Færslur: 2017 Mars

30.03.2017 11:05

892. Víkingur ll ÍS 170. TFQC.

Víkingur ll ÍS 170 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1959 fyrir Útgerðarfélagið Víking h/f á Ísafirði. Eik. 60 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Báturinn var seldur 19 ágúst 1976, Fræg h/f í Þorlákshöfn, hét Jón Helgason ÁR 12. Ný vél (1983) 385 ha. Caterpillar díesel vél, 283 Kw. Seldur 24 júlí 1985, Rifi h/f í Hrísey, báturinn hét Svanur EA 14. Seldur 28 desember 1990, Jóhanni Sigurbjörnssyni í Hrísey, sama nafn og númer. Seldur 7 apríl 1994, Þórði Jónssyni h/f á Bíldudal, hét Svanur BA 61. Seldur 22 mars 1996, Baldri Þór Bragasyni í Vestmannaeyjum, hét Haförn VE 21. Árið 1999 er skráður eigandi Haförn ehf í Vestmannaeyjum. Árið 2003 er eigandi bátsins Dufþakur ehf í Vestmannaeyjum. Seldur árið 2004, Eyfisk ehf í Hrísey, hét Heddi frændi EA 244.( í skipaskrá 2004 sagður hafa heitið áður Fönix ?) Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 23 febrúar árið 2010. Báturinn lá lengi við bryggju á Höfn í Hornafirði og uppi voru áform um að gera þennan bát upp, en til stóð að brenna hann árið 2008. Hvort það hafi verið gert eða honum hafi verið haldið til haga fyrir uppbyggingu, veit ég ekki.


Víkingur ll ÍS 170.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Víkingi ll ÍS 170 hleypt af stokkunum 22 maí 1959.                                   Mynd úr Bæjarins besta.

                 Víkingur ll ÍS 170

Síðastliðinn föstudag, 22. maí, var hleypt af stokkunum 60 smálesta fiskibát í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Báturinn hlaut nafnið Víkingur II. Eigandi hans er Víkingur h.f. Ísafirði. Báturinn er hinn vandaðasti að allri gerð og búnaði. Aflvél hans er 300 ha. Mannheim vél. Hann er búinn öllum helztu siglinga og öryggistækjum, svo sem ratsjá, dýptarmæli, miðunarstöð o.fl., auk þess sem hann hefur fisksjá. Skipstjóri á bátnum verður Arnór Sigurðsson. M.b. Víkingur er 31. báturinn, sem smíðaður er í skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar.

Vesturland. 29 maí 1959.

              Vill varðveita Víking II

Ísfirðingurinn Svavar Cesar Kristmundsson vill kanna hvort áhugi sé fyrir að varðveita eikarbátinn Víking II. Víkingur II var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar og var sjósettur 1959. Báturinn var smíðaður fyrir þá bræður Arnór og Hermann Sigurðssyni í samvinnu við Norðurtangann. Víkingur II heitir í dag Heddi frændi EA og er við bryggju á Hornafirði. Svavar, sem er gamall Ísfirðingur nú búsettur á Húsavík, segist vera áhugamaður um varðveislu báta og sögu sjávarútvegs. "Með þetta áhugamál er verst að vera ekki milljónamæringur", segir Svavar. Hann segir að báturinn hafi lengi verið bundinn við bryggju á Hornafirði og það að hann hafi alltaf verið á floti hafi bjargað honum frá skemmdum. "Það var hafnarnefndarfundur á Hornafirði í gær og ég veit að til stendur að brenna hann." Í dag er báturinn nær óþekkjanlegur.
Búið að setja á hann hvalbak og bjóðageymslu bakborðsmegin og auk þess var brúin stækkuð. "Ég er með hugmyndir um að koma honum til Húsavíkur í geymslu og það er seinni tíma mál hvort hann verður varðveittur. En honum verður ekki fargað á meðan." Aðspurður hvers vegna varðveisla Víkings II er honum svona mikið hjartans mál segir Svavar að það sé nauðsynlegt að fyrir sögu Ísafjarðar að varðveita til frambúðar eitthvað af bátunum sem voru smíðaðir hjá Marselíusi. "Ég stundaði í gamla daga sem púki að fylgjast með bátasmíðinni hjá Marselíusi og ófáar reynslusiglingar sem maður komst í þegar bátarnir voru sjósettir", segir Svavar.

Bæjarins besta. 31 janúar 2008.

29.03.2017 13:55

Hamóna ÍS 29. TFHL.

Hamóna ÍS 29 var smíðuð í Nova Scotia í Kanada árið 1922. Eik og fura. 173 brl. 60 ha. hjálparvél. Hún var smíðuð sem tveggja mastra skonnorta. Hamóna var lúðuveiðari með amerísku bermudastórsegli og mikill siglari áður en hún var keypt til landsins. Eigandi var Anton Proppé útgerðar og kaupmaður á Þingeyri frá aprílmánuði árið 1941. Kom til landsins í maí sama ár. Nýjar vélar (1941) 2 x 120 ha. Atlantic díesel vélar. 7 nóvember 1942 er h/f Gláma á Þingeyri eigandi skipsins. Hamóna rak á land rétt innan við Þingeyri í óveðri, 17 desember 1945 og eyðilagðist. Skipið var svo rifið þar í fjörunni, en stýrishúsið sem var sett á skipið í mikilli viðgerð og endurbótum í Reykjavík árið 1941 var svo notað lengi sem flugskýli á flugvellinum á Þingeyri.


Hamóna ÍS 29 eftir breytingarnar í Reykjavík 1941.                                     Ljósmyndari óþekktur.


Hamóna eins og hún leit út í upphafi.                                                  (C) Jón Rafn Jóhannsson.

                Hamóna ÍS 29  

Anton Proppé var athafnasamur maður á stríðsárunum. Árið 1941 skellti hann sér til Kanada og festi þar kaup á gamalli seglskútu, 170 brúttótonn að stærð. Fékk hún nafnið Hamóna ÍS 29. Hamóna var rennileg tvímastra skonnorta, smíðuð árið 1922, með 60 hestafla hjálparvél. Skipstjóri var Kristján Ebenesarson frá Flateyri, seglaskipstjóri á heimferðinni frá Kanada var Jón Guðmundur Ólafsson frá Patreksfirði og vélstjóri var Þórður J Magnússon frá Flateyri.
Mamóna kom til landsins í maí 1941 og var næstu mánuði í siglingum með ísaðan fisk til Englands og vöruflutningum innanlands fyrir ameríska herinn sem þá var nýkominn til landsins. Um haustið var hún tekin í slipp í Reykjavík til viðgerðar og breytinga. Settar voru í skipið tvær nýjar 120 hestafla vélar og stýrishús byggt. Þótti mörgum að virðuleiki skipsins færi þar með. Breytingarnar tóku heilt ár. Hamóna var eftir það í flutningum til stríðsloka. Þá reyndi hún fyrir sér á síldveiðum sumarið 1945. Endalok Hamónu urðu þau að skipið rak á land innan við Þingeyri í stórviðri 17 desember 1945 og var rifin þar í fjörunni. Í sama veðri enduðu líka daga sína vélbátarnir Glaður og Venus frá Þingeyri. Stýrishúsið á Hamónu átti sér þó annað líf. Það þjónaði lengi sem flugskýli á Þingeyrarflugvelli, þar sem séra Stefán Eggertsson sá um stjórnina. Flugskýlið er nú komið á Samgöngusafnið á Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði og sómir sér þar vel.

Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum.

                 Dýrafjörður

Einn vélbátur stundar handfæraveiðar þaðan og hefir aflað vel, en smábátaaflinn á þær 12 trillur, er þaðan stunda veiðar, flestar með handfæri, hefir verið í tæpu meðallagi. Tvö skip frá Þingeyri hafa lengstum verið við ísfiskflutninga í vetur og vor, en stunda nú síldveiði. Nýlega hefir eitt 160 rúml. skip bætzt við flotann á Þingeyri, en það er skonnortan "Hamóna", sem Anton Proppé keypti í vetur frá Ameríku. Hefir skip þetta farið eina ferð með ísfisk til Englands.

Ægir. 1 júlí 1941.


28.03.2017 12:53

482. Guðmundur Þórðarson GK 75. TFSL.

Guðmundur Þórðarson GK 75 var smíðaður í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar árið 1943. Eik. 52 brl. 120 ha. Lister díesel vél. Eigendur voru h/f Ægir og Kristinn Árnason & Co Gerðum í Garði, Gullbringusýslu frá 21 apríl 1943. Ný vél (1956) 280 ha. MWM díesel vél. Báturinn var seldur 10 október 1961, Eyri h/f í Sandgerði, sama nafn og númer. Seldur 25 janúar 1971, Braga Emilssyni á Höfn í Hornafirði, hét Fálkanes SF 77. Ný vél (1971) 368 ha. Kelvin Dorman díesel vél. Seldur 5 mars 1972, Hjálmari Elíesersyni í Kópavogi, báturinn hét Guðmundur RE 19. Ný vél (1972) 370 ha. Cummins díesel vél. Seldur 9 október 1973, Bjarna Beck, Hreiðari Pálssyni og Ríkharði Jónssyni í Ólafsvík, hét Þorleifur Magnússon SH 172. Árið 1975 var nafni bátsins breytt, hét þá Sonja B SH 172. Seldur 15 apríl 1978, Þórði Markússyni á Eyrarbakka, hét Bakkavík ÁR 100. Árið 1978 fór fram á bátnum stórviðgerð. Seldur 28 október 1980, Kristjáni Óskarssyni og Magnúsi Brynjólfssyni í Þorlákshöfn, báturinn hét Bjarnavík ÁR 13. 28 desember 1981 var skráður eigandi Suðurvör h/f í Þorlákshöfn. Seldur 29 október 1987, Bakkafiski h/f á Eyrarbakka, hét Bjarnavík ÁR 20. Seldur 2 mars 1989, Siglfirðingi h/f á Siglufirði, báturinn hét Daníel SI 152. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 13 mars árið 1992. Báturinn stendur upp á landi á Siglufirði í dag og vonandi verður hann gerður upp.


Guðmundur Þórðarson GK 75.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Guðmundur Þórðarson GK 75 til vinstri,sennilega við bryggju í Keflavík.    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Daníel SI 152 á Siglufirði.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.


Daníel SI 152 á Siglufirði.                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Guðmundur Þórðarson GK 75. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


      Guðmundur Þórðarson GK 75

Þann 8. apríl síðastliðinn hljóp af stokkunum hjá Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar nýr vélbátur, er heitir Guðmundur Þórðarson. Bátur þessi er 52 brúttó rúmlestir að stærð og hefur 100 hestafla Lister Diesel vél. Kjölurinn að bátnun var lagður snemma í ágúst 1942, en smíðin tafðist sökum efnisskorts og annarra orsaka. Eigendur bátsins eru  Ægir h. f. Gerðum og Kristinn Árnason og Co., Gerðum. Framvæmdarstjóri hans verður Finnbogi Guðmundsson, en skipstjóri Kristinn Árnason.

Ægir. 1 maí 1943.

27.03.2017 19:59

731. Reykjaröst KE 14. TFJN.

Reykjaröst KE 14 var smíðuð í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1945. Eik. 53 brl. 150 ha. Fairbanks Morse díesel vél. Eigandi var Röst h/f í Keflavík frá 8 júlí sama ár. Báturinn bar fyrst skráningarnúmerið GK 414, en 1 janúar 1950 fékk hann númerið KE 14. Ný vél (1954) 347 ha. Buda díesel vél. Seldur 12 október 1965, Ásgeiri h/f í Garði, hét Ásgeir Magnússon GK 60. Ný vél (1969) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 27 september 1971, Hauki Guðmundssyni í Reykjavík, báturinn hét Grunnvíkingur GK 60 og var skráður í Sandgerði. Árið 1973 fær hann skráninguna GK 63. Frá 14 janúar 1974 heitir báturinn Grunnvíkingur HU 63 og er gerður út frá Blönduósi, sami eigandi. 17 apríl 1975 fær báturinn aftur skráninguna GK 63 og gerður út frá Sandgerði. 15 desember 1978 heitir báturinn Grunnvíkingur RE 163 og gerður út frá Reykjavík, sami eigandi áfram. Seldur 15 janúar 1990, Miðfelli h/f í Hnífsdal, hét Grunnvíkingur ÍS 163. Ný vél (1991) 408 ha. Caterpillar díesel vél, 300 Kw. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 9 nóvember árið 1994.

Reykjaröst KE 14.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

Reykjaröst GK 414 nýsmíðuð á Ísafirði árið 1945.                                                    Mynd úr Ægi.

Reykjaröst KE 14. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               Reykjaröst GK 414.

Í júlímánuði síðastliðnum hljóp nýr bátur af stokkunum í Skipasmíðastöð Marselliusar Barnharðssonar á Ísafirði. Fór bátur þessi þá þegar á síldveiðar. Bátur þessi heitir Reykjaröst og hefur einkennisstafina G. K. 414. Hann er 53 rúml. að stærð og hefur 150 hestafla Fairbank Morse vél. Eigandi Reykjarastar er hlutafélagið Röst í Keflavík. Framkvæmdastjóri þess er Margeir Jónsson, en skipstjóri á bátnum er Angantýr Guðmundsson.

Ægir. 1 september 1945.






26.03.2017 13:57

B. v. Venus GK 519. LCKP / TFVC.

Venus GK 519 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1929 fyrir Hlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 415 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 27 febrúar 1937, Hlutafélaginu Venusi í Hafnarfirði. Togarinn slitnaði úr bóli í Hafnarfjarðarhöfn í ofsaveðri 30 nóvember 1956 og rak upp í vestari hafnargarðinn og sökk þar. Skipið var talið ónýtt og selt í brotajárn í mars árið 1962. Gufuketillinn úr Venusi var seldur Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað árið 1957-58 sem notaði hann í hinni nýbyggðu síldarbræðslu sinni. Sú síldarbræðsla eyðilagðist í snjóflóði 20 desember 1974, en gufuketillinn stendur enn á grunni gömlu verksmiðjunnar.


Venus GK 519.                                                                                      (C) Óttar Guðmundsson.


Venus GK 519.                                                                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Venus GK 519 hálf sokkinn við vestari hafnargarðinn í Hafnarfjarðarhöfn eftir óveðrið sem gekk yfir 30 nóvember árið 1956.                                                          (C) Óttar Guðmundsson.


Venus GK 519 í "smíðum". Líkan Óttars Guðmundssonar.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Venus GK 519. Glæsilegt líkan Óttars Guðmundssonar.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Gufuketillinn úr Venusi á grunni gömlu síldarbræðslu SVN í Neskaupstað. (C) Elín A Hermannsdóttir.

                    Nýr togari

kom hingað í gærkveldi, "Venus" að nafni. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson. Er hann aðaleigandi skipsins. Togarinn verður gerður út frá Hafnarfirði.

Alþýðublaðið. 27 desember 1929.

        Þórarinn Olgeirsson, Venusarfélagið
             
og togarinn Venus GK 519

Hinn nýi togari, sem hlaut nafnið Venus, var fullbúinn í desember 1929 og komu þá skipverjar mínir út til Grimsby til þess að sigla honum með mér heim til Íslands. Aðeins vantaði mig 2 vélstjóra í hópinn til þess að talan væri full, en hann var ráðinn heima í Reykjavík samstundis og kom út til Grimsby með togaranum Apríl rétt áður en við lögðum af stað. Þessi maður var Hannes Magnússon, sem síðan var á Venusi óslitið í 20 ár, lengst af 2 vélstjóri, en einnig 1 vélstjóri um tíma, einn hinna áræðanlegustu og samviskusömustu sjómanna sem ég hef kynnst, nú látinn fyrir nokkrum árum.
Við komum heim til Hafnarfjarðar frá Grimsby á milli jóla og nýárs, en frá Hafnarfirði var Venus gerður út fyrstu árin á vegum Belgaumsfélagsins. Var ég skipstjóri á honum í fjögur ár, en síðan var Erlendur Sigurðsson, stýrimaður minn, með hann  skipstjóri um skeið.
Vilhjálmur Árnason verður svo skipstjóri á Venusi árið 1936. Hafði nú gerst það sama og um Tryggva Ófeigsson áður, að nýtt félag er stofnað utan um Vilhjálm sem skipstjóra og hluthafa. Þetta var Venusarfélagið. Loftur Bjarnason varð þegar frá byrjun framkvæmdastjóri hins nýja félags.
Vilhjálmur Árnason hafði verið skipstjóri á togaranum Gylli frá því á árinu 1928 og þar til hann gerðist meðstofnandi Venusarfélagsins og tók við skipstjórn á Venusi. Hann hefur jafnan verið afburða aflasæll og ötull skipstjóri. Ég tel það mikið lán að hafa haft félag með þeim Lofti Bjarnasyni, Tryggva Ófeigssyni og Vilhjálmi Árnasyni. Samvinna hefur alltaf verið góð milli mín og þeirra. Venus var síðasta skipið sem ég sigldi sjálfur heim til Íslands. Frá Hafnarfirði hefur það verið gert út óslitið frá því fyrsta að það tók þar höfn, og fáir togarar eða engir hafa fært þeim bæ meiri auð.
Ferli hans lauk þannig, að hann bar beinin í þeirri sömu höfn og hann fyrst kom að landi í. Hann rak í land einn ofviðrisdag, 30 nóvember 1956 í Hafnarfirði. Hafði hann þá um hríð legið við festar þar á firðinum að loknu vel unnu starfi, eftir að nýir og olíukynntir togarar höfðu tekið við af þeim kolakynntu og hin svonefnda nýsköpun ruddi eldri háttum úr vegi í Íslenskri togaraútgerð.

Sókn á sæ og storð. Æviminningar Þórarins Olgeirssonar útg 1960.

        Togarinn Venus rekur á land

Hinn gamli togari Venus, sem legið hefur hér út á ytri höfninni undanfarin ár, er horfinn af sjónarsviðinu. Í því mikla ofviðri, sem hér geysaði um mánaðarmótin síðustu, rak togarann upp við vestari hafnargarðinn og liggur hann nú þar. Venus var einn af stærstu og beztu togurunum í flota gömlu skipanna. Var Vilhjálmur Árnason skipstjóri lengi með hann. Var Venus jafnan hið mesta aflaskip.

Hamar. 15 desember 1956.



25.03.2017 13:39

B. v. Ísborg ÍS 250. TFRE.

Ísborg ÍS 250 var smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélag Ísfirðinga h/f á Ísafirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 789. Kom fyrst til heimahafnar 5 maí sama ár. Skipið var selt 2 desember 1963, Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Skipinu var breytt í flutningaskip árið 1963, gufuvélin og ketillinn tekin úr skipinu og sett í staðinn 750 ha. Scandia díesel vél. Einnig var stýrishúsið fært aftar og lestarrými aukið sem því nam. Skipið var endurmælt þá og mældist 706 brl. Hét áfram Ísborg. Selt 20 apríl 1964, Borgum h/f í Reykjavík. Selt 5 febrúar 1969, Guðmundi A Guðmundssyni h/f í Reykjavík. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 17 desember árið 1973. Skipið mun hafa borið nöfnin Maria Sissy, Catera og síðast Nueva Isborg og var skráð í Panama til ársins 1990-91. Hefur sennilega endað í brotajárni fljótlega eftir það, en það er bara ágiskun hjá mér.

123. Ísborg ÍS 250 við komuna til Ísafjarðar 5 maí 1948.                     (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði. 


Móttökuathöfn við komu Ísborgar 5 maí 1948.                                       Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


B.v Ísborg ÍS 250 með fullfermi á pollinum á Ísafirði.                           (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


Flutningaskipið Ísborg.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Flutningaskipið Ísborg.                                                                              Ljósmyndari óþekktur.


Ísborg ÍS 250. Líkan á Sjóminjasafninu á Ísafirði.                                (C) Sæmundur Þórðarson.

      Ísborg er glæsilegt og gott skip

Nýsköpunartogari Ísfirðinga, Ísborg, kom hingað til Ísafjarðar þann 5. maí síðastliðinn og lagðist við bæjarbryggjuna klukkan hálf fimm síðdegis. Fagnaði fjöldi bæjarbúa þar komu hans. Fánar voru dregnir við hún um allan bæinn og var auðsætt að bæjarbúar fögnuðu komu Ísborgar af alhug.
Þegar skipið hafði lagst að bryggju söng Sunnukórinn undir stjórn Jónasar Tómassonar tónskálds, Þú álfu vorrar yngsta land. Því næst flutti Sigurður Bjarnason forseti bæjarstjórnar ávarp og bauð skipið og skipshöfn þess velkomið til Ísafjarðar. Er ávarpið birt á öðrum stað hér í blaðinu. Að því loknu var hrópað ferfalt húrra fyrir Ísborg og skipshöfn hennar. Þá söng Sunnukórinn í faðmi fjalla blárra, en síðan þakkaði Halldór Jónsson framkvæmdarstjóri móttökurnar. Að lokinni ræðu hans söng Sunnukórinn Íslandsfáni eftir söngstjórann. Síðan var almenningi boðið að skoða skipið og hagnýttu margir sér það boð þá um daginn og næsta dag á eftir.
Skipstjóri á Ísborgu er Ragnar Jóhannsson, 1. stýrimaður Helgi Jónsson og 1. vélstjóri Baldur Kolbeinsson. Um kvöldið bauð bæjarstjórnin og stjórn togarafélagsins skipshöfn Ísborgar og nokkrum öðrum gestum til kaffidrykkju að Uppsölum. Kjartan Jóhannsson stjórnaði hófinu fyrir hönd togaraútgerðarinnar. Flutti hann við það tækifæri stutta ræðu, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Auk hans fluttu þar ræður þeir Sigurður Halldórsson settur bæjarstjóri, sem jafnframt las heillaskeyti frá Ásberg Sigurðssyni bæjarstjóra, þar sem hann óskaði bæjarfélaginu til hamingju með hið glæsilega skip, Halldór Jónsson framkvæmdarstj., Sigurður Bjarnason, Birgir Finnsson, Helgi Hannesson, Ólafur Guðmundsson, Halldór Ólafsson ritstjóri og Ragnar Jóhannsson skipstjóri. Allir ræðumenn óskuðu útgerð skipsins allra heilla. Sungið var á milli ræðanna og stjórnaði frú Jóhanna Johnsen söngnum. Fór samkoman að öllu leyti hið bezta fram.
Ísborg er 25. nýsköpunartogarinn, sem kemur til landsins. Skipið átti upphaflega að vera fullsmíðað 31. júlí 1947. Lengd þess er 177 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 655 brúttosmálestir að stærð og er byggt hjá skipasmiðastöðinni Cook Welton og Gemmel í Beverley í Englandi. Aðalvél þess er 1.300 hestöfl. Var ganghraði þess rúmar 13 mílur í reynsluför. Tveir dýptarmælar eru í skipinu, loftskeytatæki, miðunarstöð og radartæki. Er það þannig búið öllum fullkomnustu öryggistækjum. Mannaíbúðir eru hinar vistlegustu. Ferð Ísborgar frá Englandi tók 4 sólarhringa og 3 klst. Kom skipið beint frá Hull hingað til Ísafjarðar. Kaupverð skipsins er 3,4 miljónir króna án veiðarfæra.
Þessir menn hafa verið ráðnir á skipið auk skipstjóra:
Helgi Jónsson 1. stýrimaður. Pétur Bjarnason 2. stýrimaður. Baldur Kolbeinsson 1. vélstjóri. Hallgrímur Pétursson 2. Vélstjóri. Magnús Eiríksson 3. vélstjóri. Kristján Bjarnason kyndari. Anton Ingibjartsson kyndari. Guðbjartur Finnbjörnsson loftskeytamaður. Halldór Sigurbjörnsspn bátsmaður. Þorsteinn .M. Guðmundsson netamaður. Ellert Eiríksson matsveinn.
Hásetar:
Árni Jónsson. Þórarinn Ingvarsson. Ólafur Ólafsson. Líndal Magnússon. Þorgeir Ólafsson. Steinn Guðmundsson. Annas Kristmundsson. Ólafur Guðjónsson. Garibaldi Einarsson. Hrólfur Þórarinsson. Guðmundur Rósmundsson. Hjörtur Bjarnason. Steindór Arason. Magnús Þórarinsson. Karl Jónsson. Valdimar Þorbergsson.
Ísborg fór til Reykjavíkur kl. 5 á fimmtudag en þar voru sett í hana lýsisbræðslutæki. Þaðan fór skipið beint á veiðar. Vesturland óskar hinu nýja skipi og skipshöfn þess allra heilla um leið og það lætur þá von í Ijós að útgerð þess eigi eftir að verða bæjarfélaginu og almenningi í bænum til gagns og blessunar.

Vesturland. 13 maí 1948.

      Tveir togarar gerðir út til flutninga

Togararnir eru nú farnir, að fara undir hamarinn í tvennum skilningi, þannig að þeir verða hamraðir til annarra verka en þeim var ætlað, eftir að uppboðshamarinn hefur fallið. Nýlega keyptu þeir Guðfinnur Þorbjörnsson vélstjóri, Guðmundur Kristinsson skipamiðlari og Bjarni Pálsson vélstjóri Ísborgina af Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Togarafélag Ísfirðinga gerði Ísborgina út, en lenti í þrotinu eins og fleiri útgerðarfyrirtæki upp á síðkastið. Ísborgin er byggð í Englandi 1948 og er 650 lesta skip brúttó. Hún liggur nú á Ísafirði, en verður flutt til Reykjavíkur eftir helgina og breytt í flutningaskip, gufuvélin og ketillinn tekinn úr henni og 750 hestafla Skandia dísilvél sett í staðinn. Skipið á að léttast um 200-300 lestir og lestin að stækka um 50-60%. Að þessu verður unnið á ýmsum stöðum hér syðra, og gert er ráð fyrir, að breytingunni verði lokið í haust. Blaðið talaði í gær við Guðfinn Þorbjörnsson, sem skýrði frá kaupunum. Fyrir nokkru var myndað félag í Njarðvíkunum um kaup á togaranum Guðmundi Júní til að breyta honum í flutningaskip. Guðmundur Júní er byggður um 1926. Einar (ríki) Sigurðsson gerði hann út, en togarinn hafði legið hér í höfninni í Reykjavík þar til fyrir skömmu að hann var fluttur suður í Njarðvíkur. Tryggvi Ófeigsson hefur keypt Keili, en hann er nú gerður út á þorskanet undir nafninu Sírius. Axel í Rafha átti togarann og gerði hann út, en fjármálaráðuneytið seldi Tryggva hann í vetur. Keilir var byggður í Þýskalandi árið 1950. Honum hefur ekki verið breytt, en togveiðum hans er lokið, að minnsta kosti um sinn. Þá er Bæjarútgerðin að búa Hallveigu Fróðadóttir til síldveiða með kraftblökk. Hún liggur nú hér í höfninni með öðrum togurum, en fer til síldveiða eftir næstu helgi.

Tíminn 27 apríl 1962.

      Ms. Ísborg reyndist vel í fyrstu ferð

Lokið er nú við að breyta Ísborginni í flutningaskip og hefur hún nú farið í sína fyrstu ferð eftir breytinguna. Skipið hefur reynzt mjög vel eftir breytinguna, og er skipshöfnin mjög ánægð með það. Ísborgin er byggð í Englandi 1948, en skipinu var nú breytt samfara 12 ára klössun. Ísborgin er mjög sterkbyggð, og hefur hún alla tíð þótt hið bezta sjóskip. Það var í aprílmánuði 1962, sem skipið var keypt frá Ísafirði, og skömmu síðar var byrjað að breyta því. Gífurlega miklar breytingar hafa verið gerðar, m. a. sett í það ný vél, þvi áður var gufuvél í skipinu, og var brúin einnig færð aftur. Verkið hefur tekið nokkuð lengri tíma en áætlað var, og kostnaðurinn hefur verið mikill, en að sögn eigenda ekki meiri en svo, að skipið geti staðið undir honum. Öll breytingin hefur verið framkvæmd hér heima, en aðallega hafa unnið við skipið, Vélsmiðjan Járn, vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar h.f., Vélsmiðjan Héðinn h.f., Stálsmiðjan h.f. og Slippfélagið hf. Stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur lánað fé til verksins og veitt margþætta fyrirgreiðslu. Skipstjóri á Ísborginni er Haukur Guðmundsson, 1. stýrimaður Georg Franklínsson, 1. vélstjóri Agnar Hallvarðsson og bryti Svanur Jónsson.

Vísir. 25 janúar 1964.

24.03.2017 12:28

2. m. Sk. Grettir ÍS 116. LBDM.

Hákarlaskipið Grettir var smíðaður í Vejle í Danmörku árið 1880. Eik. 28 brl. Fyrstu eigendur voru Hjálmar Jónsson kaupmaður og Torfi Halldórsson skipstjóri á Flateyri frá árinu 1880. Frá því um 1890 voru eigendur þeir Ásgeir G Ásgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður á Ísafirði og Kaupmannahöfn og Carl Andersen í Kaupmannahöfn. Við andlát Carls Andersens árið 1895 er Ásgeir einn eigandi Grettis. Vél var sett í skipið stuttu eftir aldamótin 1900, 22 ha. Alpha vél. Fær skráningarnúmerið ÍS 116 stuttu síðar. Grettir var svo lengi í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Ísafirði. Ný vél (1917) 6 ha. Dan vél. Árið 1918 flutti fyrirtækið Gretti til Flateyrar. Frá árinu 1926 er Grettir gerður út frá Stykkishólmi, sömu eigendur, en í febrúar 1933 eru eigendur Sigurður Ágústsson og fl. í Stykkishólmi, hét þá Grettir SH 116. Ný vél (1939) 100 ha. Alpha vél. Ný vél (1948) 132 ha. Kelvin díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 20 febrúar árið 1959.


Hákarlaskipið Grettir ÍS 116.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

               Hákarlaskipið Grettir


Árið 1880 áttu þeir Hjálmar kaupmaður Jónsson og Torfi Halldórsson á Flateyri fullsmíðaða skútu út í Danmörku. Það mun hafa verið Magnús Össurarson skipstjóri á Flateyri sem sótti skútuna til Danmerkur og sigldi henni yfir hafið og gekk ferðin vel. Hún fékk nafnið Grettir. Héldu þeir skipi þessu út til veiða næstu tvö eða þrjú árin og reyndist hin mesta happafleyta.
Komst Grettir um skeið í eigu Ásgeirsverslunar, en lenti síðan aftur til Önundarfjarðar og var einatt aflasælt. Grettir var eitt þeirra fáu hákarlaskipa sem til voru fram á 6 áratuginn, þó að hann væri mikið breyttur frá upphaflegu útliti.

Skútuöldin lV bindi. Gils Guðmundsson. 1977.

   Hákarlaveiðar frá Flateyri og Dýrafirði árið         1899

Hákarlaveiðaskipin frá Flateyri og Dýrafirði hættu veiðum um og eptir miðjan september, og varð afli þeirra, sem hér segir:
"Lovísa". skipstjóri Kjartan Rósinkranzson á Flateyri, 867 tn. lifrar.
"Sigríður", skipstj. Helgi Andrésson á Flateyri, um 830 tn. lifrar.
,,Grettir", skipstj. Páll Rósinkranzson á Kirkjubóli. um 660 tn. lifrar.
"Guðný", skipstjóri Eyjólfur Bjarnason á Þórustöðum, um 630 tn. lifrar.
"Fiskaren", skipstj. Kristmundur eyfirzki, um 150 tn. lifrar.
Skip þessi eru öll frá verzlun A. Ásgeirssonar, nema "Guðný", sem er eign nokkurra Dýrfirðinga.  "Fiskaranum" var að eins haldið á hákarlsveiðum til júlíloka.

Þjóðviljinn ungi. 6 október 1899.

23.03.2017 22:40

2730. Margrét EA 710. TFCR.

Margrét EA 710 var smíðuð hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 1998. 1.271 brl. 11.257 ha. Wartsiila díesel vél, 8.280 Kw. Smíðanúmer 169. Eigandi var Samherji h/f á Akureyri frá árinu 2006. Hét áður Serene LK 297. Skipið var selt í maí 2010, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað, hét Beitir NK 123. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 18 desember árið 2013.


2730. Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Margrét EA 710 við bryggju á Akureyri sumarið 2006.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2730. Beitir NK 123.                                                                               (C) Jóhann Ragnarsson.

     Nýtt skip til Neskaupstaðar


Norðfirðingar tóku í dag á móti nýju skipi Beiti NK 123 sem skapar ný störf á sjó og í landi.
Í Fjarðabyggð er sjómannadeginum fagnað alla helgina. Í morgun héldu börnin í Neskaupstað niður á bryggju og tóku þátt í dorgkeppni. Verðlaun fengust fyrir stærsta, þyngsta og ljótasta fiskinn. Og einnig fyrir mesta aflann. Fullorðna fólkið lauk íslandsmeistaramóti í sjóstangveiði og var handagangur í öskjunni þegar aflinn var vigtaður.
Eftir hádegið voru svo skipsflautur þeyttar úti á firðinum. Nýr Beitir sigldi í höfn en sá gamli fór í niðurrif fyrir nokkrum árum. Nýja skipið var keypt af Samherja og hét áður Margrét EA. Það var Sigurjón Valdimarsson, fyrsti skipstjórinn hjá útgerð Síldarvinnslunnar, sem gaf skipinu nafn.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, sagði í móttökuræðu sinni að Síldarvinnslan væri eitt af kvótahæstu félögum landsins í uppsjávarfiski og að hún ætti eitt öflugasta uppsjávarfrystihús í heimi. Koma skipsins myndi auka enn á möguleika til frekari manneldisvinnslu í frystihúsinu. Skipið var smíðað í Noregi árið 1998. Það er 71 metri á lengd og 13 metra breytt. Vélin er 11.500 hestöfl. Alls eru 16 manns í tvískiptri áhöfn.

Rúv. 5 júní 2010.

22.03.2017 13:50

2. m. Kt. Boðasteinur FD 493. OXMO.

Kútter Boðasteinur FD 493 var smíðaður hjá Smith Stephenson & Co í Grimsby á Englandi árið 1880 fyrir Henry C Rhodes í Cleethorpes (Grimsby) á Englandi. Eik. 79 brl. 113 ha. vél (gerð óþekkt). Hét áður Star of Hope. Skipið var selt árið 1913, Rasmus Rasmussen í Fuglafirði í Færeyjum, sama nafn en fær skráningarnúmerið FD 493. Seldur árið 1929, J. Haraldsen í Fuglafirði, fær nafnið Boðasteinur FD 493. Selt árið 1955, L/F Eysturvirkið í Norðdepil í Færeyjum, hét Eysturgerðin KG 150. Selt árið 1958, Rasmus Rasmussen í Fuglafirði, fær sitt gamla nafn aftur, Star of Hope FD 493. Selt árið 1959, Hans Jákup Frederiksen í Múla á Borðey í Færeyjum, hét Star of Hope KG. Skipið var talið ónýtt og því sökkt í Haraldssundi á milli Kuneyjar og Borðeyjar árið 1961. Boðasteinur stundaði mikið veiðar við Ísland, bæði síld og handfæraveiðar á árunum 1940 til 50. Hann var tíður gestur á Norðfirði og landaði þar mikið síld og svo var hann í fiskiflutningum, tók fisk af öðrum Færeyskum kútterum og sigldi með þann afla til Englands. Í janúar árið 1945 gerði norðvestan ofsarok á Norðfirði með þeim afleiðingum að olíubryggja BP, sem einnig var kölluð gúanóbryggjan og var líka löndunarbryggja Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar, brotnaði í spón. Boðasteinur var þá við bryggjuna og vélbáturinn Garðar Svavarsson NS 400 frá Seyðisfirði, smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1924. Garðar slitnaði frá bryggjunni og rak upp í fjöru og sökk. Boðastein rak með bryggjuleyfunum en tók niðri áður en hann rak upp í fjöru. Ekki urðu miklar skemmdir á honum. Garðar Svavarsson náðist fljótlega á flot og var gerður upp.


Boðasteinur FD 493 á leið inn Norðfjörð með fullfermi síldar.                            (C) Björn Björnsson.


Kútter Star of Hope FD 493.                                                                   (C) Finn Björn Guttesen.


Boðasteinur FD 493 við leyfar bryggjunar.Vélbáturinn Garðar Svavarsson NS 400 upp í fjörunni hálf sokkinn.                                                                                                      (C) Björn Björnsson.

Garðar Svavarsson hálf sokkinn upp í fjöru og Boðasteinur strandaður. Mynd úr Austurlandi frá 1972.                                                                                  
                                                                                   .

21.03.2017 13:29

M. b. Richard ÍS 549. TFGL.

Richard ÍS 549 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1940 fyrir h/f Björgvin á Ísafirði. Eik. 90 brl. 2 x 88 ha. Kelvin vélar. Skipið var endurmælt í júní 1947, mældist þá 84 brl. Skipið var selt til Nýfundnalands og tekið af skrá 1 nóvember árið 1950. Það var Íslensk útgerð sem keypti Richard ásamt þremur öðrum skipum og stunduðu þar línuveiðar uns útgerðin fór í þrot og skipin seld á uppboði. Hin skipin þrjú voru, Grótta ÍS 580, Huginn l ÍS 91 og Huginn ll ÍS 92. Allir voru þessir bátar frá Ísafirði.


Richard ÍS 549 á pollinum á Ísafirði.                                                  Ljósmyndasafnið á Ísafirði.


Richard ÍS 549 í smíðum á Ísafirði árið 1939-40.                                                 (C) M. Simson.


Richard ÍS 549 í smíðum á Ísafirði árið 1939-40.                                                  (C) M. Simson.

             M. b. Richard ÍS 549

    Annar stærsti báturinn sem smíðaður hefur verið á             Íslandi

M.b. Richard er smíðaður á Ísafirði í Skipasmíðastöð Marzelíusar Bernhardssonar, er sá um smíði skipsins. Eigendur eru H.f. Björgvin og framkvomdarstjóri þess Björgvin Bjarnason, er með þrautseigju hefir fylgt byggingu skipsins eftir frá byrjun. Teikningu af skipinu gerði Eggert B. Lárusson, skipasmíðameistari, er hefir leyst það prýðilega af hendi, enda var hann áður búinn að sína hæfileika sína sem slíkur. Skipið er smíðað að mestu leyti úr eik, ca. 90-100 smál. brúttó og ca. 40-50 smál. nettó (endanlegri mælingu er ekki lokið).
Kjöllengd er 79 fet, breidd 17,9 fet og dýpt 9 fet. Lestin er 32 fet á lengd og áætlað að hún rúmi ca. 135-145 smál. af þungavöru og ca. 75-85 smál. af ísfiski. Olíugeymar skipsins taka 10-11 smálestir, auk 2 smurolíugeyma er rúma 4 tunnur. Gangvélar skipsins eru tvær. Kelvin-Dieselvélar, hver 88-105 hestöfl og er því Richard fyrsta skipið í íslenska flotanum er hefir 2 gangskrúfur. Skipið er raflýst, en sérstök Kelvin-Diesel ljósavél verður sett í skipið á næstunni. Landssmiðjan hefir hafið smíði á nýjum stýrisvélum með olíuþrýstingu og var sú fyrsta sett í M.b. Richard. Það er sýnilegt að lagt hefir verið mikið í að gera vistarverur skipverja sem bezta. Hásetaklefi er frammi í með 12 rekkjum, 2 klæðaskápum, 1 geymsluskáp og auk þess geymslu í öllum bekkjum. Vistarverur yfirmanna eru í yfirbyggingu úr stáli á afturhluta skipsins.
Aftast á stjórnpallinum er kortaklefi og er þaðan gengið ofan í skipstjóraherbergið sem er undir stjórnpallinum. Aftast í yfirbyggingunni er eldhús og borðsalur. Milli bátadekks og lunningar að aftan er yfirbyggt með stálplötum og kemur þar lýsisbræðsla og salerni. Skipið er að mestu leyti hitað upp með miðstöð frá miðstöðvarkatli í vélarrúmi. Öllum ber saman um ágæti skipsins og alls staðar má sjá að engu hefir verið til sparað að gera skipið sem glæsilegast. Marzelíus hefir með skipi þessu getið sér hinn bezta orðstír, og eru afrek hans að því leyti sérstæð, að hann er sjálfmenntaður. Nú hefir skipið lokið fyrstu söluferð sinni til Englands og var meðalgangur skipsins rúmar 8 mílur. Það fór vel í sjó og reyndist ágætlega. Í Englandi var tekinn um borð bergmálsdýptarmælir, er settur var í skipið er það kom til Reykjavíkur. Einnig er ákveðið að setja í það miðunarstöð.
Undanfarið hefir mikið verið rætt og ritað um það, að búa sem bezt að sínu og máltækið tekur undir með þeirri hugmynd og segir: "Sjálfs er höndin hollust". Smíðin á m.b. Richard er táknræn í þessu sambandi, og Ijós vottur þess, að ef viljinn er fyrir hendi, þá getur bátsmíðin að öllu leyti færst yfir á íslenskar hendur og að því ber að stefna. "Víkingur" óskar svo öllum, sem unnið hafa að byggingu m.b. Richards til hamingju með vel unnið starf og biður öllum Ísfirska bátaflotanum góðs farnaðar í framtíðinni.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 október 1940.

20.03.2017 17:21

B. v. Keflvíkingur GK 197. TFWD.

Keflvíkingur GK 197 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948 fyrir Togarafélag Keflavíkur h/f í Keflavík. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Frá árinu 1950 hét skipið Keflvíkingur KE 19. Skipið var selt 29 apríl 1956, Austfirðingi h/f á Eskifirði, hét Vöttur SU 103. Selt 1 nóvember 1960, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar h/f, skipið hét Apríl GK 122. Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 15 júlí árið 1965.


8. Keflvíkingur GK 197 við komuna til Keflavíkur 31 mars 1948.                   Ljósmyndari óþekktur.

          B. v. Keflvíkingur GK 197

Morguninn 31. mars skreið "Keflvíkingur" léttilega inn á Keflavíkina í fögru, heiðskýru veðri og spegilsléttum sæ, eftir aðeins tveggja sólarhringa og 20 tíma siglingu frá Aberdeen. Kl. 8,30 hægði það ferðina og heílsaði; og það varð ekki annað séð í lipurð þess og hreinum svip, en að það væri ánægt yfir því að vera komið í heimahöfn. Akkerum var varpað og beðið eftir tollgæzlumönnum og hafnsögumanni. Útgerðarnefndin hafði gert ráð fyrir að skipið legðist að hafnargarðinum kl. 2 e. h. og var svo gert. Víðast hvar var fólki gefið frí frá störfum, svo að það gæti fagnað komu togarans, enda var fjölmenni mikið, er skipið lagðist að garðinum. Í bænum blöktu fánar við hún á hverri flaggstöng og togarinn var fánum skrýddur stafnanna á milli.
Þegar ríkisstjórnin, fyrir þremur árum síðan, gaf einstaklingum og sveitarfélögum kost á því að eignast nýtízku botnvörpuskip með sérstaklega hagkvæmum kjörum, þá var með einróma samþykkt hreppsnefndar Keflavíkur ákveðið að óska eftir kaupum á einum af þeim togurum, er ríkisstjórnin hafði þá fest kaup á í Bretlandi. Framkvæmd þeirrar samþykktar sjáum við hér í daga, þar sem hinn glæsilegi togari Keflvíkingur, sem við nú fögnum, er hann í fyrsta sinn leggst að bryggju í Keflavík.  Keflvíkingur er smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fyrir ári síðan var bygging hafin. Kjölur skipsins var lagður 17. mars 1946 og var skipinu hleypt af stokkunum 14. okt. s.l. og þá gefið nafnið Keflvíkingur. Reynsluför var farin 16. þ. m. og skipið afhent daginn eftir, 17. mars, eða ári síðar en kjölur þess var lagður. Keflvíkingur er að lengd 175 fet, breidd hans er 30 fet og dýpt 15 fet.


Keflvíkingur GK 197 við bryggju í Keflavík í fyrsta sinn.                         Ljósmyndari óþekktur.

Hann er talinn um 650 smálestir brúttó. Í reynsluför var ganghraði skipsins 14,06 sjómílur á klst. Skipið er mjög vandað að öllum frágangi og er það búið hinum fullkomnustu öryggistækjum, svo sem sjálfritandi dýptarmæli og radartæki. Eftirlit með smíði skipsins f. h. hreppsnefndar og útgerðarnefndar hafði skipstjóri þess, Halldór Gíslason og kom hann fram ýmsum breytingum til bóta.
Halldór Gíslason skipstjóri flutti Keflvíkingum árnaðaróskir með nýja skipið, og bauð síðan fólki að ganga um borð og skoða það. Á svipstundu urðu þiljur skipsins þéttskipaðar fólki. Ungir og gamlir eigendur skoðuðu ánægjulegir allt ofan dekks og neðan. Og þeir, sem áður höfðu einhvern kunnugleik af togurum og lífinu á þeim undruðust þær framfarir sem orðið höfðu. Til umbótar þeirri lýsingu, sem getur í ræðu oddvitans, má t. d. taka fram um íbúðir, að frammí eru íbúðir hásetanna, 4 herbergi. Niðri eru 3 herbergi með sex rúmum. Við hvert rúm er ljósastæði og hverju rúmi fylgir sérstakur klæðaskápur. Stígvélageymsla er í hverju herbergi og eitt borð. Þar er einnig olíukynt miðstöð fyrir alla hásetaíbúðina. Uppi er fjórða herbergið og er það með átta rúmum, annars svipað fyrirkomulag og niðri. Þar er borðsalur eða setustofa, hreinlætisklefi með steypibaði og handlaugum með heitu og köldu vatni. Salerni tvö, annað ætlað þeim sem eru að vinna á dekkinu, en hitt ætlað þeim sem eiga frí. Þá er þar stakkageymsla og geymsla fyrir ýmislegt smávegis. Sérstaklega góð loftræsting er um allt skipið, svo alltaf er hægt að hafa hreint og gott loft, hvar sem er í skipinu.


Keflvíkingur KE 19 við Faxagarð.                                                            Ljósmyndari óþekktur.
  
Afturí eru 9 íbúðarherbergi niðri, hvert fyrir einn eða tvo menn, eftir því hve hátt þeir eru settir. Þær eru eins og að líkum lætur íburðarmeiri í innréttingum, enda er þar verulega vistlegt. Í herbergi 1 stýrimanns gat að líta stóran sjúkraskáp, sem hefði getað sómt sér vel á farþegaskipi. Í herbergi 1. vélstjóra voru hinsvegar aflrauna gormar og skákborð, og mun hvortveggja vera persónulegt tillegg hans sjálfs, enda mun hann vera skákmaður góður, og reynst þeim skeinuhættur skákmeisturunum skozku, að sögn skipverja. Forstofa að öllum þessum vistarverum er jafnframt hreinlætisherbergi með handlaug og speglum. Uppi er eldhúsið, 2 borðsalir og 2 búr með góðum vinnuborðum, hreinlætisklefi með handlaugum og steypibaði, stakkageymsla, salerni og frystiklefi sem geyma má 14 kindaskrokka auk annara matvæla. Miðskipa býr svo loftskeytamaðurinn í loftskeytaklefanum og skipstjórinn hefur ljómandi laglega íbúð undir brúnni.
Uppi í brúnni er einnig korta og vinnuklefi skipstjóra.
Af þessari stuttu lýsingu, verður ljóst að meira er nú gert til að bæta aðbúnað sjómanna á þessu öðru heimili þeirra en nokkru sinni fyrr. Aðalvél skipsins er 1300 h.k. (hestöfl) gufuvél olíukynt.  Í vélarrúmi eru ennfremur 2 Rustan mótorvélar, sem framleiða rafurmagn 120 h.k. hvor vél. 1 Rustan ljósamótor 12 h.k., olíukynt miðstöð fyrir aftur og miðskipið. Um 20 smærri rafvélar eru svo víðsvegar um skipið. Dekkspilið er 300 h.k. gufuvél og stýrisvélar eru Hidroisk, sama tegund og er í stórskipinu Queen Mary. Fimm stórir oliugeymar koma í stað kolaboxa og rúma þeir ca. 6 vikna olíuforða handa vélum skipsins. Ef eldur kemur upp á "fýrplássi" og ekki hægt að komast að olíudælum, er hægt að loka fyrir olíurennslið ofan af þilfari og eins að hleypa inn sjó til að slökkva eld. Að sjálfsögðu er skipið búið öllum nýtízku siglingartækjum s.s. radar, miðunarstöð, bergmálsdýptarmælar, talstöð og viðtækjum í allar mannaíbúðir. Vel virðist vandað til allra hluta nema málningar sem virðist víða vera áfátt.
Gísli Jónsson verkfræðingur í Reykjavík, eða menn í hans umboði fylgdust með byggingu skipsins fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.


Apríl GK 122 að utanverðu og Bjarni riddari GK 1 í Hafnarfjarðarhöfn. (C) Byggðasafn Hafnarfjarðar.
  
Hinsvegar var Halldór Gíslason skipstjóri fulltrúi hreppsnefndar Keflavíkur og útgerðarnefndar, við bygginguna, og gerði hann nokkrar tillögur til breytinga um innréttingu og fyrirkomulag, sem sumar hverjar voru teknar til greina, s.s. breytingu á innréttingu frammí, byggingu lýsisgeymis aftur á, sem komið hefir í ljós að er til stór bóta. Eins og áður getur var Keflvíkingur aðeins 2 sólarhringa og 20 tíma á leiðinni frá Aberdeen til Keflavíkur. Ganghraði var því að jafnaði 12 sjómílur á klukkustund. Gott leiði var alla leiðina, 4-5 vindstiga lens. Ekki er því hægt að segja um, að svo stöddu, hvernig hann er í sjó að leggja. Skipshöfnin sem sigldi skipinu heim var þessi:
Halldór Gíslason, skipstjóri. Bjarni Sigurðsson, 1. stýrimaður. Ólafur Björnsson, 2. stýrimaður. Jón Pétursson, 1. vélstjóri. Pétur Jónsson, 2. vélstjóri. Jón Jóhannsson aðstoðarmaður í vél. Jón Ingimundarson, spýssmaður (kindari). Freysteinn Jónsson, spýssmaður. Þorvaldur Magnússon, bátsmaður. Ólafur H. Þórarinsson, loftskeytamaður. Vilmar ísfeld, matsveinn. Hallgrímur Sigurðsson, netamaður. Sigfús Guðmundsson, netamaður. Stefán Pálsson, netamaður. Og munu þessir menn verða áfram á skipinu.
Einnig verða eftirtaldir menn fyrstu hásetar á Keflvíking:
Sigurður Friðriksson, Páll Daníelsson, Þorgils H. Sigurðsson, Benedikt Guðmundsson, Sigurður Valdimarsson, Karl Karlsson, Einar Hjálmtýsson, aðstoðarm., Haraldur Jónsson, Ólafur Helgason, Gunnar P. Guðjónsson, Halldór íbsen, Hafsteinn Jónasson, Hróbjartur Guðjónsson, Guðmundur Þorvaldsson, Jón Arinbjörnsson, Magnús Pálsson, Óskar Ólafsson og Ingiþór Jóhannsson. Að lokum skal þess getið að auk kveðju frá útvegsmálaráðherra og Nýbyggingarráði bárust heillaóskir frá Katli Ólafssyni Kalmannstjörn, Höfnum og Félagi Suðurnesjamanna í Reykjavík. Þá barst rausnarleg gjöf, vandaður sjónauki, frá hjónunum Sigríði Skúladóttur og Halldóri Fjalldal.

Faxi. 1 apríl 1948.

 Austfirðingar fögnuðu komu togarans Vattar í gær

 Þrjú byggðarlög standa að togarafélaginu  Austfirðingi,  sem á tvo togara

Togarinn Vöttur, SU 103, heimahöfn Búðir í Fáskrúðsfirði, sigldi fánum skrýddur inn á Fáskrúðsfjörð um kl. 8,30 í gærkyöldi og lagðist að bryggju. Var þorpið í hátíðabúningi í tilefni skipskomunnar. Mannfjöldi var á bryggjunni og fögnuðu menn þessari glæsilegu viðbót við fiskiflota Austfirðinga.
Vöttur er annar togarinn, sem útgerðarfélagið Austfirðingur eignast, hinn fyrri er "Austfirðingur". Vöttur hét áður Keflvíkingur, og seldu Keflvíkingar skipið. Annaðist ríkisstjórnin fyrirgreiðslu við skipskaupin.
Þegar skipið var lagst að bryggju flutti Jón Erlingur Guðmundsson sveitarstjóri ávarp. Árnaði hann skipi og skipshöfn heilla og bauð velkomið til heimahafnar. Árnaði byggðunum þremur, sem að útgerðinni standa, Fáskrúðsfirði, Reyðarfirði og Eskifirði, heilla í starfi og til hamingju með glæsilegt skip. Hann gat þess í ræðu sinni að þegar fulltrúar byggðanna þriggja mættu á síðasta aðalfundi félagsins Austfirðingur hefðu allir haft meðferðis að heiman frá sér tillögu um að félagið eignaðist annað skip.



Vöttur SU 103 á leið til Fáskrúðsfjarðar.                                                    (C) Vilberg Guðnason.  

Er sá draumur nú orðinn að veruleika. Í ræðu sinni rakti sveitarstjórinn aðdraganda þess, að unnt var að ráðast í skipakaupin, og kvað miklar vonir bundnar við útgerðina og þá afkomumöguleika fyrir fólkið, sem skipið hefði nú opnað. Að lokinni ræðu sveitarstjóra hrópaði mannfjöldinn ferfalt húrra fyrir skipi og skipstjóra, en hann er Steinn Jónsson, og er Fáskrúðsfirðingur að ætt. Hefur verið stýrimaður á Austfirðingi og skiþstjóri í forföllum, en tekur nú í fyrsta sinn við skipi.
Að Iokinni móttökuathöfninni á bryggjunni bauð hreppsnefndin til samsætis í barnaskólahúsinu og var það að hefjast er blaðið átti tal við fréttaritara sinn á Fáskrúðsfirði í gærkvöldi.


Vöttur SU 103 í Reykjavíkurhöfn.                                                             (C) Snorri Snorrason.  

Var þar margt manna samankomið og vorhugur ríkjandi þótt kalt væri í veðri, norðangjóstur og hvítir fjallatindar. Þar voru mættir fulltrúar frá Reyðarfirði og Eskifirði. "Vöttur" heitir eftir fjallstindi á nesinu milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en þar undir stendur Vattarnes. Skipið hefur þegar veiðar og var búist við að það mundi láta úr höfn með morgni.

Tíminn. 25 maí 1956.

19.03.2017 09:51

Björgunar og varðskipið Þór. LCJK.

Björgunar og varðskipið Þór var smíðaður hjá Edward Brothers í North Shields á Englandi árið 1899 fyrir Islands Handel & Fiskeri Akties í Kaupmannahöfn sem togari og hafði hann aðstöðu á Geirseyri í Patreksfirði. Hét þá Thor. 205 brl. 325 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 606. 36,39 x 6,68 x 3,45 m. Skipið var selt 1902, Dansk Damp Trawling Acties í Kaupmannahöfn. Selt árið 1903, danska landbúnaðarráðuneytinu sem notaði hann fyrir hafrannsóknarskip, sem var m.a. við hafrannsóknir hér við land í nokkur sumur. Á tímum fyrri heimstyrjaldarinnar var hann í þjónustu dana sem varðskip í Danmörku. Skipið var selt haustið 1919, Björgunarfélagi Vestmannaeyja og kom skipið fyrst þangað 26 mars 1920. Fékk nafnið Þór. Skipið var selt 1 júlí 1926, Ríkissjóði Íslands og var í þjónustu Landhelgisgæslunnar frá stofnun hennar sama ár. Skipið strandaði á Sölvabakkaskerjum á Húnaflóa 21 desember árið 1929 og eyðilagðist. Áhöfnin, 17 menn og 1 farþegi björguðust á land og einnig um borð í Alliance togarann Hannes ráðherra RE 268 frá Reykjavík.

Björgunar og varðskipið Þór.                                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

   Björgunarfélag Vestmannaeyja

Rúm 10 ár eru liðin síðan Björgunarfjelag Vestmannaeyja var stofnað. Má með sanni segja, að í mikið mál og þarft hafi verið ráðist af Vestmannaeyingum, er þeir stofnuðu björgunarfjelag, með kaup á björgunarskipi fyrir augum. Munu margir hafa ætlað, þeir er ókunnugt voru málinu, að með kaupum björgunarskips myndu Vestmannaeyingar reisa sjer hurðarás um öxl og binda sjer þann bagga, er þeir síðar myndu sligast undir. En Vestmannaeyingar voru stórhuga og stóðu fast saman í þessu máli.  þeim var ljós nauðsynin. þeir þekktu manna best hin vondu veður þegar bátarnir voru í hættu staddir á sjónum, án þess að vitað væri á hvern hátt þeim yrði hjálpað. þegar bát vantaði var algengt, að annar bátur færi að leita hans. Oft var það þá svo, að þeir, sem nýkomnir voru úr hrakningum og með naumindum höfðu sloppið úr dauðans greipum, lögðu aftur út á hafið, til þess að leita að öðrum, sem saknað var og álitið var að myndi hjálpar þurfi.
Vestmannaeyingum var vel Ijóst hver vandræði voru, að þurfa hrekja menn þannig og hætta lífi þeirra, enda kom það fyrir, að slíkir leitarbátar sáust aldrei aftur, en fórust með allri áhöfn. það var ekki síst þess vegna, að Vestmannaeyngar lögðu kapp á, að eignast björgunarbát. En um leið og væntanlegum björgunarbát var ætlað að annast bjargráð, skyldi hann eftir föngum annast veiðafæragæslu og strandgæslu. Í fyrstu var hugmynd Björgunarfjelags Vestmannaeyja sú, að kaupa 50-60 smálesta (brúttó) björgunarbát, trjeskip með olíuvjel.  Gerði stjórn fjelagsins allt, sem í hennar valdi stóð til þess, að hraða málinu og útvega sjer upplýsingar um hvar kaupin myndu hagkvæmust. M. a. sendi fjelagið erindreka til Reykjavíkur og síðan til útlanda í þessu skyni. Áhugi manna á milli var mikll og lögðu menn eftir mætti í samskotasjóð til björgunarbátskaupanna. Safnaðist á þennan hátt stór upphæð, ekki aðeins hjer í Eyjum, heldur einnig út í frá, einkum meðal efnamanna í Reykjavík.


Björgunar og varðskipið Þór í slipp.                                                               (C) Þjóðminjasafnið.  

Bráðabirgðastjórn sú sem kosin var á almennum fundi 3. ág. 1918, til þess, að undirbúa og safna fje til kaupa á björgunarskipi fyrir Vestmannaeyjar annaðist málið mest í fyrstu. Stjórn þessa skipuðu þeir: Karl Einarsson, sýslumaður, form. stjórnarinnar, Jóh. þ. Jósefsson, Gísli Lárusson, þorsteinn Jónsson, Laufási og Árni Filippusson. Tóku þeir sjer síðar til aðstoðar Gísla J. Johnsen, konsúl og Sigurð Sigurðsson, lyfsala, sem síðar varð erindreki fjelagsins til skipakaupa. þann 17. sept. 1918 var kosin stjórn Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Kosnir voru þeir Karl Einarsson, Jóhann þ. Jósefsson, Sigurður Sigurðsson, Jón Hinriksson og Gísli Lárusson. Höfðu þeir síðan mest að gera með skipakaupin. Endirinn varð sá að E, Nielsen var falið fyrir hönd fjelagsins að festa kaup á gufuskipinu "Thor" sem áður hafði verið notað til hafrannsókna og síðar eftirlits.
Verð skipsins var ákveðið 150,000 krónur og að því var gengið. þannig var það, að hinn 26. mars 1920 kom fyrsta íslenska björgunarskipið, þór hingað, og eru því rjett 9 ár síðan næstk. þriðjudag. Skipstjóri Þórs var fyrstur Jóhann P. Jónsson lautinant, en síðar Friðrik Ólafsson, sem enn hefur þar skipstjórn á hendi. þótt þór hafi virst ætla að verða Vestmannaeyingum ofviða um tíma, því að frekur varð hann til fjársins, enda keyptur á dýrasta tíma og óhjákvæmileg afföll verðs, auk reksturskostnaðar, þá munu fæstir sjá eftir því, sem þeir hafa lagt í Björgunarfjelag Vestmannaeyja. það er eitt af þeim fyrirtækjum sem hafa orðið þessum bæ til blessunar og sóma í fortíð og nútíð og mun verða í framtíðinni. það er ekki tækifæri til þess nú, að rifja neitt ítarlega upp verk björgunarskipsins þórs. Auk þess sem þór hefur annast hjer björgunarstarfsemi, hefur hann einnig annast veiðarfæra gæslu til ómetanlegs gagns fyrir Eyjarnar og friðað landhelgina fyrir ágangi innlendra og erlendra veiðiþjófa.


Rannsóknarskipið Thor á Seyðisfirði árið 1903.                                      (C) Winge & Vedel Taning.  

Upprunalega styrkti ríkið B. V. til björgunarbátskaupa. Síðan hefur þór oft verið leigður landsstjórninni til landhelgisgæslu. Og með strandvarnarstarfsemi þórs var stigið stórt spor í áttina til þess, að íslendingar önnuðust landhelgisgæslu sína sjálfir, er tímar liðu fram. En nýverið keypti ríkið skipið og fá Vestmannaeyingar að hafa það hjer um vetrarvertíðina. Mörgum bátum hefur þór bjargað og hjálpað á ýmsann hátt. Marga togara hefur hann staðið að veiðiþjófnaði og aflað ríkissjóði þannig tekna. Gagn það sem orðið hefur af veiðarfæragæslu hans og friðun landhelginnar er ómetanlegt. þetta eru verk Björgunarfjelags Vestmannaeyja. Ýmislegt fleira hefur það afrekað, sem ekki er rúm til þess að rekja að sinni. Fjelagið hefur verið heppið  með val á stjórn sinni, sem skipuð hefur verið ágætum og áhugasömum mönnum, sem allir hafa borið hag fjelagsins fyrir brjósti og unnið af alúð að velferðamálum þess. Auk þingmanns vors, Jóhanns þ. Jósefssonar, sem hefur reynst fjelaginu öruggur og hinn nýtasti fulltrúi, hefur einkum borið á dugnaði og fórnfýsi Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala, sem hefur að mörgu leyti verið fjelaginu sannkölluð hjálparhella. Sama má segja um val skipherra björgunarskipsins. það rúm hafa skipað nýtustumenn,er notið hafa trausts og virð- ingar fjelagsins og sjómanna vorra. Starf þeirra hefur verið farsælt og heillaríkt fyrir Vestmannaeyinga, sem munu líka kunna að meta það að verðleikum. það mun ósk allra Vestmannaeyinga, að heill og gæfa fylgi ætíð Björgunarfjelagi Vestmannaeyja í hinu góða og göfuga starfi þess.

Víðir. 23 mars 1929.


Björgunar og varðskipið Þór. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.               (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Varðskipið "Þór" strandaði í gærkveldi nálægt 
             Höskuldsstöðum á Skagaströnd

Kl. laust fyrir 9 í gærkvöldi barst sú fregn hingað til bæjarins, að varðskipið Þór væri strandað á Skagaströnd, nálægt Höskuldsstöðum,að því er menn hjeldu. Þór fór hjeðan með tvo menn úr kirkjumálanefndinni, þá Runólf á Kornsá og síra Jón Guðnason. Hafði hann komið með Runólf til Blönduóss í fyrradag. Var ferðinni síðan heitið vestur að Prestsbakka með síra Jón.
Í fyrrakvöld skall á ofsaveður í flóanum, og hefir Morgunblaðið ekki glöggar fregnir af ferðum skipsins í gær. En frjetst hefir, að skipstjóri hafi verið hættur við að flytja síra Jón vestur, og hafi verið áform hans að koma honum í land á Blönduósi, er veðrinu slotaði.  
Er loftskeyti barst hingað frá skipinu, var símastöðin lokuð á Blönduósi, og ómögulegt að fá símasamband þangað, eða til Skagastrandar. En loftskeytastöðin hjer hafði samband við skipið fram eftir kvöldinu, og eins heyrðist til Þórs á Borðeyri. Eftir því sem Morgunblaðið komst næst í gærkvöldi, voru skipverjar hinir rólegustu, og ljetu þess getið í skeytum, sem send voru frá skipinu, að þeir biðu í skipinu uns háfjara væri komin, en háfjara var kl. 1 í nótt. Var skipið komið svo nærri landi, að því er skilið varð, að skipverjar töldu eigi vandkvæði á, að komast klakklaust í land, er fjaraði út að fullu. Er skeyti hættu að heyrast frá skipinu, kl. að ganga 12, gátu menn hjer ekki vitað, hvort það kom til af því, að skipverjar hefðu yfirgefið skipið þetta fyrr en þeir í upphafi hugsuðu sjer, ellegar loftskeytatækin hefðu bilað. En ekki var til neins að bíða frekari fregna í nótt, því að útilokað var, að nokkuð frjettist, úr því loftskeytasamband hætti, fyrri en kl. 10 f. h. í dag, er síminn verður opnaður.
Skipstjórinn á Þór gaf ekkert upp um það í skeytunum, er hann sendi, hvernig slys þetta hefði borið að höndum, hvort einhver bilun hefði átt sjer stað í rúmsjó, og skipið því rekið á land undan veðri af þeim orsökum, ellegar annað hefði komið þar til greina. Engin skip voru á Húnaflóa í gærkvöldi, er til náðist, eða neinstaðar svo nálægt, að nokkur leið væri til þess að koma Þór til hjálpar. Telja má víst, að dagar Þórs sjeu taldir. Hann var byggður árið 1899 í North Shield í Englandi. Var byggður sem togari. Nokkru síðar seldur dönsku stjórninni, og notaður til hafrannsókna, sem kunnugt er, bæði hjer við land og víðar, uns Björgunarfjelag Vestmannaeyinga keypti hann árið 1920. Ríkissjóður keypti hann árið 1926. Stærð hans var 205 brutto tonn. Vjelin með 325 hestöflum. Hann var "klassaður" fyrir tveimur árum.

Morgunblaðið. 22 desember 1929.

18.03.2017 13:34

1937. Björgvin EA 311. TFFY.

Björgvin EA 311 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A.S. í Flekkefjord í Noregi árið 1988 fyrir Útgerðarfélag Dalvíkinga h/f á Dalvík. 499 brl. 2.224 ha. Deutz díesel vél, 1.635 Kw. Smíðanúmer 142. Kom fyrst til heimahafnar, Dalvíkur 26 júlí árið 1988. Skipið er gert út af Samherji Ísland ehf á Akureyri í dag en heimahöfnin er Dalvík eins og alltaf hefur verið. Ég tók þessar myndir af togaranum þar sem hann lá við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í gær.


1937. Björgvin EA 311 í Hafnarfjarðarhöfn í gær.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.


Björgvin EA 311.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 mars 2017.

                  Björgvin EA 311

Nýr skuttogari, m/s Björgvin EA 311, bættist við fiskiskipastólinn 26. Júlí s. I. en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Dalvíkur. Björgvin EA er smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S, Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 142 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni hf. í Reykjavík. Björgvin EA er fimmtándi skuttogarinn, sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, en auk þess hefur stöðin séð um smíði á einum skuttogaraskrokk (Björgúlf EA) fyrir Slippstöðina. Skrokkar allra þessara togara eru smíðaðir hjá Kvina Verft í Flekkefjord, sem annast hefur þann þáttsmíðinnar fyrir Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk. Hinn nýi Björgvin kemur í stað samnefnds skuttogara, sem einnig var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk (afhentur í janúar 1974) fyrir sömu útgerð. Gamli Björgvin hefur nú verið seldur til Noregs. Björgvin EA er með búnaði til heilfrystingar á karfa og gráluðu, auk búnaðar til ísfiskmeðhöndlunar. Björgvin EA er í eigu Útgerðarfélags Dalvíkinga hf., Dalvík. Skipstjóri á skipinu er Vigfús R. Jóhannesson og yfirvélstjóri Hafsteinn Kristinsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Valdimar Bragason.

Ægir. 1 ágúst 1988.


17.03.2017 19:26

1270. Mánaberg ÓF 42 selt til Múrmansk í Rússlandi.

Togarinn Mánaberg ÓF 42 hélt af landi brott í síðasta sinn í dag frá heimahöfn sinni, Ólafsfirði. Skipið hefur verið selt til Múrmansk í Rússlandi. Togarinn var smíðaður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f, hét fyrst Bjarni Benediktsson RE 210 og kom til heimahafnar, Reykjavíkur 10 janúar árið 1973. Árið 1986 var skipið í eigu Ríkisábyrgðasjóðs og hét þá Merkúr RE 800. Skipið var svo selt 28 janúar 1987, Sæbergi h/f á Ólafsfirði og hefur borið nafnið Mánaberg síðan. Togarinn var gerður út af Ramma h/f á Siglufirði en heimahöfn þess var Ólafsfjörður. Þeir eru örugglega margir sem sjá á eftir þessu góða og aflasæla skipi, en svona er þetta bara. Ný skip munu halda áfram að bætast við fiskiskipaflotann og þau gömlu fara sína leið, í erlenda eigu eða í pottinn alræmda.
Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sendi mér þessar glæsilegu myndir af togaranum þegar hann hélt af stað til nýrra heimkynna í dag. Þakka Hauki kærlega fyrir afnotin af myndunum. Þetta skip hefur þjónað eigendum sínum vel á þeim rúmu 44 árum síðan það kom nýtt til landsins. Óska þessu fallega skipi velfarnaðar í framtíðinni.

Mánaberg ÓF 42.                                                                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson. 


Mánaberg ÓF 42 í dag.                                                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42.                                                                (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánaberg ÓF 42 fær heiðursfylgd út fjörðinn.                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


1270. Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til landsins 10 janúar 1973.          (C) Morgunblaðið.


Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til landsins 10 janúar 1973.                 (C) Morgunblaðið.

16.03.2017 21:04

Landlega Síldveiðiskipanna í Neskaupstað um og eftir 1960.

Ég held mig ennþá við bryggjurnar, nú eru það síldveiðiskipin sem liggja í röðum við bryggjurnar í Neskaupstað um árið 1960. Það hefur nú verið mikið fjör þegar mörg voru skipin í landi og íbúatala bæjarins tvöfaldast eða jafnvel meira. Margar sögurnar hefur maður nú heyrt um dansleiki sem haldnir voru í gamla Gúttó og svo síðar í Egilsbúð þegar hún var byggð árið 1962. Það hefur nú verið glatt á hjalla þegar fleiri hundruð sjómanna komu saman að skemmta sér og jafnvel sjómenn af erlendum skipum líka. Oft skarst í kekki með mönnum og stundum þurfti lögreglan í Neskaupstað með hjálp starfsbræðra sinna á Eskifirði og Reyðarfirði að skakka leikinn meðan hæst lét. En algengara var að sjómennirnir skemmtu sér vel og héldu svo til veiða daginn eftir ef veður leyfði. Síldarævintýrið hefur verið magnaður tími fyrir þá sem upplifðu þessa uppgripatíma í sögu þjóðarinnar.


Síldarbátar við bryggju í Neskaupstað um og eftir 1960.                               (C) Björn Björnsson.


Síldveiðiskipin í röðum við bryggjuna. Það gera tunnurnar líka.                   (C) Björn Björnsson.


Landlega í Neskaupstað um 1960.                                                              (C) Björn Björnsson.


Síldveiðiskipin liggja við bryggjurnar í Neskaupstað. Húsið í forgrunni er frystihús Íshúsfélags Norðfirðinga sem byggt var árið 1946. Þar við hliðina er Hafnarhúsið. Niður af því er ytri bæjarbryggjan. Verið er að bræða síld í síldarbræðslu SVN fyrir botni fjarðarins.                         (C) Reynir Zoega 1961.





.

Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062992
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 16:37:59