Færslur: 2017 Október

31.10.2017 19:33

2894. Björg EA 7. TFKO.

Nýtt og glæsilegt fiskiskip bættist við flota landsmanna í dag þegar ísfisktogarinn Björg EA 7 kom til heimahafnar, Akureyrar. Skipið er í eigu Samherja h/f á Akureyri og er eitt af fjórum systurskipum sem hönnuð eru hjá Skipatækni í Reykjavík og eru smíðuð í Cemre Skipasmíðastöðinni í Istanbúl í Tyrklandi. Hin eru, Kaldbakur EA 1, Björgúlfur EA 312 og Drangey SK 2. Björg er 2.080 brl. að stærð. 1.620 Kw Yanmar díesel vél. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessar glæsilegu myndir af Björgu þegar skipið kom til Akureyrar um hádegið í dag. Þakka ég honum fyrir afnot myndanna. Óska Samherja og öllum Akureyringum til hamingju með þetta glæsilega skip.


2894. Björg EA 7.

2894. Björg EA 7.

2894. Björg EA 7.

2894. Björg EA 7.

2894. Björg EA 7.

2894. Björg EA 7.                                                    (C) Myndir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

          Nýr ísfisktogari til Akureyrar

Björg EA-7, nýr ferskfisktogari Samherja hf. lagðist að bryggju á Akureyri í fyrsta sinn í hádeginu í dag. Skipið er það fjórða og síðasta í seríu togara sem Cemre skipasmíðastöðin í Tyrklandi hefur afhent á þessu ári til íslenskra útgerða. Fyrstur var Kaldbakur EA-1 í eigu Útgerðarfélags Akureyringa, dótturfélags Samherja hf., síðan Björgúlfur EA-312 í eigu Samherja hf., Drangey SK-2 í eigu FISK Seafood og nú Björg EA í eigu Samherja hf. Skipin eru hönnun frá Skiptatækni ehf. Strax eftir heimkomu Bjargar EA verður hafist handa hjá Slippnum Akureyri við niðursetningu vinnslubúnaðar á milliþilfar skipsins og er áformað að togarinn haldi til veiða snemma á næsta ári.
Skipið er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Það er skráð 2081 brúttótonn og hefur 14 hnúta siglingahraða að hámarki. Það er búið Yanmar aðalvél sem Marás ehf. hefur umboð fyrir hér á landi. Hún skilar 1620 kW afli við 750 snúninga og getur bæði keyrt á svartolíu og gasolíu. Skrúfa skipsins er 3,8 m í þvermál og er skipið búið kerfum sem reikna út bestu nýtingu orku hvort heldur það er á veiðum eða siglingu.
Allar vindur skipsins eru knúnar með rafmagni og koma frá norska framleiðandanum Seaonics. Togafl skipsins er 40 tonn. Í lest rúmar það 225 tonn af fiski (750 stk 460 lítra kör) en lestin er tæplega 1000 rúmmetrar að stærð. Í henni er ný gerð af krana sem gengur á brautum í lestarloftinu, nokkurs konar hlaupaköttur. Þessi búnaður er notaður til að raða fiskikerum í lestina en hann er hollenskur að uppruna og er ný tækni í lestum fiskiskipa.
Í brú skipsins er m.a. svokallaður skjáveggur sem þar sem skipstjóri getur verið með samtímis alla helstu upplýsingaglugga úr siglinga- og fiskileitarbúnaði skipsins. Þessi tækni er frá fyrirtækjunum Brimrún ehf. og Nordata ehf. Veiðarfæranemar eru frá Marport.
Fiskvinnslusvæði á milliþilfari er rúmir 400 fermetrar að stærð og þar verður aðgerðaraðstaða og búnaður til fullkælingar á afla áður en hann er settur í lest. Fiskinum verður raðað í kör á milliþilfarinu og þaðan fara þau með lyftum niður í lest.
Nýja skipið ber nafn Bjargar Finnbogadóttur, móður Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., og fagnaði hún skipinu við komuna til Akureyrar í dag. Í fiskiskipaflota fyrirtækisins eru eða hafa verið skip sem heita í höfuð foreldra þeirra Samherjafrænda, Kristjáns Vilhelmssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar. Fyrst kom togarinn Baldvin Þorsteinsson EA-10, nefndur í höfuðið á föður Þorsteins Más. Síðan fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA-11, sem heitir eftir föður Kristjáns. Síðan kom Anna EA-305 sem er nefnd í höfuð á Önnu Kristjánsdóttur móður Kristjáns og nú Björg EA-7 sem ber, líkt og áður segir, nafn Bjargar Finnbogadóttur móður Þorsteins Más.

Kvótinn. 31 október 2017.


 

29.10.2017 20:23

B. v. Ver GK 3. LBMQ / TFXC.

Botnvörpungurinn Ver GK 3 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


B.v. Ver GK 3 á siglingu með nótabátana í afturdragi.                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Brimir NK 75 við bryggju í Neskaupstað sumarið 1937.                          (C) Björn Björnsson.


Brimir við bryggju Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar sumarið 1937.            Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Helgafell RE 280.                                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

             Nýr botnvörpungur

,,Vor'' heitir nýr togari, sem h.f. Víðir í Hafnarfirði hefir keypt í Englandi. Hann kom í fyrradag frá Englandi. Er það fallegt skip, fjögra ára gamalt. Halldór Þorsteinsson skipstjóri keypti skipið og kom með það upp.

Morgunblaðið. 13 september 1924.


         Botnvörpungurinn " Ver "

"Ver" , en ekki "Vor,", eins og misprentast hafði í blaðinu í gær, heitir hinn nýi togari h.f. Víðis í Hafnarfirði.

Morgunblaðið. 14 september 1924.

29.10.2017 11:01

1292. Sigurður Baldvin KE 22. TFWI.

Vélbáturinn Sigurður Baldvin KE 22 var smíðaður í Skipasmíðastöð Jóns Jónassonar við Elliðaárvog í Reykjavík árið 1973. Eik og fura. 22 brl. 188 ha. Dorman díesel vél. Eigendur voru Jón K Sigurðsson og Gunnar Baldvinsson í Keflavík frá 27 febrúar sama ár. Seldur 18 september 1973, Finnboga Jakobssyni og Ragnari Inga Hálfdánarsyni í Bolungarvík, hét Jakob Valgeir ÍS 84. Seldur 17 ágúst 1978, Vagni Margeiri Hrólfssyni í Bolungarvík, hét Haukur ÍS 195. Ný vél (1984) 188 ha. Dorman díesel vél, 138 Kw. Frá 28 febrúar 1991 er Birna Hjaltalín Pálsdóttir skráður eigandi bátsins. Seldur 19 nóvember 1996, Norðursiglingu ehf á Húsavík, heitir Haukur ÞH. Ný vél (2002) 190 ha. Scania díesel vél, 140 Kw. Einnig var bátnum breytt í seglskip sama ár. Haukur er gerður út til hvalaskoðunar á Húsavík í dag.


1292. Sigurður Baldvin KE 22 í prufusiglingu á sundunum í Reykjavík.      Ljósmyndari óþekktur.

        Víðtæk leit gerð að tveimur                     sjómönnum á Ísafjarðardjúpi

Bátur þeirra fannst mannlaus hringsóli tvær               sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð 

Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var hafin umfangsmikil leit í Ísafjarðardjúpi að tveimur mönnum af rúmlega 20 tonna trébáti frá Bolungarvík. Komið var að bátnum, um tvær sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð, þar sem hann hringsólaði mannlaus. Tókst að koma manni um borð í bátinn og varð þá ljóst að sjór hafði gengið yfir hann og er talið að mennina hafi tekið út við það. Þegar báturinn fannst var veður slæmt, norðaustan sjö til átta vindstig, snjókoma og frost.
Fjöldi nærstaddra skipa og báta hóf þegar leit og bátar héldu til leitar frá Bolungarvík. Leitarflokkar frá Björgunarsveitinni Erni frá Bolungarvík gengu fjörur. Auk þess var eftirgrennslan hafin frá Galtavita. Danska eftirlitsskipið Vædderen, var statt fyrir vestan og kom fljótlega á slysstað til aðstoðar. Varðskip var á leiðinni á slysstað í gærkvöldi og var von á því vestur upp úr miðnætti. Veður var heldur að ganga niður og að sögn leitarmanna eru aðstæður til leitar ágætar. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi var jafnvel talið að slysið hafi orðið um það leyti sem báturinn var að halda til lands, eftir að hafa dregið línur þær sem hann var með í sjó. Ef það reynist rétt er líklegt að slysið hafi orðið um kl. 16 í gær. Ekki er hægt að svo stöddu að birta nöfn mannanna tveggja sem saknað er né heldur nafn bátsins sem þeir voru á.

Morgunblaðið. 19 desember 1990.

       Þeir sem fórust af Hauki ÍS

Mennirnir tveir sem leitað hefur verið að frá því bátur þeirra, Haukur ÍS 195, fannst mannlaus í ísafjarðardjúpi 18. desember sl. eru taldir af og skipulagðri leit verið hætt. Félagar úr Björgunarsveitinni Erni leita þó með ströndum og á fjörum eftir því sem veður leyfir næstu daga. Mennirnir sem fórust voru:
Vagn Margeir Hrólfsson, skipstjóri, til heimilis á Þjóðólfsvegi 5 í Bolungarvík. Hann var 52 ára gamall, fæddur 25. apríl 1938, og lætur eftir sig eiginkonu, Birnu Hjaltalín Pálsdóttur, og sjö uppkomin börn. Gunnar Örn Svavarsson, háseti, Traðarlandi 19 í Bolungarvík. Hann var 29 ára, fæddur 3. janúar 1961, og lætur eftir sig eiginkonu, Margréti Vagnsdóttur. Gunnar Örn var tengdasonur Vagns og Birnu.

Morgunblaðið. 29 desember 1990.


Skemmti og hvalaskoðunarskipið Haukur ÞH í Húsavíkurhöfn. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Skonnortan Haukur ÞH á siglingu.                                            (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

              Norðursigling á Húsavík

Eitt helsta markmið Norðursiglingar er varðveisla íslenskra eikarbáta. Með smíði eikarbáta náðu íslenskir iðnaðarmenn einstaklega langt í því handverki svo að nánast er um listgrein að ræða. Smiðareglurnar voru strangari hér á landi bæði hvað varðar styrkleika og val á efni. Norðursigling hefur haft eikarbáta í siglingu með farþega á Skjálfanda síðan 1995. Sú reynsla hefur sýnt að eikarbátar eru einstaklega þægilegir, hljóðlátir og hafa rólegar hreyfingar og henta eikarbátar Norðursiglingar því einkar vel til hvala og náttúruskoðunar.
Tveir af bátum Norðursiglingar hafa verið endurbyggðir sem tveggja mastra seglskip og svipar þeim mjög til fiskiskonnorta þeirra sem algengar voru við Norðurland á seinni hluta 19. aldar. Með þessu vill Norðursigling viðhalda kunnáttu sem nærri var gleymd og sjá til þessi að gömul gildi gleymist ekki. Skúturnar tvær, Haukur og Hildur, eru báðar notaðar í almennar ferðir Norðursiglingar og eru einnig til taks í sérhæfðari verkefni.

Heimasíða Norðursiglingar á Húsavík.

28.10.2017 17:59

Langanes NK 30. TFJV.

 Langanes NK 30 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1956. Eik. 59 brl. 280 ha. Mannheim díesel vél. Langanesi var hleypt af stokkunum 21 febrúar sama ár. Eigendur voru bræðurnir Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir útgerðarmenn í Neskaupstað frá 24 janúar 1956. Báturinn sökk um 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum, 21 febrúar árið 1959 eftir að mikill og óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 6 skipverjar, komust í björgunarbátanna og var þaðan bjargað um borð í Goðaborg NK 1 frá Neskaupstað. Hafði Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum um veturinn. Skipstjóri á bátnum var Einar Guðmundsson. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Norðfirskir sjómenn bjargast í gúmmíbjörgunarbát af Norðfjarðarbáti sem ferst.
Langanes sökk nákvæmlega þremur árum eftir að því var hleypt af stokkunum hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað.

Langanes NK 30 á síldveiðum.                                                                    (C) Gunnar Þorsteinsson.
 

               Langanes NK 30

Þriðjudaginn 21. febrúar var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar h. f. nýjum fiskibáti nær 59 lesta stórum. Hlaut hann nafnið Langanes N. K. 30. Eigendur hans eru bræðurnar Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, Langanes fór áleiðis til Keflavíkur um mánaðamótin, en þaðan verður það gert út í vetur. Langanes er sterklegur bátur og vel útbúinn. Meðal annars hefur hann fisksjá og 10-12 manna gúmmíbjörgunarbát. Í bátnum er 240-375 ha. dieselvél og er ganghraði a. m. k. 13 sjómílur. Báturinn var smíðaður eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, skipasmíðameistara í Keflavík. Yfirsmiður var Sverrir Gunnarsson. Vélsmiðja Dráttarbrautarinnar annaðist niðursetningu vélar og fleira þar að lútandi. Yfirmaður vélsmiðjunnar er Reynir Zoega. Raflagnir annaðist Raftækjavinnustofa Kristjáns Lundberg. Á nýsköpunarárunum voru smíðaðir hér þrír fiskibátar, en síðan hefur nýsmíði legið niðri. Það er mjög ánægjulegt að þessi iðnaður skuli hafinn að nýju, því hann er ákaflega mikils verður. Og ekki mun skipasmíðastöðina skorta verkefni á næstunni, því hún hefur tekið að sér smíði þriggja báta til viðbótar. Langanes mun vera stærsti báturinn sem smíðaður hefur verið á Austurlandi til þessa. Skipstjóri á bátnum er Þorsteinn Júlíusson, annar eigandi hans. Austurland óskar eigendum Langaness til hamingju með þennan myndarlega bát.

Austurland. 17 mars 1956.


Langanes NK 30 í smíðum hjá Dráttarbrautinni sumarið 1955.                  (C) Gunnar Þorsteinsson.


Langanes NK 30 nýsmíðaður á Norðfirði.                                               (C) Gunnar Þorsteinsson.


Langanes NK 30 að landa síld á Vopnafirði.                                               Ljósmyndari óþekktur.

 Vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað           sökk á Eyjamiðum - mannbjörg

     Skipverjar fóru í gúmbjörgunarbát og vélbáturinn                 Goðaborg tók þá upp síðar - Langanes sökk á                                       skammri stundu

Rétt eftir hádegið í gær sendi vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað út hjálparbeiðni, þar sem hann var staddur 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum. Var mikill sjór kominn í skipið og óttuðust skipverjar, að Langanes myndi sökkva. Bátar þeir, er nærstaddir voru, brugðu skjótt við, skáru sumir frá sér línuna og héldu á slysstaðinn. Langanesið sökk skömmu síðar, en mannbjörg varð.
Vélbáturinn Langanes var eign bræðranna Þorsteins og Ársæls Júlíussona, en þeir eru Norðfirðingar. Báturinn var byggður í Skipasmíðastöð Neskaupstaðar árið 1956. Var hann úr eik, 59 smálestir með Mannheim dísilvél 250 hestafla. Voru einkennisstafir bátsins NK 30. Undanfarnar tvær vertíðar hefur Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum og hefir það reynzt ágætlega. Skipstjóri í vetur var Einar Guðmundsson frá Sandvík, en hann er nú búsettur á Norðfirði, en skipverjar auk hans voru fimm.
Klukkan tíu mínútur yfir tvö sökk Langanesið og voru skipverjar þá komnir í gúmbjörgunarbát, en þess varð ekki langt að bíða, að bátar komu hinum nauðstöddu mönnum til hjálpar. Var það Norðfjarðarbáturinn Goðaborg NK 1, sem tók mennina um borð og flutti þá til Vestmannaeyja, en þangað komu þeir um klukkan 8 í gærkveldi.
Skipverjum leið vel við komuna til Vestmannaeyja og hafði þeim gengið vel að komast í björgunarbátinn. Þeir gátu enga skýringu gefið á orsök þess, að báturinn sökk. Veður var allhvasst en sjólítið. Hið fyrsta sem menn urðu varir við lekann, var það að matsveinninn var að störfum frammi í hásetaklefa. Tók hann þá allt í einu eftir því, að gólfhlerarnir flutu upp. Var þá hugað í vélarrúm, og var kominn mikill sjór í það og hækkaði hann ört. Seig báturinn  fljótt, og var sýnt að ekki var annað að gera en fara í gúmbátanna. Sendu skipverjar þá út neyðarkall, sögðu að báturinn væri að sökkva og þeir væru að fara í bátana. Voru þeir nýlega búnir að losa gúmbátinn við skipið er Goðaborg kom.

Tíminn. 22 febrúar 1959.

27.10.2017 14:11

B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.

Botnvörpungurinn Leifur heppni RE 146 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Firmað Geir & Th. Thorsteinsson í Reykjavík. Kom nýsmíðaður til Reykjavíkur þann 8 apríl sama ár. 324 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn fórst út af Vestfjörðum ásamt Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104, í Halaveðrinu mikla, 7 eða 8 febrúar árið 1925 með allri áhöfn, 32 mönnum.


B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði.                                                      (C) Ólafur Jóhannesson.


B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði.                                                       (C) Ólafur Jóhannesson.

                    Halaveðrið

Laugardaginn 7. febrúar komu starfsmenn veðurstofunnar til vinnu klukkan sex. Þeir hófu þegar að vinna úr veðurskeytum og útbúa veðurspá dagsins. Spáin var tilbúin um klukkan hálf níu og sendi loftskeytamaður stofunnar hana út með mors-lyklinum. Samtímis bárust veðurfregnirnar til þeirra skipa er höfðu morsmóttökutæki. Ljóst var að djúp og kröpp lægð nálgaðist landið. Bátar frá verstöðvum við Faxaflóa höfðu haldið til veiða um morguninn. Upp úr hádegi var orðið það hvasst, að ekki var lengur veiðiveður. Þeir sneru því til hafnar og voru að tínast inn, fram eftir deginum. Síðdegis voru þeir allir komnir til lands, nema línubáturinn Sólveig. Var fljótlega farið að óttast um afdrif bátsins, en hann hafði verið á veiðum úti af Stafnesi. Þegar var hafin leit, gengnar voru fjörur og leitað á sjó. Fannst brak úr bátnum og var þá Sólveig talin af og með henni sex menn. Víkur nú sögunni vestur á Halamið, þar sem glíman við Ægi varð hvað hörðust og ægilegust. Þar voru 16 togarar á meðan óveðrið gekk yfir 7. og 8. febrúar.  
Þetta voru íslensku togararnir Ari, Ása, Draupnir, Egill Skallagrímsson, Gulltoppur, Gylfi, Hilmir, Jón forseti, Leifur heppni, Njörður, Surprise, Tryggvi gamli og Þórólfur. Auk þeirra voru þrír enskir togarar, sem gerðir voru út frá Hafnarfirði af bræðrunum Hellyer. Íslenskar áhafnir og skipstjórar voru á þeim að mestu leyti. Þetta voru togararnir Ceresio, Earl Haig og Fieldmarshall Robertson. Togaramir höfðu verið að toga fram eftir morgni þann 7. febrúar, en fengið lítinn afla. Þó hafði Leifur heppni veitt vel um nóttina og var hann að ljúka fengsælum veiðitúr. Um hádegi hættu flestir togararnir að toga, drógu inn vörpuna og tóku að ganga frá. Gert var að aflanum, varpan bundin og allt lauslegt á dekkinu kyrfilega fest. Egill Skallagrímsson, Hilmir og Gulltoppur sigldu framhjá Leifi heppna skömmu eftir hádegi; var Leifur þá enn að veiðum og stóðu menn í aðgerð á þilfari, enda var þar þó nokkuð af fiski. Síðdegis þennan laugardag var komið fárviðri og illt í sjó. Togararnir sneru upp í storminn, því þannig vörðust þeir best sjógangnum. Stórsjór reið yfir skipin og hættan á því að brotsjór skylli á þeim var gífurleg. Við bættist ísing sem hlóðst á togarana; urðu möstrin sver sem reykháfar af hennar völdum. Þrátt fyrir ítrustu varkárni á siglingu í svona veðri, varð varla komist hjá skakkaföllum. Flestir togararnir urðu fyrir brotsjó. Earl Haig varð fyrir því tvisvar í þessum túr:


Líkan af togaranum Leifi heppna RE 146.                                                  Ljósmyndari óþekktur. 
  
Um leið reið brotsjórinn fram yfir skipið, bakborðsmegin. Þeir vissu ekki fyrr til en þeir lágu í sjó, sem þeytti þeim sitt á hvað, og allt í einu var ekkert þak á brúnni lengur. Sjórinn reif stýrishúsið af fyrir ofan brjósthæð. Gluggar, þak og hurðir þeyttust út á sjó. Um leið kastaðist skipið enn á hliðina og lá nú með möstrin í sjó.  Sjórinn reif allt með sér, þegar hann gekk yfir togarana. Hann braut flesta björgunarbátana, tók með sér lifrarfötin og kastaði öllu til í lestunum. Við það fengu togararnir slagsíðu, þar sem kol, salt og fiskur kastaðist út í aðra hliðina en hásetarnir stóðu í stöðugum mokstri til þess að rétta þá af. Sjór flæddi inn í vélarrúm og vistarverur neðan þilja, þannig að vatnsaustur bættist ofan á aðra vinnu sjómannanna. Dælur skipanna vildu stíflast af völdum kola, er settust í þær, og vélstjórarnir börðust við að halda kötlunum logandi og vélunum gangandi. Þetta var erfitt verk, einkum eftir að sjór flæddi niður í vélarrúmin. Hitnaði sjórinn fljótlega og vélstjórarnir brenndust á fótum við að standa í honum. Þannig börðust sjómennirnir í nær tvo sólarhringa við náttúruöflin. Veðrinu slotaði ekki fyrr en aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar. Þá töldu skipstjórarnir óhætt að snúa togurunum undan veðrinu og halda til lands. Þau skip sem best voru á sig komin héldu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en hin leituðu hafna á Vestfjörðum. Erfiðlega gekk að ná til Vestfjarða símleiðis, þar sem símalínur höfðu eyðilagst í fárviðrinu. Flest loftnet togaranna höfðu brotnað niður vegna ísingar enda gekk seint að ná sambandi við þá eftir að veðrinu slotaði. Því dróst að farið væri að örvænta um þau skip sem ekki náðist í. Togararnir sem ekki höfðu loftnet fengu önnur skip til að senda skeyti til heimahafna sinna. Af þeim skeytum sem fyrst bárust til Reykjavíkur sáu menn að togaraflotinn hafði lent í alvarlegum vandræðum á Halamiðum.


B.v. Leifur heppni RE 146 á siglingu.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Þegar leið á vikuna, höfðu allir togararnir tilkynnt sig nema Leifur heppni frá Reykjavík og Fieldmarshall Robertson frá Hafnarfirði. Til þeirra hafði sést eftir að óveðrið hófst. Eins og áður sagði, þá stóðu mennirnir á Leifi heppna enn í aðgerð, er þrír togarar sigldu framhjá seinnihluta laugardagsins 7. febrúar. Draupnir sigldi framhjá Fieldmarshall Robertson skömmu eftir að óveðrið skall á. Einnig hafði verið haft loftskeytasamband við hann fram eftir kvöldi og mun Tryggvi gamli einna síðast hafa gert það; var þá allt með felldu um borð. Hvorugur togarinn hafði gefið út neyðarkall. Eigendur þeirra leituðu til íslenskra stjórnvalda þann 11. febrúar og óskuðu eftir að varð- skipið Fylla yrði sent til leitar. Eins og áður gat, voru Hellyerbræður eigendur Fieldmarshall Robertson en eigandi Leifs heppna var útgerðarfélagið Geir Thorsteinsson og Co. Varðskipið Fylla og togarinn Ceresio voru þegar send til leitar, en hvorugt skipanna varð vart við hina týndu togara. Togaraeigendur komu því saman til fundar og ákváðu að senda hóp togara til þess að leita skipulega. Sunnudaginn 15. febrúar hófst skipulögð leit, þar sem skipin sigldu með ákveðnu millibili á um 90 mílna svæði. Þannig áttu þau að kemba það svæði, þar sem talið var líklegast að þá væri að finna. Togararnir sigldu meðan bjart var en héldu kyrru fyrir á næturnar. Þessi víðtæka leit reyndist árangurslaus. Skipin tvö voru talin af og með þeim fórust 67 menn, sex Englendingar og 61 íslendingur.

Sagnir. 1 apríl 1984.

       Þeir sem fórust með togaranum 
                 Leifi heppna RE 146

Á »Leifi heppna« voru þessir 32 menn:
Gísli M. Oddson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B. Ingólfur Helgason, 1. stýrimaður, Hafnarfirði. Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti. 37. Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16. Jón Halberg Einarsson, 2. vélstjóri, Njálsgötu 39 B. Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14. Jón Cornelíus Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B. Ólafur Jónsson, matsveinn, Laugaveg 38. Sigmundur Jónsson, háseti, Laugaveg 27. Stefán Magnússon, háseti, Njálsgötu 32 B. Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastig 23. Ólafur Gíslason, háseti, Hverfisgötu 32. Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4. Oddur Rósmundsson, háseti. Bergþórugötu 7. Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu 14. Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi. Sveinbjörn Elíasson, háseti, Bolungavík. Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði. Sigurjón Jónsson, háseti, Bergstaðastræti 30 B. Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4. Jón Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50. Jón Hálfdánarson, háseti, Hafnarstræti 18. Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9, Jón Jónsson, háseti, Austurstræti 11. Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6. Sigurður Jónssson, háseti, Miðstræti 8 B. Sigurður Albert Jóhannesson, háseli, Hverfisgötu 16. Sveinn Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði. Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, á Breiðafirði. Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði. Ólafur. Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4, Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari, Laufásvegi 27.

Ægir. 1 mars 1925.


25.10.2017 12:39

Þilskipið Ragnar BA 104. LBJN.

Þilskipið Ragnar BA 104 var smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1875. Eik. 34 brl. Pétur Á Ólafsson verslunar og útgerðarmaður á Geirseyri í Patreksfirði, er skráður eigandi Ragnars í september árið 1905. Verið getur að hann hafi fengið Ragnar með í kaupunum á eignum "Islandsk Handels & Fiskeri Co (I.H.F.), sem hann keypti árið 1906. Skipið sökk út af Breiðafirði 18 ágúst árið 1912 eftir árekstur við breskan togara frá Hull. Mannbjörg. Togarinn fór með skipverjana til Patreksfjarðar.
Jón Björnsson frá Bólstaðarhlíð eignar þessa mynd kútter Karólínu GK 19 (Íslensk skip. l bindi bls 208), en Karólína var mun stærra skip, smíðuð í Burton Stather á Englandi árið 1888 og var 87 brl. Jón hefur gengið út frá því að merkingin á segli Ragnars (CK 19) væri GK 19, en það númer bar Karólína. Hún fékk svo síðar nafnið Hafsteinn RE 111. Ég held að Ragnar hafi borið þetta númer, CK 19 áður og að hann hafi verið keyptur frá Colchester á Englandi, en hef ekki fundið neina örugga heimild fyrir því ennþá.


Þilskipið Ragnar BA 104. Held örugglega að myndin sé tekin á Patreksfirði árið 1910.     (C) P.Á.Ó.

                     Ásigling

Á sunnudaginn 18. þ. m. í góðu og björtu veðri sigldi botnvörpungur frá Hull á fiskiskipið »Ragnar« frá Patreksfirði úti fyrir Breiðafirði. Rifnaði hliðin á Rngnari og sökk skipið þegar. Skipverjar björguðust þó allir á botnvörpunginn og hjelt hann með þá inn til Patreksfjarðar.
»Ragnar« var eign Pjeturs A. Ólafssonar ræðismanns á Patreksfirði og var óvátryggður. Gekk illa með fyrstu að fá skipstjórann á botnvörpungnum til þess að viðurkenna, að ásiglingin væri sjer að kenna og stóð vitnaleiðsla og málarekstur um það í tvo daga. En loks gekk hann inn á að bæta skaðann, en ekki munu það vera fullar bætur.

Vísir. 26 ágúst 1912.

24.10.2017 15:25

S. t. Earl Kitchener H 345.

Botnvörpungurinn Earl Kitchener H 345 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1915 fyrir Imperial Steam Fishing Co Ltd í Hull. 348 brl. 560 ha. 3 þennslu Gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith Co Ltd í Hull. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins í október 1915, sama nafn en númerið FY 1907. Seldur 27 október 1919, Helliers Brothers Ltd í Hull. Togaranum var skilað af hernaðaryfirvöldum til eiganda síns árið 1920. Hellyersbræður gerðu togarann út fram að seinna stríði. Er þá tekinn aftur í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, fékk númerið FY 1633. Seldur 30 júlí 1945, Lord Line Ltd í Hull. Skilað til eigenda árið 1946. Seldur 4 apríl 1950, Associated Fisheries Co Ltd í Hull. Seldur 6 febrúar 1953, Thomas Young & Sons Ltd í Sunderland. Seldur 3 júlí árið 1953 í brotajárn til Stockton Shipping & Salvage Co í Middlesbrough og rifinn í Thornaby on-Tees í júlí það ár.
Þetta skip átti sér talsverða sögu hér við land. Hann var einn hinna togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði á þriðja áratugnum, gert út þaðan frá hausti 1925 til vors árið eftir. Alexander Jóhannesson var fiskiskipstjóri á honum. Árið 1926 var hann einn þeirra togara sem björguðu Grindavíkurbátum í áhlaupsveðri 13 apríl það ár. Áður hafði þó Earl Kitchener orðið frægur með endemum sem landhelgisbrjótur hér við land. Þá var skipstjóri á honum Thomas Worthington (kallaður "Snowy" vegna háralitarins). Hann var einn fárra breskra landhelgisbrjóta sem náði því að verða dæmdur í fangelsi hér á landi árið 1924. 30 október 1934 bárust fréttir af því að skipið hefði farist úti fyrir Ströndum, en þar rak þá brak úr honum, hluti af brúnni, björgunarbátar og fl. En síðar um daginn kom hann illa til reika inn til Akureyrar. Hafði skipið orðið fyrir miklu áfalli út af Skaga 27 október. Skipstjórinn hafði staðið við stýrið í 57 klukkutíma samfellt og stýrt skipinu til hafnar þrátt fyrir að hafa misst báða áttavitana. Árið 1938 var Geir G Zoéga búinn að kaupa skipið af Hellyersbræðrum ásamt Kings Gray og Ceresio, en breska stjórnin stöðvaði söluna vegna stríðshættu. Skipið var því áfram í Hull uns það var selt til niðurrifs árið 1953.


S.t. Earl Kitchener H 345 á Íslandsmiðum.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Earl Kitchener H 345.                                                                                          Mynd úr safni mínu.


Earl Kitchener við bryggju á Akureyri eftir áfallið út af Skaga 1934. (C) Gunnar Theodór Þorsteinsson.

  Breskur botnvörpungur fær áfall
  Botnvörpungurinn "Earl Kitchener" frá Hull
       komst við illan leik til Akureyrar

Samkvæmt fregn, sem útvarpið fékk frá Hólmavík í gær, hafði rekið á svonefndri Glámuströnd rekald úr skipi. Var það stjórnpallur, tveir björgunarhringar og á þeim nafnið "Earl Kitchener", Hull". Einnig fundust árar úr bát og stýri, nokkrar mjólkurflöskur, hurð og hraðamælir. Rak þetta allt í gær, svo að segja í einu og virtist nýbrotið. Í gærkveldi barst svo fregn um það frá Akureyri, að "Earl Kitchener" væri þangað kominn. Hafði hann fengið áfall á Skagagrunni á laugardag, misst stjórnpall, báta og fl. Tveir menn af skipshöfninni meiðst og voru þeir fluttir í sjúkrahús. Skipstjórinn hafði staðið 54 tíma við stýrið og var farinn að kala á fótum. Var skipshöfnin öll tekin á land og veitt hjúkrun og aðhlynning.

Vísir. 30 október 1934.

                Nánari fregnir

Togarinn kom til Akureyrar í gær klukkan 14. Hann hafði orðið fyrir feikna áfalli og slegið á hlið svo lá við að hvolfdi. Skipið rétti þó við, en rafleiðsla þess eyðilagðist, svo binda varð um sár slasaðra  manna í myrkri. Skipstjóri var mjög þrekaður, og kalinn á höndum. Tveir menn eru mikið slasaðir: stýrimaður, bróðir skipstjóra, er mjaðmarbrotinn og annar skipverji er mikið meiddur á höfði. Skipið er ósjófært.

Vísir. 30 október 1934.


Heimildir:
Birgir Þórisson.
Hull fishing Heritage.

24.10.2017 12:07

Smyrill BA 120.

Smyrill BA 120 var smíðaður í Frederikshavn í Danmörku árið 1915. Eik og fura. 9 brl. 12 ha. Glenifer vél. Eigandi var Ólafur Jóhannesson útgerðarmaður á Patreksfirði frá áramótum 1915-16. Báturinn var seldur 28 desember 1929, Sveini Kr Jónssyni á Veðrará í Önundarfirði, Magnúsi Guðmundssyni og Ragnari Jakobssyni á Flateyri, hét Smyrill ÍS 3. Ný vél (1930) 30 ha. Samson vél. 19 ágúst árið 1933 kom óstöðvandi leki að bátnum og sigldu skipverjar honum í strand á Sauðanesi við Önundarfjörð. Mannbjörg en Smyrill brotnaði það mikið að hann var talinn ónýtur eftir strandið.


Smyrill BA 120 á siglingu.                                                                            Ljósmyndari óþekktur.


   Báti siglt í strand við Sauðanes

19 ágúst árið 1933 kom skyndilega mikill leki að vélbátnum Smyrli frá Flateyri, er hann var að síldveiðum á Önundarfirði. Sigldu skipverjar bátnum í strand hjá Sauðanesi og björguðust þeir allir ómeiddir á land. Báturinn brotnaði það mikið við strandið að ekki var unnt að gera við hann.

Þrautgóðir á raunastund. l bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1969.

23.10.2017 18:32

Cuxhaven NC 100 við bryggju á Akureyri í dag.

Frystitogarinn Cuxhaven NC 100 er hér við bryggju á Akureyri í dag til löndunar, en togarinn var að koma af Grænlandsmiðum og var aflinn aðallega karfi og grálúða. Togarinn er í eigu Deutsche Fishfang Union GmbH í Cuxhaven, D.F.F.U, sem er dótturfélag Samherja h/f í Þýskalandi, eins og kom fram hér á síðunni í gær. Skipstjórar á Cuxhaven eru Stefán Viðar Þórisson og Hannes Kristjánsson. Það var bróðir minn, Alexander Smári Gjöveraa sem sendi mér þessar flottu myndir af Cuxhaven nú í dag. Þakka ég honum kærlega fyrir sendinguna. Skipið er stórt og mikið, smíðað í Noregi fyrr á þessu ári. Glæsilegt skip.

Cuxhaven NC 100 að landa á Akureyri í dag.

Cuxhaven NC 100 landar á Akureyri í dag.

Cuxhaven NC 100 við bryggju á Akureyri í dag.

Cuxhaven NC 100.                             (C) Myndir: Alexander S Gjöveraa. 23 október 2017.

 

23.10.2017 11:10

Bolli ÍS 125.

Bolli ÍS 125 var smíðaður í Farsund í Noregi árið 1894 fyrir Ásgeirsverslun á Ísafirði. Eik og fura. 14 brl. Vélarlaus. Skráður sem seglskip 20 júlí sama ár. Seldur í desember 1918 þegar Ásgeirsverslunin hætti rekstri, Hinum sameinuðu verslunum á Ísafirði. Árið 1920 var sett 50 ha. Bolinder vél í bátinn. Árið 1931 (1926, heimild fyrir því) er Marselíus Bernharðsson eigandi Bolla. Seldur 5 október 1932, Grími Jónssyni í Súðavík. Báturinn var endurbyggður og lengdur árið 1935, mældist þá 16 brl. Seldur 3 janúar 1936, Björgvin Stefánssyni á Akranesi, virðist ekki hafa verið umskráður. Seldur 2 október 1941, Sigurði Sigurjónssyni og Guðjóni Karlssyni í Vestmannaeyjum, hét Bolli VE 332. Ný vél, 60 ha. Skandia vél var sett í bátinn, einhverntímann á árunum milli 1940 og 50. Seldur 9 maí 1945, Sigurbergi Höjgaard á Vopnafirði, hét Bolli NS 8. Báturinn sökk og eyðilagðist í desember árið 1950. Mannbjörg varð.


Bolli ÍS 125 á fjörukambi á Ísafirði.                                                         Ljósmyndari óþekktur.


Skipshöfnin á Bolla um árið 1915.                                                        Ljósmyndari óþekktur.


Bolli ÍS 125, líkan Jóns B Guðjónssonar á Ísafirði.                                                           (C) bb.is

                "Árnapungarnir"

Bolli var af þeirri tegund báta sem kallaðir voru Árnapungar, í höfuðið á Árna Jónssyni sem var verslunarstjóri í Ásgeirsversluninni á Ísafirði. Og einnig af því að þeir voru svo breiðir, en orðið pungapróf, er einmitt dregið af Árnapungunum. Ásgeirsverslun keypti báta með þessu lagi bæði frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi, en þeir voru vélarlausir.

22.10.2017 21:45

Cuxhaven NC 100. DFQH.

Cuxhaven NC 100 var smíðaður hjá Myklebust Verft í Gursken í Noregi árið 2017 fyrir Deutsche Fishfang Union GmbH (D.F.F.U), sem er dótturfélag Samherja h/f í Þýskalandi. 3.969 brl. Aðalvél, RRM Bergen B33:45L6, 3.200 Kw vél. Skipið er 81,22 m. á lengd, 16,31 á breidd og djúprista er 7,20 m. Cuxhaven hóf veiðar í ágústmánuði s.l. Var sú veiðiferð farin í Barentshafið. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessar myndir af honum á leið til Akureyrar nú í kvöld. Þakka ég honum kærlega fyrir. Ekki annað að sjá en að Cuxhaven er hið glæsilegasta skip.


Cuxhaven NC 100 á leið inn Eyjafjörðinn.


Cuxhaven NC 100 á leið inn Eyjafjörðinn.


Cuxhaven NC 100 á leið inn Eyjafjörðinn.                   (C) Myndir: Haukur Sigrtyggur Valdimarsson.

        Cuxhaven NC 100 heldur í sína                                  fyrstu veiðiferð

Cuxhaven NC 100 nýtt skip Deutsche Fischfang Union, dótturfélags Samherja í Þýskalandi hefur haldið á veiðar. Cuxhaven NC100 sem hannað er af Rolls Royce er 81,22m langt og 16m breitt, smíðað í Mykleburst skipasmíðastöðinni í Noregi. Cuxhaven er fyrsta nýsmíði Deutsche Fischfang Union í 21 ár en það skip bar einnig nafnið Cuxhaven.
Eigendur Samherja ásamt Haraldi Grétarssyni framkvæmdastjóra Deutsche Fischfang Union og Óskari Ævarssyni útgerðastjóra tóku á móti skipinu 15.ágúst sl. í Álasundi. Þá voru veiðarfæri tekin um borð og skipið gert klárt að öðru leyti. Cuxhaven hélt svo til veiða í Barentshafi 20.ágúst.
Skipstjórar eru Stefán Viðar Þórisson og Hannes Kristjánsson. 
Cuxhaven er afar vel búið á allan hátt bæði hvað varðar vélbúnað, vinnslu og aðbúnað áhafnar sem getur orðið allt að 35 manns. Með nýjustu tæknilausnum er skipið mun hagkvæmara í rekstri og umhverfisvænna en eldri skip. Vinnsludekk er hannað og smíðað af Slippnum á Akureyri og hefur búnað m.a. frá Vélfag á Ólafsfirði.  "Þetta eru mikil tímamót í rekstri DFFU hér í Þýskalandi. Meðal annars hefur allur aðbúnaður áhafnar og vinnuaðstaða verið stórbætt. Það er mikil áskorun að fá allt til að virka í svona tæknilega flóknu skipi og næstu vikur verða því spennandi hjá okkur," segir Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri Deutsche Fischfang Union GmbH.


Heimasíða Samherja hf. 25 ágúst 2017.

22.10.2017 17:08

B. v. Maí GK 346. TFKZ.

Maí GK 346 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. 982 brl. 2.100 ha. MAN díesel vél. Samið var um smíði skipsins í apríl 1959 og var Maí ætlað að taka við hlutverki Nýsköpunartogarans Júlí GK 21 sem fórst á Nýfundnalandsmiðum í febrúar 1959. Togarinn var seldur Ola Nilsen í Harstad í Noregi í maí árið 1977. Breytt í rannsóknarskip árið 1980. Selt til Kanada 1981, var þar sem olíuleitarskip, hét Mai og var í Halifax árið 1986. Lítið meira veit ég um skipið, nema að það var selt í brotajárn í Noregi árið 2003.


147. Maí GK 346 á veiðum.                                                                               Mynd úr safni mínu. 

                Maí kemur í maí

Hinn 3. marz síðastlinn var nýjum íslenzkum togara hleypt af stokkunum hjá Seebeck Werft í Bremerhaven. Togarinn er eign Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og hlaut í skírninni nafnið Maí GK-346. Hann verður stærsti togari Íslendinga. Samningar um smíði nýja Maí voru undirritaðir 30. apríl 1959. 17. desember 1959 var kjölurinn lagður, og 3. marz var togaranum hleypt af stokkunum og skírður, að viðstöddu miklu fjölmenni. Togarinn verður afhentur 11. maí n.k. Maí verður stærsti togari Íslendinga, 1000 lestir að stærð. Sá næst stærsti er Narfi, 900 lestir. Maí er 200 fet á lengd, 34 fet á breidd og 17 fet á dýpt. Skipstjóri verður Benedikt Ögmundsson, sem verið hefur skipstjóri hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar frá stofnun hennar fyrir 29 árum.

Tíminn. 8 apríl 1960.

         Mikill mannfjöldi fagnaði Maí

Í fegursta veðri sigldi hinn glæsilegi togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Maí, hingað inn á höfnina í gærdag, fánum skrýddur. Mannfjöldi mikill var á bryggjunni til að fagna honum, og við það tækifæri lék Lúðrasveit Hafnarfjarðar og Karlakórinn Þrestir söng nokkur lög. Þegar landfestar höfðu verið bundnar, tóku til máls af stjórnpalli Adolf Björnsson, formaður útgerðarráðs og Stefán Gunnlaugsson bæjarstjóri, sem buðu togara og áhöfn velkomin. Fer hér á eftir lýsing á togaranum í stórum dráttum:  Maí er 1000 tonn og hinn stærsti togari, sem Islendingar hafa eignazt til þessa. Lengd er 210 fet. Breidd 34 fet. Dýpt 17 fet. Allar vélar og hjálparvélar í skipinu eru MAN-vélar frá Þýzkalandi. Aðalaflvél er 2.280 hestöfl, og gekk 16,2 sjómílur í reynsluferð. Maí er fyrsti íslenzki togarinn með fullkomna skiptiskrúfu, þannig að vélin er alltaf látin ganga áfram, hvort sem skipið er keyrt áfram eða afturábak. Með skurði á skrúfunni má ákveða hvort skipið er keyrt áfram eða afturábak, og má því nota hagkvæmasta snúningshraða vélar hverju sinni, og skiptir það sérstaklega miklu máli, ef um krítiskan snúningshraða er að ræða. Ljósavélar eru þrjár, tvær 135 hestöfl hvor og ein 40 hestöfl, til notkunar þegar skipið liggur við landfestar. MAN-vélar hafa þann kost að nota má ódýrari olíur en á venjulegar dieselvélar. Togvindumótor er 227 kw. Í Maí er Sallog hraðamælir af nýrri gerð og með tæki er honum fylgir má kanna fiskmagn í vörpunni hverju sinni. Tveir Decca radarar eru í skipinu, annar með sendiorku 45 kw., en hinn 20 kw., en draga hvor 48 mílur. Ný gerð er af Sperry-lóran. Í stað þess að eftir eldri gerð lóran þurfti margvíslega útreikninga við staðarákvörðun, reiknast staðarákvörðun út sjálfkrafa eftir hinni nýju gerð. Loftskeytatæki eru frá Telefunken í Þýzkalandi og m. a. er stuttbylgjustöð, sem gerir fært að tala megi frá Nýfundnalandi til Þýzkalands. Kallkerfi er komið fyrir í tólf stöðum í skipinu af svonefndri Intercon-gerð frá Marconi. Gíróáttaviti og sjálfstýring er í skipinu. Í Maí eru tæki til þess að dæla 70-80 gráða heitum sjó frá fjórum stöðum í skipinu, ef um ísingu er að ræða. Þá er algjör nýung, að í framsiglu er komið fyrir rafmagnshitun, er nota má ef ísing sezt á siglutréð, og getur hún brætt allan klaka af á örstuttum tíma. Fiskleitartæki eru af Kelvin Hughes gerð. Perulag er á stefni, sem á að auka ganghraða og draga úr veltingi miðað við fyrri gerð stefna. Lestar eru 27 þúsund kúbíkfet, almuníumklæddar, og eiga að rúma 500-550 tonn af fiski. Sérstakur góðfiskklefi er ofanþilfars, sem rúmar 5-10 tonn.

Morgunblaðið. 19 maí 1960.


B.v. Maí GK 346 að koma úr slipp fyrir söluna til Noregs árið 1977.              Ljósmyndari óþekktur. 

         Togarinn Maí að kveðja

Nýmálaður og snyrtur á leið til Noregs

"Það voru margir íslenskir aðilar, sem vildu kaupa togarann Maí og breyta honum í nótaskip, en þá skorti bara peninga til að greiða út það sem þurfti og þess vegna urðum við að selja þetta ágæta skip til Noregs" sagði Guðmundur Ingvarsson framkvæmdastjóri Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar er við ræddum við hann í gær, en þá var togarinn Maí, sem BÚH var að selja til Noregs, að koma úr slipp nýmálaður og snyrtur og er að leggja af stað til Noregs. Það var norska skipasmiðastöðin, sem selur BÚH nýjan skuttogara, sem afhentur verður 14. maí nk. sem tók Maí uppí kaupin og virðir hann á 3,4 milljónir norskar krónur, sem svarar til um 130 milljónum ísl. króna.
Maí er 17 ára gamalt skip, systurskip Víkings AK og Sigurðar RE, stærstu nótaskipa okkar. Guðmundur sagði að Maí hefði alla tið verið mikið afla- og happaskip og að honum væri eftirsjá. Ekki alls fyrir löngu var bátur sem hét Víðir seldur til Noregs. Þar var hann málaður og snyrtur og síðan seldur aftur til Íslands og heitir nú Jón Gislason. Sögur ganga um það, að eins fari með Maí, að honum verði breytt í nótaskip ytra en síðan seldur aftur til Íslands. Guðmundur Ingvarsson sagðist hafa heyrt svona sögur og viðurkenndi að margir innlendir aðilar hefðu viljað kaupa togarann með það fyrir augum að breyta honum í nótaskip, en skort fé. En Guðmundur sagðist vantruaður á að Mai yrði keyptur aftur til Íslands, þar sem lán væru ekki veitt til kaupa á eldri skipum en 10 ára. Aftur á móti ef einhver aðili er svo stöndugur að geta keypt hann án þess að fá lán úr fiskveiðasjóði, þá getur hann það auðvitað, sagði Guðmundur. Víst er um það, að hann yrði fljótur að borga sig á loðnunni, ef honum gengi eins vel og Sigurði RE, sem er systurskip Vikings og Mai.

Þjóðviljinn. 26 apríl 1977.


Þarna er skipið í Noregi undir sínu gamla nafni, Maí.                             Ljósmyndari óþekktur.

21.10.2017 13:13

B. v. Jörundur EA 335. TFLG.

Togarinn Jörundur EA 335 var smíðaður hjá Brooke Marine Ltd í Outlon Broad í Lowestoft í Englandi árið 1949 fyrir Guðmund Jörundsson útgerðarmann á Akureyri. 491 brl. 950 ha. Mirrlees díesel vél. 46,63 x 8,58 x 3,81 m. Smíðanúmer 175. Skipið var selt 21 janúar 1958, Þórólfi mostraskeggi h/f í Stykkishólmi, hét Þorsteinn þorskabítur SH 200. Ný vél, 950 ha. Deutz díesel vél var sett í skipið árið 1963. 29 maí 1963 var skráður eigandi Ríkissjóður Íslands, skipið hét Sigurey EA 8. Var um þetta leyti í eigu Sigurðar Finnssonar á Siglufirði. Skipið var selt í ágúst árið 1966, Grími h/f á Eskifirði, hét Jón Kjartansson SU 111. Skipið sökk út af Vattarnesi í minni Reyðarfjarðar, 28 janúar 1973. Áhöfnin, 12 menn, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í Dagfara ÞH 70 frá Húsavík.


B.v. Jörundur EA 335 á siglingu á Eyjafirði.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

   Jörundi vel fagnað við komuna                        til Akureyrar

      Eitt nýtízkulegasta fiskiskip, sem                  byggt hefur verið fyrir Íslendinga

Hinn nýi glæsilegi togari Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns Iagðist hér að hafnarbryggjunni sl. fimmtudagsmorgun. Kom skipið beina leið frá Lowestoft á Bretlandi, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð Brooke Marine Ltd. MikiII mannfjöldi safnaðist saman á bryggjunni til þess að fagna skipinu. Hafði Útgerðarmannafélag Akureyrar efnt til móttökuathafnar. Jón Sólnes bæjarfulltrúi mælti fyrir minni skipsins og Guðmundar Jörundssonar útgerðarmanns, lofaði framtak hans og árnaði skipinu heilla. Lúðrasveit Akureyrar lék undir stjórn Jakobs Tryggvasonar. Guðmundur Jörundsson þakkaðí móttökurnar og lýsti skipinu, en að því búnu var bæjarmönnum boðið að skoða skipið.
"Jörundur" er 491 smálestir brúttó að burðarmagni, enskt mál, 152 fet á lengd, 28 fet á breidd og 15 fet á dýpt.Gert hafði verið ráð fyrir því að setja Westinghouse radartæki í skipið, en af því gat ekki orðið, því að íslenzk gjaldeyrisyfirvöld neituðu um leyfi til kaupa á tækjunum. Skipstjórinn á "Jörundi" er Ragnar Guðmundsson úr Reykjavík, 1. stýrimaður Páll Daníelsson, 1. vélstjóri Hámundur Eldjárn og 2. vélstjóri Jörundur Jónsson.

Dagur. 4 ágúst 1949.


Fyrirkomulagsteikning af togaranum Jörundi EA 335.                                   Úr safni mínu.

          B.v. Jörundur EA 335

Dieseltogarinn Jörundur, sem í byggingu er í Skipasmíðastöð Brook Marine, Ltd. í Lowestoft, er athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Aluminiumblanda (Noral 515 og Noral 655) er notuð í klæðningu og skiljur í fiskilestum, sem einnig eru kældar. Í skipinu er lýsisbræðsla, sem á að geta afkastað ca. 20 smálestum af lýsi í túr. Einnig er í skipinu stærsta togvinda, sem enn hefur verið sett í skip. Jörundur er stærsta skip, sem byggt hefur verið í Lowestoft. Eigandi er Guðmundur Jörundsson. Aðalmál skipsins eru:
Mesta lengd 167 fet, kjöllengd 150 fet, breidd 28 fet, stærð 470 tons (gross reg.). Stærð lestar 12.000 rúmfet, vélaafl 950 b.h.p., ganghraði 12 sjómílur. Mirrlees dieselvél 950 b.h.p. er í skipinu, drífur hún skrúfuna gegnum 2-11 niðurfærslu- "gear". Meðal snúningshraði skrúfu í fullri keyrslu er 147 snúningar á mínútu Hjálparmótorar eru þrír: 225 b.h.p. mótor, tengdur við Vickers V. S. G. vökvadælu fyrir togvinduna. Þessi mótor drífur einnig 50 kw. 110 volta rafal. 88 b.h.p. mótor, sem drífur 50 kw. rafal. 44 b.h.p. hjálparmótor, tengdur við loftþjöppu, dælu og 5 kw. rafal. Togvindan er af Robertson Artic gerð, með tveimur vindukeflum, sem hvort tekur 1200 faðma af 3" vír. Í lýsisbræðslunni er skilvinda og rafmagnsdæla, til losunar á á lýsi í höfn. Vélar hafa verið settar í skipið til framleiðslu á fiskimjöli. Afköst þeirra eru um 10 smál. af mjöli á 24 klukkutímum. Síður, endar og loft lestarinnar er klætt með aluminium plötum og er hægt að losa hverja einstaka þeirra er með þarf. Einnig er aiuminium notað í byggingu utan um reykrör vélanna og stjórnpall. "Hall"-kælikerfi er notað til að kæla lestar skipsins. Rafsuða er notuð við smíði skilrúma, botntanka og vélasæta. Akkerisvinda er rafdrifin og stýrisvélin er rafmagns-vökvadrifin (electrohydaulic). Í skipinu er eimketill, sem kyntur er hvort heldur vill með afgasi vélanna eða hráolíu. Framleiðir hann 1600 lbs. af gufu með 75 lbs. þrýstingi á ferþumlung með olíukyndingu, en 600 Ibs. þegar aðeins er notað afgas vélanna. Íbúðir eru í skipinu fyrir 39 menn.
Talsverður hluti af togaraflota þeim, sem nú er í smíðum í Bretlandi fyrir brezka og íslenzka útgerðarmenn eru knúnir með dieselvélum. Hr. Guðmundur Jörundsson skýrði frá, eftir að "Jörundi" hafði verið hleypt af stokkunum, hver sparnaður þess togara væri umfram gufutogara (nýsköpunartogara). Myndin, sem Guðmundur Jörundsson dregur upp, er miðuð við íslenzk skip og íslenzkar aðstæður: "Gufutogarinn brennir olíu fyrir £ 50 daglega, en dieseltogarinn brennir olíu fyrir £ 33 á sama tíma. Sé reiknað með 300 dögum í hafi af hverjum 365, verður sparnaðurinn ca. £ 5000 á ári. Í þessum togara er létt aluminiumblanda notuð í innréttingu lestar og í yfirbyggingu og mun það enn spara olíu og auka burðarmagn skipsins. Hið nýja fyrirkomulag lýsisbræðslunnar mun gefa af sér £ 3000 árlega, umfram eldra fyrirkomulag. Fiskimjólsvélarnar ættu að gefa af sér £ 4000-5000 árlega. Guðmundur Jörundsson telur því, að togari af þessari gerð ætti að gefa af sér £ 15.000 meira en venjulegur nýr gufutogari gerir árlega.

Sjómannablaðið Víkingur. 11 árgangur 1949.


Togarinn Jörundur EA 335 við bryggju í Krossanesi.                                  Minjasafnið á Akureyri.

       B.v. Jörundar loflega getið

B.v. Jörundar EA 335 hefir vakið mikla athygli víða um heim, sakir þess hve frábrugðinn hann er öðrum togurum að mörgu leyti. Visi hefir nýlega borizt tímaritið Aluminium News, sem gefið er út í Montreal í Kanada af álumimnumframleiðendum þar í landi. Timarit þetta er aðeins 8 blaðsíður að stærð, en fjórðungi þess eða tveim síðum í opnu þess er varið til að gefa lýsingu á Jörundi og birta myndir af skipinu. Timaritið getur skipsins vitanlega fyrst og fremst vegna þess, að aluminium var notað í mjög ríkum mæli við smíði skipsins, m. a. í lestum, en annars segir það, að Jörundur sé stærsta og vandaðasta skip, sem byggt hafi verið í skipasmíðastöð í Austur-Anglíu. Eitt atriði, sem tímaritið getur, mun vera heldur orðum aukið, en það er að Guðmundur Jörundsson sé að láta smíða alls 28 samskonar skip fyrir sig í Bretlandi.

Vísir. 3 desember 1949.


B.v. Þorsteinn þorskabítur SH 200.                                                    (C) Hafsteinn Jóhannsson.

    Togarinn Þorsteinn þorskabítur
     kom til Stykkishólms í fyrrinótt

       Var vel fagnað af heimamönnum
              fer á veiðar þegar í dag 

Um klukkan 2 síðastliðna nótt kom togarinn Þorsteinn þorskabítur, áður Jörundur frá Akureyri, hingað til Stykkishólms og lagðist að bryggju. Þrátt fyrir kalsaveður, vakti margt fólk eftir togaranum og beið hans á bryggjunni. Kristinn B. Gíslason, oddviti, bauð skip og skipshöfn velkomin til Stykkishólms með stuttu ávarpi og árnaði þeim allra heilla. Í dag sat skipshöfn og fleiri gestir hádegisverðarboð hreppsnefndar Stykkishólms og fluttu þar ræður Ólafur Guðmundsson sveitarstjóri, Kristinn B Gíslason oddviti, Jóhann Rafnsson formaður útgerðarfélagsins, Pétur Pétursson alþingismaður, Sigurður Ágústsson alþingismaður, Kristinn Hallsson kaupfélagsstjóri og loks Einar Sigurjónsson skipstjóri. Þorsteinn þorskabítur fer á veiðar þegar á morgun og veiðir í ís. Skipverjar eru 8-9 frá Stykkishólmi, 9 Færeyingar, en aðrir komu að norðan með skipinu.
Aðilar að útgerðarfélaginu, sem kallast Þórólfur Mostrarskegg, eru Stykkishólmshreppur, Kaupfélag Stykkishólms, Sigurður Ágústsson, Beinamjölsverksmiðjan Hamar og Hafnarsjóður Stykkishólms.  Stjórn félagsins skipa Jóhann Rafnsson, Sigurður Ágústsson, Lárus Guðmundsson og Sigurður Skúlason.

Tíminn. 24 janúar 1958.


Þorsteinn þorskabítur SH 200 í síldarflutningum á Siglufirði árið 1965.       Ljósmyndari óþekktur.

            Þorsteinn þorskabítur í                                síldarflutningum

Togarinn Þorsteinn þorskabítur hefur verið útbúinn til að flytja söltunarsíld af miðunum eystra til söltunarstöðva á Norðurlandi. Enn liggur togarinn við bryggju í Reykjavík, en kemst væntanlega, af stað næstu daga. Beðið hefur verið eftir hlut í vél skipsins, en hann var væntanlegur með flugvél frá Þýzkalandi í gærkvöld.

Þjóðviljinn 30 júlí 1965.


Jón Kjartansson SU 111 á leið inn Eskifjörð.                                             (C) Vilberg Guðnason.

       Jón Kjartansson sökk út af                            Vattarnesi

    Skipið nýkomið úr viðgerð í Noregi

Eitt mesta aflaskip flotans, Jón Kjartansson SU-111 frá Eskifirði, sökk eina og hálfa sjómilu Úti af Vattarnesi í fyrrakvöld. Snemma á sunnudagsmorgun fékk skipið slagsíðu á bakborða er það var að leggja af stað til lands með fullfermi af loðnu, stuttu síðar lagðist skipið yfir í sjórnborða og yfirgáfu þá allir skipverjar, nema þrír, skipið. Þegar þetta kom fyrir var skipið statt við Hvalbak. Fór skipið í fylgd tveggja báta til Eskifjarðar, en sökk á móts við Vattarnes og átti skipið þá eftir einn þriðja hluta leiðarinnar til Eskifjarðar. Hannes Hafstein, fulltrúi Slysavarnarfélags Íslands sagði í gær, að það hefði verið á ellefta tímanum á sunnudagsmorgun, sem Slysavarnarfélagið hefði fengið að vita gegnum Nesradió, að Dagfari ÞH 70, ásamt tveimur öðrum bátum, væru í fylgd með Jóni Kjartanssyni, sem þá skömmu áður hafði fengið skyndilegan og mikinn halla á bakborða. Jón Kjartansson var þá á leið frá loðnumiðunum við Hvalbak til Austfjarðahafna.
Á þessum slóðum var þá kaldi og dálitill sjór. Klukkutíma seinna lagðist Jón Kjartansson yfir í stjórnborða, og þá fóru allir nema þrir menn frá borði, og fóru þeir um borð í Dagfara. Um klukkan hálf fimm voru skipin stutt frá Skrúð og ástandið var þá orðið mjög alvarlegt, þar sem hallinn hafði aukizt, en ferðin gekk stórslysalaust . Rétt fyrir klukkan sjö áttu skipin eftir tvær sjómílur í Vattarnes og ástandið var þá orðið mjög alvarlegt, en menn vonuðu það bezta, þar sem skipin voru að komast inn á Reyðarfjörð í kyrran sjó, en þá var einnig bátur frá Eskifirði lagður af stað með dælur, til að dæla sjó úr skipinu. Ástandið hélt áfram að versna og klukkan 19:45 þurftu mennirnir að yfirgefa skipið, og fóru allir yfir í Dagfara. Jón Kjartansson hélt áfram að síga er hér var komið og klukkan 20.30 hvarf skipið sjónum manna.
Jón Kjartansson var smíðaður í Englandi árið 1949, og hét fyrst Jörundur. Núverandi eigendur voru Hraðfrystihús Eskifjarðar og hinn kunni aflamaður Þorsteinn Gíslason skipstjóri. Jón Kjartansson var 491 lest að stærð. Sjópróf í málinu áttu að fara fram á Eskifirði í gær, en af þeim gat þó ekki orðið fyrr en í dag. Jón Kjartansson var nýkominn úr viðgerð og yfirferð frá Noregi, þegar þetta óhapp kom fyrir. Í fyrra til dæmis fékk skipið einnig mikla slagsíðu og fór það þá inn á Stöðvarfjörð, þar sem það var létt, áður en það fór til Eskifjarðar. Ekki er enn vitað hvað það var, sem var þess valdandi, að skipið fékk slagsíðuna en allar lúgur skipsins voru vel skálkaðar.

Tíminn. 30 janúar 1973.


20.10.2017 18:07

594. Hvanney SF 51. TFPR.

Vélskipið Hvanney SF 51 var smíðuð hjá Landsmiðjunni í Reykjavík árið 1947. Eik. 65 brl. 193 ha. Allen díesel vél. Eigandi var Borgey h/f á Höfn í Hornafirði frá 16 júlí 1947. Ný vél (1957) 300 ha. Lister díesel vél. Ný vél (1968) 450 ha. Wichmann díesel vél. Seldur 4 mars 1969, Sigurði Erling Péturssyni og Gunnari Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét Eyjaver VE 111. Seldur 24 febrúar 1976, Björgvin Ármannssyni, Ingvari Björgvinssyni og Hlyni Ingólfssyni í Vestmannaeyjum, hét Bugur VE 111. Seldur 1979, Sigurði Erling Péturssyni (fyrri eiganda) í Vestmannaeyjum. Báturinn var talinn ónýtur og tekin af skrá 20 desember árið 1979. Bátnum var svo sökkt við Vestmannaeyjar.


Hvanney SF 51. Liggur hér við Miklagarð á Höfn í Hornafirði.                Ljósmyndari óþekktur.


Hvanney SF 51 á siglingu inn Eskifjörð.                                                         (C) Vilberg Guðnason.


Hvanney SF 51 á siglingu á Eskifirði.                                                          (C) Vilberg Guðnason.


Áhöfnin á Hvanney SF 51 að landa síld á Raufarhöfn.                            Ljósmyndari óþekktur.

           V.b. Hvanney SF 51

                               Hvanney, nýr bátur kom frá Skipanausti við Elliðaárvog.
                                                                             
                                Morgunblaðið. 15 júlí 1947.

     Eldur í vélbátnum Hvanney SF

Í morgun kviknaði í vélbátnum Hvanney, þar sem hann lá við bryggju hér í Höfn. Veður hafði verið óskaplegt hér í nótt og í morgun, eldur var látinn lifa í kabyssu bátsins, en enginn maður um borð. Kviknaði svo í út frá kabyssunni og tók það slökkviliðið um klukkustund að ráða niðurlögum eldsins. Allt brann innan úr lúkarnum og eins skilrúmið milli lúkars og lestar. Er fyrirsjáanlegt að báturinn verður ekki róðrarhæfur í langan tíma. Ekki brann í gegnum byrðing, þannig að hægt verður að sigla bátnum til viðgerðar.
Hvanney er 67 tonna bátur, smíðaður úr eik í Reykjavík árið 1947. Hann er eign Borgareyjar h.f. í Hornafirði. Hann hefur róið héðan með línu.

Alþýðublaðið. 14 febrúar 1965.

       Hvanney SF 51 seld til Eyja

Erling Pétursson skipstjóri og Gunnar Ólafsson frá Gilsbakka hafa fest kaup á Hvanney frá Hornafirði. Hvanney er 67 smálesta bátur. Báturinn verður gerður út á botnvörpuveiðar.

Fylkir. 21 febrúar 1969.

19.10.2017 18:03

B. v. Surprise GK 4. LBTH / TFSC.

Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn, hét Samuel Martin í þeirra eigu. Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, hét Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, mun þó ekki hafa verið hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur Einari Þorgilssyni & Co í Hafnarfirði í nóvember 1924 og fær nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Kom togarinn til heimahafnar, Hafnarfjarðar, hinn 11 desember 1924. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.


B.v. Surprise GK 4 á Reykjarfirði á Ströndum.                                             (C) Sigurjón Vigfússon.

 Um borð í togaranum Surprise GK 4, líklega árið 1941 og styrjöldin í algleymingi. Áhöfnin hefur stillt sér upp til myndatöku á togspilinu framan við stjórnpallinn. Þeir eru, fremsta röð frá vinstri:
Olgeir Olgeirsson hjálparkokkur, Ólafur Sveinsson, Sigurður Pétursson, Ágúst Jóhannesson, Þorsteinn Einarsson 1 stýrimaður, Jón Þorvaldsson 2 stýrimaður, Jón Björn Elíasson skipstjóri, Valdimar Guðmundsson og Jakob Þorsteinsson.

Miðröð frá vinstri: Leifur Jónsson, Hilmar Sæberg, Þorlákur Eiríksson matsveinn, Jón Jóhannesson, Björgvin Jónsson, Jens Guðmundsson, Pétur Pétursson og Ingimundur Sigurjónsson.
Aftasta röð frá vinstri: Helgi Guðlaugsson, Jón Arnórsson, Guðmundur Þorláksson loftskeytamaður, Guðmundur Jóhannsson, Árni Elíasson, Gísli Guðmundsson, Páll Guðmundsson kyndari, Kristján Brynjólfsson kyndari, Brynjólfur Guðnason bræðslumaður og Guðbjörn Einarsson.                                                                                                                                        

B.v. Helgafell VE 32 og vélskipið Helgi VE 333 í fjöru í Vestmannaeyjum í september árið 1947. Þeir voru of stórir til að komast í slippinn þar. Þá var eina ráðið að sigla þeim upp í fjöru á flóðinu og láta fjara undan þeim til botnhreinsunar og annars sem til þurfti.                  Ljósmyndari óþekktur.


 

 Botnvörpungurinn Surprise GK 4

Nýr togari kom til Hafnarfjarðar í gær. Hefir Einar Þorgilsson útgerðarmaður keypt hann í Englandi. Togarinn er 4 ára gamall og heitir "Surprise".

 

Morgunblaðið. 12 desember 1924.

Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062879
Samtals gestir: 76985
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 14:03:20