Færslur: 2021 Apríl
18.04.2021 08:49
B.v. Neptúnus GK 361. TFMC.
Nýsköpunartogarinn Neptúnus GK 361 var smíðaður hjá John
Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir h.f Júpíter í
Hafnarfirði. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 205. Kom í fyrsta
sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 27 desember sama ár. Um
áramótin 1947-48 flytur Tryggvi útgerð sína til Reykjavíkur og fær þá togarinn
skráningarnúmerið RE 361. Í maí 1948 setti Neptúnus heimsmet í aflasölu í
Grimsby. Seldi togarinn 356 tonn fyrir 19.069 sterlingspund og stóð það met í
ein 13 ár að ég held. Í desember sama ár kom upp mikill eldur í kyndistöð
togarans í Grimsby en þar hafði hann selt afla sinn nokkru áður. Miklar
skemmdir urðu á honum og var hann dreginn til Aberdeen í Skotlandi. Tók sú
viðgerð um 8 mánuði og fór hún fram í smíðastöð skipsins, hjá John Lewis &
Sons Ltd. Hinn 28 ágúst árið 1964 kom upp eldur í einangrun undir katli
togarans og breiddist hann hratt út í vélarúminu að ekki var neitt viðlit fyrir
skipverja að ráða niðurlögum hans. Var því ákveðið að skipið yrði yfirgefið og
áhöfnin, 32 menn, færu í björgunarbátana og færu um borð í varðskipið Albert
sem komið var á staðinn. Neptúnus var þá á veiðum um 20 sjómílur norðvestur af
Garðskaga. Miklar skemmdir urðu á togaranum og tók þó nokkurn tíma að gera við
hann. Neptúnus var alla tíð mikið afla og happaskip og var lengst af undir
stjórn Bjarna Ingimarssonar frá Hnífsdal. Togarinn var seldur í brotajárn til
Spánar eftir að hafa legið í nokkur ár við Ægisgarð, og sigldi hann þangað
undir eigin vélarafli hinn 6 október árið 1976.
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu. (C) Ásgrímur Ágústsson.
Stærsti
togari Íslendinga kominn til Hafnarfjarðar
Stærsti togari, sem til þessa hefir verið smíðaður handa
íslendingum, kom til Hafnarfjarðar í fyrradag frá Englandi. Heitir hann
Neptúnus og er eign útgerðarfélagsins Júpíters í Hafnarflrði. Togari þessi er
einn af þeim 30 togurum, sem íslendingar láta smíða í Englandi, en samið var um
miklar breytingar á þessu skipi frá hinni upphaflegu teikningu. Neptúnus er 183
½ fet að lengd og 717 rúmlestir. Hann er því um 67 rúmlestum stærri en hinir
nýju togararnir. Auk þess sem Neptúnus er stærri en aðrir nýju togararnir, er
hann þeim frábrugðinn að ýmsu öðru leyti. Matsalur skipverja er frammi á
skipinu, en ekki fyrir aftan brú. En þar eru aftur á móti lýsisbræðslutækin.
Hefir sú orðið reynsla með þá nýju togara, sem komnir eru, að þeir eru orðnir
of léttir að aftan og er því með þessu gerð tilraun til að þyngja skipið að
aftan og létta það að framan. Fiskiborð og kassar eru ekki geymdir í
forlestinni á Neptúnusi, eins og venja er, heldur er geymsla fyrir þau undir
hvalbak.
Tíminn. 29 desember 1947.
B.v. Neptúnus GK 361 við komuna til landsins. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Neptúnus RE 361. Eins og sjá má á myndinni er lunningin einungis hækkuð um 18" aftur fyrir vantinn, enda er skipið nánast nýtt og komið með RE 361 skráninguna. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Glæsileg
landkynning
Nokkrum dögum áður en Sjómannadagsblaðið fór í prentun,
seldi annar stærsti nýsköpunartogari Íslendinga, b.v. Neptúnus, afla sinn í
Englandi, 356 tonn, fyrir 19.069 sterlingspund eða um 500.000,00 ísl. krónur.
Breska útvarpið, sem hlustað er á um allt breska heimsveldið og meira og minna
um alla veröldina, skýrði ýtarlega frá þessari einstæðu aflasölu sem væri
heimsmet og flest stærstu blöð meginlandsins tóku fréttina upp með stórri
fyrirsögn í dálka sína. Auk þessa munu að sjálfsögðu öll fiskveiðirit víðsvegar
um veröldina gera hana að umræðuefni. Það er mikið rætt og ritað um
landkynningu í ymsu formi, en ekki þarf mikla skarpskyggni til þess að skynja
að slíkt afrek, sem hér er um að ræða, mun 'bera upp hróður Islands styrkari
stoðum heldur en nokkurt íþróttamet gæti gert. íslenzk sjómannastétt og þjóðin
í heild gleðst heilum huga og finnur til metnaðar yfir slíku afreki fengsæls
skipstjóri og dugmikillar skipshafnar á gjörvilegu skipi traustrar útgerðar.
Skipstjóri á b.v. Neptúnus er hinn þjóðkunni aflamaður Bjarni Ingimarsson frá
Hnífsdal, eigandi skipsins er útgerðarfélagið Júpiter h.f. í Reykjavík, en
framkvæmdarstjóri þess er Tryggvi Ófeigsson.
Sjómannadagsblaðið. 6 júní 1948.
B.v. Neptúnus RE 361 leggst við bryggju í Grimsby. Ljósmyndari óþekktur.
Saltfiski landað úr Neptúnusi RE í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Neptúnus
skemmdist af eldi í Grimsby
Engan mann sakaði
Togarinn Neptúnus skemmdist nokkuð af eldi skömmu áður en
hann átti að láta úr höfn í Grimsby. Engan mann sakaði, en skipið mun tefjast
eitthvað ytra. Tíðindamaður blaðsins snéri sér til Tryggva Öfeigssonar
útgerðarmanns og fékk hjá honum eftirfarandi upplýsingar:
Togarinn Neptúnus, eign togarahlutafélagsins Júpíter í Reykjavík, seldi afla
sinn í Grimsby í fyrradag. Skömmu áður en skipið átti að láta úr höfn kom eldur
upp í svonefndu "fírplássi" eða kyndistöð togarans, en umhverfis hana eru
olíugeymar skipsins. Voru þeir nýfylltir af olíu. Leit svo út um tíma, að eldur
mundi læsast í olíugeymana. Við það mundi sprenging hafa átt sér stað í skipinu
og það ónýtzt. Slökkviliðinu í Grimsby tókst þó, þrátt fyrir óhæga aðstöðu, að
koma í veg fyrir sprengingu og réð það niðurlögum eldsins. Skipið skemmdist í
kyndistöð og kringum hana, svo sem einangrun á eimkatli svo og stýrishús, en
þar er loftskeytastöðin.
Togarinn Neptúnus er tæplega ársgamall. Á þessu tímabili hefur hann farið 13
söluferðir. Hann er söluhæstur allra togara. Hefur selt fyrir samtals 172 þús.
sterlingspund. Heimsmet í sölu setti hann í maí sl. er hann seldi fyrir 19.069
sterlingspund. Íslendingar eiga einn togara af sömu gerð og Neptúnus, en það er
togarinn Marz frá Reykjavík. Hefur þessi gerð nýsköpunartogara reynzt svo vel,
að hinir 10 togarar, sem ríkisstjórnin hefur nýlega samið um smíði á, eru í
öllum aðalatriðum eins. Skipstjóri á Neptúnus er Bjarni Ingimarsson frá
Hnífsdal, þjóðkunnur aflamaður. Hann sigldi ekki með skipið til Englands að
þessu sinni.
Þjóðviljinn. 17 desember 1948.
B.v. Neptúnus RE 361 að koma til hafnar í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Neptúnus RE 361 á veiðum. (C) Sigurgeir B Halldórsson.
Eldur í
Neptúnusi út af Garðskaga
Mannbjörg varð
Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum
Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin,
32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk
ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson ,
skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert
komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í
varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn
b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v.
Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið
festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv.
Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og
væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v.
Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í
morgun . Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum
með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á
Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu. Þar
niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði
Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í
gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að
skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda
togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum
og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn.
Þegar
Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega
björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er
vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf. Liklegt var talið, að kviknað hefði í
út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters
hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur
undanfarið verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð
mun kosta um 2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór
með sínu gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann
hefur undanfarið verið með bv. Júpíter. Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í
Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða
gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo
miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að
endurbæta hann. Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka
fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í
Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.
Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.
B.v. Neptúnus RE 361 yfirgefinn vegna elds út af Garðskaga í ágúst 1964. (C) Atli Michelsen.
157. Neptúnus RE 361 í Reykjavíkurhöfn. (C) Þór Eyfeld.
B.v. Neptúnus RE 361 á leið úr Reykjavíkurhöfn í síðasta sinn í október 1976. (C) Ólafur K Magnússon.
Neptúnus
kveður
B.v. Neptúnus RE 361, einn frægasti togari íslendinga fyrr
og síðar, sigldi í gær áleiðis til Spánar í brotajárn. Hann hefur legið á þrjú
ár við Ægisgarð. Eigandi Neptúnus var h/f Júpiter. Togarinn var smíðaður 1947 í
skipasmiðju John Lewis & Sons í Aberdeen. Smíði Neptúnusar var að öllu
leyti lokið á aðfangadagskvöld jóla 1947, er skipið hélt áleiðis til Íslands.
Skipstjóri var Bjarni Ingimarsson. Neptúnus kom til Hafnarfjarðar á 3. í jólum
og fór á veiðar tafarlaust, eftir að Páll Halldórsson, skólastjóri
Stýrimannaskólans, hafði lokið mælingu skipsins. Neptúnusi gekk afburða vel
strax. Setti heimsmet í sölu í Grimsby þann 7. mai 1948, landaði 5.709 kits,
sem jafngildir 363 tonnum. Sala í sterlingspundum var 19.069.
Neptúnus átti heimsmetið í alls þrettán ár, lengst allra togara fyrr og síðar.
Á karfaárunum eftir 1950 kom Neptúnus til Reykjavíkur með einn mesta karfaafla,
sem nokkur togari hefur fengið. Neptúnus var systurskip Marz, en þau voru
smíðuð samtímis. Tryggvi Ófeigsson sá um smíði beggja togaranna, kom með þeim
heim og tók við þeim báðum. Marz kom til Reykjavíkur á sumarmálum 1948.
Skipstjóri á honum var Þorsteinn Eyjólfsson. Meðan á smíði skipanna stóð
dvaldist Tryggvi Ófeigsson að mestu í Aberdeen og fékk eftirfarandi breytingum
framgengt á smíðasamningi nýsköpunarstjórnarinnar: 1) Skipin voru lengd um 8,5
fet. 2) Skjólborð hækkað, sem var talin hin ágætasta breyting, þegar skipverjar
unnu á framdekki. 3) Lestarhlerar gerðir úr stáli, svo aldrei þurfti eftirlits
á dekki í ofviðrum. 4) "Mónó"-lifrardælur settar í bæði skipin, þannig að
lifrarburður var úr sögunni, sem var afleit vinna og hættuleg í vondum veðrum.
Neptúnus og Marz voru fyrstu skipin með þessum breytingum.
Stækkun skipanna jók burðarþol mjög og skipin urðu gangmeiri, svo um munaði í
mótvindi. Margar fleiri breytingar voru gerðar, þótt ekki séu þær taldar hér.
Miklir aflamenn hafa verið skipstjórar á Neptúnusi. Lengst var Bjarni
Ingimarsson, alls þrettán ár, og Jóhann Sveinsson, sem var í átta ár. Neptúnus
hefur borið að landi geysilegan afla fyrir íslenzku þjóðina, verið mikið
happaskip og greitt alla tíð hæstu opinber gjöld allra íslenzkra togara.
Neptúnus kveður Ísland skuldlaus.
Morgunblaðið. 7 október 1976.
14.04.2021 17:03
M.b. Max ÍS 8.
Mótorbáturinn Max ÍS 8 var smíðaður af Fal Jakobssyni og
Sigmundi syni hans í Bolungarvík árið 1935 fyrir Bernódus Halldórsson
skipstjóra og Einar Guðfinnsson útgerðarmann í Bolungarvík. 8 brl. 25 ha. Union
vél. Báturinn fórst í róðri út af Ísafjarðardjúpi 9 febrúar árið 1946 með allri áhöfn, 4 mönnum. Eigendur
bátsins þá voru Einar Guðfinnsson og Þorbergur Magnússon skipstjóri sem fórst
með báti sínum. Brak úr bátnum fannst rekið á fjörur að Látrum í Aðalvík.
Mótorbáturinn Max ÍS 8 á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Mótorbáturinn
Max frá Bolungarvík
ferst með allri áhöfn
Mótorbáturinn "Max", sem fór í róður frá Bolungarvík að
kvöldi þess 8. febrúar, hefur farist með 4 manna áhöfn. Þessir menn fórust með
bátnum:
Þorbergur Magnússon skipstjóri, Bolungarvík, 34 ára, lætur eftir sig konu og 2
börn, ásamt móður, sem dvaldi á heimili Hans.
Matthías Hagalínsson vélstjóri, Grunnavík, 27 ára, ókvæntur en var
aðalfyrirvinna aldraðra foreldra. Guðlaugur Magnússon háseti, Bolungarvík, 55
ára, kvæntur og lætur eftir sig konu og uppkomin börn. Jón Örnólfsson háseti,
Bolungarvík, 19 ára, til heimilis hjá foreldrum sínum. Leit var hafin að bátnum
strax á sunnudagsmorgun og tóku 5 bátar frá Bolungarvík ásamt eftirlitsbátnum
"Dux" þátt í leitinni; en hún var árangurslaus.
Mb. "Max" var 8 smálestir að stærð, byggður í Bolungarvík af þeim feðgum
Fal Jakobssyni og Sigmundi syni hans, árið 1935 fyrir þá Einar Guðfinnsson og
Bernódus Halldórsson. Max hefur verið mesta happaskip frá byrjun, og ávallt
verið með aflahæstu skipum í Bolungarvík.
Eigendur bátsins voru nú Einar Guðfinnsson og Þorbergur Magnússon. Er mikill
harmur kveðinn af fráfalli þeirra vösku sjómanna, er á bátnum voru.
Vesturland. 20 febrúar 1946.
13.04.2021 16:41
B.v. Snorri goði RE 141. LBMG / TFYC.
Botnvörpungurinn Snorri goði RE 141
var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir Det
Norske Damptrawlselskab A/S í Álasundi í Noregi, hét fyrst Aalesund. 374 brl.
578 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 49. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í
Reykjavík á nauðungaruppboði í Noregi, vorið eða sumarið 1924 og kom togarinn
til Reykjavíkur hinn 22 ágúst það ár, hét Snorri goði RE 141. Ný vél (1930) 650
ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í
Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í
Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í
Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Granton í Skotlandi og rifinn
þar í maí árið 1952.
Snorri goði var upphaflega smíðaður sem selveiðiskip en ekki klárað. Kveldúlfur
keypti togarann á nauðungaruppboði í Noregi. Snorri var ekki gott togskip. Hann
var með hraðgenga vél með lítilli skrúfu. Til að reyna að bæta úr því var ný
gufuvél sett í hann 1930. Eftir að þeir eignuðust systurskipið Gulltopp RE 247
hafi staðið til að skipta um vél í honum en aldrei orðið úr því.
Heimild; Birgir Þórisson.
B.v. Snorri goði RE 141 með fullfermi í erlendri höfn, sennilega í Englandi. Ljósmyndari óþekktur.
Nýr
botnvörpungur
"Snorri goði" heitir nýr botnvörpungur, sem hf. Kveldúlfur
hefir keypt frá Noregi, og kom hann hingað í fyrradag. Einar skipstjóri
Einarsson kom með skipið.
Vísir. 25 ágúst 1924.
B.v. Snorri goði RE 141 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Kveldúlfstogarinn Snorri goði RE 141. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Snorri goði RE 141 á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Um borð í Viðey RE 13, verið er að taka trollið. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Búðanes SH 1 á leið í eða úr slipp í Reykjavík. (C) Geir Geirsson Zoëga.
Fimm togarar
í brotajárn
Á árinu 1952 var eitt skip flutt úr landi , E/s Súðin, sem
seld var til Hong Kong. Fob-verðið er talið 394 þús. kr. Þessir fimm togarar
voru seldir úr landi til niðurrifs og er söluverðmæti þeirra talið sem
brotajárn í skýrslu nr. 282-01: Útflutningsverð
1000 kr.
E/s Haukanes (341 rúml. br.), selt til Belgíu.
340.
E/s Baldur (315 rúml. br.), seldur til Belgíu. 340.
E/s Helgafell (313 rúml. br.), selt til Bretlands. 228.
E/s Jón Steingrímsson (298 rúml. br.), seldur til Bretlands. 182.
E/s Búðanes (373 rúml. br.), selt til Bretlands. 251.
Alls
1 341.
Hagskýrslur um utanríkisverslun.
Verslunarskýrslur árið 1952.
1 janúar 1954.
03.04.2021 10:18
B.v. Valur RE 122. LBKG.
Botnvörpungurinn Valur RE 122 var
smíðaður hjá Cochrane & Coopers í Beverley á Englandi árið 1894 fyrir
Northwold Steam Fishing Co í Grimsby. Hét fyrst Northwold GY 625. 137,11 brl. 200
ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 114. 92,5 ft. x 20,5 ft. x 11 ft. Seldur í
desember 1904 til Noregs og mun hafa heitið þar Jacob. Seldur í september 1906,
fyrri eiganda í Grimsby, hét þá Northwold GY 179. Seldur í maí 1908, Árna
Hannessyni og fl. í Reykjavík, hét þá Valur RE 122. P.J.Thorsteinsson & Co
(Milljónafélagið) eignast togarann um áramótin 1908-09. Seldur í mars 1914, Fiskveiðahlutafélaginu
Alpha í Hafnarfirði, hét þá Alpha GK 433.Togarinn var seldur til Noregs árið
1917 og hét þar nöfnunum Velo og Saevik. Ekki er mér kunnugt ennþá um afdrif
hans þar.
B.v. Valur RE 122 á Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson.
Nýr
botnvörpungur
"Valur" heitir botnvörpungur, sem nýkeyptur er af
fjelagi hjer í Reykjavík og byrjaður á veiðum. Skipstjórinn heitir Árni
Hannesson og keypti hann skipið í Englandi, en í fjelagi með honum eru: G.
Einarsson konsúll, H. Steinsson skipstjóri, hlutafjelagið P. J. Thorsteinsson
& Co. og ef til vill fleiri. Skipið er 62 smál. og hefur kostað hingað
komið 45 þús. kr. Auk botnvörpunnar hefur það lóðir og síldveiðaútbúnað.
Lögrétta. 24 júní 1908.
02.04.2021 13:28
2982. Vilhelm Þorsteinsson EA 11. TF..
Vilhelm Þorsteinsson EA 11 var smíðaður hjá Karstensens
Skibsværft A/S í Skagen í Danmörku árið 2021 en skrokkur skipsins var smíðaður
hjá Karstensen Shipyard í Gdynia í Póllandi fyrir Samherja hf á Akureyri. 4.139
Bt. 2 x 3.200 Kw Rolls Royce vélar. 88,20 m. á lengd, 16,60 á breidd og djúprista
er 9,60 m. Smíðanúmer 452. Burðargeta skipsins er um 3.000 tonn. Verður skipið
gert út á nóta og togveiðar. Meira síðar um þetta skip. Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sendi mér
nokkrar myndir af Vilhelm þegar hann sigldi inn Eyjafjörðinn í fyrsta sinn í
morgun. Sannarlega fallegt skip.
2982. Vilhelm Þorsteinsson EA 11 á Eyjafirði í morgun.
2982. Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Sannarlega glæsilegt skip. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
2982. Vilhelm Þorsteinsson EA 11. Líkan. (C) Karstensens Skibsvært A/S Skagen.
02.04.2021 10:35
880. Víðir SU 175. TFPI.
Vélskipið Víðir SU 175 var smíðaður í Simrishamn í Svíþjóð
árið 1946. 91 brl. 215 ha. Polar vél. Eigandi var Víðisútgerðin hf (Sigurður
Magnússon skipstjóri og útgerðarmaður) á Eskifirði. Ný vél, (1953) 360 ha.
Lister vél. Selt 12 janúar 1965, Guðjóni Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét þá
Ágústa VE 350. Skipið sökk um 27 sjómílur suðaustur af Dalatanga 11 október
árið 1965. Áhöfninni, 11 mönnum var bjargað um borð í vélskipið Friðrik Sigurðsson
ÁR 17 frá Þorlákshöfn.
Vélskipið Víðir SU 175 á sundunum við Reykjavík. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Þetta
er engin aðstaða, þessi ósköp
bryggjuspjall
við Sigurð Magnússon
skipstjóra á Víði SU 175
Sigurður Magnússon skipstjóri á Víði frá Eskifirði er
þjóðkunnur maður. Hann er þaulreyndur síldarskipstjóri, veizlustjóri í
skipstjórahófum og formaður skemmtinefndar síldarskipstjóra. Hann er einskonar
sjálfseignarbóndi á sjónum. Á sína útgerð sjálfur og stjórnar henni með rausn
og skörungsskap, skipi jafnt sem reiðaríi. Ég var á vakki við höfnina nýlega,
þegar ég rakst á Sigurð. Hann gekk að mér þar sem ég var að miða myndavélinni á
mann, sem bætti dragnótina sína í gríð og ergi, sitjandi á einskonar pramma úti
á höfninni. - Af hverju geturðu verið að taka myndir hér? Spurði Sigurður og
var greinilega vantrúaður á þessa iðju mína. - O, það er hægt að mynda allan
skollan, svaraði ég kotroskinn, en spurði síðan hvort hann ætlaði ekki að fara
að veiða síld. - Ja, ég veit ekki. Þetta er nú ekkert, sem komið er af síld
ennþá, eitthvað smávegis kannski og í litlum torfum. Ætli það verði nokkuð fyrr
en seinnipartinn í mánuðinum. Það er ekki gott að segja. Nú lítur Sigurður á
mig og er íbygginn á svip: Það er verst
hvað ég er skolli hræddur við verkföll. Ert
þú það ekki líka? - Nei, nei. Þau vinnast alltaf, eins og þú veizt. -
Já, en það er sko ekkert grín fyrir mig að fara að byrja á síld og verða svo
allt í einu stopp í verkfalli, kannski nýfarinn út. Nei, mér er næst skapi að
hreyfa mig ekkert fyrr en útséð er hvernig allt fer. Það kostar ekki svo lítið
að byrja. Aldrei minna en 75000. - Ertu ánægður með aðstöðuna hérna í höfninni?
spyr ég og verður litið yfir til nýju vöruskemmunnar og yfir flotann, upp undir 100 báta. - Þetta er agaleg aðstaða,
segir hann og horfir í sömu átt og ég. -
Og svo þetta þarna. Uss. Það er heldur ekki nokkur meining ; að geta ekki haft
bátinn við bryggju þegar eitthvað þarf
að gera. Maður er alltaf að skælast utan á 3ja og fjórða bát. Nei, nei. Þegar maður þarf að gera eitthvað fyrir
bátinn sinn, taka dót í land eða setja eitthvað um borð, verður maður að geta
verið við bryggju.
Þó að Sigurður sé að mestu fluttur með útgerð sína til Reykjavíkur, er hann
samt Austfirðingur í húð og hár og nú kemur aðkomumaðurinn upp í honum: - Já,
ég held, að Reykvíkingar ættu að vara sig á því, að reka ekki flotann af höndum sér nú eins og um
árið. Þetta hérna er ekki nokkur höfn eins og hún er núna, og hvar stæðu þeir
svosem ef við færðum þeim ekki síldina og atvinnuna. Ég er nú hræddur um að það
hefði einhversstaðar orðið þröngt í búi, ef síldin hefði ekki komið til. Nú
sýnir Sigurður á sér fararsnið, en ég bið hann að sitja fyrir áður. - Qg hvað
ætlarðu svosem að gera með mynd af mér?
spyr hann, en stingur svo upp á að hann stilli sér þannig upp að stefnið
á Víði verði í bakgrunni. Þetta var því miður óframkvæmanlegt, vegna þess að
það var beint í sólina, en við sættumst á það að lokum að hafa bara einhverja
aðra fallega báta í bakgrunninum og urðu fyrir valinu ekki ómerkari bátar en
aflaskipið Grótta og Húni II. Björns á Löngumýri.
Alþýðublaðið. 11 október 1963.
Víðir SU 175 í heimahöfn, Eskifirði. (C) Vilberg Guðnason.
Vélbáturinn
Ágústa VE 350 hætt kominn
við Surtlu í fyrrinótt
Sogaðist á
dularfullan hátt að gosstöðvunum
Vélbáturinn Ágústa VE 350 var mjög hætt kominn við nýju
gosstöðvarnar hjá Surtsey í nótt, þar sem hann var á veiðum. Flæktist nót
bátsins í skrúfuna og sogaðist báturinn síðan á lítt skiljanlegan hátt að
gosstöðvunum og tók þar niðri. Fréttir af atburði þessum eru enn óljósar og
hvílir yfir þeim dula. Þeir, sem í þessu lentu, verjast allra frétta, og
skýrist málið sennilega ekki til fulls fyrr en við væntanleg sjóþróf. Samkvæmt
upplýsingum þeim, sem Tíminn aflaði sér í kvöld hjá mörgum aðilum, varð
atburðurinn með eftirfarandi hætti.:
Sjómenn hafa tekið eftir því, að síld hafði þjappazt mikið saman þarna við
gosstöðvarnar og hafði Ágústa farið þangað á veiðar í nótt. Var nýbúið að kasta
er það óhapp varð, að nótin flæktist í skrúfu bátsins og tók hann strax að reka
að Surtlu, þ.e. nýju gosstöðvunum. Er báturinn nálgaðist eyjuna, tók að gæta
mikils sogs, sem hreif bátinn með sér nær henni, þar til hann tók niðri á rifi.
Var báturinn þá svo nærri, að gosmökkurinn lék um hann. Einhvern veginn losnaði
báturinn þó af sjálfsdáðum af rifinu og rak nú í átt að Surtsey sjálfri. Var
báturinn kominn mjög nærri henni, er vélbáturinn Ófeigur ll. kom á vettvang og
dró Ágústu út á frían sjó. Var þá Lóðsinn úr Vestmannaeyjum einnig kominn til
aðstoðar. Var froskmaður þar um borð, sem kafaði þegar og skar nótina úr skrúfu
Ágústu, sem hélt síðan rakleiðis áfram á veiðar. Ekki reyndist unnt að ná
sambandi við Ágústu í kvöld og má raunar segja um alla aðra, sem voru þarna á
vettvangi, að þeir verjast allra frétta. Eftir upplýsingum Tímans, hefur hér
verið um mjög alvarlegan atburð að ræða, sem þó giftusamlega rættist úr.
Lausafregnir herma, að aðgerðir þær, sem áður getur, hafi staðið yfir í 6
klukkustundir og hafi mikil spenna hvílt yfir öllu, meðan á þeim stóð, því tæpt
hafi staðið um björgun bátsins.
Tíminn. 25 júní 1965.
Sigurður skipstjóri á Víði á bryggjuspjalli við blaðamann Alþýðublaðsins.
Víður SU 175 með fullfermi við bryggju í Neskaupstað. (C) Sverrir Einarsson.
Vélskipið
Ágústa sökk út af Austfjörðum
Í gærmorgun sökk vélskipið Ágústa V.E. 550 suðaustur af
Gerpi á leið til lands með síldarfarm. Skipið var áður Víðir S.U. 175 eign hins
kunna aflamanns Sigurðar Magnússonar á Eskifirði. Hafði hann fyrir nokkru selt
skipið núverandi eiganda Guðjóni Ólafssyni í Vestmannaeyjum og skipstjóra á
skipinu og var það þá skýrt upp. Mannbjörg varð og náðust skipverjar óhraktir. Það
var vélskipið Friðrik Sigurðsson frá Þorlákshöfn sem bjargaði mönnunum. Blaðið
náði í gær tali af báðum skipstjórunum, bæði hins sokkna skips og þess er
bjargaði. Í gærkvöldi kl. 21. komu skipbrotsmenn til Reykjavíkur með flugvél
frá Egilsstöðum, en þeir höfðu áður verið fluttir til Seyðisfjarðar.
Fréttamaður blaðsins náði þá sem snöggvast tali af Guðjóni Ólafssyni skipstjóra
á Ágústu. "Við vorum staddir 26-27 mílur SA af A frá Dalatanga er skyndilega
kom leki að skipinu kl. rúmlega 8 í morgun. Við reyndum að dæla í 20 mínútur,
en síðan lagðist skipið á hliðina á einni og hálfri mínútu. Þá var ekki annað
hægt að gera en flýta sér í bátana, en áður höfðum við náð sambandi við
vélskipið Friðrik Sigurðsson og hafði honum tekizt að miða okkur. Við fórum í
tvo gúmmíbáta og liðu ekki nema 15-20 mínútur þar til okkur var bjargað. Veður
var 5-6 vindstig og kröpp kvika. Við vorum 11 um borð og í sumar höfum við
fengið 25 þúsund mál og tunnur. Í þessari ferð vorum við með 700 tunnur í
lestum. Guðmundur Friðriksson skipstjóri á Friðriki Sigurðssyni frá
Þorláksihöfn sagði svo frá í símtali við blaðið, en hann var þá staddur á
Seyðisfirði.
Klukkan mun hafa verið um 10 þegar við björguðum, skipverjum af Ágústu. Við
höfðum heyrt frá þeim kallið og miðuðum þá strax og þegar við fengum skipið í
ratsjána vorum við fjórar mílur í burtu. Þegar tvær mílur voru eftir hvarf
skipið, en áður höfðum við heyrt að þeir væru að fara í bátana og skipstjórinn
þá einn eftir um borð að senda síðasta kall. Það var dimm þoka þarna um hálfrar
mílu skyggni eða minna, en við komum beint í brakið og fundum strax gúmmbátana.
Mennirnir voru óhraktir. Við fluttum þá svo hingað til Seyðisfjarðar. Frekari
upplýsingar er ekki að hafa um atburð þennan fyrr en sjóprófum er lokið í
málinu.
Morgunblaðið. 12 október 1965.
- 1