14.04.2021 17:03

M.b. Max ÍS 8.

Mótorbáturinn Max ÍS 8 var smíðaður af Fal Jakobssyni og Sigmundi syni hans í Bolungarvík árið 1935 fyrir Bernódus Halldórsson skipstjóra og Einar Guðfinnsson útgerðarmann í Bolungarvík. 8 brl. 25 ha. Union vél. Báturinn fórst í róðri út af Ísafjarðardjúpi 9 febrúar árið 1946 með allri áhöfn, 4 mönnum. Eigendur bátsins þá voru Einar Guðfinnsson og Þorbergur Magnússon skipstjóri sem fórst með báti sínum. Brak úr bátnum fannst rekið á fjörur að Látrum í Aðalvík.


Mótorbáturinn Max ÍS 8 á siglingu.                             Ljósmyndari óþekktur.

 Mótorbáturinn Max frá Bolungarvík
             ferst með allri áhöfn

Mótorbáturinn "Max", sem fór í róður frá Bolungarvík að kvöldi þess 8. febrúar, hefur farist með 4 manna áhöfn. Þessir menn fórust með bátnum:
Þorbergur Magnússon skipstjóri, Bolungarvík, 34 ára, lætur eftir sig konu og 2 börn, ásamt móður, sem dvaldi á heimili Hans.
Matthías Hagalínsson vélstjóri, Grunnavík, 27 ára, ókvæntur en var aðalfyrirvinna aldraðra foreldra. Guðlaugur Magnússon háseti, Bolungarvík, 55 ára, kvæntur og lætur eftir sig konu og uppkomin börn. Jón Örnólfsson háseti, Bolungarvík, 19 ára, til heimilis hjá foreldrum sínum. Leit var hafin að bátnum strax á sunnudagsmorgun og tóku 5 bátar frá Bolungarvík ásamt eftirlitsbátnum "Dux" þátt í leitinni; en hún var árangurslaus.
Mb. "Max" var 8 smálestir að stærð, byggður í Bolungarvík af þeim feðgum Fal Jakobssyni og Sigmundi syni hans, árið 1935 fyrir þá Einar Guðfinnsson og Bernódus Halldórsson. Max hefur verið mesta happaskip frá byrjun, og ávallt verið með aflahæstu skipum í Bolungarvík.
Eigendur bátsins voru nú Einar Guðfinnsson og Þorbergur Magnússon. Er mikill harmur kveðinn af fráfalli þeirra vösku sjómanna, er á bátnum voru.

Vesturland. 20 febrúar 1946.

Flettingar í dag: 1197
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 858
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 699594
Samtals gestir: 52789
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 16:33:05