Færslur: 2019 Maí

26.05.2019 18:14

Gömul mynd frá Dalvík.

Þessi mynd frá Dalvík er tekin fyrir margt löngu síðan. Báturinn hægra megin hét Valur EA 110, 6 brl, smíðaður í Skipasmíðastöð Nóa Kristjánssonar á Akureyri árið 1954 fyrir bræðurna Agnar, Gunnar og Þóri Stefánssonum og Björn Þorleifsson á Dalvík. Báturinn fórst í mannskaðaveðrinu 9 og 10 apríl árið 1963 og með honum bræðurnir Gunnar Stefánsson og Sigvaldi Stefánsson frá Dalvík. Það voru 16 íslenskir sjómenn sem fórust í þessu hræðilega mannskaðaveðri.


Frá Dalvík. Valur EA 110 til hægri.                                                                      Ljósmyndari óþekktur. 

   4 menn hafa farist og 7 saknað
     eftir fárviðrið fyrir Norðurlandi

Flestir voru bátarnir út af Eyjafirði, og var rokið svo mikið að innsiglingin til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar lokaðist og urðu allir bátarnir að leita inn á Eyjafjörð. Þar var varðskipið Ægir þeim til aðstoðar. Samkvæmt viðtali við Akureyri í morgun skall óveðrið yfir í gær eins og hendi væri veifað og kom flestum mjög á óvart því veður var gott í gærmorgun og bátar á sjó úr öllum Eyjafjarðarhöfnum. Verst urðu Dalvíkingar úti, en þaðan fórust þrjár trillur í gær, þó björguðust mennirnir af þeim nema einni, bátnum Val, sem á voru tveir bræður, Gunnar og Sigvaldi Stefánssynir. Þeir voru norður af Gjögrum þegar veðrið brast á, höfðu seinna samband við m.s. Esju sem var á vesturleið og báðu um að mega fylgjast með henni fyrir Gjögra. Allt í einu hvolfdi bátnum og gátu skipverjar á m.s. Esju dregið annan manninn, Sigvalda, meðvitundarlausan úr sjó, en Gunnar bróður hans sáu þeir aldrei. Fór Esja með Sigvalda til Akureyrar, en hann komst aldrei til meðvitundar og þegar til hafnar kom, úrskurðaði læknir hann látinn. Sigvaldi heitinn lætur eftir sig konu og þrjú börn. Gunnar bróðir hans var ókvæntur. Þá er enn eins báts frá Dalvík saknað, Hafþórs, sem á er 5 manna áhöfn. Það síðasta sem til hans er vitað var það að hann sást norður af Gjögrum um kl. 4 í gærdag. Síðan hefur ekki til hans sézt. Skip hafa leitað bátsins í alla nótt en árangurslaust. Skipstjóri á Hafþóri er Tómas Pétursson. Áhöfnin er öll frá Dalvík. Alls voru þrír þilfarsbátar og margar trillur á sjó frá Dalvík þegar óveðrið brast á, en aðrir bátar en framangreindir fjórir björguðust.

Vísir. 10 apríl 1963.


26.05.2019 11:27

1351. Snæfell EA 310. TFBY.

Togarinn Snæfell EA 310 er búinn að liggja lengi við bryggju á Akureyri og endar sjálfsagt í brotajárni á næstu misserum eins og önnur gömul skip sem hefur verið lagt. Skipið var smíðað hjá Söviknes Verft A/S í Syvikgrend í Noregi árið 1968, hét fyrst Stella Kristína. 1.319 bt. 2.996 ha. Bergen vél, 2.205 Kw. Skipið komst í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf árið 1973 og hét Sléttbakur EA 304.Skipið var lengt og breytt í frystiskip árið 1987. Hét svo seinna Akureyrin EA 110, þá í eigu Samherja hf. sem á skipið í dag. Einstaklega fallegt og vandað skip.


1351. Snæfell EA 310 við bryggju á Akureyri.                                        (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                                                                              (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Sléttbakur EA 304.                                                                                  Ljósmynd í minni eigu.

                 Ný fiskiskip
                   Sléttbakur EA 304
                   Svalbakur EA 302

Í desember s. l. komu tveir skuttogarar til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Togara þessa keypti útgerðarfélag Akureyringa h.f. frá Færeyjum, og hétu þeir áður Stella Kristina og Stella Karina. Skipin voru byggð í Sovikens Verft A/S í Noregi á árunum 1968-1969, og útbúin sem verksmiðjuskip. í skipunum voru vinnslu- og frystitæki, þar sem fullvinna átti fiskinn um borð, en vinnslutæki hafa nú verið fjarlægð og sett í staðinn blóðgunarker, aðgerðarborð, þvottaker og færibönd eins og algengast er í skuttogurum þeim sem íslendingar hafa fengið undanfarið. Þar sem hér var um verksmiðjuskip að ræða var gert ráð fyrir stórri áhöfn, 48-50 mönnum, svo rúmt ætti að vera um þessa 23-24 menn sem á skipunum verða. Meðfylgjandi mynd sýnir fyrirkomulag í þessum skipum, sem eru systurskip. Eftirfarandi lýsing á tækjabúnaði á því við um hvort skipið sem er.
Aðalvél skipsins er frá MWM, gerð TBRHS 345 A, sem skilar 2.200 hö. við 500 sn/mín. Við vélina er niðurfærslugír (2:1) frá RENK, gerð AUSL 63, sem tengist 4ra blaða skiptiskrúfu frá Liaaen, gerð CP D71/4, um 2,8 m í þvermál. Framan á vélinni er aflúttak fyrir vökvadælur vindukerfisins. Hjálparvélar eru þrjár, allar eins, frá MWM, gerð RHS 518 A, sem gefa 166 hö. við 1000 sn/mín. Á vélunum eru rafalar frá Siemens, sem gefa 154 KVA, 380 V, 50 rið. Stýrisvél er frá Frydenbö, gerð HS 40, sem gefur maks. snúningsvægi 8000 kgm. Sjálfstýring er frá Anschútz. Vindukerfi skipsins er vökvaknúið (lágþrýst), og er það frá A/S Hydraulik Brattvág. Togvindur eru tvær (splitwinch), gerð D1A10U, sem gefa hvor um sig 6,5 tonna meðaltogkraft við 66 m /mín vírahraða. Víramagn á hvora tromlu er 1500 faðmar af 3 1/4" vír. Togvindurnar eru staðsettar aftarlega á togþilfari, sitt hvoru megin við skutrennu. Grandaravindur eru tvær, gerð MA8/A8, sem gefa um 6 tonna togkraft. Þessar vindur eru staðsettar framarlega á togþilfari, og eru bobbingarennurnar í göngum sitt hvorum megin við þilfarshúsið. Vegalengd frá skutrennu og að vindum er um 45 m. Þá eru tvær samskonar vindur á bátaþilfari, en þær eru fyrir hífingar. Aftast á bátaþilfari er vinda, með 5 tonna togátaki, til að losa trollpokann og hífa hann aftur, þegar kastað er. Akkerisvindan er af gerðinni 3/B7-47. Vindum er stjórnað frá stjórnklefa, sem staðsettur er á togþilfari, aftan við þilfarshúsið. Af siglingatækjum um borð í skipinu má nefna: Loftskeytastöð: Dansk Radio. Ratsjár: Raytheon 1060/25, 10 cm, 48 sml. og Raytheon 1060/6X, 3 cm, 48 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A 201, sjálfvirk. Loran: Furuno LC-1. Gyroáttaviti: Anschútz. Fiskleitartæki eru eftirfarandi: Asdik: Simrad Sonar SB 3 tengt fisksjá Simrad Sonar Scope CK 2. Dýptarmælar: Simrad EK 38 A og Simrad EK 50 A. Við þessa mæla er tengd fisksjá Simrad Echo Scope CB 2. Netsjá: Elac.
Stærð skipsins 834 brl.
Mesta lengd 61.74 m.
Lengd milli lóðlína 54.33 m.
Breidd 10.21 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.00 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.80 m.
Djúprista 4.75 m.
Lestarrými undir neðra þilfari . . 820 m3
Lestarrými á milliþilfari 180 m3
Olíugeymar (skiptigeymar) ... . 398 m3
Ferskvatnsgeymar 41 m3
Lýsisgeymar 42 m3
Hraði í reynslusiglingu 13,9 sm
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson og fyrsti vélstjóri Valur Finnsson. Á Svalbak er Halldór Hallgrímsson skipstjóri og fyrsti vélstjóri er Freysteinn Bjarnason. Framkvæmdastjórar Útgerðarfélags Akureyringa eru Vilhelm Þorsteinsson og Gísli Konráðsson. Ægir óskar eigendum og áhöfnum til hamingju með þessi glæsilegu skip.

Tímaritið Ægir. 1 desember 1973.


22.05.2019 09:13

744. Sigurfari MB 95. TFZK.

Vélbáturinn Sigurfari MB 95 var smíðaður í Skipasmíðastöð Þorgeirs Jósefssonar á Akranesi árið 1940 fyrir Bergþór Guðjónsson skipstjóra og Sigurð Þorvaldsson vélstjóra á Akranesi. Eik. 61 brl. 160 ha. Alpha vél. Ný vél (1943) 193 ha. Allen vél. Árið 1947 fékk Sigurfari skráningarnúmerið AK 95. Ný vél (1953) 200 ha. Hundested vél. Seldur 19 nóvember 1958, Fiskiveri hf á Akranesi, sama nafn og númer. Ný vél (1960) 495 ha. Lister vél. Seldur 27 nóvember 1963, Hilmari Rósmundssyni og Theódór Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Sæbjörg VE 56. 25 september 1969 er Sæbjörg hf í Vestmannaeyjum eigandi Sæbjargar. Ný vél (1970) 425 ha. Caterpillar vél. Seldur 2 desember 1975, Öxl hf í Sandgerði, hét Sigrún GK 380. Endurmældur í júní 1976, mældist þá 64 brl. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 29 mars árið 1982.


Sigurfari MB 95 ný smíðaður á Akranesi árið 1940.                                (C) Haraldur Sturlaugsson.


Sæbjörg VE 56 í innsiglingunni til Vestmannaeyjahafnar.                          Ljósmyndari óþekktur.

           Nýr fiskibátur

Skipið er byggt á skipasmíðastöð Þorgeirs Jósefssonar á Akranesi. Yfirsmiður, Eyjólfur Gíslason, skipasmíðameistari, Reykjavík. Stærð: Lengd 65,8 fet. Breidd 17,1 fet. Dýpt 8,8 fet. Rúmmál 61,41 smálest brúttó. Djúprista án farms 7 fet, fullfermt 10 fet. Byggður úr eik. Innrétting: Hásetaklefi með 14 hvílum, lestarrúm, vélarrúm, skipstjóraklefi með 2 hvílum. Aflvél: Alpha dieselmótor 140 /160 ha. Burðarmagn skipsins ca. 75 smálestir. Kostnaðarverð 115 þúsund krónur. Styrkur frá Fiskimálanefnd kr. 21,350.00.
Eigendur: Bergþór Guðjónsson skipstjóri og Sigurður Þorvaldsson vélstjóri, báðir ungir og efnilegir menn, til heimilis á Akranesi, fæddir og uppaldir þar. Báturinn stundar nú þorskveiðar með línu, í venjulega 7-8 daga veiðiferðum. Ætlar að stunda síldveiði á sumri komandi. Svo er og hugsað til að fá "troll" útbúnað á bátinn og ef til vill fleiri tegundir veiðarfæra, ef heppni leyfir og tilefni gefast. "Víkingur" óskar eigendunum til hamingju með bátinn.

Sjómannablaðið Víkingur. 5-6 tbl. 1 mars 1940.


21.05.2019 10:16

1526. Ýmir HF 343. TFUG.

Skuttogarinn Ýmir HF 343 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1971 fyrir Richard Irvin & Sons Ltd í Aberdeen, hét fyrst Ben Lui A 166. 449 brl. 1.650 ha. British Polar vél, 1.214 Kw. 48,80 x 10,09 x 6,71 m. Smíðanúmer 364. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 30 desember árið 1970. Seldur 20 nóvember 1978, Stálskip hf í Hafnarfirði, fékk nafnið Ýmir HF 343. Togarinn var seldur til Spánar árið 1988 og var síðan gerður út frá Úrúgvæ, sama nafn. Mikill eldur kom upp í togaranum 10 apríl árið 1990. Var þá á veiðum um 37 sjómílur út af San Bernando við Buenos Aires í Argentínu. Togarinn var tekinn í tog til Montevideo í Úrúgvæ. Var gerður upp og seldur, óvíst hverjum. Togarinn sökk 13 júní árið 1992. Óvíst hvar og afdrif skipverja ókunn.


1526. Ýmir HF 343 við öldubrjótinn á Siglufirði.                                                 (C) Einar Sturluson.
 

     Nýr skuttogari til Hafnarfjarðar

Hlutafélagið Stálskip h/f, Hafnarfirði, hefir keypt 469 rúmlesta skuttogara frá Aberdeen í Skotlandi. Hið nýja skip ber nafnið Ýmir með einkennisbókstöfum HF 343. Skip þetta er 7 ára gamalt byggt í Aberdeen í Skotlandi eftir kröfum Lloyds-flokkunarfélagsins og er mesta lengd þess 48.7 m og breidd 10.0 m. Skip þetta hefir reynzt mjög gott sjóskip og var stærsta skip Richard Irvin & sons, sem gert var út frá Aberdeen. Engin lán fengust til kaupana úr opinberum sjóðum hér vegna ákvæða ríkisstjórnarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Stálskip h.f.
Skipstjóri á Ými verður Sverrir Erlendsson, 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Ýmir er væntanlegur til Hafnarfjarðar í dag. Stálskip h/f átti áður síðutogarann Rán GK 42.

Morgunblaðið. 21 nóvember 1978.


Skuttogarinn Ben Lui A 166 frá Aberdeen.                                                      Ljósmyndari óþekktur.
 

          Skozkur togari reyndi að                                sigla á Fylki NK

Rétt fyrir hádegi á þriðjudag reyndi skoski togarinn Ben Lui A 166 tvívegis að sigla á togbátinn Fylki NK 102, þegar báturinn var staddur 14 sjómílur suðaustur af Langanesi. Ben Lui er nýr skuttogari, 700-800 tonn og er fyrsti stóri skuttogarinn, sem Aberdeen menn eignast. Skipstjórinn á Fylki, Trausti Magnússon, Seyðisfirði, lýsti þessum atburði svo í viðtali við Þjóðviljann: "Var vont skyggni og þokuslæðingur á þessum slóðum, er brezki togarinn kom allt í einu að norðan og sigldi aðeins 40-50 metra fyrir framan stefnið á báti okkar. Áttum við réttinn, enda var togarinn á öfugum bógi við okkur. Við stöðvuðum bátinn til þess að forða árekstri og settum síðan á hæga ferð áfram og keyrði togarinn á undan okkur smástund. Allt í einu snarsnýr togarinn í bakborða og stefndi beint á síðu bátsins. Beygðum við þá undan honum á 10-11 mílna ferð og tilbúnir að setja á fulla ferð. Sneri togarinn þá frá okkur. Það var heldur óhuggulegt að verða fyrir þessum tilraunum togarans til þess að keyra okkur niður.
Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir." Það atferli skipstjórans á Ben Lui, sem hér hefur verið lýst, er mjög hættulegt og vítavert. Við trúum því ógjarnan, að brezkir togaraskipstjórar séu glæpamenn, sem gera sér leik að því að sigla niður íslenzka fiskibtáa og drepa íslenzka sjómenn. Væri þá íslendingum illa launuð björgun fjölda brezkra sjómanna úr sjávarháska, en oft hafa íslendingar stofnað lífi sínu í bráðan voða við slík björgunarstörf. En eins og skipstjórinn á Fylki sagði: "Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir," og er því nauðsynlegt að hafa góðar gætur á ferðum og atferli brezku togaranna. Jafnvel þó skipstjórinn á Ben Lui hafi ekki ætlað að sökkva Fylki, heldur aðeins að skjóta áhöfninni skelk í bringu og glettast við hana, er athæfi hans stór vítavert og hættulegt. Þegar skip sigla á fullri ferð í mjög lítilli fjarlægð hvort frá öðru, og virða siglingareglur að vettugi, 'þarf ekki mikið út af að bera til þess að stórslys hljótist af.

Austurland. 22 september 1972.


Togarinn Ýmir HF 343 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
 

    Ýmir komst til hafnar í Njarðvík
    eftir mikinn barning í óveðrinu

Togarinn Ýmir sem strandaði á Geirfuglaskeri í fyrrinótt var dreginn til hafnar í Njarðvík um fimmleytið í gærdag. Mikill sjór var í skipinu og maraði stefni þess í hálfu kafi. Öll áhöfnin var þá komin um borð í skipið Heimi frá Keflavík, sem fylgdi skipunum eftir. Vigri frá Reykjavík dró Ými til hafnar en hann var fyrstur á vettvang. Rok og rigning var fram eftir degi og tafði það björgun. Voru menn milli vonar og ótta hvort takast myndi að koma togaranum til hafnar. Í fyrstu voru þrír af fjórtán manna áhöfn skipsins um borð. Vegna slæms útlits voru þeir síðan einnig teknir um borð í Heimi, sem er 190 tonna skip, gert út frá Keflavík. Það var ævintýri likast að fylgjast með Ými þar sem hann hékk stjórnlaus aftan í Vigra og rásaði til og frá. Þykir mikil mildi að ekki fór verr. Stefnt var að því að taka togarann í slipp í Njarðvík. Átti að dæla sjónum úr skipinu og draga hann á þurrt í nótt. Áhöfnin var við góða heilsu og varð engum meint af volkinu. Mikill viðbúnaður var í Keflavík og Njarðvík þegar skipin komu til hafnar. Fjöldi fólks fylgdist með drættinum eftir því sem mögulegt var. Skipin voru fyrst sjáanleg um eittleytið og voru þá stödd út af Garðskaga. Mikill mannsafnaður var síðan saman komin á bryggjunni þegar skipin komu að landi. Ýmir eru í eigu hjónanna Agústs Sigurðssonar og Guðrúnar Lárusdóttur. Þau keyptu skipið árið 1978 frá Bretlandi. Það er gert út frá Hafnarfirði.

DV. 17 júlí 1982.


Ýmir dreginn til hafnar í Njarðvík af togaranum Vigra RE 71. Eins og sést kom mikill leki að Ými. Það er Heimir KE sem er á milli þeirra. Áhöfnin er um borð í honum.     (C) Dagblaðið-Vísir.
 

            Ýmir HF 343   

21. nóvember s.l. bættist nýr skuttogari í flota landsmanna, en þá kom skuttogarinn Ýmir HF í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Ben Lui, er keyptur notaður frá Skotlandi, og er byggður þar árið 1971 hjá skipasmíðastöðinni John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen, smíðanúmer 364. Ýmir HF er í eigu Stálskips hf. í Hafnarfirði, sem á fyrir síðutogarann Rán GK. Skipstjóri á Ými er Sverrir Erlendsson og 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Guðrún Lárusdóttir.
Skipið er tveggja þilfara skuttogari með skutrennu upp á efra þilfar og er byggt samkvæmt reglum og undir eftirliti Lloyd's Register of Shipping í flokki +100AI Stern Trawler,+LMC. Báðum þilförum er lyft um 6I cm í framskipi, en tilgreind dýpt hér á eftir er miðuð við afturskip. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með fjórum vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki (þurrgeymir); keðjukassar, og ferskvatnsgeymir; fiskilest með botngeymum fyrir ferskvatn og sjókjölfestu; vélarúm með botn- og hágeymum fyrir brennsluolíu og skutgeymar aftast fyrir sjókjölfestu, Fremst á neðra þilfari er geymsla, en þar fyrir aftan á fremri hluta neðra þilfars, er vinnuþilfar (aðgerðarrými) og aftur úr því, b.b.-megin við miðlínu, er gangur aftur að fiskmóttöku, sem er fyrir flutning á fiski. Sitt hvoru megin við ganginn eru íbúðarými sem tengjast saman með íbúðagangi þverskips, aftan við vinnuþilfar, en fiskurinn er fluttur með færibandakerfi yfir umræddan íbúðagang upp á efra þilfar og síðan aftur niður á vinnuþilfar. Fiskmóttaka er aftarlega á neðra þilfari, fyrir miðju, en þar fyrir aftan er stýrisvélarrúm undir skutrennu og veiðarfærageymslur aftast í báðum síðum. Yfirbygging skipsins er miðskips og er tvær hæðir auk brúar (stýrishúss), en enginn hvalbakur er á skipinu. Neðst er þilfarshús, inngangur, geymslur, klefi fyrir hafnarljósavél o.fl. en til hliðar við það eru gangar fyrir grandara- og bobbingavindur, sem eru opnir að aftan. Yfir þessu þilfarshúsi er íbúðarhæð en aftan við hana er togvindan staðsett á palli, og klefi fyrir togvindumótor er aftast í íbúðarhæð. í brú, s.b.-megin, er kortaklefi og loftskeytaklefi. Togþilfarið afmarkast að framan af þilfarshúsi og þili sem tengist framhlið þilfarshúss. Í framhaldi af skutrennu að aftan kemur vörpurenna sem greinist í tvær bobbingarennur, sem ná fram í ganga, þar sem grandara- og bobbingavindur eru. Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi, en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús, fyrir vélabúnað o.fl.
Aðalvél skipsins er British Polar, gerð SF 112 VS-C, 12 strokka fjórgengisvél með forþjöppu og eftirkælingu. sem skilar 1.650 hö við 759 sn/mín.
Mesta lengd, 48.77 m.
Lengd milli lóðlina 42.67 m.
Breidd 10.06 m.
Dýpt að efra þilfari 6.10 m.
Dýpt að neðra þilfari 3.96 m.
Lestarrými 370. M3.
Brennsluolíugeymar 141. M3.
Ferskvatnsgeymar 40. M3.
Sjókjölfestugeymar 60. M3.
Rúmlestatala 469 brl.
Skipaskrárnúmer 1526.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1979.

 
 

16.05.2019 07:11

Minningartaflan í Hafnarfjarðarkirkju.

Í Hafnarfjarðarkirkju er minningartafla sem gefin var af félagi botnvörpueigenda í Hull til minningar um skipverjanna af Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104 sem fórst í Halaveðrinu í febrúar árið 1925. Einkar falleg tafla sem hangir í kór kirkjunnar. Var hún afhent við hátíðlega athöfn í kirkjunni í nóvember 1926, eða fyrir rúmum 92 árum síðan og hefur hún alla tíð verið í Hafnarfjarðarkirkju eftir því sem ég best veit.

 

Minningartaflan í kór Hafnarfjarðarkirkju.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

  Minningartafla afhjúpuð í

       Hafnarfjarðarkirkju

Sunnudaginn 14. nóv. var afhjúpuð, í Hafnarfjarðarkirkju, tafla sú, sem gerð hefir verið til minningar um menn þá, sem fórust á botnvörpuskipinu Fieldmarshal Robertson, en þeir voru bæði enskir og íslenskir, sem kunnugt er, og eru nöfn þeirra allra letruð á töfluna, en fánar beggja landa, Bretlands og Íslands eru greyptir efst á töfluna. Félag útgerðarmanna botnvörpuskipa í Hull,  ,,The Hull Steam Trawlers Mutual Insurance and Protecting Company Ltd.", hefir gengist fyrir því, að minningartaflan var gerð, og fékk leyfi sóknarnefndarinnar til þess að hún yrði geymd í Hafnarfjarðarkirkju, með því að skipið Fieldmarshal Robertson var gert út frá Hafnarfirði, þegar það fórst. Gefendurnir báðu breska konsúlinn í Reykjavík, hr. Ásgeir Sigurðsson O.B.E. að afhjúpa minningartöfluna í þeirra nafni, og fór sú athöfn fram að viðstöddu miklu fjölmenni, þegar guðsþjónustugerð var lokið. Um leið og breski konsúllinn afhjúpaði minningartöfluna, mælti hann nokkur orð og sagði m. .a. að gefendurnir vildu með þessu varðveita minningu hinna látnu manna og jafnframt sýna ættingjum þeirra og vinum samúð í sorgum þeirra. Eftir það flutti prófasturinn síra Árni Björnsson hjartnæma ræðu og að henni lokinni var sunginn sálmurinn "Hærra minn guð til þín", og var athöfn þessi hin hátíðlegasta og ógleymanleg þeim, sem við voru staddir.

Ægir. 19 árg. 1 nóvember 1926.


Fyrirkomulagsteikning af samskonar skipi og Robertson.   

 

     Þeir sem fórust með

 togaranum Robertson

Einar Magnússon, skipstjóri, Vesturgötu 57.
Björn Árnason, 1. stýrim., Laufásvegi 43.
Sigurður Árnason, 2. stýrim., frá Móum, Kjalarnesi.
Bjarni Árnason, Grund, Kjalarnesi.
Bjarni Eiríksson. bátsm., Hafnarfirði.
Jóhann Ó. Bjarnason. Óðinsgötu. 17 B.
Gunnlaugur Magnússon, Vesturgötu 57.
Einar Helgason, matsv., Patreksfirði.
Anton Magnússon, frá Patreksfirði.
Halldór Guðjónsson. Njálsgötu 36 B.
Erlendur Jónsson, Hafnarfirði.
Þórður Þórðarson, Hafnarfirði.
Tómas Albertsson., frá Teigi í Fljótshlíð.
Sigurjón Guðlaugsson, Hafnarfirði.
Valdemar Kristjánsson, Bræðrabst.24A
Halldór Sigurðsson, Akranesi.
Ólafur Erlendsson, Hafnarfirði.
Ól. Bjarni Indriðason, Patreksfirði.
Árni Jónsson Ísfjörð, Þingh.str. 15.
Jón E. Ólafsson, Keflavík.
Einar Hallgrímsson, Hafnarfirði.
Magnús Jónsson, loftskeytam. Flatey
Jón Magnússon. Grettisgötu 53 A.
Vigfús Elísson, Hafnarfirði.
Óli Sigurðsson, Norðfirði.
Egill Jónsson, Hafnarfirði.
Óskar V. Einarsson, Vesturg. 30.
Kr. Karvel Friðriksson, Reykjavík.
Jóhannes Helgason hjálparmatsveinn, Hafnarfirði.


Englendingarnir sem fórust voru:

Charles Henry Beard, skipstjóri.
Alfred Wright, Stýrimaður.
Fred Bartle, 1 vélstjóri.
William Lowey, 2 vélstjóri.
George S Jackson, kyndari.
John Murray, kyndari.

 


15.05.2019 19:43

156. Náttfari ÞH 60. TFXY.

Vélskipið Náttfari ÞH 60 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1962 fyrir Barðann hf á Húsavík. 169 brl. 660 ha. Lister vél. Skipið var lengt árið 1966 í Noregi og mældist þá 208 brl. Frá 7 desember 1966 hét skipið Þorri ÞH 10, sömu eigendur. Skipið var endurmælt í júní 1970 og mældist þá 170 brl. Selt 10 febrúar 1975, Pólarsíld hf á Fáskrúðsfirði, hét þá Þorri SU 402. Mikil slagsíða kom að Þorra er hann var staddur rétt austan við Ingólfshöfða 18 október árið 1979, með þeim afleyðingum að hann sökk. Var skipið þá á heimleið með síldarfarm til Fáskrúðsfjarðar. Það var vélskipið Gunnar SU 139 frá Reyðarfirði sem bjargaði áhöfninni, 10 mönnum.


156. Náttfari ÞH 60.                                                    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

                 Náttfari ÞH 60

Fyrra laugardag kom til Húsavíkur nýr stálbátur, smíðaður í Moldö í Noregi. Bátur þessi er 168 rúmlestir að stærð og hefur hlotið nafnið Náttfari, ÞH 60. Í bátnum er 640 ha Lister-dieselvél, og ganghraði í reynsluferð var 11,6 sjómílur. Báturinn er að sjálfsögðu búinn öllum nýjustu siglingatækjum og fiskileitartækjum, einnig kraftblökk til síldveiða. Eigandi Náttfara er útgerðarfélagið Barðinn h.f. (Stefán og Þór Péturssynir). Skipstjóri verður Stefán Pétursson og vélstjóri Kristinn Gunnarsson.

Verkamaðurinn. 29 júní 1962.

 Mannbjörg varð er síldarbátur sökk

Vélbáturinn Þorri SU 402 frá Fáskrúðsfirði sökk um klukkan 20 í gærkvöldi. Mannbjörg varð og engin slys á mönnum. Báturinn var á heimleið frá síldarmiðunum við Ingólfshöfða með 70 lestir af síld þegar óhappið varð. Áhöfninni, 10 mönnum, var bjargað um borð í vélbátinn Gunnar SU frá Reyðarfirði. Gunnar er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar með mennina snemma í fyrramálið. Vonzkuveður var af austan þegar báturinn sökk. Þorri SU 402 var 170 lesta stálbátur, byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn hét áður Náttfari.

Morgunblaðið. 19 október 1979.


Vélskipið Gunnar SU 139 bjargaði áhöfn Þorra SU, 10 mönnum.                (C) Vilberg Guðnason.

"Við reyndum að rétta bátinn við en
     það varð ekki við neitt ráðið"

Við reyndum að rétta bátinn við aftur eftir að hann byrjaði að hallast á stjórnborðshliðina, en það varð ekki við neitt ráðið og ekki hægt að komast að neinu, um klukkustund eftir að við yfirgáfum bátinn sökk hann, sagði Friðrik Stefánsson skipstjóri á Þorra 402 frá Fáskrúðsfirði í samtali við Mbl. í gær, en báturinn sökk skammt austur af Ingólfshöfða klukkan rúmlega 20 í fyrrakvöld. Það hefur trúlega eitthvað gefið sig í lestinni, maður veit það ekki nákvæmlega, sagði Friðrik.
Þorri var á síldveiðum með hringnót og höfðu fengist 70-80 tonn í góðu verðri í fyrradag í Meðallandsbugt. Eftir um 3 ½  tíma siglingu áleiðis heim til Fáskrúðsfjarðar fór báturinn skyndilega að halla, en þá var komið vonzkuveður á þessum slóðum, 6-7 vindstig og töluverð kvika. Sagði Friðrik að mjög snögglega hefði brælt. Við vorum komnir stutt austur fyrir Ingólfshöfða þegar þetta gerðist, sagði Friðrik skipstjóri. Við héldum bátnum uppí og það var ekki fyrr en um 2 tímum eftir að báturinn byrjaði að hallast, að við yfirgáfum hann og fórum í bátana. Þá var hann að segja má alveg lagstur á hliðina, kominn inn á miðjar lúgur. Ég var búinn að vera í sambandi við Jónas Jónasson á Gunnari SU frá Reyðarfirði nokkuð lengi og fljótlega eftir að við vorum komnir í bátana vorum við teknir um borð í Gunnar. Við vorum búnir að taka okkur til með þjörgunarbátana og höfðum þá alveg tilbúna, allir í sínum sjógalla og björgunarvestum. Það var ekkert að mönnunum, en við vorum 10 um borð, og við komum til Fáskrúðsfjarðar um klukkan hálffimm í morgun, sagði Friðrik Stefánsson í gær. Hann sagði að fleiri bátar hefðu verið þarna nærstaddir og nefndi Sæljónið frá Eskifirði og Jón Guðmundsson frá Djúpavogi, en síðarnefndi báturinn var við Þorra þegar báturinn sökk upp úr klukkan 20 í fyrrakvöld. Friðrik sagðist ekki hafa sent út neyðarkall, þess hefði ekki gerzt þörf þar sem bátar voru þarna nærstaddir og sagði að samskiptin á milli bátanna hefðu farið fram á venjulegri vinnubylgju. Ekki hefði sérstaklega þurft að kalla eftir hjálp, þetta hefði haft langan aðdraganda og sjómenn væru ætíð fljótir til hjálpar ef eitthvað brygði út af og sagðist vilja þakka þeim sem hefðu lagt sitt af mörkum í þessu tilfelli.
Þorri SU 402 var byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn var úr stáli og 170 lestir að stærð. Hann hét áður Náttfari ÞH 60, eigendur voru Pólarsíld, Bergur Hallgrímsson og fleiri.

Morgunblaðið. 20 október 1979.


12.05.2019 12:04

1159. Torfi Halldórsson ÍS 19. TFTH.

Vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marcelíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1971 fyrir Benedikt Vagn Gunnarsson útgerðarmann á Flateyri. 111 brl. 600 ha. Wichmann vél. Skipið var lengt árið 1972, mældist þá 134 brl. Selt 6 mars 1974, Núma Jóhannssyni, Skúla Jónassyni og Tjaldi hf á Siglufirði og Kristjáni Guðmundssyni útgerðarmanni á Rifi, hét Tjaldur SI 175. Selt 9 maí 1979, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, Gissuri Tryggvasyni, Árna Helgasyni og Guðmundi Bjarnasyni í Stykkishólmi, hét Tjaldur SH 270. Árið 1982 var skipið yfirbyggt og mældist þá 137 brl. Frá 1 júní 1986 var Kristján Guðmundsson einn eigandi skipsins. Ný vél (1987) 715 ha. Caterpillar vél, 526 Kw. Selt 21 maí 1992, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, hét Svanur SH 111. Selt 30 maí 1992, Sigurði Ágústssyni hf í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Selt 27 maí 1997, Hópi ehf í Grindavík, hét Þorsteinn GK 16 (kom í stað skips með sama nafni sem strandaði undir Krísuvíkurbjargi, 10 mars sama ár). Selt árið 2003, Vinnslustöðinni hf í Vestmannaeyjum, hét þá Kristbjörg VE 82.  Selt árið 2004, Kóp ehf í Hafnarfirði, hét Kristbjörg ÁR 82, með heimahöfn í Þorlákshöfn. Selt árið 2005, Ebba ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg HU 82. Selt árið 2007, Svartabakka ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg SK 82, með heimahöfn á Hofsósi. Frá árinu 2008 heitir skipið Kristbjörg HF 82, sami eigandi, en gert út frá Hafnarfirði. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur 15 júlí árið 2008.


1159. Torfi Halldórsson ÍS 19 við bryggju á Ísafirði.                                      Ljósmyndari óþekktur.

            Nýr bátur til Flateyrar

Síðastliðinn laugardag bættist nýr og glæsilegur fiskibátur í flota Flateyringa. Er það vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19, sem smíðað er í skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Skipið ber nafn hins kunna athafnamanns Torfa Halldórssonar skipstjóra á Flateyri, sem á sínum tíma átti hvað mestan þátt í uppbyggingu staðarins og hélt námskeið fyrir skipstjórnarmenn, sem telja má vísi að fyrsta sjómannaskóla á Íslandi. Torfi Halldórsson er stálskip, 115 lestir brúttó að stærð og er mesta lengd 26,40 m., breidd 7,70 m. og dýpt 3,35 m. Skipið er mjög vandað að allri gerð og traustbyggt. Aðalvél skipsins er 600 hestafla Wichmann-vél, og reyndist ganghraði í reynsluför um 12,5 sjómílur. Í skipinu eru tvær hjálparvélar af gerðinni Mercedes Benz og er hvor um sig 50 hestöfl. Vinna þær 220 volta riðstraum, samanlagt 50 kw. Togvinda, 16 lestir, er smíðuð hjá Sigurði Sveinbjörnssyni hf. Skipið er smíðað eftir ströngustu kröfum um gerð íslenzkra fiskiskipa í þessum stærðarflokki, og er búið öllum fiskileitar- og siglingatækjum eins og þau verða bezt.
Eigandi skipsins og útgerðarmaður er Benedikt Vagn Gunnarsson skipstjóri á Flateyri. Lofar hann öll samskipti við Marzellíus Bernharðsson skipasmíðameistara og starfsmenn hans, sem unnu að smíði skipsins. Skipstjóri á Torfa Halldórssyni er Jón Marteinn Guðröðsson, stýrimaður Einar D. Hálfdánsson, 1. vélstjóri Gísli Valtýsson og 2. vélstjóri Hallgrímur Kristinsson. Mikill mannfjöldi fagnaði nýja bátnum er hann kom til Flateyrar á laugardagskvöldið, fánum skrýddur stafna á milli í fögru veðri. Einar Oddur Kristjánsson, varaoddviti Flateyrarhrepps, ávarpaði fólkið og bauð skip og skipshöfn velkomna til Flateyrar. Kvað hann alla Önfirðinga fagna þessum nýja farkosti. Stjórn Slysavarnadeildarinnar Sæljóss á Flateyri fór um borð í hið nýja skip og færði skipstjóranum að gjöf ullarfatnað í gúmbjörgunarbáta skipsins og einnig öndunartæki, sem notað er viðblástursaðferðina við lífgun úr dauðadái. Frú Sólveig Bjarnadóttir, formaður Sæljóss, hafði orð fyrir konunum úr stjórninni, en það var Sólveig Bjarnadóttir, sem átti hugmyndina og forgöngu um það, að gefinn var ullarfatnaður í gúmbjörgunarbáta, og er deildin á Flateyri búin að gefa í alla báta þar. Í vetur bætti deildin um betur og gaf einnig öndunartæki í alla bátana á Flateyri og einnig færði hún björgunarsveitinni á staðnum slíkt tæki að gjöf. Þegar sjóslysin miklu urðu á Flateyri fyrir einum fimm árum, kom frú Sólveig Bjarnadóttir fram með þá hugmynd, að konurnar í slysavarnadeildinni gæfu ullarfatnað í gúmbjörgunarbátana, og hefur sú hugmynd vakið mikla eftirtekt og orðið til þess, að slíkan ullarfatnað er nú búið að gefa í alla báta á Vestfjörðum, einnig á Norðurlandi og víða annars staðar á landinu, þar sem kvennadeildir Slysavarnafélagsins eru starfandi. Vesturland óskar eiganda, áhöfn og Flateyringum til hamingju með hið nýja skip, sem er að hefja togveiðar um þessar mundir. 

Vesturland. 3-4 tbl. 21 maí 1971.


1159. Tjaldur SH 270.                                                                                               (C) Birgir Karlsson.


1159. Þorsteinn GK 16.                                                                      (C) Sjómannabl. Víkingur 1997.


1159. Kristbjörg HF 82.                                                                                (C) Ríkarður Ríkarðsson.

  Nýr Þorsteinn GK byrjaður veiðar 
     í stað skipsins sem strandaði

"Það er mjög gott að vera búinn að finna nýtt skip og yfirstíga þann þátt. Öll áhöfnin á Þorsteini kemur aftur og við byrjum að leggja netin fljótlega," sagði Guðmundur Þorsteinsson, forstjóri og eigandi Hóps hf. í Grindavík, í samtali við DV. Nýi báturinn kom til Grindavíkurhafnar í byrjun apríl en hann kemur í stað Þorsteins GK 16 sem strandaði við Krísuvíkurberg. Báturinn, sem bar nafnið Svanur SH 111, áður Tjaldur frá Rifi, var í eigu Sigurðar Ágústssonar ehf. í Stykkishólmi. Hann er 145 tonn að stærð, 30 tonnum minni en Þorsteinn, smíðaður 1971 á Ísafirði. Kaupverð er 73 milljónir. Báturinn hefur fengið nafnið Þorsteinn GK. "Greinilega hafa margir fylgst með strandinu. Mjög mikið framboð er af bátum, bæði hér á landi og erlendis. Faxtækið hefur ekki stoppað frá þeim tíma sem strandið varð og ekki síminn heldur. Ég hef ekki þurft að hringja eftir upplýsingum, það hefur verið hringt í mig. Það hafa komið á milli 70-80 tilboð erlendis frá frá aðilum sem vilja selja báta sína. Sennilega hef ég fengið upplýsingar um 25-30 báta hér á landi," sagði Guðmundur.

DV. 8 apríl 1997.


09.05.2019 08:33

1002. Gísli Árni RE 375. TFEH.

Vélskipið Gísli Árni RE 375 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted í Harstad í Noregi árið 1966 fyrir Sjóla hf (Einar Árnason útgerðarmann og Eggert Gíslason skipstjóra) í Reykjavík. 355 brl. 700 ha. Wichmann vél. Skipið var endurmælt í janúar 1970 og mældist þá 296 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt í Noregi 1973 og mældist þá 336 brl. Ný vél (1977) 1.500 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 23 febrúar 1988, Fiskimjöli & Lýsi hf í Grindavík, hét þá Sunnuberg GK 199. Sama ár stofna Þorbjörn hf og Fiskimjöl & lýsi í Grindavík, nýtt útgerðarfélag, Sigluberg hf í Grindavík um útgerð loðnuveiðiskipanna Hrafns GK 12, Hrafns Sveinbjarnarsonar lll GK 11 og Sunnubergs GK 199. Skipið var lengt árið 1990 og mældist þá 385 brl. Selt 11 ágúst 1997, Tanga hf á Vopnafirði, hét þá Sunnuberg NS 199. Árið 1999 er nafni skipsins breytt, hét þá Arnarnúpur ÞH 272. Seldur árið 2000, S.R. Mjöli hf í Reykjavík. Arnarnúpur ÞH kemst í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað árið 2003, þegar þeir kaupa S.R. Mjöl hf. Skipið var selt til Nýfundnalands 10 febrúar árið 2004 og fékk nafnið Sikuk hjá hinum nýju eigendum.


1002. Gísli Árni RE 375.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Stærsti síldarbátur flotans
           kom til landsins í gær 

Stærsti síldarbátur hér á landi, Gísli Árni RE 375, kom hingað í fyrrinótt frá Harstad í Norður-Noregi, en þar var hann smíðaður í Kaarbös Mek. Verksted. Báturinn lá við bryggju á Grandagarði í gær, allur klakaborinn, því að mikil ísing hafði setzt á hann síðasta sólarhringinn. Þetta er hið tignarlegasta skip og vakti forvitni manna í glampandi síðdegissólinni. Eigandi hins nýja báts er  Sjóli h.f., þ. e. Einar Árnason útgerðarmaður og Eggert Gíslason, skipstjóri á Gísla Árna. Vísir ræddi við Eggert skipstjóra í tilefni af komu bátsins. Gísli Árni er 355 lestir, 39 m. að lengd og 8 m. að breidd. Vélin í bátnum er Vickmann, 700 hestöfl, þekkt og góð vél, og gengur báturinn 11 sjómílur á klukkustund. Ýmsar nýjungar eru í bátnum, sem ekki er enn almennt farið að taka í notkun í flotanum, svo sem eins og yfirbyggt þilfar bakborðsmegin. Er það vinnupláss til að salta síld og þorsk. Þá er ennfremur síldarvél, sem haussker og slógdregur síld og afkastar 40 tunnur á klst. Það er alger nýjung hér á Íslandi. Ennfremur er nótapláss fyrir vara nót niðri á aðaldekki og jafnvel hægt að kasta nótinni þaðan. Þetta er til mikils hagræðis: "Ekki eins mikil yfirvigt", sagði Eggert skipstjóri. Tvö asdic-tæki af nýjustu og stærstu gerð eru í bátnum, talstöð og dýptarmælir, allt af Simradgerð.
Gísli Árni kostaði tæpar 18 milljónir króna, en eins og áður er sagt, er hann stærsti sfldarbátur flotans fram að þessu, en gerðir hafa verið samningar um nokkra stærri báta fyrir íslenzka flotann. Eggert sagði, að þeir hefðu látið úr höfn í Noregi sl. sunnudagskvöld og verið rúma fjóra sólarhringa á leiðinni. "Við fengum storm og kulda síðasta sólarhringinn og settist mikil ísing á bátinn, og urðum við að berja ísana með sérstökum járnstöngum, sem ég lét smíða fyrir bátinn". "Hvernig fór báturinn í sjó?" "Það var ekkert athugavert við hann, hvað það snerti. Hann fór vel í sjó". "Hvenær prófið þið bátinn í alvöru?" "Við hugsum okkur að fara á morgun, bara að reyna græjurnar og vita hvernig þetta allt virkar. Við förum náttúrlega út með þorskanót, en það er allt dautt eins og er". Eggert Gíslason hefur, sem kunnugt er, verið aflakóngur æ ofan í æ. "Nokkur skipti", sagði hann að vísu, þegar hann var spurður að því, og vildi helzt eyða því tali. Áhöfnin á Gísla Árna er 14 manns. Stýrimaður er Árni Guðmundsson. Fyrsti vélstjóri er Hjalti Þorvarðarson. Umboðsmaður bátsins er Eggert Kristjánsson, stórkaupmaður.

Vísir. 26 mars 1966.


Gísli Árni RE 375 við bryggju í Neskaupstað.                              Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Gísli Árni RE 375 á leið til hafnar með fullfermi.                                        (C) Magnús Þorvaldsson.

  Tvö aflaskip keypt til Grindavíkur

Fiskimjöl og Lýsi h.f. í Grindavík hefur keypt og tekið við hinu mikla aflaskipi Gísla Árna RE 375. Þá er vitað um aðila í Grindavík sem hafa sýnt áhuga á að kaupa loðnuskipið Magnús frá Neskaupstað. Gísli Árni, sem er eitthvert aflasælasta skipið í eigu íslendinga, er byggður úr stáli í Noregi 1966 og hefur síðan verið bæði lengdur og yfirbyggður og mælist nú 336 tonn. Aðaleigandi skipsins og fyrrum skipstjóri þess er hin frækna aflakló úr Garðinum, Eggert Gíslason. Magnús NK er 252 tonna skip, byggt 1967, og hefur einnig bæði verið lengt og yfirbyggt. Er vitað um nokkra aðila af Suðurnesjum sem sýnt hafa áhuga á að kaupa það skip, þ.á.m. Þorbjörn h.f. í Grindavík.

Víkurfréttir. 8 tbl. 25 febrúar 1988.


1002. Sunnuberg GK 199 með nótina á síðunni.                                     (C) Sigurður Bergþórsson.


1002. Arnarnúpur ÞH 272 við bryggju á Akureyri.                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Arnarnúpur farinn

Arnarnúpur ÞH-272, sem var í eigu Síldarvinnslunnar, hefur verið seldur til Nýfundnalands. Skipið, sem upphaflega hét Gísli Árni RE-375, hélt frá Reyðarfirði til St John í fyrradag. Skipið mun hér eftir bera nafnið Sikuk sem þýðir ís.

Fréttablaðið. 12 febrúar 2004.


07.05.2019 07:49

87. Heiðrún ÍS 4. TFQM.

Vélskipið Heiðrún ÍS 4 var smíðuð hjá Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1944 fyrir Hlutafélagið Grím í Borgarnesi. Hét fyrst Hafborg MB 76. Eik. 92 brl. 240 ha. Lister díesel vél. Skipið var endurmælt árið 1947, mældist þá 101 brl. Selt 16 desember 1952, Rún h/f í Bolungarvík, hét Heiðrún ÍS 4. Ný vél (1956) 360 ha. Lister díesel vél. Selt 18 júní 1968, Jóni Magnússyni á Patreksfirði og Hjalta Gíslasyni í Reykjavík, skipið hét Vestri BA 3. Selt 5 febrúar 1972, Árna Sigurðssyni og Reyni Ölverssyni í Keflavík, skipið hét Sólfell GK 62. Talið ónýtt og tekið af skrá 18 desember árið 1973.


Heiðrún ÍS 4 með góðann síldarfarm.                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Hafborg MB 76 að landa síld á Siglufirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

                Hafborg MB 76

Nýlega bættist nýtt skip í fiskiflota okkar, nefnilega vélskipið Hafborg MB. 76, smíðað af skipasmíðastöð KEA á Akureyri, en yfirsmiður var Gunnar Jónsson. Eigandi er h.f. Grímur í Borgarnesi, framkvæmdastjóri Friðrik Þórðarson. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 6. maí s.l, þá nærri fullsmíðuðu, og fór reynsluför sína 14. s.m. Stærð þess er sem hér segir:
Brúttó 92.22 rúmlestir.
Undir þilfari 78.08. 
Nettó 37.90.
Lengd 24.90 metrar.
Breidd 5.84. 
Dýpt 2.54. 
Aðalvél skipsins er Lister-Dieselvél, 320 hestöfl, en hjálparvél 8 hestafla vél sömu tegundar. Olíugeymar rúma ca. 10 tonn. Í reynsluferðinni náðist 10.2 sjómílna hraði á klst., með 580 snúningum (mest 600 snúningar), en fullhlaðið á venjulegri ferð (ca. 500 snún.), hefir skipið náð 9.6 sjómílna hraða í góðu veðri. Að smíði er skipið hið vandaðasta að öllu leyti, íbúðum skipverja haganlega komið fyrir, og allur frágangur með afbrigðum snyrtilegur, enda er yfirsmiður skipsins þegar orðinn landskunnur fyrir vandvirkni sína. Skipið hefir þegar farið eina ferð með ísfisk til Englands og reyndist þá ágætis sjóskip undir hleðslu. Fullhlaðið bar það 73 tonn fiskjar með 17.5 tonnum af ís, auk fullra olíugeyma. Skipið mun síðar líklega stunda togveiðar. Skipstjóri skipsins er Kristján Pétursson, áður stýrimaður á v.s. Eldborg, sem er eign sama félags.

Sjómannablaðið Víkingur. 6-7 tbl. 1 júlí 1944.


Heiðrún ÍS 4 á siglingu á sundunum við Reykjavík.                                   Ljósmyndari óþekktur.

       Bolvíkingar auka flota sinn
              Fá tvö ný skip í ár

Bolungarvík 12. jan.
Í gærkvöldi kl. 9 kom til Bolungarvíkur nýtt skip í flota Bolvíkinga. Er það Heiðrún ÍS 4, sem áður hét Hafborg og var frá Borgarnesi. Heiðrún er rúmlega 100 lestir að stærð, búin 240 ha dieselvél. Skipið er byggt á Akureyri árið 1944. Eigendur skipsins er Rún h.f., en framkvæmdastjóri félagsins er Einar Guðfinnsson, útgerðarmaður. Skipstjóri er Halldór G. Halldórsson. Heiðrún fer á útilegu til veiða með línu einhvern næstu daga. Áhöfnin verður 13 manns á þeim veiðum. Seinni hluta vertíðar er ráðgert, að skipið fari á togveiðar ásamt hinu skipi félagsins, Hugrúnu. Gera Bolvíkingar sér talsverðar vonir um aukna atvinnu með tilkomu hins nýkeypta skips, enda er skipið traust og talið sérstaklega gott togskip og fyllsta traust borið til skipstjóra, áhafnar og alls búnaðar. Allur aflinn verður ísaður og lagður á land til vinnslu í Bolungarvík.
Bolvíkingar hafa nú mikinn hug á að auka flota sinn. Völusteinn h.f., sem Einar Guðfinnsson einnig veitir forstöðu, á nú í smíðum 50 lesta fiskibát í Frederiksund í Danmörku. Verður sá bátur væntanlega tilbúinn snemma í vor, í apríl eða maí. Verður hann aðallega ætlaður tii línuveiða og síldveiða og verður búinn beztu siglingatækjum og fiskileitartækjum, sem völ er á í báta af þessari stærð. I Fréttaritari Mbl. átti stutt viðtal við Einar Guðfinnsson um útgerðarmál Bolungarvíkur í tilefni þessarar aukningar flotans. Taldi Einar, að brína nauðsyn bæri til að kanna nýjar leiðir um skipastærð og veiðiaðferðir frá Bolungarvík. Minnkandi afli línubáta undanfarin ár, gerir nauðsynlegt að sækja lengra og reyna ný veiðitæki. Einkum er okkur nauðsynlegt að auka togveiðar frá Bolungarvík, og eru kaup Heiðrúnar liður í þeirri viðleitni. En stærri spor verður að stíga og afla stærri skipa til togveiða. Telja Bolvíkingar, að 200 lesta togskip, búið öflugri gangvél, og gert með hliðsjón af veðurfari, sjólagi og hafnskipastærð og veiðiaðferðir frá Bolungarvík. Minnkandi afli Hnu báta undanfarin ár, gerir nauðsynlegt að sækja lengra og reyna ný veiðitæki. Einkum er okkur nauðsynlegt að auka togveiðar frá Bolungarvík, og eru kaup Heiðrúnar liður í þeirri viðleitni. En stærri spor verður að stíga og afla stærri skipa til togveiða. Telja Bolvíkingar, að 200 lesta togskip, búið öflugri gangvél, og gert með hlið sjón af veðurfari, sjólagi og hafnarskilyrðum sem sjómenn í Bolungarvík eiga við að búa við veiðar á miðum sínum, hljóti að geta gefið mjög góða raun og aflað mikils hráefnis til vinnslu hér.
Fylgjast Bolvíkingar af miklum áhuga með því, hvernig frumvarpi Sigurðar Bjarnasonar um ríkisábyrgð fyrir 200 lesta togskipi, sem Bolvíkingar keyptu, reiðir af á Alþingi. Telja þeir mjög eðlilegt, að tilraun verði gerð með hentuga stærð togskipa, sem afla aðallega til vinnslu í landi og ekki eru ætluð til að flytja aflann á erlendan markað. En erfitt er að afla fjár til byggingar slíks skips nema aðgerðir rikisvaldsins komi til. E. t. v. væri hægt að fá skip af þessari stærð byggt á Spáni og greiða það með fiski, sem annars gengi illa að selja. Það er næsta takmark okkar að afla slíks skips handa Bolvikingum. Nú í vetur er gerð tilraun með hraðfrystingu rækju í Bolungarvík og vonast menn til, að unnt reynist að fá öruggan markað fyrir þessa vöru, því mikil atvinna er við verkun hennar. Sömuleiðis hefur verið ákveðið, að einn bátur Einars Guðfinnssonar, Særún, 12 lestir, stundi veiðar með þorskanetjum. Tilraun hefur áður verið gerð með þetta veiðarfæri, en þá var almennt aflaleysi, og gaf hún lélegan árangur, og stóð enda stutt. Það má því heita óreynt, hvort þessi veiðiaðferð er vænleg á Vestfjarðamiðum. Formaður á Særúnu er Friðrik Jónsson.  

Morgunblaðið. 13 janúar 1953.

05.05.2019 16:15

Langöy N - 100 - SO í Reykjavíkurhöfn.

Norski frystitogarinn Langöy N-100-SO var hér í Reykjavíkurhöfn í síðustu viku. Kom hann hingað til lands af Grænlandsmiðum til að skipta um áhöfn og hélt síðan út aftur dagin eftir, sennilega á Grænlandsmið eða á Flæmska hattin. Þeir voru búnir að vera í nokkrar vikur að veiðum við Grænland, aðalega karfa en litið fengið vegna slæms veðurs undanfarið. Ég fór um borð í togarann og ræddi við 2 norska skipverja sem létu vel af dvölinni þar um borð. Þeir sögðust verða þar um borð næstu 5-6 vikurnar í þessu úthaldi. Langöy er smíðaður í Tersan Shipyard í Tyrklandi árið 2013 og er í eigu Prestfjord AS í Sortland í Noregi. Skipið er 3.549 brl. með 6.100 ha Wartsiila vél. Sannarlega glæsilegur frystitogari.


Norski frystitogarinn Langöy N-100-SO við Ægisgarð.         
Langöy N-100-SO við Ægisgarðinn.                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 30 apríl 2019.

05.05.2019 08:56

V. s. Óðinn LBQT / TFOA.

Strandvarnarskipið Óðinn var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1926 fyrir landsjóð Íslands. 466 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. 47,62 x 8,40 x 5,30 m. Fyrsta skipið sem íslenska ríkið keypti til landhelgisþjónustu. Óðinn var lengdur veturinn 1926-27 í Kjöbenhavns Flydedok í Kaupmannahöfn, mældist þá 512 brl. Skipið var selt í mars 1936, sænsku tollgæslunni, hét þá Odin. Sænski sjóherinn tók Odin í þjónustu sína í seinni heimstyrjöldinni og notaði hann sem fallbyssuskip með einkenninu H-43. Selt árið 1950, Sten A Olsson í Svíþjóð. Skipið var selt í brotajárn til Belgíu og rifið þar árið 1951.

 
Strandvarnarskipið Óðinn í Reykjavíkurhöfn. Á myndinni er búið að lengja skipið.    Mynd í minni eigu.
 

       Strandvarnarskipið "Óðinn"

Óðinn, hið nýja strandvarnaskip, kom hingað laust fyrir kl. 10 ½  að kveldi 23. júni 1926, og lagðist að austurbakkanum, en þar hafði safnast fjöldi fólks. Fjármálaráðherra Jón Þorláksson fór út í skipið, ásamt alþingismönnum og nokkrum gestum, og flutti hann ræðu af stjórnpalli skipsins, sagði stuttlega sögu strandvarnarmálsins og bauð velkominn skipstjórann, Jóhann P. Jónsson, ásamt skipshöfn og skipi. Áheyrendur tóku undir ræðuna með fjórföldu húrrahrópi. Að því loknu skoðuðu gestir skipið og þágu góðgerð hjá skipstjóra, og þar héldu þeir stuttar ræður Sigurður Eggerz og Jón Þorláksson. Hér fer á eftir Iýsing á skipinu:
Skipið er að lengd 155 ft, breidd 27'6", dýpt 51'9", ristir með 215 smálesta þunga (145 smál. kola, 50 smál. veitivatns, 20 smál. neysluvatns, vistum og skipverjum) 13'4", allt talið í ensku máli. Hraði skipsins með þessum þunga á að vera 13,1/4  míla ensk. Skipið er áþekkt stórum togara með einu þilfari og hvalbak fram á. Stafn skipsins er sérstaklega sterkur, til þess að þola ís og fullnægja í því efni kröfu Germanischer Lloyd. Einnig á skipið að fullnægja kröfu danskra skipaskoðunarlaga. Frá kyndisstöð, nálega miðskipa, fram að skotfærarúmi, er tvöfaldur botn til vatnsgeymslu, sumpart til kjölfestu og sumpart til veitivatns á ketilinn. Þilfar allt er úr stálplötum, en klætt með 2,5" þykkum plönkum úr rauðfuru. Bátaþilfar nær yfir allan afturhluta skipsins. Vélin er þríþensluvél, 1.100 hestafla, og katlar 2. Er eimþrýstingur 14 kg. á cm 2. Vélin er útbúin með Schmits yfirhitun, og á að vera mjög sparneytin, nota aðeins 0,6 kg. á hestaflsstund, en það samsvarar 14,4 smálestum á sólarhring með fylstu ferð. Gert er ráð fyrir að skipið noti að meðaltali um 7 smálestir enskra kola á sólarhring. Skipið er vopnað með tveimur 47 mm. fallbyssum; er önnur á hvalbaknum, en hin á bátaþilfari. 2 björgunarbátar fylgja skipinu, og er annar þeirra með vél sömuleiðis fylgja vikabátar vel búnir. Skipið er vel búið ýmiskonar hjálparvélum, og til alls vandað.
Það er smíðað hjá Köbenhavns Flydedok & Skibsværft. Skipið virðist hið vandaðasta, en um fyrirkomulag á þilfari eru ýmsir dómar og sumir koma frá þeim, sem vart hafa á þilfar stigið. Eitt virðist þó athugavert, og er það staður sá, sem snattbát skiþsins er komið fyrir. Starfsviði þess er þannig farið, að það þarf nálega hvernig sem veður er, á ýmsum tímum að fara með fullri ferð gegn sjó og vindi, er það eltir lögbrjóta þá, er á vegi verða, og þá má búast við miklum sjó á þilfari, sem auðveldlega gæti losað bátinn, og hann brotnað. Vel getur "Óðinn" verið slíkt sjóskip, að aldrei saki þetta fyrirkomulag, en haföldur kringum Íslandsstrendur eru miklar og stórar og "Óðinn" á eftir að berjast við þær, þess vegna er þessi athugasemd gerð. "Óðinn" kom að hafnarbakkanum hér í fyrsta sinni 23. júní kl. 10 ½  að kveldi, Honum var fagnað og ræður haldnar. Á sömu stundu hné dauður niður á æskustöðvum sínum á Norðfirði, forsætisráðherra Jón Magnússon, sá góði maður, sem bar björgunarmálin fyrir brjósti og vildi sjómönnum þessa lands hið bezta.
Strandvarnarskipið "Óðinn", sem er hér nú, er til kominn í byrjun fyrir forgöngu Sigurðar Sigurðssonar lyfsala, síðan fyrir framtakssemi Vestmanneyinga að leggja til fé, kaupa og halda "Þór" úti, sem var hið fyrsta strandvarnarskip. Því næst yfirmönnum "Þórs", sem þráfaldlega hafa sýnt, að þeim var trúandi fyrir verki því, er þeir í byrjun áttu að inna af hendi, björgun og gæzlu veiðarfæra Eyjabúa. Síðan komu strandvarnirnar, sem þeir einnig sýndu, að þeir gátu gætt á lítilli fleytu, engu síður en þeir, sem á stærri skipum voru. Framkvæmdir á sjó hafði hinn vinsæli og ötuli varðskipsforingi Jóhann Jónsson, sem var svo heppinn að fá þá Friðrik V. Ólafsson og Einar Einarsson fyrir stýrimenn. Varðskipsforingi á "Þór" er nú Friðrik V. Ólafsson, sem við honum tók 1. sumardag s. l, en Einar Einarsson er fyrsti stýrimaður á "Óðni". Allt þetta studdi Jón Magnússon til hinztu stundar, og hvað sem hver segir, er ekki annað að sjá, en að forsjónin, sem stundum tekur í taumana, hafi hagað því svo, að honum hafi með þessum atvikum, að hann deyr á þeim sömu mínútum sem "Óðinn" lendir, verið reist hið veglegasta minnismerki, sem nokkrum íslenzkum manni hefir verið reist, og minnismerkið er Strandvarnarskipið "Óðinn" og velkominn veri hann. Skipherra á "Óðni" er, eins og kunnugt er, Jóhann P. Jónsson, sem var með "Þór". l. stýrimaður er Einar Einarsson. II. Magnús Björnsson frá Laufási, III. Þórarinri Björnsson. I. vélstjóri er Þorsteinn Loftsson, II. Aðalsteinn Björnsson og III. Magnús Jónsson. Bryti er Elías Dagfinnsson. Kyndarar eru fjórir. Hásetarúm er fyrir 10 menn, en ekki er víst að svo margir verði þeir, að minsta kosti fyrst í stað. Skipið er hið vistlegasta undir þiljum, klefar vel útbúnir og rúmgóðir. Borðsalur háseta og kyndara er að framanverðu, á þilfari, en yfirmanna skipsins að aftanverðu, undir þiljum, og er mjög vel útbúinn, sama er að segja um klefa yfirmanna. Þeir eru prýðilega búnir. Tveir baðklefar eru í skipinu, annar fyrir skipherra, innar af klefa hans, en hinn fyrir skipshöfn alla. Tveir farþegaklefar eru á "Óðni", hvor fyrir tvo farþega, og eru þeir klefar ágætlega búnir að öllu leyti.

Tímaritið Ægir. 6 tbl. 1 júní 1926.


Strandvarnarskipið Óðinn.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Óðinn í Reykjavíkurhöfn árið 1926. Fyrir innan hann er Gullfoss l og við bryggjuna er Goðafoss ll er sökkt var við Garðskaga 10 nóvember 1944. Ljósmyndari óþekktur.
 

             Varðskipið "Óðinn"

Hinn 17. nóvember lagði "Óðinn" á stað til útlanda og hreppti storma á milli Íslands og Shetlandseyja, en kom heilu og höldnu til Kaupmannahafnar hinn 24. s. m. Meðan skipið var á leiðinni var mikið talað um manna á milli og sást jafnvel í blöðum, að það væri hættugripur og er það fremur kuldalegt gagnvart ættingjum, vinum og venslamönnum þeirra, er á skipinu eru, að geta ekki beðið með þær sögur, þangað til slys hefir orðið eða skipið er komið fram, einkum þegar ekki er betur fylgst með ferðum þessa "hættugrips" en svo, að blöð hér í bæ skýra frá hinn 27. nóvember, "að skipið sé komið til Kaupmannahafnar fyrir 3-4 dögum og, að ferðin hafi gengið vel". Skipið fór til eftirlits í "Flydedokken" eins og ætlast var til frá upphafi.

 

Tímaritið Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1926.

04.05.2019 15:48

575. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255. TFCW.

Vélbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsverft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1957 fyrir Þorbjörn hf í Grindavík. Eik. 56 brl. 280 ha. Alpha vél. Seldur 20 desember 1965, Sverri Vilbergssyni í Keflavík og Ólafi Ragnari Sigurðssyni í Grindavík, hét þá Hrungnir GK 355. Seldur 16 mars 1967, Bjarna Jóhannssyni og Jóhanni Jóhannssyni á Eyrarbakka, hét Jóhann Þorkelsson ÁR 24. Ný vél (1975) 425 ha. Caterpillar vél. Báturinn fékk á sig hnút og strandaði þegar hann var í innsiglingunni á leið inn til Eyrarbakka. Áhöfnin, 5 menn, björguðu sér á gúmmíbát til lands. Báturinn eyðilagðist á strandstað.


575. Hrafn Sveinbjarnarson GK 255.                         (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

    Hrafn Sveinbjarnarson GK 255

Nýr bátur kom til Grindavíkur frá Danmörku rétt fyrir áramótin. Heitir báturinn Hrafn Sveinbjarnarson, og er eigandi hans hlutafélagið Þorbjörn í Grindavík.

Faxi. 1 janúar 1958.  


Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 á leið inn til Vestmannaeyja.               Ljósmyndari óþekktur.


Hrafn Sveinbjarnarson GK 255 á Siglufirði.      (C) Hannes Baldvinsson.


Jóhann Þorkelsson ÁR 24 á strandstað.                                                 (C) Morgunblaðið. / RAX.

      56 lesta eikarbátur strandaði                        við Eyrarbakka

Jóhann Þorkelsson ÁR 24 frá Eyrarbakka, sem er 56 lesta eikarbátur smíðaður árið 1957, strandaði snemma í gærmorgun á landklöppunum í miðjum skerjagarðinum utan Eyrarbakka. Fimm menn voru á bátnum og komust þeir allir klakklaust á gúmbát skipsins í land, en báturinn er talinn ónýtur. Að sögn Jóhanns Jóhannssonar annars eigenda bátsins var báturinn að koma úr róðri er hann lenti á klöppunum og taldi hann að báturinn hefði fengið hnút á sig og þess vegna kastast þarna upp í. Hann sagði ennfremur að menn frá Samábyrgð hefðu verið á staðnum og dæmt bátinn ónýtan. Hann væri orðinn botnlaus og þvi hefðu öll tæki úr honum verið flutt í land. Báturinn væri því afskrifaður og að óvist væri að reynt yrði að ná honum af klöppunum.

Morgunblaðið. 23 júní 1981.


03.05.2019 09:18

559. Helga TH 7. TFWE.

Vélbáturinn Helga TH 7 var smíðuð hjá Frederikssund Skibsverft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1956 fyrir Hreifa hf á Húsavík. Eik. 55 brl. 265 ha. Alpha vél. Seldur 26 janúar 1962, Útgerðarfélagi Höfðakaupstaðar hf, hét Helga Björg HU 7. Seldur 1 júní 1965, Páli Jónssyni sf í Reykjavík, hét Páll Jónasson HU 44. Seldur 22 júlí 1968, Guðjóni Björnssyni og Jóhanni Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Þristur VE 6. Seldur 8 júní 1972, Birni Gústafssyni og Friðrik Kristjánssyni á Akranesi, hét Þristur AK 120. Seldur 30 ágúst 1973, Jóhanni Guðjónssyni og Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá aftur Þristur VE 6. Ný vél (1976) 455 ha. Caterpillar vél. Seldur 11 febrúar 1980, Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka, hét Sæbjörn ÁR 15. Báturinn fór í úreldingu og var brenndur í Helguvík 26 mars árið 1982.


559. Helga TH 7 á leið til hafnar.                                                                Ljósmyndari óþekktur.


Helgu TH 7 hleypt af stokkunum hjá Frederikssund Skibsverft.                     Ljósmyndari óþekktur.

   Nýr bátur til Húsavíkur á jóladag

Á jóladag kom hingað til Húsavíkur nýr bátur er smíðaður hefur verið í Fredrikssund í Danmörku . Eigendur bátsins, sem hlotið hefur nafnið Helga, TH-7, er hlutafélagið Hreyfi á Húsavík. Framkvæmdastjóri þess er Jón Héðinsson. Skipstjóri bátsins er Maríus Héðinsson og sigldi hann bátnum heim. Ferðin hingað frá Fredrikssund gekk mjög vel. Var báturinn 6 sólarhringa á leiðinni og þar með einum degi fljótari í ferðum en gert var ráð fyrir. Vélamaður var Sigurður Jónsson. Fékk Helga góðan meðvind frá Færeyjum. Báturinn er smíðaður úr eik. Teikningu gerði Egill Þorfinnsson í Keflavík, en gerðar voru smávegis breytingar á fyrirkomulagi ofan þilfars, að tilhlutan eigendanna . Er bátnum skipt í þrjú vatnsheld hólf. Er hann mjög vandaður að öllu leyti. Hann er útbúinn dýptarmæli með asticútfærslu, miðunarstöð og talstöð. Aðalvélin er Alfa-dieselvél 240/60 hestafla með tveim sjálfvirkum Boss-rafölum. Þá er 10 hestafla ljósavél í bátnum. Ganghraði er 10 sjómílur á klukkustund.

Morgunblaðið. 30 desember 1956.


Skipverjar að landa góðum síldarafla. Skipstjórinn, Maríus Héðinsson fylgist með.


Helga TH 7 í höfn á Húsavík ásamt mörgum öðrum síldarbátum.               Ljósmyndari óþekktur.


559. Sæbjörn ÁR 15 brenndur í Helguvík 26 mars árið 1982.                       (C) Heiðar Baldursson.

        Brenndu bátinn í Helguvík  

"Skipið var ekki ónýtt, en skipaskoðunin fór fram á svo kostnaðasama viðgerð að það borgaði sig heldur að láta skipið hverfa," sagði Hörður Jóhannsson, skipsstjóri á Eyrarbakka sem var eigandi að bátnum sem brenndur var í Helguvík á föstudaginn var. Þeir í dráttarbrautinni í Keflavik töldu Helguvíkina vera ágætan stað fyrir þessa athöfn. Þarna hefði verið farið illa með aura landsmanna, því báturinn hefði verið á ágætu ástandi og siglingahæfur í nokkur ár í viðbót. Báturinn hét Sæbjörn ÁR 15, en áður Þristur, og var þá gerður út frá Vestmannaeyjum. Var hann 55 tonna eikarbátur byggður í Danmörku árið 1956. Var hann með nýlega vél, en eigandinn fékk að taka hana úr ásamt siglingatækjum og öðrum verðmætum áður en báturinn var dreginn í Helguvíkina. "Skipaskoðunin krafðist þess að gert yrði við byrðinginn á bátnum, stýrishúsið á honum var talið ónýtt og mannaíbúðir mjög lélegar," sagði Hörður, sem gert hafði Sæbjörn út frá Þorlákshöfn í 2ár. "Þessi viðgerð hefði kostað mig um 3 milljónir króna en með því að Iáta bátinn hverfa fékk ég endurgreitt úr aldurslaga- og úreldingasjóði. Ég fékk ekki það út úr bátnum sem ég taldi mig eiga og hef tapað um einni milljón á þessu," sagði Hörður.
Sæbjörn er 66. skipið sem greitt er upp af úreldingasjóði á sl. þrem árum. Sjóður þessi fær 3% tekjur af útflutningsgjöldum sjávarafurða og má því segja að skipin sem komi hér með afla að landi leggi um leið inn á eigin útfararsjóð.

Dagblaðið  Vísir. 31 mars 1982.


02.05.2019 06:41

Ármann SH 165. TFES.

Vélbáturinn Ármann SH 165 var smíðaður í Skipasmíðastöð Nóa Kristjánssonar á Akureyri árið 1947 fyrir Ríkissjóð Íslands. Hét fyrst Ægir GK 350. Eik. 37 brl. 140 ha. Mirrlees vél. Seldur 9 apríl 1948, Útgerðarfélagi Grindavíkur hf. Seldur 8 nóvember 1954, Ægi hf á Hellissandi, hét þá Ármann SH 165. Ný vél (1956) 200 ha. Alpha vél. Mikill eldur kom upp í bátnum 1 september árið 1961. Var hann þá á leið til Stykkishólms. Réðu skipverjar ekkert við eldinn og var þá ákveðið að sigla bátnum upp á grynningar við Hnífsey á Breiðafirði. Áhöfnin, 3 menn, komust í gúmmíbát og þaðan upp í eyna, þar sem þeir biðu björgunar. Ármann SH gereyðilagðist í brunanum.


Ármann SH 165.                                                                                            Ljósmyndari óþekktur.

   Fjórir bátar í smíðum á Akureyri

Frá frjettaritara vorum á Akureyri.
Til viðbótar frjett í blaðinu í gær, um skipabyggingar, sem nú er verið að vinna að, barst blaðinu í gærmorgun skeyti frá frjettaritara blaðsins á Akureyri. Þar eru fjórir bátar í smíðum í skipasmíðastöð Kr. Nóa Kristjánssonar. Bátar þessir eru smíðaðir á vegum ríkisstjórnarinnar. Einn þeirra er nær því fullsmíðaður. Tveir svo langt komnir að hægt er að setja í þá vjel. Fjórða bátinn er búið að bandreisa. Allir eru þeir 36 rúmlestir að stærð.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1946.


"Nýsköpunarbátarnir" á fjörukambi á Oddeyri á Akureyri.                                  Mynd úr Degi.

      "Nýsköpunin" á Tanganum

Myndin er af "nýsköpunarbátunum" sem nú hafa senn staðið í full tvö ár fullsmíðaðir á Oddeyrartanga. Bátar þessir eru í hópi þeirra 35 tonna báta, sem Áki Jakobsson ákvað að láta smíða fyrir reikning ríkisins í tíð ,,nýsköpunar"-stjórnarinnar. Erfiðlega hefur gengið með sölu á þeim og mun ríkið verða fyrir stórkostlegu tjóni á þeim framkvæmdum öllum. Bátarnir á myndinni eru smíðaðir á skipasmíðastöð Kr. Nóa Kristjánssonar. Mun einn þeirra nú vera seldur til Grindavíkur, en hinir fá sjálfsagt að rifna í sólinni enn um hríð. Það er nú upplýst, að smíðakostnaður á bátum, sem smíðaðir vöru í skipasmíðastöð þeirri er Áki kom á fót í sambandi við Landssmiðjuna, varð rösklega 70% hærri en á öðrum bátum. Má af því sjá hvert happ það hefur verið fyrir ríkið, að Áki neitaði skipasmíðastöð KEA um að smíða slíka báta, en fól allt verkið Landssmiðjunni. Ríkissjóður og útvegsmenn bera kostnaðinn af þessum ráðleysisaðgerðum.

Dagur. 1 apríl 1948.


Ægir GK 350. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ægir GK 350. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ármann SH 165 alelda í Hnífsey á Breiðafirði.                   (C) Alþýðublaðið.

   Brennandi bát siglt á grynningar
          við Hnífsey á Breiðafirði

Laust fyrir hádegi í gær kom upp eldur í vélarrúmi á mb. Ármanni SH 165 frá Hellissandi, þar sem báturinn var staddur á Breiðafirði. Varð ekkert við eldinn ráðið, og tók skipstjórinn, Eggert Sigurmundsson, það til bragðs að loka hlerum að vélarrúmi og sigla upp í fjöru í Hnífsey. Bjargaðist skipstjórinn og tveggja manna áhöfn upp í eyna, en er þangað kom var hitinn orðinn óbærilegur í brúnni. Brann báturinn á grynningum við Hnífsey, og var enn eldur í honum um áttaleytið í gærkvöldi, en siglur stóðu þó enn. Er báturinn talinn gjörónýtur. Er eldsins varð vart, kallaði skipstjóri í talstöðina og skýrði frá hversu komið væri. Heyrðist kallið á Brú í Hrútafirði, og var talið að bátur væri í nauðum staddur á Húnaflóa. Leitaði gæzluflugvélin Rán þar í gærdag, en varð að sjálfsögðu einskis vísari. - Maður hefur enga hugmynd um út frá hverju kviknaði, sagði Eggert Sigurmundsson, skipstjóri, er Mbl. náði tali af honum í gærkvöldi. - Við höfðum ágætan gúmmíbát, sem við notuðum síðasta spölinn, og reyndist vel. Við hefðum bjargazt um borð í gúmmíbátinn, þótt kviknað hefði í lengra frá landi, en hinsvegar er ekki að vita hvernig hefði gengið að finna gúmmíbátinn. - Var hitinn ekki orðinn mikill í brúnni? - Það var orðinn mikill hiti þar og reykur. Það var rétt svo að ég hélzt þar við á meðan við vorum að komast í land.
Nánari atvik voru þau, að Eggert varð var við smábresti er báturinn var staddur skammt frá Tveggjalampahólma á Breiðafirði. Var Eggert við stýri í brúnni en Alfreð Lárusson, vélstjóri var í káetu fyrir aftan vélarúm og hásetinn, Jón Þorleifsson var frammi í lúkar.
Er Eggert skipstjóri opnaði hlera yfir vélarrúminu, gaus þar upp mikill hiti og reykur. Kallaði hann þá til vélstjóra og háseta, en vélstjórinn mun hafa orðið eldsins var í sama mund. Réðust skipverjar að eldinum með tveimur slökkvitækjum, en hann virtist magnaðastur undir káetugólfi og upp með skilrúmi milli vélarrúms og káetu. Slökkvitækin megnuðu ekki að vinna á eldinum, og ekki heldur sjóaustur. Tók Eggert skipstjóri þá til bragðs að loka hlerunum og káetu og vélarrúmi, og sömuleiðis voru loftventlar að vélarrúmi byrgðir. Ákvað skipstjóri að reyna að komast þannig áleiðis, og jafnvel til Stykkishólms, áður en eldurinn læsti sig um allan bátinn. Ekki hafði lengi verið siglt er skipstjóri sá fram á að hann mundi ekki komast langt, og ákvað hann því að setja bátinn á land í Hnífsey. Á meðan þessu fór fram höfðu vélstjórinn og hásetinn blásið út sex manna gúmmíbát, og undirbúið að þurfa að yfirgefa skipið í flýti. Um það leyti að báturinn kenndi grunns við Hnífsey var hitinn og reykjarsvælan orðin óbærileg í stýrishúsi. Var þá gúmmíbátnum skotið út, og farangri skipsmanna fleygt þar í. Fóru mennirnir þrír í bátinn, en vindur stóð á eyna og rak þá til lands. Um mínútu eftir að mennirnir tóku land á eynni, sprungu rúðurnar í stýrishúsinu af hitanum.
Reykurinn frá hinum brennandi bát á grynningunum við Hnífsey sást frá Staðarbakka og var hringt þaðan í hafnsögumanninn í Stykkishólmi, Bergsvein Jónsson, og sótti hann skipverja út í Hnífsey á trillubát um eittleytið. Sjópróf fóru fram í Stykkishólmi í gær. Skýrði Haraldur Jónasson fulltrúi Morgunblaðinu svo frá í gærkvöldi, að eldsupptök væru enn ókunn, en málið væri ekki að fullu rannsakað enn. Í ljós kom að skipstjóri kallaði upp í talstöðina skömmu eftir að hann varð eldsins var, og skýrði frá ástandinu um borð. Hætti hann að kalla þegar ekki var svarað, en hinsvegar mun kallið hafa heyrst að Brú í Hrútafirði, sem gerði Slysavarnafélaginu aðvart. Var talið að bátur væri í nauðum staddur á Húnaflóa, og hélt gæzluflugvélin Rán þangað frá Reykjavík og leitaði lengi dags, en varð einskis vísari.
M.b. Ármann var rúmlega 37 brúttótonn, eign Ægis h.f. Báturinn var byggður á Akureyri 1947 af Nóa Kristjánssyni, úr eik og furu. Talið er að báturinn hafi brunnið ofan í kjöl, því flóð var er hann tók niðri, en síðan fjaraði út. M.b. Ármann var tryggður fyrir 1,3 milljón, sem er um helmingur þess, sem nýr bátur af sömu gerð mundi kosta.

Morgunblaðið. 2 september 1961.
  • 1
Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852326
Samtals gestir: 62761
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 02:07:38