Færslur: 2020 Júlí

26.07.2020 06:25

Síldveiðar togaranna.

Sjávarútvegurinn greinist í tvo aðalþætti, eins og hann er nú rekinn hér við land: Þorskveiðar og síldveiði. Eins og kunnugt er, hefir þorskaflinn brugðist mjög hin síðustu ár, auk þess sem markaðshrun hefir átt sér stað á þeirri útflutningsvöru á Spáni. Samfara þessum erfiðleikum hefir verið gert mikið átak í síldveiðunum, sem bætt hefir nokkuð upp þann fjárhagslega skaða, sem hlotizt hefir af þorskaflaleysinu og markaðshruninu. Stjórnarandstæðingar hafa á undanförnum árum kennt valdhöfunum um alla erfiðleika sjávarútvegsins eins og allt annað, sem ekki hefir farið að óskum manna. Nú eru fyrverandi stjórnarandstæðingar komnir í stjórnaraðstöðu. Áður sýndu þeir mátt sinn í orði. Nú gefst þeim færi á að sýna mátt sinn í verki. Aldrei hefir verið meiri þörf fyrir það en nú. Ástandið með þorskveiðar togaranna hefir aldrei verið jafn aumt og nú. Afli þeirra eftir nýafstaðna vertíð minni en nokkru sinni áður. Fiskurinn er horfinn af hinum venjulegu togaraslóðum. Fram undir þessa tíma hefir verið litið á Selvogsgrunn sem örugga gullkistu, er ekki gæti brugðizt fremur en gamalræktað tún hætti að gefa af sér töðu.B.v. Arinbjörn hersir RE 1 að háfa síld.                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  

     Þorskafli togaranna minni en                       nokkru sinni áður 
    Vonirnar um bærilega afkomu             beinast nú að síldveiðunum


Á þessum einum af beztu fiskimiðum heimsins, sem kölluð hafa verið og það með réttu, fæst nú varla uggi úr sjó. Þegar aflinn brást svo átakanlega á hinum venjulegu fiskimiðum í vetur, sendi ríkisstjórnin með stuðningi fiskimálanefndar 3 togara í fiskileit; leituðu þeir umhverfis landið og til Grænlands, en því miður bar þetta engan árangur. Lítur út fyrir að hvergi sé togfiskur hér við land, hvað sem því veldur. Þrátt fyrir þetta telja fiskifræðingar og glöggskyggnir menn á þessa hluti enga ástæðu til að örvænta um þessi efni fyrir framtíðina, fiskurinn komi von bráðar aftur eins og jafnan áður, þegar aflaleysistímar hafi þrengt að kosti landsmanna. Ofan á aflaleysið bætist svo það, að sölumöguleikar á Spáni sýnast alveg útilokaðir, þar sem landið og þjóðin, sem það byggir, er flakandi í sárum eftir hina hræðilegu styrjöld, er þar hefir geisað um nærfellt 3 ár. Hafa sendimenn verið gerðir út héðan til Spánar í fisksöluerindum, en sú för engan árangur borið. Aftur á móti hefir tekizt að selja nokkurn slatta af þessa árs framleiðslu saltfisks til Ítalíu. Þegar á allt þetta er litið eru horfurnar um saltfiskveiðar og sölu hinar ískyggilegustu nú sem stendur. Þessi höfuðútflutningsvara þjóðarinnar er að mestu gengin okkur úr greipum um stundarsakir að minnsta kosti. Hefði slík blóðtaka á þjóðarbúskapnum verið vituð fyrir nokkrum árum, myndu flestir eða allir hafa verið þess fullvissir, að hún riði þjóðinni að fullu.


B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum á Húnaflóa.                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Vegna ötullar bjargráðastarfsemi á öðrum sviðum hefir þó raunin orðið önnur og mun enn svo verða. Enn hafa menn þá bjargföstu trú, að síldin í sumar bjargi öllu og bæti úr þeirri neyð, sem aflaleysið á togurunum á síðustu vertíð hlýtur að valda. Útlit er fyrir, að þátttakan í síldveiðunum í sumar verði meiri en nokkru sinni fyrr. Talið er, að vegna gengisbreytingarinnar fari mörg skip á síldveiðar sem ella hefðu að líkindum legið við landfestar, þar á meðal flestir togararnir. Talið er og, að verð á síld til söltunar hækki nokkru meira en gengisbreytingunni nemur, og verð á bræðslusíld hækkar að verulegum mun.
Stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir gert þá tillögu til atvinnumálaráðherra, að verð á bræðslusíldinni í sumar verði kr. 6.70 á mál. Er þetta verð með því hæsta, sem verið hefir. Í fyrra var verðið kr. 4.50 á mál. Árið 1937 var það 8 kr., en tap var á verksmiðjunum það ár. Árið 1936 var verðið kr. 5.30 á mál. Geta má þess, að þetta verð, kr. 6.70, er fasta verðið, sem greitt er, ef síldin er keypt. Hinsvegar hafa útgerðarmenn heimild til samkv. lögunum um rekstur síldarverksmiðjanna að taka hið svonefnda vinnsluverð fyrir síldina. Verður þeim þá greitt 85% af áætlunarverðinu við afhendingu, en endanlegt verð síðar, þegar rekstursreikningar ársins liggja fyrir uppgerðir. Enga fyrirframsamninga um sölu matjessíldar frá þessu sumri mun Síldarútvegsnefnd enn hafa gert. En gert hefir nefndin út tvo menn, þá Jóhann Jósefsson og Erlend Þorsteinsson, til utanfarar, til þess að annast sölu matjessíldar. Fara þeir til Póllands og Þýzkalands. Aftur á móti hafa einstakir saltendur gert talsverða fyrirframsamninga um sölu á saltsíld og kryddsíld. Útlitið um síldarsöluna í Svíþjóð er sízt talið verra en verið hefir.


B.v. Surprise GK 4 með fullfermi af síld.                                             (C) Kjartan Traustason.

 Í Mið-Evrópu er allt í óvissu, vegna ófriðarblikunnar, sem þar er sífellt á lofti. Frá Ameríku hafa enn ekki borizt fregnir um markaðsútlit, en Vilhjálmur Þór mun vinna að sölu vestra fyrir Síldarútvegsnefndina eins og undanfarin ár. Mikill og margþættur undirbúningur er þegar hafinn fyrir síldveiðarnar. Ýmsir búast við, að síldin komi snemma að þessu sinni, þar sem mikil áta sé þegar komin í sjóinn. Ríkisstjórn, Síldarútvegsnefnd og stjórn síldarverksmiðjanna hafa hrundið af stað ýmsum ráðstöfunum, til þess að greiða fyrir veiðinni. Þannig var sú ákvörðun tekin, að varðbáturinn Óðinn færi til Norðurlands í þessum mánuði í sildarleit og áturannsóknir. Þá er og í ráði að fá flugvélina T F Örn í síldarleit um tveggja mánaða tíma, meðan á síldveiðum stendur. Er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við för varðbátsins og síldarleit flugvélarinnar verði alls um 35 þús. kr., og er ætlazt til að ríkissjóður, síldarútvegsnefnd, ríkisverksmiðjurnar og einkaverksmiðjur greiði þann kostnað að jöfnum hlutum. Þá er ætlazt til, að síldarverksmiðjur ríkisins verði tilbúnar til þess að taka á móti síld í bræðslu 10.-15. júní. Af öllu þessu er það ljóst að hátt er reitt til höggs gagnvart síldveiðunum í sumar og er vonandi að árangurinn verði eftir því. Veitir sannarlega ekki af úrbótum á hinum fádæma rýra afla togaranna á síðustu vertíð. Að lokum skal þess getið, að þó afli togaranna að þessu sinni væri enn rýrari en áður, þá er samt heildaraflinn dálítið ríflegri en hann var í fyrra. Munurinn er nálægt 4 þús. smálestum.

Dagur. 25 maí 1939.

12.07.2020 11:08

E. s. Katla l. TFKB.

Eimskipið Katla var smíðuð hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1911 fyrir A/S D/S Manchionel O & A. Irgens í Bergen í Noregi. Hét þá Manchioneal. 1.400 ha. 2 þennslu B & W gufuvél. Smíðanúmer 278. Skipið var selt 19 maí 1934, Eimskipafélagi Reykjavíkur hf, hét Katla. Selt í maí 1945, hf. Eimskipafélagi Íslands, hét þá Reykjafoss. Skipið var selt í maí 1949, Kisinbay Biraderlev Ltd í Tyrklandi, hét þá Nazar. Selt 1958, Zeki Ve Ziya Sönmes Izzet Kirtil í Istanbul í Tyrklandi, hét Cerrahazade. Skipið var selt árið 1967, Avram Kohen Ve Ortaklari í Istanbul til niðurrifs.


E.s. Katla l í erlendri höfn. Gaman væri að vita hvar myndin er tekin.                 Mynd úr safni mínu.

                    E.s. Katla

hið nýja skip Eimskipafélags Reykjavíkur, er 1650 smálestir og var keypt í Noregi. Skipið hét áður Manchioneal og var smíðað í Kaupmannahöfn árið 1911. Skipstjóri á E.s. Kötlu verður Rafn Sigurðsson.

Vísir. 23 maí 1934.


E.s. Reykjafoss l. Skipið var í eigu hf Eimskipafélags Íslands frá 1945 til 1949.   Mynd úr safni mínu.

               E.s. Katla keypt

Eimskipafélag íslands hefur nýverið fest kaup á e/s Kötlu, sem verið hefur eign Eimskipafélags Reykjavíkur h/f. Katla var smíðuð í Kaupmannahöfn 1911 og er 1657 rúml. brúttó. Lestarrúm hennar er 92 þús. teningsfet, og er það svipað lestarrúm og er í Fjallfossi. Síðastliðinn vetur fór mikil viðgerð fram á Kötlu og kostaði hún 800-900 þús. kr. Eimskipafélagið keypti skipið fyrir 2 350 þús. kr. Katla hefur fengið nýtt nafn og heitir nú Reykjafoss.

Ægir. 1 júní 1945.

        Reykjafoss seldur úr landi

Eimskipafélag Íslands hefur ákveðið að selja e.s. Reykjafoss (áður Katla). Skipið er 1656 brúttó smál. að stærð, byggt í Kaupmannahöfn 1911. Einnig er ákveðið að selja e.s. Lagarfoss til niðurrifs. Skipið braut oxulinn í hafi fyrir nokkrum dögum, og þykir ekki borga sig að gera við það. Lagarfoss var byggður 1904 og keyptur af E. Í. skömmu eftir að fyrsta skip þess, Goðafoss, hafði farizt hér við land. Stjórn E. Í. hefur ákveðið að hið nýja farþegaskip félagsins, en kjölurinn að því var lagður 8. janúar s.l., skuli heita Gullfoss.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 maí 1949.04.07.2020 22:39

Landað úr B.v. Svalbak EA 2 á Akureyri á árum áður.

Á ljósmyndinni hér að neðan er verið að landa úr Nýsköpunartogaranum Svalbak EA 2 á Akureyri og það fyrir margt löngu síðan. Þessi vinnubrögð þóttu eflaust sjálfsögð á þeim tíma, fiskinum mokað upp á vörubílspall, íslausum að sjá og keyrt beint í frystihúsið og sturtað á gólfið. Ekki beint til fyrirmyndar það verklag sem þá var, en engu að síður lifði þjóðin á afkomu þessara skipa þótt gæðin væru ekki alltaf upp upp á sitt besta. En svona var þetta bara og þóttu eðlileg vinnubrögð við sjávarsíðuna í denn.


Landað úr togaranum Svalbak EA 2 á Akureyri.                                           Ljósmyndari óþekktur.
  • 1
Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852143
Samtals gestir: 62753
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 00:42:53