Færslur: 2016 Júlí

30.07.2016 10:33

761. Skaftfellingur. LBKS / TFRI

Skaftfellingur var smíðaður í Troense í Danmörku árið 1917 fyrir h/f Skaftfelling í Reykjavík. Eik og beyki 60 brl. 48 ha. Proleums vél. Á árunum 1917 til 1936 var Skaftfellingur í strandferðum milli Reykjavíkur og Öræfa, með viðkomu á Eyrarbakka, Vestmannaeyjum, Vík, Skaftárósi og víðar á söndunum sunnanlands og flutti vörur, farþega og póst milli þessara staða. Árið 1926 var sett í skipið 90 ha. Alpha vél. Skipið var selt Helga Benediktssyni í Vestmannaeyjum árið 1936, hét Skaftfellingur áfram en fékk skráningarnúmerið VE 33 á árinu 1943. Sama ár er sett ný vél í skipið, 200 ha. Khalenberg vél. Árið 1948 var sett í það 225 ha. June Munktell vél. Skaftfellingur var talinn ónýtur í október 1975, hafði þá staðið í slipp í Vestmannaeyjum í rúm 10 ár. Árið 2000 var skipið flutt til Víkur í Mýrdal þar sem verið er að gera skipið upp.


Skaftfellingur á legunni utan við Vík í Mýrdal árið 1918.                                (C) Þjóðminjasafn Íslands.


Skaftfellingur VE 33. Líkan Gríms Karlssonar í Duus húsi.       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 8 febrúar 2014.

29.07.2016 09:37

832. Sæfaxi NK 102. TFUK.

Sæfaxi NK 102 var smíðaður í Svíþjóð (Halsö ?) árið 1946. Eik 90 brl. 260 ha. Atlas díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 20 september 1947. Selt 2 maí 1950, Goðaborg h/f í Neskaupstað, hét Goðaborg NK 1. Skipið var selt 26 febrúar 1953, Ásgeiri Bergssyni og Hauki Ólafssyni í Neskaupstað. Ný vél, 435 ha. Deutz díesel vél var sett í skipið árið 1959. Selt 29 september 1960, Samvinnufélagi Útgerðarmanna í Neskaupstað, hét Hafalda NK 20. Skipið var selt 13 júní árið 1962, Garðari Lárussyni útgerðarmanni í Neskaupstað, skipið hét Sæfaxi NK 102. Frá því í mars árið 1967 var Sigfús Johnsen í Vestmannaeyjum talinn eigandi skipsins. Skipið sökk eftir árekstur við Mjölni GK 323 út af Alviðruhömrum, 26 júlí 1968. Áhöfnin bjargaðist um borð í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Mjölni.


Sæfaxi NK 102 á Norðfirði.                                                                        Ljósm: Jóhann Zoega.


Sæfaxi NK 102 á síldveiðum sumarið 1964.                                              Ljósm: Sófus Gjöveraa.

  Sæfaxi sökk eftir árekstur

          suður af Alviðruhömrum - Mannbjörg varð

TOGBÁTURINN Sæfaxi NK 102 frá Vestmannaeyjum sökk um 2,5 sjómílur suður af Alviðruhömnum um tiuleytið í fyrrakvöld. Mannhjörg varð. Sæfaxi var á Ieið á miðin, þegar togbáturinn Mjölnir GK 232 frá Vestmannaeyjum sigldi á miðja bakborðssíðu hans og gekk stefni Mjölnis allt inn að lestarlúgu. Áhöfn Sæfaxa fór 'tafaraust í björgunarbáta og tókst skipstjóranum, Sævari Benónýsyni, rétt að senda út neyðarkall og bjarga skipsskjölunum. Gott sjóveður var  á þessum slóðum  þegar óhappið varð, en þoka.  Áhöfn Sæfaxa var tekin um borð í Mjölni, sem kom til Vestmannaeyja um klukkan 6 í gærmorgun og hófust sjóparóf þar í gær. Þau stóðu enn yfir, þegar blaðið fór í prentun. Sæfaxi NK 102 var eikarbátur, smíðaður í Svíþjóð 1946, 101 brúttólest að stærð. Sigfús Johhnsen keypti bátinn frá Neskaupstað sl. ár og gerði hann út. Sæfaxi kom inn til Vestmannaeyja með 25 tonn í fyrradag og hélt aftur á miðin í fyrrakvöld. Mjölnir GK 323 er 80 brúttólesta eikarbátur, smíðaður í Svíþjóð 1948 og er Kristján Gíslason í Vestmannaeyjum núverandi eigandi hans, en skipstóri er Friðrik Friðriksson.

Morgunblaðið. 28 júlí 1968.


28.07.2016 11:27

47. Fagriklettur GK 260. TFSK.

Fagriklettur GK 260 var smíðaður á Akureyri árið 1943. Eik, 125 brl. 280 ha. Lister díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Fiskaklettur í Hafnarfirði frá 24 júlí 1943. Árið 1959 var sett í skipið 400 ha. Lister díesel vél. Selt 22 febrúar 1968 Jakob Sigurðssyni og Magnúsi Grímssyni í Reykjavík, hét Sæborg RE 20. Skipið brann og sökk út af Malarrifi 11 september 1975. Áhöfnin, 8 menn komst í gúmmíbjörgunarbátinn og var bjargað þaðan um borð í togarann Ögra RE 72 frá Reykjavík.

Fagriklettur GK 260.                                                            Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.


27.07.2016 10:19

Alden GK 247. TFBE.

Línuveiðarinn Alden GK 247 var smíðaður í Moss í Noregi árið 1907. Stál 111 brl. 175 ha. 2 þjöppu gufuvél. Fyrsti eigandi hér á landi var Anton Jacobsen frá 17 febrúar 1925. Hét þá Alden RE 264 en skipið hét Svalen áður. Selt 20 janúar árið 1927, Fiskveiðahlutafélaginu Hrólfi í Reykjavík. Skipið var selt 27 febrúar 1931, Samvinnuútgerðinni í Stykkishólmi, skipið hét Alden SH 1. Selt 27 mars 1940, Hlutafélaginu Fossi í Hafnarfirði, skipið hét Alden GK 247. Selt 3 febrúar 1945, Hlutafélaginu Búa á Dalvík, hét Alden EA 755. Skipið var selt úr landi til niðurrifs í júní árið 1956.


Alden GK 247 á stríðsárunum.                                              Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

26.07.2016 11:48

1579. Gnúpur GK 11. TFAO.

Gnúpur GK 11 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskine Fabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1981. 484 brl. 3.202 ha. M.a.K. díesel vél, 2.355 Kw. Hét fyrst Guðbjörg ÍS 46 og var í eigu útgerðarfélagsins Hrannar h/f á Ísafirði. Skipið var lengt árið 1988, mældist þá 627 brl. Frá 27 september 1994 var skipið skráð Guðbjörg ÍS 460. Selt 1 desember 1994, Þorbirni h/f í Grindavík, og fær nafnið Gnúpur GK 11 og er gert þaðan út í dag.


Gnúpur GK 11 í Hafnarfjarðarhöfn.                             (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 22 júlí 2016.


Gnúpur GK 11 í Reykjavíkurhöfn.                               (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 7 júní 2012.

25.07.2016 11:35

B.v. Maí GK 346. LCHP / TFMB.

Maí GK 346 var smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920. Smíðanúmer 423. 339 brl. 600 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var Fiskiveiðahlutafélagið Ísland í Reykjavík frá maí 1920. Hét þá Maí RE 155. Skipið var selt 12 febrúar 1931, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, fær nafnið Maí GK 346. Talinn ónýtur og seldur til Danmerkur í brotajárn árið 1955. Rifinn í Odense í júlímánuði það ár.


Maí GK 346.                                                                        Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

Það má geta þess að í upphafi átti að smíða Maí fyrir breska flotann og átti skipið að heita Ephraim Bright, en ekkert varð af því og Íslandsfélagið keypti skipið á smíðatíma þess.

24.07.2016 09:38

1472. Klakkur SK 5. TFVM.

Klakkur SK 5 var smíðaður hjá Stocznia Im Komuny Paryskiey í Gdynia í Póllandi árið 1977 fyrir h/f Klakk í Vestmannaeyjum. Hét fyrst Klakkur VE 103. 488 brl. 2.200 ha. Sulzer díesel vél. Eigandi frá árinu 1980 var Samtog h/f í Vestmannaeyjum. Ný vél var sett í skipið (1987) 2.200 ha. B&W Alpha díesel vél, 1.620 Kw. Skipið var selt 6 júlí 1992, Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar h/f, hét Klakkur SH 510. Klakkur komst í eigu FISK-Seafood ehf þegar Fiskiðjan Skagfirðingur og Hraðfrystihús Grundarfjarðar voru sameinuð 1 janúar árið 1996. Heitir í dag Klakkur SK 5 og er gerður út af FISK Seafood ehf á Sauðárkróki.

Klakkur SK 5 við bryggju á Sauðárkróki.                          (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

Klakkur VE 103 var einn af þremur togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Gdynia í Póllandi á árunum 1976-77, hin systurskipin tvö voru;

1471. Ólafur Jónsson GK 404. Útgerð, h/f Miðnes í Sandgerði og Keflavík h/f í Keflavík.
1473. Bjarni Herjólfsson ÁR 200. Útgerð, Árborg h/f á Selfossi.
  

23.07.2016 08:42

813. Svanur RE 88. TFHN.

Svanur RE 88 var smíðaður í Gautaborg í Svíþjóð árið 1944. Eik 74 brl. 180 ha. Skandia díesel vél. Hét áður Emanuel. Eigandi var Skaftafell h/f í Reykjavík frá 2 ágúst 1945. 28 júní 1949 voru eigendur skipsins Andrés Finnbogason, Þorbjörg Sigurðardóttir og Runólfur Pétursson í Reykjavík. Árið 1954 var sett ný vél í skipið, 480 ha. GM díesel vél. Nýtt stýrishús og vélarhús var sett á skipið árið 1960 og það endurmælt og mældist þá 81 brl. Stuttu síðar var einnig settur hvalbakur á skipið. Svanur fórst í róðri um 20 sjómílur út af Kópanesi, 22 desember árið 1966 með allri áhöfn, 6 mönnum.

Svanur RE 88 eins og hann leit út þegar hann kom til landsins árið 1945.

Svanur RE 88. Þarna kominn með nýtt stýrishús.

Svanur RE 88. Hvalbakur kominn á skipið.                                              (C) Myndir: Snorri Snorrason.

Hraðfrystihúsið í Hnífsdal hafði haft skipið á leigu frá því um sumarið. Þeir sem fórust með Svani RE 88 voru; 

Ásgeir Karlsson skipstjóri. Hnífsdal.
Einar Jóhannes Lárusson stýrimaður. Hnífsdal.
Friðrik Maríasson 1 vélstjóri. Hnífsdal.
Jón Helgason 2 vélstjóri. Hnífsdal.
Jóel Einarsson matsveinn. Hnífsdal.
Hermann Lúthersson háseti. Reykjavík.
22.07.2016 09:51

1755. Aðalbjörg RE 5. TFBG.

Aðalbjörg RE 5 var smíðuð hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar árið 1987. 52 brl. 401 ha. Caterpillar vél, 295 Kw. Skipið var lengt árið 1994, mældist þá 59 brl. Ný vél (1996) 461 ha. Caterpillar vél, 339 Kw. Eigandi Aðalbjargar er Stefán R Einarsson á Seltjarnarnesi en skipið er gert út frá Reykjavík.


Aðalbjörg RE 5 í Reykjavíkurhöfn.                                   (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 21 júlí 2016. 

21.07.2016 13:26

2903. Margrét EA 710. TFCH.

Margrét EA 710 var smíðuð í Noregi árið 1995. 2.060 brl.  4.920 Kw. Wartsiila díesel vél. Hét áður Antares. Skipið var lengt árið 2009. Er í eigu Samherja h/f á Akureyri.

Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri.

Margrét EA 710.                                                     (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 15 júlí 2016.


14.07.2016 07:14

2170. Örfirisey RE 4. TFPI.

Örfirisey RE 4 var smíðuð hjá Sterkoder Mekaniske Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1988. 940 brl. 4.080 ha. Wichmann vél, 3.000 Kw. Hét áður Polarborg l. Skipið var lengt árið 1998. Eigandi er H.B. Grandi h/f í Reykjavík frá árinu 1992.


Örfirisey RE 4 inn á Súgandafirði í aðgerð.                                      (C) Mynd: Sæmundur Þórðarson.


Örfirisey RE 4 í Reykjavíkurhöfn.                                (C) Mynd: Þórhallur S Gjöveraa. 19 apríl 2016. 

13.07.2016 09:28

L. v. Sæbjörg GK 9. TFHE.

Sæbjörg GK 9 var smíðuð í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1904. 159 brl. 280 ha. 3 þjöppu gufuvél. Eigandi var Fiskiveiðahlutafélagið Sæbjörg í Hafnarfirði frá 12 janúar árið 1929. Skipið var selt 16 desember 1932, h/f Draupni á Bíldudal, hét Ármann BA 7. Selt 15 júní 1937, h/f Jökli í Reykjavík, hét Jökull RE 55. Skipið var lengt árið 1940, mældist þá 201 brl. Selt til niðurrifs árið 1956. Sæbjörg var smíðuð sem togari en síðar breytt í línuveiðara og keyptur til landsins sem slíkur. Skipið stundaði einnig síldveiðar hér við land.


Línuveiðarinn Sæbjörg GK 9.                                                            Ljósm: Guðbjartur Ásgeirsson. ?


Jökull RE 55 með síldarfarm á Siglufirði.                                           (C) Mynd: Þjóðminjasafn Íslands.

12.07.2016 12:18

2732. Skinney SF 20. TFAL.

Skinney SF 20 var smíðuð í Kaohsiung í Taiwan árið 2009. 242 brl. 710 ha. Mitsubishi vél, 523 Kw. Skipið er gert út af Skinney-Þinganesi h/f á Höfn í Hornafirði.


Skinney SF 20 í Reykjavíkurhöfn.


Skinney SF 20.                                                           (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 17 júní 2015.

11.07.2016 09:16

S.t. Dane H 227.

Dane H 227 var smíði númer 211 hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1911 fyrir Imperial Steam Fishing Co Ltd í Hull. 346 brl. 580 ha. 3 þjöppu gufuvél frá Amos & Smith Ltd í Hull. Dane var tekinn í þjónustu breska sjóhersins 15 apríl 1915 sem tundurduflaslæðari, hét þá Dane ll FY 1340. Togaranum var skilað til eigenda sinna 12 mars árið 1919 og fékk sitt gamla nafn og númer. Seldur árið 1920, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét Dane H 227 eins og áður. Seldur 6 janúar 1928, Christenson & Co Ltd í Hull. Seldur 1931, Dane Fishing Co Ltd í Hull. Seldur 1934, Henry Elliott & Sons Ltd í Fleetwood. Seldur 1935, H. Elliott & Sons Trawlers Ltd í Fleetwood. Seldur 1939, Prince Fishing Co Ltd í Hull ( Hellyers bros Ltd Hull ). Tekinn í þjónustu breska sjóhersins 10 janúar 1940 sem tundurduflaslæðari eins og hann gerði í fyrra stríði, hét þá Dane FY 554. Seldur árið 1943, Harry Markham Cook Ltd í Grimsby. Skilað til eigenda í janúar 1946. Eftir 29 nóvember 1946 heitir togarinn Dane GY 417. Seldur 28 maí 1947, Drum Fishing Co Ltd Granton í Edinborg Skotlandi, hét þar Drumsheugh GN 37. Seldur í febrúar 1954 í brotajárn til Bisco, Malcolm Brecin í Granton og var rifinn þar.


Dane H 227.                                                                  Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


Drumsheugh GN 37.                                 (C) National Railway Museum, York, Yorkshire England.Hellyers Bros Ltd í Hull (Hellyersbræður) komu til Hafnarfjarðar á árinu 1924, höfðu þeir samning við bæjaryfirvöld um að meiga reka togara sína út frá bænum í 10 ár og borga af þeim útsvar, 2 þúsund kr. á skip miðað við vertíðarúthald. Til að gera langa sögu stutta, að á haustmánuðum árið 1929, sigldu allir togarar Hellyers burt úr bænum og sá síðasti, Imperialist H 43 sigldi burt 21 nóvember það ár. Margir vildu eigna það krötunum í Hafnarfirði hvernig fór, að þeir hafi skattlagt þá burt. Það má nefna það líka, að á þessum tíma var verkfallsáráttan orðin landlæg hér á landi og þeir óttuðust þennan sífellda ófrið og sigldu því burt haustið 1929 eins og fyrr segir. Á þessum 5 árum voru Hellyersbræður stærstu atvinnurekendur í Hafnarfirði, gerðu þaðan út 6 til 7 togara í einu, ásamt því að vera með mikla fiskverkun í bænum.
Dane H 227 var einn af þeim togurum sem Hellyers gerði út frá Hafnarfirði. Togararnir voru með íslenskar áhafnir fyrir utan breskan flagg skipstjóra og vélalið. Alexander Jóhannesson 1884-1974 frá Skáney í Borgarfirði var lengi skipstjóri á Dane. Í Halaveðrinu var Alexander með Dane. Togarinn hafði verið að veiðum á Halanum í janúarmánuði og kom til Hafnarfjarðar fyrir mánaðarmótin með fullfermi. Í þeirri veiðiferð hafði orðið vart bilunar í eimkatli skipsins, og Alexander ákvað að sigla til Reykjavíkur til viðgerðar. Viðgerðin tók nokkra daga, en að því búnu var haldið út. Töldu flesti skipverjar að hann héldi vestur á Hala aftur því þar var nægan fisk að fá, þótt veður hamlaði veiðum öðru hvoru. Halinn var talinn tryggastur um þessar mundir og þar var einnig meiri þorskur í aflanum en fyrir sunnan land. En þess í stað var reynt fyrir sér vestur í Jökuldýpi en þar var afli tregur og haldið suður fyrir land á Selvogsbankann. Hvort sem það var hugboð eður ei, þá hélt hann fast við ákvörðun sína að forðast Halann í þetta sinn. Trúlega hefur hann með hugboði sínu bjargað skipi og áhöfn, jafnvel frá bráðum bana í þessu mesta óveðri sem gengið hefur yfir landið og miðin út af Vestfjörðum sem kostuðu 74 mannslíf á sjó og landi. Alexander var alla tíð fengsæll og gætinn skipstjórnarmaður, sigldi yfir 50 söluferðir til Bretlands á árum seinni heimstyrjaldarinnar, þá skipstjóri á togaranum Haukanesi GK 347 frá Hafnarfirði og fór 46 söluferðir á honum til Bretlands.

Heimildir: www. fleetwood-trawlers info / Bill Blow.
              Hafnarfjarðarjarlinn. Einars saga Þorgilssonar.
              Í særótinu. Sveinn Sæmundsson.

10.07.2016 08:45

2780. Ásgrímur Halldórsson SF 250. TFBL.

Ásgrímur Halldórsson SF 250 var smíðaður hjá Simek A/S í Flekkefjord í Noregi árið 2000 fyrir Lunar Fishing Co Ltd í Peterhead í Skotlandi, hét þar Lunar Bow. 1.528 bt. 7.507 ha. Wartsiila díesel vél, 5.520 Kw. Eigandi skipsins er Skinney-Þinganes h/f á Höfn í Hornafirði frá árinu 2008.


Ásgrímur Halldórsson SF 250 við Grandagarð.


Ásgrímur Halldórsson SF 250 við Grandagarð.          (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa. 31 október 2014.
Flettingar í dag: 246
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859289
Samtals gestir: 63058
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 03:57:51