðum og dæmdi aðstandendum fullar stríðsslysabætur. Vildu Stríðstryggingarnar ekki una þessum úrskurði og skutu málinu til Hæstaréttar og var dómur þar felldur 4 júní sama ár. Staðfesti Hæstiréttur dóm héraðsdóms og skírskotaði til forsenda hans fyrir dómnum. (Þrautgóðir á raunastund. 2 bindi bls 202-203).


B.v. Sviði GK 7.                                                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

              Nýr togari

Til Hafnarfjarðar kom á laugardagskvöldið togari, sem H.f. "Sviði" hefir keypt í Englandi. Heitir togarinn einnig "Sviði" og er 9 ára gamall, "systurskip" "Karlsefnis." Skipstjóri er Hafsteinn Bergþórsson. Hann og Gísli Jónsson skipaumsjónarmaður, fóru til Englands að taka við skipinu og fengu þeir miklar viðgerðir á því, án þess að kaupverð hækkaði. "Sviði" er hraðskreitt skip, fór á tæpum fjórum sólarhringum milli Fleetwood og Hafnarfjarðar. Hann verður gerður út hjá H.f. "Akurgerði" í Hafnarfirði og fer í fyrstu veiðiför sína í dag.

Morgunblaðið. 13 mars 1928.


B.v. Sviði GK 7 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

            Togarinn "Sviði" GK 7                           ferst með allri áhöfn

Þann 23. nóvember síðastliðinn fór togarinn "Sviði" úr Hafnarfirði á veiðar. Hélt hann á djúpmiðin úti fyrir Vestfjörðum. Var hann þar, ásamt fleiri skipum, þangað til mánudaginn 1. des., að hann lagði af stað heimleiðis eftir að hafa fengið fullfermi. Öndverðlega á þriðjudagsmorguninn hafði togarinn "Venus" samband við "Sviða", og var hann þá kominn suður undir Kolluál, en hann er um 10 sjómílur út af Öndverðanesi. Ekkert var að vanbúnaði um borð í "Sviða", svo að þess væri getið. Ekkert samband höfðu menn við hann eftir þetta, en það er talið fullvíst, að hann hafi farizt á þeim slóðum, er hann gaf síðast upp stöðu sína, en það var kl. 7.30. þriðjudagsmorguninn 2. desember. Að sögn Vilhjálms Árnasonar skipstjóra á "Venus", var veður allhvasst af suðri, en þó eigi svo, að togarar kæmust eigi leiðar sinnar. Sjór var hins vegar þungur mjög og marglyndur. Togarinn "Venus" lagðist á Skarðsvík á Snæfellsnesi kl. 2 e. h. á þriðjudaginn og lá þar til kl. 8 um kvöldið. Var veður þá tekið að batna svo, að hann lagði af stað suður til Hafnarfjarðar. Þegar þangað kom, var "Sviði" ókominn, og óttuðust menn þá þegar um afdrif hans. Svo skjótt sem verða mátti voru gerðar ráðstafanir til að leita að skipinu, en ekki bar það neinn árangur. Þá voru og gerðir út  leitarmenn beggja megin Breiðafjarðar. Þeir, sem fóru á ströndina að norðanverðu, fundu ýmislegt rekald í nánd við Saurbæ á Rauðasandi. Var þar meðal annars flak af björgunarbáti, lýsisföt og björgunarhringur merktur "Sviði" G. K. 7. Nokkru síðar fannst lík rekið í nánd við Sjöundá. Reyndist það að vera lík Júlíusar Hallgrímssonar, kyndara á "Sviða". Fleiri lík hafa ekki fundizt, þegar þetta er ritað, þrátt fyrir ítrekaða leit. Með "Sviða" fórust 25 menn, og láta þeir eftir sig 14 ekkjur og 46 börn. Af þessum mönnum voru 12 búsettir í Reykjavík, 11 í Hafnarfirði og tveir úti á landi. Miðvikudaginn 17. des. fór fram í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði minningarathöfn um skipshöfnina á "Sviða", og þann sama dag voru til moldar bornar hinar jarðnesku leifar Júlíusar Hallgrímssonar.
Þessir menn fórust með "Sviða":
Úr Reykjavík:
Guðjón Guðmundsson, skipstjóri, Bárugötu 35. F. 27. sept. 1894. Kvæntur og átti 3 hörn, 17, 15 og 9 ára.
Þorbergur Friðriksson, I. stýrimaður, Bræðraborgarstíg 52. F. 10. des. 1899. Kvæntur og átti 4 börn, 8, 7, 5 og 2 ára.
Guðmundur Pálsson, I. vélstjóri, Lindargötu 36. F. 7. júní 1910. Kvæntur og átti 1 barn og stjúpbarn.
Gunnar Klemensson, II. stýrimaður, Bergstaðastræti 6. F. 28. janúar 1916. Kvæntur og átti 1 barn.
Erlendur Hallgrímsson, loftskeytamaður, Laugaveg 83. F. 18. nóv. 1911. Kvæntur, barnlaus.
Júlíus Á. Hallgrímsson, kyndari, Freyjugötu 27. F. 31. júlí 1900. Ókvæntur, en bjó með aldraðri móður sinni og fötluðum bróður.
Lárus Þ. Gíslason, kyndari, Óðinsgölu 17 A. F. 2. okt. 1909. Átti unnustu og tvö börn.
Bjarni Einarsson, háseti, Bergþórugötu 57. F. 5. júlí 1915. Ókvænlur, en sá fyrir aldraðri móður sinni.
Bjarni Ingvarsson, háseti, Öldugötu 4. F. 11. okt. 1923. Hann var sonur Ingvars Ágústs skipstjóra á "Braga", er fórst við Fleetwood í fyrra vetur, og næst elztur af 5 börnum hans.
Guðmundur Halldórsson, háseti, Grettisgötu 57 A. F. 17. júlí 1904. Kvæntur og átti 4 börn, 10, 7, 5 og eins árs.
Guðmundur Þórhallsson, háseti, Karlagötu 15. F. 20. júni 1922.
Jón G. Björnsson, háseti, Tjarnargölu 47. F. 21. marz 1924.
Úr Hafnarfirði:
Lýður Magnússon, II. vélstjóri, Öldugötu 19. F. 24. maí 1898. Kvæntur og átti 1 barn.
Sigurður G. Sigurðsson, bátsmaður, Hörðuvöllum. F. 13. ágúst 1900. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 3 upp komin.
Guðmundur Júlíusson, matsveinn, Selvogsgötu 5. F. 24. sept. 1892. Kvæntur og átti 5 börn, þar af 2 upp komin.
Bjarni E. Ísleifsson, háseti, Selvogsgötu 12. F. 10. okt. 1913. Kvæntur og átti 1 barn.
Egill Guðmundsson, háseti, Vörðustíg 9. F. 24. júní 1907. Kvæntur og átti 2 börn.
Gísli Ámundason, háseti, Nönnugötu 1. F. 14. nóv. 1889. Átti stjúpbarn.
Gottskálk Jónsson, háseti. Ókvæntur, en átti 1 barn.
Gunnar I. Hjörleifsson, háseti, Selvogsgötu 5. F. 7. ágúst 1892. Kvæntur og átti 6 hörn, þar af 3 upp komin.
Haraldur Þórðarson, háseti, Selvogsgötu 8. F. 11. marz 1897. Kvæntur og átti 6 börn, þar af 3 upp komin.
Jón G. Nordenskjöld, háseti. F. 9. sept. 1916. Átti unnustu.
Sigurgeir Sigurðsson, háseti. F. 18. júni 1896. Kvæntur og átti 2 börn, annað upp komið. Sigurgeir var bróðir Gísla bátsmanns.
Utan af landi:
Baldur Á. Jónsson, háseti, frá Akranesi. F. 28. des. 1914. Ókvæntur, en var fyrirvinna móður sinnar.
Örnólfur Eiríksson, háseti, frá Felli í Mýrdal, 26 ára. Ókvæntur.
Togarinn "Sviði" var 328 rúmlestir brúttó, smíðaður í Skotlandi 1918. Hann var eign h.f. Sviða í Hafnarfirði.  

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1941.

19.03.2021 21:56

Grimsbytogarinn Ross Kenilworth GY 2 sekkur út af Jökli.

Togarinn Ross Kenilworth GY 2 sökk um 20 sjómílur suðvestur af Malarrifi á Snæfellsnesi hinn 4 maí árið 1962. Hafði togarinn verið að veiðum við Snæfellsnes í um 9 daga og aflinn orðinn bærilegur. Um kl. 4 um nóttina urðu vélstjórar togarans varir við mikinn leka í vélarrúmi hans, og það mikinn að hann fór að síga niður að aftan. Kallaði þá upp skipstjórinn á Ross Kelinworth, John H Simpson, neyðarkall til nærstaddra breskra togara og togarinn Ross Rodney, sömu útgerðar og kom því áleiðis til nærstaddra skipa og svaraði varðskipið Þór og hélt þegar á leið til hans. Ákvað John H Simpson skipstjóri Ross Kenilworth, að 11 skipverjar færu um borð í Ross Rodney til öryggis. Þegar Þór kom á vettvang var togarinn orðin vélavana sökum lekans. Varðskipsmenn hófu þá flutning á dælum um borð í togarann, en sökum þess að hann var orðinn vélarvana, urðu varðskipsmenn að nota handaflið til að koma dælunum um borð, en það gekk brösuglega og aðeins ein þeirra virkaði sem hafði engan veginn við lekanum. Ross Rodney hafði tekið Ross Kenilworth í tog og ætlaði að koma honum til hafnar í Reykjavík, en um 2 klst. síðar, sökk afturhluti togarans og stefnið stóð uppúr og seig síðan niður í djúpið. 16 manna áhöfn var á togaranum þegar hann sökk. Ross Kenilworth GY 2 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1954. 442 brl. Gufuvél, stærð óþekkt. Smíðanúmer 1400. Hét fyrst Joseph Knibb GY 2 og var í eigu Derwent Trawlers Ltd í Grimsby. Togarinn var í eigu Ross Trawlers Ltd í Grimsby þegar hann sökk út af Jökli hinn 4 maí árið 1962. Við shjóréttarhöld kom fram að sennileg skýring á þeim mikla og skyndilega leka sem kom að togaranum væri sú að inntökurör í botni hans þar sem kælivatn var tekið inn á aðalvél hans hefði brotnað með þessum fyrr greindum afleiðingum.


Togarinn Ross Kelinworth GY 2 að því kominn að sökkva. Ross Rodney í baksýn.
Ljósmyndari óþekktur.


Ross Kelinworth GY 2 að sökkva í djúpið.                                               Ljósmyndari óþekktur.


Ross Kelinworth GY 2 að hverfa í djúpið.                                                       Ljósmyndari óþekktur.

             Breskur togari sökk
    Áhöfnin bjargaðist yfir í annan  
  brezkan togara og varðskipið Þór  

Klukkan tæplega tíu í gærmorgun sökk brezki togarinn Ross Kenilworth frá Grimsby. Skip þetta er 442 tonn að stærð smíðað árið 1955. Áhöfninni, 16 manns var bjargað og kom varðskipið Þór með mennina hingað til Reykjavíkur í gærdag. Fréttamenn og Ijósmyndari Mbl. fóru um borð í Þór og hittu þar skipherrann á varðskipinu Þórarin Björnsson og spurðu hann um gang málsins, ennfremur skipstjórann á Ross Kenilworth. John H. Simpson, sem sagði frá atburðum þar um borð. Klukkan 3,48 í fyrrinótt heyrði varðskipið Þór neyðarkall frá togaranum Ross Kenilworth og bar togarinn Ross Rodney neyðarkallið áleiðis. Svaraði Þór því þegar í stað og hélt skipinu til aðstoðar, sem kvaðst statt 21 sjómílu SV af Malarifi. Sagt var að mikill leki væri kominn að skipinu. Um kl. 5 í nótt var Þór kominn að togaranum og var Ross Rodney þá kominn á staðinn og hafði rétt skömmu áður skotið línu yfir í skipið og hafði þá komið vír yfir í Kenilworth.
Stundarfjórðungi eftir að Þór kom á staðinn lét hann 7 manns fara í stórum gúmmíbáti yfir í togarann, fyrst með tvær dælur og síðan þá þriðju. Voru þetta allt benzíndælur með rafkveikju og fóru tvær ekki í gang, og ein dæla reyndist ekki hafa undan að dæla úr skipinu, en vélarrúm þess var þá fullt orðið. Þegar klukkan var orðin 8 í morgun yfirgáfu síðustu togaraskipverjarnir hið sökkvandi skip, en áður höfðu 11 menn verið fluttir yfir í Ross Rodney. Var þá og hætt tilraunum til að dæla úr skipinu enda ekki hægt lengur. Mjög slæmt sjólag var 6 vindstig á norðaustan, en undirsjór af suðvestri, skipið mikið farið að hallast og varðskipsmenn höfðu misst eina dæluna í sjóinn. Dælur þessar eru fleiri hundruð kg. að þyngd og ekki hægt að koma þeim um borð í togarann nema með handafli. Við aðgerðir þær fór 3. stýrimaður varðskipsins Kristinn Árnason í sjóinn, en gúmbáturinn rakst á borðstokk togarans, sem reis úr sæ við næsta ólag og kastaði gúmíbátnum í loft upp. Um kl. 8.30 voru þeir 11 skipverjar, er voru í Rodney fluttir yfir í Þór og flutti hann þá til Reykjavíkur. Togarinn Ross Rodney reyndi, er mennirnir höfðu yfirgefið Ross Kenilworth að draga skipið, en það bar ekki árangur og sökk skipið kl. 9.47 í gærmorgun og hafði stefni þess þá staðið alllanga stund úr sæ. Þeir 11 menn sem bjargað var yfir í Rodney, fóru í öðrum gúmbát Kenilworth, en misstu hann síðan frá skipinu. Náðu skipverjar á Þór honum síðar og ennfremur hinum gúmbát hins sokkna skips, en hann flaut upp er skipið var sökkið.
 Lágu báðir bátarnir á þilfari Þórs er hann kom til hafnar, annar talsvert rifinn. Skipverjar á Þór létu illa af aðstöðunni til björgunar togarans, en töldu þó að frekari líkur hefðu verið til að draga skipið til hafnar ef allar dælurnar þrjár hefðu getað verið í gangi. Skipstjóri togarans, John Hewitt Simpson, 50 ára, frá Cleethorpes í Lincolnshire, sagði að skipið hefði verið á miðunum út af Snæfellsnesi er lekinn hefði komið að því. Lekinn hefði komið upp í vélarrúminu og verið mikill og skyndilegur. Simpson skipstjóri sagði að lekinn hefði komið að skipinu nokkru áður en Ross Rodney kom á staðinn, skömmu fyrir klukkan tvö aðfaranótt föstudags, en vildi ekki ræða frekar um lekann eða orsakir hans fyrr en hann hefði talað við eigendur togarans, Ross-hringinn brezka. Simpson sagði að hann hefði að sjálfsögðu ekki fylgzt náið með hvað tíma leið, en hann teldi að klukkan hafi verið á milli fjögur og fimm um morguninn, er hann gaf 11 skipverjum skipun um að yfirgefa skipið og fara yfir í Ross Rodney á gúmmíbát.
Auk Simpsons skipstjóra urðu fjórir menn eftir í togaranum, Mc Urioh, stýrimaður, Connor, annar vélstjóri, Ward, háseti og Saunders, háseti. Þegar síðustu fimm mennirnir yfirgáfu skipið og fóru um borð í Þór, sagði Simpson að togarinn hefði verið farinn að hallast mikið. Taldi hann að áhöfnin hefði verið í talsverðri hættu undir lokin. Ross Kenilworth hafði verið að veiðum í níu daga er hann sökk, að því er Simpson tjáði Mbl. Sagði hann að afli hefði verið fremur lélegur, en þó sæmilegur stundum. Var togarinn með 750 kit er hann sökk, mest þorsk og flatfisk. Simpson skipstjóri kvaðst hafa stundað veiðar í 33 ár, og sér fyndist það of langur tími. Síðari árin hefði hann unnið í landi, en farið einstöku ferðir sem skipstjóri á togurum Ross-hringsins. Hann hefði tvisvar áður verið skipstjóri á Ross Kenilworth, fyrir fjórum árum og í fyrra. Simpson skipstjóri sagði, að frammistaða Þórsmanna hefði verið með ágætum og bætti við: "Ég er viss um að ef nokkur leið hefði verið til þess að bjarga skipinu, þá hefði Þór gert það." Sagði hann að veður hefði verið slæmt um nóttina, hvasst og þungur sjór. Er Þór lagðist að bryggju í Reykjavík kvöddust þeir í brúnni Þórarinn Björnsson, skipherra, og Simpson skipstjóri, og þakkaði hinn síðarnefndi skipherranum björgunina fyrir hönd sína og skipshafnarinnar á Ross Kenilworth.

Morgunblaðið. 5 maí 1962.

14.03.2021 11:35

B.v. Ísólfur NS 14. TFLD.

Nýsköpunartogarinn Ísólfur NS 14 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bjólf hf á Seyðisfirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1327. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar hinn 8 desember sama ár. Ríkissjóður Íslands eignaðist togarann á uppboði sem haldið var á Seyðisfirði 2 mars 1957. Ríkið selur síðan togarann aftur til Seyðisfirðinga og er hann síðan gerður út af Fiskiðjuveri Seyðisfjarðar hf og fær þá nafnið Brimnes NS 14. Í desember 1958 er útgerð Brimness aftur komin í þrot. Það var svo í apríl 1959 að Axel Kristjánsson forstjóri (í Rafha) í Hafnarfirði tekur við rekstri togarans fyrir hönd ríkissjóðs og er hann þá gerður út frá Hafnarfirði. Haustið 1962 hóf ríkissaksóknari rannsókn á Brimnessútgerðinni og voru þeir Axel í Rafa og Sigurður Lárus Eiríksson ákærðir fyrir bókhaldsbrot og misnotkun á aðstöðu með fjárreiður útgerðarinnar. Þeim málaferlum lauk með fjársektum. Togarinn lá lengi síðan inn á sundunum við Reykjavík ásamt öðrum togurum sem hafði verið lagt. Togarinn var seldur í brotajárn til Hughes Bokkow í Blyth í Englandi í janúar árið 1968. Það var síðan gamli Ægir sem einnig hafði verið seldur í brotajárn, sem dró Brimnesið ásamt Sólborgu ÍS til Englands í júlí sama ár.


B.v. Ísólfur NS 14 að veiðum.                                                 (C) Sigurgeir B Halldórsson.

           Fyrsti togari Seyðfirðinga

          Nýsköpunartogarinn Ísólfur                           kom þangað í fyrradag 
Fréttaritari Þjóðviljans á Seyðisfirði í gær:
Nýsköpunartogari Seyðisfjarðarkaupstaðar, Ísólfur, kom hingað í gær. Hann er eign h.f. Bjólfs, sem bærinn er langstærsti hluthafinn í. Kl. 8 um morguninn fóru bæjarfulltrúar og stjórn h.f. Bjólfs um borð í togarann úti á firði. Síðan hófst hatíðleg móttökuathöfn kl. 10 f. h., er togarinn lagðist upp að bryggju. Þar flutti forseti bæjarstjórnar, Gunnlaugur Jónasson, ávarp; Björn Jónsson, kennari, flutti frumort kvæði og Árni Vilhjálmsson, erindreki Fiskifélags Íslands, flutti ávarp. Síðast talaði skipstjórinn, Ólafur Magnússon, fáein hvatningarorð til skipshafnarinnar. Milli atriða söng karlakór undir stjórn Jóns Vigfússonar. Bæjarbúar höfðu safnazt saman á bryggjunni og hrópuðu þeir húrra fyrir togaranum. Að athöfninnin lokinni skoðaði mannfjöldinn skipið. Kl. 9 um kvöldið hófst samsæti í sölum barnaskólans að tilhlutan h. f. Bjólfs. Hófinu stjórnaði Theodór Blöndal bankastjóri. Aðalræðuna flutti Erlendur Björnsson bæjarstjóri, frumort kvæði fluttu þeir Jóhannes Arngrímsson sýsluskrifari og Knútur Þorsteinsson kennari. Þá ávarpaði skipstjórinn Seyðfirðinga fyrir hönd skipshafnarinnar. Því næst söng samkór undir stjórn Steins Stefánssonar skólastjóra, nokkur lög. Margar aðrar ræður voru fluttar og almennur söngur milli atriða, undir stjórn Jóns Vigfússonar. M. a. voru sungin erindi úr framan greindum kvæðum. Að loknu samsætinu var dansað til kl. 4 um nóttina. Húsfyllir var og bezti mannfagnaður.
 Togarinn er nefndur eftir Ísólfi, syni Bjólfs landnámsmanns. Hann er fyrsti togarinn sem Seyðfirðingar eignast. Smíðaður í Englandi og voru sett í hann radartæki þar. 1. stýrimaður verður Erlingur Klemensson. Togarinn má nú heita tilbúinn á veiðar. 

Þjóðviljinn. 10 desember 1947.


B.v. Ísólfur NS 14 á Seyðisfirði.                                                          Ljósmyndari óþekktur.

     Ríkið kaupir togarann Ísólf

Seyðisfirði. Frá fréttaritara Þjóðviljans.
Togarinn Ísólfur var seldur á uppboði hér í gær. Kaupandi togarans er ríkið, og mun það selja Seyðisfjarðarbæ eða fiskiðjuveri bæjarins togarann, geti bærinn tekið að sér greiðslu á kaupverði hans, 5,7 millj. kr.
Togarinn Ísólfur var eign Bjólfs hf og var hagur þess orðinn slæmur, og því var togarinn seldur samkvæmt kröfu Landsbankans. Ísólfur lagði lítið af afla sínum upp á Seyðisfirði s.l. ár, eða aðeins framan af árinu. Af þeim sökum hefur lítið verið um atvinnu á þessum vetri  og hefur því fjöldi manna orðið að leita eftir vinnu á Suðurlandi á vertíðinni. En þótt Ísólfur legði ekki á land nema lítið af afla sínum á Seyðisfirði voru þó laun verkafólks í landi vegna landana hans þar, á aðra millj. Kr. Á árinu sem leið. Ríkisstjórnin hefur stuðlað að því með öllu móti að Seyðfirðingar geti haldið togaranum. Hefur bæjarstjórn þegar samþykkt að kaupa Ísólf.
Vonir standa til að Fiskiðjuver bæjarins komist í gang á miðju þessu ári og eykst þá þörfin fyrir hann mjög, jafnframt því sem aðstaða til nýtingar á afla hans gerbreytist til hins betra.

Þjóðviljinn. 3 mars 1957.

             Brimnesið á flot

Axel Kristjánsson, forstjóri í Hafnarfirði, hefur tekið að sér að sjá um rekstur Seyðisfjarðartogarans Brimnes næstu mánuði, a. m. k. Togarinn Brimnes hefur legið aðgerðarlaus austur á Seyðisfirði síðan um miðjan desember. Hann mun koma til Reykjavíkur einhvern næstu daga til eftirlits og útbúnaðar, en fara síðan á veiðar undir mánaðamótin. Er togarinn eign Seyðisfjarðarkaupstaðar, en fjármálaráðuneytið ásamt bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur fengið Axel til þess að taka rekstur togarans að sér.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1959.


Varðskipið Ægir með Brimnes og Sólborgu í togi.                                          (C) Albert Hansen.

         Ægir dregur tvo úr landi
          skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl, tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborg, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.

  • 1
Flettingar í dag: 133
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 572
Gestir í gær: 14
Samtals flettingar: 689079
Samtals gestir: 51457
Tölur uppfærðar: 19.3.2024 05:47:02