Færslur: 2016 Nóvember

30.11.2016 11:47

73. Gunnar SU 139. TFYW.

Gunnar SU 139 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í A-Þýskalandi árið 1959. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Gunnar á Reyðarfirði frá 30 maí árið 1959. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 19 júní árið 1981. Gunnar SU var einn af hinum 12 svokölluðu tappatogurum sem smíðaðir voru í A-Þýskalandi fyrir Íslendinga eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipaverkfræðings. 


Gunnar SU 139 með fullfermi síldar á leið til Eskifjarðar.                                  (C) Vilberg Guðnason.


Gunnar SU 139 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                              (C) J.A. Hugson. Shetland museum.


Smíðateikning Hjálmars R Bárðarsonar af tappatogara.                                                   (C) HRB.

 Nýtt og vandað vélskip keypt til Reyðarfjarðar, kom um  mánaðamót

Snemma í morgun lagðist vélskipið "Gunnar" SU-139 að bryggju á Reyðarfirði. Var skipið allt fánum prýtt og hið glæsilegasta á að líta. Margt manna var mætt á bryggjunni til að fagna skipi og skipshöfn. Fánar blöktu hvarvetna um bæinn. Skipið er austur-þýzkt 248 lestir, teiknað af Hjálmari Bárðarsyni, smíðað í Stralsund. Aðalaflvél er 800 hestöfl, vestur-þýzk.
Ljósavélar enskar og austur-þýzkar, ganghraði er 11,7 mílur. Siglingatæki eru öll hin fullkomuustu að gerð. Vistarverur allar eru með hinum mesta glæsibrag og ýmiskonar  þægindi eru þar. Ísskápur og frystiklefi eru í eldhúsi. Miklir varahlutir eru með vél, sérstaklega með rafmótorum. Björgunarbátar eru 4, þar af 2 alúminíumbátar fyrir 16 menn hvor og 2 gúmmíbátar fyrir 12 menn hvor. Merk nýung er svokallaðir magnesíumklossar utan á skipinu, en þeir eiga að verja ryði.  Ef vel reynist mun það spara stóra fjármuni. Hjalti Gunnarsson skipstjóri, sem er aðaleigandi skipsins, sigldi því hingað. Siglingin frá Skagen tók  95 klst. þrátt fyrir mótbyr mestan hluta leiðarinnar. Reyndist skipið prýðilega.
Eigandi skipsins er hlutafélagið Gunnar, Reyðarfirði. Bera bæði skip og hlutafélag nafn föður Hjalta skipstjóra. Hjalti kveðst gera skipið út á síld í sumar, að mestu mannað Reyðfirðingum. Sagði hann að vonir sínar væru við það miðað að skipið yrði helzt sem mest mannað Reyðfirðingum og afli lagður þar upp þegar Mögulegt væri. Kvað Hjalti það lengi hafa verið von sína að eignast skip sem gert væri út frá Reyðarfirði. Því hefði hann eigi viljað binda sig á skip annars staðar. Eins og kunnugt er, er Hjalti þaulreyndur, aflasæll og vinsæll skipstjóri. Reyðfirðingar hafa fiölmennt niður í skip til Hjalta til að óska honum allra heilla í starfi. Það er trú manna hér og einlæg von að útgerð þessi með ýmsu öðru verði lyftistöng í atvínnulífinu hér. Revðfirzk fiskiskip eru nú orð in tvö,  hitt er Svíþjóðarbáturinn Snæfugl, skipstjóri  hans er Bóas Jónsson, hefur útgerð hans gengið mjög vel.

Tíminn. 14 júní 1959.

29.11.2016 12:44

344. Björn EA 396. LBGP. / TFSG.

Björn EA 396 var smíðaður í Faaborg í Danmörku árið 1916. Eik. 42 brl. 76 ha. Hera vél. Báturinn hét fyrst Dröfn EA 396 og voru eigendur hans Firmað Bræðurnir Gunnarssynir, Höfða á Akureyri, Þórður, Björn og Baldvin Einarssynir á Akureyri frá 4 desember 1916. Seldur 13 mars 1924, Ingvari Guðjónssyni á Akureyri, báturinn hét Björn EA 396. Ný vél (1930) 120 ha. Tuxham vél. Seldur 2 desember 1940, Stefáni S Franklín í Reykjavík og Ragnari Björnssyni í Sandgerði, báturinn hét Björn GK 396. Ný vél (1942) 120 ha. Lister vél. Báturinn var lengdur árið 1945, mældist þá 53 brl. Árið 1950 var báturinn skráður Björn KE 95. Ný vél (1950) 190 ha. Mirrlees díesel vél. Ný vél (1958) 300 ha. Cummins vél. Seldur 25 júní 1961, Svavari Sigfinnssyni í Ytri Njarðvík. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 23 nóvember árið 1963.


Björn EA 396 með fullfermi síldar við bryggju á Siglufirði.                             Ljósmyndari óþekktur.


Björn EA 396 á Pollinum á Akureyri.                                                                   (C) Jón & Vigfús.

28.11.2016 09:41

B. v. Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD.

Ingólfur Arnarson RE 201 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 18 maí árið 1946 og kom til landsins 17 febrúar árið 1947, sá fyrsti af 32 Nýsköpunartogurum sem ríkisstjórn Ólafs Thors samdi um smíði á í Bretlandi árið 1945. Ingólfur var jafnframt fyrsta fiskiskip í heiminum sem fékk ratsjá að talið er. Skipið var endurmælt 5 nóvember 1971, mældist þá 610 brl. 26 júní 1972 var óskað eftir nafnbreytingu á skipinu, hét þá Hjörleifur RE 211. Togarinn var seldur í brotajárn til Spánar og tekinn af skrá 3 desember árið 1974.

121. Ingólfur Arnarson RE 201.    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.

Það var bjart yfir Reykjavík í gær þegar Ingólfur Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn sigldi fánum skreyttur inn á höfnina. Forsjónin hafði sjeð fyrir því, að Reykjavík gat tjaldað sínu fegursta skrúði, þegar hún fagnaði komu hins glæsilega skips, sem ber nafn landnámsmanns hennar. Það var tilkynnt í hádegisútvarpinu í gær, að Ingólfur Arnarson myndi koma á ytri höfnina kl 12.30. En klukkan 14,30  myndi skipið sigla inn í höfnina og leggjast við hafnargarðinn, þar sem fram átti að fara opinber athöfn í sambandi við komu skjpsins. Á laugardagskvöld var ekki búist við skipinu hingað fyrr en í fyrsta lagi á mánudagskvöld, eða jafnvel ekki fyrr en á þriðjudag. En ferðin heim hafði gengið miklu betur en ráðgert hafði verið, enda var gagnhraði skipsins rúmar 12 sjómílur á klst. að meðaltali á heimleiðinni.
Strax eftir kl. 1 fóru bæjarbúar að streyma niður að höfn, því allir vildu sjá togarann, sem svo mikið orð hafði farið af. Var Ingólfsgarður og bryggjan við hann brátt þjettskipað fólki. Laust fyrir kl. 12,30, sjest til Ingólfs Arnarsonar, þar sem hann siglir fánum skreyttur inn á milli eyjanna. Var það fögur sjón. Ingólfur Arnarson flautar, heilsar Reykjavík. Þegar hann var kominn innarlega á Engeyjarsund kemur flugvjel sveimandi og flýgur nokkra hringi yfir skipið. Það var fyrsta árnaðaróskin frá Reykjavík. Ingólfur Arnarson legst nú á ytri höfnina og lóðsbátur og tollbátur fara út. Aðeins 50-60 faðma frá Ingólfi Arnarsyni, þar sem hann staðnæmdist á ytri höfninni, var skip á síldveiðum, nýbúið að kasta nótinni og voru skipverjar að draga nótina inn. Byrjuðu þeir að háfa inn gott kast í sama mund og Ingólfur stöðvaðist. Var þetta skemtileg aðkoma.


Fyrsti landnemi nýsköpunar á ytri höfninni.                                      Ljósmyndari óþekktur.

Kl. stundvíslega 14,30, siglir Ingólfur Arnarson inn í höfn og legst við hafnargarðinn fyrir framan hafnarhúsið. Þar var mikill mannfjöldi saman kominn á uppfyllingunni, á nærliggjandi skipum, á húsþökum og yfir höfuð hvar sem hægt var að fóta sig. Kl. 4 hófst móttökuathöfnin um borð í skipinu og var henni útvarpað. Fyrst ljek lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Albert Klahn minni Ingólfs: Lýsti sól, stjörnustól. Þessu næst flutti Jóhann Þ. Jósepsson sjávarútvegsmálaráðherra ræðu. Hann hóf mál sitt á þessa leið: "Þessi fagri febrúardagur markar tímamót í sögu íslenskrar stórútgerðar, og er merkisdagur í sögu þessarar þjóðar. í dag fagnar höfuðstaður landsins, fagnar þjóðin öll, komu þessa skips, sem er hið fyrsta af 32 samskonar botnvörpuskipum, sem fyrverandi ríkisstjórn ákvað í ágústmánuði 1945 að láta smíða fyrir íslendinga í breskum skipasmíðastöðvum. Vjer bjóðum hjer með skip og skipshöfn hjartanlega velkomna heim"Því næst rakti ráðherrann í stórum dráttum aðdraganda togarakaupanna, sem var stærsti þátturinn í nýsköpun atvinnulífsins, sem fyrverandi ríkisstjórn beitti sjer fyrir. Þetta væri fyrsti togarinn af 32, sem íslendingar sömdu um smíði á í Bretlandi. Síðan sagði ráðherrann: "íslendingar. Öld fram eftir öld bjuggu landsmenn við skarðann hlut hvað skipakost snerti en sóttu samt fast sjóinn og færðu björg í bú. Skráðar eru sögur og þjóð- inni kunnar um dáðrakka drengi og hugumprúða, sem buðu höfuðskepnunum byrginn á opnu skipunum sínum á þeim tímum sem skáldið hafði í huga er kvað: Fljúga stórir út frá Eyjum áragammar á vastir framla innan frá landi með öllum söndum út er róið á þrútinn sjóinn. Þótt mörg sje sagan kunn um baráttu og fórnfúst starf feðra vorra og þeirra feðra á þessu sviði eru þær þó fleiri, sem hann einn veit sem alt sjer og yfir öllu vakir. í dag minnumst vjer þeirra sem í því aldalanga stríði stóðu með þakklátum huga. Og þá ber oss líka að minnast þeirra stórhuga athafnamanna, sem á liðnum áratugum hafa staðið í fylkingarbrjósti í sjávarútvegsmálum vorum, þeirra, sem hófu þilskipaútgerð og þeirra, sem síðan rjeðust í það stórræði að kaupa gufutogara til landsins, ennfremur þeirra, sem bygt hafa upp vjelbátaútgerð landsins á hverjum stað.


Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við nýju uppfyllinguna við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Mikill fjöldi fólks var samankominn á hafnarsvæðinu að fagna komu skipsins.              (C) Friðrik Clausen.

Við hvert framfaraspor í þessum efnum hefur stórhugur og bjarsýni athafnamanna landsins verið að verki. En einkum og alveg sjerstaklega verða oss í dag hugstæð afrek og fórnir sjómanna vorra, sem á undanförnum stríðs og hættutímum öfluðu þjóðinni flestra þeirra gæða, sem hún nú nýtur, og þeirra verðmæta, sem hafa gert það fjárhagslega kleift að koma fótum undir nýsköpun atvinnuvega þjóðarinnar. Þegar vjer nú lítum þetta hið mikla og fríða skip, sem að bestu manna yfirsýn er talið standa í fremstu röð botnvörpu skipa, eins og þau gerast best meðal annara þjóða og jafnvel framar, er ánægjulegt til þess að hugsa, að á þessu og næsta ári á þjóðin von á því að eignast yfir 30 jafn mikil og góð skip, sem munu dreifast á helstu útgerðarstaðina hjer við land. Þessu skipi hafa forráðamenn höfuðstaðarins valið nafn landnámsmannsins gifturíka, sem trúði á handleiðslu æðri máttarvalda og reisti hjer byggðir og bú samkvæmt þeirri trú sinni. Megi gifta landnámsmannsins fylgja þessu fríða skipi og hugarfar hans marka þau spor sem vjer stígum til framfara og viðreisnar í þjóðlífi voru. í lok ræðu sinnar afhenti ráðherrann borgarstjóranum í Reykjavík skipið til eignar og umráða til handa Reykjavíkurbæ. "Megi því jafnan vel farnast og verða landi og þjóð til bjargræðis og blessunar", sagði ráðherrann. Lúðrasveitin ljek "Íslands Hrafnistumenn".
Gunnar Thoroddsen borgarstjóri tók næst til máls og birtist ræða hans hjer í heild:
 Reykvíkingar og aðrir áheyrendur! í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Höfuðborg landsins á þetta skip og mun gera það út. Reykjavík, heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík, sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu af brúarvæng Ingólfs sem var jafnframt útvarpað til landsmanna.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur. 

Fiskveiðar hafa lengst af verið undirstaða Reykjavíkur og aðalatvinnugrein. En tækin hafa tekið miklum breytingum. Hinir opnu árabátar voru lengi lífsbjörg Reykjavíkur. Síðar komu þilskip og loks togarar. Eftir súðbyrðingsför kom hinn seglprúði knörr, eftir seglskipið vjelknúin skeið, yrkir Örn Arnarson. Þessar gjörbyltingar í útveginum hafa orðið á skömmum tíma. Og nú þegar ný atvinnubylting er hafin með komu nýtísku togarans Ingólfs Arnarsonar, hljótum vjer að minnast með virðingu og þökk brautryðjendanna, hinna framtakssömu forystu- og athafnamanna, er skynjuðu andardrátt hinnar nýju tækni og færðu þannig þjóðinni aukinn afla og afköst. Nú er nýr þáttur að hefjast í sögu íslenskrar útgerðar. Togaraflotinn er að endurnýjast. Til viðbótar og í stað gamalla skipa koma nú þrír tugir nýrra og fullkominna botnvörpuskipa. Þau verða hraðskreiðari og fengsælli en hin eldri, og hollari vistarverur fyrir sjómennina. Þau eru atvinnuleg og fjelagsleg framför. En það hefst einnig nýr þáttur í sögu Reykjavíkur á marga lund. Þetta er til dæmis í fyrsta sinn, sem bæjarfjelagið sjálft ræðst í rekstur útgerðar. Reynslan mun sýna, hvort sú tilhögun hentar betur eða verr. Skoðanir eru skiptar um ágæti opinbers atvinnureksturs. En það segi jeg óhikað, að meginsjónarmið vort hlýtur að vera það, að fá atvinnutækin og halda þeim úti. Óskir allra flokka munu sameinast í því að árna hinni nýju bæjarútgerð Reykjavíkur heilla og velgengni. Forgöngumönnum þessa máls, fyrrverandi ríkisstjórn og nýbyggingarráði, og ekki síst sjávarútvegsnefnd og útgerðarráði Reykjavíkur, vil jeg flytja alúðar þakkir Reykjavíkurborgar. En það eitt er ekki nóg að eignast listaskip, sem líklegt er til mikilla afreka. Þótt tæknin muni komin á það stig að geta siglt mannlausum skipum eftir áætlun, verða fiskveiðar ekki ennþá a. m. k. stundaðar án mannafla. Þjóð vor er svo lánsöm að eiga stóra stjett karl menna, sem sækja sjóinn fast og hræðast hvergi holskeflur Ægis eða dutlunga Ránardætra. Sjómenn íslands hafa sannað öllum heimi kjark sinn og karlmannslund á árum styrjaldarinnar. Þeir munu ekki reynast deigari á tímum heimsfriðar í glímu sinni við hafið. Þeir eiga kröfu til þess, að þjóðin búi þeim í hendur örugg skip með góðum aðbúnaði fyrir þá sjálfa. Skipið er tæki, fiskimaðurinn stjórnandi þess.


Ingólfur Arnarson RE 201 nýsmíðaður.                                                              Ljósmyndari óþekktur. 

Örn Arnarson segir í hinu snjalla sjómannakvæði sínu: Hvert eitt fljótandi skip ber þó farmannsins svip, hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál. Sjómannastjettin mun færa björgin í grunn undir framtíðarhöll. Fyrir eitt þúsund sjötíu og þrem árum nam Ingólfur Arnarson land hjer í Reykjavík vegna þess að öndvegissúlur hans rak hjer að landi. Þetta glæsta skip er heitið eftir landnemanum fyrsta. Það er öndvegisskip íslenska fiskiflotans. Vjer berum nú fram til forsjónar vors fagra lands þá ósk, að gifta fylgi nafni, og að farsæld Ingólfs landnámsmanns svífi jafnan yfir vötnunum þar sem þetta skip leggur leið sína um. Fyrir hönd bæjarstjórnar og Reykjavíkurborgar býð jeg togarann Ingólf Arnarson velkominn og skipshöfn hans alla og veiti honum viðtöku fyrir bæjarins hönd. Lúðrasveitin ljek: Þar fornar súlur flutu á land. Gísli Jónsson alþm, sem hefur haft eftirlit með smíði skipsins talaði næst. Hann lýsti skipinu og er ræða hans birt á öðrum stað í blaðinu. Lúðrasveitin ljek: Það laugast svölum úthafsöldum.
Þegar móttökuathöfninni var lokið voru landfestar skipsins leystar og siglt út fyrir eyjar. Var margt boðsgesta innanborðs. Skoðuðu menn skipið eftir því sem kostur var á, en veitingar (brauð og öl) voru framreiddar í hinum rúmgóðu vistarverum skipsins.
Af þeim 32 togurum sem samið var um smíði á í Englandi, var 15 úthlutað til Reykjavíkurbæjar og útgerðarfyrirtækja í bænum. Af þessum 15 togurum keyptu einstaklingar 5 í upphafi, en Reykjavíkurbær 10, en bærinn seldi aftur 5 til útgerðarfyrirtækja í bænum. Bærinn sjálfur,á því enn 5 togara, þrjá eimknúna og tvo dieseltogara.


Hjörleifur RE 211.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 

Sjerstakt útgerðarráð hefir yfirstjórn á rekstri bojartogaranna. Það skipa þessir menn: 
Kjartan Thors, formaður, Sveinn Benediktsson, Ingvar Vilhjálmsson, Jón Axel Pjetursson og Ingólfur Jónsson. Útgerðarráð hefir kjörið þá Svein Benediktsson og Jón A. Pjetursson til þess að annast framkvæmdarstjórn bæjartogaronna fyrst um sinn. Skrifstofa Útgerðarráðsins er í Hafnarhúsinu. Ráðgert er að Ingólfur Arnarson fari á veiðar eftir 10 daga. Bræðslutæki verða sett í skipið hjer og það búið til veiða að öðru leyti.
Þrettán manna áhöfn var á skipinu heim. Skipsstjórinn er, sem kunnugt er, Hannes Pálsson. Aðrir skipsverjar voru: 1. vjelstjóri: Þorkell Sigurðsson. 1. stýrimaður: Loftur Júlíusson. 2. vjelstjóri Baldur Snæland. 2. stýrimaður: Gunnar Auðunsson. Bátsmaður: Ólafur Sigurðsson. Matsveinn: Guðm. Maríasson. Loftskeytamaður: Ingólfur Friðbjarnarson. Hásetar: Jónatan Kristleifsson, Kári Gíslason og Leó Kristleifsson. Kyndarar: Ármann Brynjólsson og Einar M. Karlsson.
Ingólfur Arnarson tók um 140 smálestir af vörum í Hull til flutnings heim. Útvegaði Eimskipafjelag Íslands skipinu flutninginn og sjer um afgreiðslu hans hjer. Sem tákn góðvildar til þessa fyrsta hinna nýju togara, lætur Eimskipafjelagið aðstoð sína í tje án nokkrar þóknunar.
Í dag á almenningur þess kost að skoða skipið. Verður það til sýnis frá kl. 9-12 árd. og 1-7 síðd.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.


Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               Lýsing á Ingólfi Arnarsyni

       Ræða Gísla Jónssonar alþm. við móttökuathöfnina

Togarinn  Ingólfur Arnarson, er stærsti og glæsilegasti togarinn, sem Íslendingar hafa enn eignast. Hann er fyrsta skipið af þrjátíu, sem samið var um smíði á í Bretlandi, í október 1945, fyrir milligöngu Nýbyggingarráðs og íslensku ríkisstjórnarinnar. Skipið ef smíðað hjá skipasmíðastöð Mrss Cochrane & Sons, Ltd. Í Selby. Er það fyrsta skipið af átta, sem samið var um í þeirri smíðastöð. Það er smíðað samkvæmt ströngustu reglum flokkunarfjelagsins Lloyds í Bretlandi (+ 100 A L) og þó nokkuð styrkara, þar sem það þótti nauðsynlegt, vegna íslenskrar vetrarverðráttu. Lengd þess er 175 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 642 br rúmlestir og 216 nettó rúmlestir. Burðarmagn þess er 500 smálestir með 81 cm borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður í sundur með 7 vatnsþjettum skiljum, en alls eru í skipinu 20 vatnsheld hólf. Botn þess er tvöfaldur frá vjelarúmi og fram úr, og skiptist í geyma fyrir olíur, vatn og lýsi, þannig, að vatnsgeymar eru fyrir 60 smál. olíugeymar fyrir 245 smál. og lýsisgeymar fyrir 20 smál. Slík skipting bolsins í vatnsheld hólf, skapar margfalt öryggi fyrir skipið, ef það mætir áföllum af völdum veðurs, árekstra eða strands. Framrúmi er skipt í tvö fiski rúm, en þeim aftur skipt í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smál. af ísfiski. Stærð þeirra er alls 45 þús. teningsfet. Eru þau öll þiljuð vatnsþjettri viðarsúð. Fyrir framan fiskirúmin er stór veiðafærageymsla, með hillum og skápum. Aðgangur er í hana frá þilfari.
íbúðir skipverja eru sem hjer segir: í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn, og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum. Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sjerstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvíluraðir eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum, og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist. Út frá setustofunni og innan gengt úr henni, er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni. Í skut skipsins eru einnig íbúðir á tveimur hæðum.
 Á neðri hæðinni er sameiginlegt anddyri fyrir íbúðirnar á þessari hæð, með stiga á milli hæðanna. Fyrir aftan það er salur með 6 hvílum, borðum og legubekkjum. "Fyrir framan anddyrið er herbergi tveggja kyndara, með hvílum og bekkjum. Sitt til hvorrar hliðar eru tvö herbergi, annars vegar fyrir yfir og undirvjelstjóra, hins vegar fyrir yfir og undirstýrimann. Öll herbergi á þessari hæð eru útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar af gljáðum harð- viði. Á efri hæð er matsalur með borðum og bekkjum, nægilega stór fyrir alla skipshöfnina, með búri, skápum og matvælageymslum. Þar er og baðherbergi, hreinlætisklefi, tvö vatnssalerni og þurkklefi fyrir yfirhafnir. Er þessu komið fyrir til hliðar við borðsalinn og innangengt úr honum í alla þessa klefa.
Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús, með borðum, hillum og skápum og olíukynntri eldavjel. Samgangur er á milli borðstofu og eldhúss, Þar er og kæliklefi fyrir vistir, svo skipverjar geti jafnan haft nýmeti á borðum. Inngangur á þessa hæð er frá báðum hliðum og frá bátaþilfari, en samgangur til vjelarúms. Fremst í reisn er herbergi skipstjóra, með hvílu, legubekkjum, borði, stólum og fatask. allt af gljáðum harðviði. Þar fyrir aftan er baðherbergi, hreinlætisklefi og vatnssalerni. Samgangur er milli herbergis skipstjóra og stýrishúss, sem komið er fyrir á næstu hæð ásamt loftskeytaklefa og kortahúsi. Íbúðir allar eru hitaðar upp með olíukynntum miðstöðvarvjelum. Er dælt um þær allar tæru lofti eftir vild. Er það hvorttveggja nýjung frá því  sem áður hefur verið. Alls eru í skipinu íbúðir og hvílur fyrir 38 menn. Á bátapalli að aftan er komið fyrir við "patent" uglur tveim bjargbátum, útbúnum að öllu leyti  eftir ströngustu reglura um öryggi. Í reisn skipsins, yfir vjelarúmi, er komið fyrir lifrarbræðsluklefa. Verður þar komið fyrir bræðslutækjum af nýrri gerð, sem smíðuð eru hjerlendis að fyrirsögn Ásgeirs Þorsteinssonar, verkfræðings.
Skipið er útbúið með 1300 hestafla eimknúinni aðalvjel, er knýr það rúmar 13 mílur á klst. Er hún af hinni venjulegu þríþenslu tegund, gerð fyrir að nota yfirhitaðan eim, en þó endurbætt á margvíslegan hátt frá því sem áður hefur þekkst í togurum. M.a. er loftdæla vjelarinnar ekki sambyggð með henni, eins og venja er til, heldur er hún sjerstæð og rafknúin. Á þann hátt er ávalt hægt að halda uppi fullu sogafli, bæði fyrir aðalvjel og togvindu, hvort sem aðalvjelin er í hægum eða fullum gangi eða alveg stöðvuð. Er þetta mjög mikill eldsneytissparnaður og Ijettir mikið gang bæði aðalvjelar og togvindu, og fer miklu betur með þær vjelar báðar, í meðferð. Er hjer að ræða um algjörlega nýjung í togurum. Eimketill skipsins er smíðaður fyrir 225 lbs. þrýsting. Hitaflötur hans er 2800 ferfeta. Hann er kyntur með olíu í stað kola, og sparast því alt það erfiði og óþrifnaður, sem áður fylgdi kyndingu, kolamokstri, eldhreinsun og öskuburði. Mun margur gleðjast yfir þeim umbótum.
Aðalvjel og ketill er smíðað hjá Mrss Amos & Smith. Ltd., Hull. Settu þeir einnig niður allar vjelar í skipið. Ketillinn er útbúinn með yfirhitunarkerfi, frá Superheater Co., og loftþrýstivjelum frá Howdensverksmiðjum, sem dæla upphituðu lofti inn í eldkolin. Olíukyndingarvjelarnar eru smíðaðar hjá Walsend Shipway & Engineering Co., sem smíðuðu allar vjelarnar í herskipið Hood. Eru þær allar rafknúnar. Loftdælan og eimvatnsdælurnar eru rafknúðar sjerdælur, smíðaðar af Weirs-verksmíðjunum, en kælidælur, þilfarsdælur, austurdælur og aðrar sjerdælur, af Qroysdale-verksmiðjunum, og eru þær einnig allar rafknúðar. Er dælukerfið þannig útbúið, að þótt bæði kælidæla, aðalvjelar og loftdæla bili, má nota aðalvjel með 80% afli, sem er afarmikið öryggi fyrir skipið og algert nýmæli. Ný tegund vökvastýrisvjela, smíðuð hjá Donkin & Co. er tengd beint við stýrið, en virkt frá stýrishúsi. Öllum stýristaumum er því sleppt, og er það bæði til öryggis og þæginda. Ganga vökvadælurnar fyrir raf orku. Er þetta einnig nýmæli. Akkersvinda, tvöföld, smiðuð af Clark Chopman, og alveg sjerstaklega gerð fyrir íslenska togara, er rafknúin. Getur hún lyft báðum akkerum í einu á 15 faðma dýpi. Togvinda skipsins er eimdrifin. Er það eina aukavjelin, sem drifin er þannig'. Hún er 300 hestöfl að stærð, gerð fyrir 1200 faðma á hvert kefli. Er hún smíðuð af C. D. Holmes & Co., Hull, og margvíslega endurbætt frá fyrri tegundum. Þá eru í skipinu 2 dieselvjelar, hvor 120 hesta, með átengdum 80 kw rafal, sem framleiða raforku fyrir allar aukavjelar og til Ijósa.
Eru vjelar þessar smíðaðar hjá Ruston Hornsby & Co. En auk þess er ein 5. kw samstæða frá sömu verksmiðju, sem nota má til ljósa í höfnum. Skipið er útbúið með talstöð, loftskeytastöð og miðunarstöð frá M. P. Pedersen, Kbh., tveimur dýptarmælum Fathometer & Huges, sem bæði sjálfrita og senda neista, eftir vild, einnig með rafmagnshraðamæli, rafmagnsvjelsíma, " sjerstakri gerð áttavita, Radartækjum og öðrum nýtísku áhöldum. Þegar hinn valinkunni skipstjóri, Jóhann Pjetursson, var að lýsa fyrir blaðamönnum hinu glæsilega skipi sínu "Gylfa", fyrir nokkrum dögum, fjellu honum af munni þessi orð: "Ingólfur Arnarson er listasmíð. Þar er saman"komið allt, sem íslenskir og breskir útgerðarmenn og sjómenn geta óskað sjer". Betur verður þessu skipi ekki lýst. Hið glæsilega skip er árangur af samstiltum vilja þeirra manna allra, sem metið hafa verk ykkar sjómannanna undan farin mörg og erfið ár, til þess að mæta óskum ykkar og vonum um betra og öruggara far. Velkominn býð jeg Ingólf Arnarson að landi. Enn mun hjer með honum hefjast nýtt landnám, nýir möguleikar, nýir og betri tímar fyrir land og lýð, Þjer allir, sem mál mitt megið heyra, gefið honum blessun ykkar. Felið hann Guði og góðum vindum í bænum ykkar fyrr og síðar.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947. 

27.11.2016 10:42

1738. Hafnarey SF 36. TFSI.

Hafnarey SF 36 var smíðuð hjá Marstal Staalsskibs Værft A/S í Marstal í Danmörku árið 1983. 101 brl. 811 ha. Grenaa díesel vél, 596 Kw. Skipið var innflutt árið 1986, hét áður Santos af Öckerö. Eigandi var Krossey h/f á Höfn í Hornafirði frá 4 júlí 1986. Skipið var endurbyggt og lengt á Spáni árið 1999, mældist þá 138 brl. Skipið var selt til Murmansk í Rússlandi 10 nóvember árið 2006.


Hafnarey SF 36.                                                                                           (C) Snorri Snorrason.


Hafnarey SF 36 eftir breytingarnar á Spáni árið 1999.                                      (C) sverriralla.blog.is

               Hafnarey SF gjörbreytt

Nýverið kom Hafnarey SF 36 til heimahafnar á Höfn í Hornafirði eftir verulegar breytingar sem fóru fram í skipasmíðastöðinni Astilleros Pasajes í San Sebastian á Spáni. Skipið var lengt og mikil endurnýjun fór fram á vindubúnaði og togkraftur var aukinn. Verkfræðistofan Fengur hannaði breytingarnar en umboðsaðili spænsku stöðvarinnar hér á landi er Atlas hf. Nýtt vindukerfi skipsins er frá Vélaverkstæði Sigurðar og ný fiskimóttaka með blóðgunarkari, þvottakörum og færiböndum er frá Klaka hf.
Hafnarey var lengd um 5,5 metra og kemur lengingin einkum fram í helmings aukningu lestarrýmis. Þá var byggt yfir skipið að aftan og þannig fékkst aukið rými á millidekki. Yfirbyggingin gerði líka að verkum að hægt var að stækka stakkageymslu og bæta við einum klefa. Ný fiskimóttaka var sett í skipið, sem og blóðgunarkör og þvottakör. Allt var vindukerfið endurnýjað og samanstendur nú af þremur 14 tonna togspilum með auto-búnaði, tveimur grandaraspilum, tveimur gilsaspilum, pokaspili, útdráttarspili og bakstroffuspilum. Sett var á skipið nýtt perustefni, brú var hækkuð og loks var skipið heitgalvanhúðað og málað með skipamálningu frá Málingu hf.
Kostnaður við breytingarnar á Hafnarey SF nemur um 80 milljónum króna og væntir Jón Hafdal Héðinsson, skipstjóri og annar eigenda, þess að útgerðarform skipsins verði með líkum hætti og áður, þ.e. að sótt verði á humarmiðin, í skrápflúru og skötusel, auk þorsks. "Auk lengingarinnar er veigamesta breytingin sú að fá yfirbyggingina að aftan og pokagálgann," segir Jón Hafdal í samtali við Ægi en eftir breytinguna getur Hafnarey tekið 60-70 tonn af fiski í körum í lest.
Skipið er nánast eins og nýtt. Við fórum að huga að því fyrir tveimur árum að gera breytingar. Við völdum þennan kostinn frekar en kaupa annað skip, enda þarf þá oftast að gera einhverjar breytingar. Með því að fara þá leið sem við fórum þá fæst skip eins og við viljum hafa það," segir Jón Hafdal Vegna veiðireynslu Hafnareyjar fékk skipið ágætan kvóta í skrápflúru, nú þegar kvóti var settur á þá tegund. Jón Hafdal segir öllu meiri óvissu hafa verið skapaða varðandi skötuselsveiðar skipsins því á meðan á breytingunum stóð var gerð breyting á reglugerð þannig að óheimilt verður að veiða á fótreipistrolli nema með skilju og það segir Jón nánast útiloka skötuselsveiðar skipsins. "Við höfum fengið um 120 tonn af skötusel á ári og töluvert af meðafla en hann fæst ekki með þegar skiljan er notuð. Þessi reglugerðarbreyting setur því strik í reikninginn hjá okkur varðandi útgerð skipsins," segir Jón. Meðeigandi Jóns Hafdal í Hafnareynni er Gísli Páll Björnsson, sem jafnframt er yfirvélstjóri.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1999.

           Hafnarey seld til Rússlands

Viðskiptahúsið hefur undirritað sölusamning á Hafnarey SF 36 til Rússlands. Skipið verður gert út frá Murmansk.Hafnarey SF 36 er í eigu Krosseyjar ehf. en það fyrirtæki var fyrr á þessu ári selt til Ingimundar hf. Í Reykjavík og hafði Viðskiptahúsið einnig milligöngu um þau viðskipti.Togarinn Hafnarey SF liggur nú í Reykjavíkurhöfn og er fyrirhugað að hann leggi af stað í dag, fimmtudag, áleiðis til Noregs og þaðan til Rússlands. Togarinn mun stunda togveiðar í Barentshafinu.
Eftirspurn er eftir góðum togbátum til Murmansk og ein ástæða þess að Rússarnir leita hingað er sú að hér eru yfirleitt bátar og skip í góðu ástandi og uppfylla flest þau skilyrði sem farið er fram á af hálfu kaupenda. Við erum að vinna núna í samningum um 2 önnur skip til Rússlands sem vonandi klárast innan skamms tíma en það tekur oft langan tíma og mikla vinnu að ljúka samningum við rússneska kaupendur," segir Þórir Matthíasson, framkvæmdastjóri Viðskiptahússins.

Mbl.is 28 september 2006.


26.11.2016 11:08

M. b. Marz NK 74.

Marz NK 74 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1922. Eik og fura. 15 brl. 25 ha. Bolinder vél. Hét fyrst Bjarni Ólafsson GK 509 og eigendur hans voru, Elías Þorsteinsson, Bjarni Ólafsson og fl. í Keflavík frá 12 september árið 1924. Seldur í janúar 1926, Björgvin Jónssyni, Markúsi Sæmundssyni og Eiríki Jónssyni í Vestmannaeyjum, báturinn hét Marz VE 149. Umbyggður í Vestmannaeyjum árið 1929. Ný vél (1937) 72 ha. Tuxham vél. Seldur 1940, Gunnari Ólafssyni & Co. h/f í Vestmannaeyjum. Seldur 10 júní 1941, Ármanni Magnússyni í Neskaupstað, báturinn hét Marz NK 74. Ný vél (1944) 108 ha. Buda vél. Seldur 6 janúar 1949, Símoni Pálssyni í Hrísey, hét Marz EA 74. Seldur 25 júní 1952, Ugga h/f í Ytri Njarðvík, hét Marz GK 374. Seldur 25 maí 1954, Markúsi B Þorgeirssyni í Hafnarfirði, báturinn hét Þorgeir Sigurðsson GK 374. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 apríl árið 1959.


Marz NK 74 á Norðfirði.                                                                               (C) Björn Björnsson.

25.11.2016 09:40

1195. Álftafell ÁR 100. TFIU.

Álftafell ÁR 100 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1971 fyrir Gunnlaug Kárason á Litla Árskógssandi, Gunnlaug Jón Gunnlaugsson á Dalvík og Björgvin Gunnlaugsson á Árskógsströnd. Hét fyrst Otur EA 162. Eik og fura. 23 brl. 240 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 30 júlí 1981, Stefáni Rögnvaldssyni h/f á Dalvík, hét Stefán Rögnvaldsson EA 345. Ný vél (1981) 275 ha. Caterpillar díesel vél, 202 Kw. Seldur 14 júlí 1987, Flóa h/f á Patreksfirði, hét Egill BA 268. 31 desember 1987 var skráningarnúmeri bátsins breytt í BA 468. Seldur 20 apríl 1995, Ými h/f á Bíldudal, hét Hallgrímur Ottósson BA 39. Árið 2001 hét báturinn Álftafell SU 100, virðist vera sami eigandi og skráður í Kópavogi. Seldur Kross ehf á Stöðvarfirði, hét Álftafell HF 102. Seldur sama ár, Sælingi ehf í Þorlákshöfn, hét Álftafell ÁR 100. Seldur árið 2011, Norður Atlantshafs Fiskveiðafélaginu í Reykjanesbæ, hét Álflafell KE 90. Báturinn sökk í höfninni í Njarðvík árið 2011 en náðist á land stuttu síðar. Tekinn úr rekstri 9 október árið 2014. Var í slipp í Njarðvík vorið 2015 en hefur trúlega verið rifinn þar stuttu síðar.

Álftafell ÁR 100 í Njarðvíkurslipp.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013. 


Álftafell ÁR 100.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013.


Álftafell ÁR 100.                                                                         (C) Trawler photos. 5 mars 2015.


Álftafell ÁR 100.                                                                         (C) Trawler photos. 5 mars 2015.


Egill BA 468.                                                                                               (C) Halldór Árnason.

24.11.2016 11:38

428. Víðir ll GK 275. TFXE.

Víðir ll GK 275 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1954 fyrir Guðmund Jónsson útgerðarmann á Rafnkelsstöðum í Garði. Eik. 56 brl. 180 ha. Lister díesel vél. Ný vél (1957) 300 ha. Lister díesel vél. Frá 12 október árið 1960 hét báturinn Freyja GK 110, sami eigandi. Ný vél (1969) 330 ha. Lister díesel vél. Seldur 31 desember 1973, Finnboga Bjarnasyni á Hellissandi, hét Njörður SH 168. Frá 4 janúar 1980 heitir báturinn Njörður GK 168 og gerður út frá Garði í Gullbringusýslu. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 4 desember árið 1980. Víðir ll var mikið afla og happaskip og var lengi aflahæsta síldveiðiskip flotans undir stjórn Eggerts Gíslasonar skipstjóra frá Kothúsum í Garði.


428. Víðir ll GK 275 á leið til Siglufjarðar með fullfermi.                         (C) Snorri Snorrason.


Víðir ll GK 275 nýsmíðaður árið 1956.                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Víðir ll við bryggju í Hafnarfirði, nýkominn að norðan eftir síldarvertíðina 1957. Síldarkóngurinn það ár, Eggert Gíslason stendur á bryggjunni til vinstri. Maðurinn til hægri gæti verið Guðmundur Jónsson útgerðarmaður og eigandi bátsins. Skipverjar vinna við að taka hringnótina í land.
                                                                                                  (C) Gunnar R Ólafsson.


428. Víðir ll GK 275. Líkan Gríms Karlssonar.                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


                  Víðir II GK 275

Hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði var hleypt af stokkum nýjum báti 18. júlí síðastl. Bátur þessi, sem er 56 rúml. að stærð, heitir Víðir II. og hefur einkennisstafina GK 275. Eigandi hans er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður að Rafnkelsstöðum í Garði. Víðir II. er smíðaður úr eik, en yfirbygging hans er úr stáli. Vélin er 180 ha. Lister dieselvél. Í bátnum er vökva þilfars og línuvinda og dýptarmælir með asdic útfærslu. Reynsluför fór báturinn 23. júlí, og reyndist ganghraði hans þá 9 mílur. Teikningu af Víði II. gerði Egill Þorfinnsson, Keflavík. Yfirsmiður var Sigurjón Einarsson skipasmiðameistari í Hafnarfirði. Vélsmiðja Hafnarfjarðar annaðist niðursetningu á vél og alla járnsmíði. Rafvirkjameistararnir Jón Guðmundsson og Þorvaldur Sigurðsson lögðu raflögn, en málun annaðist Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari. Sören Valentinusson gerði reiða og segl. Friðrik A. Jónsson útvarpsvirkjameistari setti niður dýptarmæli. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði dekk og línuvindu. Á smíði skipsins var byrjað 5. október 1953. Jafnskjótt og báturinn var ferðbúinn fór hann norður til síldveiða. Skipstjóri á Víði II  er Eggert Gíslason í Garði. Þetta er sjöundi báturinn, sem smíðaður er í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar.

Ægir. 9 tölublað 1954.

23.11.2016 10:10

B. v. Gylfi BA 16. TFKJ.

Gylfi BA 16 var smíðaður hjá Goole S.B.& Repg. Co. Ltd í Goole á Englandi árið 1952 fyrir Vörð h/f á Patreksfirði. 696 brl. 1.332 ha. Ruston díesel vél. 6 maí árið 1952, í fyrstu eða annari veiðiferð skipsins, kom upp mikill eldur í skipinu og var það hætt komið. Togarinn Fylkir RE 161 tók Gylfa í tog, fyrst inn á Dritvík á Snæfellsnesi og síðan til Reykjavíkur og til stóð að sökkva togaranum inn á Eiðsvíkinni til að slökkva eldinn, en til þess kom þó ekki. Í apríl 1969 var Ríkisábyrgðasjóður eigandi skipsins, hét þá Haukanes GK 3. Selt 22 apríl 1969, Haraldi Jónssyni og Jóni Hafdal í Hafnarfirði. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur 23 ágúst árið 1973.


74. Gylfi BA 16.                                                                                         Sigurgeir B Halldórsson.


Haukanes GK 3.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Haukanes GK 3 slitnaði upp í ofsaveðri í mars 1973 og rak upp í fjöru við Hafnargötuna í Hafnarfirði. Þegar þarna var komið var stutt í endalokin.                                            (C) Sæmundur Þórðarson.


Gylfi BA eftir brunann.                                                                             (C) Morgunblaðið.

        Gylfa var bjargað stórskemmdum                                    til hafnar í gær

Togarinn Fylkir, sem fór Patreksfjarðartogaranum Gylfa til hjálpar í fyrrakvöld, er eldur kom upp í honum, kom hingað á ytri höfnina í Reykjavík Iaust eftir hádegi í gær. Þá logaði enn í Gylfa og nokkuð rauk úr honum. Við minni Kollafjarðar kom dráttarbáturinn Magni til móts við skipin, og voru 10 brunaverðir um borð í honum með nauðsynlegan stökkviútbúnað. Slökkvistarfið gekk greiðlega, og kl. 6 í gærkvöldi var Gylfa Iagt að hlið síldarbræðsluskipsins Hærings. Var björgun togarans þar með að fullu lokið, en hann hefur orðið fyrir gífurlegum skemmdum, sem kosta mun milljónir króna að bæta. Yfirbygging skipsins er því nær öll ónýt, og í vélarrúmi hafa orðið miklar skemmdir, og víðar. Skrokkur skipsins hefur þó ekki orðið fyrir neinum sjáanlegum skemmdum af völdum eldsins. Við Iauslega athugun má ætla það 6 mánaða verk að bæta tjónið.
Eldsupptök munu hafa orðið út frá röri, sem einhverra orsaka vegna ofhitnaði og kveikti í netageymslunni, en hún var öll tjörguð að innan. Það er ömurleg sjón að sjá hvernig þetta glæsilega skip hefur farið í brunanum. Það er talið mikið lán, að skipið skyldi ekki springa í loft upp, eða koma að því leki við að plötur myndu beyglast vegna hins ofsalega hita frá bálinu. Og þegar þess er gætt, að nokkrar sprengingar urðu í  olíugeymi í gærmorgun. Þá sást, frá Fylki hvar reykbólstrar þeyttust hátt í loft upp, og eldsúlur jafnháar siglutrjánum stóðu upp úr brúnni. Þá töldu þeir á Fylki litlar vonir á því, að takast myndi að bjarga skipinu til hafnar. Í kjölfar sprenginganna jókst eldurinn mjög í brúnni og yfirbyggingunni miðskips.  Brúin, sem er úr aluminium hefur molnað niður við hitann eða hann brætt hana líkt og smjör á heitri pönnu. Þegar björgunarskipið Sæbjörg kom á vettvang til að vera til taks, ef á þyrfti að halda, stóð brúin í björtu báli. Þegar komið var fram að hádegi fór eldurinn minnkandi, enda mun þá allt tréverk hafa verið brunnið. Þegar Magni lagðist upp að hlið Gylfa og brunaverðirnir fóru með slöngur yfir í skipið, rauk allmikið úr því miðskips og eldur logaði á þilfarinu meðfram yfirbyggingunni. Á þilfari var fiskur í stíum, og þangað hafði eldurinn ekki náð er slökkvistarfið hófst. Það hafði verið ákveðið að ef mikill eldur væri í skipinu, ætti að draga það inn á Eiðisvík og renna því þar upp í sandinn til að auðvelda slökkvistarfið. Eins var um það rætt að sökkva Gylfa þar á víkinni, ef með þyrfti. En slökkvíliðsmennirnir höfðu ekki verið lengi að verki með hinn ágæta útbúnað sinn, er sýnt var að ekki myndi þurfa að grípa til slíkra ráðstafana. Gekk þeim svo greiðlega, að eftir 3 klst. taldi Jón Sigurðsson, slökkviliðsstjóri, að óhætt væri að draga togarann inn á höfn. Það, sem einkum er áberandi þegar skemmdirnar á Gylfa eru skoðaðar, er brúin. Hún er að mestu brunnin og svo það, hve yfirbyggingin öll er dælduð vegna hins ofsalega hita. Allt aftur í matsal er eyðilagt í yfirbyggingu. En eldurinn hefir ekki komizt í káetuna. Svo virðist sem eldur hafi leikið um allt vélarrúmið og eyðilagt þar raflagnir og fjölmargar hjálparvélar, og mun einnig hafa valdið skemmdum á aðalvél, þó er ekki vitað hve alvarlegar þær eru. Sprunga er og í "keisnum". Aftan til stjórnborðsmegin hafa orðið skemmdir á þilfarinu. Hætt er við, að einhverjar fleiri skemmdir hafi orðið, sem ekki verða séðar nú.
En byrjað verður strax í dag að hreinsa skipið. Er tíðindamaður Mbl. ræddi við skipsmenn á Gylfa um borð í Fylki í gær, kom í ljós, að í frásögn blaðsins í gær var í öllum aðalatriðum rétt skýrt frá því, sem gerðist í Gylfa er eldurinn kom upp. En þar að í nokkrum hluta upplags blaðsins var ekki skýrt frá brunanum, þykir rétt að rekja atburðarásina að nokkru upp aftur, með þeim viðbótarupplýsingum, sem fengust með því að ræða við skipsmennina. Einn skipverjanna brenndist lítilsháttar, Hjörtur Kristjánsson yfirvélstjóri. Hann meiddist á gagnauga og eyra. Maðurinn, sem varð eldsins var er Haraldur Aðalsteinsson, sem stjórnar fiskimjölsvinnslunni í togaranum. Var klukkan þá 4,30-5 síðdegis og logaði þá í netageymslunni, en þaðan kom svo mikill reykur niður í vélarúmið að ólíft var þar, og urðu vélamennirnir að flýja upp. Nokkru eftir að Fylkir kom Gylfa til aðstoðar fóru 20 menn af Gylfa i björgunarbát yfir í Fylki, en þaðan var svo farið með daráttarvír á bátnum yfir í Gylfa, og klukkan 7 var lagt af stað áleiðis inn á Dritvík. Eftir því sem lengra leíð á kvöldið voru horfur á, að eldurinn í netageymslunni yrði kæfður, og nokkru fyrir miðnætti hafði vélamönnunum tekizt að komast niður í vélarrúmið og koma dælu af stað, sem dælt var úr inn í netageymsluna. Hinsvegar var sú hætta yfirvofandi, að stjórnborðs olíugeymir myndi springa, sem og kom á daginn. Um klukkan eitt í fyrrinótt varð þess vart, að olía var farin að renna úr geyminum inn í eldhafið. Þá ákvað skipstjórinn  að  skipið skyldi yfirgefið, því ella myndi mannslífum verða teflt í beinan voða. Þá voru auk hans 11  menn um borð í Gylfa, og fóru þeir á fleka yfir í Fylki. Skipverjar á Gylfa, 40 að tölu, rómuðu mjög vinsamlegar móttökur Fylkismanna. Um nónbil í gær fóru þeir af skipinu yfir í sitt eigið skip. Var sú endurkoma sorgleg. Fylkir hélt til Hafnarfjarðar, þar sem hann landaði aflanum. Gylfi, ásamt veiðarfærum og eigum skipverja, er vátryggður fyrir alls 11 milljónir króna. Óráðið var í gærkveldi hvort gert verði hér við skipið. Sjóréttur mun taka málið fyrir seinnihluta dags í dag eða á morgun. Skipstjóri á Gylfa var Ingvar Guðmundsson en á Fylki var Auðunn Auðunnsson skipstjóri.

Morgunblaðið. 8 maí 1952.

22.11.2016 11:48

1188. Sæbjörg BA 59.

Sæbjörg BA 59 var smíðuð í Bátalóni h/f í Hafnarfirði árið 1971. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine díesel vél. Báturinn hét fyrst Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 og var í eigu Útgerðarfélagsins Smára h/f í Þorlákshöfn frá 11 október 1971. Seldur 14 mars 1975, Straumnesi h/f á Selfossi, hét Árnes ÁR 75. Seldur 21 mars 1975, Halldóri Árnasyni og Þórði Steinari Árnasyni á Patreksfirði, hét Sæbjörg BA 59. Frá árinu 1988 er báturinn í eigu Látrarastar h/f á Patreksfirði (Halldór Árnason).Ný vél (1990-91) 155 ha. Ford díesel vél, 114 Kw. Báturinn var tekinn af skrá 27 mars 2008 og var skráður sem safngripur. Báturinn er núna niðri í Korngörðum og eftir því sem ég kemst næst er ráðgert að senda hann vestur á Reykhóla og gera hann upp þar. Ég tók þessar myndir af Sæbjörginni fyrir stuttu síðan og ekki veitti henni af smá yfirhalningu, enda einn af fáum Bátalónsbátum sem eftir eru og það væri mikill sómi sýndur að varðveita einn slíkan.


Sæbjörg BA 59 upp við húsvegg í Korngörðum.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa 20 nóvember 2016.


Sæbjörg BA 59.                                                                                              (C) Halldór Árnason.

               Sæbjörg BA gerð upp

Til stendur að gera upp bátinn Sæbjörgu BA 59. Hafnarstjórn Vesturbyggðar hefur fallist á að fella niður hafnargjöld fyrir Sæbjörgu í eitt ár svo fremi sem endurgerð bátsins hefjist á þessu ári. Var það gert að ósk Félags áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar. Sæbjörg BA var afskráð 2008 og er ætlunin að það verði gert að safngripi. Skipið var smíðað árið 1971. 
Þetta er stórmerkilegt skip sem smíðað var í Bátalóni í Hafnarfirði og fór skömmu seinna sem sýningarbátur á sjávarútvegssýningu sem þá var haldin. Var henni þá stillt fyrir utan Laugardalshöllina," segir Eggert Björnsson forvígismaður áhugamannafélagsins. Hann segir skipið vera afar vandaða útgáfu af skipi af þessu tagi. "Það var mikið til af þessum 12 tonna bátum en nú eru bara örfáir eftir. Sæbjörginni hefur alltaf verið haldið vel við þar til fyrir sex árum þegar hún var látin drabbast niður. Hún er samt í upprunalegu standi og ekkert búið að fikta við hana. 
Hann segir félagið stefna að því að byrja á því að mála skipið í haust. Við vonumst til að geta byrjað á því að gera hana fína að utan, en við sjáum hversu mikið við getum gert því alltaf er það jú spurning um peninga.

Vísir.is 21 ágúst 2012.

21.11.2016 09:34

Óttar Guðmundsson módelsmiður.

Ég fór og heimsótti Óttar Guðmundsson módelsmið með meiru á heimili hans í Grafarvoginum í gær. Tilefnið var að sjá og mynda hina nýju listasmíð, E.s Suðurland sem hann lauk við fyrir stuttu síðan. Það er vel þess virði að fylgjast með því góða og þarfa verki hans að færa okkur sögu liðins tíma á þennan líka snilldarháttinn sem módelsmíðin er. Það fer ekkert á milli mála að þarna er mikill fagmaður á ferð, veit upp á hár hvað hann er að gera og gerir það vel. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heimsæki Óttar, það var í mars s.l. að við mæltum okkur mót á heimili hans. Þá var hann með 7 módel heima, hvert öðru glæsilegra, sem ég myndaði öll í bak og fyrir og þær myndir mun ég birta hér á síðunni á næstu vikum. Óttar er fæddur á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit 28 febrúar 1947 og ólst þar upp. Lærði vélvirkjun hjá Þorgeiri & Ellert á Akranesi og vann við sína iðn þar. Vann við tankasmíði hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1966. Stundaði nám við Vélskóla Íslands frá 1969 til 1972 og vann í Hvalstöðinni í Hvalfirði á sumrin. Var vélstjóri á Dettifossi árið 1973 og svo síðar á flutningaskipunum Eldvík og Hvalvík sem Víkur h/f gerði út. Vann sem verktaki við hitaveitulögnina frá Nesjavöllum til Reykjavíkur og víðar. Óttar starfar nú sem viðgerðarmaður hjá heilsuræktinni Hreyfingu hér í Reykjavík, ásamt því að sinna áhugamáli sínu, módelsmíðinni í bílskúrnum. Myndirnar hér að neðan af Suðurlandinu tók ég í gær, þær tala sínu máli um handverkið enda sannkölluð listasmíð þarna á ferð.


Óttar Guðmundsson módelsmiður með nýjasta módel sitt, e.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


Hekkhúsið á Suðurlandinu. Þarna var inngangur niður í farþegarýmið ásamt því að vera skjól fyrir skipverja.


Miðskipið, björgunarbátarnir, reykháfurinn og opinn stjórnpallurinn.


Framskipið.


E.s. Suðurland. Sannkölluð listasmíð.


Stefni skipsins. Takið eftir lúgunni á síðunni undir stjórnpallinum. Hún var notuð til að ferma og afferma skipið þegar það var í ferju og vöruflutningum milli Kaupmannahafnar og Borgundarhólms. Hentaði vel við gripaflutninga, því að á þessu svæði gætir sjávarfalla lítið. Þessar lúgur voru teknar af eftir að skipið kom hingað til lands og plötur soðnar á í staðinn.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 nóvember 2016.


Flak skipsins í Djúpavík. Skipið var dregið þangað á sínum tíma og notað sem verbúð starfsmanna sem unnu í síldarverksmiðjunni. En það voru fleiri sem bjuggu í skipinu, sagt var að rottan hafi komið í Djúpavík með skipinu.                                                           (C) Jón Bragi Sigurðsson.


Suðurland sem M Davidsen en það nafn bar skipið áður. Skipið var smíðað hjá Helsingör Jernskibs & Maskinbyggeri í Helsingör í Danmörku árið 1891. 217 brl. 350 ha. 2 þennslu gufuvél. Eimskipafélag Suðurlands kaupir skipið haustið 1919 og var í eigu þess til ársins 1932. Var svo í eigu h/f Skallagríms í Borgarnesi til 1935, þar til að h/f Djúpavík kaupir skipið og notaði það til íbúðar starfsfólki sínu til handa, en vistin þar mun ekki hafa verið neitt sældarlíf.                          (C) Handels & Söfartsmuseet.dk


20.11.2016 09:20

1016. Sigurbjörg ÓF 1. TFDH.

Sigurbjörg ÓF 1 var smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri árið 1966 fyrir Magnús Gamalíelsson útgerðarmann á Ólafsfirði. Stál. 346 brl. 960 ha. MWM díesel vél. Skipið var endurmælt í mars 1970 og mældist þá 278 brl. 29 desember 1978 var umdæmisstöfum skipsins breytt í ÓF 30. Skipið var selt 17 júlí 1979, Blakk h/f á Patreksfirði, hét Pálmi BA 30. Selt 12 október 1983, Drift h/f í Neskaupstað (Garðar Lárusson útgerðarmaður), skipið hét Fylkir NK 102. Selt 30 maí 1984, Meleyri h/f á Hvammstanga, hét Sigurður Pálmason HU 333. Frá 4 júlí 1991 hét skipið Erling KE 140. Selt 3 október 1991, Samherja h/f á Akureyri, sama nafn og númer. Selt 31 janúar 1992, Saltveri h/f í Keflavík. Frá 4 desember 1994 hét skipið Keilir KE 140. Selt úr landi og tekið af skrá 20 febrúar árið 1995. Sigurbjörgin var stærsta stálskip sem þá hafði verið smíðað hérlendis.


Sigurbjörg ÓF 1.                                                                                    (C) Sveinn Magnússon.


Sigurbjörg ÓF 1 við bryggju á Ólafsfirði.                                                  (C) Sveinn Magnússon.


Pálmi BA 30 á sundunum við Reykjavík.                                                     (C) Snorri Snorrason.


Fylkir NK 102 á útleið frá Neskaupstað.                                                (C) Gunnar Þorsteinsson.


Sigurbjörg ÓF 1. Líkan.                                                                             Ljósmyndari óþekktur.

             Samið um smíði skipsins

Þegar Magnús Gamalíelsson, útgerðarmaður í Ólafsfirði bar saman ráð sín við Jón G Sólnes bankastjóra landsbankans á Akureyri um hugsanleg kaup á nýju fiskiskipi. Þá tók Jón vel undir málaleitan Magnúsar, en varpaði því fram umhugsunarlaust hvort ekki væri möguleiki á að láta smíða slíkt skip á Akureyri. Magnús hringdi síðan samdægurs í Skapta í Slippstöðinni og spurði um möguleika á því að þeir smíðuðu fyrir sig 300 til 400 tonna stálskip.
Skapti sagðist geta svarað því innan tíðar. Varð það líka orð að sönnu, því skammt var um liðið þegar Skapti tilkynnti Magnúsi að Slippstöðin væri til þess búin að taka verkið að sér. Samningur um skipasmíði þessa var undirritaður 18 janúar 1965.
Var um að ræða 346 lesta stálskip, hið langstærsta þeirra gerðar er þá hafði verið til smíða hérlendis. Auðvitað þurfti mikla dirfsku til að ráðast í þetta verk því öll aðstaða var frumleg. En þetta tókst og skipinu var hleypt af stokkunum 15 febrúar 1966 og gefið nafnið Sigurbjörg ÓF 1.
Kampavín freyddi ekki um stefni hins nýja skips við skírnarathöfnina, heldur sjór af Grímseyjarsundi, sem tekin var af skipverjum Guðbjargar ÓF 3, tæplega 100 lesta stálbát sem Magnús átti einnig og keypti til Ólafsfjarðar nýsmíðaðan frá Noregi. Vakti atburður sá mikla athygli.

Sveinn Magnússon. Skipagrunnur Ólafsfirði.

             Sigurbjörg ÓF 1 afhent

              Stærsta skip smíðað hérlendis

Á laugardaginn var sigldi stálskipið Sigurbjörg ÓF 1, stærsta skip, sem smíðað hefur verið hér á landi, frá bryggju á Akureyri og til heimahafnar sinnar, Ólafsfjarðar, þar afhenti Skafti Áskelsson, forstjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem smíðað hefur skipið, það eiganda þess og útgerðarmanni, Magnús Gamalíelssyni. Var það hátíðleg athöfn og talið að meirihluti Ólafsfirðinga hafi verið viðstaddur ásamt mörgum starfsmönnum Slippstöðvarinnar, sem fóru með skipinu til Ólafsfjarðar. Þegar skipið kom til Ólafsfjarðar blöktu fánar þar hvarvetna, borði hafði verið strengdur yfir hafnargarðinn með áletruninni "Velkomin Sigurbjörg," Lúðrasveit Ólafsfjarðar lék er skipið lagðist að bryggju, en sóknarpresturinn, Ingþór Indriðason, flutti ávarp og bæn. Því næst afhenti Skafti skipið með ræðu, en Ásgrímur Hartmannsson, bæjarstjóri, bauð það velkomið og ræddi þýðingu þess fyrir atvinnulíf á staðnum. Þá talaði Magnús Gamalíelsson, veitti skipinu móttöku og þakkaði árnaðaróskir. Ennfremur talaði Davíð Ólafsson, fiskimálastjóri, og loks söng Karlakór Ólafsfjarðar. Að þessari athöfn lokinni bauð eigandi skipsins öllum viðstöddum til kaffidrykkju í Tjarnarborg. Sigurbjörg ÓF 1 er fyrsta stálskipið, sem byggt er í Slippstöðinni á Akureyri og jafnframt það stærsta, sem byggt hefur verið hér á landi, 346 lestir. Það er glæsilegt útlits og talið vandað að öllum frágangi. Teikningu að skipinu gerði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri. Það er að sjálfsögðu búið öllum nýjustu og fullkomnustu tækjum til fiskveiða. Aðalvél þess er 950 ha Mannheim, og ganghraði í reynsluferð var 12.5 sjómílur.
Að lokum skal þess getið, er fram kom við afhendingu þessa fyrsta stálskips frá Slippstöðinni, að þar eru næg verkefni framundan. Samið hefur verið um smíði tveggja 480 tonna skipa. Verður það fyrra byggt fyrir Eldborg h.f. í Hafnarfirði, en hið síðara fyrir Sæmund Þórðarson skipstjóra á Þórði Jónassyni. Þessa dagana er verið að reisa feiknastórt hús, svo að framvegis verði hægt að vinna að skipasmíðinni innanhúss og veður þurfi ekki að tefja framkvæmdir. Þetta hús verður 89 m langt, 25 m breitt og 22 m hátt. Verður þar hægt að byggja mun stærri skip en þau, sem nú hefur verið samið um smíði á. Hjá Slippstöðinni vinna nú um 130 manns, þannig að hún er orðin eitt stærsta atvinnufyrirtæki bæjarins, og með betri og stærri dráttarbraut, sem nú er í undirbúningi, eru enn vonir um meiri verkefni og vaxandi rekstur.

Verkamaðurinn. 19 ágúst 1966.

19.11.2016 07:53

B. v. Guðmundur júní ÍS 20. LBQG. / TFJD.

Guðmundur júní ÍS 20 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir h/f Belgaum í Hafnarfirði. Hét fyrst Júpíter GK 161. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 14 desember 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, (Tryggva Ófeigssyni), sama nafn og númer. 9 apríl árið 1948 flytur Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður, útgerð sína (h/f Júpíter) til Reykjavíkur og fær þá togarinn skráningarnúmerið RE 61. Skipið var selt 21 ágúst 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét Guðmundur júní ÍS 20. 21 júní árið 1955 eignast Einar Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík togarann, sama nafn og númer, með heimahöfn á Flateyri. Sumarið 1960 stóð til að breyta Guðmundi júní í flutningaskip, hann var þá í eigu bræðranna, Hákonar og Magnúsar Kristinssona í Njarðvík sem áttu Vélsmiðju Njarðvíkur. Skipið hafði þá legið lengi í Reykjavíkurhöfn. Togarinn brann í Njarðvíkurhöfn, 18 maí 1963, og talinn ónýtur 29 júlí sama ár. Flak skipsins var síðan dregið til Ísafjarðar og notað sem brimbrjótur við Skipasmíðastöð Marselíusar. Endalok togarans urðu þau að hann var notaður í uppfyllingu á tanganum á Ísafirði.


Guðmundur júní ÍS 20 að veiðum.                                                            (C) Samúel Arnoldsson.


Guðmundur júní ÍS 20 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                              (C) Samúel Arnoldsson.


Stjórnpallur skipsins ein íshella að sjá. Færeyingurinn Leif Berg er í glugganum.                                                                                                             (C) Samúel Arnoldsson. 


Flak togarans á Ísafirði. Sjá má í flak Notts County GY 673.    Ljósmyndari óþekktur.


Stjórnpallur togarans.                                                (C) Sæmundur Þórðarson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                             (C) Sæmundur Þórðarson.


Flak togarans á Ísafirði.                                                                          Ljósmyndari óþekktur. 

Enn í dag sér vel í flak skipsins í uppfyllingunni.                               (C) Sæmundur Þórðarson. 

Set hér inn mynd af líkani sem Sæmundur Þórðarson á Suðureyri sendi mér fyrir löngu síðan. Það er spurning hvort hugmyndir manna hafi verið þær að gera skipið upp eins og myndin sýnir. 

           Útgerðin hvarf á einni nóttu

Athafnamaðurinn Einar Sigurðsson, oft nefndur Einar ríki, lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1924 og um haustið hóf hann eigin atvinnurekstur. Vestmannaeyjar urðu of litlar fyrir athafnasemi Einars og flutti hann til Reykjavíkur 1950 og var þar með starfsemi í viðbót við reksturinn í Eyjum. Þegar Einar hafði mest umleikis í sjávarútvegi var hann með útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, Keflavík, Reykjavík á Flateyri og víðar. Allt voru þetta einkafyrirtæki og var Einar oft með milli fimm og sexhundruð manns í vinnu. Það var hins vegar mikið áfall fyrir atvinnulífið á Flateyri þegar Einar ákvað í einni svipan að fara með útgerð togarana Guðmund Júní og Gylli suður og segja má að hann hafi þá skilið eftir sviðna jörð á Flateyri. Heimamönnum var talin trú um að nýr togari, Sigurður sem var smíðaður í Þýskalandi fyrir Ísfell á Flateyri sem var fiskverkunarfyrirtæki í eigu Einars , kæmi til Flateyrar, enda hlaut hann einkennisstafina ÍS-33. Hann var hins vegar aldrei gerður út frá Flateyri heldur frá Reykjavík enda var hann síðar skráður í Reykjavík og hlaut þá einkennisstafina RE- 4. Hann var í eigu Ísfells til 1984. Þá eignast Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hann og 1992 verður hann eign Ísfélagsins þegar Hraðfrystistöðin og Ísfélagið sameinast. Þá fær hann einkennisstafina VE- 15. En Einar átti útgerðina, og hvað gátu heimamenn á Flateyri þá gert? Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og var í forystu á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Hann var einn af stofnendum og lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, í stjórn skipafélagsins Jökla, Tryggingamiðstöðvarinnar, Umbúðamiðstöðvarinnar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum.

Aldan. 4 apríl 2015. 

  35 ára gömlum togara breytt í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip. Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni. Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.                                                     

18.11.2016 09:47

918. Gullfaxi NK 6. TFVN.

Gullfaxi NK 6 var smíðaður hjá Mortensen Skibsbyggeri A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1955. Eik. 66 brl. 225 ha. Völund díesel vél. Eigandi var Gullfaxi h/f í Neskaupstað (Þorleifur Jónasson skipstjóri og Ármann Eiríksson) frá 8 ágúst 1955. Skipið var selt 25 október 1960, Sandfelli h/f á Þingeyri, hét Þorgrímur ÍS 175. Ný vél (1960) 330 ha. Völund díesel vél. Selt 8 mars 1969, Jóni Sæmundssyni í Keflavík, hét Þorgrímur KE 81. Skipið var endurbyggt í Keflavík árið 1973. Ný vél (1973) 479 ha. G.M díesel vél, 353 Kw. Selt 10 mars 1975, Auðunni Benediktssyni á Kópaskeri, skipið hét Þingey ÞH 102. Selt 9 maí 1978, Sævari h/f á Grenivík, hét Sigrún ÞH 169. Selt 10 september 1979, Sigurði Valdimarssyni í Ólafsvík, hét Sigurvík SH 117. Selt 10 nóvember 1988, Sigurði Inga Ingólfssyni í Vestmannaeyjum, hét Sigurvík VE 555. Frá 26 júlí 1990 er Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Vík VE 555. Selt 3 júlí 1991, Kleifum h/f í Vestmannaeyjum, hét Skuld VE 263. Selt 7 júlí 1993, Sigurbáru h/f, Co Óskar Kristinsson í Vestmannaeyjum, hét Sigurbára VE 249. Frá 19 janúar 1996 er Ólgusjór ehf í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Hrauney VE 41. Talið ónýtt og tekið af skrá 28 apríl 2005 og rifið skömmu síðar.

Gullfaxi NK 6 á leið inn Norðfjörð með síldarfarm. Nótabáturinn í eftirdragi.     (C) Björn Björnsson. 


Varðskipsmenn á Ægi á síldveiðum sumarið 1956. Gullfaxi NK 6 siglir hjá.                      (C) LHG.


Sigurvík SH 117.                                                                    (C) Brimbarinn. Vigfús Markússon.

                      NÝR BÁTUR

                   Gullfaxi NK 6

Síðastliðinn laugardag kom hingað til bæjarins nýsmíðaður fiskibátur. Heitir hann Gallfaxi og eru einkennisstafir hans N.K 6. Gullfaxi er smíðaður hjá Mortensens Skibsbyggeri í Fredrikshavn í Danmörku. Báturinn átti samkvæmt samningum að afhendast um síðustu áramót og kemur þannig 7 mánuðum á eftir áætlun. Þessi dráttur hefur að sjálfsögðu verið eigendunum bagalegur, því þeir hafa bæði misst af vetrarvertíð og síldarvertíð. Gullfaxi er byggður úr eik, 66 smálestir brúttó með 210-225 hestafla Völund-dieselvél, auk ljósamótors. Ganghraði í reynsluferð var 10.2 sjómílur, en á heimleiðinni var ganghraðinn 9 sjómílur. Gullfaxi er búinn öllum þeim siglinga og öryggistækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð, þar á meðal asdictæki. Er það fiskileitartæki og er Gullfaxi fyrsti norðfirzki báturinn sem fær það. Í brúnni er m. a. klefi skipstjóra, í káetu rúm fyrir 4 menn og í lúkar fyrir 8 menn. Þar er einnig olíukynnt eldavél og frá henni liggur miðstöð um mannaíbúðir. Íbúðir skipverjanna eru rúmgóðar og í alla staði hinar vistlegustu. Þær eru klæddar innan með plastik-plötum og er það nýung. Er það áferðarfallegt og auðvelt að halda íbúðunum hreinum. Gullfaxi er hinn myndarlegasti bátur, sterkbyggður að sjá og burðarmikill. Eigendur hans eru þeir Ármann Eiríksson og Þorleifur Jónasson. Blaðið óskar þeim hér með til hamingju með þennan bát. Þó báturinn sé síðbúinn til síldveiða, hefur hann nú hafið þátttöku í þeim með hringnót. Skipstjóri Gullfaxa er Þorleifur Jónasson, einn aflasælasti og heppnasti skipstjóri bæjarins. Þrír aðrir bátar af svipaðri stærð og Gullfaxi eru nú í smíðum í Danmörku fyrir Norðfirðinga og eiga tveir þeirra að afhendast í desember og er talið að þeir muni tilbúnir á tilsettum tíma.

Austurland. 12 ágúst 1955.

17.11.2016 09:59

184. Edda GK 25. TFRM.

Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co h/f í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston díesel vél. 17 nóvember árið 1953, þegar skipið var statt 300 metra frá bryggju í Grundarfirði, lagðist það á hliðina og sökk síðan. 15 af 17 skipverjum komust á kjöl. 11 af þeim björguðust yfir í annan nótabátinn og barst hann að landi eftir mikla hrakninga skammt frá bænum Suðurbár í Grundarfirði. Var mönnunum síðan hjálpað heim að bænum. En áður en þangað var komið höfðu 3 skipverjar látist af vosbúð, 2 í nótabátnum og síðan 1 eftir að í land var komið. Það urðu því 9 manns af 17 manna áhöfn sem fórust. Í febrúar 1954 var skipið kjölrétt og dregið upp í fjöru og þétt þar. Síðar var skipið dregið til Reykjavíkur og endurbyggt þar. Skipið var selt 1954-55, Fróða h/f í Ytri Njarðvík, hét Fróði GK 480. Frá 17 febrúar hét skipið Sigurkarfi GK 480, sömu eigendur. Talið ónýtt og tekið af skrá 5 nóvember árið 1970. Skipið var að lokum brennt í ágúst árið 1972.


Edda GK 25 nýsmíðuð á siglingu árið 1944.             Ljósmyndari óþekktur (G Á ?) Mynd í minni eigu.

Eitt þeirra skipa, sem hvað oftast var nefnt í síldaraflafréttum sumarsins 1953, var vélskipið Edda frá Hafnarfirði. Þá um vorið hafði kunnur sjósóknari og aflakló, Guðjón Illugason, tekið við skipstjórn á bátnum, en Guðjón hafði verið skipstjóri á Hafnarfjarðarbátum frá árinu 1944, og höfðu bátar þeir sem hann var með orðið aflahæstir Hafnarfjarðarbáta átta ár í röð. Þetta sumar var Edda þriðja aflahæsta síldveiðiskipið og að síldveiðunum fyrir norðan og austan land loknum, var ákveðið að gera bátinn út til veiða með nót, en töluverð síldveiði var þá út af Snæfellsnesi. Lögðu bátarnir jafnan upp í höfnunum við Snæfellsnes.


Edda GK 25 á síldveiðum.                                                                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

Um miðjan nóvember var Edda orðin aflahæst síldarbátanna og hafði skilað miklum afla á land. Tíð hafði verið allsæmileg um haustið, en þegar kom fram í nóvember brá yfir í rosa, þannig að gæftir urðu stopular. Aðfaranótt 15 nóvember skall svo á hið versta suðvestan stórviðri, og hélst það nær óslitið í þrjá sólarhringa. Hámarki náði veðurhæðin þó aðfaranótt 17 nóvember, en þá var víða fárviðri við landið sunnan og vestanvert. Skipin, sem verið höfðu að síldveiðum við Snæfellsnes, héldu öll í landvar er óveðrið skall á. Meðal þeirra var Edda og hélt hún inn á Grundarfjörð og lagðist þar við ankeri um 300 metra frá landi. Þar á firðinum voru mörg önnur skip.     Heimild: Þrautgóðir á raunastund. V bindi.


Sigurkarfi GK 480.                                                                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. ?

 Níu menn fórust, er vélskipinu Eddu hvolfdi á  Grundarfirði á mánudagsnótt.

Þau sviplegu tíðindi gerðust síðla á mánudagsnóttina, að vélskipið Edda frá Hafnarfirði fórst í Grundarfirði og með henni níu menn af áhöfninni. Átta komust lífs af eftir mikla hrakninga í opnum bát. Skipinu hvolfdi skammt framan við bryggjuna í Grafarnesi án þess að nærstödd skip eða fólk í landi veitti því athygli. Fimmtán skipverjar komust á kjöl og ellefu í nótarbátinn. Sex drukknuðu við skipið, en mennirnir í bátnum hrökktust út fjörð, steyttu á skeri fram af Bárar-bæjum sátu þar fastir þrjár stundir og bar síðan að landi. í þeim hrakningum létust þrír menn.
Þeir sem fórust voru: Sigurjón Guðmundsson, Austurgötu 19, Hafnarfirði. 34 ára, I. vélstjóri. Hann læt ur eftir sig konu og fimm börn, og átti foreldra á lífi. Börnin voru öll ung, innan við fermingu. Sigurður Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði. 28 ára, II. vélstjóri. Hann lætur eftir sig konu og eitt fósturbarn, og átti foreldra á Iífi. Jósep Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði (bróðir Sigurðar vélstjóra). Háseti. Hann var ókvæntur. Guðbjartur Guðmundsson. Suðurgötu 94, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn og átti foreldra á lífi. Guðbrandur Pálsson, Köldukinn 10, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og sex börn og átti aldraða móður á lífi. Börnin eru flest ung, en tvö um fermingu. Albert Egilsson, Selvogsgötu 14, Hafnarfirði. 30 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn og átti móður og fósturmóður á lífi. Stefán Guðnason, frá Stöðvarfirði. 18 ára, háseti. Hann var ókvæntur, en átti móður á lífi. Sigurjón Benediktsson,Vesturbraut 7, Hafnarfirði. 17 ára, háseti. Hann átti aldraða foreldra á lífi. Einar Ólafsson, Skeljabergi, Sandgerði, 19 ára, háseti. Hann lætur eftir sig unnustu og átti foreldra á lífi. Þeir, sem af komust eru:
Guðjón Illugason, skipstjóri. Guðmundur Ársæll Guðmundsson, stýrimaður. Ingvar Ívarsson, matsveinn. Bjarni Hermundsson, háseti. Guðmundur Ólafsson, háseti. Óskar Vigfússon, háseti. Ágúst Stefánsson, háseti. Allir búsettir í Hafnarfirði, og Guðjón Vigfússon, háseti, Silfurtúni við Hafnarfjörð.
Harmsaga skipverjanna, sem af komust, var á þá leið, að skipstapinn hefði orðið um klukkan fjögur um nóttina. Edda lá þá ásamt nokkrum öðrum skipum á legunni við Grafarnes um 300 metra frá bryggjunni. Afspyrnurok var þá. Vindur hafði verið af suðri en var nú að snúast til suðvestanáttar og gekk á með afskaplegum stormhrinum.
Skipið lá við festar en dró legufærin og varð af og til að draga upp og færa sig. Skipstjórinn, Guðjón Illugason, var í brúnni. Nýlega höfðu vaktaskipti farið fram, og voru margir skipverja í rúmum sínum. stýrimaður var á leið upp til skipstjóra, er slysið varð.
 Í ógurlegri stormhviðu, sem yfir reið, lagðist Edda á hliðina og hvolfdi síðan alveg á svipstundu. Flaut skipið þannig um hríð og komust 15 af 17 skipverjum á kjöl. Sumir þeirra voru illa búnir, jafnvel á nærklæðum eins og þeir komu úr rekkju og berfættir. Enginn varð var við slysið, Þótt mörg skip lægju ekki ýkja langt frá og skammt til lands var myrkrið, særokið og veðurhvinurinn svo mikið, að enginn varð var við slysið né heyrði hróp skipbrotsmanna á kilinum. Ellefu komust í nótarbátinn. Edda hafði um nóttina misst annan nótabátinn, en hinn var nú bundinn við skipið og maraði í hálfu kafi nær fullur af sjó. Ellefu skip verjum tókst nú að komast í nótabátinn, og má það kallast þrekraun mikla í þessu veðri. Hinir drukknuðu við skipið. Þegar auðséð var, að skipið mundi brátt sökkva, skáru skipbrotsmennirnir í bátnum á bandið, sem báturinn var bundinn við skipið með, og þar með hófst hrakningsför þeirra fyrir vindi og sjó út Grundarfjörð í fyrstu morgunskímunni. En þegar Ijóst varð af degi sáu menn af hinum skipunum, að Edda var horfin af legunni. Grunaði engan fyrst, hvað gerzt hafði, en margir töldu, að Edda hefði haldið á brott í því skyni að leita að nótabát sínum. Þótti mönnum það þó kynlegt í öðru eins veðri. Skýringin á hvarfi Eddu fékkst svo ekki fyrr en boðin komu frá Suður-Bár eins og fyrr segir.

Tíminn 18 nóvember 1953.
16.11.2016 11:16

800. Andey EA 81. TFVP.

Andey EA 81 var smíðuð í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 85 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Útgerðarfélagið Andey í Hrísey frá 21 október 1946. Skipið var selt 15 febrúar 1950, Arnoddi Gunnlaugssyni í Vestmannaeyjum, hét Suðurey VE 20. Ný vél (1957) 390 ha. MWM díesel vél. Selt 20 nóvember 1976, Ísak Valdimarssyni í Neskaupstað, skipið hét Suðurey NK 37. Skipið var talið ónýtt og því sökkt í Norðfjarðarflóa 29 nóvember árið 1979.


Andey EA 81 með fullfermi síldar og bíður löndunar.                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Suðurey VE 20 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.                                          Mynd úr Íslensk skip.
Flettingar í dag: 85
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852143
Samtals gestir: 62753
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 00:42:53