Færslur: 2023 Október

27.10.2023 17:33

B.v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.

Kveldúlfstogarinn Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir h.f. Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Fyrsti skipstjóri var Guðmundur Guðmundsson í Nesi. Þórólfur var systurskip Skallagríms RE 145, bæði smíðuð eftir sömu teikningu, en Þórólfur var talinn mun betra sjóskip af þeim sem til þekktu og var allatíð mikið afla og happaskip. Togarinn varð fyrir miklu áfalli hinn 17 desember árið 1948. Var hann þá á heimleið úr söluferð til Englands og var staddur um 13 sjómílur norðvestur af Þrídröngum við Vestmannaeyjar er mikill brotsjór óð að honum b.b. megin og allar rúður í brúnnu brotnuðu þeim megin. Lagðist togarinn svo gjörsamlega á hliðina, að þegar sjórinn var farinn hjá námu siglutoppar við hafflötinn. Töluverður sjór komst í vélarrúmið og slökknaði eldur í þremur af fjórum fýrum ketilsins. Lestar togarans voru nær fullar af kolum og kastaðist farmurinn til og mikil slagsíða kom að togaranum. Tók langan tíma að rétta skipið og koma fýrunum í gang aftur. Megnið af bátapallinum og björgunarbátarnir, sópuðust í hafið. Kom togarinn til Reykjavíkur seinni partinn daginn eftir. Skipstjóri var þá Hallgrímur Guðmundsson. Þórólfur var einn þeirra togara sem voru að veiðum á Halamiðum í febrúarbyrjun árið 1925 þegar eitt mesta óveður í manna minnum gekk yfir landið (Halaveðrið) og tveir togarar, Leifur heppni RE 146 og Hellyerstogarinn Field Marshal Robertson H 104 og mótorskipið Sólveig, fórust með allri áhöfn, 68 skipverjum. Í þessu veðri sannaði Þórólfur hversu afburðagott sjóskip hann var. Togarinn var seldur vorið 1955, Guðmundi Kolka sem seldi hann í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku.

Heimildir :
Þrautgóðir á raunastund. IV bindi. Steinar J Lúðvíksson 1972.
Í særótinu. Sveinn Sæmundsson 1967.

Ég fékk þetta fallega málverk af Þórólfi á nytjamarkaði hér í bænum nú í vikunni. Það er ómerkt en það er teiknað lítið anker í neðrahornið hægramegin. Það væri gaman að vita hver hefur málað þessa mynd, gott ef að einhver kannast við málverkið. Var fljótur að taka það til gagns og bjarga því frá glatkistunni. Það sést á því að Þórólfur var glæsilegt skip.
 

B.v. Þórólfur RE 134 á siglingu. Málari óþekktur. Málverk í minni eigu.                                           „Þórólfur“

Þórólfur, hið nýja skip Kveldúlfsfélagsins, liggur nú hér á innri höfninni. Er það mikið skip og fagurt, af sömu gerð og Skallagrímur. Skipstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson frá Nesi, sem lengi hefir verið í þjónustu Kveldúlfsmanna og er reyndur og þektur dugnaðarmaður, eins og hann á kyn til.

Ísafold. 16 tbl. 12 apríl 1920.
 

B.v. Þórólfur RE 134 á veiðum í salt.                               (C) Hjálmar R Bárðarson.
 
Kyndarinn hamast við að moka kolum í fírinn.                  Ljósmyndari óþekktur.
 
Þórólfur í Reykjavíkurhöfn eftir áfallið í desember 1948. Allt horfið af bátadekkinu.  (C) Ólafur Magnússon.

          B.v, „Þórólfur“ stórskemdist
              í síðustu Englandsför

Kveldúlfstogarinn „Þórólfur“ stórskemdist í síðustu ferð sinni heim frá Englandi er brotsjóir gengu yfir skipið, þar sem það var statt hjer sunnan við landið. Báða björgunarbáta skipsins tók út og bátadekk brotnaði, en allt lauslegt tók af bátadekkinu. Loftskeytastöngin á aftursiglu brotnaði og bátsuglur stjórnborðsmegin, en sjókort, tæki í loftskeytaklefa og annað smávegis í stjórnpalli skemdist talsvert. Togarinn lá á hliðinni, hálfmarandi í kafi, þannig að stjórnborðsbrúarvængur lá að sjó og allt fram að hvalbak í 4 ½ klukkustund. En slagsíða skipsins stafaði af því, að kolafarmur í framlest og kolageymslum skipsins gekk til og var ekki hægt að rjetta skipið við fyr en búið var að moka til kolum í lest og kolageymslu (boxum). Engan skipverja sakaði við þetta áfall og komst skipið á eigin vjelarafli til hafnar í Reykjavík, þótt kolasalli og önnur óhreinindi úr kjalsogi kæmust í legur vjelarinnar og vjelin skemmdist við það mikið. Það er talið, að það muni taka að minsta kosti um mánaðartíma, að gera við skemmdir skipsins.
Morgunblaðið hefur snúið sjer til Hallgríms Guðmundssonar, skipstjóra á Þórólfi, og fengið hjá honum eftirfarandi lýsingu á áfallinu, sem skipið varð fyrir: Klukkan var rjett 8,30 að kvöldi, föstudaginn 17. þ. m. Við vorum þá staddir um 13 sjómílur NV af Þrídröngum. Veður var slæmt, en þó ekki svo, að það gæfi tilefni til þess, að vænta mætti neinna ófara. Það var sunnan haugasjór, vindhraði 8—9 stig og rjett að byrja að votta fyrir vestanöldu. Við sigldum með hægri ferð. Þegar við urðum varir við ólag hægðum við á okkur og skipið var stansað, er brotsjór skall á því. Ólagið reið á brúna bakborðsmegin og var svo snöggt, að klukkur, sem voru í brú og lofskeytaklefa stöðvuðust. Eitthvað hafði bilað í þeim, en slíkt er óvanalegt, þó skip fái á sig brotsjó, að þau tæki bili. Rúðu braut í stýrishúsi og fleiri smáskemmdir urðu. Annar sjór lenti á bátadekkinu bakborðsmegin og tók með sjer björgunarbátinn þeim megin. Skipið hefði nú átt að rjetta sig, ef allt hefði verið með feldu, en það byrjaði að siga að aftan og hallaðist á stjórnborða. Var þá sett full ferð fram á og reif skipið sig upp á afli vjelarinnar, en við það sviftist stjórnborðsbáturinn, hluti af bátadekki og bástuglur af og allt lauslegt er á bátadekkinu var. Og skipið rjetti sig enn ekki. heldur hallaðist þannig, að það lá undir sjó frá brúarvængnum stjórnborðsmegin og fram úr. Varð brátt Ijóst hvað því olli. Kol í framlest höfðu verið fermd svo illa í skipið í Englandi, að við kastið, sem á það kom við ólagið, höfðu þau farið út í aðra hliðina og ennfremur í kolaboxunum.
Við kastið, sem á skipið kom drapst í öllum eldum undir gufukatli með þeim afleiðingum, að vjelin fjekk ekki neitt afl. Á eldunum drapst með þeim hætti, að ristarnar í eldhólfunum köstuðust til og voru miklir erfiðleikar á að kynda upp á ný, á meðan skipið hallaðist eins og það gerði. Lítill, sem enginn sjór kom þó í skipið, en er afl vjelarinnar dvínaði, eftir að dautt var undir katlinum urðu lensdælur einnig óvirkar. Sjór úr kjalsogi slettist inn á legur skipsvjelarinnar, en í kjalsogi safnast jafnan fyrir kolasalli og annað rusl. Olli þetta að sjálfsögðu skemdum á legum vjelarinnar, þar sem nauðsynlegt var að hafa hana í gangi. Loftskeytatæki skipsins biluðu í áfallinu, er sjór kom í loftskeytaklefa og er stöng, sem heldur uppi loftneti skipsins fór. Enda höfðum við ekkert not fyrir loftskeytatæki eins og komið var. Það, sem gera þurfti urðum við að vinna sjálfir um borð. Fyrsta verkið var að moka til kolum í boxum og framlest til þess að fá skipið á rjettan kjöl. Það var nokkrum erfiðleikum bundið. Fimm menn voru settir niður í framlestina til að „lempa“, en sökum þess hve skipið var undir miklum sjó, þurfti að loka þá niðri í lestinni á meðan þeir unnu verkið. Eftir að búið var að koma upp eldum á ný og gufa fór að koma upp svo mikið að hægt var að nota dælur skipsins var vatni dælt í lýsistanka, sem eru á þilfari bakborðsmegin og rjetti skipið þá smátt og smátt við. Veðrið hjelst óbreytt fram til klukkan 11, en þá fór það heldur að linna og um klukkan 1 var búið að moka kolunum það til, að skipið var komið nokkurnvegin á rjettan kjöl. Gufan komin upp og hægt að halda af stað til Reykjavíkur og gekk ferðin þangað vel.
Frá öllu þessu segir Hallgrímur skipstjóri rólega og hversdagslega. Er hann er spurður að því, hvort ,,Þórólfur“ hafi ekki verið hætt kominn, svarar hann því til, að það sje aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt, hvenær skip sjeu hætt komin í slíkum kringumstæðum sem þessum. Það hafi sýnt sig að tog ararnir þoli mikinn sjó og stór áföll, jefnvel þótt það komist sjór í þá. „Maður sá þetta í Halaveðrinu þegar Egill Skallagrímsson fjekk sjóinn á sig og sjór fór niður um reykháfinn. Nei, það er aldrei hægt að fullyrða neitt um slíkt“, segir þessi rólyndi sjómaður. Hallgrímur rómar mjög framgöngu skipshafnar sinnar, sem hafi komið mjög vel fram í alla staði þegar skipið varð fyrir þessu áfalli. B.v. Þórólfur liggur nú hjer í höfninni, þar sem viðgerð fer fram.

Morgunblaðið. 29 desember 1948.
 

B.v. Þórólfur RE 134.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                                                       
                  Sex gamlir togarar höggnir upp
             í Danmörku og Bretlandi

Á næstunni munu sex hinna gömlu togara fara í sína hinztu siglingu til Danmerkur og Bretlands, þar sem þeir verða ''höggnir“ upp. Mun þá ekki vera nema einn eftir hinna gömlu togara. Það er Guðmundur Kolka, sem keypt hefur þessi gömlu skip. Hefur hann undanfarna mánuði unnið að því að fylla þau hvert af öðru af brotajárni. Hann hefur sem kunnugt er safnað brotajárni í mjög stórum stíl. Um skeið var hann t. d. með togara hér úti á ytri höfninni, þar sem hann náði upp allmiklu af legufærum. Í síðasta mánuði, er verkfallið stóð yfir, var áformað að brotajárnsskipin yrðu dregin út. Við það varð að hætta, en á morgun eða föstudag er væntanlegur stór dráttarbátur frá Hollandi, sem fara mun með 3 í eftirdragi til Danmerkur.
Fjórir þessara togara liggja nú vestur við Ægisgarð og hafa legið þar um Iangt skeið, en þeir eru: Skallagrímur, Þórólfur og Höfðaborg, sem væntanlega munu hafa samflot yfir hafið til Danmerkur um helgina. Vestur við Ægisgarð er einnig Tryggvi gamli, sem sóttur var inn á Kleppsvík í fyrradag. Suður í Hafnarfirði á togaralegunni liggur svo Maí, og Faxi inni á Eiðsvík. Þessir togarar munu verða dregnir til Bretlands síðar. Ráðgert er að þegar dráttarbáturinn leggur af stað með togarana þrjá, þá verði á hverjum þeirra fjórir menn, til þess að hafa eftirlit með dráttartaugum og öðru. Þegar þessir gömlu togarar fara í sína hinztu siglingu vakna án efa í brjóstum margra togarasjómanna endurminningar frá lengri eða skemmri sjómennsku á þessum skipum á tímum friðar og ægilegra ófriðarára. Hversu miklu fiskmagni skyldu þau vera búin að landa? T. d. Skallagrímur, er Guðmundur heitinn Jónsson var aflakóngur á honum og í áraraðir var Skallagrímur með aflahæstu togurunum. Nú er eftir aðeins einn hinna gömlu togara, og er það Venus frá Hafnarfirði.

Morgunblaðið. 18 maí 1955.

25.10.2023 08:47

B.v. Arinbjörn hersir RE 1. LBFJ / TFDC.

Botnvörpungurinn Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1917. Togarinn var smíðaður fyrir breska flotann og hét þá John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þenslu gufuvél. 42,08 x 7,22 x 3,77 m. Smíðanúmer 804. H.f. Kveldúlfur í Reykjavík keypti togarann út í Hull í desember 1924. Fyrsti skipstjóri var Sigurður Eyleifsson. Aðfaranótt 16 september 1940, björguðu Arinbjörn hersir og Snorri goði RE 141 rúmlega 400 skipverjum af breska herflutningaskipinu Aska, þegar þau voru á heimleið eftir sölutúr til Fleetwood og voru þá stödd um 15 sjómílur út af Mull of Cantyre á Írlandshafi. Þetta var ein mesta björgun sem íslenskir sjómenn komu að í styrjöldinni. Skipstjóri á Arinbirni hersi var þá Steindór Árnason, en á Snorra goða var Magnús Runólfsson skipstjóri. Það var svo 22 desember sama ár, að þýsk sprengjuflugvél af Heinkel 111 gerð, gerði fólskulega árás á togarann á Írlandshafi og létu sprengjum og skothríð rigna yfir hann. Áhöfn togarans, 13 menn, sáu sér þann eina kost til að bjarga sér, að fara í björgunarbát, þann eina sem í lagi var um borð, en hriplekur. Var þeim svo fljótlega bjargað um borð í dráttarbát, Superman að nafni, sem fór með þá til hafnar í Campeltown í Skotlandi. Fjórir skipverjar særðust í árásinni og voru þeir lagðir inn á sjúkrahús. Það var breskt herskip sem fann Arinbjörn hersi á reki og fór með hann til hafnar í Londonderry á N-Írlandi. Togarinn var seldur 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni og dætrum hans, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, hét þá Faxi RE 17. Seldur 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.

Arinbjörn hersir RE 1 var eitt af fyrstu "stjórnarskipunum" sem smíðuð voru (1917) þá var skipið lítið notað sem togari þegar Kveldúlfur keypti það. Skipið lá eftir stríðið ónotað til ársloka 1922. Arinbjörn var smíðaður með hvalbak, en hin Selby-byggðu -stjórnarskipin sem íslendingar keyptu voru með "bakka", (Snorri Sturluson, Surprise, Ver, Hafstein og Hávarður Ísfirðingur).

Heimildir að hluta:
Birgir Þórisson.
 

B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á toginu.                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.                                Nýr botnvörpungur

„Arinbjörn hersir“ heitir stór og nýlegur botnvörpungur, sem h.f. Kveldúlfur hefir keypt í Englandi, og kom hann hingað í morgun. Sigurður skipstjóri Eilífsson kom með skipið frá Englandi.

Vísir. 12 desember 1924.
 

Síldarbræðsla Kveldúlfs á Stekkeyri í Jökulfjörðum, sennilega á fjórða áratugnum. Fimm Kveldúlfstogarar við bryggjurnar. Ljósmyndari óþekktur.

 

                     Arinbjörn hersir og Snorri goði 

      bjarga 400 mönnum af frönsku skipi 


16. þ. m. voru togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði staddir í Írlandshafi og sáu þá flugvél sökkva stóru skipi með sprengju skammt frá togurunum. Kom upp mikill eldur í skipinu eftir árás flugvélarinnar. Strax og flugvélin hafði yfirgefið hið brennandi og sökkvandi skip, lögðu togararnir að því. Hafði nokkur hluti skipshafnarinnar þá þegar komist í björgunarbátana, og tók Arinbjörn hersir fólkið úr þeim, en Snorri goði lagði að skipshliðinni og bjargaði þar fjölda manns, sem héngu í köðlum og stigum utan á skipinu. Björguðu togararnir alls um 400 manns af áhöfn skipsins, en alls er sagt að um 600 manns hafi verið á skipinu.
Þegar togararnir voru að Ijúka við björgunarstarfið kom brezkur tundurspillir á vettvang til björgunar. Brá hann kastljósi að skipinu til þess að fullvist væri að enginn lifandi maður væri ofan þilja. Sást þá hópur blökkumanna á afturþiljum skipsins, og var þeim bjargað þegar í stað. Skip þetta var franskt og hét Aska. Björgun þeirra Arinbjarnar hersis og Snorra goða þykir mjög frækileg. Að vísu var veður gott, en mikil hætta var að nálgast skipið, þar sem búast mátti við sprengingu á hverri stundu. Það er ánægjulegt, hvað íslenzkum togurum hefir tekist að bjarga mörgum mönnum nú í ár. Munu það alls vera yfir 900 manns, sem íslenzkir togarar hafa þegar bjargað.

Vesturland. 21 september 1940.
 

B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á síldveiðum.                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Kveldúlfstogarinn Snorri goði RE 141.                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Herflutningaskipið Aska var svo til nýtt skip, 8.300 brúttólestir, smíðað hjá Swan Hunter & Wigham Rich í Low Walker í Newcastle í Englandi árið 1939. Mynd af netinu.

                         Árásin á „Arinbjörn hersir" 

Víkingurinn hefir náð tali af Agnari Guðmundssyni, er var 1. stýrimaður á Arinbirni hersi, þegar hin ægilega loftárás var gerð á hann af þýzkri sprengjuflugvél þann 22. des. s. l. 14 sprengjum var varpað á skipið og vélbyssukúlum rigndi yfir skipverja meðan þeir voru að reyna að komast í lífbátana. Agnari segist svo frá:
Sunnudagsmorguninn þann 22. des. s. l., er Arinbjörn hersir var staddur á 53° 23' N. br. og 5° 05' V. lgd., eða um 12 sjómílum NV af Mull of Cantyre, heyrðum við til flugvélar, sem okkur þótti nú engin nýlunda, því urg þeirra er orðið svo hversdagslegt, einkum í námunda við Englandsstrendur. Og það er nú svo, að vanalegast er ekki verið að reikna út, hvort þessari eða hinni flugvélinni búi illt í huga við viðkomandi. Í þessu tilfelli skeði það, sem alltaf má búast við. Flugvélin, sem var ,,Heinkel" 111, long distance twinengine bomber, flaug niður undir masturtoppa skipsins, og lét sprengju falla, er féll bakborðsmegin við skipið og orsakaði óhemju loftþrýsting. Skipið lék á reiðiskjálfi, líkt og því hefði verið siglt með fullri ferð upp í stórgrýti. Eitt og annað gekk úr skorðum, ljós slokknuðu, og leki kom þegar að skipinu. Þegar svona stendur á, má enginn vera að því að íhuga hvaða geigvænlegu augnablik eru að líða, allir hafa nóg að gera við að koma fyrir sig þeim öryggistækjum, sem skipinu fylgja og hægt er að notfæra sér.
Okkar fyrsta verk var að slaka bakborðsbátnum, sem var útsleginn, og meðan við vorum að slaka bátnum, flaug flugvélin yfir okkur og reyndi með vélbyssu sinni að hæfa mennina, sem voru að slaka, um leið og hún lét aðra sprengju falla. Þegar báturinn var kominn í sjóinn og komnir í hann 8 menn, flaug flugvélin yfir í þriðja sinn og lét nú skothríðina dynja á skipinu og bátnum og sleppti nú tveimur sprengjum, sem þó hvorugar hittu skipið. Við þessa skothríð særðust allmikið 5 af þeim, sem í bátnum voru, og einn á þilfarinu. Ennfremur skemmdist báturinn það mikið, að hann flaut aðeins á öftustu loftkössunum.
Eftir að við vorum komnir frá skipinu á lífbátnum, sem var illa sjófær, gerði flugvélin 3 árásir á það. Alls lét hún 14 sprengjur falla, en engin hæfði skipið, en svo nærri féllu þær, að skipið kastaðist og liðaðist til, eins og það væri í brimróti upp í skerjagarði. Það var sýnilegt strax, að flugmennirnir beindu skothríðinni aðallega að skipverjum, auk þess, sem þeir skutu á stjórnpallinn og hæfðu báða áttavitana og dýptarmælirinn, sem allt varð ónothæft. Þegar flugvélin var komin úr augsýn, var róið að skipinu og bundið um sár hinna særðu. Ljós voru lagfærð, og er loftskeytamaðurinn hafði komið sínum tækjum til að starfa, var sent út A. A. A., sem er sent í stað S. O.S., þegar flugvél gerir árás á skip. Samband náðist við G. P. K. radio og síðar við björgunarskipið „Superman", sem svo kom til okkar 1 ½ tíma eftir að árásin byrjaði. Hinir særðu voru strax látnir um borð í „Superman". Síðan var athugað, hvort hægt mundi vera að fylgja honum eftir til hafnar, en það reyndist ógerlegt vegna margvislegrar bilunar. Að draga Arinbjörn taldi skipstjórinn á „Superman" að myndi hefta för skipsins of mikið, þar eð hinir særðu þurftu skjótrar læknishjálpar við, og með því, að veður fór versnandi, mikill sjór kominn í skipið og enginn nothæfur lífbátur, var Arinbjörn yfirgefinn og „Superman" hélt til Campbeltown með fullri ferð. Frá „Superman" var sent skeyti og annar dráttarbátur beðinn að fara á vettvang og reyna að ná Arinbirni hersi og draga hann til hafnar. Um borð í ,,Superman" var okkur sagt, að flugvélin hefði fyrst kastað á þá tveimur sprengjum, er hæfðu hvorugar, en þeir hröktu hana á brott með skothríð úr loftvarnabyssum sínum. Til Campbeltown var komið seinni part sunnudagsins og voru þá hinir særðu, þeir: Jón Kristjánsson, Guðmundur Helgason, Guðjón Eyjólfsson, Ólafur Ingvarsson og Guðmundur Ólafsson fluttir á spítala. Marinó Jónsson var látinn fylgja okkur og um meiðsli hans búið í gistihúsinu.
Við biðum þarna í 7 daga og leið öllum eftir atvikum vel. Egill Skallagrímsson kom og tók okkur, þá sem ferðafærir voru og flutti til Londonderry, en þangað hafði verið farið með Arinbjörn. Hjá honum fengum við líka tvo menn að láni, þá Jón Ólafsson og Ragnar Karlsson. B.v. „Gyllir", sem einnig kom til Londonderry, lét okkur hafa bát í stað okkar tveggja, sem báðir voru ónýtir. Eftir lauslega skoðun var skipið afhent skipstjóranum fyrir hönd eiganda, af viðkomandi „Naval Officer in Charge". Það var ljótt umhorfs um borð í Arinbirni, þegar við komum þangað. Allt var á tjá og tundri, og svo, að vart er hægt að lýsa með orðum einum. Við skoðunina kom einnig í ljós, að öll matvæli, siglingatæki eins og t. d. 2 sjónaukar, loflvog og vegmælir ásamt öðru lauslegu var horfið. Innsiglið var rofið og þaðan horfið það sem þar fyrirfannst, ennfremur allur fatnaður skipverja og vörur þær, sem þeir höfðu keypt í Englandi. Eftir að búið var að standsetja það, sem nauðsynlega þurfti til heimferðarinnar, og leyfi fengið til heimferðar, var haldið á stað. Veður var hið ákjósanlegasta og komið var til Reykjavíkur þann 12. janúar síðdegis eftir rúma 3 sólarhringa ferð.
Nú er frásögn Agnars lokið, af mestu loftárásinni, sem gerð hefir verið á íslenzkt skip. En hverjir verða næst fyrir þessu, og hvenig fer þá? Íslenzku skipin standa öll varnarlaus gagnvart þessum loftvörgum. Þeir geta í rólegheitum leikið sér að bráð sinni, eins og köttur að mús. Einasta vörnin gegn þessu er loftvarnabyssan, sem vera ætti um borð í hverju einasta skipi, sem til Englands siglir.  

Sjómannablaðið Víkingur. 1 tbl. janúar 1941.
 

B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á síldveiðum.                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
B.v. Arinbjörn hersir RE 1 á siglingu.                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


                    Togarar seldir

 

H.f. Kveldúlfur hefir nýlega selt þrjá af sjö togurum sínum, þá Egil Skallagrímsson, Arinbjörn hersir og Snorra goða. Nýstofnað fiskveiðihlutafélag, H.f. Drangey keypti Egil Skallagrímsson og hefir skipið nú verið skýrt Drangey, framkvæmdarstjóri þess félags er Oddur Helgason. Óskar Halldórsson og dætur hans hafa keypt Arinbjörn hersir og hefir hann nú verið skýrður upp og heitir Faxi. Fiskveiðahlutafélagið Viðey hefir keypt Snorra goða og verður nafni skipsins breytt. Þá hefir H.f. Marz í Hafnarfirði selt togara sinn Hafstein. Kaupandi er Ólafur Einarsson útgerðarmaður, Grindavík. Togarasölur þessar benda til, að fyrri eigendur skipanna sem hvorutveggja hafa fengist við sjávarútveg um margra ára skeið, hugsi sér nú sem bráðast til hreyfings, um það að fá ný skip og fullkomnari í stað hinna gömlu, og er það vel farið.

 

Sjómannablaðið Víkingur. 1 ágúst 1944.
 

Sjö Kveldúlfstogarar í röð við bryggju í Reykjavíkurhöfn.   Ljósmyndari óþekktur.    Togarann Faxa rak upp á Þursstaðarif
                    við Borgarnes

Togarinn Faxi, sem slitnaði upp í Hafnarfirði aðfaranótt laugardagsins, er nú strandaður á Borgarfirði inn undir Borgarnesi. Var togarinn kominn þangað á sunnudagsmorguninn, þegar menn komu á fætur í Borgarnesi. Staðurinn, sem togarinn er á, nefnist Þursstaðarif, og er það á móti Rauðanesi, um 20 mínútna siglingu frá Borgarnesi. Samkvæmt símtali, er AB átti við Ingimund Einarsson í Borgarnesi í gær, hefur togarinn ekkert hreyfst af rifinu ennþá, en þarna er sandbotn, svo að búast má við að togarinn sé óskemmdur. Hins vegar er hætt við að hann losni af rifinu og reki til lands, því að nú er stækkandi straumur.

Alþýðublaðið. 8 janúar 1952.
 

Skip Óskars Halldórssonar útgerðarmanns og síldarsaltanda, Sigríður GK 21 og Faxi RE 17 við Ingólfsgarð. Lengst til hægri má sjá Óskar á bryggjunni. (C) Guðrún Ólafsdóttir.                                 Faxi seldur til niðurrifs

Tvö skip er nú verið að lesta með brotajárni til útflutnings. Annað skipanna fer jafnframt í hinztu siglingu. Það er gamli togarinn Faxi frá Hafnarfirði, sem í fyrravetur rak mannlausan af togaralegunni í Hafnarfirði og inn í Borgarfjarðarbotn í aftaka veðri. Faxi er við bryggju í Hafnarfirði. Vélskipið Straumey, sem hér er í Reykjavík á að draga Faxa út, og það lestar einnig brotajárn. Verðið á járninu, sem fer í skipið, er keypt fyrir hátt á þriðja hundrað kr. tonnið.

Morgunblaðið. 14 október 1952. 

 

20.10.2023 16:05

H. sk. Christiane.

Hákarlaskipið Christiane var smíðuð í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku árið 1863 fyrir þá Dalabæjarfeðga í Dalabæ í Úlfsdölum við Siglufjörð, Þorvald Sigfússon og son hans Pál Þorvaldsson. Christiane var upphaflega smíðuð sem einmastra Jakt og var rúmar 14 brl. Dýpt miðskips var 5 ft. (dönsk). Fyrsti formaður hennar mun hafa verið Bessi Þorleifsson frá Sölvabakka. Hún var oftast nefnd í daglegu tali “Hákarla-Sjana“ eða „Dala-jaktin“. Í skýrslu yfir lýsisafla þilskipa á Siglufirði fyrir árið 1873, sem birtist í blaðinu Norðanfara í ágúst 1874, kemur fram að Christiane hafi fengið 67 tunnur af hákarlalýsi og ennfremur að Páll Þorvaldsson og Bessi Þorleifsson væru þá eigendur Christiane og formaður var þá Kristján Björnsson í Dalabæ. Mun Christiane hafa verið gerð út að mestu til hákarlaveiða en jafnframt til þorskveiða. Síðasta úthald hennar til hákarlaveiða var vorið 1923. Það úthald varð í styttra lagi og sögulegt því að Christiane rak á land í Hornvík ásamt þremur öðrum skipum í maí það ár. Þangað leituðu þau í var undan austan stormi. Christiane náðist út um sumarið, en hin þrjú munu hafa eyðilagst. Tók nokkurn tíma að lagfæra skipið eftir þetta strand. Christiane, sem raunar var alla tíð nefnd Kristjana að íslenskum hætti, þó hið danska nafn væri málað á skipið og skartaði í öllum opinberum skjölum fram yfir 1930. Nokkrum árum eftir að Christiane kom til landsins var henni breytt og hún lengd. Það gerði Jóhann Jónsson skipasmiður í Höfn í Siglufirði. Eftir það var hún orðin tvísigld skonnorta. Þannig var hún fram yfir aldamót, en þá var hún byggð upp í annað sinn og enn stækkuð nokkuð. Það gerði Páll Kroyer, sonur Jóhanns skipasmiðs í Höfn. Mældist þá eftir þessar breytingar 23 brl. 14,38 x 4,58 x 1,75 m.
Christiane komist í eigu Gránufélagsins á Siglufirði um árið 1889, eða jafnvel eitthvað fyrr. Átti þá Gránufélagið helming á móti Hafliða Guðmundssyni á Siglufirði og Erlendi Pálssyni á Sauðárkróki, sem áttu sinn fjórðunginn hvor. Stuttu eftir aldamótin fær hún skráningarnúmerið EA 29. Líklegt þykir að sett hafi verið vél í hana um líkt leyti. Heimild hef ég fyrir því að sett hafi verið í hana vél fyrst árið 1916, það var 16 hestafla Dan, tveggja strokka. Var hún þá ennþá stýrirhúslaus og stýrt með taumum. Sennilega hefur Páll Kroyer smíðað á hana stýrishús eftir aðra endurbygginguna eftir aldamótin 1900. Um árið 1914 er hún komin í eigu Hinna sameinuðu íslensku verslana á Siglufirði. Árið 1923 fær hún skráningarnúmerið SI 2. Frá árinu 1929 er hún í eigu Einars Malmquist á Akureyri, sama nafn og númer. Ný vél (1929) 50 ha. Tuxham vél. Var í eigu Þorsteins Þorsteinssonar og Þorvalds Sigurðssonar á Ólafsfirði frá 12 nóvember 1937, hét þá Christiane EA 615. Sama ár var hún endurbyggð og lengd í þriðja sinn og mældist þá eftir það 25 brl. 14,57 x 4,58 x 1,82 m. Ný vél (1944) 110 ha. Grey vél. Frá 10 janúar 1950 var Hraðfrystihús Patreksfjarðar eigandi Christiane, bar þá skráningarnúmerið BA 7. Ný vél (1952) 150 ha. GM vél. Nafnabreyting fór fram á henni 1952, hét þá Sigurfari BA 7. Ég held að skipið hafi verið selt til Stykkishólms 1957-58, eða gerð út þaðan undir nafninu Vísir SH 7, en verið talið ónýtt og rifið þar á árunum 1960-70.
Kristjana var lengi elsta skipið í íslenska flotanum. Hún var í notkun í meira en eina öld. Nafni sínu hélt hún á níunda tug ára, þó það væri íslenskað, líklega árið 1936.

 Líklegt þykir að Christiane hafi verið smíðuð hjá Skibsbygmester Sören Peter Bech í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku.

Árið 1827 hafði tekið við búi í Dalabæ Þorvaldur Sigfússon. Kvæntur var hann Guðrúnu Þorsteinsdóttur, bónda á Staðarhóli, Ólafssonar. Þau hjón voru héraðskunn að rausn allri og skörungsskap. Var Þorvaldur búhöldur hinn mesti, hafði bátaútveg all mikinn og sótti sjó af kappi. Græddist honum brátt fé. Oft avr Þorvaldur svo birgur af nauðsynjavöru ýmiss konar, að menn sóttu til hans bæði frá Siglufirði og úr Fljótum, þegar skortur var á matvælum. Þorvaldur var oft nemdur hinn ríki, en enginn var hann nurlari eða nánös. Leituðu margir á náðir hans og fæstir án fyrirgreiðslu. Synir Þorvalds voru hinir merkustu menn og urðu sumir víðkunnir. Allir voru þeir tilteknir kraftamenn, ekki síst Björn og Jóhann. Einna fyrirmannlegastur var þó Páll, sem tók við búi föður síns í Dalabæ og hélt þar uppi sömu rausn sem gert hafði garðinn frægan. Þeir feðgar í Dalabæ, Þorvaldur og Páll , létu ekki lengi á sér standa að hefja þilskipaveiðar eftir að sú alda tók að ganga. Um 1860 fengu þeir Jóhann Jónsson skipasmið í Höfn í Siglufirði til að smíða fyrir sig þilbát. Var hann nefndur Úlfur eða Dala-Úlfur. Skipstjóri á Dala-Úlfi var Þorsteinn sonur Þorvalds í Dalabæ. Úlfur mun hafa verið skamma stund notaður. Hann hafði að sjálfsögðu bækistöð á Siglufirði, því að hafnleysa fullkomin er fram af Dalabæ. Á Siglufirði bar Úlfur beinin og var að lokum dreginn þar í sundur. Skemmtileg frásögn er í júníblaði Norðanfara frá 1863 af atviki nokkru, sem hent hafði Dalabæjarfeðga þá um vorið. Hana má sjá hér nokkru neðar undir greininni „Hákarlaskip Dalabæjarfeðga“
Annað þilskip þeirra Dalabæjarfeðga hét Haffrúin. Mun hún hafa verið smíðuð upp úr opnu skipi, en ekki er vitað hver það gerði. Vorið 1864 tók Þorsteinn Þorvaldsson við stjórn Haffrúarinnar, en hætti á Úlfi. Haffrúin fórst þá um vorið í áhlaupaveðri miklu 10 eða 11 apríl. Í sama veðri fórust tvö þilskip önnur, Sókrates frá Skipalóni og Valdimar frá Flatey á Skjálfanda. Brak úr Haffrúnni fannst rekið undir Hraunsmúla á Skaga. Þar rak einnig öll líkin, 11 að tölu. Voru þau flutt að Ketu og jörðuð í einni gröf. Christiane hét dönsk jakt, einsigld, sem Dalabæjarfeðgar keyptu 1863. Hún þótti mesta kolla, stutt, kubbsleg og ákaflega ljót, en var sterklega smíðuð. Vegna þess hve álappaleg jakt þessi var, nefndu margir hana“ofnbrauðið“. Jóhann skipasmiður í Höfn stækkaði Christiane, setti á hana skúta og lotstefni og breytti í tvísiglda skonnortu. Þótti hún batna þá stórlega. Skipstjórar voru ýmsir á Christiane. Einna lengst var með hana á hákarlaveiðum Bessi Þorleifsson á Sölvabakka. Christiane komst að lokum í eigu Gránufélagsins og var þá smíðuð upp í annað sinn. Hún er enn til og á heima á Ólafsfirði. Heldur hún sínu gamla nafni, þó það hafi verið íslenskað (Kristjana), þótt flest annað muni vera nýtt. Ekki munu Dalabæjarmenn hafa eignast fleiri þilskip en þau þrjú sem nú hafa nefnd verið. Þorvaldur ríki Sigfússon varð gamall maður. Hann andaðist 1879, kominn um áttrætt. Tveimur árum síðar lést Páll sonur hans á besta aldri.

Heimildir:
Skútuöldin. ll bindi. Gils Guðmundsson. 2 útgáfa 1977.
Sjóferðaminningar Sigurpáls Steinþórssonar. Sigurjón Sigtryggsson 1981.
Danska skipaskráin frá 1871.
Hagskýrslur um fiskveiðar.
 

Hákarla og síldveiðiskipið Christiane SI 2 á Siglufirði.   (C) Minjasafnið á Akureyri.
 
Ein mastra Jakt, smíðuð í Rönne á Borgundarhólmi á árunum 1860-70. Christiane gæti hafa litið svona út í upphafi.


              Hákarlaskip Dalabæjarfeðga


Í næstliðnum mánuði var þilskipið Úlfur frá Eyjafjarðarsýslu, ásamt fleirum skipum við hákarl, fram á hinu svonefnda fremragrunni, var þá svo mikið harðviðri og gaddur, að allt sem vott var sýlaði og klakaði, meðal annars skipsbáturinn er var bundinn við gafl skipsins og þá orðinn svo áriða þungur, að skipverjar voru á glóðum, um að báturinn þá og þegar mundi kippa gaflinum úr skipinu, rjeðu þó það af, að höggva hann eigi frá sjer, en slitnaði þó frá um síðir. Nokkru eptir þetta hjeldu þeir í land, en tveim dögum síðar fannst báturinn rekin upp á fjöru í Fögruvík hjá Dalalendingu jafn heill og þá hann fór frá skipinu, og hjá honum 18 álna Iangt rekatrje, en skammt frá 3 álna löng lúða. þetta mun fáheyrt dæmi, enda eru þeir feðgar á Úlfsdölum, þorvaldur Sigfússon og Páll sonur hans miklir giptu og ágætismenn.
Fyrir löngu síðan er sagt, að svo miklu spurzt hefir hingað, að skip sjeu komin á allar hafnir hjer við land, og nú seinast eitt skip á Húsavík 24. f. m. eptir 3 vikna ferð að heiman. Jakt 7 lesta stór sem heitir, Christjana og með henni aðeins 3 menn á Siglufjörð, send frá lausakaupmanni Lund í Rönne á Borgundarhólmi til fyrnefndra feðga þorvaldar og Páls á Úlfsdölum, smíðuð í vetur, og sem vera á til Hákarlaveiða.
Norðanfari. 21-24 tbl. 1 júní 1863.
 

Christiane EA 615 á siglingu.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.               Fjögur skip stranda
              Einn maður drukknar

Ísafirði, 7. maí. Vélskipin Sigurfari og Björninn frá Ísafirði, Róbert frá Akureyri og Kristjana frá Siglufirði strönduðu á Hornvík í ofsaveðrinu um helgina. Einn maður, Tryggvi Tryggvason frá Haga á Árskógsströnd, drukknaði af Róbert. Lætur eftir sig konu og tvö börn. Annars varð mannbjörg af öllum skipum. Skipverjar á Róbert hröktust á flakinu í sex klukkutíma. Skipin eru brotin nema Kristjana. Kolalaust er hér í bænum, og virðist horfa til vandræða af.


Alþýðublaðið. 7 maí 1923.
 

Christiane EA 615 (Kristjana) í síðustu upphalningunni á Siglufirði árið 1937. Ljósmyndari óþekktur.
 
Christiane EA 615 (Kristjana) við bryggju á Ólafsfirði ásamt Þór EA 553 með fullfermi síldar og bíður löndunar. Ljósmyndari óþekktur.


                         Aflaskip


Í 10. tölublaði sjómannablaðsins Víkings eru birtar myndir og frásagnir af þrem aflahæstu síldveiðiskipunum á s. l. vertíð og skipstjórum þeirra, og enn fremur ósk um það til sjómanna og útvegsmanna að senda Víkingi myndir af skipum sínum o. fl. Ég vil því leyfa mér að senda yður hér með mynd af m/b. Kristjönu, E. A. 615, að stærð 25 smálestir, og af skipstjóra hennar, Ásgrími Sigurðssyni, Grundargötu 22, Siglufirði. M/b. Kristjana hefir verið gerð út á síldveiðar þrjú s. l. sumur með hringnót, með 9 manna áhöfn, og alltaf verið aflahæst af þeim bátum, sem fiskað hafa með því veiðarfæri. Tekur aðeins 250 mál síldar í hverri veiðiferð. Hásetahlutir hafa verið þessi ár: 1942 kr. 4.537,00, 1943 kr. 6.735,00, 1944 kr. 7.760,00. Og svara þessi aflahlutur til þess, að skip, sem fiskar með snurpinót og ekki tekur upp báta, hefði þurft að veiða, til að skila sama hásetahlut: 1942 12.250 mál., 1943 15.200 mál og 1944 17.500 mál síldar. Nú verður að hafa það í huga, að þessi bátur er ekki nema 25 smálestir, og hlýtur því að vakna sú spurning hjá mönnum: Hvað mundi þessi skipstjóri hafa fiskað og hásetarnir fengið mikinn hlut, ef hann hefði verið á stærra skipi með þetta veiðarfæri? Eg held því að það sé tímabært fyrir þá, sem gera út lítil skip á síldveiðar, og þá sérstaklega þá, sem gera út svonefnda „tvílembinga“, að gefa meiri gaum að hringnótinni en til þessa hefir verið gert. Nú hef ég sjálfur gert út slíka báta á síldveiðar og veit því vel hver munur það er.
Hinu verður svo reynslan að skera úr, hvernig hringnótin reynist á stærri skipum. En mín trú er sú, að hringnótin eigi sér framtíð, en að sjálfsögðu með eitthvað breyttri aðferð frá því, sem nú er, þegar farið yrði að nota hana á stærri skipum, t. d. myndi þá þurfa að hafa mótorvél í nótabátnum, eða þá að útbúa skipin sjálf þannig, að hægt væri að taka nótina upp á þau og kasta henni af því sjálfu. Vonandi prófar nú einhver framtakssamur útgerðarmaður hringnótina á t. d. 40—50 smál. stóru skipi, því þó að útgerðarkostnaðurinn verði svipaður og ef til vill ekki rétt að reikna með meira aflamagni en með venjulegri snurpinót, og því útkoman sú sama fyrir útgerðina, þá væri árangurinn samt sá, að mannskapurinn á því skipi fengi langtum stærri hlut, þar sem ekki mundi þurfa meira en 10 manna áhöfn, og tel ég það stóran ávinning, þar sem nú þarf í flestum tilfellum að láta skipshöfninni í té lágmarkskauptryggingu yfir veiðitímann. Gæti svo farið, að það skip þyrfti aldrei að grípa til slíkrar tryggingar, en aftur á móti skip sömu stærðar og með sama aflamagni, sem veiddi með venjulegri snurpinót og fullri áhöfn, gæti þurft að greiða sinni skipshöfn lágmarkskaup. Ennfremur tel ég rétt og sjálfsagt að spara sem mest mannafla við hvaða atvinnurekstur sem er, og jafnhliða því afla meiri tekna hverjum einstaklingi.

Þorsteinn Þorsteinsson.
Sjómannablaðið Víkingur. 1-2 tbl. 1 janúar 1945.


 

 

20.10.2023 11:41

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165. TFAC.

Kveldúlfstogarinn Egill Skallagrímsson RE 165 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1947 fyrir hf. Kveldúlf í Reykjavík. 654 brl. 1.000 ha. 3 þenslu gufuvél. 54,00 x 9,14 x 4,58 m. Smíðanúmer 1323. Skipaskrárnúmer 39. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 18 júní sama ár og var sá fjórði í röðinni sem kom til landsins. Seldur í desember 1970, Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Nafnabreyting varð á skipinu haustið 1971, hét þá Hamranes GK 21. Togarinn var í eigu Haraldar Júlíussonar í Hafnarfirði frá desember 1971. Flestum er nú kunn örlög þessa skips, en það sökk um 50 sjómílur SV af Jökli 18 júní árið 1972. Áhöfn togarans Narfa RE 13 bjargaði 22 skipverjum Hamranessins. Oft var talað um „Helför“ Egils Skallagrímssonar og málaferlin í kjölfar þessa skipstapa voru umfangsmikil. Eigendur Hamranessins voru sakaðir um að hafa sökkt togaranum, en það var ekkert hægt að sanna neitt slíkt nema að ná flaki hans upp þar sem það lá á 250-300 metra dýpi út í Jökuldýpinu.

Bátapallur var smíðaður á Egil einhvern tímann eftir 1950 og var það aðallega gert vegna síldveiða skipsins. Einnig var settur bátapallur á svipuðum tíma á þrjá aðra nýsköpunartogara en þeir voru, Elliði SI 1, Ísborg ÍS 250 og Surprise GK 4.

Í sjómannaalmanaki frá 1972 er Hamranes GK 21 skráð eign Útgerðarfélagsins Vals h.f. í Reykjavík.
 

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 í Reykjavíkurhöfn.                 (C) Björn Björnsson.
                   „Egill Skallagrímsson“ kom í gær

Fjórði nýsköpunartogarinn sem byggður er í Bretlandi sigldi fánum skreyttur inn á ytri höfn milli klukkan sex og sjö í gærkveldi. Þessi togari heitir Egill Skallagrímsson RE 165 og er eign h.f. Kveldúlfur. Egill Skallagrímsson er byggður eftir sömu teikningu og hinir fyrri nýsköpunartogarar sem komnir eru. Innrjetting skipsins er þó nokkuð öðruvísi en hinna togaranna m. a. er neðri lúkarinn þrefaldur í stað þess að vera einfaldur. Hvílur eru fyrir 42 skipverja. Egill Skallagrímsson lagði af stað frá Hull s. l. laugardag en kom við í Shields til þess að taka olíu, en þaðan var hann 84 klst. til Reykjavíkur. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður hinn þjóðkunni sjósóknarmaður Kolbeinn Sigurðsson. Hann hefir verið skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfur frá því að fjelagið keypti skipið. Fyrsti stýrimaður verður Eyjólfur Ólafsson og fyrsti vjelstjóri Jóhann Jónsson.

Morgunblaðið. 19 júní 1947.
 

B.v. Egill Skallagrímsson RE 165 nýr út í Hull.              (C) Cochrane & Sons Ltd.
                     Togarinn Egill Skallagrímsson
              seldur til Hafnarfjarðar


Tveir útgerðarmenn í Hafnarfirði, þeir Haraldur Jónsson og Jón Hafdal, hafa fest kaup á togaranum Agli Skallagrímssyni, sem nýlega var auglýstur til sölu, en seljandi er skilanefnd Kveldúlfs hf. Hinir hafnfirzku kaupendur hafa gert út togarann Haukanes og vélskipið Margréti. Verður Egill Skallagrímsson nú gerður út frá Hafnarfirði og fer á veiðar í dag eða á morgun. Togarinn Egill Skallagrímsson er 23 ára gamalt skip og hefur hann jafnan verið gerður út frá Reykjavík. Hann er einn af nýsköpunartogurunum gömlu, systurskip Ingólfs Arnarsonar, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur gerir út. Skipstjóri á Agli Skallagrímssyni verður Þorsteinn Auðunsson, sem undanfarið hefur verið með vélskipið Margréti.

Morgunblaðið. 18 desember 1970.
 

Hamranes GK 21 að sökkva.                                                (C) Ásgrímur Ágústsson.
 
Hamranes GK 21 að sökkva.                                                (C) Ásgrímur Ágústsson.
 
Síðasta stund Hamranessins.                                               (C) Ásgrímur Ágústsson.

       Hamranes sökk í blíðskaparveðri


Togarinn Hamranes, RE 165 sökk að kvöldi sunnudagsins, eftir að mikill leki hafði komið að skipinu. Togarinn Narfi RE 13, bjargaði skipshöfninni, 21 manni, sem komizt hafði í gúmbáta. Sökk skipið klukkan 22 og kom Narfi með skipsbrotsmennina til Keflavíkur klukkan 02 í fyrrinótt. Hamranes var eign Haralds Júlíussonar og fleiri, en þeir höfðti keypt togarann af bræðrunum Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í Hafnarfirði í desember siðastliðnun. Bjarni Guðmundsson sikipstjóri á Hamranesi sagði í viðtali við Mbl. að um fimmleytið á sunnudeginum hefði skipið allt í einu lyfzt upp og hallazt á aðra hliðina, „Ég held að við höfum siglt á eins konar tundnurdufl frá stríðsárunum," sagði Bjarni. — Enginin af áhöfninni var á dekki og nýbúið var að kasta. „Ég varð því ekki vitni að því sem gerðist, var inni í bestikki, en hljóp strax niður og opnaði lestina til þess að aðgæta, hvað gerzt hafði. Fann ég þá að púðurreyk lagði upp úr lestinni." „Við hífuðum trollið upp," sagði Bjarni, „en síðan fór ég aftur niður til þess að aðgæta nánar.
Mér kom þá ekki í hug, að ástandið væri svo alvarlegt, að skipið væri að sökkva. Þegar ég kom niður sá ég að töluverður leki var kominn að skipinu og og var þá sent út neyðarkall. Togarinn Narfi svaraði okkur og var um 8 mílur undan. Ég lét þá blása alla gúmbátana þrjá út og hafði þá klára við síðuna. Ég fór sjálfur síðastur frá borði um kukkan 19.30 og klukkan 20.30 tók Narfi okkur upp úr bátunum, sem við höfðum alla bundna saman. Vorum við allir í tveimur bátum." Togarinn Hamranes fór á veiðar 8. júní síðastliðinn og hélt í fyrstu á veiðar við Grænland. Þar lenti skipið í ís og varð frá að hverfa. Hélt það þá á heimamið og fyrir nokkrum dögum varð bilun um borð, gufurör við spilið bilaði og varð skipið að fara til Þingeyrar til þess að fá gert við rörið. Struku þá af skipinu 4 skipverjar. Á heimamiðum var skipið búið að vera í 5 daga og í því voru, er það sökk um 60 lestir af fiski. Hamranes sökk um 45 sjómílur suðvestur af Jökli, að sunnanverðu við Jökultunguna. Allar dælur voru settar í gang, en þær höfðu ekki undan lekanum. Veður var norðaustan kaldi. Fritz Glahn, sem vann í vélarrúmi, ungur Þjóðverji frá Köln skýrði Mbl. frá atburðum. Fritz sagði að augljóst hefði verið, að lekinn hefði verið miðskips. „Ég var í vélarrúminu og heyrði mikinn skruðning og eftir svo sem tvær klukkustundir var mikill sjór í lestum. Er álitið að tundurdufl hafi sökkt skipinu." Haraldur Júlíusson, útgerðarmaður sagði í viðtali við Mbl. að lítil olía hefði verið í  skipinu, svo að lekinn hlyti að hafa verið meiri en lítill, þar eð skilrúm hefðu verið mikill í skipinu. Skipið var nýkomið tiltölulega úr klössun. Gerðar voru tilraunir til þess að senda Goðann á vettvang með dælur. Hamranes keypti Haraldur Júlíusson eins og áður er getið af bræðrunum Jóni Hafdal og Haraldi Jónssyni í desember. Áður var skipið í eigu Kveldúlfs og hét þá Egill Skallagrímsson. Togarinn var einn af nýsköpunar togurunum svokölluðu, smíðaður í Selby í Englandi 1947. Vátryggingarupphæð togarans var 15 milljónir króna. Sjópróf fara fram í Hafnarfirði í dag.

Morgunblaðið. 20 júní 1972.

 

13.10.2023 10:48

Hrólfur Sturlaugsson SU 263. / Göngu-Hrólfur.

Vélbáturinn Hrólfur Sturlaugsson SU 263 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1905. Eik og fura. 5,84 brl. 8 ha. Dan vél. Eigendur hans voru Stefán Stefánsson kaupmaður, Hinrik Þorsteinsson, Vilhjálmur Stefánsson í Hátúni, Jón Sveinsson, Magnús Hávarðsson skipstjóri og útgerðarmaður og Sigurbjörn Davíðsson á Nesi í Norðfirði. Þegar Hrólfur kom til Norðfjarðar, var hann opinn en fljótlega var hann dekkaður eins og aðrir vélbátar sem Norðfirðingar eignuðust á þessum tíma. Var hann jafnan nefndur Göngu-Hrólfur og mun það nafn hafa fest við hann. Síðar eignuðust bátinn þeir Vilhjálmur Stefánsson og Hinrik Þorsteinsson. Ný vél (1911) 9 ha. Gídeon vél. Báturinn var seldur veturinn 1915, Rögnvaldi Gíslasyni kaupmanni á Ólafsfirði, hét þá Göngu-Hrólfur EA 369. Báturinn var endurbyggður mikið og stækkaður á Akureyri árið 1922, mældist þá 8,34 brl. 11,18 x 3,08 x 1,38 m. Ný vél 1929) 20 ha. Skandia vél. Frá 1929-30 eru Bergur Björnsson og Kristján Jakobsson á Akureyri eigendur hans. Fékk þá nafnið Vísir EA 369. Frá 22 ágúst 1933 voru Þórhallur Karlsson, Kristján Pétursson, Hallgrímur Steingrímsson og Sigtryggur Jónasson á Húsavík eigendur hans, hét þá Vísir TH 59. Ný vél (1935) 20 ha. Deutz vél. Báturinn finnst ekki á skrá eftir árið 1938, en það ár (1938) keyptu eigendur Vísis TH 59 (Göngu-Hrólfur), nýjan bát í Frederikssund sem fékk sama nafn og númer og var 21 brl. Hefur gamli Vísir sennilega verið orðinn ónýtur og rifinn fljótlega eftir það.

Upphaf vélbátasmíða á Norðfirði má rekja aftur til ársins 1906, en það var árið eftir að slíkir bátar komu í eigu Norðfirðinga. Hrólfur Sturlaugsson eða Göngu-Hrólfur eins og hann var venjulega nefndur, var einn fjögurra báta sem Norðfirðingar eignuðust árið 1905. Hinir voru,
Fram, smíðaður í Frederikshavn í Danmörku 4,83 brl. 6 ha. Dan vél. Var í eigu Gísla Hjálmarssonar kaupmanns og Jóns Eiríkssonar á Nesi í Norðfirði. Fram var fyrsti vélbáturinn sem kom til Norðfjarðar.
Gylfi, 8,06 brl. Í eigu Verslunar Þorbjargar Runólfsdóttur (Verslun Sigfúsar Sveinssonar) á Nesi í Norðfirði.
Víkingur 6,35 brl. Smíðaður á Seyðisfirði og var í eigu Lúðvíks S Sigurðssonar og Bjarna Hávarðssonar á Nesi í Norðfirði.
Rétt fyrir páska í aprílmánuði 1905 kom flutningaskip Thorefélagsins, Mjölnir til Eskifjarðar með fyrsta vélbát Norðfirðinga, Fram. Afturendi bátsins lá á lunningu en framendinn á lestarlúgu. Þegar í höfn var komið var framenda bátsins lyft með vindu það hátt að báturinn rann þá auðveldlega í sjóinn. Koma bátsins markaði mikil tímamót í sögu útgerðar á Norðfirði, því árið eftir, 1906, komu tíu vélbátar þangað.

Heimildir:
Guðmundur Sveinsson. Skjala og myndasafn Norðfjarðar.
Norðfjarðarsaga ll. Fyrri hluti frá 1895 til 1929. Smári Geirsson 2009.
Íslensk sjómannaalmanök frá 1926 til 1938.
 

Hrólfur Sturlaugsson SU 263 á Seyðisfirði við konungskomuna 1907. (C) Skjala og Myndasafn Norðfjarðar.
 
Líkan af vélbát, smíðuðum í Danmörku 1905-10. Mynd úr Vestmannaeyjablaðinu Blik.
 
Vísir TH 59 frá Húsavík.                                                           Ljósmyndari óþekktur.
 

            Fyrstu vélbátar Austfirðinga


Vorið 1904 kom fyrsti vélbáturinn til Austfjarða, á Seyðisfjörð. Það var v.b. Bjólfur NS-9, 6,04 tonn að stærð. Eigendur hans voru Stefán Th. Jónsson og Sigurður Jónsson kaupmenn á Seyðisfirði. Formaður fyrsta sumarið var Símon Jónasson frá Svínaskála við Reyðarfjörð. Báturinn var byggður í Frederikssund í Danmörku. 10. okt. sama ár er skráður 3,28 tonna bátur hjá sýslumanninum á Seyðisfirði. Báturinn var byggður í Reykjavík 1904 og hét Hermes NS-38, eigandi Magnús Jónsson útvegsbóndi á Landamóti. Ennfremur er þetta sama ár skrásettur lítill vélbátur, 2,93 tonn að stærð, frá Búðum við Fáskrúðsfjörð. Eigandi bátsins, sem nefndur var Karmá SU-201, var P. Stangeland kaupmaður á Búðum. Þessi bátur er sagður byggður á Fáskrúðsfirði. Árið 1905 kemur nokkur skriður á vélbátaútgerð á Austurlandi. Þá kom v.b. Laxinn SU-236, en það eru allar líkur til að hann sé fyrsti vélbátur með þilfari í Múlaþingi. Hann var byggður í Danmörku og eigendur voru bræðurnir Símon og Árni Jónassynir á Svínaskála við Reyðarfjörð og bræðurnir Halldór og Jón Jónssynir á Svínaskálastekk. Símon hafði áður verið formaður á v.b. Bjólfi eins og áður sagði.
Fjórir vélbátar komu til Norðfjarðar þetta ár. Þeir voru Fram SU-234, eigandi Jón Eiríksson Nesi í Norðfirði o.fl. Gísli Hjálmarsson kaupmaður mun hafa lagt fram fé til kaupanna. Annar var Gylfi SU-260, eigandi Verslun frú Þorbjargar Runólfsdóttur á Nesi. Þriðji Hrólfur Sturlaugsson SU-263 (Göngu-Hrólfur), eigandi Stefán Stefánsson kaupmaður á Norðfirði o.fl. Þessir þrír bátar voru keyptir í Danmörku. Fjórði báturinn var Víkingur SU-298, byggður á Seyðisfirði af fyrirtæki sem Stefán Th. Jónsson kaupmaður og Fr. Gíslason úrsmiður stofnuðu á Seyðisfirði, yfirsmiður var Guðfinnur Jónsson. Eigendur bátsins voru Lúðvík Sigurðsson kaupmaður Norðfirði og Bjarni Hávarðsson Norðfirði. Á þessu ári 1905 fékk Konráð kaupmaður Hjálmarsson í Mjóafirði bát sem hann nefndi Hrossabrest SU-331. Nafnið mun vera tilkomið út af skellum í vél bátsins. Í bækur sýslumanns Norður-Múlasýslu eru þetta ár skráðir 16 vélbátar í sýslunni, þar af 15 á Seyðisfirði og einn á Vopnafirði. Þeir eru þessir á Seyðisfirði:
Brimnes NS-178, eig. Sigurður Jónsson bóndi á Brimnesi; Geir NS-117, eig. Páll Árnason; Hákon NS-179, eig. Jens Martinus Hansen; Herðubreið NS-174, eig. Stefán Stefánsson kaupm.; Höfrungur NS-171, eig. Erlendur Erlendsson skósmiður; Njáll NS-120, eig. Friðrik Gíslason o.fl.; Seyðisfjörður NS-118, eig. T.L. Imsland kaupm.; Skáli NS-176, eig. Jón Stefánsson verslunarstj. & Co; Smyrill NS-173, eig. Björn Gíslason útvegsb.; Stóri Björn NS-177 eig. Jón Stefánsson verslunarstj. & Co; Tjaldur NS-125, eig. Þórarinn Guðmundsson kaupm.; Örn NS-126, eig. Sigurður Sveinsson kaupm.; Aldan NS-121, eig. Th. C. Imsland verslunarm.; Garðar (Grænborði) NS-180, eig. Stefán Th. Jónsson kaupm.; Kári NS-172, eig. Björn Gíslason útvegsb. Frá Vopnafirði var Sigurfari NS-182, eig. Sigurd Johansen verslunarstjóri þar. Margir af þessum bátum voru litlir, bara litlar trillur og ekki með þilfari.

Tekið úr greininni, Þilskip á Austurlandi.
Viðtal við Guðmund Sveinsson í Neskaupstað.
Múlaþing. 11 hefti. 1 janúar 1981.
 

08.10.2023 13:16

V.b. Norðurljósið EA 180.

Vélbáturinn Norðurljósið EA 180 var smíðaður í Noregi árið 1906. 19,45 brl. Vél, gerð og stærð óþekkt, en árið 1920 var sett í bátinn, 30 ha. Bolinder vél. Ásgeir Pétursson útgerðarmaður og síldarsaltandi, Stefán Jónasson skipstjóri og Steinn Guðmundsson skipstjóri, allir á Akureyri, skiptu við Norðmenn á þilskipi sem þeir áttu saman og hét Helena og Norðurljósinu árið 1909. Þeir gerðu Norðurljósið út á þorsk og síldveiðar og var Stefán jafnan skipstjóri. Frá árið 1913 er skráningarnúmerið EA 280. Frá árinu 1915-16 er báturinn í eigu Guðjóns Jónssonar og Magnúsar Örnólfssonar á Ísafirði, hét þá Norðurljósið ÍS 394. Frá árinu 1920 var Hálfdán Hálfdánarson í Hnífsdal eigandi bátsins, sama nafn og númer. Norðurljósið var talið ónýtt og rifið árið 1936.

Þilskipið Helena sem nefnd er hér að ofan, var 25 brl, smíðuð í Noregi árið 1890. Jón Norðmann kaupmaður í Reykjavík keypti hana árið 1896. Hann flutti svo með skip sín, kútter Jón, 69 brl, skonnortuna Geysi, 30 brl, og áðurnefnda Helenu, sem þá var orðin léleg, til Akureyrar 1898. Norðmennirnir er tóku við Helenu ætluðu að sigla á henni til Noregs en komust ekki lengra en að Melrakkasléttu, en þar sökk hún undan þeim. Mannbjörg varð.
 

Norðurljósið EA 180, síðar 280 og síðast ÍS 394.                 Ljósmyndari óþekktur.

05.10.2023 14:12

354. Bliki SU 108.

Vélbáturinn Bliki SU 108 var smíðaður í Neskaupstað af Björgvin Gíslasyni skipasmið á Tindum árið 1957. Eik og fura. 5 brl. 2 nt. 50 ha. Volvo Penta vél. 8,42 x 3,05 x1,0 m. Eigendur voru Guðjón Gíslason skipstjóri og Jón Stefánsson á Eskifirði. Frá 1 apríl 1974 voru eigendur bátsins Hákon Björnsson í Neskaupstað og Leifur M Jónsson í Skálateigi í Norðfjarðarsveit, fékk þá nafnið Hringur NK 5. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 apríl 1975.Báturinn mun hafa verið brenndur á áramótabrennu í Neskaupstað 31 desember árið 1975.
 

Bliki SU 108 á Norðfirði. Heitir þarna trúlega Hringur NK 5.  (C) Vilberg Guðnason.

 

03.10.2023 06:19

V.b. Snorri SI 49. LBVQ / TFWI.

Vélbáturinn Snorri SI 49 var smíðaður af Anton Jónssyni skipasmíð á Akureyri árið 1918. Eik og fura. 35 brl. 16 nt. 36 ha. Avance vél. 18,02 x 4,39 x 1,97 m. Hét fyrst Snorri EA 376 og var í eigu Verslunar Snorra Jónssonar (Rögnvaldur Snorrason) á Akureyri. Sumarið 1918 fór Snorri í ferð til Jan Mayen til þess að afla rekaviðar, þar sem mikill skortur var á eldsneyti til húshitunar í lok stríðsins. Leiðangursstjóri var Gunnar Snorrason á Akureyri ásamt 8 öðrum leiðangursmönnum. Hér fyrir neðan segir lítillega frá þessari Jan Mayen ferð þeirra félaga. Frá 17 maí 1929 var Jón Jóhannesson á Siglufirði eigandi bátsins. Fékk þá nafnið Snorri SI 49. Ný vél (1929) 80 ha. Skandia vél. Snorri var talinn ónýtur og tekinn af skrá 4 febrúar árið 1964.

Hér fyrir neðan er slóðin á ferð þeirra Snorramanna til Jan Mayen eftir Freymóð Jóhannesson málara er birtist í tímaritinu Óðni árið 1922. Ansi merkileg grein hjá honum og þess virða að renna í gegn um hana.

https://timarit.is/page/2292215?iabr=on#page/n33/mode/2up
 

Snorri SI 49 á Siglufirði með fullfermi af síld. Norsk síldveiðiskip í baksýn. Ljósmynd í minni eigu.                                              Snorri EA 376

„Snorri“ heitir vélskip sem þeir Rögnvaldur og Gunnar Snorrasynir hafa látið byggja í vetur og var faðir þeirra byrjaður á því skömmu áður en hann lagðist banaleguna. Anton Jónsson hefir verið yfirsmiður. Skipið er „kútter" bygt, 35 smálestir að stærð með 36 hestafla „Avance" vél.

Norðurland. 15 júní 1918.
 

Mynd Freymóðs Jóhannessonar af Snorra á Norðvik á Jan Mayen sumarið 1918. Eldfjallið Beerenberg (Bjarnarfjall) í baksýn.          M.b. Snorri EA 376 til Jan Mayen
            eftir rekavið og öðru timbri


Snorra er hér getið vegna sérstæðrar ferðar, sem báturinn fór til Jan Mayen sumarið 1918. Einn af leiðangursmönnum var Freymóður Jóhannsson listmálari, og er hér stuðzt við frásögn hans, er hann flutti í útvarpið fyrir nokkrum árum. Þá málaði Freymóður myndina af Snorra á Norðurvík á Jan Mayen, og sést eldfjallið Beerenberg (Bjarnarfjall) í baksýn. Leiðangur þessi var farinn til öflunar á rekaviði, þar sem mikill skortur var orðinn á timbri í landinu af styrjaldarástæðum. Leiðangursstjóri var Gunnar Snorrason frá Akureyri, en aðrir í áhöfn Snorra voru: Rafn A. Sigurðsson skipstjóri, Friðrik Steinsson stýrimaður, Axel Jóhannsson og Jón Eðvaldsson vélamenn, Barði Barðason, síðar kunnur aflaskipstjóri, var kokkur. Þorvaldur Jacobsen háseti og Jóhan Svenson, sænskur maður, smiður og trjáviðarsérfræðingur leiðangursins. Farið var frá Akureyri. Fyrsta áfanga leiðarinnar sigldi Snorri í gegnum vaðandi síld, en norðvestur af Grímsey skall á þokusúld, sem hélzt alla leið til Jan Mayen. Klukkan tvö aðfaranótt 29. júlí lagðist Snorri svo á Norðurvík eftir að hafa siglt norðvestur fyrir eyna í rúma viku, eða til 6. ágúst var unnið að viðartöku á Norðurvík, Timburvík og Maríuvík. Tvö skip hittu þeir við eyna á þessum tima, gufuskipið Ludolf Eyde, sem var á hákarlaveiðum, og andarnefjubát sem Svalbard hét, bæði norsk. Enga menn hittu þeir á sjálfri eynni, en skoðuðu hýbýli fyrrverandi leiðangurs- og veiðimanna, er höfðu haft þar vetursetu. Freymóður ferðaðist nokkuð um eyna fótgandi, gekk m. a. yfir hana þvera til Rekavikur, málaði myndir safnaði grösum. Frá Jan Mayen hélt Snorri heimleiðis um miðnætti Þann 7 ágúst. Djúpt af Húnaflóa fóru norðlenzku fjöllin að koma í ljós þann 9. ágúst. Eftir viðkomu á Siglufirði kom Snorri svo til Akureyrar eftir 19 sólarhringa útivist. Þegar ferð þessi var, var Jan Mayen ónumið land, og þurfti ekkert leyfi til viðartöku. Nokkrum árum síðar öðluðust Norðmenn yfirráð yfir eynni, sem þeir hafa enn í dag.

Guðmundur Sæmundsson.
Æskan. 3 tbl. 1 mars 1973.

  • 1
Flettingar í dag: 21
Gestir í dag: 3
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852079
Samtals gestir: 62753
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 00:21:49