07.11.2023 17:31

1038. Gídeon VE 7. TFYL.

Vélskipið Gídeon VE 7 var smíðaður hjá V.E.B. Elbewerft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967. 256 brl, 104 nt. 660 ha. Lister vél. 32,43 x 7,22 x 3,61 m. Skipaskrárnúmer 1038. Eigandi var Gídeon h.f. (Gísli Jónasson og fl.) í Vestmannaeyjum frá sama ári. Gídeon var eitt af 18 systurskipum sem Ríkissjóður Íslands samdi um smíði á í A-Þýskalandi á árunum 1964-67. Skipin voru smíðuð eftir teikningum Hjálmars R Bárðarsonar. Frá 31 desember 1969 er eigandi skipsins Álftafell h.f. (Guðmundur Björnsson og fl.) á Stöðvarfirði, hét þá Álftafell SU 101. Skipið var selt til Noregs og tekið af skipaskrá 3 maí árið 1976.
 

Vélskipið Gídeon VE 7 á leið inn til Vestmannaeyja.          (C) Bragi Guðmundsson.



                                        Gídeon VE 7

Alltaf er nú gaman að labba niður við sjó, en aldrei eins og þegar nýtt og glæsilegt skip bætist í flotann og siglir að landi, fánum skreytt. Og Gídeon þeirra Gerðisbræðra og Gísla Jónassonar er glæsilegur farkostur og sannarlegt augnayndi að horfa á hann við bólverkið í Friðarhöfninni. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lýsa skipinu sérstaklega, þar sem ég geri ráð fyrir að flestir lesenda minna og þeir er áhuga hafa á útgerð hafi farið um borð og skoðað skipið í hólf og gólf. Ég vil svo óska eigendum Gideons til hamingju og vona að þeim farnist vel og gæfa og gengi fylgi skipi og áhöfn.

Neðan frá sjó.
Bj. Guðmundsson.
Fylkir. 21 tbl. 16 júní 1967.
 

Fyrirkomulagsteikning af skipi smíðuðu í Boizenburg í A- Þýskalandi.     (C) HRB.



                     Bátur til Stöðvarfjarðar

Nýlega hefur v.s. Gideon VE 7 verið keyptur til Stöðvarfjarðar. Það er nýstofnað hlutafélag, Álftafell hf., sem kaupir skipið. Forstjóri þess er Guðmundur Björnsson. Gideon er nýr bátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi 1967, Hann er 256 lestir að stærð. Skipstjóri á Gideon verður Jens Albertsson frá Krossi á Berufjarðarströnd. Verður nú að telja, að Stöðfirðingar séu bærilega settir hvað skipastól snertir.

Austurland. 14 febrúar 1969.
 

Vélskipið Álftafell SU 101 á leið inn til Vestmannaeyja.        (C) Sigurgeir Jónasson.



                                  3 skip seld til Noregs

Nýlega hefur verið veitt leyfi til að selja Þorstein RE 303 og Álftafell SU 101 til Noregs. Fyrir áramót var einnig gefið leyfi til sölu á Lofti Baldvinssyni EA 24, einnig til Noregs, en ekki mun endanlega gengið frá þeim kaupum enn. Þá var veitt leyfi til sölu á Faxaborg GK 89 og var hún seld í desember s.l. Ekki hefur verið sótt um fleiri söluleyfi til sjávarútvegsráðuneytis. Þorsteinn RE 303 er 300 lesta stálskip smíðað í Harstad í Noregi 1967, en eigandi er Leifur h.f., Reykjavík. Álftafell SU er rúmlega tvö hundruð lesta stálskip, smíðað í Boizenburg í A-Þýzkalandi 1967, en eigandi er Álftafell hf., Stöðvarfirði. Loftur Baldvinsson EA 24 er tæplega fjögur hundruð lesta stálskip, smíðaður í  Hommelvík í Noregi árið 1968. Eigandi er Aðalsteinn Loftsson, Dalvík.

Tíminn. 29 apríl 1976.

Flettingar í dag: 2216
Gestir í dag: 270
Flettingar í gær: 1024
Gestir í gær: 377
Samtals flettingar: 740868
Samtals gestir: 55860
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 18:26:48