24.10.2017 15:25

S. t. Earl Kitchener H 345.

Botnvörpungurinn Earl Kitchener H 345 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1915 fyrir Imperial Steam Fishing Co Ltd í Hull. 348 brl. 560 ha. 3 þennslu Gufuvél, smíðuð hjá Amos & Smith Co Ltd í Hull. Tekinn í þjónustu breska sjóhersins í október 1915, sama nafn en númerið FY 1907. Seldur 27 október 1919, Helliers Brothers Ltd í Hull. Togaranum var skilað af hernaðaryfirvöldum til eiganda síns árið 1920. Hellyersbræður gerðu togarann út fram að seinna stríði. Er þá tekinn aftur í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, fékk númerið FY 1633. Seldur 30 júlí 1945, Lord Line Ltd í Hull. Skilað til eigenda árið 1946. Seldur 4 apríl 1950, Associated Fisheries Co Ltd í Hull. Seldur 6 febrúar 1953, Thomas Young & Sons Ltd í Sunderland. Seldur 3 júlí árið 1953 í brotajárn til Stockton Shipping & Salvage Co í Middlesbrough og rifinn í Thornaby on-Tees í júlí það ár.
Þetta skip átti sér talsverða sögu hér við land. Hann var einn hinna togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði á þriðja áratugnum, gert út þaðan frá hausti 1925 til vors árið eftir. Alexander Jóhannesson var fiskiskipstjóri á honum. Árið 1926 var hann einn þeirra togara sem björguðu Grindavíkurbátum í áhlaupsveðri 13 apríl það ár. Áður hafði þó Earl Kitchener orðið frægur með endemum sem landhelgisbrjótur hér við land. Þá var skipstjóri á honum Thomas Worthington (kallaður "Snowy" vegna háralitarins). Hann var einn fárra breskra landhelgisbrjóta sem náði því að verða dæmdur í fangelsi hér á landi árið 1924. 30 október 1934 bárust fréttir af því að skipið hefði farist úti fyrir Ströndum, en þar rak þá brak úr honum, hluti af brúnni, björgunarbátar og fl. En síðar um daginn kom hann illa til reika inn til Akureyrar. Hafði skipið orðið fyrir miklu áfalli út af Skaga 27 október. Skipstjórinn hafði staðið við stýrið í 57 klukkutíma samfellt og stýrt skipinu til hafnar þrátt fyrir að hafa misst báða áttavitana. Árið 1938 var Geir G Zoéga búinn að kaupa skipið af Hellyersbræðrum ásamt Kings Gray og Ceresio, en breska stjórnin stöðvaði söluna vegna stríðshættu. Skipið var því áfram í Hull uns það var selt til niðurrifs árið 1953.


S.t. Earl Kitchener H 345 á Íslandsmiðum.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Earl Kitchener H 345.                                                                                          Mynd úr safni mínu.


Earl Kitchener við bryggju á Akureyri eftir áfallið út af Skaga 1934. (C) Gunnar Theodór Þorsteinsson.

  Breskur botnvörpungur fær áfall
  Botnvörpungurinn "Earl Kitchener" frá Hull
       komst við illan leik til Akureyrar

Samkvæmt fregn, sem útvarpið fékk frá Hólmavík í gær, hafði rekið á svonefndri Glámuströnd rekald úr skipi. Var það stjórnpallur, tveir björgunarhringar og á þeim nafnið "Earl Kitchener", Hull". Einnig fundust árar úr bát og stýri, nokkrar mjólkurflöskur, hurð og hraðamælir. Rak þetta allt í gær, svo að segja í einu og virtist nýbrotið. Í gærkveldi barst svo fregn um það frá Akureyri, að "Earl Kitchener" væri þangað kominn. Hafði hann fengið áfall á Skagagrunni á laugardag, misst stjórnpall, báta og fl. Tveir menn af skipshöfninni meiðst og voru þeir fluttir í sjúkrahús. Skipstjórinn hafði staðið 54 tíma við stýrið og var farinn að kala á fótum. Var skipshöfnin öll tekin á land og veitt hjúkrun og aðhlynning.

Vísir. 30 október 1934.

                Nánari fregnir

Togarinn kom til Akureyrar í gær klukkan 14. Hann hafði orðið fyrir feikna áfalli og slegið á hlið svo lá við að hvolfdi. Skipið rétti þó við, en rafleiðsla þess eyðilagðist, svo binda varð um sár slasaðra  manna í myrkri. Skipstjóri var mjög þrekaður, og kalinn á höndum. Tveir menn eru mikið slasaðir: stýrimaður, bróðir skipstjóra, er mjaðmarbrotinn og annar skipverji er mikið meiddur á höfði. Skipið er ósjófært.

Vísir. 30 október 1934.


Heimildir:
Birgir Þórisson.
Hull fishing Heritage.

Flettingar í dag: 389
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 3107
Gestir í gær: 316
Samtals flettingar: 742148
Samtals gestir: 55925
Tölur uppfærðar: 9.5.2024 01:38:14