Færslur: 2018 Október

31.10.2018 16:12

1131. Bjarni Sæmundsson RE 30 að koma til hafnar í dag.

Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson kom til hafnar í Reykjavík um hádegið í dag. Tók nokkrar myndir af honum þegar hann kom í hafnarminnið. Fallegt skip Bjarni, en hann er kominn til ára sinna. Skipið var smíðað hjá Schiffbau Gesellschaft í Bremerhaven í V Þýskalandi árið 1970 fyrir Ríkissjóð Íslands. 776 brl. 3 x 600 ha. MAN díeselvélar, 1.800 ha, 1.323 Kw. Nýjar vélar (2003) 3 x Deutz vélar, samtals 2.166 ha, 1.593 Kw. Það var mikil reisn yfir þessum aldna höfðingja þegar hann sigldi inn á Reykjavíkurhöfn í blíðviðrinu í dag.


1131. Bjarni Sæmundsson RE 30 á leið til hafnar í dag.


1131. Bjarni Sæmundsson RE 30. TFEA.                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 október 2018.

            Höfum eignazt fullkomið                               hafrannsóknaskip
       "Bjarni Sæmundsson" kominn  

Hingað kom í gær hið nýja hafrannsóknaskip okkar íslendinga "Bjarni Sæmundsson" og hafnaði sig í Reykjavíkurhöfn kl. 5 í gærmorgun. Skipstjóri á hinu nýja skipi er Sæmundur Auðunsson, hinn kunni togaraskipstjóri og lét hann vel af skipinu. Skipið er smíðað hjá fyrirtækinu Unterweser A.G. í Bremerhaven. Það er teiknað af Agnari Norland, skipaverkfræðingi, og umsjón með byggingu þess hafa haft þeir Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur og Ingvar Hafllgrímsson, fiskifræðingur, sem sérstaklega hefur annazt það er Iýtur að þeim hlutum skipsins, er verða í umsjá fiskifræðinga. Öll fiskileitartæki, dýptarmælar, loftskeytatæki og talkerfi eru frá A/S Simonsen Radio (Simrad). Ýmis ný tæki eru í þessu skipi, sem ýmist hafa ekki verið sett í íslenzk skip áður eða eru þá alveg ný af nálinni. Fyrst skal þess getið, að í skipinu eru þrjár aflvélar, sem framleiða 380 volta riðstraum, en síðan er honum breytt í jafnstraum fyrir drifvélar skrúfuninar. Straummagnið er í heild 1.800 hestöfl. Í skrúfuvélarnar er hægt að nota 1.400 hestöfl. Sú nýjung er hér viðhöfð að riðstraumnum er breytt með svonefndum "týristorum" í jafnstraum. Ljósnet skipsins er 220 volt. Þá er það ennfremur nýtt í þessu skipi að sérstakt tæki er í því sem heldur stöðugum riða fjölda og stöðugri spennu, þótt orkuálag aukist eða úr því dragi skyndilega. Aflvélar skipsinis eru tvær af Man-gerð og er ganghraði þess 12,5 sjómílur.
Skipið er 776.6 brúttólestir að stærð og 49 metrar milli lóðlína. Vistarverur skipsins eru allar einkar snyrtilegar bæði fyrir skipshöfn og leiðangursmenn. Sú nýbreytni er einnig í þessu skipi að á því er hvorki kjölur né veltikylir. Botninn er ávalur og er það gert til þess að fiskileitartæki og önnur tæki sem hafa sendistöðvar í botni starfi mákvæmar, en þau vilja verða fyrir truflunum af kjölnum í veltingi. Í kjalar stað er sérbyggður veltitankur, sem gegnir sama hlutverki og kjölur og veltikylir, en þar kemur til vatnsmótora í þessum tanki. Skipið er byggt sem skuttogari með vökvadrifinni togvindu og er hún engin smásmíði, því á henni eru 1.300 faðmar af vír. Vindan samanstendur af tveimur tromlum og er hægt að knýja hvora þeirra fyrir sig eða báðar saman. Sérstakur stjórnklefi er fyrir vindurnar af afturþiljum og þar eru einnig vindur fyrir fleiri gerðir af vörpum. Þannig er frá gengið akkerisvindu að nota má hana við hringnótaveiðar og eins ef liggja þarf á miklu dýpi við straummælingar. Er þá hægt að skjóta inn sérstökum vír til lengingar. Sérstakar skrúfur hafa um nokkurt skeið verið notaðar til að auðvelda stjórn skipanna sérstaklega ef snúa þarf þeim við lítið rýrmi, eða halda þeim frá veiðarfærum. Á þessu skipi er Skrúfa á sjálfu stýrinu, sem auðveldar snarvendingu og auk þess er hægt að leggja stýrið 90 gráður í borð, sem er sjaldgæft mjög. Þá er skipið einnig búið bógskrúfu á sénstökum hæl, sem hægt er að renna niður úr botni skipsins að framan og snúa þar í alllar áttir til að auðvelda stjórn skipsins. Skipið mun í dag formlega verða afhent Hafrannsóknarstofnunni.

Morgunblaðið. 18 desember 1970.


31.10.2018 09:29

Bátar í höfn.

Þessi sjón var algeng hér áður fyrr í höfnum landsins, og þá sérstaklega þegar vertíðarbátarnir komu úr flestum landshornum á vertíð og gerðu út frá höfnum suðvestan lands, t.d. frá Keflavík, Grindavík og Vestmannaeyjum. Þessi tími er liðinn, öll þessi gömlu tréskip horfin á braut, voru flest þeirra úrelt í hrönnum fyrir stærri skip á árunum 1988 til 1992 og síðar. Þessi mynd er tekin í höfninni í Sandgerði um miðjan 9 áratuginn. Í forgrunni eru 4 Bátalónsbátar, smíðaðir árin 1972-73. Þeir eru ekki margir eftir, voru flestir britjaðir niður eða brenndir. Nokkrir þeirra náðu ekki 10 ára aldrinum áður en þeim var fargað, og voru þeir þó flestir í góðu standi. Þennan tíma mætti kalla "nornaveiðar tréskipanna" Bátalónsbátarnir sem eru í forgrunni eru allir farnir, 3 þeirra voru úreltir og 1 fórst með allri áhöfn, 3 mönnum. Þeir eru frá vinstri taldir;

1289. Bjarni KE 23, hét fyrst Guðný ÞH 41. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Ásbjörn Magnússon í Reykjavík 1973. Fargað og tekinn af skrá 3 nóvember 1983.

1271. Fram KE 105. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Benedikt B Guðmundsson í Keflavík 1972. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 apríl 1992.

1251. Knarrarnes KE 399, hét fyrst Knarrarnes GK 157. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Indriða Kristinsson og Guðjón Indriðason í Hafnarfirði 1972. Báturinn fórst um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 12 mars árið 1988 og með honum áhöfnin, 3 menn.

1217. Sóley KE 15. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Svavar Ingibergsson og Gunnlaug Jóhannesson í Keflavík. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 júlí 1989.

Gunnlaugur Þorgilsson skipstjóri og eigandi Knarrarness KE 399, bjó um tíma í Neskaupstað (1973-76) og gerði þá út bátinn, 486. Dofra NK 100, hét fyrst Guðrún ÞH 116, smíðaður á Akranesi 1961. Gulli, eins og hann var kallaður á Norðfirði og sonur hans, Árni Kristinn og Birkir S Friðbjörnsson úr Keflavík, fórust með Knarrarnesi KE, 12 mars 1988. Ég þekkti þá feðga vel. Blessuð sé minning þeirra.


Bátar í höfn. Sjaldséð sjón nú til dags.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

30.10.2018 08:16

1345. Blængur NK 125 á Akureyri.

Frystitogari Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað, Blængur NK 125 er nú í yfirhalningu hjá Slippstöðinni á Akureyri eftir góða 40 daga veiðiferð á Íslandsmiðum. Skipt verður um togspil togarans og ýmsar breitingar verða gerðar á millidekki og í lest skipsins. Áætlað er að verkinu muni ljúka um miðjan nóvember. Hér eru nokkrar myndir teknar af og um borð í skipinu þar sem það lá við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri á dögunum. Það var bróðir minn, Alexander S Gjöveraa sem tók þær og þakka ég honum fyrir það. Fallegt skip Blængur og vel við haldið eins og hinum skipum Síldarvinnslunnar, eins og ávalt hefur verið gert í gegn um tíðina.


1345. Blængur NK 125 við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri.
Nýju togspilin af Naust marine gerð.


Aðalvél skipsins, 5.000 ha. Wartsiila, árgerð 2000. Hrenni vélstjóri notar tímann til viðhalds hennar.
Í vélarrúmi Blængs NK.


Á millidekki togarans.


Flökunar og roðvél á millidekki.


Í frystilest skipsins.


Úr eldhúsinu.


Í borðsalnum.


Í brú skipsins.


Í brúnni.


Ekki má gleyma heita pottinum. Friðrik Vigfússon vélstjóri stendur við pottinn.
1345. Blængur NK 125. TFXD. Glæsilegt skip.                                    (C) Alexander S Gjöveraa.

           Blængur NK með góðan túr                                    og síðan í slipp

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni 40 daga veiðiferð en hann millilandaði á Akureyri 27. september sl. Aflinn í veiðiferðinni var 900 tonn upp úr sjó eða 29.000 þúsund kassar. Aflaverðmætið er 225 milljónir króna. Hér er um að ræða stærsta túr Blængs á Íslandsmiðum en uppistaða aflans var ufsi og karfi. Theodór Haraldsson var skipstjóri fyrstu tíu daga veiðiferðarinnar en síðan tók Bjarni Ólafur Hjálmarsson við. Að sögn Bjarna Ólafs var jöfn og góð veiði allan tímann.
Að löndun lokinni mun Blængur halda til Akureyrar þar sem skipið fer í slipp. Áformað er að gera nokkrar breytingar á millidekki skipsins og eins verður skipt um togspil. Gert er ráð fyrir að skipið verði í slipp í fjórar vikur.

Facebooksíða Síldarvinnslunnar hf
15 október 2018.


       

29.10.2018 12:37

414. Fjalar VE 333. TFPE.

Vélbáturinn Fjalar VE 333 var smíðaður hjá Holms Skeppsvarv í Raa í Svíþjóð árið 1955 fyrir Helga Benediktsson kaupmann og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 49 brl. 180 ha. June Munktell vél. Seldur 14 desember 1965, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf, hét Fjalar ÁR 22. Ný vél (1970) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 13 desember 1972, Sveinbirni Sveinssyni og Sigurði Hreiðarssyni í Stykkishólmi og Jónatan Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Sigurður Sveinsson SH 36. Seldur 11 desember 1973, Jónatan Jóhannessyni í Reykjavík og Garðari Jóhannessyni og Eðvarð Vilmundarsyni í Keflavík, hét Græðir KE 141. Seldur 22 júlí 1977, Jóni Gesti Sveinbjörnssyni og Ómari Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét Þröstur SH 130. 14 september 1977 voru Ómar Sigurðsson í Stykkishólmi og Örn Snorrason á Blönduósi skráðir eigendur, hét þá Þröstur HU 130. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 20 september árið 1979.


414. Fjalar VE 333 í prufusiglingu.                                                  (C) Holms Skeppsvarv í Raa.


414. Fjalar VE 333 sjósettur haustið 1954.                                 (C) Holms Skeppsvarv í Raa.

             V.b. Fjalar VE 333

Fjalar, annar þeirra fiskibáta, sem Helgi Benediktsson hefur látið byggja í Svíþjóð kom til Vestmannaeyja 22. febrúar s. l. eftir viðkomu í Færeyjum vegna leiðréttingar á áttavita. Fjalar er að öllu af sömu gerð og Frosti, sem kom fyrir áramótin. Báturinn er byggður í Raa með 180 hk. June Munktell aðalvél, sem búin er olíudrifinni gangskrúfuskiptingu, auk ljósavélar. Í bátnum er olíudrifin línu og netavinda, M. P. Petersen talstöð og miðunarstöð, dýptarmælir ásamt öllum þeim fullkomnustu og beztu tækjum sem notuð eru í fiskibátum. Gísli J. Johnsen, stórkaupmaður í Reykjavík, hafði milli göngu um samning um byggingu bátsins, en báturinn er byggður samkvæmt smíðalýsingu og miðbandsuppdrætti er Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari í Vestmannaeyjum gerði, og mun vera bezt gerða og nákvæmasta smíðalýsing, sem samin hefir verið af íslenzkum manni. Yfirbygging bátsins er úr létt málmi og íbúðir skipverja mjög vistlegar og vel frágengnar. Umsjón með byggingu bátsins annaðist Stefán Helgason, er nú er nýkominn heim eftir dvöl í Svíþjóð frá því í októbermánuði, en eftirlitsmaður af hálfu Skipaskoðunar ríkisins var Hans Hansson, skipstjóri í Gautaborg. Skipstjóri á heimsiglingunni var Sævaldur Runólfsson, sem verður skipstjóri á bátnum í vetur, en Bogi Sigurðsson stýrimaður. Vélstjórar voru Ingólfur Kristjánsson og Rafn Sigurbergsson.  Fjalar kom fullbúinn til fiskiveiða.

Framsókn. 4 tbl. 4 mars 1955.


28.10.2018 09:40

476. Guðjón Einarsson GK 161. TFZU.

Vélbáturinn Guðjón Einarsson GK 161 var smíðaður í Nyborg í Danmörku árið 1948. Eik. 42 brl. 150 ha. Grenaa díesel vél (1955). Eigendur voru Sigurgeir Guðjónsson og Guðjón Sigurgeirsson í Grindavík frá desember 1955. Hét áður Actinia. Ný vél (1963) 240 ha.Kelvin díesel vél. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 26 apríl árið 1966. Var síðan brenndur stuttu síðar.


476. Guðjón Einarsson GK 161.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Nýlega bættist nýr bátur í flota Grindvíkinga. Er það sex ára eikarbátur með nýrri vél, sem keyptur er þangað frá Danmörku. Báturinn er 48 lestir að stærð og hefir hlotið nafnið Guðjón Einarsson. Þessi bátur, sem gerður verður út frá Grindavík er búinn ágætum siglingatækjum og þægindum við skipstjórn t.d. er talsími úr stýrishúsi fram í bústað áhafnar.

Tíminn. 16 desember 1955.


25.10.2018 09:54

839. Sæljón RE 317. TFLI.

Vélbáturinn Sæljón RE 317 var smíðaður hjá Esbjerg Skibsværft A/S í Esbjerg í Danmörku árið 1955 fyrir Gunnar Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. 62 brl. 265 ha. GM díesel vél. Ný vél (1960) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 25 október 1961, feðgunum Kolbeini Guðmundssyni og Engilbert Kolbeinssyni á Auðnum í Gullbringusýslu, hét þá Sæljón GK 103. Seldur 14 janúar 1966, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sama nafn og númer. Seldur 6 desember 1968, Friðþjófi hf á Eskifirði, hét Sæljón SU 103. Ný vél (1971) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 23 ágúst 1972, Sæveri hf í Stykkishólmi, hét þá Sæljón SH 103. Báturinn var dæmdur ónýtur árið 1979, en var endurbyggður sama ár. Seldur 5 nóvember 1979, Sæljóni hf á Akureyri, hét Sæljón EA 55. Seldur 10 júlí 1981, Rán hf á Dalvík, sama nafn og númer. Báturinn sökk á Skagafjarðardýpi þegar hann var á rækjuveiðum um 25 sjómílur norður af Siglunesi eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 3 menn, björguðust um borð í Vélskipið Bjarma EA 13 frá Dalvík.


839. Sæljón RE 317 í slipp í Reykjavík.                                               Ljósmyndari óþekktur.

        Myndarlegur vélbátur bætist                          Reykvíska bátaflotanum

Nýlega bættist reykvíska vélbátaflotanum nýr og glæsilegur farkostur, v.b. Sæljón, RE 317. Þetta er nýsmíðaður eikarbátur, byggður við Esbjerg Skibsværft í Danmörku, myndarlegt skip, rúmar 60 lestir að stærð. Eigandi hans og skipstjóri er Gunnar Guðmundsson, útgerðarmaður, Miðtúni 3 hér í bæ. Fréttamaður Vísis átti tal við Gunnar og Magnús Ó. Ólafsson stórkaupmann, sem útvegaði bátinn, og fékk að skoða þenna prýðilega farkost, en hann var á förum norður til síldveiða. Skipið er með alúminíumstýrishúsi, en vélarreisn úr stáli. 200-240 hestafla GM diesel-vél knýr skipið, sem allt er búið hinum nýtízkustu tækjum, svo sem Simrad-dýptarmæli með "útfærzlu", eins og það er nefnt, móttöku- og senditækjum frá hinu kunna danska fyrirtæki, M. P. Pedersen, svo og talstöð. Þá er vélinni að sjálfsögðu stjórnað að öllu leyti frá stýrishúsi. Það er alger nýjung í skipi þessu, að íbúðir eru klæddar plasti, en það gerir m. a. það að verkum, að auðvelt er að halda veggjum og klæðningu í svefnklefum hreinum. Frammi í skipinu eru hvílur fyrir 8 manns, fullkomin olíukynt eldavél af Scandia-gerð, og öllu mjög haganlega fyrir komið. Áhöfnin er alls 10 manns, þar af ein stúlka, sem mun matreiða handa skipsfélögum sínum, Lilja Árnadóttir frá Grindavík. Lilja Árnadóttir er enginn nýliði á sjónum, en fréttamaður Vísis gat skipzt á nokkrum orðum við hana. Hún var áður á v.b. "Gunnari" frá Hólmavík. Henni lízt ljómandi vel á skipið og plastið á veggjunum, sem hún telur til mikilla bóta.  Eruð þér sjóveik? spyr fréttamaðurinn. "Svolítið, til að byrja með," svarar hún, "en það lagast fljótlega, og þegar maður er ekki sjóveikur, er gaman að vera til sjós." Lengra varð samtalið ekki, því að hún var að sinna skyldustörfum sínum, og báturinn senn á förum.

Vísir. 24 júní 1955.


839. Sæljón EA 55.                                                                                                (C) Morgunblaðið.

      Þrír menn björguðust þegar                      Sæljón EA 55 sökk

Þrír menn björguðust í gær er Sæljón EA 55, 61 tonns eikarbátur í eigu útgerðarfélagsins Ránar hf. á Dalvík, sökk um 25 sjómílur norður af Siglunesi. Leki kom að bátnum um kl. 13.30 og var hann sokkinn kl. 18.20 í gærkvöld. Skipverjunum þremur var bjargað um borð í Bjarma frá Dalvík, en báðir bátarnir voru á rækjutrolli á Skagafjarðardýpi. Bjarmi EA kom til Dalvíkur um kl. 23 í gærkvöldi.
Arngrímur Jónsson skipstjóri á Bjarma sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld hafa verið staddur um 20 sjómílur norður af Siglunesi þegar kall hefði borist frá Sæljóni um kl. 14.00 í gær, en þá var Sæljónið statt um sex mílur norðan við Bjarma. "Skipstjórinn var fyrst og fremst að fá upp hvar ég væri nákvæmlega og lét hann mig þá jafnframt vita um ástandið um borð. Þá var kominn leki í vélarrúmi og lensurnar virkuðu ekki. Við töluðum um að hafa samband reglulega. Hann dreif sig í að hífa trollið og var búinn að því hálftíma seinna. Þá sagðist hann ætla að leggja af stað í áttina til mín og spurðist fyrir um hvort í grenndinni væru bátar eða skip með dælu enda skilst mér að útlitið hafi þá verið farið að versna töluvert.
Ekki voru þó nein skip nálæg með dælur. Um fjögurleytið kallaði hann aftur og bað mig um að koma á móti sér. Þá átti hann eftir um tvær mílur í mig. Ég hífði trollið strax og fór á móti honum. Þá var vélin farin að hiksta og mikill sjór kominn í vélarrúmið. Ég var kominn upp að honum um kl 16.30. Sex vindstig voru um þetta leyti og var heldur að bæta í'ann á meðan við vorum að koma vír á milli og þegar farið var að ná mönnunum um borð til okkar. Ég fór upp að hliðinni á Sæljóninu og bakkaði uppað svo þeir gætu stokkið um borð. Fyrst henti ég tógi um borð sem þeir hnýttu í vírinn hjá sér til að tengja á milli bátanna. Ég ætlaði að reyna að draga Sæljónið að landi svo bjarga mætti einhverju, því það var þarna á réttum kili. Þegar mennirnir voru komnir um borð og ég byrjaði að taka á, slitnaði virinn strax á milli. Ég snéri aftur upp að bátnum og sendi tvo menn með vír yfir. Þeir rétt náðu að stökkva aftur um borð í Bjarma þegar Sæljónið fór á hliðina og sökk skömmu síðar. Þá urðum við að klippa á vírinn," sagði Arngrímur að Iokum.
Þórir Ólafsson skipstjóri á Sæljóninu sagðist hafa uppgötvað leka um kl. 13.30 í gær. "Hann ágerðist stöðugt og dælurnar höfðu ekki undan. Auðvitað má segja að við höfum verið í hættu þarna. Það mátti ekki mikið út af bera. Til dæmis hoppuðum við einfaldlega á milli bátana á öldunni úr því að tíminn var orðinn naumur," sagði Þórir. Auk Þóris voru um borð í Sæljóninu þeir Gunnar Þórarinsson vélstjóri og Viðar Þórisson kokkur. Stefán Rögnvaldsson EA frá Dalvík var einnig í nágrenninu og kom hann að í þann mund er Sæljónið var að sökkva.
Rán hf. útgerðarfélag bátsins, gerir einnig út Sænes EA 75, 110 tonna stálskip. Búast má við að sjópróf fari fram í dag.

Morgunblaðið. 6 október 1988.21.10.2018 09:14

Skógafoss GK 280.

Vélbáturinn Skógafoss GK 280 var smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1929 fyrir Valdimar Kristmundsson útgerðarmann í Keflavík. Fura. 20 brl. 45 ha. Rapp vél. Ný vél (1933) 65 ha. June Munktell vél. Seldur 6 janúar 1937, Gunnari Guðjónssyni og Gísla Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Víðir VE 326. Báturinn fórst í róðri með allri áhöfn, 5 mönnum 6 febrúar árið 1938. Stuttu síðar fannst brak úr honum rekið á Álfhólsfjöru í Vestur Landeyjum.

 
Skógafoss GK 280 í bóli sínu í Keflavík.                                                   (C) Gestur Oddleifsson.

          Nýr bátur til Keflavíkur

"Skógafoss" heitir 20 smálesta vélbátur, nýkominn frá Noregi, er liggur hér við Steinbryggjuna. Báturinn er nýr og smíðaður fyrir Valdimar Kristmundsson formann og útgerðarmann í Keflavík. Umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar og vélarinnar, O. Ellingsen, bauð blaðamönnum og ýmsum fleirum að skoða bátinn í gær. Var farið á bátnum út fyrir Engey, svo að gestunum gæfist kostur á að sjá ganghraða hans. Báturinn er smíðaður í Rosendal í Noregi. Viðir bátsins eru að mestu leyti úr furu. Stærð hans er eins og áöur er sagt rúmlega 20 smálestir. Vélin hefir 45 hestöfl og heitir "Rap". En af þeirri vélategund er mikið notað í norska fiskibáta. Mannaíbúð er aðeins í framstafni og er þar vistleg íbúð fyrir 6,menn. Vélin knýr bátinn 8 1/2 mílu á vöku í sæmilegu veðri. Báturinn verður raflýstur hér. Hingað kominn mun hann kosta um 30 þúsundir ísl. kr., og er það mun ódýrara en hægt mun að smíða báta fyrir hér líkrar stærðar. Báturinn var 4 sólarhringa og 6 klst. frá Björgvin til Keflavíkur, er það óvenjulega fljót ferð á smáskipi að vetrarlagi þessa leið. Skipstjórinn var Kristján Kristjánsson, sá er stýrði "Gottu" í sumar í Grænlandsleiðangrinum.

Alþýðublaðið. 9 desember 1929.

                      Átakanlegt slys 

   M.b. Víðir VE 326 ferst með allri áhöfn                            fimm mönnum.

Þann 6. þ. m. var hér hægviðri snemma morguns og reru allmargir bátar. Í birtingu tók að hvessa á suðaustan, og um hádegi var komið hvassviðri. Eftir kl, tvö fór aftur að hægja og vindur að ganga suðlægari. Meðan vindurinn var mestur var mikil snjóhríð, er síðar um daginn breyttist í rigningu. Þegar leið á daginn fóru bátar smátt og smátt að koma heim og allir komu þeir heim um kvöldið nema m.b. Víðir VE 326. Um kvöldið fór varðskipið Þór að leita hans. Einnig leitaði m.b. Ver nokkuð um kvöldið. M.b. Víðir hafði lagt línu sína um 25 sjóm. NV. frá Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir leit nokkurra skipa í fullan sólarhring sást ekki til bátsins. Fóru menn þá að verða vonlausir um heimkomu hans, þó að öllum sjómönnum kæmi saman um það, að eitthver óvænt óhapp, annað en stormurinn, hefði grandað bátnum. Báturinn var vel sterkur, vel útbúinn, 20 tonn að stærð og vel mönnum skipaður.
Skipstjóri var Gunnar Guðjónsson 32 ára,
Gísli Guðjónsson 1. vélstjóri 23 ára, bræður frá Kirkjubæ hér,
Ólafur Markússon frá Fagurhól hér, 2. vélstjóri um tvítugt
og tveir Eyrbekkingar Árni Bjarnason og Halldór Þorleifsson.
Allir vaskleikamenn. Nú má telja víst að bátur þessi hafi farist með allri áhöfn, enda hefir heyrst um rekald úr honum á Landeyjasandi. Það er alltaf hörmulegt að ungir menn og frískir hverfi í fullu fjöri, og í þessu tilfelli er ekki síst sorglegt til þess að vita, að móðir bræðranna, Gunnars og Gísla, Halla Guðmundsdóttir, hafði áður mist tvo syni sína í sjóinn, á unga aldri, hér við Eyjar. Eftir að þetta var skrifað, hefir bátinn rekið upp á Landeyjasand, brotinn til ónýtis. Hvers vegna báturinn hefir lent þarna í brotsjóum skamt frá landi verður aldrei vitað með vissu, en sennilega hefir kompáskekkja eða vélarstopp valdið þessu hörmulega slysi.

Víðir. 10 tbl. 19 febrúar 1938. 


20.10.2018 08:09

620. Hjálmar NK 3 TFWY.

Vélbáturinn Hjálmar NK 3 var smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1960 fyrir Harald Hjálmarsson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik. 82 brl. 525 ha. MWM díesel vél. Seldur 1 júní 1962, Jónasi Jónassyni á Miðnesi og Sigurði Bjarnasyni í Sandgerði, hét þá Jón Oddsson GK 14. Mikill eldur kom upp í bátnum þegar hann var á humarveiðum um 10 sjómílur vestur af Eldey 24 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 7 menn, fóru um borð í Útey KE en vélbáturinn Helga Björg HU 7 tók Jón í tog og dró hann inn til Keflavíkur þar sem eldurinn var slökktur. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekin af skrá árið 1972.


Vélbáturinn Hjálmar NK 3 í reynslusiglingu á Ísafirði í júlí 1960.        (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

      Nýr bátur til Neskaupstaðar

Neskaupstað 7. Júlí. Kl. 11 í dag kom hingað vélbáturinn Hjálmar NK 3, eign Haraldar Hjálmarssonar, útgerðarmanns í Neskaupstað. Er þetta nýr bátur, smíðaður í skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf. á Ísafirði og kom hann nú í fyrsta skipti til heimahafnar. Báturinn fór frá Ísafirði um síðustu helgi til Reykjavíkur og tók síðan veiðarfæri í Vestmannaeyjum. Vélbáturinn Hjálmar er 82 lestir að stærð, með 525 ha Mannheimvél. Hann er búinn öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum. Þykir smíði hans öll hin vandaðasta. Báturinn fer á síldveiðar á morgun. Skipstjóri er Þórlindur Magnússon frá Eskifirði, og 1. vélstjóri Jón Árni Sigurðsson frá Seyðisfirði.

Morgunblaðið. 9 júlí 1960.


Hjálmar NK 3 við bryggju síldarsöltunarstöðvarinnar Drífu í Neskaupstað.  (C) Þórarinn Ölversson.


Helga Björg HU 7 með Jón Oddsson GK 14 alelda í togi.           (C) Morgunblaðið / Gunnar Steinn.

                   Eldur í báti

Eldur kom upp í vélarrúmi Jóns Oddssonar GK 14 frá Keflavík, þegar báturinn var að humarveiðum um 10 mílur vestur af Eldey um hádegisbilið í gær. Skipverjum tókst ekki að ráða niðurlögum eldsins og var þá vélarrúminu lokað, en vélbáturinn Helga Björg dró Jón til Keflavíkur. Þangað komu bátarnir um sjöleytið í gærkvöldi. Slökkvilið beið á bryggjunni og tók um klukkustund að slökkva eldinn í bátnum. Miklar skemmdir urðu í vélarrúminu. Þegar fréttist af eldinum um borð í Jóni fór Snarfari RE frá Sandgerði með slökkvidælu og menn, en þegar aðstæður höfðu verið kannaðar, þótti ekki rétt að freista slökkvistarfs á sjó úti. Áhöfnin á Jóni Oddssyni, 7 menn, fór um borð í Útey KE, sem fylgdi Helgu Björg og Jóni Oddssyni til hafnar í Keflavík.
Jón Oddsson er 82 tonna eikarbátur, smíðaður á Ísafirði 1960.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.


14.10.2018 09:36

Togarar við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.

Á þessari ljósmynd Björns Björnssonar ljósmyndara liggja tveir Nýsköpunartogarar, tvö tog og síldveiðiskip og einn línu og netabátur við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað sumarið 1949. Nokkrum árum áður hafði þessi bryggja verið byggð og batnaði þá öll hafnaraðstaða í bænum til mikilla muna. Sú hafskipabryggja sem notuð var áður, Sigfúsarbryggjan út á eyri var komin til ára sinna, enda byggð árið 1915. Togararnir sem liggja við bryggjuhausinn eru, Hafnarfjarðartogarinn Júlí GK 21, fórst 10 árum síðar á Nýfundnalandsmiðum með allri áhöfn, 30 mönnum. Utan á honum er togari Útgerðarfélags Akureyringa, Kaldbakur EA 1. Í kverkinni er vélbáturinn Draupnir NK 21, smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Að innan verðu eru Freyfaxi NK 101, smíðaður í Halsö í Svíþjóð árið 1946 og Hrafnkell NK 100, smíðaður í Spillersboda í Svíþjóð árið 1946.


Þétt legið við innri bæjarbryggjuna á Norðfirði sumarið 1949.                            (C) Björn Björnsson.

     Hafnarbætur í Neskaupstað

Í Neskaupstað var byggð hafskipabryggja. Landbryggjan er samtals 47 metra löng frá jafnhæð í bakka, 8,0 metra breið og tekur þá við bryggjuhaus, sem er sem næst þvert á landbryggjuna, 35 metra langur og 10 metra breiður. Á efstu 38 metrunum er landbryggjan steypt og nær á 1,5 m dýpi við stórstraumsfjöru, en fremstu 9 metrar hennar, svo og bryggjan í haus, er staurabryggja. Utan við landbryggjuna, sambyggt við hana, var byggð uppfylling, og er framveggur hennar við slórstraumsfjöruborð. Kostnaður við þetta verk mun verða kr. 550-600 000.00.

Ægir. 38 árg. 2-4 tbl. 1 febrúar 1945.


13.10.2018 08:42

Skíðblaðnir VE 287.

Vélbáturinn Skíðblaðnir VE 287 var smíðaður í Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1929 fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum (Verslunarfélag Vestmannaeyja). Eik og fura. 16 brl. 40 ha. Saffle vél. Ný vél (1939) 65 ha. June Munktell vél. Seldur árið 1950, Einari Hannessyni og fl. í Keflavík, hét Skíðblaðnir KE 10. Seldur 24 janúar 1953, Jóni Jóhannssyni, Stefáni Jóhannssyni og Ólafi Stefánssyni í Sandgerði, hét þá Elín GK 127. Talinn ónýtur árið 1960 og tekinn af skrá 27 febrúar árið 1961.
Skíðblaðnir var fyrsti báturinn í Stokkseyrarferðum, þ.e. í áætlunarferðum milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar með vörur og farþega. Það var Sigurjón Ingvarsson (í Skógum) ásamt Jóni í Látrum sem hófu þessar ferðir milli eyja og Stokkseyrar árið 1940. Hann tók vélbátinn Skíðblaðni VE á leigu af Helga Benediktssyni útgerðarmanni í Vestmannaeyjum það ár.


Skíðblaðnir VE 287.                                                       Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.


Skíðblaðnir VE 287 við bryggju í Vestmannaeyjum.  Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.


Skíðblaðnir KE 10. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

09.10.2018 05:47

388. Emma VE 219.

Vélbáturinn Emma VE 219 var smíðaður af Bárði Tómassyni á Ísafirði árið 1919 fyrir Johan Reyndal í Vestmannaeyjum. Eik. 16 brl. 46 ha. Densil vél. Emma var fyrsti báturinn sem Bárður smíðaði eftir að hann kom heim eftir nám í Danmörku og Englandi. Var báturinn sá fyrsti sem var plankabyggður á Ísafirði. Seldur 1920, Birni Bjarnasyni, Bjarna Einarssyni og Jóni Einarssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Árið 1921 selja Bjarni Einarsson og Jón Einarsson eignarhluta sína í bátnum til Björns Bjarnasonar og Eiríki Ásbjörnssyni í Vestmannaeyjum. Ný vél (1931) 64 ha. Ellwe vél. Ný vél (1944) 70 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 27 janúar 1951, Gústaf Finnbogasyni, Guðmundi Andrési Guðmundssyni og Nikulási Níelsen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Seldur 1 október 1952, Gústaf Sigurjónssyni í Vestmannaeyjum. Seldur 2 ágúst 1954, Árna H Bachmann í Njarðvík og Sigurði Bachmann í Keflavík, hét þá Emma GK 279. Seldur 26 júní 1963, Sigurgarði Sturlusyni í Reykjavík og Hákoni Sturlusyni í Arnarfirði, báturinn hét þá Emma RE 353. Talinn ónýtur og brenndur á þrettándabrennu í Hafnarfirði 6 janúar árið 1968.


Emma VE 219. Myndin er tekin á Ísafirði.                                             (C) Byggðasafn Vestfjarða.


Emma GK 279. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

       "Nú er glatt í hverjum hól"

Myndarleg þrettándagleði var haldin í Hafnarfirði á þrettándanum með bálför og álfadansi. Skátar í Hafnarfirði stóðu að skemmtuninni og var hún þeim til hins mesta sóma. Um leið og kveikt var í bálkestinum komu álfakóngur og drottning með fylktu liði inn á hátíðasvæðið og var farið með ýmsum tilburðum og söng. Bálkösturinn var bátsflalk af Emmu RE 353, en hún var 16 tonn að stærð og smíðuð á Ísafirði 1919. Emma var eikarbátur og fyrsti bátur sem Bárður G. Tómasson smíðaði á Íslandi eftir að hann kom heim frá námi í Danmörku og Englandi, en Bárður var fyrsti tæknimenntaði skipaverkfræðingurinn í íslenzkum skipasmíðum. Hann samdi smíðareglur um smíði trébáta eftir að hann smíðaði Emmu og gilda þær reglur enn í dag í grundvallaratriðum um smíði trébáta. Emma var lengi gerð út frá Vestmannaeyjum, var seinna seld þaðan og fór þá víða. Æviskeið sitt endaði Emma sem bálköstur á álfadansi Hafnfirðinga s.l. laugardag.

Morgunblaðið. 9 janúar 1968.


07.10.2018 09:14

B. v. Snorri Sturluson RE 242. LBFS.

Botnvörpungurinn Snorri Sturluson RE 242 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919 fyrir breska flotann. Hét fyrst HMT James Mansell. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Admiralty no: 4238, smíðanúmer 881. Skipið var selt í árslok 1920, hf Kveldúlfi í Reykjavík, fékk þá nafnið Snorri Sturluson RE 242. Seldur í desember 1922, Henry Smethurst í Grimsby, hét þá James Mansell GY 409. Seldur 1923-24, Hudson Steam Fishing Co Ltd í Hull, fær nafnið Trier H 782. Árið 1924 fær togarinn nafnið Cape Hatteras H 782. Seldur 1926, Trident Steam Fishing Co Ltd í Hull, hét þá Girdleness H 782. Togarinn fórst við Suðurey í Færeyjum 18 desember árið 1931 með allri áhöfn, 11 mönnum.


B.v. Snorri Sturluson RE 242. Á myndinni ber hann sennilega sitt síðasta nafn, Girdleness H 782.

        Snorri Sturluson RE 242

Snorri Sturluson heitir nýr botnvörpungur er kom frá Englandi nýlega. Er hann eign hf Kveldúlfs.

Ísafold. 6 desember 1920.


Togarar hf. Kveldúlfs í Reykjavíkurhöfn árið 1921-22. Þeir eru frá vinstri taldir; Þórólfur RE 134, Snorri Sturluson RE 242 og Skallagrímur RE 145. Fremstur er Egill Skallagrímsson RE 165.
(C) Helgi Sigurðsson.

      Kveldúlfstogarar á síldveiðar

Hf. Kveldúlfur er að gera út tvo botnvörpunga sína á síldveiðar frá Hjalteyri, þá Snorra Sturluson og Egil Skallagrímsson. Ennfremur fer vélbáturinn Þórir norður til síldveiða. Í ráði er að félagið sendi tvö skip til veiða vestur um haf, Skallagrím og Þórólf.

Vísir. 19 júlí 1922.

                Kveldúlfsskipin

Egill Skallagrímsson og Snorri Sturluson, eru væntanleg af síldveiðum fyrri hluta dags á morgun. Egill Skallagrímsson hefir veitt liðlega 7 þúsund tunnur og Snorri lítið eitt minna.

Vísir. 9 september 1922.


 
  • 1
Flettingar í dag: 115
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859158
Samtals gestir: 63039
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 02:29:40