Færslur: 2020 Október

30.10.2020 16:02

M. b. Hafaldan NK 19.

Mótorbáturinn Hafaldan NK 19 var smíðuð í Sagvaag í Noregi árið 1925. 19,89 brl. 25 ha. Wichmann vél. Hét fyrst Hafaldan SU 432. Eigandi var Pálmi Pálmason á Nesi í Norðfirði frá sama ári. Báturinn kom nýr til Norðfjarðar 6 maí 1925. Seldur 1931, Verslun Konráðs Hjálmarssonar á Norðfirði, fékk þá skráninguna NK 19. Seldur 17 febrúar 1933, Benedikt Benediktssyni (Drífu-Bensa), Eiríki Guðnasyni, Magnúsi Pálssyni og Erlingi Ólafssyni í Neskaupstað. Árið 1935 keypti Benedikt hlut Magnúsar og Erlings í bátnum. Ný vél (1935) 67 ha. Wichmann vél. Árið 1942 er Benedikt Benediktsson einn eigandi bátsins. Hafaldan var seld til Færeyja í október árið 1947. Engar upplýsingar um fyrstu ár Haföldunnar í Færeyjum, en árið 1959 er hún gerð út frá Saurvogi í Færeyjum. Árið 1961 í eigu Johannesar Midjörd á Tvöroyri, Suðurey í Færeyjum, hét Havaldan TG 69. Árið 1972 í eigu Terje Westergaard í Sumba á Suðurey. 1977 var hún í eigu O. Olsen í Fuglafirði. Eftir árið 1977, virðist báturinn bera nafnið Tóra Maria FD og vera gerð út frá Fuglafirði. Hef ekki upplýsingar um afdrif Haföldunnar, en vitað er að hún var ennþá á floti á árinu 1979.


Hafaldan NK 19 á leið inn Norðfjörð með nótabátana í eftirdragi.                     (C) Björn Björnsson.


Hafaldan NK 19 við bryggju og bryggjuhús Konráðs Hjálmarssonar útgerðar og kaupmanns á Norðfirði.                        (C) Sveinn Guðnason. 

29.10.2020 13:34

566. Hilmir KE 7. TFKY.

Vélskipið Hilmir KE 7 var smíðað í Trawemunde í Þýskalandi árið 1960 fyrir Sigurbjörn Eyjólfsson útgerðarmann í Keflavík. Eik. 74 brl. 400 ha. Mannheim vél. Skipið var smíðað eftir teikningu Egils Þorfinnssonar skipasmíðameistara. Selt 28 desember 1965, Jóni Sæmundssyni í Keflavík, sama nafn og númer. Selt 30 júlí 1968, Sigurði Kristinssyni, Einari Kristinssyni og Kristni Kristinssyni í Keflavík, enn sama nafn og númer. Selt 15 október 1970, Guðlaugi Guðmundssyni og fl. Í Ólafsvík, hét Jökull SH 77. Selt 10 september 1972, Þinganesi hf á Höfn í Hornafirði, hét þá Þinganes SF 25. Ný vél (1974) 425 ha. Caterpillar vél. Skipið var talið ónýtt eftir bruna sumarið 1989 og tekið af skrá 29 október árið 1990. Að lokum var skipinu svo sökkt.


Hilmir KE 7 á síldveiðum.                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.

 Tveir glæsilegir bátar til Keflavíkur

Þann 2. þessa mánaðar kom nýr bátur til Keflavíkur, sem ber nafnið Bergvík KE 55. Eigandi er Hraðfrystihús Kaupfélags Suðurnesja í Keflavík. Báturinn er 72 smálestir, smíðaður úr eik í Nýborg í Danmörku. Í bátnum er Lister dieselvél (Blackstone). Er báturinn búinn öllum fullkomnustu siglingatækjum, m. a. Dekka radar (50 mílna) og sjálfleitandi síldar Asdic af Simrad gerð og 2 Simrad dýptarmælum. Þá er báturinn með sjálfvirkum stýrisútbúnaði. Vistarverur skipverja eru allar mjög rúmgóðar og rafmagnshitaðar. Í bátnum er rúmgóður frystiklefi fyrir matvæli bátshafnarinnar. Í reynsluför gekk báturinn 10 ½  mílu. Var hann 6 sólarhringa á leiðinni heim, enda hreppti hann mjög slæmt veður. Skipstjóri á Bergvík verður hinn kunni aflamaður, Magnús Bergmann, en hann sigldi einnig skipinu heim. Fyrsti vélstjóri er Björgvin Hilmarsson og stýrimaður Baldur Guðmundsson. Eins og að framan er sagt, er báturinn eign Hraðfrystihúss Keflavíkur h.f., en það átti fyrir 2 báta, Helguvík og Faxavík. Framkvæmdastjóri hraðfrystihússins er Benedikt Jónsson. Bergvík er nú fyrir skömmu byrjuð á vertíð og komin með net.
Hinn nýi báturinn hér á forsíðu blaðsins, er Hilmir KE 7, er kom til Keflavíkur 9. þ. m. Eigandi hans er Sigurbjörn Eyjólfsson útgerðarmaður í Keflavík. Báturinn, sem er 75 tonn, er smíðaður í Trawmúnde í Vestur-Þýzkalandi. Hann er byggður úr eik og öðrum góðum viði, eftir teikningu Egils Þorfinnssonar. Í honum er Mannheim dieselvél, 400 ha. Búinn er hann öllum nýjustu siglingatækjum, t. d. radar af Hughes gerð (50 mílna), fiskileitar Astic af Simrad gerð, auk dýptarmæla af sömu gerð. Í bátnum er einnig vönduð miðunarstöð auk hinnar venjulegu talstöðvar. Þá er einnig rafknúinn og sjálfvirkur stýrisútbúnaður í skipinu. Allar vistarverur skipverja eru rúmgóðar, bjartar og þægilegar. Kæliklefi er þar fyrir matvæli og símakerfi er lagt á milli vistarvera, sem er hrein nýjung og til stórþæginda. Ganghraði Hilmis mun vera um 11 mílur. Hann var tæpa 7 sólarhringa á leiðinni heim, en þar af var hann ca. 16 tíma í Færeyjum. Á heimleiðinni hreppti báturinn slæmt veður og telur skipstjóri hann hið bezta sjóskip. Kjölurinn að bátnum var lagður í byrjun desember s.l. en hann var afhentur fulltilbúinn núna þann 28. febrúar. Eins og menn vita, hefir Sigurbjörn mörg undanfarin ár átt bát með þessu sama nafni, sem hefir reynzt hið mesta happaskip. Á s.l. hausti seldi hann þann bát til Vestmannaeyja. Skipstjóri á þessum nýja Hilmi, verður Einar Guðmundsson, sá sami og verið hefir með Hilmi gamla mörg undanfarin ár, mikill dugnaðar- og aflamaður og ávallt í röð fengsælustu skipstjóra hér um slóðir. Fyrsti vélstjóri verður Eiríkur Sigurðsson, Smáratúni 12. Hefir hann einnig verið um 9 ára skeið á útvegi Sigurbjörns Eyjólfssonar. Stýrimaður verður Guðbjörn Ingvarsson. Báturinn mun fara á net.

Faxi. 3 tbl. 1 mars 1960.


Þinganes SF 25 sennilega í Hornafjarðarós.                                                  (C) Hilmar Bragason.


Hilmir KE 7. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Hilmir KE 7. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Þinganes SF 25 ónýtt eftir bruna

Þinganes SF 25 frá Höfn í Hornafirði verður fljótlega sökkt. Í sumar kviknaði í bátnum og ekki þykir ráðlegt að leggja út í viðgerðir. Þessa dagana eru starfsmenn Þinganess að koma nýtilegum hlutum úr bátnum á land en bátsins bíður nú einungis hin vota gröf.

Morgunblaðið. 14 nóvember 1989.

27.10.2020 15:27

Pólski togarinn Podole GDY 312 strandar á Meðallandssandi.

"Togarinn Podole GDY 312 strandaði á Meðallandsfjöru 5. mars 1946, en náðist á flot fyrir eigin vélarafli 10. júní sama ár. Skipið var skráð pólskt en gert út frá Fleetwood. Þetta var eitt af svonefndum "stjórnarskipum" sem breski flotinn lét raðsmíða í fyrri heimstyrjöldinni, og keyptu Íslendingar marga þeirra á þriðja áratugnum. Podole gekk undir mörgum nöfnum um ævina og skipti oft um eigendur. Skipið var smíðað í Goole, og klárað 1919 sem togarinn St. Endelion frá Hull. Það var selt til Grimsby 1928 og eftir að hafa strandað við Noreg 1934 var það selt til Fleetwood en skráð í London. (Hét þá Barbara Rose). Það var þá komið í eigu Parkes-fjölskyldunnar (Boston Deep Sea- fyrirtækið), en hún braskaði mikið með skip. 1937 var það selt til Póllands og varð Barbara GDY 95. Þegar stríðið braust út var skipinu stefnt til Fleetwood þar sem eitt af fyrirtækjum Parkes varð eigandi og gaf því nafnið Blighty FD 68. Breski flotinn tók það í sína þjónustu en 1943 var það afhent pólska flotanum, enda var þá búið að "selja" það pólskum eigenda. Þá fékk það nafnð Podole. 1944 var því sleppt úr herþjónustu og sá Parkes um útgerð þess frá Fleetwood uns það strandaði. Eftir að það náðist út var það selt hæstbjóðanda og keyptu Sandavogsmenn í Færeyjum það og gáfu nafnið Torkil Önundarson VA 171. Kaup Færeyinga á gömlum togurum reyndist hið mesta glapræði og fór sú útgerð flest snarlega á hausinn og voru skipin seld í brotajárn upp úr 1950, þetta 1952."

Heimild: Birgir Þórisson.

Togarinn var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi. Smíðanúmer 244.

Það má bæta því við hér að það var pf. Sandavágs Trolarafelag sem keypti togarann í Reykjavík hinn 29 október sama ár. 28 júní 1952 keypti Föroya Fiskimannafelag togarann á uppboði og seldu þeir hann í brotajárn 31 október 1952, til British Iron & Steel Corporation Ltd í Englandi.

Heimild: Glottar úr trolarasöguni. Óli Ólsen. 2019.


Podole nánast á þurru á Slýjafjöru í Meðallandi.                                                    (C) Eirík A Eylands.

Pólskur togari strandar á Slýjafjörum

Um kl. 9 í fyrrakvöld strandaði útlendur togari austur á Slýjafjöru, austur af Kirkjubæjarklaustri. Mönnum úr nágrenninu tókst að bjarga skipshöfninni. Skeyti um strandið barst frá togaranum til loftskeytastöðvarinnar í Reykjavík, er gerði Slysavarnafélaginu þegar aðvart. Slysavarnafélagið símaði austur að Fagurhólsmýri og voru gerðar ráðstafanir þaðan til að manna björgunarsveitir, er kæmu skipbrotsmönnum til hjálpar. Það tók björgunarsveitirnar nokkurn tíma að finna strandstaðinn, en um kl. 2 um nóttina voru björgunarsveitirnar búnar að koma línu um borð í skipið og kl. 9.30 í gærmorgun voru allir mennirnir af skipinu, 18 að tölu, komnir heilu og höldnu í land. Voru þeir komnir heim að Fljótum, er blaðið hafði fregnir af strandinu í gær, og leið þeim öllum vel. Að björgunarstarfinu unnu björgunarsveitir úr nálægum sveitum, en björgunaráhöldin, sem notuð voru, voru úr björgunarstöð Slysavarnafélags Íslands við Skaftárós, en þar hefir félagið björgunarskýli. Björgunarstarfið gekk vel.  Togari þessi, Podlasie að nafni, var upphaflega pólskur, en er nú gerður út frá Englandi, þó er nokkuð af áhöfninni Pólverjar. Skipið strandaði mjög nærri landi og í gærmorgun hafði það færzt enn meira upp svo heita mátti, að það væri alveg komið upp í fjöru og mátti ganga út í það. Ólíklegt er því að takast megi að bjarga skipinu. Áhöfn skipsins er væntanleg til Reykjavíkur í dag. Ekki er vitað um orsök strandsins, þar sem gott veður var og tiltölulega bjart.

Tíminn. 7 mars 1946.


Togarinn í þjónustu breska sjóhersins sem HMT Blighty.                       Ljósmyndari óþekktur.


Færeyski togarinn Torkil Önundarson VA 171.                                   Ljósmyndari óþekktur.


Togarinn Torkil Önundarson VA 171.                                                                  Málari óþekktur.

       Hamar nær út togara og selur                               til Færeyja

Vélsmiðjan Hamar náði á s.l. sumri út pólska togaranum Podole, sem strandaði á Slýafjöru fram undan Kirkjubæjarklaustri. Reyndist togarinn lítið sem ekkert skemmdur og var fyrst farið með hann til Vestmannaeyja, en síðan til Reykjavíkur. Hefir hann nú verið seldur Færeyingum og er farinn þangað. Togarinn Grimsby Town, sem strandaði hjá Vík hefir Hamar einnig nýlega keypt. En þar sem það skip mun vera mjög mikið skemmt, mun ekki takast að ná því út. Verða því aðeins lauslegir hlutir hirtir úr því.

Vísir. 23 nóvember 1946.

11.10.2020 05:22

B. v. Hilmir RE 240. LCGW / TFLC.

Botnvörpungurinn Hilmir RE 240 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1913 fyrir Pickering & Haldane Steam Trawling Co Ltd í Hull. Hét fyrst T.R. Ferens H 1027. 307 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith í Hull. 42,45 x 7,03 x 3,73 m. Smíðanúmer 580. Skipið var tekið í þjónustu breska sjóhersins í maí 1915 sem tundurduflaslæðari, hét HMT T.R. Ferens (307), og var mestan hluta stríðsáranna í Hvítahafi. Togaranum var skilað til eigenda sinna árið 1919. Seldur í febrúar 1920, Fiskiveiðahlutafélaginu Hilmi í Reykjavík, fær nafnið Hilmir RE 240. Seldur 23 mars 1922, Fiskiveiðahlutafélaginu Njáli í Reykjavík, sama nafn og númer. Hilmir var hætt kominn í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925, en komst við illan leik til hafnar og hafði orðið fyrir miklu tjóni. Í október 1937 fékk togarinn mikinn brotsjó á sig þegar hann var staddur um 200 sjómílur suðaustur af Dyrhólaey á leið til Englands í söluferð. Einn skipverja tók út og drukknaði hann. Hilmir komst til hafnar í Aberdeen og var þá togarinn flaki líkastur, allt brotið og bramlað ofanþilja og allt lauslegt sópaðist fyrir borð. Gert var við togarann þar og tók það langan tíma. Árið 1941 var togarinn gerður út frá Bíldudal, sama nafn og númer. Seldur í janúar 1945, Gunnari Guðjónssyni skipamiðlara í Reykjavík, hét Kópanes RE 240. Seldur 19 febrúar 1947, Rituvikar Trolarafelag í Rituvík í Færeyjum, hét Skoraklettur FD 352. Togarinn lenti í miklum hrakningum í Norður-Íshafi í desember 1947, en komst til hafnar í Norður-Noregi eftir nokkurra vikna hrakninga. Vinnulánsgrunnur Föroya Lögtings keypti togarann á uppboði 19 nóvember 1952. Seldur 3 mars 1953, pf Vár í Vestmanna í Færeyjum, hét Kópanes VN 25. Togarinn strandaði við Færeyingahöfn á Vestur Grænlandi 11 maí 1955 þegar hann var á leið frá Davidssundi úr veiðiferð. Áhöfn togarans var bjargað um borð í togarann Gullfinn VN 313 frá Vestmanna í Færeyjum og fór hann með skipverjanna inn til Færeyingahafnar í Grænlandi.
Það má geta þess að Gullfinnur VN 313 hét fyrst Gylfi RE 235 og seinna Gylfi BA 77 og var smíðaður hjá A/G Seebeck í Geestemunde (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1915 fyrir hf Defensor í Reykjavík.

Heimildir frá Færeyjum:
Glottar úr trolarasöguni. Óli Ólsen. 2019.


B.v. Hilmir RE 240 með trollið á síðunni.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 

                 Hilmir RE 240

Hilmir heitir botnvörpungur, sem Jón Árnason frá Heimaskaga o. fl. hafa keypt í Bretlandi. Kom Jón með hann fyrir nokkrum dögum hingað. Kvað skipið vera hið vandaðasta.

Ísafold. 11 tbl. 8 mars 1920.


B.v. Hilmir RE 240 í Reykjavíkurhöfn eftir Halaveðrið í febrúar 1925. Vel má sjá á myndinni hve illa farið skipið var eftir þær hörmungar.  (C) Þorleifur Þorleifsson.


St. T.R. Ferens H 1027 á siglingu á Humberfljóti.                             Mynd úr safni mínu.


 Togarinn Hilmir var nær sokkinn

Gísli Jónsson, vjelaeftirlitsmaður hefir sent Morgunblaðinu eftirfarandi frásögn af áfalli því, sem togarinn Hilmir fékk á sig á leið til Englands 24. október síðastliðinn. Hilmir hefur verið í Englandi síðan. Morgunblaðið skýrði frá þessu áfalli 29. okt. eftir skeyti sem borist hafði frá skipstjóra togarans, þar sem segir að einn maður, Guðni Sigurðsson, hafi drukknað, bátadekk hafi brotnað og bátadekk tekið út. Aðrar fregnir hafa ekki borist af hinu mikla áfalli fyrr en nú.
Þann 29. október kom b.v. "Hilmir" til South Shields á Englandi, sundurflakandi ofanþilja af áfalli sem skipið hafði fengið í Atlantshafinu á leið til Englands. Ég hef séð mörg skip koma í höfn undan ofvirðrum mismunandi útleikin, en ekkert áður líkt þessu. Mest allur hluti stýrishússins var horfinn, bátapallurinn með bátum og öllu tilheyrandi, loftventlar yfir ketilrúmi, og bræðsluskýli var allt bókstaflega þurrkað í burtu, siglutoppar brotnir, stög og reiði slitið niður. Ketil og vélareisn, eldhús, brú og hágluggi vjelarrúms var allt lagt saman eins og pappaaskja. Afturgálginn var annars vegar rifinn upp frá þilfarinu og honum þeytt inn í vélareisn bar sem hann lá kýttur saman, hinn afturgálginn kýttur hálfa leið niður á öldustokk.
Skjólborð og stoðir var ýmist lagt inn eða rifið upp og á 2ja þumlungs gildar járnstengur var brugðið hnútum eins og á snærispotta, og þilfarið á stóru svæði ýmist rifið upp eða kýtt niður. Ég hitti skipverja að máli strax og skipið kom í höfn, 19 vaska menn, flesta kornunga. Látlaust og rólega skýrðu þeir mér frá þessu áfalli, sem hjer segir, "Sunnudaginn 24. október vorum við staddir 205 sjómílur austur af Portlandi á leið til Englands. Vindur var norðaustan 9 og mikill sjór. Stýrðum við SA 3/4 A og fórum með hálfri ferð. Kl. 7 um kvöldið, er mikill hluti skipverja sat yfir borðum aftur í káetu, kom brotsjór upp með bakborðshlið skipsins við afturgálga og helti sjer yfir það með feikna afli og fleygði því svo hart á hliðina að stjórnborðshliðin í stýrishúsinu brotnaði inn, við að hendast ofan á hafflötinn. Fylltist stýrishúsið í einu vetfangi af sjó og sömuleiðis herbergi skipstjóra, en þakið af stýrishúsinu rifnaði af. Skipstjóri, sem staddur var framan til í stýrishúsinu, missti þegar meðvitundina við áfallið og er hann aftur raknaði við, var hann enn að veltast innan um sjóinn í húsinu, og hafði þá drukkið mikið af sjó, svo að nærri lá við drukknun. Guðni Sigurðsson var við stýrið. Skolaðist hann út í gegnum brotnu hliðina yfir járnþiljurnar og sást ekki meir. Hefir hann að líkindum strax mist með- vitundina eins og skipstjórinn. Þriðji maðurinn, Sigurður Sigurðsson var staddur bakborðsmegin í stýrishúsinu og sakaði hann ekki.


Málverk Valgarðs Klemenssonar skipverja á Hilmi sýnir brotsjóinn sem togarinn varð fyrir þegar hann var á leið til Englands í söluferð 24 október árið 1937.

Sjórinn sópaði í burtu öllu ofan af skipinu að aftan, fyllti káetuna og loftskeytaklefann, henti þar til borði, bekkjum, áhöldum og mönnum, svo að allt var í einni kös. Og svo var höggið mikið, að öll glóð og allar ristar í eldholum ketilsins hentist út, nema helmingur úr einu eldholinu; þar glóðu enn nokkrir eldsneistar, sem gerðu okkur mögulegt að viðhalda og auka aftur eimþrýsting ketilsins. Vjela og ketilrúm fylltust svo af sjó, að þar var staðið í mitti. Ljósin sloknuðu um allt skip, loftskeyti stöðvuðust, en kol og farmur kastaðist yfir í hljesíðuna. Skipið lá þannig í hálfa klukkustund, áður en það byrjaði að reisa sig aftur við nokkuð að ráði, og engum okkar kom til hugar þá, að við yrðum nokkru sinni til þess að flytja sagnir af þessu áfalli. Og þó heyrðist hvergi æðruorð frá nokkrum manni. Kaldur og rólegur gekk hver maður að sínu verki, eftir því sem því varð viðkomið, með það eitt fyrir augum, að standa á meðan að stætt væri, og hverfa þá yfir á aðra strönd, með fullvissuna um það að hafa ekki brugðist skyldum sínum". En einmitt þessi kalda, rólega skyldurækni, sem fáum er gefin til jafns við Íslenska sjómenn, varð til þess að bjarga hjer fólki og fleyi. "Þegar stýrishúsið brotnaði, slóst vjelsíminn þar til svo að hann flutti hringingu til vjelarrúms, en slitnaði þá í sömu andránni. Það var allt jafnt að hringingin heyrðist, skipið fór í kaf, vjelarrúm fylltist og ljósin slokknuðu.
Yfirvjelstjórinn, Ágúst Ingvarsson, var á verði og stöðvaði hann vjelina samstundis. En með því að hann fann, að skipið hjelt áfram að síga niður, setti hann vjelina aftur á fulla ferð, án þess að hafa um það fyrirskipun, til þess, ef mögulegt væri, að skipið gæti rifið sig upp aftur með ferðinni og þurkað af sjer sjóinn. Jafnsnemma hljóp maður sá, sem í stýrishúsinu var og ekki hafði slasast, að stýrinu til þess að snúa skipinu, ef mögulegt væri, upp að vindinum, og það er enginn vafi á því, að fyrir þessa skynsamlegu yfirvegun og tilþrif þessara tveggja manna, bjargaðist skipið.
Í kolsvarta myrkri, öslandi sjóinn í mitti, kappkostaði vjelarliðið sameiginlega án afláts að viðhalda eldi og eimi, svo skipið gæti látið að stjórn, koma á stað dælum og síðar, svo fljótt sem unt var, ljósum, á meðan að stýrimaðurinn braust í gegnum ölduflóðið frá káetu og upp í stýrishús, til þess að aðstoða við stjórnina skipstjórann ,sem enn lá þar meðvitundarlaus. Allan tímann, sem skipið lá svona, kom engin önnur bára yfir skipið. Það var eins og sjórinn væri orðinn sléttur, þrátt fyrir veðurhæðina". Er þetta skiljanlegt, þegar athugað er að sjórinn brýtur allar lýsis og olíutunnur á þilfari um leið og hann gengur yfir skipið, og ætti það að vera bending til manna, að nota bárufleyga í vondum veðrum, þó á hafskipum sé. Þegar veðrinu slotaði næsta dag, var fáninn dreginn í hálfa stöng, það var hinsta kveðja okkar til fjelagans unga, sem svo sviplega og sorglega var burtu kvaddur. Öll skipshöfnin drýpur höfði sem einn maður og hljóðnar í hálfa mínútu eða svo, og jeg skil, hinir íslensku farmenn eru allt jafnt, harðir sem stál og bljúgir sem börn.

Morgunblaðið. 25 nóvember 1937.
Frásögn Gísla Jónssonar.


Skoraklettur FD 352.                                                                                    (C) Óli Ólsen.

 
 Færeyski togarinn Skorarklettur, áður Kópanes,
                lendir í miklum hrakningum
             Bjargast til Norður-Noregs eftir
   margra vikna hrakninga útivist í norðurhöfum


Færeyski togarinn Skorarklettur, sem áður var gerður út frá Reykjavík og hét Kópanes, þá eign Halldórs Gíslasonar skipstjóra, lenti nýlega í langa og harða útivist. Að undanförnu hafa Færeyingar mjög sótt á togurum sínum á hin fiskiauðugu mið norður í Íshafi. Hafa þeir oft fengið þar afbragðsgóðan afla, er þeir hafa síðan selt í Bretlandi, iðulega fyrir mjög hátt verð. Togarinn Skorarklettur, sem áður var í eigu íslendinga og hét þá Kópanes, hefir verið einn þessara færeysku togara, sem leitað hafa á norðurslóðir. Í einni veiðiför sinni fyllti hann sig á þremur dögum, hélt síðan tii Bretlands og seldi aflan fyrir ellefu þúsund sterlingspund. Að því búnu hélt hann á ný norður á Íshafsmið.
Eftir þetta fréttist ekki af honum í margar vikur, og voru menn heima í Færeyjum orðnir uggandi um hann, þar eð hann myndi hvorki hafa kol né matvæli til svo langrar útivistar. Loks kom hann þó til hafnar í Harstad á Lófót. Hafði skrúfa togarans brotnað í ís. Hraktist hann bjargarlaus, þar til sagt er, að skipverjar hafi tekið það ráð að rifa saman húðir og festa upp sem segl. Á þessum frumstæða seglabúnaði hafi þeir bjargast, unz þeir komu á skipaleið við Norður-Noreg og þeim var hjálpað til hafnar. Var þar gert við skrúfuna til bráðabirgða. Síðan hélt togarinn til Kaupmannahafnar til frekari viðgerðar. Hefir það komið sér vel, að Færeyingar eru snjallir siglingamenn, því enginn leikur er að sigla togara með slíkum seglakosti.

Tíminn. 13 janúar 1948.

04.10.2020 09:35

562. Hersir ÍS 490.

Mótorbáturinn Hersir ÍS 490 var smíðaður af Bárði G Tómassyni skipaverkfræðingi á Ísafirði árið 1930 fyrir Jón Ágúst Eiríksson skipstjóra og Örnólf Valdimarsson á Suðureyri við Súgandafjörð. Eik og fura.  11,66 brl. 32 ha. Ellwe vél. Seinna eignaðist Kristján, bróðir Jóns, hlut Örnólfs í bátnum. 1 apríl 1932 eignaðist Jón Ágúst bátinn einn. Ný vél (1943) 40 ha. Saffle vél. Seldur 25 nóvember 1948, Kristni J Jónssyni og Jóni K Jóhannssyni á Patreksfirði, hét þá Hersir BA 14. Kristinn eignaðist bátinn einn 27 júní 1960. Ný vél (1966) 66 ha. Kelvin vél. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá árið 1974.


Hersir ÍS 490 á siglingu á Súgandafirði á stríðsárunum.               (C) Haraldur Samsonarson.
  • 1
Flettingar í dag: 308
Gestir í dag: 21
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062933
Samtals gestir: 76986
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 15:55:33