Færslur: 2016 September

30.09.2016 07:19

151. María Júlía. TFLB.

Björgunar og varðskipið María Júlía var smíðuð hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1950. Smíðanúmer 793. Eik 138 brl. 470 ha. Petters díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 25 mars árið 1950. Skipið var selt 15 febrúar árið 1969, Skildi h/f á Patreksfirði, hét María Júlía BA 36. Skipið var endurmælt árið 1969, mældist þá 105 brl. Ný vél (1972) 580 ha. Cummings díesel vél. Árið 1975 fór fram stórviðgerð á skipinu, var endurmælt og mældist þá 108 brl. 21 maí árið 1982 var skráður eigandi, Vaskur h/f á Tálknafirði. Selt 23 janúar árið 1985, Þórsbergi h/f á Tálknafirði. María Júlía var tekin af Íslenskri skipaskrá 31 október árið 2014.

 
Björgunar og varðskipið María Júlía.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
María Júlía. Líkan Gríms Karlssonar.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
María Júlía BA 36 við bryggju í Bolungarvík.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 29 júlí 2007.
 
María Júlía BA 36 í höfn á Ísafirði árið 2013.                                                                      (C) bb.is

                   María Júlía leigð

Árið 1950 leigði Landhelgisgæsla Íslands Maríu Júlíu af Slysavarnarfélagi Íslands. Hún var smíðuð í Frederikssund í Danmörku það ár og var ætluð til landhelgisgæslu, björgunarstarfa, bátagæslu, fiski og hafrannsókna. Skipið var í notkun Landhelgisgæslunnar í 19 ár og var að lokum selt til Patreksfjarðar árið 1969 og breytt í fiskiskip.
Heimild; LHG.

          María Júlía til Húsavíkur?

Byggðasafn Vestfjarða hefur sent fyrirspurn til Norðursiglingar á Húsavík um að fyrirtækið taki við Maríu Júlíu BA og geri skipið upp. Að sögn Jóns Sigurpálssonar, forstöðumanns Byggðasafnsins, er málið á umræðustigi. "Hugmyndin er þá að Norðursigling eignist skipið og geri það upp," segir Jón sem telur fullreynt að það verði gert upp á vegum Vestfirðinga. María Júlía er fyrsta björgunarskúta Vestfirðinga og á sér glæsta sögu sem slík, en ekki síður úr landhelgisstríðinu 1958 sem einn af varðbátunum í baráttu um yfirráð Íslendinga yfir fiskinum í sjónum í kringum landið. Byggðasafnið á Maríu Júlíu ásamt Minjasafni Egils Ólafssonar á Hnjóti.
 María Júlía hefur legið Ísafjarðarhöfn um árabil og Jón segir að starfsmenn safnsins hafi verulegar áhyggjur af henni í höfninni og að safnið treysti sér ekki til að bera ábyrgð á henni. Viðgerð á skipinu myndi kosta verulegt fé, eitthvað upp undir 200 milljónir króna að sögn Jóns. "Ef hún fær þá umönnun sem hún á skilið, þá skiptir ekki máli hvar það verður gert, en vissulega hefði ég kosið hún yrði áfram á Vestfjörðum," segir Jón.
 María Júlía er nátengd sögu Vestfjarða. Það hafði lengi verið baráttumál sjómanna, slysavarnafólks og fleiri á Vestfjörðum að fá björgunarskip fyrir þennan landshluta. Má segja að fyrstu krónurnar sem söfnuðust til smíða á skipi því sem í fyllingu tímans hlaut nafnið María Júlía, hafi verið á Patreksfirði. Það var þegar sr. Einar Sturlaugsson hvatti til söfnunar á björgunarskútu fyrir Vestfirði í guðþjónustu í Patrekskirkju árið 1933.
 Þetta var upphafið, en það var ekki fyrr en 17 árum síðar að draumur sr. Einars varð að veruleika. Í Árbók Slysavarnarfélags Íslands 1950 segir svo um jómfrúarsiglingu Maríu Júlíu til Vestfjarða: "Á Vestfjörðum var skipinu fagnað á hverri höfn og því búin hin prýðilegasta móttaka. Með í för vestur var forseti Slysavarnarfélagsins og fulltrúar slysavarnardeildanna á Vestfjörðum. Er skipið fór fram hjá Bjargtöngum afhenti Þórður Jónsson frá Hvallátrum forseta Slysavarnarfélagsins kr. 1000,00 gjöf í minningarsjóð um Gest Jónsson bróður hans frá foreldrum Gests, systkinum og öðrum vandamönnum, en tilgangur sjóðsins skyldi vera að verðlauna skipverja á "Maríu Júlíu" fyrir björgunarafrek".
 
Fleiri Vestfirðingar lögðu fram mikið fé til skipsins, en stærst var þó gjöf hjónanna Maríu Júlíu Gísladóttur og Guðmundar Br. Guðmundssonar kaupmanns á Ísafirði, sem árið 1937 gáfu mestallar eigur sínar í björgunarskútusjóð. Það þótti því vel við hæfi, þegar skipið var loks komið til landsins, að nefna það eftir Maríu Júlíu. 

bb.is 29 apríl 2016.

29.09.2016 07:32

Hilmir NK 34.

Hilmir NK 34 var smíðaður í Noregi árið 1927. Eik og fura 23 brl. 40 ha. Wichmann vél. Eigendur voru feðgarnir Lúðvík S Sigurðsson og Sigurður Lúðvíksson í Neskaupstað. Þeir keyptu bátinn frá Noregi árið 1929, hét áður Steinsland. 16 febrúar árið 1937 var Sigurður Lúðvíksson einn skráður eigandi. Ný vél (1946) 115 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 13 júní árið 1950, Benedikt Benediktssyni í Reykjavík, báturinn hét Hilmir RE 220. Seldur 16 nóvember árið 1953, Hilmi h/f í Hafnarfirði, hét Hilmir GK 220. Seldur 9 desember árið 1954, Halldóri Bjarnasyni í Reykjavík, báturinn hét Hilmir RE 213. Báturinn var talinn ónýtur árið 1960 og tekinn af skrá 9 mars árið 1961.

 
Hilmir NK 34 með fullfermi. Norðfjarðarnýpa í baksýn.                                       (C) Björn Björnsson.
 
Hilmir NK 34. Líkan Gríms Karlssonar.                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

28.09.2016 11:46

28. Björn Jónsson RE 22. TFSR.

Björn Jónsson RE 22 var smíðaður í Djupvik í Svíþjóð árið 1947. Eik 105 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 5 júlí árið 1947. Skipið var selt 21 ferbrúar árið 1949, h/f Guðjóni í Reykjavík. Selt 20 desember árið 1959, Ísbirninum h/f í Reykjavík. Skipið sökk við Tvísker 29 júlí 1965, var á síldveiðum. Áhöfnin, 11 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð í skipinu, síðan bjargaði áhöfnin á björgunar og eftirlitsbátnum Eldingu mönnunum til lands heilum á húfi.


Björn Jónsson RE 22.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


Björn Jónsson RE 22. Líkan Gríms Karlssonar.                     (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

   Björn Jónsson RE sökk í fyrrinótt-mannbjörg

Vélbáturinn Björn Jónsson RE 22 sökk í fyrrinótt skammt frá Tvískerjum, sem eru í Mýrarbugt, rétt utan við Hrollaugseyjar. Mannbjörg varð og munu skipverjar koma til Reykjavíkur austan af Seyðisfirði í dag.
Skipverjar á Birni Jónssyni höfðu rétt lokið við að háfa úr nótinni, er þessi atburður átti sér stað. Var búið að háfa 900 til 1000 mál, en 200 - 300 málum var sleppt úr nótinni, Var nótin komin á sinn stað og ætlunin að stíma til Iands. En þá urðu skipverjar skyndilega varir við að skipið fór að síga. Er þeir Iitu fram í tóku þeir eftir því að Iúkarinn var að verða fullur af vatni. Var þá þegar tekið til við að ryðja út af bátnuin, en ekkert dugði og hélt hann áfram að siga. Fóru nú nokkrir skipverja í plastbjörgunarbát, en hinir um borð í Eldinguna, sem var þarna skammt frá. Skipti það engum togum, að á fimmtán mínútum í mesta Iagi hvarf báturinn í hafið. Ekkert er kunnugt um orsakir þessa slyss. Bar það að á óvenju skömmum tíma, svo ekkert tækifæri gafst til að gera sér grein fyrir orsökunum. Faxi GK 44 var um tíu mínútna siglingu frá þeim slóðum, er Björn Jónsson var að veiðum. Kom Faxi þegar að og tók skipverja um borð og flutti þá ti Seyðisfjarðar. Þangað var komið kl. 2-3 í gærdag og voru skipverjar þar s.l. nótt, en komu til Reykjavíkur með flugvél i dag. Skipverjar eru allir við beztu heilsu. Skipstjóri á bátnum var Björn Jónsson, 24 ára gamall. Hann tók við bátnum nú í vor, en hafði áður um hálfs annars árs skeið farið með stjórn tveggja báta, fyrst Hafþórs RE og síðan Hafrúnar IS. Skipverjar á Birni Jónssyni voru auk skipstjórans: Theodór Sigurbergsson, stýrimaður, Jón Jónsson, 1. vélstjóri, Björn Kjartansson, 2. vélstjóri, Þorbjörn Aðalbjörnsson, matsveinn og svo hásetarnir, Jakob Guðmundsson, Hallgrímur Einarsson, Leifur Rasmussen, Ingibergur Guðgeirsson og Guðmundur Hákonarson. Björn Jónsson RE 22 var eikarbátur 105 brúttólestir. Hann var smíðaður i Djúpavík árið 1947 og þvi 18 ára gamall. Eigandi bátsins var Isbjörninn hf. í Reykjavík. Báturinn fór í slipp áður en hann fór á síld eystra og hefur gengið vel á síldveiðunum, veitt samtals um 5000 mál.

Þjóðviljinn 31 júlí 1965.


27.09.2016 12:28

604. Draupnir NK 21. TFWN.

Draupnir NK 21 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Eik 46 brl. 150 ha. Bolinder vél. Eigendur voru Ásgeir Bergsson, Bergur Eiríksson og Haukur Ólafsson í Neskaupstað frá 28 janúar 1946, þá var skipið innflutt. Selt 7 desember 1956, Draupni h/f á Hellissandi, skipið hét Hólmkell SH 137. Ný vél (1957) 300 ha. Cummings díesel vél. Selt árið 1962, Ingólfi Arnarsyni í Vestmannaeyjum, hét Ingþór VE 75. Ný vél (1964) 320 ha. Caterpillar díesel vél. Skipið mælist 52 brl frá árinu 1964. Talið ónýtt árið 1966. Lá við bryggju í Vestmannaeyjum í nokkur ár en var að endingu dreginn út og honum sökkt.


Draupnir NK 21 í bóli sínu á Norðfirði.                                                              (C) Björn Björnsson.

26.09.2016 09:08

Helga RE 49. TFSN.

Helga RE 49 var smíðuð í Svíþjóð árið 1947. Eik 110 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi skipsins var Ríkissjóður Íslands frá 21 mars 1947. Skipið var selt 10 mars árið 1949, Ingimundi h/f í Reykjavík. Ný vél (1956) 330 ha. Alpha díesel vél. Skipið sökk út af Reykjanesi 25 nóvember árið 1960. Áhöfnin, 10 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát. Þeim var síðan bjargað um borð í þýska togarann Weser frá Bremerhaven sem kom skipbrotsmönnunum síðan til Reykjavíkur.

 
Helga RE 49.                                                                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.

       Helga sökk á 10 mín. út af Grindavík

Mikið afla og happaskip sökk í fyrrinótt út af Grindavík, en mannbjörg varð . Var það vélskipið Helga RE 49, eign Ármann s Friðrikssonar, sem var skipstjóri á því. Var hann á leiðinni til Reykjavíkur með skip sitt. Skipsmenn voru fyrir skömmu búnir að háfa í það 600-700 tunnum síldar, er það sökk á mjög skömmum tíma . Þýzkur togari bjargaði áhöfninni. Þetta gerðist kl. að verða 2 í fyrrinótt. Helga var í þriðja róðri sínum á yfirstandandi síldarvertíð. Hafði skipið landað hér í Reykjavík á fimmtudagsmorguninn dágóðum afla. Þann morgun var Ármann sjálfur niðri á bryggju við skip sitt og var bjartsýnn á að nú myndi síldveiðin fara að glæðast. Hann var búinn að kosta miklu til við ýmiskonar endurbætur og til viðhalds skipinu. Í fyrrinótt hafði verið mesti aflinn hingað til í róðri og síldin stærri og fallegri en í hinum fyrri róðrum. Voru skipsmenn á Helgu glaðir og reifir, er þeir höfðu komið aflanum niður í lest, en einnig var nokkuð af síld á þilfarinu. Helga sigldi af stað áleiðis til Reykjavíkur um klukkan 2 um nóttina. Voru allir skipsmenn í matsal nema matsveinninn, sem genginn var til hvílu. Allt í einu tók skipið að hallast á stjórnborða, og hinir þaulvönu sjómenn, voru fljótir að átta sig á því að skipið ætti í erfiðleikum með að rétta sig aftur. Skipsmenn voru allir í stakk og stígvélum, snöruðu sér strax fram á til þess að reyna að opna lensportin og rétta skipið með þvi, en það tókst ekki. Skipið hélt áfram að síga og að 3-4 mín. liðnum lá Helga alveg á hliðinni. Var sýnt að skipið myndi sökkva.
Matsveinninn var kominn upp fáklæddur úr koju. Það var kuldanepja og dálítil ylgja, en allsstaðar mátti sjá ljós á nærstöddum skipum. Þegar gúmmíbjörgunarbáturinn kom í sjóinn sprengdi hann af sér öll bönd og blés sig sjálfur upp. Skipsmenn ösluðu að björgunarbátnum. Tókst öllum 10 talsins að komast í hann ómeiddir, en matsveinninn féll í sjóinn við björgunarbátinn. Þegar skipbrotsmenn voru komnir í bátinn lónaði hann hægt frá hinu 13 ára gamla happaskipi, sem seig dýpra og dýpra. Vart munu hafa liðið nema 10 mínútur frá því skipið tók að hallast fyrst, unz það hvarf skipbrotsmönnum í djúpið út af Grindavík.
Það var kalt í björgunarbátnum, en verst var biðin eftir björgun fyrir hinn fáklædda matsvein. Það leið nokkuð á aðra klukkustund unz skipbrotsmenn sáu að skipsljós nálguðust þá í myrkrinu. Brátt var ljóst að hér var um að ræða skip, sem séð hafði neyðarljósin og komið var til að bjarga. Þetta var togarinn Weser frá Bremerhaven, sem renndi að báti skipbrotsmanna. Gekk björgunin greiðlega um borð í togarann, var skipbrotsmönnum frábærlega vel tekið, þeim færð hlý föt, gefin hressing og að þeim hlúð á hinn bestan hátt.
Sigldi síðan togarinn á fullri ferð til Reykjavíkur og var kominn á ytri höfnina klukkan rúmlega 7 í gærmorgun. Þar tók tollbátur við mönnunum. Á heimilum skipsmanna vissi enginn hvernig komið var fyrr en þeir komu heim snemma í gærmorgun. Var heimkoman tregablandin, er skipsmenn, sem margir hverjir hafa verið með "Armanni á Helgu", eins og skipstjórinn er í daglegu tali nefndur, skýrðu ástvinum sínum frá því að nú væri þetta happaskip ekki lengur í tölu hins íslenzka vélskipaflota.
Skipsmenn eru sammála um, að ástæðan til þess að skipið fórst með svo snöggum hætti, sé sú, að síldarfarmurinn hafi kastazt til. Eitthvað hafi bilað niðri í lestinni, þar sem. síldin var í stíum, sem orsakað hafi að hún seig öll yfir í stjórnborðshliðina.
Skipsmenn eru einnig sammála um að þeir myndu vart vera til frásagnar af því sem gerðist, ef gúmmíbjörgunarbáturinn hefði ekki verið á skipinu, og hann verið að öllu leyti í fullkomnasta lagi. Eru skipsmenn á Helgu, þriðja skipshöfnin héðan frá Rerkjavík a. m. k., sem bjargast hefur á þessu ári vegna þess að gúmmíbjörgunarbátar voru á skipunum. Skemmst er að minnast þess er Straumey fórst og 7 menn komust af í gúmmíbáti skipsins, er Drangajökli hvolfdi skyndilega í sumar björguðust 19 menn í gúmmíbát skipsins.
Ármann Friðriksson, skipstjóri, hefur fullan hug á að eignast annað skip við fyrsta tækifæri. Þeir, sem þekkja hann vel, segja að það geti heldur ekki öðru vísi farið en að hann verði bráðlega kominn aftur á 
sjóinn á eigin skipi. Með honum voru í þessari hinztu ferð skipsins: Indriði Sigurðsson, stýrimaður, Melabraut 16, Hermann Helgason, 1. vélstjóri, Sólheimum 32, Axel Sveinsson, 2. vélstjóri, Sólvallagötu 66, Vilhjálmur Oddsson, matsveinn, Knoxbúðum R-5, og hásetarnir eru þeir: Haraldur Magnússon, Hofsvallagötu 23, Jón Erlendsson, Seljavegi 3A, Theodór Kristjánsson, Blómvallagötu 13, Hörður Valdimarsson, Ljósheimum 8 Lúkas Kárason, Langagerði 86.
Vélskipið Helga var 110 lestir, byggt 1947. Var skipið vátryggt hjá Sjóvátryggingafélagi Íslands.

Morgunblaðið 26 nóvember 1960.

25.09.2016 10:17

1661. Gullver NS 12. TFPG.

Gullver NS 12 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1983 fyrir Gullberg h/f á Seyðisfirði. Smíðanúmer 132. 423 brl. 1.770 ha. Mak vél, 1.303 Kw. 1 október árið 2014 var Gullberg h/f selt Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað. Gullver NS 12 er gerður út frá Seyðisfirði undir merkjum Gullbergs h/f og verður það vonandi áfram um ókomna tíð.


Gullver NS 12 á toginu á Austfjarðamiðum.                                                            (C) Þór Jónsson.


Gullver NS 12.                                                                                                     (C) Þór Jónsson.


Gullver NS 12.                                                                                                     (C) Þór Jónsson.


Gullver NS 12.                                                                                                    (C) Þór Jónsson.

                          Gullver NS 12

Nýr skuttogari, m/s Gullver NS 12, bottist við fiskiskipastól landsmanna 12. júlí s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar. Gullver NS er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk i Flekkefjord í Noregi og er smíðanúmer 132 hjá stöðinni. Gullver NS, sem er smíðaður eftir teikningu frá Ankerlökken Marine AIS, er tólfti skuttogarinn sem umrodd stöð smíðar fyrir íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk fyrir Slippstöðina, sem Slippstöðin lauk við frágang á og afhenti í apríl 1977 (Björgúlfur EA). Skrokkar allra þessara skuttogara eru smíðaðir hjá Kvina Verft í Noregi, sem annast hefur þann þátt smíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Þeir skuttogarar sem stöðin hefur áður smíðað fyrir íslendinga eru: Júlíus Geirmundsson ÍS (nú Bergvík KE), Guðbjartur ÍS, Bessi IS, Framnes I ÍS og Björgvin EA, systurskip, mesta lengd 46.56 m; - Guðbjörg ÍS (nú Snæfugl SU), Gyllir ÍS, Ásgeir RE og Ásbjörn RE, systurskip smíðuð eftir sömu frumteikningu, en 3.3 m lengri en upphaflegu skipin; - Júlíus Geirmundsson ÍS, mesta lengd 53.45 m; Guðbjörg ÍS, mesta lengd 55.40 m; og nú síðast Gullver NS, sem smíðaður er eftir sömu frumteikningu og 2. kynslóðin (togarar nr. 6-9) en breytt skrokklögun afturskips (meira skrúfupláss) og breytt fyrirkomulag einkum varðandi íbúðir og togþilfar. Togþilfar skipsins er að fyrirkomulagi til hliðstætt því sem er í nýju Guðbjörginni, þ.e. gangur fyrir miðju fram að stefni með tveimur tvöföldum bobbingarennum og þilfarshús í síðum. Gullver NS er í eigu Gullbergs h.f á Seyðisfirði og kemur í stað samnefnds skuttogara (mesta lengd 40.0 m) sem keyptur var 4ra ára gamall til landsins árið 1972. Eldra skipið gekk upp í smíðasamning fyrir nýja skipið. Seyðfirðingar eiga fyrir einn skuttogara, Gullberg NS, smíðaður í Noregi árið 1977. Skipstjóri á Gullveri NS er Jón Pálsson og 1. vélstjóri Einar J. Hilmarsson. Framkvomdastjóri útgerðar er Adolf Guðmundsson.

Tímaritið Ægir 1 október 1983.

24.09.2016 08:12

B. v. Skúli fógeti RE 144. LCHM.

Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. Smíðanúmer 368. 348 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið strandaði við Staðarhverfi á Reykjanesi 10 apríl árið 1933. 13 menn fórust en björgunarsveit SVFÍ í Grindavík bjargaði 24 mönnum á land.


Skúli fógeti RE 144 að veiðum.                                            Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


Líkan af Skúla fógeta RE 144.                                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Skúli fógeti RE 144. Smíða og fyrirkomulagsteikning.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

      Skúli fógeti strandar við Grindavík

Aðfaranótt mánudags laust eftir miðnætti strandaði togarinn Skúli fógeti skamt vestan við Staðarhverfi í Grindavík, rjett austan við vík þá, sem nefnd er Albogi. Veður var dimmt af hríð og suðaustan strekkingur. Skipið var á heimleið frá Selvogsbanka. Skipið fylltist brátt af sjó, seig niður að aftanverðu út af skerinu um 20 mínútum eftir að það strandaði. Þá voru 23 menn af skipshöfninni á hvalbaknum, 12 á stjórnpalli en tveir höfðu klifrað upp í fremri reiðann. Skömmu eftir að togarinn seig niður, fóru ólög yfir stjórnpallinn, svo þeir sem voru í fremri reiðanum sáu, að stýrishúsið fór við og við alveg í kaf. Þrír skipverja komust af stjórnpallinum fram á hvalbakinn. En sjór skolaði hinum brátt út. Slysavarnadeild Grindavíkur kom á strandstaðinn í dögun, eftir nokkra leit að skipinu. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en tveir í fremri reiðanum. Hafið úr flæðarmáli þá um 100 faðma. Með línubyssu tókst brátt að koma taug út á hvalbakinn. Og björgun tókst greiðlega úr því.
Klukkan 40 min. yfir 12 á mánudagsnótt heyrði loftskeytastöðin; hjer neyðarkall frá togaranum Skúla fógeta. Er stöðin hafði fengið samband við togarann fékk hún að vita, að hann væri strandaður í Grindavík, milli Járngerðarstaða og Staðarhverfis Sagt var, að stórt gat væri komið á skipið. Jeljaveður var á, og lofttruflanir miklar. svo erfitt var um það leyti að heyra loftskeyti. En eitthvað hafði dregið úr truflunum rjett í þeim svifum, sem togarinn sendi neyðarkall sitt. Loftskeytastöðin sendi samstundis út skeyti til veiðiskipa á Selvogsbanka um slys þetta, með tilmælum um aðstoð. Það var togarinn Haukanes sem fyrstur varð til svars. Hann var að veiðum á bánkanum. Hann fór þegar áleiðis til strandstaðarins. Loftskeytastöðin gerði Slysavarnafjelaginu þegar aðvart. Reyndi Slysavarnafjelagið síðan að ná talsambandi við Grindavík. En það tókst ekki.
Loftskeytastöðin sendir út talskeyti kl. 1.45 mín. á hverri nóttu um veðurspá Veðurstofunnar. Með veðurskeytunum í þetta sinn sendi Loftskeytastöðin út fregnina um strand Skúla fógeta. Stöðvarstjórinn í Grindavík þurfti, vegna róðra, að vita um veðurspána að þessu sinni. Hann reis því úr rekkju, opnaði útvarp sitt á tilteknum tíma og heyrði fregnina.
Nú er slysavarnadeildin í Grindavík kölluð saman og býr sig til ferðar í skyndi, með björgunartæki sín, línubyssu, björgunarhringi og annað. Formaður slysavarnadeildarinnar þar er Einar Einarsson í Krosshúsum. Tækin tóku þeir með sjer á bíl.
Það mun hafa verið um kl. 3 um, nóttina sem björgunarliðið lagði af stað úr Járngerðarstaðahverfinu.  En sakir dimmviðris og náttmyrkurs tókst ekki að finna togarann fyrri en er fór að birta af degi, eða kl. að ganga sex um morguninn. Þá voru 22 menn á hvalbaknum, en 2 í fremri reiðanum. Var nú skotið úr linubyssu út í hvalbak togarans er upp úr stóð. Hitti skyttan hvalbakinn í öðru skoti. En línan sem draga átti út í skipið festist á steini úti í flæðarmálinu, og tafði það dálítið að björgun gæti byrjað. En eftir að byrjað var að draga mennina á land af hvalbaknum gekk björgunin reiprennandi að kalla. Voru 20 komnir í land kl. 8 um morguninn. Tveir menn voru þá eftir á hvalbaknum. Var staðnæmst með björgunina, því eigi þótt tiltækilegt að koma annari línu úr landi til þeirra sem í reiðanum voru, heldur skyldi freista þess, að þeir kæmust úr reiðanum og fram á hvalbakinn til þeirra sem þar voru. Þetta tókst, þegar nægilega mikið var fallið út. Var þeim fjórum síðan bjargað í land í bjarghring, eins og fjelögum þeirra, og var björgun þeirra lokið kl. 9. Jafnóðum og mennirnir komu í land var þeim komið fyrir að Stað og í Móakoti. Þar beið þeirra hressing og heit rúm. Haukanes kom á vettvang kl. að ganga 5. En enga björgnn var hægt að framkvæma þaðan. Seinna komu þangað togarinn Geir og varðskipið Óðinn, en þá hjelt Haukanes til Hafnarfjarðar.
Þessir drukknuðu:
Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, til heimilis á Laufásveg 34, 31 árs. Var ekkjumaður. Lætur eftir sig 3 börn. Jakob Bjarnason 1. vjelstjóri, fæddur 1888. Skólavörðustíg 23. Kvæntur. 5 börn. Elsta barnið, Gunnar, drukknaði þarna með föður sínum. Hann var tvítugur. Ingvar Guðmundsson 2. vjelstj., Grettisgötu 45. Fæddur 1902. Ókvæntur. Sonur Guðm. Guðmundssonar rennismiðs. Sigurður Sigurðsson bræðslumaður, Suðurpól 13. Fæddur 1877. Kvæntur. Eitt barn í ómegð. Eðvarð Helgason háseti, sonur Helga Sigurðsson, Arnargötu 10. Fæddur 1912.. Ókvæntur. Sigþór Júl. Jóhannsson háseti, Vesturvallagötu 5. Fæddur 1901. Lætur eftir sig konu og 5 börn. Sigurður Engilbert Magnússon háseti, sonur Magnúsar Þórðarsonar, Framnesveg 1 C. Ókvæntur, 20 ára. Ásgeir Pjetursson háseti, sonur Pjeturs Marteinssonar. Lindargötu 12 A. Fæddur 1906. Ókvæntur. Eðvarð Jónsson (frá Lambhól) matsveinn, Bræðraborgarstíg 55- 30 ára. Lætur eftir sig konu og 2 böm. Guðmundur Stefánsson 2. matsveinn, Bergþórugötu 6. Fæddur 1915. Móðir hans, Ólína Hróbjartsdóttir, missti mann sinn frá 9 börnum, er Jón forseti strandaði í Höfnum. Jón Kristjónsson kyndari. Skólavörðustíg 26. sonur Kristjóns Jónssonar trjesmiðs. 20. ára, Ókvæntur. Markús Jónasson loftskeytamaður. Vesturgötu 24. 26 ára ókvæntur.
Þessir björguðust:
 Stefán Benediktsson 1. stýrim. Kristinn Stefánsson 2. stýrim. Jón Magnússon, Njarðarg. 41. Matthías Jochumsson, Öldug. 17. Mikkel Guðmundsson Laugav. 27. Ingólfur Gíslason, Eystri Skála, Eyjafj. Guðjón Marteinsson, Amtmannsstíg 4. Guðmundur Sigurðsson, Bókhlöðustíg 6. Arnór Sigmundsson, Vitastíg 9. Ásmundur Jónsson, Hverfisg. 58. Halldór Magnússon, Hringbraut 190. Ragnar Marteinsson, Meiri-Tungu, Holtum. Sigursveinn Sveinsson. Fossi, Mýrdal. Kristján Magnússon, Efri-Hömrum. Ísleifur Ólafsson, Grettisgötu 22. Árni Þorsteinsson. Keflavík. Hallmann Sigurðsson, Lambhúsum, Garðahr. Hjalti Jónsson. Lokastíg 19. Ingvar Guðmundsson, Þjóðólfshaga. Ólafur Marteinsson. Árbæjarhjálegu. Magnús Þorvarðarson, Bragagötu 22. Lúðvík Vilhjálmsson, Hverfisgötu 49. Sólberg Eiríksson, Hverfisg. 99. Sæmundur Auðunnsson Minni Vatnsleysu.

Togarinn Skúli fógeti var byggður fyrir Alliance í Beverley í Englandi árið 1920. Hann var 348 brúttó tonn, hið vandaðasta skip. Þorsteinn heitinn Þorsteinsson hafði verið skipstjóri á togaranum ein 5 ár, tók við skipstjórn af bróður sínum, Gísla Þorsteinssyni, sem nú er skipstjóri á Skeljung.
Skúli fógeti mun vera 10 eða 11. íslenski togarinn sem farist hefir síðan Leifur heppni fórst í febrúar veðrinu mikla 1925.

Morgunblaðið 11 apríl 1933.

23.09.2016 11:17

2410. Vilhelm Þorsteinsson EA 11. TFCM.

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 var smíðaður hjá Stocznia Polnocna í Gdansk í Póllandi og hjá Klevin Verft A/S í Ulsteinvik í Noregi árið 2000. Smíðanúmer 310. 1.632 brl. 7.505 ha. Wartsiila vél, 5.520 Kw. Skipið er í eigu Samherja h/f á Akureyri.

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 við Grandagarð.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 júlí 2015.

Vilhelm Þorsteinsson EA 11 í Hafnarfjarðarhöfn.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 29 júlí 2016.

               Nýtt flaggskip fiskiskipaflotans

Fjölmenni fagnaði komu nýs fjölveiðiskips Samherja h/f, Vilhelms Þorsteinssonar EA 11, er skipið kom til heimahafnar á Akureyri á sunnudag. Þetta er í fyrsta skipti sem Akureyringar fagna komu nýs skips til heimahafnar frá því Baldvin Þorsteinsson EA 10, frystitogari Samherja, kom til Akureyrar árið 1992. Anna Kristjánsdóttir, ekkja Vilhelms Þorsteinssonar, fyrrum framkvæmdastjóra Útgerðarfélags Akureyringa og skipstjóra, gaf skipinu nafn en séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur á Akureyri blessaði skipið. Þá afhenti Jarle Gjerde, forstjóri Kleven Verft skipasmíðastöðvarinnar í Noregi, Kristjáni Vilhelmssyni, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja og eins af aðaleigendum fé- lagsins, skipið formlega til eignar.
Vilhelm Þorsteinsson EA er eitt stærsta og glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans. Það er 79 metra langt, 16 metra breitt, og 5.520. kílówatta aðalvél. Það er búið bæði til nóta og flottrollsveiða og um borð er fullkominn búnaður til frystingar og vinnslu á bolfiski, síld, loðnu og kolmunna. Frystigeta afla í vinnslu er um 120 tonn á sólarhring og burðargeta afla til bræðslu um 2.500 tonn. Frystilestir skipsins rúma um 650 tonn af frosnum afla og um 1.200 tonn af fiski í kælitönkum.Íbúðir eru fyrir 28 manna áhöfn og aðbúnaður allur eins og best verður á kosið. Ganghraði skipsins er 18,2 sjómílur og togkraftur 90 tonn við fullt átak. Áætlaður heildarkostnaður við nýsmíðina er um 1.500 milljónir króna. Frumhönnun skipsins var í höndum starfsmanna Samherja og Skipatækni hf. en Teiknistofa Karls G. Þorleifssonar á Akureyri annaðist hönnun á vinnsludekki ofl. Skipasmiðastöðin Stocznia Polnocna í Gdansk í Póllandi annaðist smíði skrokksins og hófst verkið um mitt síðasta ár. Þar var skipinu hleypt af stokkunum í mars sl. Kleven Verft AS í Ulsteinvik í Noregi annaðist framhald smíðinnar. Skipstjórar nýja skipsins verða tveir, þeir Arngrímur Brynjólfsson og Sturla Einarsson en þeir hafa báðir stýrt skipum Samherja um langt árabil. Arngrímur var áður skipstjóri á Þorsteini EA og Baldvin Þorsteinssyni EA en Sturla var síðast skipstjóri á Akureyrinni EA. Áætlað er að skipið haldi í sina fyrstu veiðiferð í lok næstu viku.

Morgunblaðið 5 september 2000.

22.09.2016 08:28

Olaf EA 210. TFJG.

Olaf EA 210 var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. Stál 74 brl. 110 ha. 2 þennslu gufuvél. Skipið var stækkað árið 1930. Eigendur voru Guðmundur Guðmundsson og Jón Guðmundsson á Akureyri frá 7 júní árið 1934. Selt 21 september 1943, Hlutafélaginu Marz í Hrísey, skipið hét Eldey EA 210. Steindór Jónsson skipstjóri á Akureyri, keypti skipið árið 1945 og lét breyta því í farþega og flutningaskip, skipið hét Drangur EA 210. Ný vél (1946) 200 ha. Kahlenberg vél. Drangur var í póstferðum á árunum 1946 til ársins 1959 á milli Akureyrar og Siglufjarðar og nokkra vetur fór hann einnig til Sauðárkróks og annarra Skagafjarðarhafna. Skipið var selt til niðurrifs og tekið af skrá 8 júlí árið 1960. Drangi var sökkt á Akureyri og notaður sem undirstaða fyrir Höphnersbryggju.

 
Olaf EA 210 í upphaflegu útliti.                                                                 Ljósmyndari óþekktur. 
 
Drangur EA 210. Líkan Gríms Karlssonar.                              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.  
 
 

21.09.2016 08:35

Narfi EA 671. TFJL.

Narfi EA 671 var smíðaður í Danmörku árið 1911. Eik 83 brl. 232 ha. Allen díesel vél (1941). Eigendur voru Guðmundur Jörundsson í Hrísey og Áki Jakobsson á Siglufirði frá 6 mars árið 1941. Seldur 31 janúar 1951, Sigurði Sigurjónssyni og Ágústi Matthíassyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Þráinn VE 7. Selt 2 september 1952, Guðvarði Vilmundarsyni í Vestmannaeyjum, hét Vaðgeir VE 7. Selt 5 maí 1955, Útnesi h/f í Reykjavík, skipið hét Vaðgeir RE 345. Selt 7 júní 1956, Jóni Magnússyni í Reykjavík. Skipið rak á land við Kirkjusand í ofsaveðri, 24 nóvember 1956 og eyðilagðist.

 
Narfi EA 671 á siglingu á Eyjafirði.                                                                   (C) Snorri Snorrason.
 
Narfi EA 671. Líkan.                                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
 
                Guðmundur Jörundsson
Það var enginn venjulegur maður sem haustið 1943 fluttist utan úr Hrísey í Eiðsvallagötu 5. Teinréttur í baki og léttur á fæti stilaði yfir Eiðsvöllinn og lét hermannabraggana sér í léttu rúmi liggja. Þessi nýi Akureyringur hét Guðmundur Jörundsson. Föðurafi hans var Hákarla-Jörundur og móðuramma hans, Kristín Antonsdóttir hafði séð frelsarann. Guðmundur fetaði í slóð þeirra beggja. Hann var fiskinn og skyggn. Akureyringar vissu ekki alveg hvernig þeir áttu að taka þessum aðkomumanni. Tveimur árum áður hafði Guðmundur, í félagi við Áka Jakobsson, þáverandi bæjarstjóra á Siglufirði og seinna ráðherra, keypt gamla skonnortu, sett í hana vél og búið hana til veiða. Þegar útgerðarmenn á Akureyri heyrðu tíðindin áttu þeir ekki til orð að lýsa furðu sinni.
Þetta hlaut að vera unggæðingshátturinn í Guðmundi. Ekki enn orðinn þrítugur og svo stekkur hann í að kaupa þennan "drullupramma" og borga fyrir hann 105 þúsund krónur. Nei, við hefðum aldrei borgað meira en 3 þúsund krónur fyrir þetta flak af skipi, var samdóma álit hinna gætnu Akureyringa, sem hnýttu svo við "mikill asni er hann Guðmundur Jörundsson að kaupa þennan pramma"
 
Heimild: Saga Akureyrar 1940-1962. Jón Hjaltason 2009.
 

         Fjóra báta rak út úr höfninni í fyrrinótt

 Í fyrrinótt var hvassviðri um land allt og hér í Reykjavík komst veðurhæðin upp i 10 til 11 vindstig, þegar hvassast var. í rokinu slitnuðu fimm mannlausir vélbátar frá bryggjum hér í höfninni og rak fjóra á fjöru við Kirkjusand. Hvassviðri skall á um kvöldið og um miðnætti var komið suðvestan 33 hnúta rok hér í Reykjavík. Hvassast varð um þrjúleytið um nóttina, þá mældist rokið 50-60 hnútar eða 10-11 vindstig, að sögn Veðurstofunnar. Þegar leið á nóttina, færðist áttin meira til' vesturs og með morgninum gekk veðrið niður. Spáð er þó áframhaldandi vestanátt með allhvössum éljum. Bátarnir fimm, sem slitnuðu upp, voru bundnir við eina af bryggjunum í vesturhöfninni hjá verbúðunum á Grandagarði, og var enginn maður um borð í þeim. Einn bátinn Snæfell, rak á land við Norðurgarðinn og náðist hann aftur á flot í gærmorgun. Hina bátana fjóra rak út úr höfninni og upp í fjöru skammt frá Kirkjusandi. Bátarnir voru Erna RE 15, um 100 lestir að stærð, Vaðgeir RE 344 um 60 lestir, og tveir minni bátar, Freyja RE 99 og Unnur. Erna og Freyja lentu í fjörunni beint framundan þar sem var bátasmíðastöð Landssmiðjunnar, en Unnur undan Fúlutjörn. Fjaran er á þessum slóðum slétt og sendin og munu bátarnir því .óskemmdir. Vb. Vaðgeir lenti hinsvegar vestar í fjörunni og hefur brotnað þar talsvert á klettum.

Þjóðviljinn 25 nóvember 1956.

 
 
 
 
 
 
 
 
 

20.09.2016 12:14

759. Jón Þorláksson RE 60. TFÍK.

Jón Þorláksson RE 60 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð Daníels Þorsteinssonar í Reykjavík árið 1935. Eik 51 brl. 130 ha. Völund díesel vél. Eigendur voru Ingvar Vilhjálmsson, Guðmundur Þ Guðmundsson og Kristinn Guðbjartsson í Reykjavík frá 26 júní 1935. Ný vél (1946) 180 ha. Völund vél. Báturinn var seldur 5 febrúar 1948, Þorsteini Gíslasyni, Jóhanni Sigfússyni og Sigurði Gísla Bjarnasyni í Vestmannaeyjum, fær nafnið Sjöfn VE 37. Sigurður Gísli Bjarnason seldi sinn hlut í bátnum 26 maí 1951. Þá var skráður eigandi Sjöfn h/f í Vestmannaeyjum. Ný vél (1956) 240 ha. Gamma díesel vél. Og aftur ný vél (1971) 240 ha. Gamma vél, eins vél og var áður. Seldur 29 desember 1972, Hauki Jóhannssyni og Þorleifi Guðjónssyni í Vestmannaeyjum. 5 janúar 1975 var Haukur Jóhannsson einn eigandi af bátnum. Ný vél (1987) 425 ha. Caterpillar vél. Báturinn var seldur 12 nóvember 1989, Hrafni Óskari Oddssyni, Bergvin Oddsyni og Arthúr Erni Bogasyni í Vestmannaeyjum, sama nafn. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 1 september árið 1994. Báturinn var síðan brenndur í Vestmannaeyjum árið 1995.


Jón Þorláksson RE 60 að landa síld á Siglufirði.                                         Ljósmyndari óþekktur.


Sjöfn VE 37.                                                                Ljósmyndari óþekktur, mynd úr Íslensk skip.

        Tveir "Borgarstjórnar"bátar leigðir til Vestmannaeyja

Vestmanneyingar hafa tekið á leigu: Þorstein RE 21, Jón Þorláksson RE 60, Þórir R E 194 og Már RE 100 og stunda þeir fiskveiðar í Vestmannaeyjum.

Tímaritið Ægir 1 apríl 1937.

19.09.2016 09:50

B. v. Jón forseti RE 108. TFME.

Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Alliance í Reykjavík. 675 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 792. Skipið var selt 11 maí árið 1966, Henriksen & Co Ltd í Hull, hét Larissa H 266. Togarinn var seldur í brotajárn og rifinn árið 1968.


125. Jón forseti RE 108.                                                                    Ljósm: Jóhann Sveinsson.


Larissa H 266.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.


Jón forseti RE 108. Líkan.                                                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 júní 2014.


Jón forseti RE 108. Líkan.                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014.


Jón forseti RE 108. Líkan.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014. 

18.09.2016 10:34

B. v. Kári RE 111. LCJG / TFQD.

Botnvörpungurinn Kári RE 111 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Kára í Reykjavík. 344 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,66 x 3,34 m. Smíðanúmer 425. Hét fyrst Kári Sölmundarson RE 153. Þegar Kárafélagið flytur aðstöðu sína úr Reykjavík út í Viðey árið 1924, fær togarinn skráninguna GK 153. Frá 12 janúar árið 1932 var Útvegsbanki Íslands eigandi skipsins eftir að Kárafélagið í Viðey fór í þrot. Hét þá Kári Sölmundarson RE 153. Selt 19 nóvember 1932, Fiskiveiðahlutafélaginu Alliance í Reykjavík, hét þá Kári RE 111. Seldur 3 ágúst árið 1946, Klaksvíkar Fiskvinnufélag A/S í Klaksvík í Færeyjum, hét þar Barmur KG 363. Togarinn var seldur í brotajárn til Odense í Danmörku árið 1955.

 
Kári RE 111.                                                                       Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

        Þrjú botnvörpuskip og stöðin í Viðey til sölu.

Botnvörpuskipin "Kári Sölmundarson", GK. 153, "Ari", GK. 238 og "Þorgeir skorargeir", GK. 448, eru til sölu. Hverju skipi geta fylgt veiðarfæri og varahlutar, eins og bankinn hefir eignast með skipunum. Til sölu er ennfremur stöð KÁRA-félagsins í Viðey, með bryggjum og öllum áhöldum, eins og bankinn hefir eignast stöðina úr þrotabúi Fiskveiðahlutafélagsins KÁRI. Tilboð í eignir þessar allar sameiginlega eða í hvert skip og stöðina fyrir sig, sendist Útvegsbanka Íslands h.f" Reykjavík, fyrir 15. desember næstkomandi. Reykjavík, 2. desember 1931. 

 

Vísir 3 desember 1931.

17.09.2016 09:38

66. Guðmundur Þórðarson RE 70. TFBD.

Guðmundur Þórðarson RE 70 var smíðaður í Strusshamn í Noregi árið 1957 fyrir Baldur Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. Stál, 209 brl. 320 ha. Wichmann díesel vél. Skipið var selt 15 október árið 1970, Ólafi R Sigurðssyni Ytri Njarðvík, Magnúsi Ásgeirssyni og Karli Helgasyni í Grindavík, sama nafn og númer. Skipið var endurmælt árið 1971, mældist þá 161 brl. Talið ónýtt og tekið af skrá 2 október árið 1979.


Guðmundur Þórðarson RE 70.                                                                          (C) Snorri Snorrason.


Guðmundur Þórðarson RE 70. Líkan Gríms Karlssonar af honum í Duus húsi í Keflavík.
                                                                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014.
                                  KRAFTBLÖKKIN
Þann 21. júní, 1959 hélt m/s Guðmundur Þórðarson, RE 70 til síldveiða við Norðurland, með hringnót og búinn kraftblökk. Nótinni var komið fyrir aftast á þilfari skipsins og henni kastað og hún dregin af skipinu, en ekki notaður nótabátur. Lítill vélbátur var hafður meðferðis, var hann hafður í enda nótarinnar þegar kastað var og síðan til þess að halda nótinni frá skipinu á meðan háfað var.

Kraftblökkinni var komið fyrir í bómu á afturmastri skipsins og voru stjórntækin fyrir blökkina við mastrið. Bóma var höfð tvo metra aftan við bakka og korkaendi nótarinnar bundinn fremst á hana, þegar bundið var á síðu og háfað, en brjóstið lá í fellingum eftir henni að síðunni og steinateinninn bundinn aftureftir skipinu. Nótin var síðan hífð inn með kraftblökk, þar til að hægt var að háfa.
Fyrirkomulagið reyndist ekki vel, skipið dróst inn í nótina með afturendann. Á tímabilinu frá 23. júní til 6. júlí var kastað átta sinnum. Fékkst síld í flestum köstunum, en þó aldrei yfir 100 tunnur í kasti.
Í þessum köstum komu í ljós töluverðir annmarkar á þessu fyrirkomulagi. Staðsetningin á blökkinni var slæm og erfitt að þurrka upp með henni.
Eftir þessi átta köst var gerð breyting. Smíðaður var nótakassi á bátadekki og blökkin færð í fremri davíðuna stjórnborðsmegin. Stjórntæki blakkarinnar voru færð að brúnni stjórnborðsmegin. Einnig varð að grynna poka nótarinnar.
Við þessa endurbót var þrautin leyst og hafa aðrir byggt á reynslu þeirri er þarna fékkst. Stærð nótarinnar var 230 faðmar að lengd og 53 faðmar á dýpt, felling 40 til 50%. Kastað var 72 sinnum. Afli var 13.250 mál & tunnur. Úthaldsdagar voru 77. M/b Guðmundur Þórðarson var þriðja aflahæsta skipið á sumarsíldveiðunum 1959, þrátt fyrir tafirnar við tilraunirnar. Með þessu afreki urðu þáttaskil í sögu síldveiðanna hér við land og byggðu aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf á þeirri reynslu, sem fékkst með tilrauninni á m/s Guðmundi Þórðarsyni. Skipstjóri var Haraldur Ágústsson, stýrimaður Björn Ólafur Þorfinnsson, yfirvélstjóri var Sigurður Gunnarsson, Brettingur.
Eigandi skipsins var Baldur Guðmundsson útgerðarmaður í Reykjavík og kostaði hann tilraunina alfarið sjálfur.

Morgunblaðið 9 ágúst 1995.


16.09.2016 10:41

244. Gullberg NS 11. TFYG.

Gullberg NS 11 var smíðaður hjá Skipaviðgerðum h/f í Vestmannaeyjum árið 1964 fyrir Gullberg h/f á Seyðisfirði. Eik 162 brl. 625 ha. Kromhout díesel vél. Skipið var selt 13 janúar 1971, Ufsabergi h/f í Vestmannaeyjum, hét Gullberg VE 292. Skipið var endurmælt í apríl 1971, mældist þá 105 brl. Selt 4 september 1975, Snæfelli s/f í Vestmannaeyjum, hét Glófaxi VE 300. Skipið var endurmælt í september 1977, mældist þá 108 brl. Skipið var yfirbyggt árið 1985. Ný vél (1991) 800 ha. Mitsubishi vél, 588 Kw. Skipið var selt árið 1996, Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf í Vestmannaeyjum, hét Krossey SF 26 og var skráð á Höfn í Hornafirði. Árið 1999 heitir skipið Glófaxi ll VE 301, sami eigandi. Sama ár, nýtt nafn, hét þá Sæfaxi VE 30, sömu eigendur. Skipið var selt til Ghana 8 ágúst árið 2003.


Gullberg NS 11 á hringnótaveiðum fyrir sunnan land í mars 1969.                      (C) Sigurgeir Jónasson.


Fyrsta áhöfnin á Gullbergi NS 11. Myndin er tekin í Vestmannaeyjum í mars 1964. frá v: Guðmundur Sigurðsson 2 vélstjóri, Sigurður Finnbogason háseti, Valgeir Emilsson háseti, Gunnar Þórðarson 1 vélstjóri, Ólafur Guðjónsson matsveinn, Steingrímur Jónsson háseti, Aðalsteinn Einarsson háseti, Sigurður Friðriksson háseti, Aðalbjörn Haraldsson stýrimaður, Sveinn Finnbogason háseti og Jón Pálsson skipstjóri.
                                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

     165 tonna eikarbátur smíðaður í Vestmannaeyjum

Í Dag fór nýr bátur, sem smiðaður var hér í Eyjum hjá Skipaviðgerðum, í reynsluför. Bátur þessi er Gullberg NS 11, og eigandi Gullberg h.f á Seyðisfirði, framkvæmdastjóri Ólafur Ólafsson, Seyðisfirði. Gullberg er 165 tonna batur smíðaður úr eik hjá Skipaviðgerðum h.f. eins og fyrr segir. Teikningar að bátnum gerði Egill Þorfinnsson, Keflavík, en yfirsmiður við byggingu bátsins var Ólafur Jónsson Vestmannaeyjum. Magni h.f. og vélsmiðjan Völundur sáu um niðursetningu á vél bátsins, sem er af Kromhout gerð 625 hestöfl. Um innréttingu bátsins sá Ólafur Björnsson húsgagnasmíðameistari ásamt fleirum. Skipstjóri á bátnum er Jón Pálsson. Í reynsluferðinni var siglt suður fyrir nýju eyna, og gekk báturinn 11,2 mílur í reynsluferðinni, þrátt fyrir að vélaraflið væii ekki notað til fullnustu. Töluverður sjór var, og reyndist Gullberg hið ágætasta sjóskip. Allur frágangur á bátnum að utan og innan er hinn vandaðasti og ber meisturum sínum góðan vitnisburð í hvívetna. Báturinn fer á þorskaveiðar með nót, núna til að byrja með.

Tíminn 18 mars 1964.Flettingar í dag: 124
Gestir í dag: 4
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852182
Samtals gestir: 62754
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 01:03:56