17.11.2016 09:59

184. Edda GK 25. TFRM.

Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co h/f í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston díesel vél. 17 nóvember árið 1953, þegar skipið var statt 300 metra frá bryggju í Grundarfirði, lagðist það á hliðina og sökk síðan. 15 af 17 skipverjum komust á kjöl. 11 af þeim björguðust yfir í annan nótabátinn og barst hann að landi eftir mikla hrakninga skammt frá bænum Suðurbár í Grundarfirði. Var mönnunum síðan hjálpað heim að bænum. En áður en þangað var komið höfðu 3 skipverjar látist af vosbúð, 2 í nótabátnum og síðan 1 eftir að í land var komið. Það urðu því 9 manns af 17 manna áhöfn sem fórust. Í febrúar 1954 var skipið kjölrétt og dregið upp í fjöru og þétt þar. Síðar var skipið dregið til Reykjavíkur og endurbyggt þar. Skipið var selt 1954-55, Fróða h/f í Ytri Njarðvík, hét Fróði GK 480. Frá 17 febrúar hét skipið Sigurkarfi GK 480, sömu eigendur. Talið ónýtt og tekið af skrá 5 nóvember árið 1970. Skipið var að lokum brennt í ágúst árið 1972.


Edda GK 25 nýsmíðuð á siglingu árið 1944.             Ljósmyndari óþekktur (G Á ?) Mynd í minni eigu.

Eitt þeirra skipa, sem hvað oftast var nefnt í síldaraflafréttum sumarsins 1953, var vélskipið Edda frá Hafnarfirði. Þá um vorið hafði kunnur sjósóknari og aflakló, Guðjón Illugason, tekið við skipstjórn á bátnum, en Guðjón hafði verið skipstjóri á Hafnarfjarðarbátum frá árinu 1944, og höfðu bátar þeir sem hann var með orðið aflahæstir Hafnarfjarðarbáta átta ár í röð. Þetta sumar var Edda þriðja aflahæsta síldveiðiskipið og að síldveiðunum fyrir norðan og austan land loknum, var ákveðið að gera bátinn út til veiða með nót, en töluverð síldveiði var þá út af Snæfellsnesi. Lögðu bátarnir jafnan upp í höfnunum við Snæfellsnes.


Edda GK 25 á síldveiðum.                                                                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

Um miðjan nóvember var Edda orðin aflahæst síldarbátanna og hafði skilað miklum afla á land. Tíð hafði verið allsæmileg um haustið, en þegar kom fram í nóvember brá yfir í rosa, þannig að gæftir urðu stopular. Aðfaranótt 15 nóvember skall svo á hið versta suðvestan stórviðri, og hélst það nær óslitið í þrjá sólarhringa. Hámarki náði veðurhæðin þó aðfaranótt 17 nóvember, en þá var víða fárviðri við landið sunnan og vestanvert. Skipin, sem verið höfðu að síldveiðum við Snæfellsnes, héldu öll í landvar er óveðrið skall á. Meðal þeirra var Edda og hélt hún inn á Grundarfjörð og lagðist þar við ankeri um 300 metra frá landi. Þar á firðinum voru mörg önnur skip.     Heimild: Þrautgóðir á raunastund. V bindi.


Sigurkarfi GK 480.                                                                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. ?

 Níu menn fórust, er vélskipinu Eddu hvolfdi á  Grundarfirði á mánudagsnótt.

Þau sviplegu tíðindi gerðust síðla á mánudagsnóttina, að vélskipið Edda frá Hafnarfirði fórst í Grundarfirði og með henni níu menn af áhöfninni. Átta komust lífs af eftir mikla hrakninga í opnum bát. Skipinu hvolfdi skammt framan við bryggjuna í Grafarnesi án þess að nærstödd skip eða fólk í landi veitti því athygli. Fimmtán skipverjar komust á kjöl og ellefu í nótarbátinn. Sex drukknuðu við skipið, en mennirnir í bátnum hrökktust út fjörð, steyttu á skeri fram af Bárar-bæjum sátu þar fastir þrjár stundir og bar síðan að landi. í þeim hrakningum létust þrír menn.
Þeir sem fórust voru: Sigurjón Guðmundsson, Austurgötu 19, Hafnarfirði. 34 ára, I. vélstjóri. Hann læt ur eftir sig konu og fimm börn, og átti foreldra á lífi. Börnin voru öll ung, innan við fermingu. Sigurður Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði. 28 ára, II. vélstjóri. Hann lætur eftir sig konu og eitt fósturbarn, og átti foreldra á Iífi. Jósep Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði (bróðir Sigurðar vélstjóra). Háseti. Hann var ókvæntur. Guðbjartur Guðmundsson. Suðurgötu 94, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn og átti foreldra á lífi. Guðbrandur Pálsson, Köldukinn 10, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og sex börn og átti aldraða móður á lífi. Börnin eru flest ung, en tvö um fermingu. Albert Egilsson, Selvogsgötu 14, Hafnarfirði. 30 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn og átti móður og fósturmóður á lífi. Stefán Guðnason, frá Stöðvarfirði. 18 ára, háseti. Hann var ókvæntur, en átti móður á lífi. Sigurjón Benediktsson,Vesturbraut 7, Hafnarfirði. 17 ára, háseti. Hann átti aldraða foreldra á lífi. Einar Ólafsson, Skeljabergi, Sandgerði, 19 ára, háseti. Hann lætur eftir sig unnustu og átti foreldra á lífi. Þeir, sem af komust eru:
Guðjón Illugason, skipstjóri. Guðmundur Ársæll Guðmundsson, stýrimaður. Ingvar Ívarsson, matsveinn. Bjarni Hermundsson, háseti. Guðmundur Ólafsson, háseti. Óskar Vigfússon, háseti. Ágúst Stefánsson, háseti. Allir búsettir í Hafnarfirði, og Guðjón Vigfússon, háseti, Silfurtúni við Hafnarfjörð.
Harmsaga skipverjanna, sem af komust, var á þá leið, að skipstapinn hefði orðið um klukkan fjögur um nóttina. Edda lá þá ásamt nokkrum öðrum skipum á legunni við Grafarnes um 300 metra frá bryggjunni. Afspyrnurok var þá. Vindur hafði verið af suðri en var nú að snúast til suðvestanáttar og gekk á með afskaplegum stormhrinum.
Skipið lá við festar en dró legufærin og varð af og til að draga upp og færa sig. Skipstjórinn, Guðjón Illugason, var í brúnni. Nýlega höfðu vaktaskipti farið fram, og voru margir skipverja í rúmum sínum. stýrimaður var á leið upp til skipstjóra, er slysið varð.
 Í ógurlegri stormhviðu, sem yfir reið, lagðist Edda á hliðina og hvolfdi síðan alveg á svipstundu. Flaut skipið þannig um hríð og komust 15 af 17 skipverjum á kjöl. Sumir þeirra voru illa búnir, jafnvel á nærklæðum eins og þeir komu úr rekkju og berfættir. Enginn varð var við slysið, Þótt mörg skip lægju ekki ýkja langt frá og skammt til lands var myrkrið, særokið og veðurhvinurinn svo mikið, að enginn varð var við slysið né heyrði hróp skipbrotsmanna á kilinum. Ellefu komust í nótarbátinn. Edda hafði um nóttina misst annan nótabátinn, en hinn var nú bundinn við skipið og maraði í hálfu kafi nær fullur af sjó. Ellefu skip verjum tókst nú að komast í nótabátinn, og má það kallast þrekraun mikla í þessu veðri. Hinir drukknuðu við skipið. Þegar auðséð var, að skipið mundi brátt sökkva, skáru skipbrotsmennirnir í bátnum á bandið, sem báturinn var bundinn við skipið með, og þar með hófst hrakningsför þeirra fyrir vindi og sjó út Grundarfjörð í fyrstu morgunskímunni. En þegar Ijóst varð af degi sáu menn af hinum skipunum, að Edda var horfin af legunni. Grunaði engan fyrst, hvað gerzt hafði, en margir töldu, að Edda hefði haldið á brott í því skyni að leita að nótabát sínum. Þótti mönnum það þó kynlegt í öðru eins veðri. Skýringin á hvarfi Eddu fékkst svo ekki fyrr en boðin komu frá Suður-Bár eins og fyrr segir.

Tíminn 18 nóvember 1953.




Flettingar í dag: 605
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 1186
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 725137
Samtals gestir: 53785
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 13:58:34