Færslur: 2023 Nóvember

25.11.2023 09:29

Færeyska flutningaskipið Hólmur strandar í Ólafsfirði.

Flutningaskipið Hólmur var á leið til Ólafsfjarðar með saltfarm að kvöldi 29 mars árið 1978. Skipið villtist af réttri leið inn fjörðinn með þeim afleyðingum að það strandaði á Ósbrekkusandi um 100 metra frá landi. Áhöfn skipsins, 5 menn, sakaði ekki. Norðaustan 6-7 vindstig og mikill sjór voru í Ólafsfirði þegar Hólmur strandaði. Strax daginn eftir gerðu varðskipsmenn af Óðni tilraun til að koma dráttartaug um borð í Hólm sem heppnaðist, en gúmbátur með 3 varðskipsmönnum sem ætluðu að koma dráttartaug upp í fjöru, fékk á sig ólag og hvoldi. Mennirnir komust á land með hjálp björgunarmanna sem voru í fjörunni. Voru þeir orðnir nokkuð kaldir en hresstust fljótt eftir góða aðhlynningu heimamanna. Vegur var lagður út að skipinu til að losa farminn sem var um 100 tonn af salti. Nokkrar tilraunir voru gerðar til þess að ná Hólmi út, en þær mistókust allar. Ólafsfjarðarbær mun hafa farið í mál við tryggingafélag skipsins, en hætt við það er flak þess var selt Ólafi Jónssyni í Reykjavík 9 apríl sama ár. En ekkert varð úr neinu og dagaði flak Hólms uppi í fjörunni.

Hólmur var smíðaður hjá Otto Andersen & Co Wivenhoe í London árið 1929 sem togari. Á smíðatíma skipsins var farið fram á uppboð á skrokknum, en hætt var við það og skrokkurinn var seldur 22 janúar 1929, Boston Deep Sea Fishing & Ice co Ltd í Fleetwood. Skrokkurinn var síðan dreginn til Fleetwood og skipið klárað hjá James Robertson & Sons Ltd í Fleetwood 15 nóvember 1929. Fékk þá nafnið Evalana FD 55. 384 brl, 122 nt. 600 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá McKie & Baxter í Glasgow í Skotlandi. 142,5 x 25,0 x 13,0 ft. Smíðanúmer 1351. Svo er eigendasaga skipsins eitthvað á þessa leið:,
1931-36. Í eigu Victor Fourny-P. Altazin Fourny & Cie í Boulogne í Frakklandi, hét Evalana B 1464.
1936-37. Í eigu Pécheries de la Morinie í Boulogne, sama nafn og númer.
1937-39. Í eigu Towarzystow Dalekomorskich Polowow „Pomorse“ Sp.z.o.a., í Gdynia í Póllandi, hét þá Cezary GDY 111 og var gerður út frá Ijmuiden í Hollandi.
1939-40. Í eigu Adam Steam Fishing Co Ltd í London, hét þá Count FD 89. Tekinn í þjónustu sjóhersins í febrúar 1940 og bar þar númerið Z-109. Skilað til eigenda í nóvember 1945.
1940-46. Í eigu Boston Deep Sea Fishing & Ice Co Ltd í Fleetwood, sama nafn og númer.
1946-49. Í eigu Christian Holm Jacobsen í Þórshöfn í Færeyjum, hét þá Sildberin TN 40.
1949-54. Í eigu N.J. Arge í Þórshöfn í Færeyjum, hét Guttaberg TN 40.
1954-64. Í eigu p/f Hólmur (K. Hansen) í Saurvogi í Færeyjum, hét þá Hólmur. 1955 var Skipið lengt og breytt í flutningaskip. Mældist þá 412 br, 201 nt. 157,0 x 25,0 x 14,0 ft. Einnig var sett ný vél í skipið, 545 ha. Polar M471 díesel vél (árgerð 1942).
1964-69. Í eigu p/f Hólmur (D.P. Höjgaard / Havstein Ellingsgaard) í Rúnavík í Færeyjum, sama nafn. Ný vél (1965) 600 ha. Alpha vél.
1969-78. Í eigu p/f Hólmur (Rósing Rasmussen) í Þórshöfn, sama nafn. Hólmur strandaði í Ólafsfirði 29 mars árið 1978 eins og segir hér að ofan og varð þar til á Ósbrekkusandinum.

Færeyska flutningaskipið Hólmur.                                                   (C) Jan Melchers. 
 
Varðskipsmenn að koma línu í land.                                   (C) Björn K Þorsteinsson.
 
Varðskipsmanni bjargað upp í fjöru.                                       (C) Svavar Magnússon.
                                  

                      Skip strandar
           Varðskipsmenn hætt komnir

 Um kl. 22.30 í fyrrakvöld strandaði færeyska flutningaskipið Hólmur í Ólafsfirði vestanverðum þar sem heitir Ósbrekkusandur. Hásjávað var þegar skipið tók niðri og fór það langt upp í fjöruna. Reynt var að ná því á flot í gærdag en það tókst ekki. Agnar Víglundsson fréttaritari Norðurlands á Ólafsfirði sagði svo frá í gær að menn hefðu eiginlega ekki átt von á skipinu sem er 400 tonn og var að koma með saltfarm til Ólafsfjarðar. Hvasst var og frekar dimmt yfir og bjuggust menn ekki við að það reyndi að komast inn á fjörðinn en hafnarskilyrði þar eru afleit í norðaustanátt. Þeir hafa svo villst rækilega af leið, sagði Agnar, því strandstaðurinn er langt frá höfninni, við fjörðinn vestanverðan. Skipið stendur í fjörunni, nokkuð hátt en það er á réttum kili. Mannskapurinn, 5 manns, er allur um borð og skipið virðist ekkert vera skemmt, td. gengu allar vélar þegar björgunarsveitarmenn komu um borð í nótt. Varðskipið Óðinn kom svo hingað í morgun og var gerð tilraun til að draga skipið á flot á síðdegisflóðinu í gær. Illa gekk í fyrstu að koma taug um borð í skipið því það brýtur fyrir aftan það. Við þær tilraunir gerðist það að varðskipsbát hvolfdi með fjórum mönnum. Komust þeir í land við illan leik og voru aðframkomnir þegar þeim var bjargað. Á endanum tókst þó að koma taug í skipið en þá vildi ekki betur til en svo að hún slitnaði í fyrstu atrennu. Var þá hætt við frekari tilraunir á þessu flóði. Ætli það verði ekki reynt aftur á flóðinu í nótt eða fyrramálið. Nú er gott veður hér á Ólafsfirði en þó brýtur enn aftan við skipið. Staðurinn sem Hólmur strandaði á er alveg sá sami og breskur togari strandaði á á stríðsárunum. Þarna er sandbotn og ætti því skipinu að vera óhætt meðan veðrið er gott, sagði Agnar að lokum. 

Norðurland. 31 mars 1978.

Hólmur á strandstað.                                                    (C) Sámal Jacob Debes Ólsen.
 
Unnið við að losa saltið úr Hólmi.                                           (C) Sveinn Magnússon.
 
Hólmur á strandstað í september 1978.                                                Mynd úr Vísi.
 
Hólmur á strandstað.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
    Hólmur enn á strandstað við Ólafsfjörð

„Skipið er hér enn og sá aðili, sem keypti skipið af færeyska tryggingafélaginu, hefur ekki staðið við sínar skuldbindingar, m.a. átti hann að fjarlægja það af strandstað“, sagði Pétur Már Jónsson bæjarstjóri á Ólafsfirði, í samtali við Vísi.
Færeyska flutningaskipið Hólmur strandaði við innsiglinguna í Ólafsfjarðarhöfn 29 mars s.l. Skipið var að koma þangað með saltfarm. „Við teljum að færeyska tryggingafélagið beri ábyrgð á því að fjarlægja skipið, en eigi svo kröfu á kaupandanum. Það er því tryggingafélagið sem á að sjá um að það verði fjarlægt af strandstað og standa við skuldbindingar þær, sem að okkur snúa”, sagði Pétur Már. Hann sagði að haft hefði verið samband við Færeyingana, en þeir svo aftur vísað á þann aðila, sem hefði keypt skipið á strandstað. ,,Ætli þetta endi ekki með því að við verðum að fara í mál til að fá botn í þetta mál”, sagði Pétur Már, bæjarstjóri á Ólafsfirði. Björgunarsveit Slysavarnarfélagsins á Ólafsfirði aðstoðaði eiganda Hólms og skuldar hann þeim nokkra upphæð. Hann hefur hins vegar ekki gert upp ennþá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir manna til að ljúka málinu. Ef skipið verður ekki fjarlægt fyrir veturinn má búast við því að það verði erfitt. Svo gæti farið að það færi alveg á hliðina og fylltist af sandi og þá er mjög erfitt um vik að ná því af strandstað.

Vísir. 4 september 1978.
 

Pólski togarinn Cezary GDY 111 við bryggju í Gdynia í Póllandi. Togari, Adam að nafni, liggur utan á honum. Ljósmyndari óþekktur.
 
Síldberin TN 40.                                                                                          (C) Óli Ólsen.
 
Fyrirkomulagsteikning af Evalana FD 55 frá Fleetwood.

               Hólmur rifinn og seldur í brotajárn

Allt bendir nú til þess að færeyski báturinn Hólmurinn sem legið hefur í fjörunni í Ólafsfirði undanfarin ár verði fjarlægður í sumar. Ólafsfirðingar hafa verið mjög óánægðir með að hafa bátsflakið þarna í fjörunni en bátnum var á sínum tíma siglt þarna upp í fjöruna. Lengi hefur verið rætt um að fjarlægja flakið og var m.a. rætt um að sprengja það í loft upp. Á dögunum voru í Ólafsfirði starfsmenn frá fyrirtækinu Sindra-stál og hafa þeir í hyggju að saga flakið niður og selja það sem brotajárn til útlanda. Yrði Hólmurinn þá sagaður niður í smáparta og þeim skipað um borð í skip á Ólafsfirði sem flytti brotajárnið til útlanda.

Dagur. 27 apríl 1984.

22.11.2023 10:11

V.s. Ægir l. LBCF / TFEA.

Varðskipið Ægir var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. 497 brl, 126 nt. 1.300 ha. B&W díesel vél. 52,25 x 9,01 x4,36 m. Smíðanúmer 564. Skipaskrárnúmer 231. Skipinu var hleypt af stokkunum 25 apríl sama ár. Fyrsta skip Íslendinga með díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 24 júní 1929. Ægir kom til Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 14 júlí sama ár. Einar Einarsson skipherra byrjaði vel, því á heimleiðinni tók hann landhelgisbrjót fyrir sunnan land. Var það þýskur togari, Tyr að nafni. Þær voru margar bjarganirnar sem Ægir tók þátt í, skip sem strandað höfðu eða sokkið. Hann hefur bjargað hundruðum ef ekki þúsundum íslenskra og erlendra sjómanna frá votri gröf á meðan hans naut við. Ægir var talið mjög gott skip, vandað að allri smíði og innréttingar flestar smíðaðar úr mahonyviði. Skipið var samhliða landhelgisgæslu við hafrannsóknir, síldar og fiskileit. Frá árinu 1948 mældist Ægir 507 brl, 131 nt. Skipið var eitthvað endurbætt árið 1954, m.a. var stýrishúsið stækkað. Ægir var seldur í maí 1968, Einari Magnússyni hagfræðingi og Gísla Ísleifssyni hrl í Reykjavík. Þeir seldu Ægi í brotajárn til Hughes Blockow í Blyth í Englandi og var hann tekinn af Íslenskri skipaskrá í júlí árið 1968.

Svend Aage Malmberg haffræðingur birti grein fyrst í Morgunblaðinu 20 mars 1968 að tilvalið væri að gera gamla Ægi að sjóminjasafni. Færði hann fyrir því mörg skynsamleg rök, t.d. þetta, "Ægir yrði þannig fyrsti vísir að sérstöku sjóminjasafni á Íslandi og mundi vonandi efla áframhaldandi myndun sjóminjasafns á breiðum grundvelli. Slíkt safn gæti svo verið sem deild í Þjóðminjasafni Íslands eða sem borgarsafn í Reykjavík" segir greinarhöfundur. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem áreiðanlega er vert að gefa fyllsta gaum. Hér fyrir neðan er slóðin á grein Svend Aage úr Morgunblaðinu frá 20 mars 1968.

https://timarit.is/files/57396262#search=%22Svend%20Malmberg%22
 

Ægir á leið inn í Reykjavíkurhöfn árið 1959.                              (C) Snorri Snorrason.
 
Ægir eins og hann leit út upphaflega.                                    Ljósmynd í minni eigu.


                    Varðskipið Ægir

Skipið kom hingið úr smiðum sunnudaginn 14. júlí 1929 og færði með sjer þýskan togara ("Tyr"), er hann hafði tekið fyrir sunnan land. Skipherra er Einar Einarsson áður fyrsti stýrimaður á "Óðni". Mjög hefir verið vandað til skipsins og er það búið ýmsum björgunaráhöldum og knúð með Dieselvjel (mótor) hinni fyrstu í Íslensku skipi. Hinn 16. júli fór "Ægir" inn í Hvalfjarðarbotn með margt manna, sem dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hafði boðið í ferðina, sem var til þess farin að minnast heimkomu "Ægis" og kynnast honum. Á meðal gesta voru margir þingmenn, starfsmenn í Stjórnarráðinu, blaðamenn o. fl. Lúðraflokkur Reykjavíkur var með í förinni og skemti gestunum. Varðskipið leysti festar kl. 4,20 og var komið á ákvörðunarstað eftir réttar tvær stundir. Veður var hið fegursta, sól og heiður himinn, en siglingin inn Hvalfjörð er svo alkunn fyrir fegurð, að ekki þarf orðum að að eyða. Þegar "Ægir" var lagstur, skammt frá Geirshólma, voru veitingar fram bornar.
Undir borðum var sungið hið snjalla kvæði Þorsteins Gíslasonar, sem birt er hjer í blaðinu, en því næst bauð dómsmálaráðherra gestina velkomna, lýsti í fáum, ljósum dráttum baráttu Íslendinga fyrir því, að taka landhelgisgæsluna í sínar hendur, og mintist þeirrar miklu þýðingar, sem það hefði út á við, fyrir sjálfstæðsbaráttu þjóðarinnar, að Íslendingar ættu sjálfir og rækju strandgæsluskipin, sem sigldu undir Íslenskum fána, mönnuð Íslendingum.
Ráðherrann fór síðan nokkrum orðum um varðskipið nýja, hve á allan hátt var til þess vandað, svo að það uppfyllir allar þær kröfur, sem hægt er að gera til slíkra skipa nú á dögum. Skipið kvað hann hafa orðið dýrt, upp undir eina milljón króna; að vísu myndi skipið hafa orðið um 100 þús. kr. ódýrara, ef það hefði ekki verið smíðað sem mótorskip, en einmitt fyrir það mundi sparast mörg þúsund krónur á ári á rekstri þess. Ráðherrann þakkaði loks öllum þeim, sem lagt höfðu hönd að því að Ísland hefir eignast þetta vandaða varðskip. Var síðan drukkin skál "Ægis". Undir borðum mæltu og nokkur orð Magnús Torfason sýslum., forseti Sameinaðs Alþingis, og Karl Einarsson fyrv. sýslumaður.
Að snæðingi loknum hleypti skipstjóri af tveimur línubyssum, sem "Ægir" er útbúinn með, ef á hann er kallað til björgunarstarfsemi. Gestirnir skoðuðu skipið hátt og lágt, og Iuku menn lofsorði á það einum rómi, hve útbúnaður allur virtist fullkominn og skipið fagurt og vistlegt, ekki sist vistarverur skipshafnar, sem eru óvenjulega bjartar og rúmgóðar. Allmargir gestanna voru fluttir út í Geirshólma, og klifu upp á Hólmann. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur aftur og komið þangað um miðnætti. Var förin að öllu leyti hin ánægjulegasta. "Ægir" er fallegt skip; er hann 170 feta langur, 29 fet á breidd, dýptin 17,5 og vjelin hefur 1300 hestaöfl. Skipið er hitað með rafmagni, hefur fullkomna miðunarstöð og hraðamæli af nýjustu gerð, sem er hið mesta þing. Auk þessa eru á skipnu tvær 75 cm. fallbyssur, tveir öflugir ljóskastarar, dráttaráhöld og dælur. Ættu þau björgunaráhöld að koma að góðum notum, þar sem staðhættir leyfa, að varðskipið geti nálgast svo strandað skip, að þeim verði komið við.

Ægir. Júlí 1929.
 

Ægir í smíðum hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. Verið er að gefa því nafn.  (C) LHG.
 
Ægir við komuna til Reykjavíkur 14 júlí árið 1929.              (C) Skafti Guðjónsson.
 
Ægir með landhelgisbrjót við bryggju í Neskaupstað árið 1956. Ljósmyndari óþekktur.


                                      Sjóminjasafn

Svend Aage Malmberg haffræðingur ritar grein í Morgunblaðið í fyrri viku. Þar leggur hann til að varðskipið Ægir verði ekki selt til niðurrifs, eins og nú mun fyrirhugað, heldur varðveitt sem safngripur  á sérstöku sjóminjasafni. "Ægir yrði þannig fyrsti vísir að sérstöku sjóminjasafni á Íslandi og mundi vonandi efla áframhaldandi myndun sjóminjasafns á breiðum grundvelli. Slíkt safn gæti svo verið sem deild í Þjóðminjasafni Íslands eða sem borgarsafn í Beykjavík" segir greinarhöfundur. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem áreiðanlega er vert að gefa fyllsta gaum.
Sæferðaþjóð eins og Íslendingar þarf auðvitað að eiga sjóminjasafn, þar sem varðveittar séu minjar um Íslenzka sjómennsku frá ýmsum tímum. Auk veiðarfæra og annarra tækja er að sjómennsku lúta þyrfti að varð veita á slíku safni, skip frá ýmsum tímabilum Íslenzkrar sjóferðasögu, helzt í heilu líki, en að öðrum kosti smækkuð líkön. Slík söfn eru til í öðrum löndum, og það væri meira en æskilegt að unnt reyndist að koma slíku safni á fót hér. Hugmyndir um stofnun sérstaks sjóminjasafns hafa oft komið fram áður, þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum.
En hinu má þó ekki gleyma að sjóminjar alls konar sem heima ættu á sjóminjasafni, eru til víðs vegar um land í góðri varðveizlu. Á Þjóðminjasafni er sjóminjadeild, og byggðasöfn víðs vegar um land eiga álitlegt safn sjóminja, sérstaklega þá byggðasöfnin á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Ýmis gömul skip og skipagerðir hafa verið tekin til varðveizlu, norður í Hrútafirði er hákarlaskipið Ófeigur geymt í sérstöku húsi, austur að Skógum er Péturseyjan varðveitt, vestur á Ísafirði er geymdur áttæringur í gömlum stíl. Í Þjóðminjasafninu er bátur með Engeyjarlagi; og fleiri skip hafa verið tekin til varðveizlu, þótt þeirra sé ekki hér getið. Talsverð uppistaða að sjóminjasafni er sem sagt til í landinu, en dreifð út um allt. Væru allar sjóminjar, bæði lausamunir og skip, komnar í einn stað væri það merkilegt safn, þótt auðivtað þyrfti miklu við það að auka til þess að það yrði fullkomið.
Af skiljanlegum ástæðum hefur einkum verið lagt kapp á að varðveita smærri skip, opna báta af ýmsuni gerðum, en minna hugsað um stærri skip frá síðari tímum, enda er varðveizla þeirra mikli meiri vandkvæðum bundin. Líkön munu þó víða vera til af slíkum skipum, og bætir það nokkuð úr skák, en auðvitað væri æskilegt að einhver slík skip væru líka varðveitt í heilu lagi. Gömlu togararnir frá því fyrir stríð munu nú allir horfnir úr sögunni, og er skaði að enginn þeirra skyldi vera varðveiltur til minja, jafnmikill þáttur Íslenzkrar útgerðarsögu og þeir voru. Við verðum að gæta þess að nýsköpunartogararnir fari ekki allir sömu leiðina, heldur taka einhvern þeirra til varðveizlu, meðan tími er enn til og auðvitað mundi varðskipið Ægir líka sóma sér vel á safni, bæði vegna sögu sinnar og gerðar.

Alþýðublaðið. 26 mars 1968.
Kjallaragrein. Svend Aage Malmberg Haffræðingur.
 

Teikning af Ægi.                                                                                 Óþekktur teiknari.
 
Líkan Sigurðar Jónssonar af Ægi.                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


                                         Ægir rifinn í Blyth

Varðskipið Ægir-gamli, er fyrir nokkru kominn til Blyth, þar sem hann verður hogginn í brotajárn ásamt tveimur gömlum togurum, sem hann dró með sér utan. Fyrirtækið sem annast verkið er Hughes Blockow. Frá þessu segir í brezka tímaritinu Fishing News.

Morgunblaðið. 8 ágúst 1968.

 

 

 

14.11.2023 18:17

V.b. Hallvarður Súgandi ÍS 335.

Vélbáturinn Hallvarður Súgandi ÍS 335 var smíðaður á Ísafirði árið 1908. 6,28 brl. 4 ha. Alpha vél. Eigendur voru Helgi Sigurðsson formaður á Suðureyrarmölum og Guðmundur Ásgrímsson bóndi á Gelti í Súgandafirði frá sama ári. Helgi var formaður á bátnum og var hann jafnan gerður út frá Suðureyri. Árið 1914 var báturinn ennþá í eigu þeirra Helga og Guðmundar. Engar upplýsingar hef ég um afdrif hans.
Því hefur verið haldið fram að báturinn á myndinni væri Sigurvon ÍS 304 og jafnvel að áhöfn Sigurvonar sé þarna um borð. Það gæti alveg verið, en margar af þessum gömlu heimildum eru mjög misvísandi og oft beinlínis rangar. Betra væri að hafa það sem sannara reynist ef það væri einhver möguleiki.

Úr Súgandafirði (Vestur-Ísafjarðarsýslu) er „Þjóðviljinn“ ritaði 1. nóv. þ. ,á.: „Árið, sem nú er að líða, hefir verið erfiðleikaár hér og bera þó ekki húsabyggingarnar vott um það, því að bæði hefir Friðbert Guðmundsson og Kristján Kristjánsson byggt myndarleg hús á Suðureyri sem og prestur á Stað. — Auk þess hafa verið byggð, og eru í byggingu, fjögur smærri íbúðarhús. Hvað afla snertir, aflaðist fremur vel á aðalvertíðinni (vorvertíðinni), en útkoman hjá sjómönnum þó léleg, af því að þeir seldu aflann blautan, og munu þeir ekki brenna sig á því soði aptur. Vikan, sem leið, fyrsta vetrarvikan, var einstök fiskivika. Af átta vélabátum söltuðu þá þrír úr nálega þrjátíu tunnum hver,’’og allir fiskuðu þeir vel. Heyfengur í sumar var bærilegur, en illviðriskastið, sem byrjaði með oktober, sló óhug á]menn, því að þá .gjörði víðast jarðlaust. Svo var fannfergi mikið. ,Og þann snjó er ekki farið að leysa enn“

Þjólviljinn + Þjólviljinn ungi. 24 desember 1909.
 

Vélbáturinn Hallvarður Súgandi ÍS 335 á Súgandafirði, sennilega árið 1910. (C) Byggðasafn Vestfjarða.                            Fyrstu vélbátar Súgfirðinga

Fyrstu fimm vélbátarnir sem Súgfirðingar eignuðust voru í fyrstu opnir að öðru leyti en því að þiljað var að nokkru yfir barka og skut. Þilfar var svo sett í suma þessara báta síðar og vélbátarir sem Súgfirðingar eignuðust á árunum 1908 og 1909 voru allir með þilfari en dráttarrúm þó opið.
Sumarið 1908 voru tveir vélbátar keyptir til Suðureyrar og höfðu báðir verið smíðaðir á Ísafirði. Annar þeirra fékk nafnið Hallvarður Súgandi og eigendur hans voru Helgi Sigurðsson formaður á Suðureyrarmölum og Guðmundur Ásgrímsson, bóndi á Gelti. Hinn bátinn keypti Kristján Albertsson, bóndi á Suðureyri, í félagi við mág sinn, Þórð Þórðarson á Suðureyri. Bátinn nefndu þeir Frey og varð Þórður formaður á honum. Þórður var þá á 33. Aldursári og hafði bæði verið formaður á vélbátum og skipstjóri á þilskipi í eigu Ásgeirsverslunar á Ísafirði. Haustið 1908 voru vélbátar Súgfirðinga orðnir sjö eins og hér hefur nú verið rakið. Flestir voru þeir um það bil fjórar lestir að stærð og allir með fjögurra hestafla vél. Á næstu árum hélt vélbátunum áfram að fjölga. Veturinn 1912-1913 gengu 11 heimabátar til veiða frá Suðureyri og ennfremur 3 bátar frá Dýrafirði. Að minnsta kosti tveir formannanna á Dýrafjarðarbátunum voru þó búsettir á Suðureyri. Vorið 1913 reru héðan 17 bátar og voru að jafnaði 6 menn á hverjum bát. Af þessum 102 sjómönnum voru 75 búsettir í Súgandafirði en 27 annars staðar, flestir í Dýrafirði. Fáum árum síðar komst fjöldi heimabáta, sem reru frá Suðureyri, yfir 20 og flestir munu þeir hafa orðið 22. Nokkrir aðkomubátar gengu þá líka héðan til veiða og munu hafa verið 6-8 þegar þeir voru flestir á öðrum áratug 20. aldar.
Á fyrstu árum vélbátaútgerðarinnar voru bátar sem reru frá Suðureyri að vetrinum jafnan settir á degi hverjum þegar komið var úr róðri og þá með öllum afla. Á vorin og alveg fram á haust lágu þeir hins vegar í legufærum og þá var aflinn fluttur í land á litlum árabátum. Á vélbátunum komust menn í mun fleiri róðra en áður hafði verið og aflinn varð meiri í hverri veiðiferð. Þessir bátar færðu eigendum sínum því mun meiri arð en árabátarnir höfðu gert þó að rekstrarkostnaðurinn hækkaði verulega. Um hlutaskipti á fyrstu árum vélbátaútgerðar frá Suðureyri ritar Kristján G. Þorvaldsson á þessa leið:
Á vélbátum þessum var venjulega sex manna áhöfn eins og verið hafði á sexræðingunum en skiptin urðu önnur. Í Súgandafirði voru átta staða skipti á sexræðingum. Voru tveir hlutir kallaðir dauðir hlutir en hinir mannahlutir, einn til hvers skipverja. Af dauðu hlutunum fékk formaður hálfan hlut en útgerðin einn og hálfan. Frádráttur var þá ekki nema keypt beita og salt þegar saltað var. Skipti á vélbátum urðu þau í Súgandafirði að skipt var í tíu staði með sex manna áhöfn og olía, salt og beita tekið af óskiptu. Flestir formenn tóku heilan hlut sem formannshlut í stað hálfs áður. Með þessum skiptum varð hlutur háseta mun minni en áður, miðað við aflamagn, en miklu meiri en áður sökum meiri afla.

 

Sögur & sagnir Suðureyri.

 

 

14.11.2023 08:29

Neðansjávargos suðvestur af Heimaey.

Í dag, 14 nóvember, eru liðin 60 ár frá mesta neðansjávareldgosi við Ísland á sögulegum tíma. Það var rúmlega sjö að morgni hinn 14 nóvember árið 1963 að skipverjar á Vestmannaeyjabátnum Ísleifi ll VE 36 urðu varir við ólgu og gufubólstra í sjónum um 3 sjómílur vestur af Geirfugladrangi. Þessi eldsumbrot hlóðu upp stóra eyju sem fékk nafnið Surtsey. Það gaus einnig á nokkrum stöðum í grennd við eyjuna og aðrar eyjur mynduðust, en þær hurfu fljótt vegna ágangs sjávar. Surtseyjargosið stóð yfir í tæplega 4 ár.

Farþega og flutningaskipið Gullfoss á siglingu við gosstaðinn 17 nóvember 1963. Mynd á póstkorti.                        Neðansjávargos SV af Eyjum
                   Eyja að myndast

Í Gærmorgun kl. 7.15 komu skipverjar á Ísleifi frá Vestmannaeyjum auga á neðansjávargos 3 sjómílur vestur frá Geirfuglaskeri. Hélzt gosið í allan gærdag og þar til síðast fréttist. Gýs þarna á 65 faðma dýpi á Hraununum og stendur gosmökkurinn 20 þús fet upp í loftið eða 6 km, samkv. mælingum sem gerðar voru í gær af veðurstofunni, með radar á Keflavík og úr flugvélum. Þarna hefur myndazt allt að 800 m. löng sprunga á hafsbotni og þeytir hún upp hrauni á tveim stöðum, en það er svo laust í sér að það er orðið að mestu að gjalli og ösku uppi í strókunum, en þó nokkuð stórar bombur í því. Nokkrar eldglæringar hafa sézt í gosmekkinum. Líklegt er talið að það séu eldingar sem myndast á venjulegan hátt, þegar gufan fer svona hratt upp, en ekki hraunslettur, skv. skýringu Páls Bergþórssonar, veðurfræðings. Einnig bylur hagl með vikri í á flugvélum og bátum í kring, en það myndast á sama hátt og venjulegt hagl í kuldanum utan um vikurinn. Fyrir tveimur dögum fundu menn í Vík í Mýrdal brennisteinsfýlu. Þeir furðuðu sig á því, þar sem þeir eiga fremur von á gosfýlu af jöklum en hafi. Sigurður Þórarinsson kvað þetta mjög merkilegt, og vel líklegt að gufur hafi verið farnar að berast af neðansjávargosstöðvunum það löngu áður. Nýju eldstöðvarnar virðast vera á sömu sprungu og þeirri er Vestmannaeyjar hafa myndazt úr. Þær eru líka á norðaustur  suðvesturlínunni, sem nær öll eldgos á Íslandi hafa orðið á og nú síðast hafa á skömmum tíma orðið á þrjú eldgos, í Öskju, Heklu og við Vestmannaeyjar. Þetta sýnir vel að ísland er alveg jafn „lifandi“ og liðnar aldir, að því er Sigurður Þórarinsson tjáði Mbl. Á þessari öld erum við búin að ná meðaltali gosa, sem er á 5 ára fresti. 12 gos hafa orðið á þessari öld: 1903 á Vatnajökli, 1913 í Mundafelli austan við Heklu, 1918 í Kötlu, 1922 í Vatnajökli, á Öskjusvæðinu 4 gos 1922—1926, 1934 í Grímsvötnum, Hekla 1947 og Askja 1961, sem sagt ,12 gos á 60 árum. Sigurður Þórarinsson flaug aftur yfir eldstöðvarnar síðdegis í gær. Var gosið álíka mikið, en honum sýndist sjórinn í kring benda til þess að eyja sé að stinga upp kollinum. Engar eldglæringar sáust. Í gærkvöldi fór Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, á varðskipinu Albert kringum gosið. Sagði hann að þá hefðu greinilega komið stöku glóandi hraundellur upp með gjallinu, en öskudreif verið lítil. Venjulega hafa miklir jarðskjálftar fylgt eldgosum á þessum slóðum, en nú hafa engir jarðskjálftar mælzt, hvorki í Reykjavík eða Vík í Mýrdal.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1963.
 

Við upphaf eldgossins.                                                              Ljósmyndari óþekktur.
 
Fyrstu dagar gossins. Eyjan farin að myndast.                     Ljósmyndari óþekktur.

                                                                    
                                           Surtseyjargosið

Það voru skipverjar á Ísleifi ll sem tilkynntu um neðansjávareldgos að morgni 14. nóvember 1963. Þá mældu þeir sjávarhita í hálfrar mílu (um 900 metra) fjarlægð í um 10°C. Gosið magnaðist hratt og fjórum tímum eftir að tilkynnt var um gosið hafði gosmökkurinn náð 3.500 metra hæð. Strax daginn eftir var gosmökkurinn kominn í rúmlega 9.000 metra hæð og upp hafði hlaðist gjóskubunki sem náði 10 metra upp fyrir sjávarmál þar sem áður var 130 metra sjávardýpi og því er líklegt að gosið hafi hafist nokkrum dögum áður en þess varð fyrst vart. Í suðvestan átt þann 12. nóvember fannst brennisteinslykt í lofti við Vík í Mýrdal en engra jarðhræringa hafði orðið vart dagana fyrir uppkomu gossins. Gosið stóð með hléum fram til 5. júní 1967 eða í um það bil þrjú og hálft ár. Eyjan er um 20 km suðvestur af Heimaey, eða um 30 km suðvestur af Landeyjasandi á meginlandi Íslands.
Við gosið varð til syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum, og jafnframt á Íslandi, en miðpunktur hennar er 63°18'N, 20°36'W. Hún er jafnframt eina eyjan sem hefur myndast á sögulegum tíma við Ísland og myndaðist hún í mesta neðansjávareldgosi sem sögur fara af.
Eyjan fékk nafnið Surtsey og er nafnið tekið úr norrænni goðafræði. Minnst er á Surt hinn svarta í Völuspá: „Surtr ferr sunnan; með sviga lævi“. Strax þegar eyjan myndaðist sáu vísindamenn hversu frábært tækifæri þeir höfðu til þess að rannsaka nýja eyju og landnám lífs á eynni. Surtsey var því friðlýst samkvæmt lögum um náttúruvernd (lög 44/1999). Vísindamenn hafa því tækifæri til að fylgjast með hvernig líf tekur land og þróast á nýjum stað. Umferð í Surtsey er aðeins leyfð í vísindaskyni og þarf leyfi Surtseyjarfélagsins til að heimsækja eyjuna.
Nokkrar gossprungur opnuðust við Surtsey á meðan á gosinu stóð. Mánuði eftir upphaf gossins opnaðist sprunga norðaustan við Surtsey sem gefið var nafnið Surtla en engin eyja myndaðist. Árið 1965 mynduðust tvær eyjar, Syrtlingur austnorðaustan við Surtsey og Jólnir suðvestan Surtseyjar. Báðar eyjarnar létu undan ágangi Norður-Atlantshafsins og hurfu í hafið.

Vefsíðan Heimaslóð.

 

                                                                                                                                                                   

 

07.11.2023 17:31

1038. Gídeon VE 7. TFYL.

Vélskipið Gídeon VE 7 var smíðaður hjá V.E.B. Elbewerft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967. 256 brl, 104 nt. 660 ha. Lister vél. 32,43 x 7,22 x 3,61 m. Skipaskrárnúmer 1038. Eigandi var Gídeon h.f. (Gísli Jónasson og fl.) í Vestmannaeyjum frá sama ári. Gídeon var eitt af 18 systurskipum sem Ríkissjóður Íslands samdi um smíði á í A-Þýskalandi á árunum 1964-67. Skipin voru smíðuð eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. Frá 31 desember 1969 er eigandi skipsins Álftafell h.f. (Guðmundur Björnsson og fl.) á Stöðvarfirði, hét þá Álftafell SU 101. Skipið var selt til Noregs og tekið af skipaskrá 3 maí árið 1976.
 

Vélskipið Gídeon VE 7 á leið inn til Vestmannaeyja.          (C) Bragi Guðmundsson.                                        Gídeon VE 7

Alltaf er nú gaman að labba niður við sjó, en aldrei eins og þegar nýtt og glæsilegt skip bætist í flotann og siglir að landi, fánum skreytt. Og Gídeon þeirra Gerðisbræðra og Gísla Jónassonar er glæsilegur farkostur og sannarlegt augnayndi að horfa á hann við bólverkið í Friðarhöfninni. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lýsa skipinu sérstaklega, þar sem ég geri ráð fyrir að flestir lesenda minna og þeir er áhuga hafa á útgerð hafi farið um borð og skoðað skipið í hólf og gólf. Ég vil svo óska eigendum Gideons til hamingju og vona að þeim farnist vel og gæfa og gengi fylgi skipi og áhöfn.

Neðan frá sjó.
Bj. Guðmundsson.
Fylkir. 21 tbl. 16 júní 1967.
 

Fyrirkomulagsteikning af skipi smíðuðu í Boizenburg í A- Þýskalandi.     (C) HRB.                     Bátur til Stöðvarfjarðar

Nýlega hefur v.s. Gideon VE 7 verið keyptur til Stöðvarfjarðar. Það er nýstofnað hlutafélag, Álftafell hf., sem kaupir skipið. Forstjóri þess er Guðmundur Björnsson. Gideon er nýr bátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi 1967, Hann er 256 lestir að stærð. Skipstjóri á Gideon verður Jens Albertsson frá Krossi á Berufjarðarströnd. Verður nú að telja, að Stöðfirðingar séu bærilega settir hvað skipastól snertir.

Austurland. 14 febrúar 1969.
 

Vélskipið Álftafell SU 101 á leið inn til Vestmannaeyja.        (C) Sigurgeir Jónasson.                                  3 skip seld til Noregs

Nýlega hefur verið veitt leyfi til að selja Þorstein RE 303 og Álftafell SU 101 til Noregs. Fyrir áramót var einnig gefið leyfi til sölu á Lofti Baldvinssyni EA 24, einnig til Noregs, en ekki mun endanlega gengið frá þeim kaupum enn. Þá var veitt leyfi til sölu á Faxaborg GK 89 og var hún seld í desember s.l. Ekki hefur verið sótt um fleiri söluleyfi til sjávarútvegsráðuneytis. Þorsteinn RE 303 er 300 lesta stálskip smíðað í Harstad í Noregi 1967, en eigandi er Leifur h.f., Reykjavík. Álftafell SU er rúmlega tvö hundruð lesta stálskip, smíðað í Boizenburg í A-Þýzkalandi 1967, en eigandi er Álftafell hf., Stöðvarfirði. Loftur Baldvinsson EA 24 er tæplega fjögur hundruð lesta stálskip, smíðaður í  Hommelvík í Noregi árið 1968. Eigandi er Aðalsteinn Loftsson, Dalvík.

Tíminn. 29 apríl 1976.

06.11.2023 11:50

2883. Sigurður VE 15. TFMR.

Uppsjávarveiðiskipið Sigurður VE 15 var smíðaður hjá Celiktrans Deniz Insaat Ltd í Istanbúl í Tyrklandi árið 2014. 3.707 brl, 1.112 nt. 6.120 ha. Wartsilä 9L32, 4.500 Kw. 80,3 x 17,0 x 9,6 m. Smíðanúmer CS 44. Norska útgerðarfélagið Magnarson A/S í Torangsvaag, samdi um smíði þessa skips, en í ágúst 2013, gekk Ísfélagið h.f. í Vestmannaeyjum  inn í kaupin. Mun hafa heitið Magnarson í upphafi smíðatíma. Sigurður kom til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja í júlí 2014. Sigurður VE 15 er mikið og öflugt uppsjávarveiðiskip og fallegt eins og systurskip hans hér á landi.
 

Sigurður VE 15 við Grandagarð í Reykjavíkurhöfn.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Sigurður VE 15. Myndin sennilega tekin við komu skipsins til Vestmannaeyja. Ljósmyndari óþekktur.


                                            Nýr Sigurður VE
   Meðal öflugustu uppsjávarskipa flotans

 Í júlímánuði síðastliðnum bættist í flota landsmanna nýtt og glæsilegt uppsjávarskip þegar Ísfélag Vestmanneyja tók á móti Sigurði VE-15 sem smíðaður var í Tyrklandi. Fyrir tveimur árum bættist annað nýtt uppsjávarskip í flota fyrirtækisins þegar Heimaey VE-1 kom til Eyja og með komu Sigurðar VE hefur fyrirtækið lokið stórum áfanga í endurnýjun skipastóls þess. Að hætti Eyjamanna var mikið um dýrðir þegar Sigurður VE lagðist að bryggju enda mun skipið gegna veigamiklu hlutverki í hráefnisöflun fyrir vinnslur Ísfélagsins í Vestmanneyjum og á Þórshöfn. Sigurður VE-15 er sínu stærri en Heimaey VE eða 80 metrar að lengd og 17 metrar á breidd. Skipið er búið öllum besta búnaði til uppsjávarveiða og getur það að hámarki borið um 3000 tonna afla. Öflugt skjókælikerfi er í skipinu og 12 sjókælitankar. Skipið er knúið 4500 kW aðalvél. Vistarverur eru fyrir fyrir 22 manna áhöfn í 15 klefum og er vel búið að áhöfn hvert sem litið er í skipinu, hvort heldur er í vistarverum eða vinnurýmum. Hörður Már Guðmundsson er skipstjóri á Sigurði VE en hann var áður með Þorstein ÞH. Hörður hafði nýlokið fjórða túrnum á makríl frá því skipið kom, sem jafnframt var sá stærsti hvað aflamagn snertir eða um 800 tonn. „Það gekk mjög vel í þessum túr og við fengum stórt kast í restina á túrnum en alla jafna viljum við vera með um 5-600 tonn í einu, sem er hæfilegur skammtur fyrir landvinnsluna að ráða við,“ segir Hörður Már en skipið landaði úr sínum fyrsta túr á Þórshöfn og síðan næstu þremur förmum í Vestmannaeyjum.
Skipstjórinn segir sjókælikerfið meðal þess sem skipi Sigurði VE framar öðrum uppsjávarskipum. „Sjókælikerfið er mjög stórt og öflugt en síðan er önnur nýlunda að skipið er hannað með það fyrir augum að pokinn er ekki tekinn fram með síðunni eins og hefðbundið er á uppsjávarskipunum heldur að skutnum þar sem eru krani og dælubúnaður. Menn hafa verið að reyna þetta í skipum hér í flotanum en Sigurður VE er hannaður með þetta fyrirkomulag sérstaklega fyrir augum og hefur virkað vel í þessum fyrstu túrum,“ segir Hörður Már og bætir við að stærsta atriðið við nýja skipið sé auðvitað stærð þess. „Það er alls staðar mikið rými og skipið er á allan hátt mjög öflugt.“ Hörður Már reiknar með að vera á makrílveiðum fram yfir mánaðamótin en síðan taka við síldveiðar og loðnuveiðar í vetur. Í flota Ísfélags Vestmanneyja eru nú fjögur uppsjávarskip, þ.e. Álsey VE og Júpíter ÞH, auk Sigurðar VE og Heimaeyjar VE. Ísfélagið gerir einnig út togskipin Dala-Rafn VE og Suðurey VE. Fyrr á þessu ári seldi Ísfélagið tvö uppsjávar skip til Grænlands, þ.e Guðmund VE og Þorstein ÞH. Ísfélagið greiðir á þessu ári hálfan annan milljarð í tekjuskatt og veiðileyfagjöld og hefur félagið sagt í tilkynningum að endurnýjun í skipaflotanum sé liður í að auka hagræðingu til að mæta þessum kostnaði.

Ægir. 7 tbl. 1 júlí 2014.

03.11.2023 10:43

B.v. Akurey AK 77. TFHC.

Nýsköpunartogarinn Akurey AK 77 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley í Englandi árið 1947. Hét fyrst Akurey RE 95 og var í eigu h.f. Akurey (Oddur Helgason og fl.) í Reykjavík. 655 brl. 1.000 ha. 3 þenslu gufuvél, smíðuð hjá Charles D Holmes & Co í Hull. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 779. Skipaskrárnúmer 1. Fyrsti skipstjóri var Kristján Kristjánsson. Akurey kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 3 ágúst 1947. Um miðjan ágústmánuð sama ár hélt Akurey til veiða á Grænlandsmið, en lítill árangur varð og fékk skipið sama og engan afla á þeim slóðum. Sagt hefur verið að Akurey hafi verið fyrsti íslenski togarinn til að reyna veiðar á Grænlandsmiðum, en það er ekki rétt. Haustið 1914, hélt togari Íslandsfélagsins, Apríl RE 151 til veiða þangað en varð lítið ágengt sökum mikils ísreks og kolaforði skipsins á þrotum, svo haldið var heim á leið. Skipstjóri á Apríl var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti). Togarinn var seldur í júlí 1951, Bæjarútgerð Akraness h.f, sama nafn en skráningarnúmer AK 77. Akurey gerði það gott á Grænlandsmiðum síðar, t.d. sumarið 1957 fékk togarinn fullfermi af karfa eftir 5 daga veiði á miðunum út af Julianehåb. Nýsköpunartogararnir voru öflug skip og fiskuðu mikið. Uppúr 1952 var sótt mikið á fjarlæg mið, við Grænland og þá yfirleitt veitt í salt og voru þá veiðiferðirnar langar. Svo var mikið sótt á miðin við Nýfundnaland (Ritubanka) um 1958 og fram yfir 1960. Fylltu skipin sig af karfa, jafnvel á 2 til 3 sólarhringum. Togarinn var seldur í febrúar 1964, Sigurd Simonsen skipstjóra og útgerðarmanni í Fuglafirði í Færeyjum. Kaupin gengu til baka síðar það ár, því ekki fékkst innflutningsleyfi fyrir skipið í Færeyjum, því það þótti of gamalt. Til stóð að selja togarann til Argentínu en það gekk ekki eftir. Akurey var að lokum seld í júlí 1966, Bjarne Benediktsen í Gibostad í N-Noregi, hét þá Akeroy. Frá 1967-68 í eigu Erling Jul Petersen í Tromsö í N-Noregi, hét þá Petrel. Ný vél (1968) 1.500 ha. Deutz SBV8M545 díesel vél. Var þar um tíma notað til olíuleitar og jafnframt til jarðskjálftarannsókna. Var um tíma í eigu Bjarne Rongos í Noregi. Frá 1976 í eigu Techno Navigation of Sillery í Quebec í Kanada, hét Petrel V. Var notað til rannsókna í sjávarlíffræði við austurströnd Kanada. Frá 2000 í eigu Atlantic Towing Ltd í St. John´s á Nýfundnalandi, hét þá Cape Harrison. Frá 2007 í eigu Canadian Sailing Expedition í Halifax, fékk þá nafnið Caledonia. Skipinu var breytt í þrímastra seglskip og sigldi með farþega aðallega um Karíbahafið. Núverandi eigendur Caledonia munu vera Caterpillar Financial Services í Burlington í Kanada. Í dag er Caledonia fljótandi veitingastaður. Ég held að staðurinn heiti“The Tall Ship Caledonia resturant“, og liggur við bryggju í Boston, Massachusetts í Bandaríkjunum.
Sennilegt þykir að Akurey sé eini nýsköpunartogarinn sem til er í dag. Auðvitað er búið að endursmíða mikið í því, en skrokkurinn er að mestu sá sami og í upphafi. Það gæti verið að annar nýsköpunartogari sé til ennþá, og þá í Grikklandi, fyrrum Elliðaey VE 10, en þangað var skipið selt á sínum tíma.

Firmað Fiskveiðahlutafélagið Akurey á Akranesi var skráð árið 1951 og í stjórn þess voru:,
Jón Guðmundsson, Þorgeir Jósepsson og Hallfreður Guðmundsson, allir búsettir á Akranesi. Þetta félag hefur sjálfsagt komið að útgerðar Akureyjar ásamt Bæjarútgerð Akraness. Í íslensku sjómannaalmanökunum frá 1952-66, er Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. H.f. Akurey og Bæjarútgerð Akraness hafa þá verið útgerðaraðilar togarans, ekki skráðir eigendur.

B.v. Akurey AK 77 í heimahöfn á Akranesi.                               (C) Ólafur Árnason.


       Bæjarútgerð Akraness kaupir togarann Akurey

Bæjarútgerð Akraness hefur samið um kaup á togaranum Akurey, og mun í ráði, að togarinn verði afhentur Akurnesingum þegar hann kemur frá Þýzkalandi, en hann er nú á leiðinni þaðan. Akurey er einn af nýsköpunartogurunum, en aðaleigandi hlutafélagsins, sem átti skipið, er Oddur Helgason, útgerðarmaður í Reykjavík. Að undanförnu hafa forustumenn bæjarútgerðarinnar á Akranesi unnið að samningum um togarakaupin, og mun samningum nú vera lokið, en aðeins eftir að ganga frá ríkisábyrgð fyrir kaupunum. Kaupverð togarans mun vera 5,8 milljónir króna, og þar af þarf bæjarútgerð Akraness að greiða strax 800 þúsund krónur. Á bæjarútgerð Akraness þá tvo togara, Bjarna Ólafson og Akurey; en sennilega mun verða skipt um nafn á Akurey, þegar hún flyzt til Akraness; en ekki mun vera búið að ákveða hið nýja nafn.

Alþýðublaðið. 23 október 1951.

 

B.v. Akurey RE 95.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Akurey AK 77 í heimahöfn með fullfermi.                 (C) Sverrir Sighvatsson.                       Bæjarútgerð Akraness 10 ára

Það hljóp mörgum Akurnesingum kapp í kinn hinn 29. júlí 1947 þegar nýsköpunartogarinn Bjarni Ólafsson renndi fánum skreyttur í blíðu veðri að hafnargarðinum. Fögnuður fólksins, ungra sem gamalla, var óblandinn og innilegur. Fyrsti togari Akurnesinga var fallegt skip og bæjarstjórnin valdi honum einróma nafn Bjarna heitins Ólafssonar skipstjóra frá Litla-Teigi. Það var mikil viðurkenning á lífsstarfi Bjarna, eins orkudjarfasta og harðduglegasta manns sem lifað hefur á Akranesi. Bjarni var skipstjóri frá tvítugsaldri á eigin skipum til hinztu stundar og alltaf í fremstu víglínu á hafinu. Togarinn Bjarni Ólafsson var keyptur hingað á vegum bæjarsjóðs Akraness fyrir fulltingi ríkisins og er því bæjarútgerð Akraness réttra 10 ára í dag. Rúmum fjórum árum síðar í nóvember 1951 var keyptur hingað togarinn Akurey frá samnefndu félagi í Reykjavík, einnig fyrir fulltingi ríkisins. Síðan hafa bæjartogararnir verið tveir. Þess gætti framan af að skoðanir manna voru skiptar um togarakaup bæjarins. En reynslan hefur sýnt og sannað að hvergi nærri er einhlýtt að eiga góðan bátaflota. Kaupstaðirnir þurfa einnig að eiga stærri skip, sem geta sótt á fjarlægari mið og því takmarki hafa Akurnesingar náð, hvernig svo sem rætist úr um bæjarútgerð þeirra.
Í fyrstu varð að fá flesta mennina að til togarastarfanna en nú mun svo komið að manna mætti þriðja togarann með vönum Akurnesingum til þessara starfa. Skipstjóri á Bjarna hefur verið nær óslitið frá byrjun Jónmundur Gíslason úr Reykjavík, farsæll maður og vel látinn. En á Akurey hefur Kristján Kristjánsson frá Hafnarfirði verið skipstjóri síðan í febrúar 1955 og reyndist ötull og aflasæll. í tilefni af afmælinu átti blaðið tal við Hallfreð Guðmundsson formann útgerðarráðs Akraness. Hallfreður sagði, að fáir gerðu sér ljóst hversu mikil lyftistöng togaraútgerðin hefði verið Akraneskaupstað eins og svo mörgum öðrum bæjarfélögum hér á landi, þar sem afkoma fólksins hefði byggzt á sjósókn fyrst og fremst. Hins vegar kvaðst hann ekki vilja draga neina dul á það, að allir þeir, er staðið hefðu að kaupum þessara tveggja togara hefðu gert sér meiri vonir um afkomu þeirra en almenningi virtist nú í fljótu bragði hafa orðið. Það var hér á fyrstu tugum þessarar aldar mikið rætt og ritað um glæsilega afkomu togaraútgerðarinnar, og auðlegð þeirra manna, er við hana fengust, heldur Hallfreður áfram. Og víst var það rétt, sem betur fór, að víðast var afkoma þeirra, er fengust við togaraútgerð mjög hagstæð, og margur hornsteinninn var lagður í uppbyggingu þjóðfélagsins fyrir tilkomu togaranna.
Svo er þetta enn í dag, enda þótt þess hörmulega misskilnings hafi gætt hjá allt of mörgum, að togaraútgerð og öll útgerð yfirleitt væri orðin þjóðfélagslegur baggi, vegna óhagstæðrar útkomu á pappírnum. Hinu virðast of fáir gera sér grein fyrir, að velmegun almennings byggist fyrst og fremst á því og því einu, að hver muðar fái réttlátt kaup reglulega goldið. Lífsafkoma Akurnesinga hefur fyrr og síðar verið háð sjávarafla. Akurnesingum hefur verið það Ijóst, að nauðsyn ber til þess að auka fiskiflotann með sem afkastamestum skipum, svo atvinna ykist eftir því sem fólkinu fjölgaði í bænum. Því var það, að þeir stóðu saman um að eignast hinn glæsilega togara, Bjarna Ólafsson og síðar Akurey. Var svo litið á, að hagstæðara væri að reka tvo togara en einn og því var ráðist í að kaupa einnig Akureyna. Hins vegar hafa aðstæður síðan breytzt í óhagstæðara horf. En þó að ekki hafi verið gróði á pappírnum á rekstri togara Bæjarútgerðar Akraness sést bezt á eftirfarandi tölum hve gífurleg verðmæti og atvinnu togararnir hafa skipað. Bjarni Ólafsson hefur frá því að hann kom 1947 lagt á land alls tæp 47 þús. tonn fiskjar, sem að verðmæti er tæp 41 milljón króna. Er hér miðað við seldan fisk upp úr skipi, utan lands og innan. Og vinnulaun hans nema 20.7 millj. kr. Á Akranesi hefur hann lagt á land 36.4 þús. tonn. Frá því að Akurey kom í nóv. 1951 hefur hún veitt alls 26.7 þús. tonn, er að verðmæti hefur numið 23.7 millj. kr. eins og áður miðað við seldan afla upp úr skipi. Af þessum afla hafa 24.4 þús. tonn verið lögð á land. Greitt hefur verið í vinnulaun um borð í skipinu og við uppskipun 12.9 millj. kr. Hér eru þó ekki talin með þau vinnulaun, er greidd hafa verið fyrir viðgerðir, en það er gífurleg upphæð. Bæði skipin hafa lagt á land hérlendis 60.9 millj. kr. og greitt í vinnulaun 33.6 millj. kr., viðgerðir ekki taldar með. Hallfreður sagði að lokum, að lesendur gætu séð af þessum tölum, hve mikla þýðingu togararnir hefðu haft fyrir allt atvinnulíf Akraness. Í útgerðarráði Akraness eiga sæti auk Hallfreðs, sem er formaður, Sigurður Guðmundsson og Ólafur B. Bjömsson.

Sjómannadagsblaðið Víkingur. 1 október 1957.
 

Skipverjar á b/v Akurey RE 95, árið 1948. Aftari röð frá vinstri: Guðjón Eyjólfsson, Sigursteinn Magnússon, Ólafur Ingvarsson, Ágúst Jónsson, Pétur Jóhannsson, Guðmundur Helgason, Sighvatur Sigurjónsson, Karlvel Sigurgeirsson, Þorvaldur Sigurgeirsson, Guðjón Kristjánsson, Jón Kristjánsson, Axel Siggeirsson, Hans Hansson, Þorsteinn Ágústsson, Rafn Kristjánsson. Fremri röð, frá vinstri: Jörgen Kr. Jónsson, Hilmar Jónsson, bátsmaður, Sigurður Tómasson, 2. stýrimaður, Jóhann Magnússon, 1. stýrimaður, Kristján Kristjánsson, skipstjóri, Eyjólfur Einarsson, 1. vélstjóri, Einar Th. Guðmundsson, 3. vélstjóri, Jón Albertsson, kyndari, Kristján Ásgeirsson, 1. matsveinn, Valdimar Einarsson.

Akurey AK 77 og Bjarni Ólafsson AK 67 í Reykjavíkurhöfn.  Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Akurey AK 77 við bryggju í Færeyjum.                            Ljósmyndari óþekktur.               Verður Akurey seld til Færeyja?
 Spjallað við tilvonandi kaupanda, Sigurd Simonsen

Togarinn Akurey, sem legið hefur við festar í Hvalfirði síðastliðin 2 ár og safnað á sig þangi og kræklingi, er nú kominn upp í slipp í Reykjavík. Þaralagið hefur verið hreinsað af botni skipsins, og er dráttarbrautin, frá þeim stað, sem hún stendur á, og allt niður í fjöru, þakin sjávardýrum og gróðri. Þegar fréttamaður og ljósmyndari Mbl. komu í heimsókn á athafnasvæði Slippfélagsins í gær, unnu menn að því að sjóða ryð úr kælivatnssigtunum. Í sama mund bar að Pétur Wiegelund, verkstjóra, ásamt færeyskum skipstjóra, sem kom til Reykjavíkur með Drottningunni nokkrum klukkustundum áður. Skipstjóri þessi, Sigurd Simonsen, er kominn hér þeirra erinda að festa kaup á Akurey, sem verið hefur föl um nokkurt skeið. Hann talar ágæta íslenzku, enda hefur hann oft komið hingað, í fyrsta sinn á skútu, árið 1927, þá 14 ára. Er Simonsen hefur skoðað togarann, spyrjum við hann, hvernig honum lítist á gripinn. „Mjög vel. Mér virðist þetta vera bezta skip, og er ákveðinn í því að kaupa það. Ég held, að mér muni semja við eigendurna. Ef svo fer kemur áhöfn frá Færeyjum með næstu ferð Drottningarinnar og við siglum Akurey til Fuglafjarðar á Austurey. Smávægilega viðgerð þarf að gera á skipinu fyrst, svo að, það fullnægi kröfum Lloyds.“ „Ætlar þú að gera togarann út frá heimabæ þínum, Fuglafirði?“ „Já, þar er bezta höfn í Færeyjum. Í Fuglafirði búa um 1300 manns. Þar er einn togari fyrir. Saltfiskverkun er þar mikil, en aðeins eitt lítið frystihús. Við hyggjumst stunda veiðar í salt, einkum við Grænland. Þó hefðum við farið einn túr til Nýfundnalands, ef Akurey hefði verið tilbúin til afhendingar í dag, því þar eru allir færeysku togararnir nú. Eftir 3 vikur verður það orðið of sent." „Hverjir verða með þér í kaupum Akureyjar?“ „Synir mínir tveir, Árni og Sigurd. Þeir eru báðir stýrimenn á togurum. Við erum bjartsýnir og munum hætta öllum eignum okkar í þetta fyrirtæki. Ekki verða aðrir eigendur." „Hefur þú verið skipstjóri á togara að undanförnu?" „Nei, síðustu 10 árin, hef ég verið skipstjóri á dönsku flutningaskipi, sem heldur uppi ferðum milli Danmerkur og ýmissa hafna í Færeyjum. Áður var ég hins vegar togaraskipstjóri um 14 ára skeið. Vorum við þá á ýmsum miðum, einkum við Ísland, Bjarnarey, Svalbarð og í Hvítahafi. Var ýmist fiskað í salt eða ís.“ „Eru togararnir færeysku oftast á saltfiskveiðum?" „Já, þær þykja hagkvæmastar fyrir togarana okkar. Hins vegar sigla bátarnir yfirleitt með afla sinn ísaðan til Bretlands. Þeir eru flestir 250 til 300 tonn og eru að veiðum 10 til 12 daga. Meðalafli þeirra er 1000—1200 kitt, sem þeir selja á 500—700 sterlings pund. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur Færeyinga, að íslendingar lækki ekki verðið á útflutningsfiski sínum. Við höfum alltaf verið tryggir ykkur og jafnframt borið mikið traust til íslenzku þjóðarinnar og erum því ekki mjög kvíðnir, en ef íslendingar lækkuðu t. d. verð á saltfiski, yrði það alvarlegur búhnekkur fyrir okkur.“ „Hafa ekki mjög margir færeyskir sjómenn komið til Íslands? “ „Jú, mikill fjöldi og sumir til að vinna hjá íslendingum, eins og kunnugt er. Færeyingar byggja alltof fá skip, en hins vegar eru flestir sjómenn. Þessvegna eru sjómannslaun í Færeyjum afar lá, eða aðeins um 1000 færeyskar krónur. (um 6300 isl. kr.). Á Íslandi er færeyskum sjómönnum boðið miklu hærra kaup, 1800 til 2000 kr.“ „Ætlar þú að dveljast hér á meðan viðgerðin á Akurey fer fram, ef semst um kaupin?“ „Nei, ég þarf ekki að gera það. Ég fer heim og sæki skipshöfnina. Ég treysti Pétri Wiegelund fullkomlega til að sjá um að allt sé gert eins vel úr garði og unnt er. Hamn er gamall og góður vinur minn.“  

Morgunblaðið. 1 febrúar 1964.
 

Petrel.                                                                                                     (C) Karl Karlsen.
 
Petrel V.                                                                                                 (C) Fred Boels.
 
Cape Harrison í Halifax árið 2002.                                         Ljósmyndari óþekktur.
 
Caledonia undir fullum seglum.            Mynd úr safni Óskars Franz Óskarssonar.
 
Fljótandi veitingahúsið "The Tall Ship Caledonia við bryggju í Boston.  Ljósmyndari óþekktur.
           Togarinn Akurey til Noregs

Togarinn Akurey verður seldur til Noregs og voru kaupandinn og bæjarstjóri Akraness að ganga frá samningum um söluna í gær. Þar sem því var ekki lokið fengust ekki nánari upplýsingar um söluna. Kaupandinn er Bjarne Benediktsen, útgerðarmaður frá Tromsö í Noregi, og mun hann ætla að gera Akurey út til trollveiða og láta hann leggja upp í Hammerfest. Akurey AK 77 er stálskip, byggt í Englandi árið 1947. Togarinn er nú í slippnum í Reykjavík.

Morgunblaðið. 29 júlí 1966.

Akurey AK 77. Líkan Óttars Guðmundssonar.                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
 
Fyrirkomulagsteikning af Akurey RE 95 / AK 77.            (C) Óttar Guðmundsson.
 
B.v. Akurey RE 95.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

       „Akurey“ kom hingað á sunnudag


Enn einn hinna glæsilegu nýsköpunartogara er kominn tii landsins. Á sunnudagsmorgun sigldi hjer inn á ytri höfnina Reykjavíkurtogarinn Akurey RE 95, Eigendur hans eru samnefnt hlutafjelag hjer í bænum. Togarinn Akurey, er bygður í Bewerley. Ferðin hingað heim tók 3 og hálfan sólarhring frá Hull og eins og vænta mátti gekk ferðin vel og skipið reyndist hið besta. Akurey er lítilsháttar frábrugðinn hinum eldri nýsköpunartogurum og liggur aðalmunurinn í byggingarlagi hvalbaksins. Skipstjóri og aðrir yfirmenn voru áður á bv. Viðey. Skipstjórinn er Kristján Kristjánsson. Fyrsti stýrimaður er Jóhann Magnússon og fyrsti vjélstjóri Eyjólfur Einarsson. Að hlutafjelaginu Akurey standa Oddur Helgason, útgerðarmaður, Kristján Kristjánsson skipstjóri á skipinu o. fl. Oddur er framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 6 ágúst 1947.

  • 1
Flettingar í dag: 693
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 578
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852058
Samtals gestir: 62750
Tölur uppfærðar: 17.6.2024 23:59:14